Móðir mín fór heim til Jesú fyrir 40 árum

Minningargrein um Stefaníu Sigurðardóttir

Fædd 22. Júlí 1925. Dáin 13. Ágúst 1968.

 

Eftir Guðbjörgu Salóme Þorsteinsdóttir

Afturelding Málgagn Hvítasunnumanna á Ísland

35. ÁRG. 1969 1.-3. TBL.

 

         

Í fábreytni sveitalífsins, og eins og það var fyrir þrjátíu til fjörutíu árum, meðan nútímahraðinn náði þangað ekki, urðu gestakomur stundum ógleymanlegar minningar, sem tímans tönn verður erfitt að vinna á.

Það var eftirminnilegur sunnudagur fyrir okkur systurnar í Vogum, þegar frændi okkar og kona hans, komu fyrst í heimsókn til okkar með litlu, fallegu stúlkuna sína.

Við átum engin lítil systkini, og enga von um að eignast þau, það var því margfaldur fögnuður fyrir okkur, er þær mæðgur fluttu til okkar litlu síðar og dvöldu af sérstökum ástæðum í sama heimili um nokkur ár. Við eignuðumst þar þá systur, sem varð okkur öllum kær frá því fyrsta og þótt árin og fjarlægðin slitu samvistir okkar, slitnaði sú taug aldrei, sem batt okkur saman, og nú þegar hún er alflutt héðan hópast minningarnar frá liðnum árum saman, með þakklæti fyrir allt til hans, sem er gjafarinn allra góðra hluta. Við söknum hennar öll sem þekktum hana en samfögum henni þó, að vera leyst frá þrengingum þessa heims og komin yfir á strönd lífsins til þess að vera með Drottni alla tíma.

Stefanía Sigurðardóttir var fædd í Reykjafirði við Ísafjarðardjúp og voru foreldrar hennar Guðmundína Þorbjörg Jónsdóttir og Sigurður Rósinkar Halldórsson  Þegar hún var 5 ára gömul hófu foreldrar hennar búskap á jörðinni Galtahrygg í sama hreppi, og átti hún þar sín æskuár.

Þegar hún var innan við tvítugt dvaldi hún tvo vetur á Ísafirði og komst þar í kynni við lifandi trúað fólk, og byrjaði að sækja samkomur Hvítasunnumanna þar á staðnum, og fékk náð til að taka á móti Jesú Kristi sem persónulegum frelsara sínum, og eignaðist þann frið og fögnuð í hjarta sitt, sem þeir einir þekkja, er reynt hafa og sem hún að vissu leyti hafði þráð frá fyrstu bernsku. Það leiddi svo af sjálfu sér að hún tók biblíulega niðurdýfingarskírn og var ein meðal þeirra sem innritaðir voru í Salemsöfnuðinn við stofnun hans. En dvöl hennar á Ísafirði var ekki mikið lengri nema þá tíma og tíma. Um nokkurra ára bil vann hún á ýmsum stöðum við sveitavinnu á sumrum en oftast á veturna í Reykjavík, en hvar sem hún var, duldi hún  ekki á hvern hún trúði.

Á þessum árum fór hún að finna fyrir sjúkdómi, er leiddi til þess að hún varð að fara utan til uppskurðar á höfði, og gekk eftir það ekki heil til skógar, og það urðu fleiri ferðirnar sem hún mátti fara til Kaupmannahafnar í sömu erindum og liggja þar á sjúkrahúsi. En á milli veikindaáfalla sinna fann hún sér starfsvið á akri Drottins, að ganga í hús og bjóða kristileg blöð og bækur. Eignaðist Afturelding þar áhugasama sölukonu. Og þeir sem sjaldan eða aldrei lögðu leið sína þangað, sem, farið var með Guðs orð fengu það heim til sín, ásamt vitnisburði um örugga trú hinnar ungu stúlku, og margir eignuðust trúan fyrirbiðjanda, þar sem hún var. Í vasabókinni hennar, þar sem bænarefnin voru skrifuð, er fjöldi nafna, sem ég get hugsað mér að hafi ekki verið á bænaskrá margra annarra.

Árið 1955 giftist Stefanía eftirlifandi manni sínum, Aðalsteini Sigurðssyni frá Vopnafirði, og fluttu þau þangað austur og byggðu upp sitt framtíðarheimili. En ekki aðeins það. – Á Vopnafirði var dálítill hópur Hvítasunnumanna og trú á vakningu lá í loftinu.

Með áhuga og dugnaði var hafist handa að byggja samkomuhús þar á staðnum svo fast kristilegt starf gæti hafist þar og munu þau hjónin ásamt fjölskyldu manns hennar hafa átt drýgstan þátt í því.

Það var Stefaníu því alveg sérstakt gleði og þakkarefni, að henni auðnaðist að sjá hið myndarlega samkonuhús vígt í ágúst 1967 og að fastur starfsmaður safnaðarins var fluttur þangað og tekinn við þjónustu þar á staðnum.

En nú var heilsa hennar á þrotum komin, æðrulaust og án þess að kvarta hafði hún borið sjúkdóm sinni nærri tvo tugi ára. Nokkru fyrir jól 1967 varð hún að fara fársjúk frá heimili sínu og leggjast á  sjúkrahús í Reykjavík, þar sem hún svo andaðist átta mánuðum síðar.

Í vitnisburði sem Stefanía skrifaði nokkrum árum eftir að hún kom til lifandi trúar segir hún: „Ég hafði ekki búist við að frelsið hefði eins mikið að gefa ungri stúlku á morgni lífsins, og raun varð á.“ Síðar í sömu grein lýsir hún tilfinningum sínum daginn eftir að hún gafst Kristi og segir: „Nú vissi ég eins vel og ég gekk þarna á götunni, að ég var eilíflega hólpin í Jesú Kristi og nafn mitt væri innritað í himnum. Þetta var óviðjafnanleg tilfinning.“ Guði sé lof! Þetta voru ekki aðeins tilfinningar heldur vissa, sem hélt í lífi og dauða. Hún vitnaði um það með lífi til hinstu stunda, hvað frelsið í Kristi hafði einnig að gefa sjúkri og deyjandi móður. Hún gat í sannleika gert orð sálmaskáldsins að sínum:

„Ég veit, minn ljúfur lifir,

Lausnarinn himnum á.

Hann ræður öllu yfir,

Einn heitir Jesús sá.

Sigrandi dauðans sanni,

Sjálfur á krossi dó.

Og mér svo aumum manni,

Eilíft líf víst til bjó.“

Það er bæn mín að börnin hennar þrjú og aðrir ástvinir, fái að reyna sannleiksgildi þessara orða, og þeim veitist einnig náð að standa stöðug allt til enda.

Guðbjörg Salóme Þorsteinsdóttir Ísafirði

 

  Heima hjá Jesú 

Nú þjakar ei lengur

hið þungbæra mein,

er þjáningu veitti svo sára.

Nú fagnarðu sigri

hvar sorg er ei nein,

í sælunnar heimi án tára.

 

Þig trúsystkinin kveðja

með trega og þökk

og trygglyndi maðurinn þinn góði.

Foreldrar, systir

koma nú klökk.

og kanna í minningasjóði.

 

Og börnin þín ungu

allt þakka svo hljóð,

er fengu í kærleik að njóta.

En betri þau munu

ei finna fjársjóð,

en foreldra trúararf hljóta.

 

Við minnumst þess ætíð,

hve ötul þú varst, að

útbreiða boðskapinn hreina.

Og landið þitt kæra, og

byggð þína barst í bæn,

náð það fengi að reyna.

 

Við kveðjum þig aðeins um örskamma stund,

því innan skamms dagurinn ljómar.

Er básúnan kallar á brúðgumans fund,

oss bergmálið þegar nú ómar.

 

Sigurlaug Kristinsdóttir

 

    Minning frá jarðarför sumarið 1968

Grein eftir Ásmund Eiríksson

Afturelding Málgagn Hvítasunnumanna á Ísland

35. ÁRG. 1969 1.-3. TBL.

 

Um miðja ágúst síðastliðinn aðstoðaði ég við jarðarför austur á Vopnafirði. Ung móðir hafðiÁsi, Palli og Rósa gengið burt af þessum heimi í lifandi trú á Drottin sinn og frelsara. Það var Stefanía Sigurðardóttir og er hennar getið á öðrum stað í blaði þessu. Eftir jarðarförina sagði eftirlifandi maður hennar, Aðalsteinn Sigurðsson, mér frá því sem ég nefni hér. Hjónin áttu þrjú börn, og eru það þau sem standa hér við kistu móður sinnar, en á túninu við heimili hinnar látnu stansaði líkfylgdin litla stund. Fjölmenn líkfylgd er lengra til vinstri, svo að hún kemur ekki fram á myndinni. En þarna tók maður hinnar látnu mynd af kistunni og börnin vildu fá að standa við kistu móður sinnar.

Það sem Aðalsteinn sagði mér, var þetta. Meðan konan hans hvíldi á líkbörunum, komu börnin hvað eftir  annað til pabba síns og sögðust ekki „vilja, að mamma þeirra yrði látin fara niður í moldina.“ Þótt hann reyndi að benda þeim á, að það væri aðeins líkami hennar, sem færi niður í moldina en sál hennar væri komin til Guðs, heim til himins, og þau virtust verða þá róleg í bili, þá sótti fljótt aftur í sama horfið. Þau komu og vildu ekki að mamma væri látin niður í moldina. Eitt sinn, er þau komu þannig, og jafnvel enn ákveðnar en áður, var eins og hvíslað væri að pabba þeirra: „Lestu fyrir þau kaflann um himininn í bókinni „Heimur í báli“, eftir Billy Graham, sem þú átt heima.“ Hann gerði þetta. Hér birti ég svo kaflann, sem hann las:

„Himinninn er meira en hugarástand eða skilyrði lífs. Hann er „fyrirbúinn“ staður, sem merkir, að hann á að vera hæfur staður til dvalar og notkunar fólki, sem hefur sætst við Guð fyrir Jesú Krist.

Þetta allt leiðir oss að þeirri ályktun, að himinninn verður eins stór og alheimurinn sjálfur. Hann verður eins undursamlegur og fagur og sjálfur Guð skaparinn getur gert hann. Allt það, sem þú þarfnast til sælu og gleði er verið að undirbúa. Sérhver þrá og sérhver löngun mun hljóta algera fullnægju.

Ein af lýsingunum á himninum finnst á síðustu blaðsíðum Biblíunnar, þar stendur: „Og ég Jóhannes sá borgina helgu, nýju Jerúsalem, stíga niður af himni frá Guði, búna sem brúði, er skartar fyrir manni sínum.“ Opinb. 21: 2. Það er ekkert meir almennt fagurt en brúður. Hugleiðið alla tilhlökkunina, umhyggjuna og undirbúning brúðarinnar. Kjóllinn hennar, hárið, hvernig hún ber sig, brosið hennar  og augljósa gleðin sameinast allt til að gera brúðkaupsstund hennar alhæsta atburði  ævi hennar. Aldrei hef ég séð óaðlaðandi brúður, og Biblían notar þessa fegurð til að lýsa með himninum. Á brúðkaupsmorgni elstu dóttur minnar átti ég einkasamtal við hana. Slíkt samband af tilhlökkun, gleði og hamingju hef ég aldrei séð áður á andliti nokkurrar konu.

Jóhannes postuli, sem leyft var að skyggnast inn í eilífðina sagði: „Og Guð mun þerra hvert tár af augum þeirra, og dauðinn mun ekki framar til vera, hið fyrra er farið. Og sá, sem í hásætinu sat, sagði: „Sjá, ég geri alla hluti nýja“ Opinb. 21: 4.-5.

Kvöld nokkurt var ung stúlka á gangi með föður sínum. Hún var mjög þögul um langan tíma. Loks spurði faðir hennar, um hvað hún væri að hugsa. „Ég var aðeins að hugsa um það,“ sagði hún, „ef himinninn með stjörnum sínum er svo fagur á ranghverfunni, hve dásamlegur hann hlýtur að vera á rétthverfunni.“

Himinninn verður sú fullkomnun, sem vér höfum alltaf þráð. Allir þeir hlutir, sem gera jörðina óaðlaðandi og sorglega, verða ekki á himni. Það verður engin nótt, enginn dauði, enginn sjúkdómur, engin sorg, engin tár, engin fáfræði, engin vonbrigði, engin stríð. Hann verður fullur af heilbrigði, þrótti, lífsmagni, þekkingu, hamingju, tilbeiðslu, kærleika og fullkomnun....  

Þegar vér höfum þjappað saman lýsingum Biblíunnar á himnum í samsetta mynd, þá sjáum ve´r að hún er af nýjum himni og nýrri jörð, krýndum með borg, „sem Guð er höfundur og byggingarmeistari að.“ Í Opinberunarbókinni lýsir Jóhannes henni þannig, að hún hefur tré, vatnslindir, ávexti, skikkjur, pálma, hljómlist, kórónur, dýra steina, gull, ljós, regnbogaliti, vatn, þekking, kærleika, heilagleika og nærveru Guðs og sonar hans. Allt þetta og miklu meira verður himinninn.

Páll postuli ritaði: „Föðurland vort er á himni, og frá himni væntum vér, að frelsari vor komi, Drottinn Jesús Kristur.“ Fil. 3:20. Biblían kennir, að við kristnir menn erum ekki borgarar hér. Vér erum gestir, útlendingar, pílagrímar og ferðamenn á jörðinni. „Vér höfum hér ekki borg, sem stendur.“ Hebr. 13: 14. Við þráum betra ættland, himininn.“

Þetta var kaflinn sem faðir litlu barnanna las fyrir þau. Og hvernig verkaði þetta á þau? Þannig að þau urðu allt önnur. Þegar þau skildu og trúðu, að í þessa fegurð var mamma þeirra komin, sál hennar, hún sjálf, hennar eigin persónuleiki, þá fengu þau gleði sína aftur og allt hið dapra var farið. Eftir þessa stund töluðu þau aldrei um að þau „vildu ekki að mamma færi niður í moldina.“  Nú skildu þau að hún var komin heim til himins, og þar leið henni eins vel og himinninn  er fagur.

Hér má bæta við, að bókin „Heimur í báli“, sem faðirinn las þetta úr, er full af sannleika, ekki aðeins um himininn, heldur flestu sem lýtur að eilífðarmálunum og kemur hverjum manni við.

Ásmundur Eiríksson

Kæru bloggvinir og allir hinir sem lesa þessar greinar. Í morgunn um níuleytið, fyrir 40 árum dó móður mín. Pabbi var að vinna við að mála olíutank hér rétt hjá heimilinu okkar og fann eins og það slitnaði strengur í hjartanu. Það var ekki hægt að hringja til Vopnafjarðar fyrr en um þrjúleytið vegna bilunar. Kona sem vann á Símstöðinni hérna hrindi og lét pabba vita og rétt á eftir hringdu Pála systir pabba og maðurinn hennar Ásmundur. Eldri bróðir minn var hjá pabba þegar hann fékk tilkynninguna um að mamma væri dáin og þeir drifu sig út í sveit að ná í hinn bróðir minn. Pabbi hringdi vestur í Önundarfjörð og vildi tala við mig en ég var ekki nærri símanum. Starfsfólkið tók þá ákvörðun að bíða með að segja mér frá þessu þangað til við kæmum til Reykjavíkur tveimur dögum seinna. Sú áætlun stóðs ekki því jafnaldra mín sagði mér að um morguninn hefði eldri krökkunum verið sagt leyndarmál um mig. Ég að sjálfsögðu var spennt og hélt að það ætti að gera eitthvað spennandi og nöldraði þangað til ég fékk að vita leyndarmálið!

Árið 1966 í desember vorum við pabbi í Reykjavík. Móðir mín hafði verið í Danmörku vegna uppskurðar og mátti fara heim til Vopnafjarðar. Ég var með í þessari ferð því ég átti að hitta lækni vegna veikinda minna. Pabbi var beðinn að koma í viðtal á Landspítalanum og var honum þá sagt að það væri ekkert hægt að gera fyrir móður mína. Sjúkdómurinn var illvígur. Pabba var bannað að segja tengdaforeldrum sínum, mákonu og okkur börnunum frá  því að mamma myndi ekki eiga langt eftir ólifað. Pabbi þurfti að bera þennan harm einn í 1 og hálft ár.

Í dag fékk ég óvænt gest frá Englandi sem var algjör himnasending fyrir mig. Þess vegna tafðist að setja þessa grein inná netið. Ég mun segja ykkur frá þessum frábæra Guðs þjóni í næstu færslu. Mun þá einnig setja inn vitnisburðinn hans, myndir og slóðina á heimasíðuna hans. 

Guð veri með ykkur.

Kær kveðja/Rósa

P.s. Sömu myndir hafðar núna og voru notaðar þegar greinarnar voru upphaflega birtar í Aftureldingu nema að pabbi fékk að vera með núna.  Smile Rósa


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæl Guðlaug mín.

Jú þetta var erfitt en ég setti inn þessar greinar fyrir ykkur sem ég hef kynnst í bloggheimum eins og ég kalla þetta fyrirbæri og einnig fyrir frændfólk mitt- afkomendur móðursystur minnar, sem hefur ekki séð þessar greinar.

Guð blessi þig og varðveiti

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 14.8.2008 kl. 00:18

2 Smámynd: Halldóra Lára Ásgeirsdóttir

Rósa mín!

Drottinn styrki þig á alla lund og blessi þig !

    Kveðja úr Garðabænum

       Halldóra.
 

Halldóra Lára Ásgeirsdóttir, 14.8.2008 kl. 00:39

3 Smámynd: Guðrún Markúsdóttir

Guð blessi þig, Rósa mín, og blessuð sé minning móður þinnar.

Guðrún Markúsdóttir, 14.8.2008 kl. 01:07

4 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sælar stelpur, Halldóra og Guðrún.

Fleiri næturhrafnar en ég  Þakka ykkur fyrir innlitið og blessunaróskir.

Megi algóður Guð blessa ykkur

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 14.8.2008 kl. 01:18

5 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Elsku Rósa mín, falleg en erfið minning. Guð blessi mömmu þína og ykkur öll.  Takk fyrir að treysta okkur fyrir þessu vina mín.  Góða nott   Heart Beat Good Night 

Ásdís Sigurðardóttir, 14.8.2008 kl. 01:25

6 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæl Ásdís mín.

Takk fyrir innlitið og blessunaróskir fyrir okkur fjölskylduna. Við vorum flest hér  í kvöld ásamt gestum. Áttum góða samverustund með lestri Guðs orðs, söng, bæn og spjalli. Yngri bróðir minn km svo um miðnætti en hann er búsettur á höfuðborgarsvæðinu.

Nú er tímabært að fara að halla sér.

Guð er með þér hrausta hetja

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 14.8.2008 kl. 02:31

7 Smámynd: Linda

knús.

Linda, 14.8.2008 kl. 14:33

8 Smámynd: Guðrún Magnea Helgadóttir

Sæl mín kæra bloggvinkona. Takk fyrir frábæra minningargrein um mömmu þína...veistu að þið eruð alveg ótrúlega líkar, ég hélt fyrst að þetta væri mynd af þér.

Er nafnið Stefanía vinsælt á Vopnafirði? Móðuramma mín var frá Leifsstöðum í Vopnafirði og hún hét Stefanía Sigurlaug Kristjánsdóttir...en þú veist þetta allt að sjálfsögðu.

Guðrún Magnea Helgadóttir, 14.8.2008 kl. 15:55

9 Smámynd: Elísabet Sigmarsdóttir

Glitter Graphics

Angel Glitter

Sæl elsku frænka , takk fyrir þessa fallegu færslu .

Guð blessi móður þín.  

Elísabet Sigmarsdóttir, 14.8.2008 kl. 18:10

10 Smámynd: Kristín Gunnarsdóttir

Guð geimi þig elsku Rósa og blessi minníngu mömmu þinnar.

Þín vinkona

Kristín Gunnarsdóttir, 14.8.2008 kl. 19:00

11 Smámynd: Jens Sigurjónsson

Guð blessi minningu móður þinnar.

Drottinn blessi þig og þína.

Jens Sigurjónsson, 14.8.2008 kl. 22:27

12 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Var að kíkja á myndirnar og greinina aftur, mikið ertu lík henni mömmu þinni, báðar yndisfríðar og með kærleik í augunum. 

Ásdís Sigurðardóttir, 14.8.2008 kl. 22:32

13 Smámynd: Bryndís Eva Vilhjálmsdóttir

Takk fyrir að leyfa okkur að lesa þessa minningargrein.

 Móðir þín hefur verið ein af þessum yndislegu trúarhetjum, Guð blessi minningu hennar og allra þeirra sem ruddu brautina og voru vitnisburðir fyrir lifandi Guð og fyrirvörðu sig ekki vegna fagnaðarerindisins.

Bryndís Eva Vilhjálmsdóttir, 15.8.2008 kl. 01:34

14 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Guð gefi ykkur öllum góðan dag.

Takk fyrir innlitið, hlý orð og góðar óskir.

Vinur minn sem kom að heimsækja mig fyrir tveimur dögum fór í morgunn. Hann kemur aftur á sunnudaginn. Hef verið að skoða blogg hjá ykkur og nú ætla ég að kíkja á mína eigin síðu.

Linda mín, takk fyrir innlitið og fallega hjartað sem þú sendir mér. 

Guðrún Magnea, kæra bloggvinkona. Jú nafnið Stefanía var mjög algengt hér en ég man nú ekki eftir neinum nýjum skvísum með þetta fallega nafn. Mamma er fædd í Mjóafirði v/Ísafjarðardjúp svo hennar nafn er ekki héðan. Þegar afi var ungur drengur þá flutti í Vatnsfjörðinn kona sem hét Stefanía Vigfúsdóttir sem hélt mikið uppá afa. Hún var greind kona og kenndi afa heilmargt en hann var mjög námsfús. Launaði afi þessari góðu konu fyrir alla kennsluna með því að láta eldri dóttur sína heita Stefaníu.

Elísabet mín, takk fyrir myndina og fallega kveðju til mín.

Kristín mín, takk fyrir símtalið í gær og fallegt innlegg hér á síðuna mína. Vegni þér vel í Danmörku.

Jenni minn, takk fyrir fallegt innlegg hér á síðuna mína. Vegni þér Vopnfirðingur sæll vel í Kanada.

Ásdís mín, takk fyrir falleg orð og takk fyrir að hafa mátt vera með í að vekja athygli fólks á meðbræður okkar og systur sem eiga bágt. Mörg af þeim eiga ekki einu sinni húsaskjól og gista þess vegna undir berum himni. Þetta er hneisa fyrir okkur Íslendinga.

Bryndís mín, takk fyrir frábært innlegg. Já svo sannarlega var mamma ein af trúarhetjum okkar og það var hún amma þín svo sannarlega líka.

Guð blessi ykkur öll og gefi ykkur vonaríka framíð í Jesú nafni.

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 15.8.2008 kl. 11:18

15 Smámynd: Guðrún Magnea Helgadóttir

Takk fyrir kommentin á bloggið mitt mín kæra bloggvinkona...En ég sagði þér ekki hversu falleg móðir þín var, þú ert lík henni í sjón og jafn falleg að innan og án efa enginn eftirbátur hennar í að koma réttlætinu á framfæri.

Guð blessi þig ávallt min kæra, alltaf.

Guðrún Magnea Helgadóttir, 15.8.2008 kl. 15:35

16 identicon

Elsku Rósa frænka - þú ert yndisleg dóttir móður þinnar og henni til sóma!!!

Ása (IP-tala skráð) 15.8.2008 kl. 23:03

17 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Elsku Rósa mín blessuð sé minning móður þinnar Guð blessi þig.

Kristín Katla Árnadóttir, 16.8.2008 kl. 11:05

18 identicon

Sæl Rósa!

Ég má til með að koma með smáminningarbrot frá þessum degi. Árni frændi var einn af líkmönnunum þegar mamma þín var jörðuð. Eftir að hann var búinn að klæða sig upp á, kominn í jakkaföt, hvíta skyrtu og búinn að setja á sig bindi, settist hann niður við eldhúsborðið og fékk sér kaffi. Hann var rétt búinn að hella í bollann sinn þegar tappinn spýttist úr kaffikönnunni og hafnaði í bollanum sem tæmdist algjörlega. Það merkilega var að það kom ekki einn einasti kaffidropi í hvítu skyrtuna. Þetta er eitthvað sem ekki gleymist þó að árin líði. Takk fyrir að birta þessar myndir og minningargreinina. Ég var einmitt að segja syni mínum frá minningum úr Ási þegar við renndum framhjá um verslunarmannahelgina.

Bestu kveðjur, Áslaug

Áslaug (IP-tala skráð) 16.8.2008 kl. 18:57

19 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sælar stelpur mína.

Takk fyrir innlitið, hlý orð og góðar óskir.

Guðrún Magnea Tælandsfari, vona að ég geti eitthvað gert í réttlætismálum. Hef sterka réttlætiskennd og þoli alls ekki þegar ég sé gert á hlut þeirra sem minna mega sín.

Ása Gréta, Hjalli, Unnur, Sigurlaug og Haraldur voru í heimsókn hjá okkur nú í kvöld. þau sniðug að koma nú þegar við fengum þrjá góða daga í röð og það um helgi.  Þetta er sannkallað kraftaverk í sumar.

Katla mín, þakka þér hlý orð og góðar óskir.

Guð blessi ykkur stelpur.

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 16.8.2008 kl. 23:40

20 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæl Áslaug.

Takk fyrir innlitið og skemmtilegt innlegg.

Ég var alveg hissa þegar ég sá þig hér á blogginu.  

Aldeilis heppni að kaffið skildi ekki fara í fötin hans Árna. Ég man líka eftir því þegar þið áttuð heima hérna. Man að við vorum oft að henda sveskjusteinum niður í eldhús til ykkar meðfram rörinu. Árni kom einhvern tímann upp og náði í okkur og lét okkur týna upp steinana. Held samt að það hafi ekki stöðvað okkur í prakkaraskapnum. Hann var líka svaka prakkari. Einhvern tímann þegar ég var í heimsókn hjá þeim uppá Lónabraut spurði hann mig spurningar sem var virkilega fyndin og ég svaraði "strax á morgunn". Mamma þín sagði mér að Sonja Dröfn sem var hjá þeim þá, hafi spurt hvort þetta væri rétt með mig og Árna. Mamma þín hlýtur að hafa sagt þér hvað ég er að ýja að. Annars segi ég þér þennan brandara þegar ég hitti þig næst á Akureyrarflugvelli.

Guð blessi þig og þína.

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 16.8.2008 kl. 23:51

21 identicon

Blessuð sé minning hennar. Og þettav ar falleg lesning og góð.

Hafðu það alltaf sem best

Sigrún Jóna (IP-tala skráð) 17.8.2008 kl. 13:15

22 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir


Christian Glitter by www.christianglitter.com

Sæl Sigrún mín.

Takk fyrir innlitið,hlý orð og góðar óskir.

Sendi þér blómakonunni, fallegan blómvönd.

Vertu Guði falin.

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 17.8.2008 kl. 13:49

23 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll frændi.

Vinur minn Clifford kom á þessari rútu og rútan stóð á reitnum fyrir neðan þar sem við eigum heima. Ég ætlaði að setja inn færslu um Clifford í kvöld en verð að fresta því til morguns.

Þú varst sem sagt í frændgarðinu þegar þú sást rútuna. Engar rófur til að narta í en þú hefðir getað fundið jarðarber.  Þú ert nú meiri maðurinn að heilsa ekki uppá okkur frændfólkið þitt.

Þú varst heppinn með veðrið. Nú erum við búin að fá gott veður í nokkra daga samfellt. Undur og stórmerki í sumar.

Takk fyrir hólið með þorpið okkar. Jú hér býr sóma fólk og við erum alltaf að gera endurbætur og viljum gera enn betur.

Vertu Guði falinn.

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 18.8.2008 kl. 22:02

24 Smámynd: Brynja skordal

 knús á þig Elskuleg

Brynja skordal, 19.8.2008 kl. 16:59

25 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæl Brynja mín.

Takk fyrir innlitið kæra bloggvinkona.

Vertu Guði falin.

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 20.8.2008 kl. 08:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband