Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Bróðir Clifford

Frá mér til þín

- Mögnuð saga Clifford Edwards -

 

Ég fæddist árið 1945 inn í fátæka verkamannafjölskyldu. Við vorum sex systkinin, fimm stelpur og Clifford á ferðalagieinn strákur. Pabbi minn misnotaði áfengi og flestar æskuminningar mínar snúast um ótta og stöðugt hungur. Jafnt sumar sem vetur fór fjölskyldan í langan göngutúr á laugardögum og sunnudögum um það leyti sem börunum var lokað til að veraekki heima þegar pabbi kæmi heim. Ég var lagður í einelti í skóla, bæði afbörnum og fullorðnum. Ég fékk fljótt þau skilaboð að það kærði sig enginn um mig. Ég hafði mjög góða söngrödd og þegar ég var aðeins sjö ára gamall fékk ég að syngja með kirkjukórnum. Það fannst mér gott því að sunnudagarnir voru verstu dagar pabba vegna drykkju og skapvonsku. Pabbi kúgaði fjölskylduna andlega og hélt fyrir okkur vöku nótt eftir nótt langt fram undir morgun. Þegar ég var fjórtán ára hætti ég í skóla og fór að vinna viðmálmsteypu. Ég þótti ekki nógu góður til að komast á samning svo ég hætti og fór að vinna annars staðar. Ég leitaði hamingjunnar en fann hana ekki. Ég söng ennþá í kór og þegar bandaríski trúboðinn Billy Graham kom til Bretlands snemma á sjöunda áratugnum var ég beðinn um að koma með kórnum á samkomu til hans. Þetta var í fyrsta skipti sem ég heyrði fagnaðarerindið og á meðan á samkomunni stóð fór ég að gera mér grein fyrir því að Jesús væri sannarlega sonur Guðs og að hann elskaði mig. Í lok samkomunnar var fólki sem vildiClifford á Höfn í Hornafirði gera Jesú að frelsara sínum boðið upp á bæn. Ég var einn af þeim, en fljótlega eftir að ég kom heim fór ég að lifa nákvæmlega sama lífi og ég hafði alltaf gert og ákvörðun mín rann út í sandinn. Kirkjan mín hafði ekki trú fyrir ameríska trúboðanum né skilning á mikilvægi þess að fæðast á ný andlega. Presturinn minn sannfærði mig um að ég færi til Guðs. Ég hafði verið skírður sem barn og það var vitað að allir meðlimir biskupakirkjunnar færu til himna. Þegar ég var nítján ára fór ég að vinna á börum og næturklúbbum sem söngvari. Ég náði fljótlega nógu miklum vinsældum til að gera þetta að atvinnu minni og mig fór að dreyma um frægð. Ég lofaði sjálfum mér að ég myndi aldrei verða eins og pabbi, ég myndi aldrei snerta áfengi né misbjóða börnunum mínum. Eftir því sem tíminn leið varð drengurinn sem enginn kærði sig um eftirsóttur skemmtikraftur. Eftir eina skemmtunina þar sem allt flaut í kampavíni smakkaði ég áfengi í fyrsta sinn og kunni vel að meta frjálsræðið sem mér fannst vínið veita. Frá þeirri stundu varð áfengi viðamikill hluti aflífi mínu. Áður en langt um leið gat ég ekki komið fram án þess að hafa bragðað áfengi fyrst, en ég gerði mér enga grein fyrir hvílíkt hald áfengið hafði á lífi mínu. Eitt skiptið þegar ég var að syngja datt ég niður af sviðinu og gat ekki haldið áfram því að ég var ofurölvi. Á einni nóttu svo að segja varferli mínum lokið. Ég var alltaf drukkinn og engan veginn hægt að treysta mér.Ég hafði átt nóga peninga og fullt af vinum sem voru alltaf til í að skemmta sér með mér, en þegar frægðin mín og peningarnir hurfu, hvarf allt þettaClifford fólk.Áfengisvandi minn virtist valda öllum skelfingu nema sjálfum mér. Áður en langt um leið gerði ég mér grein fyrir að lífi mínu í vellystingum væri lokið. Það var að mínu mati aðeins ein leið fær og hún var sú að fara til London og reyna að byrja upp á nýtt. En það var enginn tilbúinn til að gefa mér annað tækifæri og ég varð heimilislaus. Margar nætur svaf ég á bekkjum í skemmtigörðum,undir berum himni, drakk og betlaði. Á götunni kynntist ég mörgum mönnum sem voru útigangsmenn eins og ég og höfðu misst alla von. Við eyddum öllum dögum í algjöru iðjuleysi. Í ofanálag keðjureykti ég og var að tapa heilsunni án þess að gera mér grein fyrir að ég ætti við vandamál að stríða. Stundum komu góðgerðarsamtök með mat og föt til að hjálpa okkur. Oft var þetta fólk frá kirkjum sem bauð okkur líka fyrirbæn.Ég hafði verið alinn upp í kirkju og hafði sannfært sjálfan mig um að bænin gerði ekki gagn. Þetta var löngu áður en ég áttaði mig á því að ástæðan fyrir því að bænum mínum var ekki svarað var sú að ég hafði bara aldrei beðið.

Hverju á Guð að svara ef hann er aldrei beðinn?

Eitt sinn var ég á leiðinni til Hjálpræðishersins til að fá gefin föt þegar eldri maður frá Hjálpræðishernum stoppaði mig og sagði: „Hvenær ætlar þú að snúa við blaðinu?" Undir venjulegum kringumstæðum hefði ég ausið yfir manninn fúkyrðum, en það var eitthvað við þennan mann sem olli því að ég brást ekki til varnar. Mér fannst ég skynja einhvern kærleika og umhyggju frá þessum manni sem ég hafði aldrei fundið fyrir áður. „Hver kærir sig um vonlausan mann eins og mig?" spurði ég. Eftir andartak horfði maðurinn beint í augun mér og sagði: „Ég veit um einn sem kærir sig um þig þótt þú kærir þig ekki um hann. Ég get útvegað þér pláss í afeitrun í dag." Og ég fór í afeitrunarmeðferð hjá Hjálpræðishernum. Eftir hræðilega daga afeitrunar var mér hleypt á fætur. Hjálpræðisherinn hafði margar reglur fyrir skjólstæðinga sína og ein þeirra fólst í skyldumætingu á helgistundir á morgnana. Helgistundin tók aðeins fimmtán mínútur og jafnvel þótt ég mætti og hefði gaman af sálmasöngnum þá hafði þetta enga merkingu fyrir mig. Vegna mikillar eftirspurnar eftir afeitrun stóð meðferðin aðeins í sjö daga. Eftir sjö daga fór ég á skrifstofuna til að kveðja starfsfólkið sem hafði gert svo mikið fyrir mig. Þegar þangað kom var mér boðið að vera í þrjá daga í viðbót þar sem maðurinn sem átti að koma á eftir mér hætti við. Ég þáði það með þökkum og leið ótrúlega vel.

Um kvöldið kom maður á vakt sem ég hafði ekki séð áður. Hann var mjög viðkunnanlegur og virtist hafa áhuga á skjólstæðingum sínum. Um kvöldið þegar allir voru farnir að sofa nema ég,bauð maðurinn mér tesopa. Ég þáði það og settist. Maðurinn var að lesa og í stað þess að standa upp og hita te handa mér þá las hann upphátt:

„Svoelskaði Guð heiminn að gaf son sinn eingetinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf."

Ég horfði á manninn og hugsaði með mér hvað myndi gerast næst. Að lokum fékk ég tebollann og fór að spjalla við manninn um ótal margt sem ég hafði aldrei skilið. Áður en ég fór að sofa þetta kvöld og maðurinn lauk vaktinni sinni hafði ein sál gefið frelsara sínum líf sitt.

Næstu fjögur árin fylgdi ég elskuðum frelsara mínum og þó svo að mér fyndist það stundum erfitt þá hélt ég mér frá víni. Ég varð Hjálpræðishermaður og var stoltur af að bera búninginn. Ég fór meira að segja inn á barina til að selja gömlu félögum mínum Herópið.

Árið 1980 kynntist ég konu innan Hjálpræðishersins sem ég kvæntist árið eftir. Nýgift fórum við í heimsókn til heimabæjar míns til að fagna brúðkaupinu meðal minna ættingja. Við áttum yndislega daga þar, en áður en við yfirgáfum þau fengum við óvænta kveðjugjöf, kampavínsflösku. Þó svo að ég færðist undan því að fá mér glas tók fjölskyldan ekki annað í mál en ég skálaði með þeim svo ég lyfti glasi. Áður en við fórum var ég orðinn ofurölvi og edrúmennskan orðin að engu. Hjónabandinu lauk innan tveggja ára og drengurinn sem hafði lofað sjálfum sér að verða aldrei eins og pabbi sinn var orðinn jafnvel verri. Það tók mig fjórtán ár að verða edrú aftur. Fjórtán ár á götunni og þrjátíu og þrjár innlagnir ámeðferðarstofnanir. Árið 1996 fékk ég þann úrskurð að vera með óafturkræfar heilaskemmdir og lifrarbilun. Ég átti sex mánuði ólifaða. Ég átti enga von.

Ég var að deyja

Eftir því sem vikurnar liðu versnaði mér.Ég var með stöðugan höfuðverk og fór að fá gulu. Ég hrópaði á Guð því að ég vissi að ég var að deyja án þess að eiga fullvissu um eilíft líf.

Í heimabænum mínum hittust nokkrir menn vikulega til að biðja saman. Mér var eitt sinn boðið á bænastund til þeirra og það sem kom mér á óvart var að þetta voru mikils metnir menn í samfélaginu frá mörgum kirkjudeildum.

Þó svo að ég hafi verið orðinn edrú og reynt að bera mig vel gat ég ekki horft framhjá tómleikanum í hjarta mínu. Ég hrópaði til Guðs, en svörin og kraftaverkin létu á sér standa. Mér versnaði smám saman og síðla sumars 1996 vissi ég að endalokin voru nærri. Sem útigangsmaður hafði ég séð menn deyja á götunni og ég þekkti líklyktina. En þegar ég fann þessa sömu lykt afsjálfum mér var botninum náð. Ég vissi að dauðinn yrði ekki umflúinn.

„Himneski faðir, ég hef snúið baki við þér í svo mörg ár. Viltu fyrirgefa mér jafnvel þótt ég hafi enga framtíð að bjóða. Þú mátt eiga hvert einasta andvarp sem ég á eftir. Jesús, ég trúi að þú hafir dáið fyrir mig og risið upp frá dauðum. Viltu hjálpa mér að halda heit mitt og þjóna þér. Amen."

Það gerðist þriðjudaginn 13. ágúst 1996 klukkan hálf tíu að kvöldi og þá nótt svaf ég eins og barn, í fyrsta skipti í mörg ár.

Þegar ég vaknaði næsta morgun vissi

ég að eitthvað hafði gerst. Eftir því sem leið á daginn fann ég fyrir djúpumsálarfriði og hamingju. Ég var ennþá dauðvona, en einhverra hluta vegna truflaði það mig ekki því að ég vissi að Guð hefði loksins heyrt og svarað bæn minni. Um kvöldið gat ég ekki annað en þakkað Guði fyrir þennan yndislega dag.

„Faðir, ég þakka þér fyrirfrelsisverkið. Ég veit að þú gerðir eitthvað í lífi mínu í gær. Ég lofaði að þjóna þér allan þann tíma sem ég ætti eftir og ég bið þig að sýna mér hvað þú vilt að ég geri og viltu hjálpa mér að gera þig dýrlegan og son þinn, Jesú."

Þar sem ég beið hljóður fann ég einhverja innri rödd segja mér að ná mér í landakort. Þetta var ekki rödd sem maður heyrir með eyrunum heldur innra með sér. Þó svo að þessi reynsla hefði aldrei hent mig fyrr þá þekkti ég þessa rödd og fann fyrir nærveru Heilags anda.Ég fann landabréfabók og opnaði hana af handahófi. Kortið var af Devon og Cornwall í Englandi og bæjum á því svæði.

Hvað svo, Drottinn?

Þegar ég bað þá heyrði ég þessa rödd aftur sem ég átti eftir að heyra svo miklu oftar og elska.

„Farðu og syngdu á götunum og segðu öllum sem tala við þig að ég elski þá og þrái að kynnast þeim betur."

„En Guð, ég er að deyja og það tekur margar vikur að skipuleggja þetta og safna fyrir því. Ég á enga peninga og þessi ferð mun kosta fúlgu, en ég skal treysta þér til þess að sjá mér fyrir styrk til að sinna þessu hlutverki."

Ég fór af stað áður en langt um leið og fór til þeirra staða sem Jesús leiddi mig á. Þar söng ég og sagði þeim sem á mig vildu hlusta að Jesús elskaði þá og vildi kynnast þeim betur. Margir tóku á móti Jesú sem frelsara sínum. Þrátt fyrir að eiga aðeins stutt eftir ólifað hélt ég áfram að ferðast fyrir Jesú. Það var mikil vinna og lýjandi.

Ég kom í margar kirkjur og því betur sem ég hlustaði komst ég að því að í þessu kristna landi hafði fólkið farið frá sannleikanum til að þjóna hefðinni. Margir þeirra sem trúðu á Jesú þekktu hann jafnvel ekki. Þetta fólk var KIRKJUNNAR FÓLK rétt eins og ég hafði verið sjálfur. Á sunnudögum fjölluðu ræðurnar í kirkjunum um góða siði í stað þess að fjalla um kross Krists.Fólk var í raun á leið til HELVÍTIS og það var kirkjan sem var að senda það þangað vegna undanbragða í boðuninni.

Þrátt fyrir dauðadóm minn hélt ég áfram að ferðast um, syngja og segja frá Jesú. Árið 2001 fékk ég krabbamein í hálsinn og gekkst undir erfiða skurðaðgerð. Löngu síðar var mér sagt að lífslíkur mínar hefðu verið taldar þrír mánuðir. En þrátt fyrir að hafa verið greindur með heilaskemmdir, skorpulifur og krabbamein og standa hvað eftir annað við dauðans dyr er ég heill í dag. Og svo lengi sem Jesús vill held ég áfram að ferðast um, syngja og segja frá honum.

Jesús elskar þig!

Nánari upplýsingar má fá á slóðinni

www.highwaysforjesus.com

 

Kæru bloggvinir og aðrir er lesa bloggið mitt. Fyrir ári síðan kynntist ég Bróðir Clifford á Egilsstöðum. Ég hvatti hann til að heimsækja okkur á Vopnafirði en allir sögðu honum að hann gæti alls ekki farið hingað. Vegirnir til Vopnafjarðar eru mjög brattir ef farið er yfir Hellisheiði og eins um Burstarfellsbrekkur.

Á miðvikudaginn var hringdi Clifford til mín og sagði mér að hann væri 52 kílómetra í burtu frá Vopnafirði eða á gatnamótunum á þjóðvegi 1. Ég ákvað að fara uppeftir og hitta hann en svo hringdi hann fljótlega og sagði að hann væri á leiðinni. Guð sagði honum að fara til Vopnafjarðar. Hann var eftir sig þegar hann kom til Vopnafjarðar því Burstarfellsbrekkurnar voru erfiðar fyrir hans 19 ára gömlu rútu sem er nú ekkert hönnuð fyrir íslenska fornaldarvegi. Grin

Á fimmtudag fór Clifford inní bæ og bauð fólki að koma í heimsókn í rútuna. Á föstudag og laugardag var hann í Bakkafirði og Þistilfirði að týna bláber. Á sunnudaginn heiðraði hann okkur svo með nærveru inni og tók þátt í samkomunni og var það mjög góð samverustund. Eftir samkomu bauðBróðir Clifford og börninClifford börnum í heimsókn í rútuna og sýndi þeim myndband. Um kvöldið var svo unglingunum boðið að koma í rútuna að sjá myndina "Krossinn og hnífsblaðið." Unglingarnir voru kjarklausir og létu ekki sjá sig en við nutum þá bara góðs af í staðinn.

Clifford er búinn að týna og týna bláber og búa til sultu. Í kvöld byrjuðum við að fara í hús hér á Vopnafirði og gefa fólki sultu og var okkur mjög vel tekið.

Á morgunn fer Clifford frá Vopnafirði og fer til Bakkafjarðar, Þórshöfn, Raufarhafnar, Kópaskers, Húsavík og til Akureyrar. Eftir viku verður hann í Reykjavík.

Endilega heilsið uppá hann þegar hann heimsækir staðinn ykkar.

Ég vil hvetja ykkur til að skoða heimasíðuna hans og þar er ítarlegri frásögn á ensku um lífshlaup hans. Greinin hér fyrir ofan er tekin af heimasíðunni hans og að sjálfsögðu með hans leyfi.                Rósa og Bróðir Clifford

Ég veit að Guð sendi Clifford hingað til mín og einnig til trúsystkina minna hér. Hann hefur uppörvað okkur og börnin elska hann út af lífinu. Ég var að biðja Guð um að einhver af vinum mínum myndi hringdi í mig og á sama augnabliki hringdi Clifford og var þá rétt við bæjardyrnar hjá mér. Hann ætlaði að stoppa á Egilsstöðum en okkar andlegi faðir, Guð almáttugur vildi að hann myndi halda áfram. Guð var byrjaður að undirbúa bænasvarið fyrir mig áður en ég bað Guð um að einhver af vinum mínum myndi hringja.

"Áður en þeir kalla, mun ég svara, og áður en þeir hafa orðinu sleppt, mun ég bænheyra." Jesaja 65: 24.

Í dag heimsótti Bryndís vinkona mín og trúsystir mig ásamt eiginmanni sínum. Hún er líka bloggvinkona mín. Happy Ég er búin að þekkja Bryndísi og allt hennar fólk til fjölda ára. Það var virkilega ánægjulegt að fá þau í heimsókn. Við heilsuðum uppá Bróðir Clifford og bauð hann okkur inní rútuna og svo leysti hann þau skötuhjó út með gjöfum. Við fórum á rúntinn og fórum m.a. yfir í Selárdal og sýndi ég þeim sundlaugina okkar sem er algjör Paradís. Við erum svo lánsöm að þarna er heitt vatn frá náttúrunnar hendi en við búum á köldu svæði og hitum húsin okkar upp með rafmagni. Ég fékk flotta sýniskennslu og læt ég fylgja með myndir af hjónakornunum og þegar þau voru með sýniskennslu. Bryndís og Gísli

      Sýning fyrir Rósu :-)                         Heart    InLove   Heart

Guð blessi ykkur og varðveiti.

Kær kveðja/Rósa


Móðir mín fór heim til Jesú fyrir 40 árum

Minningargrein um Stefaníu Sigurðardóttir

Fædd 22. Júlí 1925. Dáin 13. Ágúst 1968.

 

Eftir Guðbjörgu Salóme Þorsteinsdóttir

Afturelding Málgagn Hvítasunnumanna á Ísland

35. ÁRG. 1969 1.-3. TBL.

 

         

Í fábreytni sveitalífsins, og eins og það var fyrir þrjátíu til fjörutíu árum, meðan nútímahraðinn náði þangað ekki, urðu gestakomur stundum ógleymanlegar minningar, sem tímans tönn verður erfitt að vinna á.

Það var eftirminnilegur sunnudagur fyrir okkur systurnar í Vogum, þegar frændi okkar og kona hans, komu fyrst í heimsókn til okkar með litlu, fallegu stúlkuna sína.

Við átum engin lítil systkini, og enga von um að eignast þau, það var því margfaldur fögnuður fyrir okkur, er þær mæðgur fluttu til okkar litlu síðar og dvöldu af sérstökum ástæðum í sama heimili um nokkur ár. Við eignuðumst þar þá systur, sem varð okkur öllum kær frá því fyrsta og þótt árin og fjarlægðin slitu samvistir okkar, slitnaði sú taug aldrei, sem batt okkur saman, og nú þegar hún er alflutt héðan hópast minningarnar frá liðnum árum saman, með þakklæti fyrir allt til hans, sem er gjafarinn allra góðra hluta. Við söknum hennar öll sem þekktum hana en samfögum henni þó, að vera leyst frá þrengingum þessa heims og komin yfir á strönd lífsins til þess að vera með Drottni alla tíma.

Stefanía Sigurðardóttir var fædd í Reykjafirði við Ísafjarðardjúp og voru foreldrar hennar Guðmundína Þorbjörg Jónsdóttir og Sigurður Rósinkar Halldórsson  Þegar hún var 5 ára gömul hófu foreldrar hennar búskap á jörðinni Galtahrygg í sama hreppi, og átti hún þar sín æskuár.

Þegar hún var innan við tvítugt dvaldi hún tvo vetur á Ísafirði og komst þar í kynni við lifandi trúað fólk, og byrjaði að sækja samkomur Hvítasunnumanna þar á staðnum, og fékk náð til að taka á móti Jesú Kristi sem persónulegum frelsara sínum, og eignaðist þann frið og fögnuð í hjarta sitt, sem þeir einir þekkja, er reynt hafa og sem hún að vissu leyti hafði þráð frá fyrstu bernsku. Það leiddi svo af sjálfu sér að hún tók biblíulega niðurdýfingarskírn og var ein meðal þeirra sem innritaðir voru í Salemsöfnuðinn við stofnun hans. En dvöl hennar á Ísafirði var ekki mikið lengri nema þá tíma og tíma. Um nokkurra ára bil vann hún á ýmsum stöðum við sveitavinnu á sumrum en oftast á veturna í Reykjavík, en hvar sem hún var, duldi hún  ekki á hvern hún trúði.

Á þessum árum fór hún að finna fyrir sjúkdómi, er leiddi til þess að hún varð að fara utan til uppskurðar á höfði, og gekk eftir það ekki heil til skógar, og það urðu fleiri ferðirnar sem hún mátti fara til Kaupmannahafnar í sömu erindum og liggja þar á sjúkrahúsi. En á milli veikindaáfalla sinna fann hún sér starfsvið á akri Drottins, að ganga í hús og bjóða kristileg blöð og bækur. Eignaðist Afturelding þar áhugasama sölukonu. Og þeir sem sjaldan eða aldrei lögðu leið sína þangað, sem, farið var með Guðs orð fengu það heim til sín, ásamt vitnisburði um örugga trú hinnar ungu stúlku, og margir eignuðust trúan fyrirbiðjanda, þar sem hún var. Í vasabókinni hennar, þar sem bænarefnin voru skrifuð, er fjöldi nafna, sem ég get hugsað mér að hafi ekki verið á bænaskrá margra annarra.

Árið 1955 giftist Stefanía eftirlifandi manni sínum, Aðalsteini Sigurðssyni frá Vopnafirði, og fluttu þau þangað austur og byggðu upp sitt framtíðarheimili. En ekki aðeins það. – Á Vopnafirði var dálítill hópur Hvítasunnumanna og trú á vakningu lá í loftinu.

Með áhuga og dugnaði var hafist handa að byggja samkomuhús þar á staðnum svo fast kristilegt starf gæti hafist þar og munu þau hjónin ásamt fjölskyldu manns hennar hafa átt drýgstan þátt í því.

Það var Stefaníu því alveg sérstakt gleði og þakkarefni, að henni auðnaðist að sjá hið myndarlega samkonuhús vígt í ágúst 1967 og að fastur starfsmaður safnaðarins var fluttur þangað og tekinn við þjónustu þar á staðnum.

En nú var heilsa hennar á þrotum komin, æðrulaust og án þess að kvarta hafði hún borið sjúkdóm sinni nærri tvo tugi ára. Nokkru fyrir jól 1967 varð hún að fara fársjúk frá heimili sínu og leggjast á  sjúkrahús í Reykjavík, þar sem hún svo andaðist átta mánuðum síðar.

Í vitnisburði sem Stefanía skrifaði nokkrum árum eftir að hún kom til lifandi trúar segir hún: „Ég hafði ekki búist við að frelsið hefði eins mikið að gefa ungri stúlku á morgni lífsins, og raun varð á.“ Síðar í sömu grein lýsir hún tilfinningum sínum daginn eftir að hún gafst Kristi og segir: „Nú vissi ég eins vel og ég gekk þarna á götunni, að ég var eilíflega hólpin í Jesú Kristi og nafn mitt væri innritað í himnum. Þetta var óviðjafnanleg tilfinning.“ Guði sé lof! Þetta voru ekki aðeins tilfinningar heldur vissa, sem hélt í lífi og dauða. Hún vitnaði um það með lífi til hinstu stunda, hvað frelsið í Kristi hafði einnig að gefa sjúkri og deyjandi móður. Hún gat í sannleika gert orð sálmaskáldsins að sínum:

„Ég veit, minn ljúfur lifir,

Lausnarinn himnum á.

Hann ræður öllu yfir,

Einn heitir Jesús sá.

Sigrandi dauðans sanni,

Sjálfur á krossi dó.

Og mér svo aumum manni,

Eilíft líf víst til bjó.“

Það er bæn mín að börnin hennar þrjú og aðrir ástvinir, fái að reyna sannleiksgildi þessara orða, og þeim veitist einnig náð að standa stöðug allt til enda.

Guðbjörg Salóme Þorsteinsdóttir Ísafirði

 

  Heima hjá Jesú 

Nú þjakar ei lengur

hið þungbæra mein,

er þjáningu veitti svo sára.

Nú fagnarðu sigri

hvar sorg er ei nein,

í sælunnar heimi án tára.

 

Þig trúsystkinin kveðja

með trega og þökk

og trygglyndi maðurinn þinn góði.

Foreldrar, systir

koma nú klökk.

og kanna í minningasjóði.

 

Og börnin þín ungu

allt þakka svo hljóð,

er fengu í kærleik að njóta.

En betri þau munu

ei finna fjársjóð,

en foreldra trúararf hljóta.

 

Við minnumst þess ætíð,

hve ötul þú varst, að

útbreiða boðskapinn hreina.

Og landið þitt kæra, og

byggð þína barst í bæn,

náð það fengi að reyna.

 

Við kveðjum þig aðeins um örskamma stund,

því innan skamms dagurinn ljómar.

Er básúnan kallar á brúðgumans fund,

oss bergmálið þegar nú ómar.

 

Sigurlaug Kristinsdóttir

 

    Minning frá jarðarför sumarið 1968

Grein eftir Ásmund Eiríksson

Afturelding Málgagn Hvítasunnumanna á Ísland

35. ÁRG. 1969 1.-3. TBL.

 

Um miðja ágúst síðastliðinn aðstoðaði ég við jarðarför austur á Vopnafirði. Ung móðir hafðiÁsi, Palli og Rósa gengið burt af þessum heimi í lifandi trú á Drottin sinn og frelsara. Það var Stefanía Sigurðardóttir og er hennar getið á öðrum stað í blaði þessu. Eftir jarðarförina sagði eftirlifandi maður hennar, Aðalsteinn Sigurðsson, mér frá því sem ég nefni hér. Hjónin áttu þrjú börn, og eru það þau sem standa hér við kistu móður sinnar, en á túninu við heimili hinnar látnu stansaði líkfylgdin litla stund. Fjölmenn líkfylgd er lengra til vinstri, svo að hún kemur ekki fram á myndinni. En þarna tók maður hinnar látnu mynd af kistunni og börnin vildu fá að standa við kistu móður sinnar.

Það sem Aðalsteinn sagði mér, var þetta. Meðan konan hans hvíldi á líkbörunum, komu börnin hvað eftir  annað til pabba síns og sögðust ekki „vilja, að mamma þeirra yrði látin fara niður í moldina.“ Þótt hann reyndi að benda þeim á, að það væri aðeins líkami hennar, sem færi niður í moldina en sál hennar væri komin til Guðs, heim til himins, og þau virtust verða þá róleg í bili, þá sótti fljótt aftur í sama horfið. Þau komu og vildu ekki að mamma væri látin niður í moldina. Eitt sinn, er þau komu þannig, og jafnvel enn ákveðnar en áður, var eins og hvíslað væri að pabba þeirra: „Lestu fyrir þau kaflann um himininn í bókinni „Heimur í báli“, eftir Billy Graham, sem þú átt heima.“ Hann gerði þetta. Hér birti ég svo kaflann, sem hann las:

„Himinninn er meira en hugarástand eða skilyrði lífs. Hann er „fyrirbúinn“ staður, sem merkir, að hann á að vera hæfur staður til dvalar og notkunar fólki, sem hefur sætst við Guð fyrir Jesú Krist.

Þetta allt leiðir oss að þeirri ályktun, að himinninn verður eins stór og alheimurinn sjálfur. Hann verður eins undursamlegur og fagur og sjálfur Guð skaparinn getur gert hann. Allt það, sem þú þarfnast til sælu og gleði er verið að undirbúa. Sérhver þrá og sérhver löngun mun hljóta algera fullnægju.

Ein af lýsingunum á himninum finnst á síðustu blaðsíðum Biblíunnar, þar stendur: „Og ég Jóhannes sá borgina helgu, nýju Jerúsalem, stíga niður af himni frá Guði, búna sem brúði, er skartar fyrir manni sínum.“ Opinb. 21: 2. Það er ekkert meir almennt fagurt en brúður. Hugleiðið alla tilhlökkunina, umhyggjuna og undirbúning brúðarinnar. Kjóllinn hennar, hárið, hvernig hún ber sig, brosið hennar  og augljósa gleðin sameinast allt til að gera brúðkaupsstund hennar alhæsta atburði  ævi hennar. Aldrei hef ég séð óaðlaðandi brúður, og Biblían notar þessa fegurð til að lýsa með himninum. Á brúðkaupsmorgni elstu dóttur minnar átti ég einkasamtal við hana. Slíkt samband af tilhlökkun, gleði og hamingju hef ég aldrei séð áður á andliti nokkurrar konu.

Jóhannes postuli, sem leyft var að skyggnast inn í eilífðina sagði: „Og Guð mun þerra hvert tár af augum þeirra, og dauðinn mun ekki framar til vera, hið fyrra er farið. Og sá, sem í hásætinu sat, sagði: „Sjá, ég geri alla hluti nýja“ Opinb. 21: 4.-5.

Kvöld nokkurt var ung stúlka á gangi með föður sínum. Hún var mjög þögul um langan tíma. Loks spurði faðir hennar, um hvað hún væri að hugsa. „Ég var aðeins að hugsa um það,“ sagði hún, „ef himinninn með stjörnum sínum er svo fagur á ranghverfunni, hve dásamlegur hann hlýtur að vera á rétthverfunni.“

Himinninn verður sú fullkomnun, sem vér höfum alltaf þráð. Allir þeir hlutir, sem gera jörðina óaðlaðandi og sorglega, verða ekki á himni. Það verður engin nótt, enginn dauði, enginn sjúkdómur, engin sorg, engin tár, engin fáfræði, engin vonbrigði, engin stríð. Hann verður fullur af heilbrigði, þrótti, lífsmagni, þekkingu, hamingju, tilbeiðslu, kærleika og fullkomnun....  

Þegar vér höfum þjappað saman lýsingum Biblíunnar á himnum í samsetta mynd, þá sjáum ve´r að hún er af nýjum himni og nýrri jörð, krýndum með borg, „sem Guð er höfundur og byggingarmeistari að.“ Í Opinberunarbókinni lýsir Jóhannes henni þannig, að hún hefur tré, vatnslindir, ávexti, skikkjur, pálma, hljómlist, kórónur, dýra steina, gull, ljós, regnbogaliti, vatn, þekking, kærleika, heilagleika og nærveru Guðs og sonar hans. Allt þetta og miklu meira verður himinninn.

Páll postuli ritaði: „Föðurland vort er á himni, og frá himni væntum vér, að frelsari vor komi, Drottinn Jesús Kristur.“ Fil. 3:20. Biblían kennir, að við kristnir menn erum ekki borgarar hér. Vér erum gestir, útlendingar, pílagrímar og ferðamenn á jörðinni. „Vér höfum hér ekki borg, sem stendur.“ Hebr. 13: 14. Við þráum betra ættland, himininn.“

Þetta var kaflinn sem faðir litlu barnanna las fyrir þau. Og hvernig verkaði þetta á þau? Þannig að þau urðu allt önnur. Þegar þau skildu og trúðu, að í þessa fegurð var mamma þeirra komin, sál hennar, hún sjálf, hennar eigin persónuleiki, þá fengu þau gleði sína aftur og allt hið dapra var farið. Eftir þessa stund töluðu þau aldrei um að þau „vildu ekki að mamma færi niður í moldina.“  Nú skildu þau að hún var komin heim til himins, og þar leið henni eins vel og himinninn  er fagur.

Hér má bæta við, að bókin „Heimur í báli“, sem faðirinn las þetta úr, er full af sannleika, ekki aðeins um himininn, heldur flestu sem lýtur að eilífðarmálunum og kemur hverjum manni við.

Ásmundur Eiríksson

Kæru bloggvinir og allir hinir sem lesa þessar greinar. Í morgunn um níuleytið, fyrir 40 árum dó móður mín. Pabbi var að vinna við að mála olíutank hér rétt hjá heimilinu okkar og fann eins og það slitnaði strengur í hjartanu. Það var ekki hægt að hringja til Vopnafjarðar fyrr en um þrjúleytið vegna bilunar. Kona sem vann á Símstöðinni hérna hrindi og lét pabba vita og rétt á eftir hringdu Pála systir pabba og maðurinn hennar Ásmundur. Eldri bróðir minn var hjá pabba þegar hann fékk tilkynninguna um að mamma væri dáin og þeir drifu sig út í sveit að ná í hinn bróðir minn. Pabbi hringdi vestur í Önundarfjörð og vildi tala við mig en ég var ekki nærri símanum. Starfsfólkið tók þá ákvörðun að bíða með að segja mér frá þessu þangað til við kæmum til Reykjavíkur tveimur dögum seinna. Sú áætlun stóðs ekki því jafnaldra mín sagði mér að um morguninn hefði eldri krökkunum verið sagt leyndarmál um mig. Ég að sjálfsögðu var spennt og hélt að það ætti að gera eitthvað spennandi og nöldraði þangað til ég fékk að vita leyndarmálið!

Árið 1966 í desember vorum við pabbi í Reykjavík. Móðir mín hafði verið í Danmörku vegna uppskurðar og mátti fara heim til Vopnafjarðar. Ég var með í þessari ferð því ég átti að hitta lækni vegna veikinda minna. Pabbi var beðinn að koma í viðtal á Landspítalanum og var honum þá sagt að það væri ekkert hægt að gera fyrir móður mína. Sjúkdómurinn var illvígur. Pabba var bannað að segja tengdaforeldrum sínum, mákonu og okkur börnunum frá  því að mamma myndi ekki eiga langt eftir ólifað. Pabbi þurfti að bera þennan harm einn í 1 og hálft ár.

Í dag fékk ég óvænt gest frá Englandi sem var algjör himnasending fyrir mig. Þess vegna tafðist að setja þessa grein inná netið. Ég mun segja ykkur frá þessum frábæra Guðs þjóni í næstu færslu. Mun þá einnig setja inn vitnisburðinn hans, myndir og slóðina á heimasíðuna hans. 

Guð veri með ykkur.

Kær kveðja/Rósa

P.s. Sömu myndir hafðar núna og voru notaðar þegar greinarnar voru upphaflega birtar í Aftureldingu nema að pabbi fékk að vera með núna.  Smile Rósa


Ég kom til Jesú


Christian Glitter by www.christianglitter.com

 

Ég kom til Jesú

Árið 1972 var ég stödd á þessum degi 5. ágúst í Kirkjulækjarkoti í Fljótshlíð í Rangárvallarsýslu. Þar var haldið kristilegt mót á vegum Hvítasunnukirkjunnar. Það var algjör tilviljun að ég fór á þetta mót. Forsagan var sú að ég átti að mæta í lok júlí til læknis í Reykjavík vegna flogaveiki en hann hafði gleymt að afboða tímann og var kominn í sumarfrí. Sem betur fer fékk ég tíma hjá  öðrum lækni  en hann gat ekki hitt mig fyrr en eftir Verslunarmannahelgi.

Ég átti foreldra sem höfðu tekið þá ákvörðun að fylgja Jesú Kristi sem persónulegum frelsara og vini. Ég sótti líka sunnudagaskólann. Okkur var kennt um Jesú Krist og lausnarverkið.   Þegar ég varð unglingur vildi ég ekkert með  Guð hafa nema þegar mér hentaði.

Ég fór út á kvöldin með unglingunum og ég prufaði að reykja en sem betur fer var það aðeins fikt og varð ekki fíkn.

Ég var oft mjög óhamingjusöm vegna veikinda minna og einnig vegna móðurmissis. Veikindin höfðum mjög slæm áhrif á mig og var ég oft mjög trekkt og hrædd. Því miður gengu mannleg samskipti illa, fólk þekkti ekki þennan sjúkdóm frekar en aðra á þessum tíma og mætti ég þar af leiðandi skilningsleysi.  Ég man að ég hótaði stundum að taka mitt líf vegna óhamingju minnar en sem betur fer risti það ekki það djúpt að ég reyndi það.

Oft var ég með slæma samvisku og þá bað ég pabba að biðja með mér áður en ég fór að sofa. Ég vissi að ég var ekki búin að gera upp við Guð og ég vissi að ég var ekki tilbúin ef kallið kæmi.

Á meðan ég beið eftir viðtali við læknir fór ég á samkomu í Hvítasunnukirkjuna Fíladelfíu Hátúni 2 í Reykjavík. Þar hitti ég forstöðumanninn, Einar J. Gíslason. Hann bauð mér á kristilegt mót sem yrði í Kirkjulækjarkoti um Verslunarmannahelgina. Ég var hálf afundin yfir því að hann skyldi láta sér detta í hug að ég hefði áhuga fyrir að fara á slíkt mót. Ég afþakkaði og fór heim til móðursystur minnar. Hún tilkynnti mér að fjölskyldan færi út úr bænum um helgina og bað hún mig  vegna sjúkdóms míns, að halda til hjá öðrum á meðan. Ég ákvað þá í skyndi að fara á Kotmót en ég skyldi passa mig að frelsast ekki. Með þessu hugarfari fór ég.

Ég stóð við það að passa uppá að gera enga vitleysu. En svo var það á laugardagskvöld að boðskapurinn var svo sterkur og hann höfðaði til mín. Ég vissi auðvitað að þetta var allt rétt en ég vildi samt ekki frelsast. Ég heyrði tvær raddir innra með mér. Önnur röddin sagði mér að frelsast ekki því þá mætti ég ekki gera hitt og þetta. „Um þrítugt getur þú frelsast, það er nógur tími þá áður en þú deyrð. Þá ertu búin að njóta unglingsára þinna og búin að skemmta þér eins og aðrir unglingar gera."  Hin röddin sagði: „Þú átt að frelsast núna." Mér fannst líka sagt við mig að þetta væri síðasta tækifærið mitt. Ég var nefnilega búin að fá nokkur tækifæri áður.  Lengi, lengi var ég í baráttu um hvað gera skyldi. Ég tók loksins ákvörðun, stóð upp og gekk gegnum salinn. Ég kraup við fremsta bekk og bað Drottinn Jesú að frelsa mig frá syndum mínum og það gerði hann.

Daginn eftir héldu samkomurnar áfram. Ein þeirra var kl. 14. Fór ég á þá samkomu. Í lok samkomunnar var fólki boðið fram til fyrirbænar vegna veikinda. Ég ákvað að ég skyldi fara fram til fyrirbænar. Öldungar safnaðarins báðu fyrir mér. Ég fann straum fara um mig frá höfði ofan í tær. Eftir það fékk ég ekki krampakast nema einu sinni í svefni þegar ég var  17 ára. Þá læknaðist ég fullkomlega. Ég efaðist aldrei um lækningu mína, þó hún kæmi ekki öll á sama tíma vegna reynslu minnar á samkomunni og einnig vegna þess að ég trúði í einlægni á lækningarmátt Jesú Krists.

 

Mesta hamingja lífsins er að gefast Jesú Kristi.

„Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða." Matt. 7: 7.-8.

„En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki." Matt. 6: 33.

„Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld." Matt. 11: 28.

Þú ert mikils virði í augum Guðs.

„Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf. Guð sendi ekki soninn í heiminn til að dæma heiminn, heldur að heimurinn skyldi frelsast fyrir hann." Jóh. 3: 16.-17.

„Trú þú á Jesú, og þú munt verða hólpinn og heimili þitt." Post. 16: 31.

„Hann bar sjálfur syndir vorar á líkama sínum upp á tréð, til þess að vér skyldum deyja frá syndunum og lifa réttlætinu. Fyrir hans benjar eruð þér læknaðir."  1. Pét. 2: 24.

Ég kom til Jesú aðeins 13 ára gömul. Þrátt fyrir ungan aldur var ég óhamingjusöm, hlaðin erfiðleikum og ég var veik. Ég hélt að þetta væru fjötrar en eftir að ég frelsaðist kom annað í ljós. Ég var ánægð með þessa ákvörðun og ég fann ekki fyrir þeim boðum og bönnum sem að mér var hvíslað þegar ég barðist gegn kalli Jesú Krists að fylgja honum. Jesús er mér hæli og styrkur og örugg hjálp í nauðum. Ég veit ekki hvernig ég hefði komist í gegnum lífið ef ég hefði ekki átt Jesú. Ég vil ekki hugsa út í það, hvernig staðan mín hefði verið ef ég ætti ekki Jesú. Þá væri ég alveg örugglega ver stödd en í dag og kannski ekki lífs?

Kæri lesandi:

Ekki bíða með að taka við Jesú sem persónulegum frelsara eins og ég gerði.

Þú munt ekki sjá eftir því.

Drottinn blessi þig.

 

Rósa Aðalsteinsdóttir

Ási Vopnafirði.


Frásögn Rósu

Glitter Graphics

Rose Glitter Graphics

Frásögn Rósu

Fyrri hluti

Skrifað fyrir 10 árum:

Þegar ég var aðeins tveggja ára byrjuðu erfiðleikar í lífi mínu. Ég var með flogaveiki (krampaköst) Fimm ára datt ég í sjóinn og munaði mjög litlu að ég drukknaði. Eftir það urðu veikindi mín miklu erfiðari. Ég var mjög hrædd við veikindin og fór þetta mjög í skapið á mér. Var ég þar af leiðandi oft mjög leiðinleg í samskiptum.  

Því miður hafði engin skilning á þessum sjúkdóm þegar ég var barn og leið ég oft fyrir það og foreldrar mínir líka. Okkur var ekki sagt að lyfin sem ég þurfti að taka væru lystaukandi en ég var feitlagin sem barn og er enn. Kannski hefðum við  getað barist gegn þessu með þá vitneskju í farteskinu? Kannski ekki? Lengi býr af fyrstu gerð og það á svo sannarlega við í mínu tilviki.

Móðir mín var mjög veik á þessum árum og föður mínum ráðlagt að fá ráðskonu til að sjá um heimilið. Hún var hjá okkur í 6 og ½  vetur. Á sumrin fór hún í Önundarfjörð. Þar var rekið sumarheimili fyrir börn á kristilegum grunni. Ég fór með henni þangað þrisvar sinnum. Árið 1967 í desember fór mamma á Landspítalann í hinsta sinn. Ég grét mikið. Mér fannst alveg ömurlegt að hún væri að fara og jólin að koma. Ég mátti alls ekki við neinu ójafnvægi. Þá vissu allir hvernig næsta nótt yrði, andvökunótt fyrir pabba. Þess vegna því miður var svo erfitt að taka á ýmsu sem annars hefði verið gert. Sárnar mér oft fyrir hönd foreldra minna þegar fólk hefur sagt: "Ef ég hefði átt þig hefði ég rassskellt þig" og svo framvegis. Þetta var ekki alveg svona auðvelt eins og fólk hélt.

Ég sá mömmu aðeins einu sinni eftir þetta þegar ég var á leiðinni vestur í júní 1968. Ég man eftir kveðjustundinni eins og hún hefði gerst í gær. Ég ætlaði ekki að getað slitið mig frá móður minni. Í ágúst taldi ég dagana þangað til við færum til Reykjavíkur því þá ætlaði ég að heimsækja mömmu. Tveimur dögum áður en við fórum til Reykjavíkur dó mamma. Pabbi hringdi en sú ákvörðun var tekin af starfsfólki barnaheimilisins að segja mér ekki frá þessu. Eldri krökkunum var sagt frá þessu og það endaði þannig að ein stúlkan sagði mér frá þessu uppi í hlíðinni fyrir ofan bæinn. Þetta var daginn áður en við fórum til Reykjavíkur. Ég vildi ekki trúa þessu og við fórum heim að bænum. Ég spurði og því miður var svarið já. Ég hljóp upp í tóftina fyrir ofan bæinn. Þar var ég lengi ein og grét. Vinur minn Jonni kom öðru hvoru til mín en ég rak hann í burtu. Enginn fullorðinn sinnti um mig.

Þegar við fórum til Reykjavíkur þurfti ég að bíða og bíða eftir föður mínum og bræðrum. Ég var orðin mjög óþolinmóð. Mig vantaði fjölskyldu mína til að vera með. Ég átti mjög erfiða tíma. Ég bað föður minn að setja mömmu mína ekki ofan í moldina. Vegna erfiðleika minna virtist ég eiga auðvelt með að fá önnur börn upp á móti mér. Margur leikurinn endaði með þessum orðum " Mikið er gott að mamma þín er dauð"

Áður en mamma dó gekk mér þokkalega í skóla en í nokkur ár á eftir þá gat ég ekki lært. Ég var eirðarlaus og vansæl. Ég þorði ekki að fara að sofa á kvöldin fyrr en pabbi var búin að biðja með mér. Ég vissi réttu leiðina en ég þráaðist við. Að verða fjórtán ára tók ég á móti Jesú og þá fór að ganga betur í skólanum. Skólastjórinn minn sagði við Pétur Pétursson frænda sinn og Kristínu Jónsdóttur. "Rósa fór burtu í sumar. Þegar hún kom til baka var hún svo mikið breytt. Hún fór að hafa áhuga fyrir að læra. Hvað kom fyrir Rósu?"  Svarið var: "Hún mætti Jesú Kristi sem frelsara sínum. Hún frelsaðist."

Jesús læknaði mig af krampaköstum/flogaveiki daginn eftir að ég frelsaðist. En erfiðleikarnir voru ekki búnir. Ég var með of háan blóðþrýsting, fékk þursabit og sinaskeiðabólgu löngu fyrir tvítugt. Ég reyndi að takast á við nám sem mistókst. Það var ekkert skrítið. Sjálfsálitið var í núlli. Ég hafði óbeit á sjálfri mér. Ég hef líka þjáðst af mígreni, vefjagigt, vöðvabólgu og ýmsu öðru. Læknirinn segir oft:" Minnkaður líkamsþyngdina". Stundum hefur það tekist en farið aftur í sama farið og versnað með árunum. Í mörg ár hef ég ekki einu sinni reynt. Ég bara get það ekki. Það vantar kjark og mér hefur liðið svo illa andlega. Ég hef átt erfiðar stundir í vinnunni. Ég hef verið áreitt kynferðislega. Þá lent ég í miklu einelti og var gert lítið úr mér vegna þess að ég á ekki fjölskyldu. Gallinn við mig er að ég fer í vörn, segi margt og geri margt sem mér hefur liðið illa yfir. Samviskan hefur plagað mig oft. Ég hef oft spurt sjálfa mig af hverju bregst ég svona við. Af hverju svara ég svona og svo framvegis. Ég veit að þetta er rangt. Þegar ég hef beðið fólk að láta mig í friði þá segir það: "Þú býður upp á þetta". Ég hef verið viðkvæm og fólk finnur það og er ég tekin fyrir þar af leiðandi

Undanfarin ár hef ég verið óvenju viðkvæm og átt mjög erfitt þegar ég hef glímt við fjölskyldu- og vinamissi. Ég forðast vini mína sem hafa misst fjölskyldumeðlim. Ég hef bara ekki treyst mér til að hitta þá.

Í ágúst 1996 fór ég á Kotmót sem er kristilegt mót. Ég ákvað að vera dugleg og leita mér hjálpar og fór nokkrum sinnum fram til fyrirbænar. Unnur Ólafsdóttir bað fyrir mér. Þegar við höfðum beðið í svolítinn tíma þá spurði hún mig: "Eigum við að biðja um eitthvað sérstakt?" Ég svaraði : Ég bara veit það ekki". Unnur fór þá aftur að biðja fyrir mér og þá gaf Drottinn henni orð til mín. "Mamma þín". Þá losnaði um stíflu og tárin runnu niður vangana. Ég sagði henni að þessi sorg hefði elt mig allt lífið.

Ég trúi því og finn nú þegar að Drottinn er að hjálpa mér að gera við brotna kerið mitt. Oft hefur fólk undrast yfir því að ég hjálpaði ekki við starfið í Hvítasunnukirkjunni. Hér er skýringin. Ég hef bara ekki getað það. Fólk trúir ekki að ég hafi verið svona beygð. Ég hlýt að vera úrvals leikari fyrst fólki duldist þetta. Ég er ekki beisk út í neinn nema sjálfa mig. Nú stend ég frammi fyrir því að ég hef enga menntun. Ég stunda vinnu sem er alltof erfið fyrir mig. Ég hef ekki getað barist við líkamlega sjúkdóma mína vegna þess að mér hefur liðið svo illa andlega. Ég hef oft hugsað um það í gegnum árin: "Hvers vegna fékk ég ekki að deyja þegar ég var fimm ára?" Þá hefði ég losnað við alla þessa erfiðleika.

Nú er ég hér og hef ákveðið að skrifa þetta á blað, sjálfri mér til hjálpar og ef til vill öðrum sem glíma við sjálfan sig eins og ég og vita ekki ennþá hvar rótin af vandamálinu liggur.

Að lokum: Ég er þakklát að hafa fengið þá náð að eignast Jesú. Ég hefði aldrei komist í gegnum þetta nema að ég átti Jesú. Ég er þakklát fyrir föður minn Aðalstein sem oft átti andvökunætur mín vegna og kvartaði ekki. Ég vildi óska að fleiri ættu góða foreldra eins og ég. Ég vildi óska þess að mamma hefði verið lengur hjá mér en það var ekki hægt. Ég er þakklát fyrir alla vini mína sem þóttu vænt um mig og báðu fyrir mér.

Vopnafirði 24. júní 1998.

Rósa Aðalsteinsdóttir

 

Frásögn Rósu

Viðbót

Rifjað upp:

Ég vann og vann erfiðisvinnu í gegnum árin og ég viðurkenni að mér fannst oft gaman að spreyta mig. Ég var oft illa haldin af verkjum en ég þrjóskaðist áfram. Ég er ein af þeim sem kann ekki á bremsurnar og viðurkenni að ég ofgerði mér.

Eins mætti ég miklum erfiðleikum á vinnustað. Þegar ég fór að vinna sem unglingur, var eins og strákarnir fyndu það á sér  að þarna var á ferðinni einstaklingur sem þoldi ekki stríðni og því var ég tekin fyrir af þeim. Í mörg ár fór ég í vinnuna, kvíðin  og með spennta vöðva. Ég var alltaf í feluleik, vildi ekki að neinn sæi að ég var viðkvæm. Ég lenti í einelti, grófri kynferðislegri áreitni og var þetta oft daglegur viðburður.

Ég kenndi mér um þetta allt vegna þess að ég fór í vörn og var virkilega dónaleg og orðljót í þessum viðbjóðslega feluleik mínum. Ég upplifði mig líka mjög skítuga. Þegar ég kom heim var ósjaldan sem ég fór afsíðis og grét og grét vegna þess að ég var svo ósátt, mest við sjálfa mig og minn hlut í þessu. Ég öfundaði svo marga af vinnufélögum mínum. Þær voru svo snjallar að losa sig við þessa stráka og man ég sérstaklega eftir aðferð einnar sem gerði það að verkum að hún fékk algjöran frið eftir þetta. Ég var alltaf að reyna svona aðferðir en mistókst.

Einn af sérfræðingunum mínum sem ég gekk til vildi að ég færi út af vinnumarkaðinum vegna þess að ég var mjög þjáð en ég hló innra með mér af honum og ég var svo viss um að þetta myndi lagast en það fór á hinn veginn. Læknirinn  sótti um örorku fyrir mig og hætti ég að vinna í desember 2003. Hann hafði rétt fyrir sér og ég rangt. Ég gekk út af vinnustaðnum án þess að vera kvödd af verkstjórunum mínum. Engar góðar óskir en ég var að fara út í mikla óvissu. Ég var samt afskaplega fegin að yfirgefa þennan vinnustað og hef ekki farið þangað  síðan ég hætti. Ég bara hef ekki löngun til þess og þegar ég get farið aftur út á vinnumarkaðinn ætla ég að finna mér aðra vinnu.

Staðan í dag:

Sem betur fer hefur margt lagast á þessum árum. Áður en ég þurfti að fara af vinnumarkaðinum, var ég byrjuð í fjarnámi og hefur það gefið mér mikið í bataferlinum mínum. Ég hef ekki getað stundað námið af eins miklum krafti eins og margar vinkonur mínar því ég hef þurft að fara nokkrum sinnum í endurhæfingu samfara náminu. Það eru nokkrar annir sem ég hef ekkert verið í fjarnámi sem fer mest fram á netinu og hef ég ekki aðgang að netinu  þegar ég er fjarri heimilinu mínu. Ég finn að þetta smá lagast og er sátt þótt ferlið sé á hraða snigilsins.

Ég er alveg sannfærð um að allir þessir erfiðleikar á vinnustað samfara erfiðri vinnu og slæmum vinnuaðstæðum stuðluðu að  veikindum mínum. Þegar ég sagði gigtlækni sögu mína þá sagði hann: „Þeir sem eiga forsögu eins og þú, þeim er hættara við að fá vefjagigt en öðrum."

Þessi skrif eru ekki til að biðja fólk um vorkunn. Von mín er að þessi skrif geti hjálpað einhverjum sem eru að glíma við erfiðleika og vita ekki um útgönguleið frekar en ég, í öll þessi ár þegar ég var að vinna hjá fiskvinnslufyrirtækinu hér á Vopnafirði. Nú vona ég að þeir sem eru gerendur í dag, í svona málum, fái hjálp sín vegna, sem myndi bjarga mörgum fórnarlömbum þeirra. Ég bið alla þá sem ég kom illa fram við á þessum vinnustað fyrirgefningar og vona til Guðs að engin hafi orðið fyrir tjóni vegna mín.

Vopnafirði 31. júlí 2008.

Rósa Aðalsteinsdóttir

 

Um Verslunarmannahelgina er "Kotmót" sem byrjar í kvöld. Kotmót er kristilegt mót og er haldið í Kirkjulækjarkoti í Fljótshlíð í Rangárvallarsýslu. Þar er einnig haldið kristilegt Barnamót nú um helgina. Nánari upplýsingar: http://www.kotid.is/ 

Þessi skrif eru ekki til að biðja fólk um vorkunn


"Hver er þá náungi minn?"

 

Guð gefi ykkur öllum góðan dag.

Mörg okkar hafa áhyggjur af forráðamönnum okkar sem taka ýmsar ákvarðanir sem eru ekki í kristilegum kærleika. Mörg okkar eru mjög ósátt með ákvörðun Útlendingastofnunnar þegar ákveðið var að vísa Paul Ramses Odour úr landi sl. fimmtudag.

Persónulega finnst mér þetta vera ómannúðleg ákvörðun. Haukur Guðmundsson,  sem er settur forstjóri,Útlendingastofnunnar  vissi alveg hvað beið Paul Ramses ef hann yrði sendur áfram frá Ítalíu til Kenýa.  Í Kenýa eru miklar óeirðir og enga miskunn að finna þar fyrir þá sem ekki hafa sömu skoðun og Ógnarstjórnin. Fólk er tekið af lífi eingöngu vegna þess að þeir eru ekki með sömu skoðun og  Ógnarstjórnin.

Björn Bjarnason vissi þetta allt líka þó hann reyni nú  ljóst og leynt að setja alla ábyrgð á Hauk Guðmundsson sem er starfsmaður Björns Bjarnasonar. Ingibjörg Sólrún hefur bjargað pólitískum ferli Björns Bjarnasonar með því að hafa samband við aðila á Ítalíu um meðferð Pauls Ramses. Persónulega hefði ég óskað að hún hefði  tekið þá ákvörðun að Paul Ramses yrði sendur hingað heim til Rosemary konu hans og sonar. Málið yrði  svo afgreitt hér fljótt og vel eins og með tengdadóttur Jónínu Bjartmars.

 

Spurningar til Björns  og Hauks.

Var rekin rasísk stefna í málefnum útlendinga um miðja sl. öld?

Lögðu íslensk stjórnvöld fram þá kröfu til bandaríska hersins að hingað kæmu engir svertingjar?

Getur verið að það sé ennþá eimur af þessari rasísku stefnu?

Þarf Haukur ekki að bera undir þig Björn ákvarðanir eins og að vísa fólki úr landi og í þessu tilfelli út í opinn dauðann?

 

Gullkorn um kærleikann og  Guðsorð  fyrir Björn og Hauk.

 

Án mannlegs samfélag getur enginn maður þrifist." Dalai Lama (F. 1935)

„Svo lengi sem lítil börn þjást, ríkir enginn kærleikur í heiminum." Isadora Duncan (1878 -1927)

 

Hvað á ég að gjöra?

Lögvitringur nokkur sté fram, vildi freista hans og mælti: "Meistari, hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?"

Jesús sagði við hann: "Hvað er ritað í lögmálinu? Hvernig lest þú?"

Hann svaraði: "Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum, og náunga þinn eins og sjálfan þig."

Jesús sagði við hann: "Þú svaraðir rétt. Gjör þú þetta, og þú munt lifa."

En hann vildi réttlæta sjálfan sig og sagði við Jesú: "Hver er þá náungi minn?"

Því svaraði Jesús svo: "Maður nokkur fór frá Jerúsalem ofan til Jeríkó og féll í hendur ræningjum. Þeir flettu hann klæðum og börðu hann, hurfu brott síðan og létu hann eftir dauðvona. Svo vildi til, að prestur nokkur fór ofan sama veg og sá manninn, en sveigði fram hjá. Eins kom og levíti þar að, sá hann og sveigði fram hjá. En Samverji nokkur, er var á ferð, kom að honum, og er hann sá hann, kenndi hann í brjósti um hann, gekk til hans, batt um sár hans og hellti í þau viðsmjöri og víni. Og hann setti hann á sinn eigin eyk, flutti hann til gistihúss og lét sér annt um hann. Daginn eftir tók hann upp tvo denara, fékk gestgjafanum og mælti: ,Lát þér annt um hann og það sem þú kostar meiru til, skal ég borga þér, þegar ég kem aftur.' Hver þessara þriggja sýnist þér hafa reynst náungi þeim manni, sem féll í hendur ræningjum?" Hann mælti: "Sá sem miskunnarverkið gjörði á honum." Jesús sagði þá við hann: "Far þú og gjör hið sama."

 

Far þú Björn Bjarnason og gjör hið sama.

Far þú Haukur Guðmundsson og gjör hið sama.

 

Megi almáttugur Guð miskunna ykkur og fyrirgefa.

Rósa Aðalsteinsdóttir

Vopnafirði.

 

Endilega kíkið á bloggsíðuna hennar Öddu bloggvinkonu minnar, sem fjallar um sama mál:

http://laugatun.blog.is "Paul Ramses í Kastljósi: Sannfærður um að hann verði drepinn í Kenya"


mbl.is Óvissuástand hjá Paul Ramses
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvö bréf sem send hafa verið til allra Alþingismanna

Kæru landsmenn.

Ég hef ekki skrifað um fréttir fyrr en nú. Oft var þörf en nú er nauðsyn. Þessi tvö bréf sem eru hér fyrir neðan voru send eftir miðnætti í nótt til allra Alþingismanna sem ekki hafa svarað þessum bréfum. Kannski koma þau inná bloggsíðuna og svara.

Megi almátugur Guð miskunna ráðamönnum þjóðarinnar og okkur öllum sem þurfum að lúta þeim.

Baráttukveðjur fyrir réttlætinu.

Rósa Aðalsteinsdóttir

 

Vopnafirði 3. Júlí 2008.

Sælt veri fólkið.

Ég vil höfða til mannúðar ykkar og biðja ykkur að gera það sem þið getið til að veita Paul Ramses Oduor dvalarleyfi á Íslandi, og fá hann sendan hingað aftur. Hann leitaði skjóls hér frá yfirvofandi dauða í heimalandi sínu, Kenýa. Hann er á aftökulista ríkisstjórnar þar, og hefur þegar verið ólöglega handtekinn og pyntaður af lögreglunni þar.

Að senda málið til afgreiðslu í öðru landi, vegna þess að það er heimilt, þegar kona hans og nýfætt barn verða eftir hér, er í besta falli ómannúðlegt. Þegar það bætist við að Útlendingastofnun og íslenskum stjórnvöldum hefði átt að vera fullkunnugt um að hann væri í lífshættu yrði hann sendur til baka er ekki hægt að kalla framgang íslenskra stjórnvalda í þessu máli annað en grimmilegan.

Íslensk þjóð man alveg þegar tengdadóttir Jónínu Bjartmars fékk ríkisborgararéttindi en hún hafði átt heima hér í 15. mánuði og var umsókn hennar nýleg þegar hún var tekin til skoðunar og afgreidd. Ég held að hún hafi alls ekki verið hér vegna þess að hún var flóttamaður og ef hún fengi ekki ríkisborgarrétt biði hennar ekkert nema dauðadómur.

Endurtökum ekki það sem gerðist hér á fjórða og fimmta áratug sl. aldar  er Gyðingum var vísað úr landi og sendir til baka til Þýskalands í Útrýmingarbúðir Nasista. Það var og er svartur blettur sem verður því miður ekki afmáður. Sýnum kristilegan kærleika og sendum alls ekki fólk í opinn dauðann.

„Minnist bandingjanna, sem væruð þér sambandingjar þeirra. Minnist þeirra er illt líða, þar sem þér sjálfir eruð einnig með líkama." Hebr. 13: 3.

Mér og mörgum öðrum blöskrar.

Með innilegri von um skjót viðbrögð.

Megi almáttugur Guð miskunna ykkur.

Rósa Aðalsteinsdóttir

Ási, Hafnarbyggð 37; 690 Vopnafirði.

 

Vopnafirði 4. Júlí 2008

Sælt veri fólkið.

Ég fékk þetta bréf sent í pósti í kvöld. (Sjá neðar) Er þetta rétt? Hvert erum við að stefna? Er fólk frá Afríku í öðrum klassa en fólk frá Palestínu?

Hér er Múslímum hampað sem á eftir að hafa hræðilegar afleiðingar fyrir okkur öll. Það verður að skoða hvort fólkið er öfga Islam eða ekki.

Ég var svo ánægð með Ingibjörgu Sólrúnu þegar hún heimsótti Palestínu og Ísrael. Þar heimsótti hún fólk beggja vegna landamæranna og ég man eftir að hún kyssti grátandi konu í Ísrael sem sat inní húsinu sínu sem hafði orðið fyrir árás Palestínumanna. Því miður hefur Ingibjörg Sólrún breyst og hún hefur tekið afstöðu með Palestínumönnum. Hamasmenn stjórna Palestínu en Hamas er hryðjuverkasamtök. Þeir hafa á stefnuskrá sinni að útrýma Gyðingum. Getum við verið þekkt fyrir að mylja undir hryðjuverkasamtök?? Sent þeim peninga sem enginn fylgdi eftir og kannski voru peningarnir notaðir til vopnakaupa??

Ég vona til Guðs að þetta bréf sé ekki rétt en ef svo er þá segi ég nú ekkert annað en megi almáttugur Guð fyrirgefa ykkur.

Baráttukveðjur fyrir réttlæti í kristnu landi.

Rósa Aðalsteinsdóttir

Ási, Hafnarbyggð 37; 690 Vopnafirði.

 

Ég fékk þetta bréf sent í pósti í kvöld. Er þetta rétt?????

„Á Íslandi er rekin rasísk stefna í málefnum útlendinga og hefur verið allt frá því stjórnvöld lögðu fram þá einu kröfu til bandaríska hersins að hingað kæmu engir svertingjar. Sem stóð fram á 8. áratuginn, þegar málið varð skandall í bandarískum fjölmiðlum. Valur Ingimundarson hefur rakið þetta.

Umsóknir fólks frá Afríku um ferðamannaleyfi til Íslands daga uppi í kerfinu, en í dag vísa yfirvöld á skandinavísku sendiráðin í viðkomandi löndum, sem taki við umsóknunum, og afgreiðslu Schengen. Ábyrgðin er out-sourcuð, eins og virðist stefna nýrrar aldar.

Allt um það, geymum stærra samhengi - er hægt að gera eitthvað til að þessi maður deyi ekki? Til að við drepum hann ekki?"

 Undirskriftarlisti: http://www.thepetitionsite.com/1/PaulRamses

Kíkið á bloggsíður bloggvina minna:

Guðsteinn: http://zeriaph.blog.is/blog/zeriaph/entry/583560/#comments

Linda: http://vonin.blog.is/blog/vonin/entry/583857/#comments

 


mbl.is Undirskriftarlisti til stuðnings Ramses
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð breytni og Guðs verk

 

Góð breytni og Guðs verk

Smárit, saman tekið af Ólafi Tryggvasyni.


Christian Glitter by www.christianglitter.com


Menn segja stundum: „Ef ég geri eins vel og ég get mun þá Guð ekki í miskunn sinni taka með velþóknun á móti mér þess vegna?"  Og: „Ég trúi, að Guð líti meir á að menn breyti vel og geri góð verk, heldur en það, hverju menn trúa, ef góð verk fylgja ekki með hjá þeim sem trúa þó að það sé sjálfsagt gott að vera trúaður."

Við skulum nú athuga þetta í allri einlægni því að einlægni gefur aldrei svar í vandamáli.

Hver treystir sér að segja við Drottin: ´"Ég ætla með góðri breytni að bæta fyrir syndir þess liðna?"

Vinur minn, þú veist að þú hefur aldrei verið settur eða sett til að dæma um þín eigin verk, hvort þau hafi gildi þér til hjálpræðis og til að færa afstöðu þína til samræmis við Guð þinn. Auk þess átt þú ekki víst, að breytni þín verði fullkomin, því að holdið er veikt.

Vilt þú þá gera mig alveg vonlausan - eða vonlausa? - segir þú.

„Þeir sem vona á Drottinn fá nýjan kraft." Jes. 40: 31.a.

„Meðan vér enn vorum óstyrkir dó Kristur á tilteknum tíma fyrir óguðlega." Róm. 5: 6.

„Guð auðsýnir kærleika sinn til vor þar sem Kristur er fyrir oss dáinn meðan vér enn vorum í syndum vorum." Róm. 5: 8.

„ Vér urðum sættir við Guð fyrir dauða sonar hans, því fremur munum vér frelsaðir verða með lífi sonar hans, nú er vér erum í sátt teknir." Róm. 5: 10.

Hvernig get ég vitað þetta?

Við skulum athuga það bráðum - en ef þú getur ekki vitað þetta, þá getur þú enn síður verið viss um að Guð muni taka góð og gild þín verk sem þú veist að eru ekki fullkomin. Það er þýðingarmikið þegar maður uppgötvar að Guð geti vitað meira en maður veit sjálfur.

En þú þykist þó geta frætt mig og því vita nokkuð mikið.

Sömuleiðis athugum við það bráðum.

Og hvað þá um góðu verkin? Á maður ekki að vinna þau?

„Jesús svaraði og sagði við þá: Þetta er verk Guðs að þér trúið á þann sem hann sendi." Og hann sagðist vera sá, „sem faðirinn helgaði og sendi í heiminn." Jóh. 6: 29. og 10: 36. b.

Þarna er þá umsögn Jesú um það, hvað eru verk Guðs, sem vér getum unnið, það er verk sem fyrir Guði gildi. - Þar með verðum við ef til vill að endurskoða okkar fyrri mælikvarða á það hvað eru góð verk. Góð verk eru verk sem fyrir Guði gilda því að einn er góður það er Guð sagði Jesús og  „Ég og faðirinn erum eitt" Jóh. 10: 30.  Jesús kallaði Guð föður sinn. Þar með og með mörgum fleiri orðum lýsti Jesús yfir að hann væri Guð af Guði, Guðs sonur - enda sögðu Gyðingar að hann gerði sjálfan sig Guði  jafnan.

En Jesús frá Nasaret var „kröftuglega auglýstur að vera sonur Guðs fyrir upprisu frá dauðum."  Róm. 1: 4. Og með táknum sem hann hafði gert. Meðal margra annarra sem Jesús læknaði var lamaður maður (sem getið er um í Matt. 9: 2.-8), og fyrst sagði Jesús við hann: „Barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar." Menn sem heyrðu þetta, hneyksluðust á þessum orðum. En þá sagði Jesús meðal annars: „Til þess að þér vitið að Mannssonurinn hefur vald á jörðu til að fyrirgefa syndir - þá segir hann við lama manninn: - „Statt upp, tak rekkju þína og far heim til þín." Við það læknaðist maðurinn og hann stóð upp og fór heim til sín. Jesús sannaði sinn Guðdóm þar. Og postularnir sem Jesús valdi og uppfræddi og fyllti sínum heilaga anda voru fyrir náð Drottins Jesú færir um að „fara rétt með orð sannleikans." 2. Tím. 2: 15.b.

Stundum getur manni fundist Guðs heilagleiki ægilegur - jafnvel óaðgengilegur - einkum ef okkur finnst þeir sem hafa Guðs nafn á vörunum og tala mikið um trú á hann, ekki eins kærleiksríkir og þeir ættu að vera. - Já, Guð miskunni okkur öllum. Þeir sem trúa á Guð og son hans Jesúm Krist, þurfa að vera kærleiksríkir, svo að þeir laði menn og konur til Krists, fólk sem hjá vantrúuðum hefur oft mætt kulda og lítilsvirðingu á guðlegum efnum.

Og þá erum við komin að því að trúin á að „fullkomnast af verkunum" eins og hjá Abraham (Jak. 2: 22.b.) og að dauð trú er engin trú.

En hvað er þá lifandi trú? Hún er sú snerting við Guðs náð, að maður þiggur Guðs gjöf sem er Jesús Kristur.

„Hann er orðinn oss vísdómur frá Guði, bæði réttlæti og helgun og endurlausn." „Þökk sé Guði fyrir sína óumræðilegu gjöf." 1. Kor. 1: 30 b; 2. Kor. 9: 15.

  • 1. „Hann bar sjálfur syndir vorar á líkama sínum upp á tréð." 1. Pét. 2: 24.a.

Guð, hann fyrirgaf oss öll afbrotin, er „Hann afmáði skuldabréfið, sem þjakaði oss með ákvæðum sínum. Hann tók það burt með því  að negla það á krossinn." Kól. 2: 14.

Jesús sagðist vera kominn „ til þess að þjóna og til þess að gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga." Matt. 20: 28. Jesús sagði: „Þann, sem til mín kemur, mun ég alls ekki burt reka." Jóh. 6: 37.b.

  • 2. Hjálpræðið, það að menn séu Guðs börn um tíma og eilífð er algerlega af náð Guðs, en ekki áunnið með okkar verkum.

„Því af náð eruð þér hólpnir orðnir fyrir trú og það er ekki yður að þakka, heldur Guðs gjöf. Ekki af verkum, til þess að enginn skuli geta þakkað sér það sjálfum. Því að vér erum smíð hans, skapaðir í Kristi Jesú til góðra verka sem Guð hefur áður fyrirbúið til þess að vér skyldum framganga í þeim." Efes. 2: 8.-10.

Alls staðar í Guðs orði er lögð áhersla á að Guðs börn eigi að breyta heilaglega.  En hugsun, hugarstefna og trú er líka breytni, samkvæmt áður tilfærðum orðum Jesú. Með trúnni tökum við á móti náð Guðs og njótum þess að þekkja hans yndislega kærleika. „Trú þú á Drottin Jesúm og þú munt verða hólpinn."  „Hann, sem vegna misgjörða vorra var framseldur og vegna réttlætingar vorrar uppvakinn." Post. 16: 31; Róm. 4: 25.

„Sæll er sá, er afbrotin eru fyrirgefin, synd hans hulin. Sæll er sá maður, er Drottinn tilreiknar eigi misgjörð, sá er eigi geymir svik í anda." Sálm. 32: 1.-2.

„Hversu dýrmæt er miskunn þín, ó Guð: mannanna börn leita hælis í skugga vængja þinna, þau seðjast af feiti húss þíns, þú lætur þau drekka úr lækjum unaðssemda þinna." Sálm. 36: 8.-9.

„Náðin Drottins Jesú Krists og kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum."

 

Smá viðbót: Textinn á myndinni er úr Jesaja 40: 31. " En þeir, sem vona á Drottinn, fá nýjan kraft, þeir fljúga upp á vængjum sem ernir. Þeir hlaupa og lýjast ekki, þier ganga og þreytast ekki."

Guð blessi ykkur öll

Rósa Aðalsteinsdóttir

Ási Vopnafirði


Jóhannes skírari - Jónsmessa

 

Jóhannes skírari

Bæn heyrð

Á dögum Heródesar, konungs í Júdeu, var uppi prestur nokkur að nafni Sakaría, af sveit Abía. Kona hans var og af ætt Arons og hét Elísabet. Þau voru bæði réttlát fyrir Guði og lifðu vammlaus eftir öllum boðum og ákvæðum Drottins. En þau áttu ekki barn, því að Elísabet var óbyrja, og bæði voru þau hnigin að aldri.

En svo bar við, er röðin kom að sveit hans og hann var að gegna þjónustu fyrir Guði, að það féll í hans hlut, samkvæmt venju prestdómsins, að ganga inn í musteri Drottins og fórna reykelsi. En allur fólksfjöldinn var fyrir utan á bæn, meðan reykelsisfórnin var færð.

Birtist honum þá engill Drottins, sem stóð hægra megin við reykelsisaltarið. Sakaría varð hverft við sýn þessa, og ótta sló á hann. En engillinn sagði við hann: "Óttast þú eigi, Sakaría, því bæn þín er heyrð. Elísabet kona þín mun fæða þér son, og þú skalt láta hann heita Jóhannes. Og þér mun EinKerem[1]veitast gleði og fögnuður, og margir munu gleðjast vegna fæðingar hans. Því að hann mun verða mikill í augliti Drottins. Aldrei mun hann drekka vín né áfengan drykk, en fyllast heilögum anda þegar frá móðurlífi. Og mörgum af Ísraels sonum mun hann snúa til Drottins, Guðs þeirra. Og hann mun ganga fyrir honum í anda og krafti Elía til að snúa hjörtum feðra til barna og óhlýðnum til hugarfars réttlátra og búa Drottni altygjaðan lýð."

Sakaría sagði við engilinn: "Af hverju get ég vitað þetta? Ég er gamall og kona mín hnigin að aldri."

En engillinn svaraði honum: "Ég er Gabríel, sem stend frammi fyrir Guði, ég var sendur til að tala við þig og flytja þér þessa gleðifregn. Og þú munt verða mállaus og ekki geta talað til þess dags, er þetta kemur fram, vegna þess að þú trúðir ekki orðum mínum, en þau munu rætast á sínum tíma."

Og fólkið beið eftir Sakaría og undraðist, hve honum dvaldist í musterinu. En er hann kom út, gat hann ekki talað við þá, og skildu þeir, að hann hafði séð sýn í musterinu. Hann gaf þeim bendingar og var mállaus áfram. Og er þjónustudagar hans voru liðnir, fór hann heim til sín.

En eftir þessa daga varð Elísabet kona hans þunguð, og hún leyndi sér í fimm mánuði og sagði: "Þannig hefur Drottinn gjört við mig, er hann leit til mín að afmá hneisu mína í augum manna." Lúkas 1: 5.-25.


María og Elísabet

En á þeim dögum tók María sig upp og fór með flýti til borgar nokkurrar í fjallbyggðum Júda. Hún kom inn í hús Sakaría og heilsaði Elísabetu. Þá varð það, þegar Elísabet heyrði kveðju Maríu, að barnið tók viðbragð í lífi hennar, og Elísabet fylltist heilögum anda og hrópaði hárri röddu: "Blessuð ert þú meðal kvenna og blessaður ávöxtur lífs þíns. Hvaðan kemur mér þetta, að móðir Drottins míns kemur til mín? Þegar kveðja þín hljómaði í eyrum mér, tók barnið viðbragð af gleði í lífi mínu. Sæl er hún, sem trúði því, að rætast mundi það, sem sagt var við hana frá Drottni." Lúkas 1: 39.-45.

Fæðing Jóhannesar

Nú kom sá tími, að Elísabet skyldi verða léttari, og ól hún son. Og nágrannar hennar og ættmenn heyrðu, hversu mikla miskunn Drottinn hafði auðsýnt henni, og samfögnuðu henni.

Á áttunda degi komu þeir að umskera sveininn, og vildu þeir láta hann heita Sakaría í höfuðið á föður sínum. Þá mælti móðir hans: "Eigi skal hann svo heita, heldur Jóhannes."

palmer hayden baptism[1]En þeir sögðu við hana: "Enginn er í ætt þinni, sem heitir því nafni." Bentu þeir þá föður hans, að hann léti þá vita, hvað sveinninn skyldi heita.

Hann bað um spjald og reit: "Jóhannes er nafn hans," og urðu þeir allir undrandi. Jafnskjótt laukst upp munnur hans og tunga, og hann fór að tala og lofaði Guð. En ótta sló á alla nágranna þeirra og þótti þessi atburður miklum tíðindum sæta í allri fjallbyggð Júdeu. Og allir, sem þetta heyrðu, festu það í huga sér og sögðu: "Hvað mun barn þetta verða?" Því að hönd Drottins var með honum. Lúkas 1: 57. - 66.

Jóhannes skírari

Á þeim dögum kemur Jóhannes skírari fram og prédikar í óbyggðum Júdeu. Hann sagði: "Gjörið iðrun, himnaríki er í nánd." Jóhannes er sá sem svo er um mælt hjá Jesaja spámanni: baptism[1]

Rödd hrópanda í eyðimörk:

Greiðið veg Drottins,

gjörið beinar brautir hans.

Jóhannes bar klæði úr úlfaldahári og leðurbelti um lendar sér og hafði til matar engisprettur og villihunang. Menn streymdu til hans frá Jerúsalem, allri Júdeu og Jórdanbyggð, létu skírast af honum í ánni Jórdan og játuðu syndir sínar.

Þegar hann jesus21[1]sá, að margir farísear og saddúkear komu til skírnar, sagði hann við þá: "Þér nöðru kyn, hver kenndi yður að flýja komandi reiði? Berið þá ávöxt samboðinn iðruninni! Látið yður ekki til hugar koma, að þér getið sagt með sjálfum yður: ,Vér eigum Abraham að föður.' Ég segi yður, að Guð getur vakið Abraham börn af steinum þessum. Öxin er þegar lögð að rótum trjánna, og hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað. Ég skíri yður með vatni til iðrunar, en sá sem kemur eftir mig, er mér máttugri, og er ég ekki verður að bera skó hans. Hann mun skíra yður með heilögum anda og eldi. Hann er með varpskófluna í hendi sér og mun gjörhreinsa láfa sinn og safna hveiti sínu í hlöðu, en hismið mun hann brenna í óslökkvanda eldi." Matt. 3: 1.-12.


Jesús skírður

Þá kemur Jesús frá Galíleu að Jórdan til Jóhannesar að taka skírn hjá honum. Jóhannes vildi varna honum þess og sagði: "Mér er þörf að skírast af þér, og þú kemur til mín!"

Jesús svaraði honum: "Lát það nú eftir. Þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti." Og hann lét þaðJesusBaptism[1] eftir honum.

En þegar Jesús hafði verið skírður, sté hann jafnskjótt upp úr vatninu. Og þá opnuðust himnarnir, og hann sá anda Guðs stíga niður eins og dúfu og koma yfir sig. Og rödd kom af himnum: "Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á." Matt. 3: 13.-17.

Jóhannes hálshöggvinn

Um þessar mundir spyr Heródes fjórðungsstjóri tíðindin af Jesú. Og hann segir við sveina sína: "Þetta er Jóhannes skírari, hann er risinn frá dauðum, þess vegna eru kraftarnir að verki í honum."

En Heródes hafði látið taka Jóhannes höndum, fjötra hann og varpa í fangelsi vegna Heródíasar, konu Filippusar bróður síns, því Jóhannes hafði sagt við hann: "Þú mátt ekki eiga hana." Heródes vildi deyða hann, en óttaðist lýðinn, þar eð menn töldu hann vera spámann.

En á afmælisdegi Heródesar dansaði dóttir Heródíasar dans frammi fyrir gestunum og hreif Heródes svo, að hann sór þess eið að veita henni hvað sem hún bæði um.

Að undirlagi móður sinnar segir hún: "Gef mér hér á fati höfuð Jóhannesar skírara."

Konungur varð hryggur við, en vegna eiðsins og gesta sinna bauð hann að veita henni þetta. Hann sendi í fangelsið og lét hálshöggva Jóhannes þar. Höfuð hans var borið inn á fati og fengið stúlkunni, en hún færði móður sinni.

Lærisveinar hans komu, tóku líkið og greftruðu, fóru síðan og sögðu Jesú. Matt. 14: 1.-12.

 

Jónsmessa

Messa Jóhannesar skírara, er 24. júní. Hún leysti af hólmi forna sóhvarfahátíð í Róm. Suður í Evrópu var Jónsmessan talin Miðsumarsnótt. Jónsmessunótt, aðfaranótt 24. júní, er ein af fjórum mögnuðustu nóttum ársins og fylgir ýmis þjóðtrú, meðal annars að kýr tali og selir fari úr hömum sínum. Jónsmessudöggin þykir heilnæm til lækninga ef menn velta sér í henni allsberir. Grin

W6CAVWS28QCAXFVHWOCA60KZAUCAE0JEJKCANVEJHECAUQ0SYNCAF5XWXHCA0D28H4CAK4C75LCA2RV71OCARPWID8CA5074HECA0DS84UCAJW9EM6CABRPZYBCA2SBJMNCA0WTNDKCA0MQ6BZCAN5QVUNUpphaflega var haldið upp á 24. júní sem lengsta dag ársins í Rómaborg á 1. öld fyrir Krists burð þegar júlíanska tímatalinu var komið á. Þar hafði verið til forn sólhvarfahátíð sumar og vetur eins og víðast annarsstaðar á norðurhveli jarðar, sem jafnan hefur haldist við í einhverri mynd. Menn áttuðu sig ekki strax á hinni lítilfjörlegu skekkju í júlíanska tímatalinu og þegar Rómarkirkjan afréð að fastsetja fæðingardaga Jesú Krists og Jóhannesar skírara við sólstöður vetur og sumar hafði dagsetning sumarsólhvarfa færst til um nálægt því þrjá daga miðað við stjarnfræðilegar sólstöður. Föstudaginn 20. júní voru Sumarsólstöður.

Boðunardagur Maríu meyjar er 25. mars í nánd við jafndægri á vori. Þá tilkynnti Gabríel erkiengill aðRBCA62W0MGCANRJJYNCA15Y3N2CAM46B40CANV94X7CA152XZ0CA5EGICACA3UDH2XCAEXI3XUCA4F2TINCARVK279CAM2STONCAJM2078CAEMHWJACA7HDB7RCA7MDF3OCAZI7Q6MCA3Q29GKCA10OAQL hún skyldi ala son Guðs, enda eru þá níu mánuðir fram að jólum. Tímasetning boðunardagsins stendur upphaflega í sambandi við jafndægri á vori á sama hátt og Jónsmessa og jól eiga við sólstöður á sumri og vetri. Eins og sagði áðan þá er smávægisleg tímaskekkja sem stafar af júníanska tímatalinu. Það hafði hnikast nokkuð til á þeim fjórum til fimm öldum sem liðnar voru frá gildistöku þess á þeim tímum þegar kirkjan ákvað þessar dagsetningar. Höfuðdagur er 29. ágúst. Þá er þess minnst að Jóhannes skírari var hálshöggvinn. Heimildir: Saga Daganna eftir Árna Björnsson.

Heilmikill fróðleikur sem skýrir sig sjálfur.

http://rosaadalsteinsdottir.blog.is/blog/rosaadalsteinsdottir/entry/431763/#comments

Hér fyrir ofan er slóð um niðurdýfingarskírn þá sem Jóhannes framkvæmdi og Jesús var39CACNZ245CAI2830LCAEZAMRRCAOXXGCTCAZ4CWNHCAXO0M59CAOCDMOPCAC83LGACAWHQMVSCA4XICEECAG8P5P6CABS1ANNCAE93KHQCAGMLWRTCAWNZQYGCAKQXPNBCAC2I12ACAPD4ZXYCAW3LVML skírður  niðurdýfingaZKCA23V9F9CAJ1KK74CABLT09SCA34J2XOCANOQ3NSCANI6KUTCA2RFFZ8CAB8MHUNCA9936VUCARVUVR0CAWF64COCANXUDDQCATU4GRACACOENDYCA291DNBCA5UC8SDCA2Q20RLCAA2OX4CCAAMVYNVrskírn í ánni Jórdan. Skírnin er táknræn. Skírþeginn fer undir yfirboð vatns og rís aftur upp sem ný sköpun í Kristi. Jesús hefur fyrirgefið allar misgjörðir. Fyrst tökum við afstöðu með Jesú Kristi og biðjum hann að hreinsa syndir okkar og svo síðar þegar við erum tilbúin þá tökum við niðurdýfingarskírn og er það ákvörðun sem við tökum sjálf en ekki foreldrar okkar. Ég hringdi ekki heim og lét vita þegar ég tók skírn í Kirkjulækjarkoti í Rangárvallarsýslu. Þá var ég að verða fjórtán ára. Ég sagði föður mínum frá skírninni þegar ég kom heim. Þetta var og er jú mitt líf og mín ákvörðun. Árið 1992 var ég stödd í okt. við ánna Jórdan og þar var fullt af fólki að taka niðurdýfingarskírn. Magnað að taka skírn á sömu slóðum og sjálfur Jesús Kristur.

http://amma-gulla.blog.is/blog/amma-gulla/entry/574539/#comments

Guðlaug Helga bloggar um Jónsmessu og þar kom fram spurning um ógiftar konur og Jónsmessuna.dream1[1]

Við Breiðafjörð virðis eggjaspá í glasi fyrir ógiftum stúlkum hafa verið þekktur leikur snemma á öldinni. Henni er þannig lýst: „Kvöldið fyrir Jónsmessunótt var glas hálffyllt með vatni, og egg brotið í sundur og hvítunni hellt í vatnið, látið standa hreyfingarlaust yfir nóttina. Hvítan tók á sig margvíslegar myndir og úr því var lesið hvaða atvinnu bóndaefnið stundaði.

„Tiltölulega fáir heimildarmenn nefna óskastund á Jónsmessunótt eða spá fyrir framtíðina. Nokkrir töldu að dreyma mætti verðandi maka með því að tína 7 -12 grasategundir á miðnætti og sofa með þær undir kodda." Hér get ég ekki séð annað en að strákarnir geti líka farið út í kvöld að tína grös.

Best að fjalla ekkert um Brönugrasið.

Gleðilega Jónsmessunótt og Jónsmessu á morgunn.

Guð blessi ykkur öll.

Kær kveðja/Rósa

 


Á Jónsmessu Hólabiskups

 

Á Jónsmessu Hólabiskups

Friðrik Friðriksson

31. Mars 1953.

Visiones

Oft minn hugur hvarflar glaður

Hóla til, er biskupsstaður

Lýsti nýr um landið hér,

Er þinn ástvin hóf upp Hóla

Heiðurs til og reistir skóla,

Drottinn minn, til dýrðar þér.

 

Kem ég nú að banabeði

Biskups þess er stólnum réði

Fyrstur manna‘, í fimmtán ár.

Heyri‘ ég söngva svella skæra,

Sjúkur vildi lofgjörð færa,

fyrr en lykjast fölar brár.

 

Hann í söng af hjartans grunni

Hörpu Davíðs stilla kunni

Fram í andláts ystu neyð.

Söng um frelsi‘ úr fjötrum nauða,

Fyrirgefning, lausn frá dauða,

Englavörð og lífsins leið.

 

Sæt var rödd með sigurhreimi,

Sætust þó í öfugstreymi

Banameins á beiskri stund;

Meðan tungan mátti hrærast,

Meðan varir kunnu‘ að bærast,

Söng hann fram að síðsta blund.

 

Sjö og hálfa öld minn andi

Andartak á hugans gandi

Flýgur næst til Hóla heim.

Þegar Brandur stýrði stóli,

Strangur vetur ríkti á bóli,

Nísti lýð í nauðum þeim.

 

Mars hinn þriðji má ei gleymast,

Minning björt í sögum gleymast

Mun um aldir Ísalands,

Þá er upp úr gröf var grafinn,

Guðs í kirkju síðan hafinn,

Helgidómur heilags manns.

 

Aldir þrjár og hér um hálfa

Höfuðkirkju prýddi sjálfa.

Skrínið hans með heilög bein.

Margur fann þá meinabætur,

Mörgum fannst þar ilmur sætur,

Trú því olli heit og hrein.

 

Þá úr Hóla helgidómi

Hrifinn var sá kirkjusómi,

Hulinn aftur mjúkri mold.

Enginn veit, hvar bein hans bíða

Betri‘ og sælli morguntíða,

Þegar upprís andað hold.

 

Síðan aldir eru fjórar.

Umbyltingatíðir stórar

Flæddu‘ um sveitir föðurlands. -

Féll í auðn og fyrnsku stundar

Forna prýðin fósturgrundar,

Skálaholts og Hóla glans.

 

Ef til vill nú önnur kemur

Öld, sem feðradáðir nemur,

Þroski vorrar þjóðar vex.

Biskups Jóns þá stytta á stalli

Stendur reist á kirkjupalli,

Tvö þúsund og talan sex.

 

Þá mun hátíð haldin verða

Hólastóls og orsök ferða

Út frá hverri sýslu‘ og sveit.

Ferðamarkið heim til Hóla,

Heilags Jóns að vitja skóla -

Framtak nýt á fornum reit.

 

Þúsund tjalda‘ á grænni grundu

Gesta þeirra, er veginn fundu

Gegnum loft, á landi‘ og sjá.

Stofnár Hólastólsins forna

Styrkir lýð, - þá fer að morgna

Skagafjarðarfjöllum á.

 

Hóla byrðu‘ í helgum hlíðum

Hátt á stalli birtast lýðum

Helgir menn í heimsókn þá:

Fremstur Jón og Gvöndur góði,

Guðbrandur, og sæll í ljóði

Hallgrímur mun hörpu slá.

 

Píslavættis skrýddur skrúða

Skín í þessum flokki prúða

Örfum með Jón Arason.

Fjallið allt er hulið hrönnum

Helgra manna, líkjast fönnum,

Blessun lýsa‘ á landsins von.

Líkt og sumars sunnanvindar

Svífa‘ í lofti´að fjallatindar

Hringinn kringum Hjaltadal.

Blána í misturs móðu fríðir,

Megir lífsins standa blíðir,

Ljóma‘ um fagran fjallasal.

 

Fylking sunnan fer hin glæsta,

Fagurskreytt í leyfi‘ ins Hæsta,

Til að hylla Hólastó. -

Skálholts og Hólasóminn

Heilsast nú, og frelsisljóminn

Skín sem mildust morgunsól.

 

Yfir mun þeim ljóma lýsa

Lífsins sól, er heglir prísa

Dýrðin Krists og Konungs náð:

Hans er vald á himni‘ og jörðu,

Honum lof með þakkargjörðu

Færi allt um lög og láð.

 

Sjá, þú Ísalandsins lýður,

Listrænt hlutverk þín nú bíður.

Fremd og dáðir fylgjast að.

Vakna, drótt, af doða‘ og svefni,

Drjúgum fær þú viðfangsefni,

Margt að vinna‘ á mörgum stað.

 

Upp þú skalt úr rústum reisa

-  Ræktarleysið er þér hneisa -

Skálaholtsins höfuðból.

Gissurs mikla‘ og Ísleifs andi

Á að ríkja hér á landi

Undir nýrri aldarsól.

 

Þjóðarminjum má ei týna,

Metnað þann í verki að sýna

Þjóðar göfgi glæðir best.

Oddastað má ekki gleyma,

Áttu þar í vöggu heima

Fræðin, sem oss frægja mest.

 

Þá mun trúar alskær alda

Yfir flæða landið kalda,

Vekja þjóð úr doða‘ og deyfð.

Trúarvissan, trúarglóðin,

Trúarjátning, sigurljóðin

Fegri vora föðurleifð.

 

Æskulýður, Íslands prýði

Efling fær í trúarstríði,

Krossins fána fylgir trúr.

Hallgrímskirkja‘ á Hallgrímssetri

Hefst til vegs, er tíðir betri

Renna‘ upp undir andans skúr.

 

Sumar hvert mun sjá þann skara,

Sem í trausti Krists mun fara

Upp í víðan Vatnaskóg.

Kristin æska kæn að störfum

Kann að bæta‘  úr mörgum þörfum,

Hafi‘ hún Krist, hún hefur nóg.

 

Skógar vaxa, grundin grænkar,

Göfgra bænda hagur vænkar,

Tún og akur frjósemd fær.

Skynsemd stjórnar, vélar vinna,

Vötn og fossar kraftinn inna,

Auðlegð veitir víður sær.

 

Afneitun og vantrú víkja,

Vegsemd Jesú Krists mun ríkja

Lærðum bæði og leikum hjá. -

Kirkjur fyllast kristnum anda,

Klerkar fremst í broddi standa,

Menntun sannri lið að ljá.

 

Skólar fagra fræðslu veita,

Forna‘ og nýja, í borg, til sveita,

Íþróttirnar efla dáð. -

Háskóli‘ Íslands hæst skal gnæfa:

Heilög menning, list og gæfa

Þaðan út um leggi láð.

 

„Guðs vors lands": já lands vors faðir,

Lýstu þjóð um aldaraðir.

Lát oss ætíð lúta þér.

Varðveit frelsi, frið og sóma,

Forsetann og rétta dóma.

Fyrir öllu illu‘ oss ver.

 


HOLL RÁÐ


Christian Glitter by www.christianglitter.com

 

HOLL RÁÐ

 

Jesús sagði:  Ég kem aftur.  Jóh. 14: 3.

GERÐU EKKERT,

sem þú vildir ekki vera að gera, þegar

DROTTINN JESÚS KEMUR. -

TALAÐU EKKERT,

sem þú vildir ekki vera að tala, þegar

DROTTINN JESÚS KEMUR. -

FARÐU ALDREI ÞANGAÐ

þar sem þú vildir ekki vera, þegar

DROTTINN JESÚS KEMUR. -

HUGSAÐU ALDEI NEITT,

sem þú vildir ekki vera að hugsa um, þegar

DROTTINN JESÚS KEMUR. -

Vertu viðbúinn. Hann kemur.

„Hver, sem hefir þessa von til hans, hreinsi sig." 1. Jóh. 3: 3.

 

Kæru bloggvinir. Þegar ég las fyrr í dag  um Holl ráð þá þurfti ég auðvita að hugleiða þetta. Ég allavega er nú ekkert nógu dugleg að vanda orðavalið og einnig hugsa ég oft um ýmislegt sem ég vildi ekki vera að hugsa um ef ég væri að mæta Jesú Kristi. Oft hugsa ég um það ástand sem ríkir hér á Íslandi, ósanngirni gagnvart náunganum af hendi þeirra sem stýra skútunni, um siðleysið sem grasserar og ég viðurkenni að þetta pirrar mig og stundum verð ég virkilega reið yfir óréttlætinu. Ég þoli ekki þegar sumum er hampað á kostnað annarra sem líða skort. Hvað á að gera við svona gallagrip eins og mig?

6. júní sl. lögðum við pabbi af stað til Akureyrar. Við lögðum of seint af stað en ég náði samt að komast á réttum tíma í pjat en ég átti pantaðan tíma á snyrtistofu og er búin að fara þrisvar í allt í þessari ferð. Æi þessar kerlingar hugsa strákarnir núna. Shocking Við fórum svo með flugi til Reykjavíkur um kvöldið. Ég fór beint í heimsókn til bloggvinar míns og þar var annar bloggvinur ásamt konu sinni í heimsókn. Ég hitti fullt af bloggvinum í þessari ferð bæði í kirkjum og einnig fór ég í heimsóknir til margra þeirra. HeartElísabet frænkaHeart bloggaði um heimsóknina og heitir færslan: Rósa frænka í heimsókn." LoL W00t LoL http://liso.blog.is/blog/elisabet/entry/569861/#comments   Ferðin var farin vegna þess að faðir minn þurfti að fara til augnlæknis í tékk og einnig í tékk vegna gangráðs. Ég notaði tækifærið og fór í sjónmælingu og hitti líka húðsjúkdómasérfræðing. Þarf að hitta hann aftur í haust.

Þegar ég var á samkomu í Fíladelfíu seinni sunnudaginn sem ég var í Reykjavík þá rifjaðist upp hjá mér að fyrir 40 árum var ég stödd í Reykjavík og var á leið til Ísafjarðar og þaðan yfir í Önundarfjörð. Ástæðan fyrir því að þetta rifjaðist upp var að trúbróðir minn og bloggvinur lét blessa nýfæddan son sinn sem heitir sama nafni og tvíburabróðir föðurins sem lést nýfæddur. Man ég eftir þessari sorg eins og þessi atburður væri nýafstaðinn.  Á meðan ég dvaldi í Reykjavík fyrir 40 árum fékk ég að heimsækja Heartmömmu mínaHeart sem var á Landspítalanum. Ég man að ég átti mjög erfitt og það tók á mig að kveðja hana og það endaði með að móðursystir mín þurfti að reka á eftir mér að koma. Ég vissi ekki þá að þetta var í síðasta sinn sem ég sá móður mína. Ég mun segja ykkur nánar frá þessu í ágúst þegar móðir mín yfirgaf þessa jörð og flutti heim til Jesú. Ég gleðst yfir því að móður minni líður vel í hinni Himnesku Jerúsalem. Ég þarf oft að íhuga hvort ég sé viðbúin ef kallið kæmi skyndilega. Ég spyr mig oft hvort ég lifi sönnu kristnu lífi og sé ekki að drýgja synd með t.d. ljótum orðum, hugsunum eða gjörðum. Ég hugsa oft hvort ég fái að sjá móður mína aftur eða ekki. Guð gaf okkur frjálsan vilja og ég óska þess að ég fái að fara til Himnesku Jerúsalem. Ég veit að engin synd kemst inn í Himnesku Jerúsalem. Ég fæ enga undantekningu.

Mánudaginn 16. júní þá var komið að því að leggja af stað frá Reykjavík. Ég kom aðeins við á Landspítalanum og hitti Ingibjörgu vinkonu mína sem fór í hjartaskurð og hefur þurft að vera óvenjulengi á spítalanum vegna þess að það gróf alltaf í skurðinum. Það var vitað mál að þetta tæki tíman sinn vegna þess að hún er með sykursýki en okkur óraði ekki fyrir að hún þyrfti að vera svona lengi á Landspítalanum. Hún sagði mér að núna loksins væri búið að komast fyrir þetta og var það gott ferðanesti. Halo Við vorum klifjuð farangri og ég þurfti jú ein að bjarga þessu og þegar ég var að setja allan þennan varning á vigtina þá hugsaði ég bara að ég væri alveg hörku flink í þessu því það gekk óvenjuvel og ég hamaðist við að koma þessu frá mér. Cool Þegar við svo vorum að fljúga út Eyjafjörðinn var mikil ókyrrð. Ég var uppgefin og var búin að draga fullt af ýsum. Það var lítill drengur sem sat rétt hjá mér og hann skellihló þegar flugvélin hristist og skókst til og frá. Ég gat nú ekki annað en brosað af stráknum. Hann varð svo æstur og sagði við mömmu sína að hann vildi meira og meira. Þessi ferð verður honum minnisstæð í einhvern tíma. LoL

17. júní var farið snemma á fætur því við ætluðum að vera viðstödd þegar Katrín Stefanía bróðurdóttir mín útskrifaðist sem stúdent. Um kvöldið fórum við svo aftur í íþróttahúsið þar sem haldin var veisla og útskriftarnemar voru með skemmtiatriði. Seint um kvöldið heiðruðu svo nýstúdentar gesti sem voru á Ráðhústorgi og var skemmtilegt að vera þar og fylgjast með öllu þessu unga fólki sem var nýbúið að ljúka stórum áfanga í lífi sínu. Daginn eftir fékk ég tækifæri að hitta konu sem ég hafði lengi langað að hitta.  Þegar öllum erindum á Akureyri var lokið drifum við okkur af stað. Við lentum í snjókomu á Mývatnsheiði og einnig á Mývatnsöræfum. Frown

Í gærmorgunn þegar ég leit út um gluggann var búið að snjóa heilmikið og voru Krossavíkurfjöllin grá niður að bæjunum Krossavík 1 og 2. Snjórinn hopaði svo því það rigndi helling um daginn. Hér er ískalt og minnir meira á vetur en sumar. Las tilkynningu á vegag.is.

20.06.2008 kl. 09:56

FÆRÐ Éljagangur er á Hellisheiði eystri.

Akstur víða bannaður á hálendinu

Vegna aurbleytu og hættu á vegaskemmdum er allur akstur bannaður á velflestum hálendisvegum og nokkrum leiðum sem að jafnaði eru ekki færar nema að sumarlagi.

Hellisheiði eystri er hér á milli Vopnafjarðar og Héraðsflóa. Þetta er svaka stuð. Dálítið ólíkt veður og ég upplifði fyrir 22 árum í Finnlandi á þessum tíma. Þá gekk hitabylgja yfir Finnland og það var alveg ROSALEGT. Við fjölskyldan fórum til Finnlands því bróðir minn var að fara að giftast konu sem er frá Finnlandi. 19. júní þurftum við að fara til borgarinnar Vasa og fara til dómara því Hvítasunnumenn höfðu ekki réttindi til að gifta. Ég og Kjell frændi mákonu minnar voru svaramenn. Við fórum inná skrifstofu dómara. Ég skildi nú ósköp lítið en ég man að hann sagði í krafti míns embættis en þá var hann að pússa saman bróðir minn og mákonu. Svo var alvöru brúðkaup daginn eftir  og flott veisla. Þau líta alltaf á það sem brúðkaupsdaginn sinn. Dómaraferðin var til að giftingin yrði lögleg. Pabbi var þá í jakkafötum sem ég saumaði og einnig núna þegar Katrín Stefanía útskrifaðist. Hefur ekki passað í fötin í millitíðinni. Stundum er talað um að fötin hafi hlaupið í þvotti eins og þjóðbúningurinn minn sem ég var í á brúðkaupsdaginn þeirra. Ég var einhvern tímann að bulla þetta og fólkið trúði þessu en auðvita setti ég ekki þjóðbúninginn í þvottavél. Það var eigandinn sem óx uppúr þjóðbúningnum. FootinMouth

Guð blessi ykkur öll kæru vinir.

Rósa Aðalsteinsdóttir

Vopnafirði


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband