Færsluflokkur: Trúmál og siðferði
1.6.2008 | 17:44
Menn hafsins
Guð gefi ykkur öllum góðan dag í Jesú nafni.
Sjómenn til hamingju með daginn.
Megi Guð almáttugur blessa ykkur og varðveita.
Menn hafsins:
Þeir sem fóru um hafið á skipum, ráku verslun á hinum miklu vötnum, þeir hafa séð verk Drottins og dásemdir hans á djúpinu." Sálmarnir 107: 23.-24.
Drottinn hafsins:
Þegar hann setti hafinu takmörk, til þess að vötnin færu eigi lengra en hann bauð, þegar hann festi undirstöður jarðar." Orðskviðirnir 8: 29.
Drottinn, Guð hersveitanna, hver er sem þú? Þú ert voldugur, Drottinn, og trúfesti þín er umhverfis þig. Þú ræður yfir ofstopa hafsins, þegar öldur þess hefjast, stöðvar þú þær; Þinn er himinninn, þín er og jörðin, þú hefir grundvallað veröldina og allt sem í henni er." Sálmarnir 89: 9.-10; 12.
Hættulíf sjómannsins:
Þeir sem fóru um hafið á skipum, ráku verslun á hinum miklu vötnum, þeir hafa séð verk Drottins og dásemdir hans á djúpinu. Því að hann bauð og þá kom stormviðri, sem hóf upp bylgjur þess. Þeir hófust til himins, sigu niður í djúpið, þeim féllst hugur í neyðinni. Þeir römbuðu og skjögruðu eins og drukkinn maður, og öll kunnátta þeirra var þrotin. Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, og hann leiddi þá úr angist þeirra. Hann breytti stormviðrinu í blíðan blæ, svo að bylgjur hafsins urðu hljóðar. Þá glöddust þeir, af því að þær kyrrðust, og hann lét þá komast í höfn þá, er þeir þráðu. Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn, vegsama hann á þjóðarsamkomunni og lofa hann í hóp öldunganna." Sálmarnir 107. 23.-32.
Hvert get ég farið frá anda þínum og hvert flúið frá augliti þínu? Þótt ég stigi upp í himininn, þá ertu þar, þótt ég gjörði undirheima að hvílu minni, sjá, þú ert þar. Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans og settist við hið ysta haf, einnig þar mundi hönd þín leiða mig og hægri hönd þín halda mér. Og þótt ég segði: "Myrkrið hylji mig og ljósið í kringum mig verði nótt," þá myndi þó myrkrið eigi verða þér of myrkt og nóttin lýsa eins og dagur, myrkur og ljós eru jöfn fyrir þér." Sálmarnir 139: 7.-12.
Herra hafsins:
Í stormi
Að kvöldi sama dags sagði hann við þá: "Förum yfir um!" Þeir skildu þá við mannfjöldann og tóku hann með sér, þar sem hann var, í bátnum, en aðrir bátar voru með honum. Þá brast á stormhrina mikil, og féllu öldurnar inn í bátinn, svo við lá, að hann fyllti. Jesús var í skutnum og svaf á kodda. Þeir vöktu hann og sögðu við hann: "Meistari, hirðir þú ekki um, að vér förumst?" Hann vaknaði, hastaði á vindinn og sagði við vatnið: "Þegi þú, haf hljótt um þig!" Þá lægði vindinn og gerði stillilogn. Og hann sagði við þá: "Hví eruð þér hræddir, hafið þér enn enga trú?" En þeir urðu miklum ótta lostnir og sögðu hver við annan: "Hver er þessi? Jafnvel vindur og vatn hlýða honum." Markús 4. 35.-41.
Mig viljið þér ekki óttast - segir Drottinn - eða skjálfa fyrir mínu augliti? fyrir mér, sem hefi sett hafinu fjörusandinn að takmarki, ævarandi girðingu, sem það kemst ekki yfir. Og þótt öldur þess komi æðandi, þá vinna þær ekki á, og þótt þær gnýi, þá komast þær ekki yfir hana." Jeremía 5: 22.
Svo segir Drottinn, hann sem lagði veg yfir hafið og braut yfir hin ströngu vötn." Jesaja 43: 16.
Gangan á öldunum:
Það er ég
Tafarlaust knúði hann lærisveina sína að fara í bátinn og halda á undan sér yfir um, meðan hann sendi fólkið brott. Og er hann hafði látið fólkið fara, gekk hann til fjalls að biðjast fyrir í einrúmi. Þegar kvöld var komið, var hann þar einn. En báturinn var þegar kominn langt frá landi og lá undir áföllum, því að vindur var á móti. En er langt var liðið nætur kom hann til þeirra, gangandi á vatninu. Þegar lærisveinarnir sáu hann ganga á vatninu, varð þeim bilt við. Þeir sögðu: "Þetta er vofa," og æptu af hræðslu. En Jesús mælti jafnskjótt til þeirra: "Verið hughraustir, það er ég, verið óhræddir." Pétur svaraði honum: "Ef það ert þú, herra, þá bjóð mér að koma til þín á vatninu." Jesús svaraði: "Kom þú!" Og Pétur sté úr bátnum og gekk á vatninu til hans. En sem hann sá rokið, varð hann hræddur og tók að sökkva. Þá kallaði hann: "Herra, bjarga þú mér!" Jesús rétti þegar út höndina, tók í hann og sagði: "Þú trúlitli, hví efaðist þú?" Þeir stigu í bátinn, og þá lægði vindinn. En þeir sem í bátnum voru, tilbáðu hann og sögðu: "Sannarlega ert þú sonur Guðs." Matteus 14: 22.-33.
Vitnisburður fiskimanns:
Pétur sagði síðar um Krist
Það er sagan um Jesú frá Nasaret, hvernig Guð smurði hann heilögum anda og krafti. Hann gekk um, gjörði gott og græddi alla, sem af djöflinum voru undirokaðir, því Guð var með honum. Vér erum vottar alls þess, er hann gjörði, bæði í landi Gyðinga og í Jerúsalem. Og hann hengdu þeir upp á tré og tóku af lífi. En Guð uppvakti hann á þriðja degi og lét hann birtast, ekki öllum lýðnum, heldur þeim vottum, sem Guð hafði áður kjörið, oss, sem átum og drukkum með honum, eftir að hann var risinn upp frá dauðum. Og hann bauð oss að prédika fyrir lýðnum og vitna, að hann er sá dómari lifenda og dauðra, sem Guð hefur fyrirhugað. Honum bera allir spámennirnir vitni, að sérhver, sem á hann trúir, fái fyrir hans nafn fyrirgefningu syndanna." Postulasagan 10. 38.-43.
Ekki er hjálpræðið í neinum öðrum. Og ekkert annað nafn er mönnum gefið um víða veröld, sem getur frelsað oss." Postulasagan 4. 12.
Til þessa eruð þér kallaðir. Því að Kristur leið einnig fyrir yður og lét yður eftir fyrirmynd, til þess að þér skylduð feta í hans fótspor. "Hann drýgði ekki synd, og svik voru ekki fundin í munni hans." Hann illmælti eigi aftur, er honum var illmælt, og hótaði eigi, er hann leið, heldur gaf það í hans vald, sem réttvíslega dæmir. Hann bar sjálfur syndir vorar á líkama sínum upp á tréð, til þess að vér skyldum deyja frá syndunum og lifa réttlætinu. Fyrir hans benjar eruð þér læknaðir." 1. Pétursbréf 2: 21.-24.
Morgunverður við vatnið:
Þegar Drottinn var risinn upp frá dauðum
Jesús birtist við Tíberíasvatn
Eftir þetta birtist Jesús lærisveinunum aftur og þá við Tíberíasvatn. Hann birtist þannig: Þeir voru saman: Símon Pétur, Tómas, kallaður tvíburi, Natanael frá Kana í Galíleu, Sebedeussynirnir og tveir enn af lærisveinum hans. Símon Pétur segir við þá: "Ég fer að fiska." Þeir segja við hann: "Vér komum líka með þér." Þeir fóru og stigu í bátinn. En þá nótt fengu þeir ekkert. Þegar dagur rann, stóð Jesús á ströndinni. Lærisveinarnir vissu samt ekki, að það var Jesús. Jesús segir við þá: "Drengir, hafið þér nokkurn fisk?" Þeir svöruðu: "Nei." Hann sagði: "Kastið netinu hægra megin við bátinn, og þér munuð verða varir." Þeir köstuðu, og nú gátu þeir ekki dregið netið, svo mikill var fiskurinn. Lærisveinninn, sem Jesús elskaði, segir við Pétur: "Þetta er Drottinn." Þegar Símon Pétur heyrði, að það væri Drottinn, brá hann yfir sig flík - hann var fáklæddur - og stökk út í vatnið. En hinir lærisveinarnir komu bátnum, enda voru þeir ekki lengra frá landi en svo sem tvö hundruð álnir, og drógu netið með fiskinum. Þegar þeir stigu á land, sáu þeir fisk lagðan á glóðir og brauð. Jesús segir við þá: "Komið með nokkuð af fiskinum, sem þér voruð að veiða." Símon Pétur fór í bátinn og dró netið á land, fullt af stórum fiskum, eitt hundrað fimmtíu og þremur. Og netið rifnaði ekki, þótt þeir væru svo margir. Jesús segir við þá: "Komið og matist." En enginn lærisveinanna dirfðist að spyrja hann: "Hver ert þú?" Enda vissu þeir, að það var Drottinn. Jesús kemur og tekur brauðið og gefur þeim, svo og fiskinn. Þetta var í þriðja sinn, sem Jesús birtist lærisveinum sínum upp risinn frá dauðum. Jóhannes 21: 1.-14.
Dæmisaga frá sjónum:
Jesús birtist við Tíberíasvatn
Enn er himnaríki líkt neti, sem lagt er í sjó og safnar alls kyns fiski. Þegar það er fullt, draga menn það á land, setjast við og safna þeim góðu í ker, en kasta þeim óætu burt. Svo mun verða, þegar veröld endar: Englarnir munu fara til, skilja vonda menn frá réttlátum og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna." Matteus 13: 47.-50.
Skipbrot, en mannbjörg:
Páll postuli æðrulaus í ofviðri
Páll siglir til Rómar
Þegar ákveðið var, að vér skyldum sigla til Ítalíu, voru Páll og nokkrir bandingjar aðrir seldir í hendur hundraðshöfðingja, er Júlíus hét, úr hersveit keisarans. Vér stigum á skip frá Adramýttíum, sem átti að sigla til hafna í Asíu, og létum í haf. Aristarkus, makedónskur maður frá Þessaloníku, var oss samferða. Á öðrum degi lentum vér í Sídon. Júlíus sýndi Páli þá mannúð að leyfa honum að fara á fund vina sinna og þiggja umönnun þeirra. Þaðan létum vér í haf og sigldum undir Kýpur, því að vindar voru andstæðir. Þá sigldum vér yfir hafið undan Kilikíu og Pamfýlíu og komum til Mýru í Lýkíu. Þar fann hundraðshöfðinginn skip frá Alexandríu, er sigla átti til Ítalíu, og kom oss á það.
Siglingin gekk tregt allmarga daga. Komumst vér með herkjum móts til Knídus, en þar bægði vindur oss. Þá sigldum vér undir Krít við Salmóne. Vér beittum þar hjá með naumindum og komumst á stað einn, sem kallast Góðhafnir, í grennd við borgina Laseu.
Enn leið drjúgur tími, og sjóferðir voru orðnar hættulegar, enda komið fram yfir föstu. Páll vildi því vara þá við og sagði við þá: "Það sé ég, góðir menn, að sjóferðin muni kosta hrakninga og mikið tjón, ekki einungis á farmi og skipi, heldur og á lífi voru." En hundraðshöfðinginn treysti betur skipstjóra og skipseiganda en því, er Páll sagði. Höfnin var óhentug til vetrarlegu. Því var það flestra ráð að halda þaðan, ef þeir mættu ná Fönix og hafa þar vetrarlegu. Sú höfn er á Krít og veit til útsuðurs og útnorðurs.
Í ofviðri
Nú rann á hægur sunnanvindur. Hugðust þeir þá hafa ráð þetta í hendi sér, léttu akkerum og sigldu fram með Krít nærri landi. En áður en langt leið, skall á af landi ofan fárviðri, hinn illræmdi landnyrðingur. Skipið hrakti, og varð ekki beitt upp í vindinn. Slógum vér undan og létum reka. Vér hleyptum undir litla ey, sem nefnist Káda. Þar gátum vér með naumindum bjargað skipsbátnum. Þeir náðu honum upp og gripu til þeirra ráða, sem helst máttu til bjargar verða, og reyrðu skipið köðlum. Þeir óttuðust, að þá mundi bera inn í Syrtuflóa; því felldu þeir segl og létu reka. Daginn eftir hrakti oss mjög undan ofviðrinu. Þá tóku þeir að ryðja skipið. Og á þriðja degi vörpuðu þeir út með eigin höndum búnaði skipsins. Dögum saman sá hvorki til sólar né stjarna, og ekkert lát varð á ofviðrinu. Tók þá að þrjóta öll von um það, að vér kæmumst af.
Nú höfðu menn lengi einskis matar neytt. Þá stóð Páll upp meðal þeirra og mælti: "Góðir menn, þér hefðuð átt að hlíta mínu ráði og leggja ekki út frá Krít. Þá hefðuð þér komist hjá hrakningum þessum og tjóni. En nú hvet ég yður að vera vonglaðir, því enginn yðar mun lífi týna, en skipið mun farast. Því að á þessari nóttu stóð hjá mér engill þess Guðs, sem ég heyri til og þjóna, og mælti: ,Óttast þú eigi, Páll, fyrir keisarann átt þú að koma. Og sjá, Guð hefur gefið þér alla þá, sem þér eru samskipa.' Verið því vonglaðir, góðir menn. Ég treysti Guði, að svo muni fara sem við mig hefur verið mælt. Oss mun bera upp á einhverja eyju."
Á miðnætti, þegar vér höfðum hrakist um Adríahaf í hálfan mánuð, þóttust skipverjar verða þess varir, að land væri í nánd. Þeir vörpuðu grunnsökku, og reyndist dýpið tuttugu faðmar. Aftur vörpuðu þeir grunnsökku litlu síðar, og reyndist dýpið þá fimmtán faðmar. Þeir óttuðust, að oss kynni að bera upp í kletta, og köstuðu því fjórum akkerum úr skutnum og þráðu nú mest, að dagur rynni. En hásetarnir reyndu að strjúka úr skipinu. Þeir settu bátinn útbyrðis og þóttust vera að færa út akkeri úr framstafni. Þá sagði Páll við hundraðshöfðingjann og hermennina: "Ef þessir menn eru ekki kyrrir í skipinu, getið þér ekki bjargast." Hermennirnir hjuggu þá festar bátsins og létu hann fara. Undir dögun hvatti Páll alla að neyta matar og sagði: "Þér hafið nú þraukað hálfan mánuð fastandi og engu nærst. Það er nú mitt ráð, að þér fáið yður mat. Þess þurfið þér, ef þér ætlið að bjargast. En enginn yðar mun einu hári týna af höfði sér." Að svo mæltu tók hann brauð, gjörði Guði þakkir í allra augsýn, braut það og tók að eta. Urðu nú allir hressari og fóru líka að matast. Alls vorum vér á skipinu tvö hundruð sjötíu og sex manns. Þá er þeir höfðu etið sig metta, léttu þeir á skipinu með því að kasta kornfarminum í sjóinn.
Skipbrot
Þegar dagur rann, kenndu þeir ekki landið, en greindu vík eina með sandfjöru. Varð það ráð þeirra að reyna að hleypa þar upp skipinu. Þeir losuðu akkerin og létu þau eftir í sjónum, leystu um leið stýrisböndin, undu upp framseglið og létu berast undan vindi til strandar. Þeir lentu á rifi, skipið strandaði, stefnið festist og hrærðist hvergi, en skuturinn tók að liðast sundur í hafrótinu. Hermennirnir ætluðu að drepa bandingjana, svo að enginn þeirra kæmist undan á sundi. En hundraðshöfðinginn vildi forða Páli og kom í veg fyrir ráðagjörð þeirra. Bauð hann, að þeir, sem syndir væru, skyldu fyrstir varpa sér út og leita til lands, en hinir síðan ýmist á plönkum eða braki úr skipinu. Þannig komust allir heilir til lands." Postulasagan 27. 1.-44.
Ótti við menn leiðir í snöru, en þeim er borgið, sem treystir Drottni." Orðskviðirnir 29: 25.
Postulinn Páll ritaði:
Vakið, standið stöðugir í trúnni, verið karlmannlegir og styrkir." 1. Korintubréf 16: 13.
Þetta er það, sem ég minni þig á, barnið mitt, Tímóteus, með þau spádómsorð í huga, sem áður voru yfir þér töluð. Samkvæmt þeim skalt þú berjast hinni góðu baráttu, í trú og með góðri samvisku. Henni hafa sumir frá sér varpað og liðið skipbrot á trú sinni." 1. Tímóteusarbréf 1: 18.-19.
Syndum varpað í djúp hafsins:
Ef hinn réttláti naumlega frelsast, hvar mun þá hinn óguðlegi og syndarinn lenda? 1. Pétursbréf 4: 18.
Meðan vér enn vorum óstyrkir, dó Kristur á settum tíma fyrir óguðlega; En Guð auðsýnir kærleika sinn til vor, þar sem Kristur er fyrir oss dáinn meðan vér enn vorum í syndum vorum. Rómverjabréfið 5: 6, 8.
Því það kenndi ég yður fyrst og fremst, sem ég einnig hef meðtekið, að Kristur dó vegna vorra synda samkvæmt ritningunum, 4að hann var grafinn, að hann reis upp á þriðja degi samkvæmt ritningunum." 1. Korintubréf 15: 3.-4.
Hver er slíkur Guð sem þú, sá er fyrirgefur leifum arfleifðar sinnar misgjörð þeirra og umber fráhvarf þeirra, - sem eigi heldur fast við reiði sína eilíflega, heldur hefir unun af að vera miskunnsamur? Þú munt aftur miskunna oss, troða niður misgjörðir vorar. Já, þú munt varpa öllum syndum vorum í djúp hafsins." Míka 7: 18.-19.
Þjáningar Krists:
Krossfestingin
Þá lét Pílatus taka Jesú og húðstrýkja hann. Hermennirnir fléttuðu kórónu úr þyrnum og settu á höfuð honum og lögðu yfir hann purpurakápu. Þeir gengu hver af öðrum fyrir hann og sögðu: "Sæll þú, konungur Gyðinga," og slógu hann í andlitið. Pílatus gekk aftur út fyrir og sagði við þá: "Nú leiði ég hann út til yðar, svo að þér skiljið, að ég finn enga sök hjá honum." Jesús kom þá út fyrir með þyrnikórónuna og í purpurakápunni. Pílatus segir við þá: "Sjáið manninn!" Þegar æðstu prestarnir og verðirnir sáu hann, æptu þeir: "Krossfestu, krossfestu!" Pílatus sagði við þá: "Takið þér hann og krossfestið. Ég finn enga sök hjá honum." Gyðingar svöruðu: "Vér höfum lögmál, og samkvæmt lögmálinu á hann að deyja, því hann hefur gjört sjálfan sig að Guðs syni;
Jesús krossfestur
Þeir tóku þá við Jesú. Og hann bar kross sinn og fór út til staðar, sem nefnist Hauskúpa, á hebresku Golgata. Þar krossfestu þeir hann og með honum tvo aðra sinn til hvorrar handar; Jesús í miðið.
Jóhannes 19. 1.-7; 17.-18.
Dauði hans
Jesús vissi, að allt var þegar fullkomnað. Þá sagði hann, til þess að ritningin rættist: "Mig þyrstir." Þar stóð ker fullt af ediki. Þeir settu njarðarvött fylltan ediki á ísópslegg og báru að munni honum. Þegar Jesús hafði fengið edikið, sagði hann: "Það er fullkomnað." Þá hneigði hann höfuðið og gaf upp andann." Jóhannes 19. 28.-30.
Greftrunin
Þeir tóku nú líkama Jesú og sveipuðu hann línblæjum með ilmjurtunum, eins og Gyðingar búa lík til greftrunar. En á staðnum, þar sem hann var krossfestur, var grasgarður og í garðinum ný gröf, sem enginn hafði enn verið lagður í. Þar lögðu þeir Jesú, því það var aðfangadagur Gyðinga, og gröfin var nærri." Jóhannes 19. 40.-42.
Upprisa Krists
Tóma gröfin. Hann er upprisinn
En í afturelding fyrsta dag vikunnar komu þær til grafarinnar með ilmsmyrslin, sem þær höfðu búið. Þær sáu þá, að steininum hafði verið velt frá gröfinni, og þegar þær stigu inn, fundu þær ekki líkama Drottins Jesú. Þær skildu ekkert í þessu, en þá brá svo við, að hjá þeim stóðu tveir menn íleiftrandi klæðum. Þær urðu mjög hræddar og hneigðu andlit til jarðar. En þeir sögðu við þær: "Hví leitið þér hins lifanda meðal dauðra? Hann er ekki hér, hann er upp risinn. Minnist þess, hvernig hann talaði við yður, meðan hann var enn í Galíleu. Hann sagði, að Mannssonurinn skyldi framseldur verða í hendur syndugra manna og krossfestur, en rísa upp á þriðja degi." Lúkas 24: 1.-7.
Drottinn kemur til lærisveinanna
Um kvöldið þennan fyrsta dag vikunnar voru lærisveinarnir saman og höfðu læst dyrum af ótta við Gyðinga. Þá kom Jesús, stóð mitt á meðal þeirra og sagði við þá: "Friður sé með yður!" Þegar hann hafði þetta mælt, sýndi hann þeim hendur sínar og síðu. Lærisveinarnir urðu glaðir, er þeir sáu Drottin; En einn af þeim tólf, Tómas, nefndur tvíburi, var ekki með þeim, þegar Jesús kom. Hinir lærisveinarnir sögðu honum: "Vér höfum séð Drottin." En hann svaraði: "Sjái ég ekki naglaförin í höndum hans og geti sett fingur minn í naglaförin og lagt hönd mína í síðu hans, mun ég alls ekki trúa." Að viku liðinni voru lærisveinar hans aftur saman inni og Tómas með þeim. Dyrnar voru læstar. Þá kemur Jesús, stendur mitt á meðal þeirra og segir: "Friður sé með yður!" Síðan segir hann við Tómas: "Kom hingað með fingur þinn og sjá hendur mínar, og kom með hönd þína og legg í síðu mína, og vertu ekki vantrúaður, vertu trúaður." Tómas svaraði: "Drottinn minn og Guð minn!" Jesús segir við hann: "Þú trúir, af því þú hefur séð mig. Sælir eru þeir, sem hafa ekki séð og trúa þó." Jóhannes 20: 19.20; 24.-29.
Festu traust þitt á Kristi
Jesús gjörði einnig mörg önnur tákn í augsýn lærisveina sinna, sem eigi eru skráð á þessa bók. En þetta er ritað til þess að þér trúið, að Jesús sé Kristur, sonur Guðs, og að þér í trúnni eigið líf í hans nafni." Jóhannes 20: 30.-31.
Ritið flytur eingöngu orð úr Heilagri ritningu - orði Guðs. Vér hvetjum yður einlæglega til að fá ykkur Biblíu og lesa hana, því að hún birtir guðlegan sannleika.
Scripture Gift Mission SGM Radstock House, Eccleston Street, London, SW1
Þýðandi M.S. Prentað í Bretlandi.
Ég ætla að birta uppáhaldssálminn hans Tóta föðurbróður míns sem nú er heima hjá Jesú í hinni nýju Jerúsalem.
1. Vort líf, það er sigling á æðandi öldum. Á aldimmri nótt gegnum boða og sker.
En áfram þó leiðinni hiklaust vér höldum. Vor hjartkæri Frelsari skipstjórinn er.
Kór.
Svo örugg vér höllum oss upp að hans hjarta, því aldrei vor Frelsari stýrir af leið.
Sé báturinn lakur, oss ber ekki' að kvarta, því bráðum á himni er þrotin öll neyð.
2. Þótt dimmt sé og kalt úti' á djúpinu tíðum, Guðs dýrmæta orð varpar ljósi á sæ.
Það léttir af ótta- og angistarhríðum. Og umbreytir stormi í hæglátan blæ.
3. Þótt stormurinn blási og öldurnar æði. Vér óðfluga nálægjumst takmarkið þreyð.
Þá enduð er sorgin í eilífðar næði. Og aflokið ferðinni, gleymd sérhver neyð.
Á morgunn 2. júní 1952 giftu mamma og pabbi sig. Ég var búin að blogga um brúðkaupsdaginn þeirra og langar mig að birta slóðina fyrir þá sem hafa áhuga að lesa um skemmtilega brúðkaupsferð sem tengist hafinu heldur betur.
http://rosaadalsteinsdottir.blog.is/blog/rosaadalsteinsdottir/entry/427641/#commentsGuð blessi ykkur öll.
Rósa Aðalsteinsdóttir
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 19:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
24.5.2008 | 16:07
Jón Steingrímsson eldklerkur og Skaftáreldar
Jón varð fyrir því láni sem barn og unglingur að læra að lesa og skrifa og síðar að fara í Hólaskóla. Ludvig Harboe og Jón Þorkelsson fóru um landið að kanna menntun þjóðarinnar. Þeir hittu Jón og var hann látinn lesa fyrir þá. Þeir borguðu skólagjöld fyrir Jón í Hólaskóla.
Snemma byrjaði Jón að tóna og prédika eins og prestur. Hann gerði sér kirkjur og kapellur úti á túni við vissar þúfur. Jón dreymdi drauma og var ráðning þeirra að hann yrði prestur.
Jón giftist Þórunni Hannesdóttir Scheving. Hún átti jarðir í Mýrdalnum sem varð til þess að þau fluttu búferlum þangað. Síðar fluttu þau að Prestbakka á Síðu. Þá var Jón orðinn prestur og var hann þangað sendur af Guði. Því hörmungarnar sem dundu þar yfir 5 árum eftir að hann flutti voru með þeim hætti að það hefði enginn getað farið í sporin hans Jóns. Eldmessan er t.d. dæmi þess.
"Sumarið 1783 urðu gríðarlegar náttúruhamfarir á Íslandi, einhver mestu eldgos sem orðið hafa á jörðinni síðustu árþúsundirnar. Eyjar risu úr hafi, jarðeldar löguðu úr jöklum, og hraun vall úr 25 km langri gossprungu suðvestur af Vatnajökli þar sem síðar heita Lakagígar. Hraunin lögðust yfir 580 ferkílómetra af landi, eitruð aska dreifðist yfir mestallt Ísland, og gosmóða mengaði himinhvolfið. Gosinu og móðunni fylgdu kuldar og harðindi - Móðurharðindin. Móðunnar var vart allt austur í Síberíu, á meginlandi Evrópu sá víða á gróðri sökum eitraðra lofttegunda, og í Skotlandi olli gosið uppskerubresti." (Björn Þorsteinsson o.fl.1991:249)
Ætt og æska Jóns Steingrímssonar
Jón Steingrímsson var fæddur föstudaginn 10. september 1728 á Þverá í Blönduhlíð í Skagafirði. Fæðing hans var 6 vikur fyrir vetur. Foreldrar Jóns voru Steingrímur Jónsson og Sigríður Hjálmarsdóttir. Föðurafi Jóns var Jón Steingrímsson (Guðmundssonar) lögréttumaður í Skagafirði. Föðuramma Jóns var Ingiríður Aradóttir (Guðmundssonar). Móðurafi Jóns var Hjálmar Stefánsson (Rafnsson). Móðuramma Jóns var Helga Guðmundsdóttir (Guðmundssonar). Jón var strax skírður af Birni Skúlasyni presti í Flugumýrarþingum. Guðfeðgin Jóns hétu Páll Skúlason og Guðný Stefánsdóttir sem var móðurafa systir Jóns. (Kristján Albertsson.1985:29-30).
Þegar Sigríður móðir Jóns var ófrísk af Jóni, dreymdi hana draum. Draumurinn var að hún gengi með hvíthyrndan hrút. Hann ætti eftir að eyðileggja heilar sveitir í landinu. Hún hafði miklar áhyggjur af þessum draumi og ákvað að segja Páli Skúlasyni drauminn. Páll réði drauminn og sagði henni að hún gengi með sveinbarn. Hann yrði yfirmaður eins og hrúturinn sem væri höfuð og herra hjarðar sinnar. Sveinbarn þetta myndi eyða einhverju slæmu þar sem hann myndi búa í framtíðinni. (Kristján Albertsson. 1973:32-33)
Foreldrar Jóns, Steingrímur og Sigríður bjuggu á Þverá. Þegar Jón var á tíunda aldursári dó faðir hans á 37. aldursári. Daginn áður en hann dó hafði hann orðið fyrir miklum fjárskaða. Um nóttina vakti fjósadrengur Jón sem Ásmundur hét og sagði honum að faðir hans væri dauður. Hann sagði einnig. "Guði sé lof, nú má ég lifa og láta sem ég vil" (Kristján Albertsson.1973:41). Jón átti fjóra bræður, Þorstein, Pálma, Helga og Steingrím. Þegar faðir Jóns dó gekk móðir Jóns með yngsta drenginn Steingrím. Hann dó þegar hann var 11 ára. (Kristján Albertsson.1973:42) Árið eftir að faðir Jóns dó flutti fjölskyldan að Ystugrund.
Fyrsta minningin, skólagangan og draumfarir
Þegar Jón var 4 ára varð sólmyrkvi. Þessi atburður var að vorlagi og Jón segir frá því að þegar sólin formyrkvaðist þá varð dimmt eins og það væri nótt. (Kristján Albertsson.1973:34)
Jón fór snemma að lesa. Það gekk frekar stirðlega fyrst, því hann hafði lært svo margt utanbókar. Móðir Jóns fór með hann til séra Jóns Magnússonar og lærði hann þar bæði settskrift og fljótaskrift. Einnig kenndi séra Jón honum latínu. (Aðalsteinn Eiríksson. 1985:9)
Þegar Jón var sjö ára fór hann með föður sínu til gegninga. Pabbi hans kenndi honum að gefa lömbum og að brynna þeim. Þeir fóru út í haga og pabbi hans kenndi honum að halda kindunum í haga. Pabbi hans hafði smíðað litla varreku sem hann notaði til að brjóta ofan af fyrir kindunum. (Kristján Albertsson. 1973:39) Stundum fór frænka Jóns með honum sem hét Guðfinna. Í eitt skipti sem þau voru saman í gegningum fældist hesturinn og fleygði þeim af baki. Lágu þau í roti þar lengi vel. Þegar farið var að leita að þeim um kvöldið fundust þau ráfandi og blóðug.
Snemma fór Jón að tóna og prédika eins og prestur. Hann stóð uppá stóru keri í búrinu og tónaði. Móður hans leiddist þessar embættisgerðir sonar síns. Hann gerði sér þá kirkjur og kapellur út á túni við vissar þúfur. (Kristján Albertsson.1973:40)
Jón fór að dreyma undarlega drauma. Dreymdi hann að hann væri í stríði við Tyrki og var það alltaf í kirkjugörðum. Dreymdi hann að hann fékk bæði högg og sár frá Tyrkjunum. Sagði hann presti sínum draumana. Réði prestur draumana: "Djöfullinn er farinn að freista þín og skelfa; með betri hlut en þú nærri getur er guð að benda þér, og stunda þú að lifa sem best. Þetta er ráðningin: Þú átt að verða prestur og meiri en ég, þar þér þótti kirkjugarðarnir margir vera, en munt eiga að berjast við einhverja balstýruga menn." (Kristján Albertsson.1973:46)
Jón fótbrotnaði á annan í páskum, sama dag og hann hafði sagt móður sinni ósatt um að hann væri veikur og gæti þess vegna ekki komið með henni í kirkju. Gert var að fótbrotinu og hann komst ekki á fætur fyrr en á uppstigningardag og þá með staf. (Kristján Albertsson.1973:46-47)
Ludvig Harboe og Jón Þorkelsson fóru um landið að kanna menntun þjóðarinnar. Jón var látinn lesa fyrir þá. Þeir sendu hann í Hólaskóla. Staðarhaldarinn Skúli Magnússon ætlaði ekki að taka snáða í skólann vegna fátæktar en Ludvig og Jón borguðu þá skólagönguna fyrir Jón. (Aðalsteinn Eiríksson.1985:13)
Á námsárunum fór Jón oft suður á land í ýmsum erindagjörðum. Hann var m.a. að kaupa fisk og flytja norður í land. (Aðalsteinn Eiríksson. 1985:16) Oft seinna meir þá fór hann í erindagjörðir víða um land vegna kaupa á fiski.
Frá Hólum brautskráðist hann sem stúdent árið 1750. Fór hann þá til móður sinnar. Þrisvar þennan vetur prédikaði hann og fyrstu prédikunina flutti hann á allraheilagramessu. Presturinn spáði því að Jón yrði góður prédikari. (Kristján Albertsson. 1973:83)
Fljótlega eftir brautskráninguna varð hann djákni á Reynisstað í Skagafirði. Staðarhaldarinn á Reynisstað var Vigfús Jónsson. Hann lést tæpum þremur árum eftir að Jón gerðist djákni þar.
Jón og Þórunn
Þórunn var ekkja Jóns Vigfússonar. Þau Jón eignuðust 4 börn. Guðlaug dó ung en þrjú komust til fullorðins ára. Það voru Vigfús, Karitas og Jón.
Jón og Þórunn feldu hugi saman. Jón missti djáknaembættið vegna þess að þau Þórunn áttu von á barni áður en þau giftu sig. Segir Jón frá fyrstu samfundum þeirra og segir frá "að undir kom fyrir tíman barnfuglinn Sigríður dóttir mín." (Kristján Albertsson. 1973:109)
Jón og Þórunn Hannesdóttir Scheving giftu sig 29 sept. 1753. Séra Halldór gaf þau saman. Þremur dögum áður trúlofaði séra Halldór þau. Brúðkaupsveislan stóð yfir í hálfan mánuð. 90 manns voru í brúðkaupsveislunni. Þegar veislan stóð sem hæst voru veitingarnar búnar og horfði til vandræða. Þá veiddust 60 laxar í ánni við bæinn og vissi enginn um að þar hafi veiðst svona mikið áður. (Árni Hermannsson o.fl. 2000:223) Í veislunni daginn eftir að Jón og Þórunn voru gefin saman segir séra Jón Magnússon við Jón. "Aldrei varstu Jón, verðugur þess að eiga hana Þórunni Hannesdóttur, þó það verði nú svo að vera" Bróðir Þórunnar sagði þá "Stendur þú ei betur með honum frænda þínum? Sá er fuglinn verstur, er í sjálfs sín hreiður drítur." (Kristján Albertsson.1973:113)
Jón og Þórunn hófu sinn búskap á Frostastöðum. Þau eignuðust 5 dætur. Sigríði, Jórunni, Guðnýju, Katrínu og Helgu. Fyrstu tvær dæturnar voru fæddar í Skagafirði.
Árið 1755 ákváðu Jón og Þórunn að flytja búferlum að Hellum í Mýrdal. Þórunn átti jarðir í Mýrdalnum.Fór Jón ásamt bróður sínum Þorsteini yfir í Mýrdalinn ásamt vinnumanni til að undirbúa að fjölskyldan flytti búferlum. Ferðin var mesta þrekraun. Þegar þeir voru staddir á Biskupsþúfu tjölduðu þeir og um nóttina varð mjög vont veður. Það snjóaði svo mikið að tjaldið fór á kaf. Það var mikið lán að snjórinn hefði ekki sligað tjaldið. Þegar þeir komu að Hamarsholti, sem er efsti bær í Vestur-Hreppum, þá þökkuðu þeir Guði fyrir að hafa komist til mannabyggða. Þeir börðu á dyr í Hamarsholti og var kallað að innan hverjir væru þarna á ferð. Þeir báðu um gistingu og var þeim vísað í hesthúsið. Síðar hitti Jón bóndann frá Hamarsholti. Þá hafði bóndinn misst allt sitt fé í fjárpest og Jón seldi honum eina kind og gaf honum eitt lamb. (Kristján Albertsson.1973:120-123)
Þegar þeir voru á leið yfir í Mýrdalinn var gos í Kötlu. (Aðalsteinn Eiríksson. 1985:16). Íverustaður Jóns og Þorsteins um veturinn var skemmukofi sem var höggvinn inn í bergið. (Aðalsteinn Eiríksson. 1985:23). Vinnumaðurinn Jón Þorgeirsson fór til Vestmannaeyjar og lést þar um veturinn. (Kristján Albertsson. 1973.:120)
Fyrsta veturinn sem Jón var í Mýrdalnum lærði hann formennsku til sjós. Hann var formaður í 5 ár. Hann fékk sér góðan bitamann sem Sveinn hét og réru þeir marga róðra. Á þessum fimm árum varð aldrei óhapp og þakkaði Jón Guði fyrir varðveisluna.
Næsta vor flutti Þórunn og fjölskylda til Jóns og þau hófu búskap á Hellum. Búskapurinn á Hellum gekk mjög vel. Með búskapnum og sjósókninni drýgði Jón tekjur sínar með silungsveiði og fuglatekju. Ári síðar fluttu svo móðir Jóns, systkinin hans og Jórunn dóttir Jóns og Þórunnar yfir í Mýrdalinn. Pálmi bróðir hans flutti svo aftur norður tveimur árum síðar.
Læknis- og prestsstörf
Þegar Jón bjó á Hellum byrjaði hann að stunda læknisstörf. Hann lærði læknisfræði og skurðlækningar síns tíma. Dvaldi oft fólk hjá Jóni og Þórunni vegna þessa. Einnig var Jón oft sóttur til að hlynna að sjúkum um nálega allt Suðurland. Hann tók ekki fé fyrir ferðir sínar og oft gaf hann fólki meðulin því lítið var um peninga til að borga fyrir þau. Bjarni Pálsson landlæknir lét Jón fá öll þau sjúkragögn sem með þurfti. Jón stundaði læknisstörf í 17 ár. (Aðalsteinn Eiríksson.1985:25)
Þegar þau hjón höfðu dvalið á Hellum í fimm ár var Jón vígður til prests í Sólheimaþingi. Vígsluathöfnin fór fram í Skálholti. (Ráðning drauma stráksins í Skagafirði hafði ræst). Þau sæmdarhjón fluttu að Felli sem var við bakka Klifanda. (Aðalsteinn Eiríksson. 1985:26). Á Felli vann hann að miklum endurbótum á jörðinni. Þóttu verk hans það mikið afrek að hann var sæmdur af konungi medalliu og peningaverlaunum fyrir verk sín. Einnig var honum veitt viðurkenning fyrir læknisstörf og mannúðarverk. Jón var fyrsti Íslendingurinn sem var sæmdur medalliu og var viðurkenningin afhent á Þingvöllum. Þar voru staddir Skálholtsbiskup, stiftamaður og flest stórmenni þjóðarinnar. (Aðalsteinn Eiríksson. 1985:27)
Í ýmsum raunum lentu Jón og Þórunn. Börn Þórunnar sem hún átti með Jóni Vigfússyni, ólust upp hjá þeim. Jón Scheving fóstursonur Jóns var óstöðugur, brúkaði pretti og var ekki skilvís. Hann var sendur til Kaupmannahafnar og fékk allan sinn föðurarf. Þessi ráðstöfun var gerð í von um að Jón sæi að sér. Kom Jón aftur til Íslands næsta vor og seldi hluta af jörð móður sinnar sem var í Skagafirð. Einnig seldi hann eignir sem hann og bróðir hans áttu saman. Eftir það fór Jón til Danmerkur. Jón Steingrímsson fór á fund sýslumanns og gat aftrað sölunni áður en eignin var þinglýst nýjum eiganda. Jón þurfti s.s að kaupa jörðina í Mýrdal aftur til sín svo Vigfús fóstursonur hans gæti búið þar. Þegar Jón Scheving fréttir þetta þá fór hann til Björns Árnasonar og lét hann hafa peninga til að skrökva því að hann hefði drepið Jón fyrri mann Þórunnar fyrir bón Jóns og Þórunnar. (Kristján Albertsson. 1973:155-160) Fór fram rannsókn og var Björn Árnason fluttur til Íslands til yfirheyrslu. Og kom þá í ljós að Björn og Jón höfðu slegist kvöldið áður en Jón lést og sennilega hafa slagsmálin haft áhrif á dauða Jóns Vigfússonar. (Kristján Albertsson.1973:163-164) Jón fór á fund Skúla fógeta og sagði Skúli honum þá þessi tíðindi og var miklu fargi létt af Jóni.
Þegar Jón var búinn að vera prestur Mýrdælinga í 17 ár þá ákvað hann að finna sér léttara starf en samt tekjumeira. Þá fékk hann starf á Kirkjubæjarklaustri. Þetta var árið 1778. Fluttist hann og fjölskyldan að Prestbakka og gekk allt mjög vel fyrstu fimm árin. (Aðalsteinn Eiríksson 1985:30)
Jón sagði: Hér lifðu menn í sælgæti matar og drykkjar, sumir orðnir svo matvandir, einkanlegast þjónustufólk, húsgangslýður og letingjar, að ei vildu nema þá allra bestu og krydduðu fæðu. Drykkjuskapur og tóbakssvall fór að sama lagi, að á einu ári upp gekk hér í gildi, heimboð og þess kyns brennivín upp á 4000 fiska, eftir sem ég með öðrum vitanlega samreiknuðum, er svo hátt steig, að prestar fundust þeir hér, sem ei þóttust geta framflutt með reglu og andakt guðsþjónustugjörð nema fyrir brennivíns tilstyrk, hverjum og svo urðu síðan sín hús í eyði látin, og margra annarra sem féllu á sömu sveif. (Kristján Albertsson. 1973:344).
Jón sagði líka frá því að margir vissu ekki hversu ríkir þeir væru af sauðpeningi en þó að sumir vissu hvað þeir ættu af sauðpeningi þá fannst Jóni tíundargjörð og afdráttur til kóngs, kirkju og prests hafa minnkað miðað við hvað allt gekk vel.
Jóni bárust fréttir af undarlegum fyrirbærum s.s. vatnsskrímslum í Feðgakvísl í Meðallandi. Eldingu hafði lostið niður í fjárhús og varð lamb fyrir eldingunni. Klukknahljóð heyrðust í lofti og pestarflugur höfðu sést á Síðu. (Aðalsteinn Eiríksson. 1985:35) Þær voru dökkrauðar, gular og svartröndóttar. Þær voru svo stórar og digrar sem þumalfingursliður er á karlmanni. (Kristján Albertsson.1973:345). Óvenjumikið var um að lömb og kálfar fæddust vansköpuð. Jóni fannst þetta allt benda til að þetta væri fyrirboði stórtíðinda og taldi hann að það boðaði eitthvað slæmt. (Kristján Albertsson.1973:345) Jón sagði að Guð hafi bent sér og fleirum, bæði í vöku og svefni að þeir skyldu búa sig undir yfirhangandi og ókomið straff. (Kristján Albertsson. 1973:346)
Jarðskjálftakippir og eldgos
Það áraði vel á vormánuðum í Skaftafellsýslu 1783. En á norðurlandi var kuldatíð og hafís var landfastur. Á uppstigningadag, 29. maí byrjuðu jarðskjálftakippir í Skaftafellssýslu
8. júní á hvítasunnuhátíð var veður mjög gott í byrjun dags. Þá kom upp fyrir norðan næstu byggðarfjöll á Síðunni svart sandmistur og mökkur svo stór, að hann á stuttum tíma breiddi yfir alla Síðuna og nokkuð af Fljótshverfinu, svo þykkt að dimmt varð í húsum og sporrækt á jörðu. (Kristján Albertsson.1973:346). Þannig lýsti Jón fyrsta degi gossins sem átti eftir að hafa afdrifarík áhrif á alla Íslendinga og áhrifin teygðu sig út fyrir landsteinanna.
Fyrstu dagana eftir gos var mikil úrkoma. Þrátt fyrir mikla úrkomu minnkaði árstraumurinn í Skaftá. Rigningarvatnið var skolleitt og virðist hafa verið eitrað. Brunablettir komu á nýrúið fé. Göt komu á njólablöð og plöntur. Fólk sveið í augun og á bert hörundið. Einnig áttu margir, sérstaklega þeir sem voru veikir erfitt með andardrátt. (Aðalsteinn Eiríksson.1985:53)
20. júlí, sem var sunnudagur, var hraunstraumurinn aðeins í tveggja kílómetra fjarlægt frá kirkjunni á Síðu. Fólk streymdi til kirkju og óttaðist að það yrði í síðasta skipti sem það gæti sótt kirkjuna því hraunstraumurinn stefndi í áttina að kirkjunni þeirra.
Þegar fólkið kom að kirkjunni var þykk hitasvækja og þoka svo að kirkjan sást varla fyrr en fólkið var alveg komið að henni. Á meðan fólkið var í kirkju gekk mikið á. Skruggur með eldingum svo miklar kippum saman, að leiftraði inn í kirkjuna og sem dvergmál tæki í klukkunum, en jarðhræringin iðugleg (Kristján Albertsson. 1973:362)
Jón hóf upp raust sína og bað Drottin um miskunn og náð. Hann sagði: Sú stóra neyð, sem nú var á ferð og yfirhangandi, kenndi mér nú og öðrum að biðja Guð með réttilegri andtakt, að hann af sinni náð vildi ei í hasti eyðileggja oss og þetta sitt hús, þá var og svo hans almættiskraftur mikill í vorum breyskleika. (Kristján Albertsson.1973:362) Allir voru að biðja um náð Guðs. Fólkið virtist óskelft inni í kirkjunni. Allavega fór enginn á meðan á messunni stóð. Guðþjónustugjörðin var jafnlengi og venjulega.
Á meðan á messunni stóð stöðvaðist hraunið í farvegi Skaftár hjá Systrastapa sem er skammt vestan við Kirkjubæjarklaustur. Fram í október hélst gosið óslitið en síðan slitrótt fram í febrúar næsta ár.
Jón talaði um að prjónaskapur konu sinnar hafi bjargað búi þeirra á þessum erfiðu tímum. 20 manns var í heimili þeirra og prjónaði Þórunn fyrir allt sitt heimilisfólk. Prjónaskapur hennar var mjög vel gerður og þéttur. Það var leitun að svona góðum prjónaskap. (Árni Hermannsson o.fl. 2000:232)
Danir söfnuðu mat og peningum
Danir söfnuðu mat og peningum fyrir nauðstadda Íslendinga. Var sent skip um haustið til Íslands en það þurfti að snúa við og hafa vetursetu í Noregi. Um vorið 1784 komst skipið svo loksins til Íslands. Jón fékk sextíu ríkisdali til að ráðstafa sjálfur og sex hundruð ríkisdali í innsigluðu böggli sem hann átti að færa sýslumanni í Vestur-Skaftafellssýslu. Sýslumaðurinn í Vík og klausturshaldarinn á Kirkjubæjarklaustri áttu að skipta þessum peningum á milli þeirra sem ætluðu yfir í Múlasýslu til skepnukaupa. Á leið sinni austur brá Jón sér í læknisferð og á meðan braut klausturshaldarinn upp innsiglið á bögglinum og lét einn bónda hafa 8 ríkisdali og sjálfur tók hann 20 ríkisdali. Svo skipaði hann Jóni að fara með afganginn til sýslumanns. (Aðalsteinn Eiríksson. 1985:90)
Á leiðinni sátu fyrir Jóni flestallir sóknarmenn hans og báðu hann að útvega sér peninga. Þannig að Jón var í miklum vanda staddur. Vorið 1786 kom fyrirskipun frá stjórninni til biskups og stiftamtmanns að þeir skyldu finna hæfilega refsingu fyrir Jón vegna þess að hann hafi ekki komið bögglinum innsigluðum til skila. Jón hafði miklar áhyggjur af þessu en sem betur fer var dómurinn vægur. Jón átti að biðjast afsökunar opinberlega og borga 5 ríkisdala sekt sem átti að fara til fátækra presta. (Aðalsteinn Eiríksson. 1985:101)
Jón taldi að peningar af söfnunarfénu hafi orðið til hjálpar. Hann keypti sér bát og net fyrir þá 60 ríkisdali sem hann fékk. Á næstu árum notaði hann þennan búnað einkunn til að veiða sel sem synti upp í árósana. (Aðalsteinn Eiríksson. 1985:92)
Þórunn dó 4. okt. 1784. Þá var það þröngt í búi hjá Jóni. Vinur hans Pétur Sveinsson lét hann hafa sauð vegna útfararkostnaðar Þórunnar. Árið 1787 giftist Jón, Margréti Sigurðardóttir. Annaðist Margrét Jón í veikindum hans. Hagur Jóns vænkaðist að nýju. Dætur hans giftust allar prestum í Vestur-Skaftafellssýslu. Jón lést 11 ágúst 1791. Hann var jarðsunginn á Kirkjubæjarklaustri frá sóknarkirkju sinni. Bein hans hvíla langt frá skagfirsku þúfunum þar sem hann messaði sem lítill drengur en stutt frá þeim stað sem margir báðu Drottinn um hjálp í eldmessunni frægu. (Aðalsteinn Eiríksson. 1985:101).
Skaftáreldar og Móðuharðindin
Gosið átti upptök sín á suðvesturhluta gossprungunnar, þar sem hét Varmárdalur. Varmárdalur og Skaftárgljúfur, sem voru allt að 200 m. djúp, fylltust af hrauni, sem breiddi síðan úr sér á láglendinu á Síðu og eyddi mörgum bæjum. (Vefsíða: Lakagígar) Gossprungan var um 25 km löng. Hraunið fór yfir 580 ferkílómetra lands.
Áhrif gossins voru gífurleg. Mikið land fór undir hraun. Fólk missti jarðir sínar og hús undir hraunið. Veðráttan breyttist og kólnaði. Óvenjumikið var um hafís. Mistur og móða lá yfir öllu landinu um sumarið svo varla sást til sólar. Aska og eiturefni bárust um allt land og jörð var sviðin, grasið visnaði og heyfengur brást. Skepnurnar dóu vegna heyskorts og flúoreitrunar. (Árni Daníel Júlíusson o.fl. 1991:212) Mannfall var mikið. Sumarið 1785 hafði fimmti hver Íslendingur látist eða um 10 þúsund manns. (Björn Þorsteinsson o.fl. 1991:252). Meira að segja það varð uppskerubrestur á Norður-Skotlandi og kuldatíð var víða um heim vegna Skaftárelda.
Móðan náði víða um heim. Öskuryk barst yfir til meginlands Evrópu og mistur sást í lofti í Kína. (Vefsíða: Skaftáreldar). Einnig náði móðan alla leið til Síberíu og einnig til Ameríku og Afríku.
Tomas Jefferson (Varð síðar forseti Bandaríkjanna) var mikill áhuga maður um veðurfræði. Hann hélt nákvæma skrá yfir hitastigið á þessum árum. Síðsumar 1783 kólnaði og næstu þrjú árin var mjög kalt. Höfnin í New York lokaðist í 10 daga vegna ísa og sleðafært var um mörg sund sem aldrei áður hafði gerst svo vitað væri. (Vefsíða: Skaftáreldar)
Benjamín Franklin var sendiherra Bandaríkjanna í Frakklandi og bjó hann í París. Hann sagði að þykk bláleit móða skyggði á sólina um alla Evrópu. (Vefsíða: Skaftáreldar)
Í Þýskalandi var sumarið 1783 nefnt bláa sumarið. Þoka og mistur grúfði sig yfir landið allt sumarið. (Vefsíða: Skaftáreldar)
Um sumarið 1783 var undarleg móða eða reykjarþoka í lofti bæði á Englandi og megnilandi Evrópu. Sólin um hádegisbil var ekki bjartari en tungl sem var bak við ský. Sólin var svo rauð og fölleit. (Aðalsteinn Eiríksson. 1985:71)
Gosinu lauk 7. febr. 1784. Móðurharðindunum lauk sumarið 1785. Bólusótt herjaði á landsmenn og það var ekki fyrr en 1787 sem fólki fór að fjölga á ný. Þá fóru jarðir í Vestur-Skaftafellssýslu að byggjast á nýjan leik. (Árni Daníel Júlíusson o.fl. 1991:212)
Lokaorð
Guð hafði útvalið Jón Steingrímsson sem sendiboða sinn. Ég sé þráð í allri ævisögu hans sem er undirbúningur að því starfi sem Guð hafði útvalið hann í. Jón lærði að lesa og skrifa. Hann fór í skóla. Hann giftist Þórunni sem átti jarðir í Mýrdalnum. Þess vegna flytja þau í Mýrdalinn í áttina að þeim stað sem Guð ætlaði að nota Jón. Hann hlynnir að sjúkum. Hann var örlátur á matargjafir og alla þá hjálp sem þurfti með. Svo gerist hann prestur og 1773 er hann orðinn prófastur fyrir Vestur-Skaftafellsýslu. Eftir langa veru í Mýrdalnum flyst hann yfir á Síðu. Hann sést að á Prestbakka og gerist prófastur í öllu Skaftafellsþingi árið 1779. Fimm fyrstu árin á Prestbakka gekk vel hjá Jóni. Honum þótti samt lýðurinn fjarlægast Guð. Svo dynur á ógn og skelfing og þá var Jón rétti maðurinn á réttum stað til að standa með fólkinu.
Ýmsar hörmungar og erfiðleikar þurftu Jón og Þórunn að ganga í gegnum. Það hlýtur að hafa verið sárt þegar Jón sonur Þórunnar bregst þeim Jóni og fær mann til að skrökva því að þau hefðu beðið hann að drepa Vigfús föður Jóns Scheving. Jón varð fyrir illgirni og rógi allt frá barnæsku. Margir áttu í deilum og málaferlum við Jón. Sumt var lítilmannlegt en sumt var gert af stráksskap þegar menn rökuðu allt taglið af reiðhesti Jóns eða skáru alla hnappana af prestshempunni nema efsta og neðsta. Margir öfunduðust út í Jón og fannst honum margir ofsækja hann fyrir vikið.
Jón var með ríkari mönnum fyrir Skaftárelda. Hann lúrði ekki á ríkidæmi sínu heldur hjálpaði öllum eins og hann gat. Þegar Þórunn dó, hjálpar vinur hans honum með útfararkostnað.
Heimildir
Aðalsteinn Eiríksson.1985. Jón Steingrímsson og móðurharðindin 2. útg. Reykjavík, Námsgagnastofnun.
Árni Hermannsson o.fl. 2000. Íslands-og Mannkynssaga NB 1. Reykjavík, Nýja bókafélagið ehf.
Árni Daníel Júlíusson, Jón Ólafur Ísberg og Helgi Skúli Kjartansson. 1991. Íslenskur Sögu Atlas 3. útg. Reykjavík, Iðunn.
Björn Þorsteinsson og Bergsteinn Jónsson. 1991. Íslandssaga til okkar daga. Reykjavík, Sögufélagið.
Kristján Albertsson. 1973. Jón Steingrímsson. Ævisaga og önnur rit. Reykjavík, Helgarfell.
Vefsíða um Skaftárelda 1783: http://www.islandia.is/hamfarir/jardfraedilegt/eldgos/skaftareldar.html
Vefsíða um Lakagíga: http://www.nat.is/travelguide/lakagigar_ferdavisir.htm
Endilega skoðið vefssíðurnar:
20. júlí 2008 verða 225 ár frá því að Séra Jón Steingrímsson flutti messu í Kirkjubæ.
Messan hefur síðan verið kölluð "Eldmessan"
Trúmál og siðferði | Breytt 31.5.2008 kl. 17:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (113)
21.5.2008 | 11:48
Gjafir Andans - Náðargjafirnar.
Christian Glitter by www.christianglitter.com
Gjafir Andans - Náðargjafirnar.
Eftir Michael Harper
Þýðandi ókunnur.
Biblíulestur úr enska blaðinu RENEWAL." Biblíulestur sem mun fjalla um ýmsar hliðar á endurnýjun í Heilögum Anda.
Heppilegt til notkunar fyrir hópa eða einstaklinga.
1. Hvað eru náðargjafir?
Þeim er lýst í 1. Kor. 12:1 - 11.*
1) En svo ég minnist á gáfur andans, bræður, þá vil ég ekki að þér séuð fáfróðir um þær.
2) Þér vitið, að þegar þér voruð heiðingjar, þá létuð þér leiða yður til mállausra skurðgoðanna, rétt eins og verkast vildi.
3) Fyrir því læt ég yður vita, að enginn, sem talar af Guðs anda, segir: ,,Bölvaður sé Jesús!" og enginn getur sagt: ,,Jesús er Drottinn!" nema af heilögum anda.
4) Mismunur er á náðargáfum, en andinn er hinn sami,
5) og mismunur er á embættum, en Drottinn hinn sami,
6) og mismunur er á hæfileikum að framkvæma, en Guð hinn sami, sem öllu kemur til leiðar í öllum.
7) Andinn opinberast í sérhverjum til þess, sem gagnlegt er.
8) Einum er fyrir andann gefið að mæla af speki, öðrum að mæla af þekkingu í krafti sama anda.
9) Hinn sami andi veitir einum trú, öðrum lækningagáfu
10) og öðrum kraft til að framkvæma undur. Einn fær spádómsgáfu, annar hæfileika að greina anda, einn að tala tungum og annar að útleggja tungutal.
11) En öllu þessu kemur til leiðar eini og sami andinn, og hann útbýtir hverjum einum eftir vild sinni."
a) Andagáfur: (andlegar gáfur, grískar: Pneumatika, 1. Kor. 12: 1.*
Biblían greinir á milli hins náttúrulega og hins andlega. Orðið yfirnáttúrulegur" á sér ekki hliðstæðu úr gríska Nýja testamentinu. Þó að gjafir andans starfi gegnum mannlegt eðli okkar, þá eru þær andlegar, sem, þýðir að þær eru guðdómlegar að uppruna en ekki mannlegar. Sjá spurningu nr. 4 til nánari útskýringar.
Gáfur, gjafir: (gr. Charismata), 1 Kor. 12: 4,9.* Þær eru gjafir Guðs, gefnar ókeypis, en ekki fyrir verðleika okkar.
Embætti: (þjónustur, gr. Diakoniai), 1. Kor. 12: 5.* Tilgangurinn með veitingu þeirra er þjónusta við aðra, en ekki fyrst og fremst að veita okkur blessun. En þar sem sælla er að gefa en þiggja" Post. 20:35, njótum við góðs af um leið og við þjónum öðrum á þennan hátt.
Í öllu sýndi ég yður, að með því að vinna þannig ber oss að annast óstyrka og minnast orða Drottins Jesú, að hann sjálfur sagði: ,Sælla er að gefa en þiggja." Post. 20: 35.
Framkvæmdir: (kraftaverk, gr. Energemata), 1. Kor. 12: 6.* Hér er fyrst og fremst um að ræða augnabliks kraftaverkareynslu" við sérstakar kringumstæður, en síður sem varanlega hæfileika. Guðdómleg orka leysis úr læðingi á þennan hátt.
Opinberun Andans: (gr. Phanerosis), 1.Kor. 12: 7.* Slíkar opinberanir hafa varanleg og greinanleg áhrif á fólk eða kringumstæður. Líkt og á Hvítasunnudag heyrir fólk og sér Guð að verki" Post. 2: 33.
Nú er hann upp hafinn til Guðs hægri handar og hefur af föðurnum tekið við Heilögum Anda, sem fyrirheitið var, og úthellt honum, eins og þér sjáið og heyrið." Post. 2: 33.
Náðargjafir eru ákveðnar framkvæmdir (gr. Energemata) sem eru faldar mönnum af Heilögum Anda (pneumatika) og veitast þeim ókeypis (charismata) og opinberast (phanerosis) í gegnum mannleg skilningsvit (t.d. huga, munn hendur) til að þjóna öðrum mönnum (diakoniai) þeim til blessunar og Guði til dýrðar.
b) Mismunandi náðargjafir; sem nefndar eru í Nýja Testamentinu:
Í 1. Kor. 12: 8.-10.* Eru nefndar 9 gjafir, þ.e, mæla af speki, mæla af þekkingu, trú, lækningagáfur, framkvæmdir kraftaverka, spámannleg gáfa, greining anda, tungutal og útlegging tungna.
Í 1. Kor. 7.7.-9. er talað um hjónaband og einlífi sem náðargjafir.
En þess óska ég, að allir menn væru eins og ég er sjálfur, en hver hefur sína náðargjöf frá Guði, einn þessa og annar hina. Hinum ókvæntu og ekkjunum segi ég, að þeim er best að halda áfram að vera ein eins og ég. En hafi þau ekki taumhald á sjálfum sér, þá gangi þau í hjónaband, því að betra er að ganga í hjónaband en að brenna af girnd."
Í Róm. 12: 7.-8. Nefnir auk áðurnefndra náðargjafa: þjónustu, kennslu, áminningu, útbýtingu, forstöðu og iðkun miskunnsemi.
Sé það þjónusta, skulum vér þjóna. Sá sem kennir, hann kenni, sá sem áminnir, hann áminni. Sá sem útbýtir gjöfum, gjöri það í einlægni. Sá sem veitir forstöðu, sé kostgæfinn og sá sem iðkar miskunnsemi, gjöri það með gleði." Róm. 12: 7.-8.
Efes. 4: 11. Postular, spámenn, trúboðar, hirðar, kennarar.
Og frá honum er sú gjöf komin, að sumir eru postular, sumir spámenn, sumir trúboðar, sumir hirðar og kennarar." Efes. 4: 11.
c) Aðrar gjafir:
Nýja Testamentið gefur okkur ekki tæmandi lista yfir hinar ýmsu gjafir Heilags Anda. T.d. má nefna tónlist, þegar einstaklingi er gefið bæði lag og ljóð í lofsöng til Guðs, en slíkt er ekki nefnt sem sérstök náðargjöf í Nýja Testamentinu.
Náðargjafirnar koma ekki fram sem óskeikull boðskapur eða gjörðir hjá einstaklingum. Þær eiga að koma fram innan og í réttu samhengi í söfnuðinum, sem veitir réttan aga og einnig öryggi. Þeir sem bera fram opinberanir af Heilögum Anda (í orði og verki) á annan hátt, verða alltaf að vera undirgefnir t.d. öldungum og leiðtogum.
2. Hvaða hlutverki gegna náðargjafirnar?
Þegar þessar gjafir eru ósviknar (innblásnar af Anda Guðs), réttilega iðkaðar og þeim veitt viðtaka með þakklæti, gerist eftirfarandi.
- a) Náðargjafirnar vegsama Krist:
Hann mun gjöra mig dýrlegan, því af mínu mun hann taka og kunngjöra yður. Allt sem faðirinn á, er mitt. Því sagði ég, að hann tæki af mínu og kunngjörði yður." Jóh. 16. 14.-15.
Fyrst Guð gaf þeim nú sömu gjöf og oss, er vér tókum trú á Drottin Jesú Krist, hvernig var ég þá þess umkominn að standa gegn Guði?" Þegar þeir heyrðu þetta, stilltust þeir, og þeir vegsömuðu Guð og sögðu: ,,Guð hefur þá einnig gefið heiðingjunum afturhvarf til lífs." Post. 11. 17.-18.
b) Þær sannfæra heiminn um sannleikann:
Hann mun gjöra mig dýrlegan, því af mínu mun hann taka og kunngjöra yður. Allt sem faðirinn á, er mitt. Því sagði ég, að hann tæki af mínu og kunngjörði yður." Jóh. 16: 13.
Fyrst Guð gaf þeim nú sömu gjöf og oss, er vér tókum trú á Drottin Jesú Krist, hvernig var ég þá þess umkominn að standa gegn Guði?" Þegar þeir heyrðu þetta, stilltust þeir, og þeir vegsömuðu Guð og sögðu: ,,Guð hefur þá einnig gefið heiðingjunum afturhvarf til lífs." Mark. 16: 17.-18.
Þeir voru allir furðu lostnir og ráðalausir og sögðu hver við annan: ,,Hvað getur þetta verið?" En aðrir höfðu að spotti og sögðu: ,,Þeir eru drukknir af sætu víni." Post. 2: 12.-13.
,,Hvað eigum vér að gjöra við þessa menn? Því að augljóst er öllum Jerúsalembúum, að ótvírætt tákn er orðið af þeirra völdum. Vér getum ekki neitað því." Post. 4: 16.
Stefán var fullur af náð og krafti og gjörði undur og tákn mikil meðal fólksins." Post. 6: 8.
Þegar landstjórinn sá þennan atburð, varð hann gagntekinn af kenningu Drottins og tók trú." Post. 13: 12.
- c) Leiðbeina söfnuðinum í útnefningu starfsmanna:
Í söfnuðinum í Antíokkíu voru spámenn og kennarar. Þar voru þeir Barnabas, Símeon, nefndur Níger, Lúkíus frá Kýrene, Manaen, samfóstri Heródesar fjórðungsstjóra, og Sál. Eitt sinn er þeir voru að þjóna Drottni og föstuðu sagði heilagur andi: ,,Skiljið frá mér til handa þá Barnabas og Sál til þess verks, sem ég hef kallað þá til." Síðan föstuðu þeir og báðust fyrir, lögðu hendur yfir þá og létu þá fara." Post. 13: 1.-3.
Þetta er það, sem ég minni þig á, barnið mitt, Tímóteus, með þau spádómsorð í huga, sem áður voru yfir þér töluð. Samkvæmt þeim skalt þú berjast hinni góðu baráttu, í trú og með góðri samvisku." 1. Tím. 1: 18.
Og í trúboði: Þeir fóru um Frýgíu og Galataland, því heilagur andi varnaði þeim að boða orðið í Asíu." Post. 16: 6.
Stundum veitist náðargjafirnar (staðfesting), en sérhver ætti þó að fara með gát í þessu. Við eigum. Við eigum fyrst og fremst að beygja okkur undir þá handleiðslu sem söfnuðurinn í heild veitir í visku og vilja, nema í mjög persónulegum málefnum.
- d) Náðargjafirnar uppbyggja söfnuðinn (og einstaklinginn, þegar hann talar í tungum.
Ávallt þakka ég Guði mínum yðar vegna fyrir þá náð, sem hann hefur gefið yður í Kristi Jesú." 1. Kor. 14: 4.
- e) Þær lækna,m sál og anda: Lestu um lækningarstarfið í söfnuðinum skv. Frásögum Postulasögunnar.
Náðargjafirnar bæta ekki við hina eilífu opinberun Guðs í Ritningunum. Þær eru heldur ekki merki um helgun.
3. Hjá hverjum koma náðargjafirnar fram?
Í raun og veru er því þannig varið að náðargjafirnar eru ekki eign okkar, heldur notum við þær, höfum þær að láni." Hjá hverjum koma þær fram?
Kristnum mönnum almennt: Sérhver limur á líkama Krists hefur aðgang að slíkri yfirnáttúrulegri hjálp, sem birtist í gjöf Andans.
Andinn opinberast í sérhverjum til þess, sem gagnlegt er. Einum er fyrir andann gefið að mæla af speki, öðrum að mæla af þekkingu í krafti sama anda. Hinn sami andi veitir einum trú, öðrum lækningagáfu og öðrum kraft til að framkvæma undur. Einn fær spádómsgáfu, annar hæfileika að greina anda, einn að tala tungum og annar að útleggja tungutal. En öllu þessu kemur til leiðar eini og sami andinn, og hann útbýtir hverjum einum eftir vild sinni." 12: 7.-11.
Leiðtogum safnaðarins. Slíkir menn öðlast sérstakar náðar-gjafir til þess að geta innt af hendi sitt ábyrgðarmikla hlutverki í söfnuðinum.
Vanræktu ekki náðargjöfina þína, sem var gefin þér að tilvísan spámanna og með handayfirlagningu öldunganna." 1. Tím. 4: 14.
Postulatákn voru gjörð á meðal yðar af mikilli þrautseigju, tákn, undur og kraftaverk."
2. Kor. 12: 12.
Ótta setti að hverjum manni, en mörg undur og tákn gjörðust fyrir hendur postulanna."
Post. 2: 43.
En vantrúa Gyðingar vöktu æsing með heiðingjum og illan hug gegn bræðrunum."
Post 14: 2.
Hjá vantrúuðum: Við getum ekki fundið neina frásögn í Nýja testamentinu þar sem kemur fram að vantrúaðir menn (ekki kristnir) hafi notað ósviknar gjafir af Heilögum Anda, þrátt fyrir að okkur sé gefin aðvörun um allskonar kraft og tákn og undur lyginnar." Þér munið, bræður, eftir erfiði voru og striti: Vér unnum nótt og dag, til þess að vera ekki neinum yðar til þyngsla, um leið og vér prédikuðum fyrir yður fagnaðarerindi Guðs."1. Þess. 2: 9.
En í Gamla testamentinu lesum við hins vegar um t.d. Bíleam, sem spáði* og um Kýrus, sem Drottinn smurði"* en hvorugur þessara manna var barn Gyðinga-sáttmálans. Viðhorf okkar ætti því að vera sama og Jesú Krists, er hann var spurður um þetta atriði af lærisveinum sínum. Hann svaraði: Jóhannes tók til máls:
*"Þegar Bíleam sá, að það var gott í augum Guðs að blessa Ísrael, gekk hann ekki burt eins og í fyrri skiptin til að leita spáfrétta, heldur hélt á leið til eyðimerkurinnar. Og er Bíleam hóf upp augu sín og sá Ísrael, þar sem hann lá í herbúðum eftir kynkvíslum sínum, kom andi Guðs yfir hann. Flutti hann þá kvæði sitt og mælti: Svo mælir Bíleam Beórsson, svo mælir maðurinn, sem byrgð hefir augun. Svo mælir hann, sem heyrir orð Guðs, sem sér sýn Hins Almáttuga, hnígandi niður og með upp loknum augum: Hve fögur eru tjöld þín, Jakob! bústaðir þínir, Ísrael! Eins og víðir árdalir, eins og aldingarðar á fljótsbökkum, eins og alóetré, er Drottinn hefir gróðursett, eins og sedrustré við vötn. Vatn rennur úr skjólum hans, og sáð hans hefir nægt vatn. Konungur hans mun meiri verða en Agag, og konungdómur hans mun verða vegsamlegur. Sá Guð, sem leiddi hann af Egyptalandi, er honum sem horn vísundarins. Hann upp etur óvinaþjóðir, og bein þeirra brýtur hann og nístir þá með örvum sínum. Hann leggst niður, hvílist sem ljón og sem ljónynja, - hver þorir að reka hann á fætur? Blessaður sé hver sá, sem blessar þig, en bölvaður sé hver sá, sem bölvar þér." 4. Mós. 24: 1.-9.
*"Svo segir Drottinn við sinn smurða, við Kýrus, sem ég held í hægri höndina á, til þess að leggja að velli þjóðir fyrir augliti hans og spretta belti af lendum konunganna, til þess að opna fyrir honum dyrnar og til þess að borgarhliðin verði eigi lokuð:" Jes. 45: 1.
*,,Meistari, vér sáum mann reka út illa anda í þínu nafni, og vildum vér varna honum þess, af því að hann fylgir oss ekki." En Jesús sagði við hann: ,,Varnið þess ekki. Sá sem er ekki á móti yður, er með yður." Lúk. 9: 49-50.
4. Hvernig koma náðargjafirnar fram?
- a) Þær starfa í gegnum mannlegt eðli fyrir frumkvæði og kraft Heilags Anda:
Heilagur Andi notar hin venjulegu sálrænu og huglægu skilningarvit til þess að koma áleiðis eigin hugsunum. Orð hans koma frá vörum okkar og máttar hans um hendur okkar. Guð notar þannig mannlegt hold. Hann getur einnig gengið alveg framhjá því, en kýs þó sjaldan að gera slíkt. Þess vegna er það jafnan svo, að okkar mannlega eðli, menningarlegi bakgrunnur og hefðir koma skýrt fram í því sem við segjum og gerum og hvernig við förum að.
- b) Gjafir andans koma fyrst upp í anda mannsins, en ekki í huga eða sálu hans:
Því að ef ég biðst fyrir með tungu, þá biður andi minn, en skilningur minn ber engan ávöxt." 1. Kor. 14: 14. Eiginl. liggur ónotaður.
Hugur okkar, vilji og tilfinningar gegna áfram sínu hlutverki, en frumkvæmið kemur ekki þaðan, heldur frá anda okkar. Heilagur Andi sem er sameinaður anda okkar, (ef við erum kristin), mun leiðbeina okkur og stýra til að tala eða framkvæma og þá koma náðargjafirnar fram.
- c) Skilyrði þess að gjafirnar verði til blessunar í verki:
- 1) Á vöxtur Andans:
Kærleikur: Án hans er allt gagnlaust. *1. Kor. 13. Sjá neðst.
Gleði: Hjá þeim sem notar gjafirnar og einnig þeim sem taka á móti. Eitt sinn er þeir voru að þjóna Drottni og föstuðu sagði heilagur andi: ,,Skiljið frá mér til handa þá Barnabas og Sál til þess verks, sem ég hef kallað þá til." Post. 13: 2.
Friður: Því að Guð er Guð friðarins en ekki truflunarinnar." 1. Kor. 14: 33.a.
Langlyndi: (þolinmæði) Við gefum tíma til þess að náðargjafir komi fram. Post. 13: 2.
Gæska: (gr. chrestotes). Þetta hefur m.a. sömu þýðingu og kemur fram í Matt. 11: 30. Mitt ok er indælt (auðvelt) og byrði mín létt." Þegar Guð framkvæmir hlutina verður allt auðvelt.
Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt." Matt. 11: 30.
Góðvild: Sá andi er við látum leiðast af er við gefum öðrum. Því að ég þrái að sjá yður, til þess að ég fái veitt yður hlutdeild í andlegri náðargjöf, svo að þér styrkist, eða réttara sagt: Svo að vér getum uppörvast saman fyrir hina sameiginlegu trú, yðar og mína."Róm.1: 11.-12.
Trúmennska: Án hennar koma gjafir Andans ekki fram, því táknin fylgja þeim sem trúa.
En þessi tákn munu fylgja þeim, er trúa: Í mínu nafni munu þeir reka út illa anda, tala nýjum tungum." Mark. 16.-17.
Hógværð: Sem þvingar vilja sínum upp á aðra:
Þjónn Drottins á ekki að eiga í ófriði, heldur á hann að vera ljúfur við alla, góður fræðari, þolinn í þrautum, hógvær er hann agar þá, sem skipast í móti. Guð kynni að gefa þeim sinnaskipti, sem leiddi þá til þekkingar á sannleikanum, þá gætu þeir endurvitkast og losnað úr snöru djöfulsins, sem hefur veitt þá til að gjöra hans vilja." 2. Tím. 2: 24.-26.
Nei, vér vorum mildir yðar á meðal, eins og móðir, sem hlúir að börnum sínum. Slíkt kærleiksþel bárum vér til yðar, að vér vildum glaðir gefa yður ekki einungis fagnaðarerindi Guðs, heldur og vort eigið líf því að þér voruð orðnir oss ástfólgnir." 1. Þess. 2: 7.-8.
Bindindi: (sjálfstjórn) Náðargjafirnar eru ekki notaðar fyrir þvingun, því heilagur Andi er ekki andi nauðgunar. Við erum aldrei neydd til þess að nota náðargjafirnar. Andar spámanna eru spámönnum undirgefnir, því að Guð er ekki Guð truflunarinnar, heldur friðarins." 1. Kor. 14: 32.-33a. Því að ekki gaf Guð oss anda hugleysis, heldur anda máttar og kærleiks og stillingar. 2. Tím. 3: 7.
- 2) Hlýðni:
Hlýðni við Guð: Heilagur Andi er gefinn þeim sem hlýða Guði við hvorn annan. Vér erum vottar alls þessa, og heilagur andi, sem Guð hefur gefið þeim, er honum hlýða." Post. 5: 32.
Hlýðni við hvorn annan: Lestu gaumgæfilega það sem Páll segir í 1. Kor. 14: 33.-40. Andar spámanna eru spámönnum undirgefnir, því að Guð er ekki Guð truflunarinnar, heldur friðarins. Eins og í öllum söfnuðum hinna heilögu skulu konur þegja á safnaðarsamkomunum, því að ekki er þeim leyft að tala, heldur skulu þær vera undirgefnar, eins og líka lögmálið segir. En ef þær vilja fræðast um eitthvað, þá skulu þær spyrja eiginmenn sína heima. Því að það er ósæmilegt fyrir konu að tala á safnaðarsamkomu. (Ahaha) Eða er Guðs orð frá yður komið? Eða er það komið til yðar einna? Ef nokkur þykist spámaður vera eða gæddur gáfum andans, hann skynji, að það, sem ég skrifa yður, er boðorð Drottins. Vilji einhver ekki við það kannast, þá verður ekki við hann kannast. Þess vegna, bræður mínir, sækist eftir spádómsgáfunni og aftrið því ekki, að talað sé tungum. En allt fari sómasamlega fram og með reglu."
- d) Eftirfarandi getur hindrað blessunina sem á að fylgja náðargjöfunum:
Skortur á ávexti Andans, einkum kærleikanum. *1. Kor. 13. Sjá neðst.
Þrjóskur og svikafullur andi: (spillt hugarfar) En maður nokkur, Ananías að nafni, seldi ásamt Saffíru, konu sinni, eign og dró undan af verðinu með vitund konu sinnar, en kom með nokkuð af því og lagði fyrir fætur postulanna. En Pétur mælti: ,,Ananías, hví fyllti Satan hjarta þitt, svo að þú laugst að heilögum anda og dróst undan af verði lands þíns? Var landið ekki þitt, meðan þú áttir það, og var ekki andvirði þess á þínu valdi? Hvernig gastu þá látið þér hugkvæmast slíkt tiltæki? Ekki hefur þú logið að mönnum, heldur Guði." Þegar Ananías heyrði þetta, féll hann niður og gaf upp öndina, og miklum ótta sló á alla þá, sem heyrðu. En ungu mennirnir stóðu upp og bjuggu um hann, báru hann út og jörðuðu. Að liðnum svo sem þrem stundum kom kona hans inn og vissi ekki, hvað við hafði borið. Þá spurði Pétur hana: ,,Seg mér, selduð þið jörðina fyrir þetta verð?" En hún svaraði: ,,Já, fyrir þetta verð." Pétur mælti þá við hana: ,,Hvernig gátuð þið orðið samþykk um að freista anda Drottins? Þú heyrir við dyrnar fótatak þeirra, sem greftruðu mann þinn. Þeir munu bera þig út." Jafnskjótt féll hún niður við fætur hans og gaf upp öndina. Ungu mennirnir komu inn, fundu hana dauða, báru út og jörðuðu hjá manni hennar. Og miklum ótta sló á allan söfnuðinn og alla, sem heyrðu þetta." Post. 5: 1.-11.
Stolt: Augað getur ekki sagt við höndina: ,,Ég þarfnast þín ekki!" né heldur höfuðið við fæturna: ,,Ég þarfnast ykkar ekki!" 1. Kor. 12: 21.
Öfund: Ef fóturinn segði: ,,Fyrst ég er ekki hönd, heyri ég ekki líkamanum til," þá er hann ekki fyrir það líkamanum óháður. Og ef eyrað segði: ,,Fyrst ég er ekki auga, heyri ég ekki líkamanum til," þá er það ekki þar fyrir líkamanum óháð." 1. Kor. 15.-16.
Afbrýðissemi og sjálfselskufullur metnaður: Hver er vitur og skynsamur yðar á meðal? Hann láti með góðri hegðun verk sín lýsa hóglátri speki. En ef þér hafið beiskan ofsa og eigingirni í hjarta yðar, þá stærið yður ekki og ljúgið ekki gegn sannleikanum. Sú speki kemur ekki að ofan, heldur er hún jarðnesk, andlaus, djöfulleg. Því hvar sem ofsi og eigingirni er, þar er óstjórn og hvers kyns böl." Jak. 3: 13.-16.
Beiskja: Sami maðurinn gerir allt: (einhliða þjónusta) Ef allur líkaminn væri auga, hvar væri þá heyrnin? Ef hann væri allur heyrn, hvar væri þá ilmanin? En nú hefur Guð sett hvern einstakan lim á líkamann eins og honum þóknaðist. Ef allir limirnir væru einn limur, hvar væri þá líkaminn?" 1. Kor. 12: 17.-19.
Skortur á leiðtogum: Og frá honum er sú gjöf komin, að sumir eru postular, sumir spámenn, sumir trúboðar, sumir hirðar og kennarar. Þeir eiga að fullkomna hina heilögu og láta þeim þjónustu í té, líkama Krists til uppbyggingar, þangað til vér verðum allir einhuga í trúnni og þekkingunni á syni Guðs, verðum fullþroska og náum vaxtartakmarki Krists fyllingar. Vér eigum ekki að halda áfram að vera börn, sem hrekjast og berast fram og aftur af hverjum kenningarvindi, tæld af slægum mönnum með vélabrögðum villunnar. Vér eigum heldur að ástunda sannleikann í kærleika og vaxa í öllu upp til hans, sem er höfuðið, - Kristur. Hann tengir líkamann saman og heldur honum saman með því að láta sérhverja taug inna sína þjónustu af hendi, allt eftir þeim krafti, sem hann úthlutar hverri þeirra. Þannig lætur hann líkamann vaxa og byggjast upp í kærleika." Efes. 4: 11.-16.
5. Hvar koma náðargjafirnar fram?
- a) Í söfnuðinum.
Hvenær sem fólk Guðs kemur saman til tilbeiðslu, samfélags eða starfa. Hvernig er það þá, bræður? Þegar þér komið saman, þá hefur hver sitt fram að færa: Sálm, kenningu, opinberun, tungutal, útlistun. Allt skal miða til uppbyggingar." 1. Kor. 14: 26.
Í söfnuðinum í Antíokkíu voru spámenn og kennarar. Þar voru þeir Barnabas, Símeon, nefndur Níger, Lúkíus frá Kýrene, Manaen, samfóstri Heródesar fjórðungsstjóra, og Sál. Eitt sinn er þeir voru að þjóna Drottni og föstuðu sagði heilagur andi: ,,Skiljið frá mér til handa þá Barnabas og Sál til þess verks, sem ég hef kallað þá til." Síðan föstuðu þeir og báðust fyrir, lögðu hendur yfir þá og létu þá fara." Post. 13. 1.-3.
Hvenær sem við þjónum hverju öðru á samkomum eða í einkasamtölum t.d. sálgæslu.
- b) Í heiminum:
Hvenær sem við vitnum um Drottin eða erum í kristniboðsferðum: Þeir fóru nú, sendir af heilögum anda, til Selevkíu og sigldu þaðan til Kýpur. Þegar þeir voru komnir til Salamis, boðuðu þeir orð Guðs í samkunduhúsum Gyðinga. Höfðu þeir og Jóhannes til aðstoðar. Þeir fóru um alla eyna, allt til Pafos. Þar fundu þeir töframann nokkurn og falsspámann, Gyðing, er hét Barjesús. Hann var hjá landstjóranum Sergíusi Páli, hyggnum manni, sem hafði boðað þá Barnabas og Sál á fund sinn og fýsti að heyra Guðs orð. Gegn þeim stóð Elýmas, töframaðurinn, en svo er nafn hans útlagt. Reyndi hann að gjöra landstjórann fráhverfan trúnni. En Sál, sem og er nefndur Páll, hvessti á hann augun og sagði, fylltur heilögum anda: ,,Þú djöfuls sonur, fullur allra véla og flærðar, óvinur alls réttlætis, ætlar þú aldrei að hætta að rangsnúa réttum vegum Drottins? Nú er hönd Drottins reidd gegn þér, og þú munt verða blindur og ekki sjá sól um tíma." Jafnskjótt féll yfir hann þoka og myrkur, og hann reikaði um og leitaði einhvers til að leiða sig. Þegar landstjórinn sá þennan atburð, varð hann gagntekinn af kenningu Drottins og tók trú." Post. 13: 4.-12.
Hvenær sem við sýnum öðrum hjálp og umhyggju: Pétur og Jóhannes gengu upp í helgidóminn til síðdegisbæna. Þá var þangað borinn maður, lami frá móðurlífi, er dag hvern var settur við þær dyr helgidómsins, sem nefndar eru Fögrudyr, til að beiðast ölmusu hjá þeim, er inn gengu í helgidóminn. Er hann sá þá Pétur og Jóhannes á leið inn í helgidóminn, baðst hann ölmusu. Þeir horfðu fast á hann, og Pétur sagði: ,,Lít þú á okkur." Hann starði á þá í von um að fá eitthvað hjá þeim. Pétur sagði: ,,Silfur og gull á ég ekki, en það sem ég hef, það gef ég þér: Í nafni Jesú Krists frá Nasaret, statt upp og gakk!" Og hann tók í hægri hönd honum og reisti hann upp. Jafnskjótt urðu fætur hans og ökklar styrkir, hann spratt upp, stóð í fætur og tók að ganga. Hann fór inn með þeim í helgidóminn, gekk um og stökk og lofaði Guð. Allt fólkið sá hann ganga um og lofa Guð. Þeir þekktu, að hann var sá er hafði setið fyrir Fögrudyrum helgidómsins til að beiðast ölmusu. Urðu þeir furðu lostnir og frá sér numdir af því, sem fram við hann hafði komið." Post. 3: 1.-10.
Postulasagan er full af frásögnum um hvernig gjafir Heilags Anda komu fram í Kristniboðsstarfinu eins og Jesús hafði lofað: Seinna birtist hann þeim ellefu, þegar þeir sátu til borðs, og ávítaði þá fyrir vantrú þeirra og harðúð hjartans, að þeir hefðu ekki trúað þeim, er sáu hann upp risinn. Hann sagði við þá: ,,Farið út um allan heim, og prédikið fagnaðarerindið öllu mannkyni. Sá sem trúir og skírist, mun hólpinn verða, en sá sem trúir ekki, mun fyrirdæmdur verða. En þessi tákn munu fylgja þeim, er trúa: Í mínu nafni munu þeir reka út illa anda, tala nýjum tungum, taka upp höggorma, og þó að þeir drekki eitthvað banvænt, mun þeim ekki verða meint af. Yfir sjúka munu þeir leggja hendur, og þeir verða heilir." Mark. 16: 14.-18.
Hvenær sem við erum ofsótt: Taktu eftir að Mark. 13: 9.-11. Er fyrirheit handa þeim sem ofsóttir verða, en ekki prédikurum. Lestu einnig um kraftaverkið í Post. 12: 1.-11.
Gætið að sjálfum yður. Menn munu draga yður fyrir dómstóla, í samkundum verðið þér húðstrýktir, og þér munuð leiddir fyrir landshöfðingja og konunga mín vegna, þeim til vitnisburðar. En fyrst á að prédika öllum þjóðum fagnaðarerindið. Þegar menn taka yður og draga fyrir rétt, hafið þá ekki fyrirfram áhyggjur af því, hvað þér eigið að segja, heldur talið það, sem yður verður gefið á þeirri stundu. Þér eruð ekki þeir sem tala, heldur heilagur andi." Mark. 13: 9.-11.
Um þessar mundir lét Heródes konungur leggja hendur á nokkra úr söfnuðinum og misþyrma þeim. Hann lét höggva Jakob bróður Jóhannesar með sverði. Og er hann sá, að Gyðingum líkaði vel, lét hann einnig taka Pétur. Þá voru dagar ósýrðu brauðanna. Þegar hann hafði handtekið hann, lét hann setja hann í fangelsi og fól fjórum fjögurra hermanna varðflokkum að gæta hans. Ætlaði hann eftir páska að leiða hann fram fyrir lýðinn. Sat nú Pétur í fangelsinu, en söfnuðurinn bað heitt til Guðs fyrir honum. Nóttina áður en Heródes ætlaði að leiða hann fram svaf Pétur milli tveggja hermanna, bundinn tveim fjötrum, og varðmenn fyrir dyrum úti gættu fangelsisins. Allt í einu stóð engill Drottins hjá honum og ljós skein í klefanum. Laust hann á síðu Pétri, vakti hann og mælti: ,,Rís upp skjótt!" Og fjötrarnir féllu af höndum hans. Þá sagði engillinn við hann: ,,Gyrð þig og bind á þig skóna!" Hann gjörði svo. Síðan segir engillinn: ,,Far þú í yfirhöfn þína og fylg mér!Hann gekk út og fylgdi honum. En ekki vissi hann, að það var raunverulegt, sem gjörst hafði við komu engilsins, hann hélt sig sjá sýn. Þeir gengu nú fram hjá innri og ytri verðinum og komu að járnhliðinu, sem farið er um til borgarinnar. Laukst það upp af sjálfu sér fyrir þeim. Þeir fóru út um það og gengu eitt stræti, en þá hvarf engillinn allt í einu frá honum. Þegar Pétur kom til sjálfs sín, sagði hann: ,,Nú veit ég sannlega, að Drottinn hefur sent engil sinn og bjargað mér úr hendi Heródesar og frá allri ætlan Gyðingalýðs."
Kaþólskur biskup í Júgóslavíu, Arneric að nafni, sagði á ráðstefnu einni (Vatican 11): Á ofsóknartímum koma gjafir Andans fram í ríkari mæli og á óvenjulegri hátt en annars. Heilagur Andi gefur vissulega kirkju sinni gnægð sérstakrar hjálpar, þegar hún er í hættu stödd."
6. Greining anda.
Lestu vel og vandlega 1. Þess. 5: 19.-22. Slökkvið ekki andann. Fyrirlítið ekki spádómsorð. Prófið allt, haldið því, sem gott er. En forðist allt illt, í hvaða mynd sem er."
Við eigum öryggi í auðmýkt og hlýðni:
Við Guð: Auðmýkið yður því undir Guðs voldugu hönd, til þess að hann á sínum tíma upphefji yður." 1. Pét. 5.-6.
Við Ritninguna: Þú hefur frá blautu barnsbeini þekkt heilagar ritningar. Þær geta veitt þér speki til sáluhjálpar fyrir trúna á Krist Jesú. Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti, til þess að sá, sem tilheyrir Guði, sé albúinn og hæfur gjör til sérhvers góðs verks." 2. Tím. 3: 15.-17.
Við aðra limi á líkama Krists: Verið hver öðrum undirgefnir í ótta Krists." Efes. 5: 1.
Í raun og veru er ekki nægilegt að segjast vera undirgefinn vilja Guði einum. Fólk getur fullyrt að það sé leitt af Guði, en samt verið á villigötum. Það er heldur ekki nægilegt að hlýða Biblíunni einni, því hún er oft rangtúlkuð og vers slitin úr samhengi. Álítið langlyndi Drottins vors vera hjálpræði. Þetta er það, sem hinn elskaði bróðir vor, Páll, hefur ritað yður, eftir þeirri speki, sem honum er gefin. Það gjörir hann líka í öllum bréfum sínum, hann talar í þeim um þetta. En í þeim er sumt þungskilið, er fáfróðir og staðfestulausir menn rangsnúa, eins og öðrum ritum, sjálfum sér til tortímingar." 2. Pét. 2:16. Það er undirgefni við söfnuðinn (local church) sem gefur okkur eins og lokatryggingu gegn villigötunum. Þetta þrennt á að fara saman.
Leitaðu að ávöxtunum: Lestu Matt. 7: 15.-20. Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum, en innra eru þeir gráðugir vargar. Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. Hvort lesa menn vínber af þyrnum eða fíkjur af þistlum? Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu, en slæmt tré vonda. Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu. Hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað. Af ávöxtum þeirra skuluð þér því þekkja þá." 7. 15.-20.
Hér er ekki átt við ávöxt Andans, heldur: Rættist t.d. spádómurinn sem borinn var fram?
* Kærleikurinn mestur
Þótt ég talaði tungum manna og engla, en hefði ekki kærleika, væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla.
Og þótt ég hefði spádómsgáfu og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking, og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú, að færa mætti fjöll úr stað, en hefði ekki kærleika, væri ég ekki neitt. Og þótt ég deildi út öllum eigum mínum, og þótt ég framseldi líkama minn, til þess að verða brenndur, en hefði ekki kærleika, væri ég engu bættari. Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn. Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni, en samgleðst sannleikanum. Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi. En spádómsgáfur, þær munu líða undir lok, og tungur, þær munu þagna, og þekking, hún mun líða undir lok. Því að þekking vor er í molum og spádómur vor er í molum. En þegar hið fullkomna kemur, þá líður það undir lok, sem er í molum. Þegar ég var barn, talaði ég eins og barn, hugsaði eins og barn og ályktaði eins og barn. En þegar ég var orðinn fulltíða maður, lagði ég niður barnaskapinn. Nú sjáum vér svo sem í skuggsjá, í ráðgátu, en þá munum vér sjá augliti til auglitis. Nú er þekking mín í molum, en þá mun ég gjörþekkja, eins og ég er sjálfur gjörþekktur orðinn. En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, en þeirra er kærleikurinn mestur." 1. Kor. 13.
Guð blessi ykkur öll.
Kær kveðja
Rósa Aðalsteinsdóttir
Ási Vopnafirði
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 12:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)
14.5.2008 | 23:00
Ísrael 60 ára - Til hamingju með afmælið
Rósa og sæti kyssilegi Gyðingurinn hennar
Tiberías við Galíleuvatn, 1992
Ísrael 60 ára.
Grein eftir Ólaf Jóhannsson
Greinin birtist í blaðinu Zíons fréttir 2008
Ég, Rósa er meðlimur í félaginu Zíons vinir Ísraels og er hreykin af því.
Frá fyrstu öld e.Kr. hefur gyðingahatur (andsemítismi) verið fyrir hendi í nær öllum löndum Evrópu og Gyðingar hvergi átt höfði sínu að halla. Rómverska herveldið undir stjórn Títusar hershöfðingja sigraði borgina Jerúsalem árið 70 e.Kr. Borgin eyðilögð og helgasti staður Gyðinga, musterið brennt til grunna. Aðeins einn útveggur forgarðarins er eftir sem er nefndur Vesturmúrinn eða Grátmúrinn. Eftir uppreisn Gyðinga gegn Rómverjum sem þeir töpuðu, dreifðust þeir um alla heimsbyggðina. Þó voru um 700.000 Gyðingar eftir í landinu. Það væri of langt mál að segja frá öllum þeim hildarleik sem þessi þjóð Gyðinga hefur þurft að liða í gegn um aldirnar. Um tíma bjuggu þeir um sig á Spáni, en árið 1492 voru allir Gyðingar gerðir útlægir þaðan og settust þeir þá að á Balkanskaga og víðar í Evrópu.
Hinn mikli trúarleiðtogi Marteinn Lúter tók afdráttarlausa andstöðu gegn Gyðingum, skrifað margar bækur geng þeim og hvatti kristnar kirkju að útiloka þá frá Guðþjónustum. Einnig hvatti hann bændur til að taka ekki Gyðinga í vinnu. Það er sagt að æðstu menn Nasista í seinni heimstyrjöldinni hefðu svarað fyrir gerðir sínar, vegna Gyðingaofsókna og drápa: "Við gerum aðeins það sem kirkjufeðurnir hafa sagt okkur að gera." 6 milljónir Gyðinga voru myrtir í útrýmingarbúðum nasista. Mörg hundruð þúsund Gyðingar voru drepnir og sendir í þrælabúðir í Rússlandi undir stjórn Jósefs Stalíns.
Strax eftir síðari heimsstyrjöld, var ákveðið hjá hinum nýstofnuðu Sameinuðu þjóðum, að taka málefni Gyðinga og Palestínu til umfjöllunar og finna lausn sem bæði Gyðingar og Arabar gætu sætt sig við. Niðurstaðan varð sú á þingi Sameinuðu þjóðanna árið 1947 að samþykkt var að stofna tvö ríki í Palestínu, eitt fyrir Gyðinga og annað fyrir Araba. Fulltrúi Íslands, Thor Thors átti mikilvægan þátt í því, að Sameinuðu þjóðirnar náðu að taka ákvörðun. Gyðingar samþykktu þessa lausn mála en Arabar höfnuðu þessu alfarið og sögðu að það kæmi ekki til greina að stofna ríki Araba. Sjónarmið Araba árið 1947 er óbreytt í dag. "Við sættum okkur aðeins við að fá allt landið og Jerúsalem verði höfuðborg þess."
Þann 14. maí 1948 varð sá atburður sem hafði varanleg áhrif á mannkynssöguna. Að kvöldi þessa dags lýsti nýskipaður forsætisráðherra, yfir sjálfstæðu ríki Gyðinga í Palestínu sem fékk nafnið Ísrael. Landið náði yfir hluta af því landssvæði sem Gyðingar höfðu búið í og átt sína sögu í um 4000 ár en oft undir stjórn og yfirráðum annarra þjóða, var nú sjálfstætt ríki Gyðinga sem um tvöþúsund ár höfðu verið dreifðir meðal fjölda þjóða. Arabar náðu Palestínu á sitt vald árið 636 og stjórnuðu múslímar landinu fram til ársins 1099, þegar krossfarar réðust á landið og stofnuðu ríki þar. Síðasta ríki krossfaranna leið undir lok 1299 eftir að hafa beðið ósigur fyrir herjum múslima. Tyrkir stjórnuðu svo Palestínu frá 1517 -1917 (Tyrkir eru Evrópuþjóð ekki Arabar) Á seinni hluta nítjándu aldar, jókst flutningur Gyðinga til landsins og keyptu þeir upp stór landsvæði af Tyrkjum. Þessi voru aðallega mýraflákar í órækt, engin tré og malaría geisaði þar. Þessir Gyðingar sáu þó fram í tímann. Þeir byrjuðu að þurrka upp landið og hófu að rækta það. Um svipað leiti fóru Arabar að koma til landsins í atvinnuleit. Sérstaklega komu margir frá Egyptalandi. Í byrjun voru friðsamleg samskipti meðal þeirra. Gyðingar hjálpuðu m.a. Aröbum að rækta jörðina. Því miður breyttist þetta þegar fleiri og fleiri Gyðingar fóru að koma til landsins, þá jókst einnig innflutningur Araba frá mörgum nærliggjandi löndum. Arabaþjóðir sáu þarna hættu ef Gyðingar yrðu fjölmennir og tækju stjórn á landinu. Óeirðir brutust út hvað eftir annað og oft var mikið mannfall á báða bóga.
Hvernig voru nú móttökur hins nýfædda lýðræðisríkis Ísrael árið 1948. Það leið nú ekki sólarhringur þangað til hersveitir nágrannaþjóða Araba réðust inn í þetta nýja land, með það eitt í huga, að útrýma þeim. Í hafið með þessa nýju þjóð. Þurrkum Ísrael út af landakortinu. Ísrael vann þetta stríð. Fimm sinnum hafa nágrannaþjóðir reynt að sigra þetta litla ríki, en alltaf beðið ósigur. Tvö Arabaríki hafa þó gert friðarsamninga við Ísrael, Jórdanía og Egyptaland.
Ísrael er lýðræðisríki. Arabar búa hvergi við jafnmikið frelsi og í Ísrael, sbr. trúfrelsi, skoðanafrelsi og frjálsar kosningar. Arabar eiga fulltrúa í þinginu og starfa í ráðuneytum í Ísrael.
Ísrael! Til hamingju með afmælið
Smá viðbót:
The State of Israel was formed on May 15 1948 as a Jewish state and a democratic republic. Over time it became one of the only two democracies in the Middle East, the other being Turkey. http://www.ynetnews.com/articles/0,7340,L-3284752,00.html
Það var að kvöldi 14. maí sem David-Ben-Gurion nýskipaður forsætisráðherra lýsti yfir sjálfstæðu ríki Gyðinga sem nefnt var Ísrael. Í Ísrael byrjar nýr dagur við sólsetur og er til sólsetur. Þannig að báðir þessir dagar 14. og 15. maí eru réttir. Samkvæmt því sem við eigum að venjast þá byrjar hver dagur um miðnætti svo samkvæmt því er afmæli Ísraels 14. maí en þá samkvæmt venjum Ísraela er komin nýr dagur 15. maí. Atburðurinn átti s.s. sér stað nú í kvöld.
Í vetur setti ég inn ritgerð sem heitir Deilur Ísraela og Araba" http://rosaadalsteinsdottir.blog.is/blog/rosaadalsteinsdottir/entry/465441/#comments
Snorri Óskarsson er með grein um Ísrael: "Ísrael 60 ára!" http://snorribetel.blog.is/blog/snorribetel/entry/539744/#comment1385756
Jóhann Helgason er með grein um Ísrael: "Ísrael 60 ára - Til hamingju með afmælið." http://enoch.blog.is/blog/truin_a_jesu/
Vefslóð: Félags ZION Vinir Ísraels: http://www.zion.is/
Drottinn blessi þig frá Zíon, þú munt horfa með unun á hamingju Jerúsalem alla ævidaga þína. Sálmur 128: 5.
Drottinn blessi Ísrael.
Shalom
Rósa Aðalsteinsdóttir
Ási Vopnafirði
Trúmál og siðferði | Breytt 20.5.2008 kl. 23:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (48)
12.5.2008 | 03:48
Gjöf Heilags Anda - Tungutal
Gjöf Heilags Anda:
Þá er upp var runninn Hvítasunnudagur, voru þeir allir saman komnir. Varð þá skyndilega gnýr af himni eins og aðdynjanda sterkviðris og fyllti allt húsið, þar sem þeir voru. Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvern og einn þeirra. Þeir fylltust allir heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla. Í Jerúsalem dvöldust Gyðingar, guðræknir menn, frá öllum löndum undir himninum. Er þetta hljóð heyrðist, dreif að fjölda manns.
Þeim brá mjög við, því að hver og einn heyrði þá mæla á sína tungu. Þeir voru frá sér af undrun og sögðu: ,,Eru þetta ekki allt Galíleumenn, sem hér eru að tala? Hvernig má það vera, að vér, hver og einn, heyrum þá tala vort eigið móðurmál? Vér erum Partar, Medar og Elamítar, vér erum frá Mesópótamíu, Júdeu, Kappadókíu, Pontus og Asíu, frá Frýgíu og Pamfýlíu, Egyptalandi og Líbýubyggðum við Kýrene, og vér, sem hingað erum fluttir frá Róm. Hér eru bæði Gyðingar og þeir sem tekið hafa trú Gyðinga, Kríteyingar og Arabar. Vér heyrum þá tala á vorum tungum um stórmerki Guðs." Þeir voru allir furðu lostnir og ráðalausir og sögðu hver við annan: ,,Hvað getur þetta verið?" En aðrir höfðu að spotti og sögðu: ,,Þeir eru drukknir af sætu víni."
Ræða Péturs:
Þá steig Pétur fram og þeir ellefu, og hann hóf upp rödd sína og mælti til þeirra: ,,Gyðingar og allir þér Jerúsalembúar! Þetta skuluð þér vita. Ljáið eyru orðum mínum. Eigi eru þessir menn drukknir, eins og þér ætlið, enda aðeins komin dagmál. Hér er að rætast það, sem spámaðurinn Jóel segir: Það mun verða á efstu dögum, segir Guð, að ég mun úthella anda mínum yfir alla menn. Synir yðar og dætur munu spá, ungmenni yðar munu sjá sýnir og gamalmenni yðar mun drauma dreyma. Jafnvel yfir þræla mína og ambáttir mínar mun ég á þeim dögum úthella anda mínum, og þau munu spá.
Og ég mun láta undur verða á himnum uppi og tákn á jörðu niðri, blóð og eld og reykjarmökk. Sólin mun snúast í myrkur og tunglið í blóð, áður dagur Drottins kemur, hinn mikli og dýrlegi. En hver sá, sem ákallar nafn Drottins, mun frelsast." Post. 2: 1.-21.
Smá hugleiðing: Bloggvinkona mín hringdi í mig nýlega og við spjölluðum lengi saman. Hún fór að spyrja mig um tungutal og ég sagði henni frá ýmsu sem ég vona að hafi hjálpað eitthvað en lofaði að skrifa færslu um Tungutalið." Ég hefði viljað sjá þessa færslu strax á Hvítasunnudag en við faðir minn fórum til Eskifjarðar og vorum við útför vinar okkar Aðalsteins Jónssonar. Við komum ekki heim fyrr en á tíunda tímanum á laugardagskvöldið.
Ég hef upplifað dásamlegar reynslu sjálf. Ég hef fengið spádóma og þeir eru réttir. Árið 1999 var ég að lesa Guðs orð á biðstofu á sjúkrahúsinu á Akureyri. Ég las nokkra kafla því eitthvað dróst að ég fór inn til hjúkrunarfólksins sem undirbjó mig fyrir rannsókn sem endaði með uppskurði. Þegar læknirinn minn tók ákvörðun um að framkvæma uppskurð þá var ég ekki vakin til gefa mér tækifæri til að undirrita skjöl þar sem ég gaf samþykki fyrir uppskurði né hringt í aðstandendur mína. Ég vissi ekki þá að þarna voru brotin lög. Áður en ég var kölluð inn í undirbúning fyrir rannsóknina voru fáein vers sem töluðu sérstaklega til mín. Í vor þá fengum við heimsókn frá Biblíuskólanemum frá Arken í Svíþjóð. Ég fékk spádóm sem staðfesti orðin sem ég fékk 1999. Þessi spádómur var um hlutverk sem ég á að gegna fyrir Drottinn minn.
Mig langar að vitna í nokkrar sérstakar reynslur sem vinir mínir hafa upplifað. Vinur minn og trúbróðir sem nú er látinn talaði tungum og honum var sagt að það hafi verið franska sem hann talaði. Það var maður sem sat rétt hjá honum í neðri sal Hvítasunnukirkjunnar í Reykjavík sem sagði honum það því hann skildi frönskuna og var þessi boðskapur til hans. Vinkona mín og trúsystir talar sænsku eins og innfædd þegar hún talar tungum en hún hefur aldrei lært sænsku. Vinur minn og trúbróðir var staddur erlendis þegar trúbróðir hans talaði tungum. Hann útlistaði og það var kona sem kom til þeirra eftir samkomu og sagði að þessi maður hefði talað sitt móðurmál sem er alls ekki algengt. Vinur minn spurði hana hvort útlistunin hafi verið rétt og hún staðfesti það. Hann kunni ekki þetta erlenda mál en Guð gaf honum útlistun og hann fékk að upplifa að þetta var svo sannarlega gjöf frá Guði þegar konan staðfesti að útlistunin hans var rétt.
Hér fyrir neðan er rit sem er til í kirkjunni minni á Vopnafirði en því miður veit ég ekki hver þýddi þennan biblíulestur.
Tungutalið - spurningar og svör.
Biblíulestur úr enska blaðinu RENEWAL." Biblíulestur nr. 2 í flokki sem mun fjalla um ýmsar hliðar á endurnýjun í Heilögum Anda. Heppilegt til notkunar fyrir hópa eða einstaklinga.
1. Hvað er að tala tungum?
Þegar einhver talar tungum gefur hann frá sér hljóð og orð, sem hann hvorki skilur né hefur lært. Að heyra það er líkt og að hlusta á erlent tungumál. Persónan getur talað hátt eða lágt, hratt eða hægt, rólega eða ákaft, eða jafnvel sungið; tal hennar getur raunar haft alla eiginleika venjulegs talaðs máls að því undanskildu, að manneskjan skilur ekki hvað hún segir. Þetta hljómar nú svo heimskulega að við hljótum að spyrja undir eins:
2. Hver er tilgangur tungutals?
Hér getum við gefið svar sem ekki einungis er grundvallað á reynslu, einnig á vitnisburði ritningarinnar. Þannig getum við staðfest að tungutalið hefur þýðingu og mikilvægi:
- a) Í samfélagi okkar við Guð
- b) Í samskiptum okkar við kirkjuna
- c) Í okkar persónulega kristna lífi
3. Hvaða hlutverki gegnir tungutal í samfélagi okkar við Guð?
Svar ritningarinnar er, að tungutal skapi áhrifaríkt samband við Guð, þó svo að innihald þess verki ekki á skilninginn. Páll postuli segir að maður , sem talar tungum, tali til Guðs. Því að sá, sem talar tungum, talar ekki við menn, heldur við Guð. Enginn skilur hann, í anda talar hann leyndardóma." 1. Kor. 14: 2. Ef við spyrjum hvað kristnir menn segi við Guð þegar þeir tala tungum, þá gefur ritningin okkur það svar, að þeir séu að lofa hann fyrir hans máttugu verk í Kristi. Á Hvítasunnunni heyrði mannfjöldinn postulana tala tungum og tala á vorum tungum um stórmerki Guðs" Post. 2: 11. b. Sem svörun við opinberun Péturs á fagnaðarerindinu fóru Kornelíus og vinir hans að tala tungum og mikla Guð" Post. 10: 46. Um að lofsyngja Guði segir Páll: Ég vil lofsyngja með anda, en ég vil einnig lofsyngja með skilningi" 1. Kor. 14: 15. a. Jafnframt lofgjörð hugans í orðum og skilningi, sem er ómissandi er einnig til annars konar lofgjörð sem leysir andann, hinn innsta kjarna persónuleika okkar, úr læðingi. Sú lofgjörð birtist sem yfirfljótandi og elskandi þakkargjörð til Guðs, frelsara. Tungutal er hluti af þessari yfirfljótandi þakkargjörð.
4. Hvað gerir tungutalsgjöfin fyrir þann sem talar?
Lofgjörðin leysir hann á því sviði persónuleika hans sem oftast þarfnast lausnar. Það hjálpar okkur að spyrja: Hver var munur á kenningunni; hann hafði þegar játað, að Jesús væri Kristur. Símon Pétur svarar: ,,Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs." Matt. 16: 16. Það var enginn munur á vilja hans; hann hafði þegar tekið hina réttu ákvörðun, um að fara með Jesú í fangelsi og dauða. En Símon sagði við hann: ,,Herra, reiðubúinn er ég að fylgja þér bæði í fangelsi og dauða." Lúk. 22: 33. En kjánaleg spurning þjóns eins nægði til þess að kollvarpa sannfæringu hans og viljaákvörðun, vegna þess að í djúpi persónuleika síns var hann ekki opinn fyrir Kristi og hafði ekki gefist af öllu hjarta. Andinn hafði þegar fyrir Hvítasunnu lýst upp huga Péturs og haft áhrif á vilja hans, en einmitt þá leystist hann djúpt í hjarta sínu - í undirmeðvitund sinni - svo að hann var fær um að prédika Krist með þvílíkum árangri, án innri mótþróa. Tungutal var tákn þess að hluti persónuleika hans hafði verið leystur og hefði nú gefist upp fyrir Kristi. Jesús segir: frá hjarta (frá persónuleikanum) hans munu renna lækir lifandi vatns." Jóh. 7: 38, sem trúa á Hann. Tungutal kemur einmitt þannig og gefur til kynna leysingu undirmeðvitundarinnar. Sá sem trúir á mig, - frá hjarta hans munu renna lækir lifandi vatns, eins og ritningin segir." Jóh. 7: 38.
Með öðrum orðum, þá mun Heilagur Andi gefa okkur heilbrigðan huga, þ.e.a.s. Hann er andi máttar, kærleika og stillingar og Hann mun koma jafnvægi á persónuleika okkar. Því að ekki gaf Guð oss anda hugleysis, heldur anda máttar og kærleiks og stillingar." 2 Tím. 1: 7. Vegna trúarlegra erfðarvenja hafa mörg okkar misst jafnvægið, hvað snertir gáfur og vilja, þar sem of þung áhersla hefur verið lögð á þessa tvo þætti, og við þörfnumst þess vegna að vera leyst á hinum frumstæðari og eðlislægri sviðum persónuleikans. Stundum markar tungutal byrjun á slíkri lausn, þannig að viðbrögð okkar gagnvart Guði og öðrum verða meir blátt áfram.
5. Hvernig verkar tungutalsgáfan í kirkjunni?
Grundvallarsvar Páls er að tungutal ætti alls ekki að nota opinberlega í kirkjunni, án þess að samhliða henni væri notuð tvíburagáfna: útlagningargáfan. Þannig, að eftir að einhver hefur talað tungum, fær annar orð á íslensku sem tjá það er sagt var í tungutali. Páll segir að þetta uppbyggi söfnuðinn á þann hátt, sem óútlagt tungutal gæti aldrei gert. Biðjið því sá sem tungu talar um að geta útlagt." 1. Kor. 14: 13. Sú regla gildir því að allt opinbert tungutal, sem er aðgreint frá persónulegri bæn í tungum, krefst útleggingar, og samkoman ætti að bíða þar til útlegging hefur verið gefin, og að prófa hana þá sama hátt og spádóm. Á bænasamkomu, þar sem mikið hefur verið talað við Guð með skilningi, minnir tungutal okkur á nærveru Guðs og gerir samfélagið innilegra og fær okkur til að þagna og leggja við hlustirnar og heyra hvað Guð vill segja við okkur í útlagningunni og spádómunum, sem koma á eftir.
6. En gerir Páll ekki lítið úr tungutali?
Í Korintubréfunum er Páll að tala til safnaðar sem hefur lagt of mikla áherslu á þessa gjöf og misnotað hana, og hann vill að þeir noti hana í réttu samhengi við aðrar gjafir. Það sama ber okkur að gera. Páll telur hinsvegar tungutal ávallt með gjöfum Andans* og segir að ekki megi aftra því að talað sé tungum.* Persónulegt tungutal uppbyggir þann sem talar* og Páll þakkar fyrir þessa gjöf og fyrir það að hann á og notar hana sjálfur.* Hann óskar þess að allir meðlimir safnaðarins ættu þessa gjöf.*
* Einum er fyrir andann gefið að mæla af speki, öðrum að mæla af þekkingu í krafti sama anda. Hinn sami andi veitir einum trú, öðrum lækningagáfu og öðrum kraft til að framkvæma undur. Einn fær spádómsgáfu, annar hæfileika að greina anda, einn að tala tungum og annar að útleggja tungutal." 1. Kor. 12: 8.-10.
* Guð hefur sett nokkra í kirkjunni, fyrst postula, í öðru lagi spámenn, í þriðja lagi fræðara, sumum hefur hann veitt gáfu að gjöra kraftaverk, lækna, vinna líknarstörf, stjórna og tala tungum." 1. Kor. 12. 28.
* Þess vegna, bræður mínir, sækist eftir spádómsgáfunni og aftrið því ekki, að talað sé tungum." 1. Kor. 14: 39.
* Sá, sem talar tungum, byggir upp sjálfan sig, en spámaðurinn byggir upp söfnuðinn. 1. Kor. 14: 4.
* Ég þakka Guði, að ég tala tungum öllum yður fremur," 1. Kor. 14: 18.
* Ég vildi að þér töluðuð allir tungum, en þó enn meir, að þér hefðuð spádómsgáfu. Það er meira vert en að tala tungum, nema það sé útlagt, til þess að söfnuðurinn hljóti uppbygging." 1. Kor. 14: 5.
7. Hvert er samhengi milli tungutals og reynslu Hvítasunnunnar?
a) Sambandið þar á milli er staðreynd og það er einnig náið samband, því þegar postularnir fylltust Andanum, var tungutal sú andlega gjöf sem þeir fengu fyrst.* Þannig var það einnig með Kornelíus,* hina tólf frá Efesus* og sennilega einnig með lærisveinanna í Samaríu.*
* Þeir fylltust allir heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla." Post. 2: 4.
*Hinir trúuðu Gyðingar, sem komið höfðu með Pétri, urðu furðu lostnir, að heilögum anda, gjöf Guðs, skyldi einnig úthellt yfir heiðingjana, því þeir heyrðu þá tala tungum og mikla Guð." Post. 10: 44.-46.
* Er Páll hafði lagt hendur yfir þá, kom heilagur andi yfir þá, og þeir töluðu tungum og spáðu." Post. 19: 6.
* Þegar postularnir í Jerúsalem heyrðu, að Samaría hefði tekið við orði Guðs, sendu þeir til þeirra þá Pétur og Jóhannes. Þeir fóru norður þangað og báðu fyrir þeim, að þeir mættu öðlast heilagan anda, því að enn var hann ekki kominn yfir neinn þeirra. Þeir voru aðeins skírðir til nafns Drottins Jesú. Nú lögðu þeir hendur yfir þá, og fengu þeir heilagan anda." Post. 8: 14.-17.
b) Það er samt sem áður ekki til neitt lögmál um tungutal í Nýja testamentinu, engin regla sem staðhæfir að trúaður maður geti ekki átt fullt frelsi í Heilögum Anda án þess að hann hafi talað tungum. Sú kenning, að tungutal sé nauðsynleg byrjunarsönnun um skírn í Heilögum Anda, skortir grundvöll í Nýja testamentinu.
Páll segir að opinberun Andans sé gefin sérhverjum til þess sem gagnlegt er, en ekki að öllum sé gefin sama gjöf. Andinn opinberast í sérhverjum til þess, sem gagnlegt er." 1. Kor. 12: 7.
Umfjöllun Páls á tungutali í þessum köflum sýnir, að það var ein margra annarra dýrmætra andlegra gjafa, en ekki að aðeins tungutal væri staðfestandi tákn um leysingu í Andanum.
c) Reynslan sýnir að fólk fær að reyna leysingu Andans í lífi sínu án þess að tala tungum, og gefa það í skyn, að reynsla þeirra sé ekki sönn, af þeirri ástæðu, er biblíulega óréttlætanlegt, skaðlegt og getur skapað þarflausar efasemdir og byrðar.
d) Tungutal er þannig oft einn fyrsti árangur af leysingu Andans, en það er gjöf, og það á ekki að þröngva henni upp á neinn sem lögmáli, þar sem Guð veitir hana í samræmi við hið konunglega lögmál kærleikans, þeim sem eru opnir fyrir henni. Þessi gjöf mun hjálpa þeim og gera þá hæfari til þjónustu.
8. Verð ég að tala tungum?
Nei. Það leiðir augljóslega af undanfarandi svari. Við eigum að fagna yfir því sem Guð hefur komið til leiðar í okkur, fremur en að hafa áhyggjur yfir því sem við höfum ekki eignast ennþá. Fólk sem er áhyggjufullt yfir því sem við höfum ekki eignast ennþá. Fólk sem er áhyggjufullt yfir því að það talar ekki tungum, er jafnvel miklu ólíklegra til að eignast þessa gjöf nokkurn tíma. Það er þegar við þökkum fyrir þá gæsku sem við höfum þegar þegið af Honum, að við verðum opin fyrir nýjum táknum frá Guði um kærleika hans og kraft. Samt sem áður eigum við ekki að fyrirlíta neina af gjöfum Heilags Anda, hversu undaleg og tilgangslaus sem hún kann að virðast okkur mannlegu skynsemi. Við eigum ekki að setja Guði nein takmörk, svo sem, hvernig hann lætur Anda sinn birtast í okkur eða þá að vera ófús til að taka á móti hvaða gjöf sem hann vill gefa okkur - þar er með talin tungutalsgjöfin. Við eigum heldur að vera opin fyrir öllu sem hann vill gefa okkur, vitandi það, að allt sem kemur frá honum er gott.
9. Hvernig get ég vitað að tungutal mitt er raunverulegt?
Það getur verið, einkum fyrst um sinn, að þér finnst tungutal þitt ekki ekta, og að þú sért að búa þetta allt til sjálfur. Ef við höfum í sannleika komið til Guðs í nafni Krists, og verið opin fyrir Andanum, þá eigum við að treysta því að það sem við eignumst sé frá Guði, sem hefur lofað að hann muni ekki gefa okkur steina," þ.e. eitthvað skaðlegt, heldur alltaf góðar gjafir". Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða. Eða hver er sá maður meðal yðar, sem gefur syni sínum stein, er hann biður um brauð? Eða höggorm, þegar hann biður um fisk? Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðir yðar á himnum gefa þeim góðar gjafir, sem biðja hann?" Matt. 7: 7.- 11.
Ef við höfum verið fengin til að tala tungum" með mannlegum þrýstingi, þá mun notkun þessarar gjafar" ekki haf neina andlega þýðingu fyrir okkur, - en ef þetta er sönn gjöf Andans, sem leitað hefur verið eftir og tekið á móti hjá Drottni, þá mun hún, - ef við höldum áfram að nota hana, - sýna að hún er raunverulega andleg með því að:
- a) Uppbyggja þann sem talar, uppbyggja hann í von, kærleika og nytsemi. Sá, sem talar tungum, byggir upp sjálfan sig, en spámaðurinn byggir upp söfnuðinn." 1. Kor. 14: 4.
- b) Hjálpa okkur til að vegsama Krist. Þetta er það sem Andinn gerir og gjafir hans sýna þær eru sannar, með því að færa okkur nær Kristi og gera okkur fært að vegsama hann með lofgjörð okkar.
10. Hefur sá sem talar tungum fulla sjálfstjórn?
Já, ef það er Heilagur Andi sem er að verki í honum. Aðal mismunurinn á Heilögum Anda og öllum öðrum (vanheilögum) öndum er sá, að hinir síðarnefndu reyna að ryðja frelsi okkar og persónuleika úr vegi, og reyna að ná valdi yfir okkur með því að láta okkur falla í trans og annað ástand, þar sem við höfum ekki lengur stjórn á okkur. Heilagur Andi er andi máttar, kærleika og stillingar og ávöxtur hans er bindindi, þ.e. sjálfstjórn, og hann vinnur aðeins í gegnum vilja okkar og meðvitandi samvinnu. En ávöxtur andans er: Kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og bindindi." Gal. 5:22. Það sem Páll segir um spádóma, á jafnt við um tungutal; og andar spámanna eru spámönnunum undirgefnir." (1. Kor. 14: 32 sjá neðar.) NB: Í sumum biblíuþýðingum er talað um að fólk verði frá sér numið (ecstasy") þegar það talar tungum. Slíkt orðalag á þó ekki rétt á sér samkvæmt grískum frumtexta og ber ekki að taka þannig til orða, t.d. skv. 1. Kor. 14: 32. Andar spámanna eru spámönnum undirgefnir því að Guð er ekki Guð truflunarinnar, heldur friðarins."
11. Er tungutalsgjöfin í dag sama gjöf og veitt var á Hvítasunnunni?
Tungutal sem fjallað er um í 1. Kor 14 var ekki hægt að skilja beint án útleggingar, en þeir sem heyrðu tungurnar, sem, talað er um í Post. 2, gátu hinsvegar skilið þær. Korintubréfið lýsir venjulegustu notkun þessarar gjafar, þar sem útlegging er nauðsynleg, en 2. kafli Postulasögunnar er þó ekki einstakur í sinni röð, því að til eru mörg dæmi úr nútímanum, sem oft eru tengd sérstökum tilfellum eða tímamótum, þar sem einhver hefur heyrt tungutal og þekkt málið sem talað var - sem hefur innihaldið boð frá Guði eða kall frá honum sem hefur haft mikla þýðingu í sambandi við fagnaðarerindið.
Þótt venjulega þurfi að útleggja tungutal, sem talað er opinberlega, er það fullkomlega frjálst í höndum guðs að hann endurtaki kraftaverk Hvítasunnunnar, þannig að menn tali ókunnugt tungumál og að aðrir sem þekkja málið, heyri það og skilji. Þetta er samt sem áður ekki aðalaðferðin eða notkun tungutalsgjafarinnar.
12. Á að leitast við að eignast þessa gjöf?
Líkt og er með allar aðrar gjafir Guðs, er hægt að leitast eftir að eignast þessa gjöf. Orð Páls eiga vissulega við hér, er hann segir: Keppið eftir kærleikanum. Sækist eftir andagáfunum en einkum eftir spádómsgáfu." 1. Kor. 14: 1. Þetta er samt aðeins ein þessara gjafa og við eigum að leita eftir handleiðslu Guðs í því hverju við eigum að sækjast eftir á hverjum tíma. Aðalþættirnir sem koma hér inn í eru þörf annarra og kirkjunnar og okkar eigin þörf. Við eigum ekki að láta aðra þröngva okkur til að sækjast eftir þessari gjöf, heldur að leita eftir að eignast hana, þegar Guð sannfærir okkur um að við þörfnumst hennar til þess að öðlast lausn innra með okkur til lofgjörðar og þjónustu.
Endilega kíkið á síðuna hjá Lindu okkar þar sem hún er að fjalla um Hvítasunnuna og hvað geriðist fyrir rúmum 2000 árum:
Jóhann Helgason trúbróðir okkar og bloggvinur minn er einnig með færslu um Hvítasunnuna og Heilagan Anda Endilega kíkið á færsluna hans. slóðin er hér fyrir neðan:
http://vonin.blog.is/blog/vonin/entry/535523/#comments
http://enoch.blog.is/blog/truin_a_jesu/
Mæli með bókunum:
"Þau tala tungum" eftir John L. Sherrill og "Góðan dag Helagur Andi" eftir Benny Hinn.
Guð blessi ykkur öll og gefi ykkur gleðilega hátíð í Jesú nafni.
Rósa Aðalsteinsdóttir
Ási - Vopnafirði
Trúmál og siðferði | Breytt 14.5.2008 kl. 10:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (44)
5.5.2008 | 22:56
Fagnaðarboðskaður Krists
Christian Glitter by www.christianglitter.com
Fagnaðarboðskapur Krists
Friður á jörðu öll það við þráum.
Okkur þyrstir í kærleik,
því af kærleiksneista við öll erum komin.
Svartur sem hvítur
snauður sem ríkur
margbrotinn sem einfaldur
og allt þar á milli.
Við erum hér öll jafn mikilvæg
Í allri framþróun mannkyns.
Betra væri ef allir það vissu.
Fagnaðarboðskapur Krists
er kærleikur.
Kærleikurinn er Guð
og Guð er allt.
Sigríður Katrín, des. 1996.
Trúmál og siðferði | Breytt 21.5.2008 kl. 12:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
29.4.2008 | 23:38
Saga af litlum dreng
Christian Glitter by www.christianglitter.com
Þetta bréf fékk ég fyrir nokkrum árum svo ábyggilega kannist þið við söguna um litla drenginn. Bréfið bar heitið Áfram vinavika" og skýrist heitið neðst í bréfinu.
Þetta er saga af litlum dreng sem var afar geðvondur. Faðir hans gaf Honum naglapakka og sagði honum að í hvert sinn sem hann missti stjórn á skapi sínu skyldi hann negla einn nagla í bakhlið grindverksins.
Fyrsta daginn negldi drengurinn 37 nagla í grindverkið. Næstu vikurnar lærði hann að Hafa stjórn á reiði sinni og fjöldi negldra nagla minnkaði dag frá degi. Hann uppgötvaði að það var auðveldara að hafa stjórn á skapi sínu en að negla alla þessa nagla í girðinguna.
Loksins rann upp sá dagur að enginn nagli var negldur og drengurinn hafði lært að hafa stjórn á sér. Hann sagði Föður sínum þetta og faðirinn lagði til að nú drægi drengurinn út einn nagla fyrir hvern þann dag sem hann hefði stjórn á skapi sínu. Dagarnir liðu og loks gat drengurinn sagt föður sínum að allir naglarnir væru horfnir.
Faðirinn tók soninn við hönd sér og leiddi hann að grindverkinu. Þú hefur staðið þig með prýði en, sjáðu öll götin á grindverkinu. Það verður Aldrei aftur eins og það var áður. Þegar þú segir eitthvað í reiði, skilur það eftir sig ör alveg eins og naglarnir.
Þú getur stungið mann með hnífi og dregið hnífinn aftur úr sárinu, en það er alveg sama hve oft þú biðst fyrirgefningar, örin eru þarna samt áfram. Ör sem orð skilja eftir sig. Geta verið jafnslæm og líkamleg ör.
"Vinir" eru sjaldgæfir eins og demantar.
Þeir hlusta á þig, skiptast á skoðunum við þig og opna hjarta sitt fyrir þér? Þú ert vinur minn og það er mér mikill heiður og fyrirgefðu mér ef
Ég hef skilið eftir göt í grindverkinu þínu.
Smá hugleiðing allavega fyrir Rósu:
Öllum hefur orðið á og við höfum örugglega öll skilið eftir göt í grindverki hjá öðrum. Langar að koma með fáein Biblíuvers um fyrirgefninguna.
Ef þér fyrirgefið mönnum misgjörðir þeirra, þá mun og faðir yðar himneskur fyrirgefa yður. En ef þér fyrirgefið ekki öðrum, mun faðir yðar ekki heldur fyrirgefa misgjörðir yðar." Matt. 6: 14.-15.
Og þegar þér eruð að biðja, þá fyrirgefið, ef yður þykir nokkuð við einhvern, til þess að faðir yðar á himnum fyrirgefi einnig yður misgjörðir yðar. Ef þér fyrirgefið ekki, mun faðir yðar á himnum ekki heldur fyrirgefa misgjörðir yðar." Mark. 11: 25.-26.
Umberið hver annan og fyrirgefið hver öðrum, ef einhver hefur sök á hendur öðrum. Eins og Drottinn hefur fyrirgefið yður, svo skuluð þér og gjöra." Kól. 3: 13.
Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt yður og alla mannvonsku yfirleitt. Verið góðviljaðir hver við annan, miskunnsamir, fúsir til að fyrirgefa hver öðrum, eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið yður." Efes. 4: 31.32.
Nei, elskið óvini yðar, og gjörið gott og lánið án þess að vænta nokkurs í staðinn, og laun yðar munu verða mikil, og þér verða börn hins hæsta, því að hann er góður við vanþakkláta og vonda. Verið miskunnsamir, eins og faðir yðar er miskunnsamur. Dæmið ekki, og þér munuð eigi dæmdir verða. Sakfellið eigi, og þér munuð eigi sakfelldir verða. Sýknið, og þér munuð sýknaðir verða. Gefið, og yður mun gefið verða. Góður mælir, troðinn, skekinn, fleytifullur mun lagður í skaut yðar. Því með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður aftur mælt verða." Lúk. 6: 35.-38.
Sértu því að færa fórn þína á altarið og minnist þess þar, að bróðir þinn hefur eitthvað á móti þér, þá skaltu skilja gjöf þína eftir fyrir framan altarið, fara fyrst og sættast við bróður þinn, koma síðan og færa fórn þína" Matt. 5: 23.-24.
Guð blessi ykkur.
Rósa Aðalsteinsdóttir
Vopnafirði
Trúmál og siðferði | Breytt 21.5.2008 kl. 12:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
23.4.2008 | 02:24
Bænagangan 2008 og að sjálfsögðu líka á Vopnafirði
Kæru Vopnfirðingar.
Bjóðum sumarið velkomið með bæn. Gengið verður á 27 stöðum víðsvegar um landið og beðið fyrir landi og þjóð, fimmta árið í röð. Við hér á Vopnafirði tókum þátt í fyrsta skipti fyrir ári síðan og nú langar okkur að bjóða ykkur að taka þátt. Allar göngurnar byrja kl. 9:00.
Okkur hefur verið úthlutað einu bænarefni:
Umhverfismál:
Guð gefi okkur visku til að fara vel með landið. Að eðlilegt jafnvægi sé á nýtingu lands og umhverfisvernd. Virkjanamálum og stóriðjuframkvæmdum sér stýrt af réttsýni og skynsemi. Að við sem einstaklingar mættum fara vel með þessar gjafir Guðs.
Svo megum við ráða hvað við viljum biðja fyrir. Við að sjálfsögðu leggjum áherslu á Vopnafjörð og Vopnfirðinga. Við höfum beðið fyrir atvinnuvegum þessa byggðalags í gegnum árin og nú þarf virkilega að leggja áherslu að allir geti fengið atvinnu og að fólk geti lifað af þeim launum sem þau eru að fá fyrir störf sín.
Þegar við göngum um bæinn þá stoppum við víða og biðjum fyrir t.d. fyrirtæki sem við erum stödd hjá hverju sinni. Við þurfum að leggja mjög mikla áherslu á að biðja fyrir æskunni okkar og að þau séu vernduð gegn allri vá s.s. áfengi og eiturlyfjum.
Við mætum rétt fyrir kl. 9:00 fyrir neðan Ás.
Guð blessi ykkur öll.
Rósa Aðalsteinsdóttir
Ási - Hafnarbyggð 37
Trúmál og siðferði | Breytt 29.4.2008 kl. 23:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (53)
19.4.2008 | 18:21
Bæn Jaebesar
Christian Glitter by www.christianglitter.com
Bæn Jaebesar
En Jaebes hrópaði til Guðs Ísraels
og sagði:
Blessaðu mig.
Auktu við land mitt.
Hönd þín sé með mér
og bægðu frá mér böli
svo ég þurfi ekki að líða kvalir."
Og Guð veitti honum það
sem hann bað um.
(Ný þýðing Hins íslenska Biblíufélags, Biblíurit 4, 1996)
Kæru vinir.
Vinkona mín sem átti að fara í hjartaskurð á mánudaginn var á að fara í hjartaskurð núna á mánudaginn 21. apríl. Hún er mjög illa farin og eru æðarnar flestar kolstíflaðar. Hún getur ekki verið svona og einnig er hún alls ekki hraust til að fara í svona stórann uppskurð. Þess vegna þarf ég að biðja ykkur að biðja fyrir vinkonu minni. Biðja um hjálp og vernd Guðs. Biðja fyrir Tómasi sem er hjartaskurðlæknir og hann mun framkvæma aðgerðina.
Ég talaði við vinkonu mína rétt áðan og þá var hún þreytt og ekki eins hress og hún hefur verið undanfarna daga. Ein ástæðan er kvíði og er það alveg skiljanlegt.
Áhyggjur:
Verið ekki hugsjúkir um neitt, heldur gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú." Fíl. 4: 6-7.
Auðmýkið yður því undir Guðs voldugu hönd, til þess að hann á sínum tíma upphefji yður. Varpið allri áhyggju yðar á hann, því að hann ber umhyggju fyrir yður." 1. Pét. 5: 6-9.
Trúarbænin:
Og þetta er sú djörfung, sem vér höfum til hans: Ef vér biðjum um eitthvað eftir hans vilja, þá heyrir hann oss. Og ef vér vitum, að hann heyrir oss, um hvað sem vér biðjum, þá vitum vér, að oss eru veittar þær bænir, sem vér höfum beðið hann um." 1. Jóh. 5: 14-15.
Sé einhver sjúkur yðar á meðal, þá kalli hann til sín öldunga safnaðarins og þeir skulu smyrja hann með olíu í nafni Drottins og biðjast fyrir yfir honum. Trúarbænin mun gjöra hinn sjúka heilan, og Drottinn mun reisa hann á fætur. Þær syndir, sem hann kann að hafa drýgt, munu honum verða fyrirgefnar. Játið því hver fyrir öðrum syndir yðar og biðjið hver fyrir öðrum, til þess að þér verðið heilbrigðir. Kröftug bæn réttláts manns megnar mikið." Jak. 5: 14-16.
Guð blessi ykkur öll.
Rósa Aðalsteinsdóttir
Vopnafirði.
Trúmál og siðferði | Breytt 26.4.2008 kl. 02:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)
13.4.2008 | 18:25
FALLEG BÆN
Ég bað Guð að taka burt venjur mína.
Guð sagði NEI.
Ég á ekki að taka þær burt, heldur átt þú að láta af þeim.
Ég bað Guð að gefa mér þolinmæði.
Guð sagði NEI.
Þolinmæði er afleiðing andstreymis.
Hún er ekki gefin, hún er þjálfuð.
Ég bað Guð að gefa mér hamingju.
Guð sagði NEI.
Ég veit þér blessun. Hamingja er undir þér komin.
Ég bað Guð að leyfa mér að sleppa við sársauka.
Guð sagði Nei.
Þjáningin fær til að hugsa ekki bara um daglegt vafstur þessa heims
og hún dregur þig nær mér.
Ég bað Guð um að hjálpa mér að vaxa andlega (í trúnni).
Guð sagði NEI.
Þú verður að vaxa sjálf(ur)!,
en ég vil sníða þig til, móta svo að þú berir ávöxt.
Ég bað Guð um alla hluti svo að ég mætti njóta lífsins.
Guð sagði NEI.
Ég vil gefa þér líf svo að þú megir njóta allra hluta.
Ég bað Guð að hjálpa mér að ELSKA aðra jafnmikið og hann elskar mig.
Guð sagði JÁ...... loksins ertu farinn að skilja hvað er mikilvægt.
Ef þú elskar Guð, miðlaðu þá þessum boðskap með öðrum.
ÞÚ ÁTT DAGINN Í DAG. EKKI LÁTA HANN FARA TIL SPILLIS.
Þú gætir verið öllum heiminum sem einhver venjuleg manneskja, en einhverri venjulegri manneskju sem allur heimurinn."
Guð blessi þig!
Vinkona mín
Það var búið að ákveða að hún ætti að fara í hjartaskurð á morgunn. Ég var búin að vera í símasambandi við hana í morgunn og einnig mann hennar. Ég sagði henni að ég skildi senda trúsystkinum okkar bréf og biðja þau að biðja fyrir henni. Rétt eftir að bréfin voru farin þá hringdi hún og sagði mér að það væri búið að ákveða að fresta aðgerð. Ég viðurkenni að það var viss léttir því ég vissi að hún var ekki í nógu góðu líkamlegu ástandi til að fara í svona stóran skurð. Eftir símtalið varð mér hugsað til frænku minnar sem ég missti 1990. Hún var á skurðarborðinu þegar hjartað stoppaði. Hún var aðeins 48 ára gömul.
Ég bið Guð að gefa læknunum og hjúkrunarfólki visku sem annast vinkonu mína og ég bið Jesú Krist sem er besti læknirinn að grípa inní og lækna vinkonu mína.
Hann Jesús Kristur" bar sjálfur syndir vorar á líkama sínum upp á tréð, til þess að vér skyldum deyja frá syndunum og lifa réttlætinu. Fyrir hans benjar eruð þér læknaðir." 1. Pét. 2: 24.
Hann læknar þá, er hafa sundurkramið hjarta, og bindur um benjar þeirra." Sálm. 143: 3.
En er Jesús heyrði þetta, sagði hann við hann: ,,Óttast ekki, trú þú aðeins, og mun hún heil verða." Lúk. 8: 50.
Jesús sagði: Óttast ekki, trú þú aðeins." Mark. 5: 36.
Guð blessi ykkur öll.
Rósa Aðalsteinsdóttir
Ási Vopnafirði
Trúmál og siðferði | Breytt 26.4.2008 kl. 02:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (53)