Færsluflokkur: Menning og listir

Kristnitakan á Íslandi

Kristnitakan á Íslandi 

Norrænir menn kynntust kristni í víkingaferðum t.d. á Bretlandseyjum. Á Norðurlöndum reis trúboðsalda á 10. –11. öld og  náði til Íslands á 10 öld.

Nokkrir trúboðar lögðu leið sína til Íslands. Fyrstir voru Þorvaldur Koðránsson og Friðrekur biskup frá Saxlandi í Þýskalandi. Ólafur Tryggvason sendi Stefni Þorgilsson hingað til lands  og síðar Þangbrand Vilbasússon.   

Vatnslitamynd Ásgríms Jónssonar frá ÞingvöllumHallur Þorsteinsson frá Þvottá í Álftafirði, Gissur hvíti Teitsson af Mosfellingaætt og Hjalti Skeggjason úr Þjórsárdal voru með þeim fyrstu sem tóku trú og létu skírast.

Gissur hvíti og Hjalti fóru til Noregs til að hitta Ólaf konung Tryggvason. Hittu þeir konung reiðan. Hafði Þangbrandur þá borið Íslendingum illa söguna.

Konungur var með hótanir og tók fjóra gísla. Gissur og Hjalti lofuðu að reyna að kristna Íslendinga.

Gissur og Hjalti fóru á Alþingi og boðuðu kristna trú. Varð uppi fótur og fit. Þorgeir Ljósvetningagoði var fenginn til að fella úrskurð.    

Mikil pressa var á Íslendingum vegna gíslatökunnar. Viðskipasambönd við útlönd voru í hættu.
 
Fyrir kristnitökuna var ásatrú

Norrænir menn kynntust kristni í víkingaferðum t.d. á Bretlandseyjum. Á Norðurlöndum reis trúboðsalda á 10.-11. öld. Trúboðsaldan náði til Íslands á 10. öld.

Árið 1000  gerðist stórmerkilegur atburður á Íslandi. Íslendingar tóku kristna trú. Áður  var ásatrúin ríkjandi hér allt frá landnámi. Ásatrúin er einnig nefnd “heiðinn siður.” Ásatrúin á sér langa sögu og er hægt að rekja söguna aftur til Grikkja og Rómverja og jafnvel enn lengra.

Ásatrúarmenn áttu mörg átrúnaðargoð s.s. Óðin, Þór, Frey, Tý, Baldur, Njörð, Frigg og Freyju.

Hátíðir Ásatrúarmanna voru blót og blótveislur. Menn tilbáðu goð sín, það var kallað að blóta goðin. Ásatrúarmenn dýrkuðu goð sín í hofum og hörgum. Það er heiðið vé, blóthús eða blótstallur.

Goðaveldið. Valdamestu menn landsins voru goðar. Goðarnir voru fyrst 36 og síðar 39. Goðarnir áttu sæti í Lögréttu og voru með öll völd þar, þangað til  að biskup tók sæti í Lögréttu. Til viðbótar við goðana 36/39  voru 9 menn með goðavöld á Alþingi. Það var gert til að hafa jafn marga goða úr öllum landsfjórðungum. (Árni Hermannsson o.fl.2000:100)

Af þessum 36 goðorðum voru tvö í Vopnafirði. Það voru goðorð Hofverja og Krossvíkingagoðorð. Á sama tíma var bara eitt goðorð í Reykjavík. Þrjú goðorð bættust við 965 og eitt af þeim var Ljósvetningagoðorð. Þar var Þorgeir Þorkelsson goði og eftir að hann gerðist kristinn henti hann öllum goðalíkneskjum í Goðafoss í Skjálfandafljót. (Árni Daníel Júlíusson o.fl.1991:59)

Þegar kristnitakan átti sér stað voru goðarnir valdamestir og koma þeir mikið við sögu. Það voru Hallur Þorsteinsson úr Álftafirði, Gissur hvíti Teitsson úr Haukadal  og Þorgeir Þorkelsson frá Ljósavatni.  

 

Fyrstu trúboðarnir

Þorvaldur hinn víðförli Koðránsson frá Stóru-Giljá í Húnaþingi kynntist kristinni trú í Saxlandi í Þýskalandi og tók þar skírn.  Friðrekur biskup á Saxlandi skírði Þorvald. Friðreks er ekki getið í heimildum erlendis. Hann hefur því aðeins verið trúboðsbiskup. Þorvaldur bað Friðrek að koma með sér til Íslands til að  skíra frændur sína. Þeir dvöldu á Íslandi 981-986. Þorvaldur og Friðrekur dvöldu á Stóru-Giljá og svo á Lækjarmóti í Víðidal. Þorvaldi og Friðrek varð svolítið ágengt  með kristniboðið á Norðurlandi. Frændgarður Þorvalds tók skírn.

Ein af höfuðskyldum kristinna manna var að breiða út GuðsríkiFriðrekur og Þorvaldur boðuðu Koðráni föður Þorvaldar kristna trú. Koðrán var bundinn af trú sinni á verndarvætti. Verndarvætturinn bjó í steini rétt hjá Giljá og vakti hann yfir fé Koðráns og varaði hann við aðsteðjandi hættum. Koðrán hreifst af helgihaldi sonar síns og þeir feðgar gerðu með sér samkomulag að Koðrán skyldi gerast kristinn ef Friðrekur myndi hrekja vættinn á brott. Daginn eftir vígði biskup vatn. Hann fór með bæn og sálmasöng. Síðan dreifði hann vatninu umhverfis steininn og hellti yfir steininn helgu vatni. Koðrán dreymdi nóttina eftir að spámaður sinn kæmi til sín og talaði við hann. Var hann dapur að sjá og hræddur. Hann var ósáttur við gesti Koðráns og vildi meina að þeir væru með svik við Koðrán. Lýsti hann því að þegar Friðrekur hafði hellt vatninu yfir bústað hans þá hefðu börn hans ekki þolað það og þau  brennst.  Biskup þurfti í þrjá daga að vera með yfirsöng yfir steininum til að reka vættinn á brott. Það  tókst að afhjúpa illt eðli vættarinnar. Koðrán, Járngerður kona hans og allt heimilisfólkið á Giljá tóku kristna trú nema Ormi bróðir Þorvaldar. (Hjalti Hugason o.fl. 2000:123-161)

Heiðnir menn fóru að yrkja níð um Þorvald og Friðrek.  “Hefir börn borið biskup níu, þeirra er allra Þorvaldur faðir.” (Sigurður Líndal.1974:231-236)   Með þessu var verið að gefa í skyn að biskup væri kynvilltur. Vegna þessa drap Þorvaldur tvo menn. Fannst Friðrek ganga hægt hjá Þorvaldi að læra fyrirgefningarboðskap kristninnar. Þeir yfirgáfu landið skömmu síðar. (Gunnar Karlsson.1989:75-76)

Þorkell krafla á Hofi í Vatnsdal og Eyjólfur Valgerðarson á Möðruvöllum í Eyjafirði létu prímsignast. (Jón Jóhannesson.1956:152-153). Að prímsignast, það var fyrsta blessun, krossmark var gert yfir þeim og þeir voru afdjöflaðir. Eftir að þeir létu prímsignast máttu þeir ekki lengur taka þátt í opinberum blótum og mökum við myrkravöldin. Þá máttu þeir hafa samskipti við kristna menn. Margir létu prímsignast og margir gerðu það í hagnaðarskyni. (Árni Daníel Júlíusson o.fl. 1991:64)

Ólafur Tryggvason sendi hingað mann sem var af íslensku bergi brotinn Stefni Þorgilsson. Stefnir var afkomandi Helga bjólu, hins kristna landnámsmanns á Kjalarnesi.(Sigurður Líndal.1974:236-237) Talið er að hann hafi dvalist hér 995-996.
 (Hjalti Hugason o.fl.2000:123-161).  Honum varð ekki ágengt og “ tók þá að meiða hof og hörga og brjóta skurðgoð.”(Gunnar Karlsson o.fl. 1989:76) Hann var dæmdur sekur fyrir gjörðir sínar og fór hann alfarinn frá Íslandi.  Einnig er Stefnir sagður afkomandi Bjarna bunu. (Hjalti Hugason o.fl. 2000:123-161)

Ólafur Tryggvason lét ekki deigan síga og sendi hingað þýskan prest sem hét Þangbrandur. Skip Þangbrands  kom inn Berufjörð og inn að Gautavík. Bændur sem bjuggu í Berunesi bönnuðu mönnum að eiga kaup við Þangbrand. Hallur Þorsteinsson (Síðu-Hallur) sem bjó á Þvottá í Álftafirði frétti um afdrif Þangbrands og bauð honum að dvelja hjá sér. Síðu-Hallur og öll hans hjú tóku skírn. Talið er að skírnin hafi verið framkvæmd í ánni Þvottá í Álftafirði. (Kristnitakan.Vefsíða). (Heimildir eru í Kristni á Íslandi 1. bls.138 að Þangbrandur hafi fyrst tekið land í  Hamarsfirði).

Margir höfðingjar létu skírast þ.á. m. voru þeir Gissur hvíti Teitsson, Ketilbjarnarsonar landnámsmanns frá Mosfelli í Grímsnesi í Árnessýslu og tengdasonur hans Hjalti Skeggjason úr Þjórsárdal. (Gizur þannig var nafn hans skrifað. Ketilbjörn var Ketilsson).

Bæði Þangbrandur og Stefnir boðuðu kristna trú með Biblíuna í annarri hendi og sverðið í hinni. (Árni Hermannsson o.fl.2000:111)

Þangbrandur boðaði trú á Suðausturlandi, Suðurlandi og hann fór alla leið yfir á Barðaströnd. Þangbrandur þurfti að yfirgefa Ísland sumarið 999 (eða 998) eftir að hafa vegið tvo eða þrjá menn. (Árni Hermannsson o.fl.2000:111) Skrifað er um Þangbrand í Heimskringlu að hann hafi verið vígamaður og ofstopamaður en vaskur maður og góður klerkur.

Gissur hvíti Teitsson og Hjalti Skeggjason

Turn Hólakirkju en á Hólum var um aldir önnur tveggja dómkirkna á ÍslandiGissur hvíti var af ríkri og valdamikilli ætt og var goðorðsmaður í Mosfellingagoðorði í Grímsnesi í Árnessýslu. (Kristnitakan á Íslandi. Vefsíða) Gissur hvíti og Hjalti  voru með þeim fyrstu sem tóku kristna trú og létu skírast. Hjalti var dæmdur fjörbaugsmaður. Þann dóm fékk hann fyrir að hafa líkt Freyju við tík í kviðlingi. “Vil ég eigi goð geyja; grey þykir mér Freyja” (Sigurður Líndal.1974:239-247) Dómurinn var þriggja ára útlegð frá Íslandi. Gissur hvíti og Hjalti fóru á fund Ólafs konungs Tryggvasonar. Dvöldu þeir einn vetur í Noregi. Ágiskanir eru um að  “Gissur hvíti hafi verið fulltrúi kristinna manna  er átti að tryggja áframhaldandi stuðning konungs við kristni á Íslandi.”(Hjalti Hugason o.fl. 2000:83-121). Gissur hvíti og Ólafur konungur voru náskyldir. Þeir voru þreminningar. (Jón Jóhannesson.1956:159)

Þegar þeir hittu konung, þá komust þeir að því að Þangbrandur hafði sagt konungi ýmisleg miður úr för sinni til Íslands. Þangbrandur sagði að Íslendingar hefðu ort níð um hann og sumir hafi viljað drepa hann. (Kristnitakan á Íslandi. Vefsíða.) Konungur brást reiður við og var með hótanir við Gissur hvíta og Hjalta. Hann ætlaði að láta meiða eða drepa Íslendinga í Noregi. (Árni Hermannsson o.fl. 2000:111.)

Ólafur konungur tók fjóra gísla: Kjartan son Ólafs pá í Hjarðarholti; Sverting son Runólfs goða í Dal; Halldór son Guðmundar ríka á Möðruvöllum og Kolbein Þórðarson bróður Brennu-Flosa á Svínafelli. (Jón Jóhannesson.1956:159-160). Þetta voru allt synir höfðingja og var þetta gert til að pressa á Íslendinga að gerast kristnir.       

Gissur hvíti og Hjalti voru í mjög slæmri stöðu en þeir lofuðu konungi að fara til Íslands og beita sér fyrir kristnun á Íslandi. Ólafur konungur lét þá fá mikið fé til að vingast við höfðingja á Íslandi. (Kristnitakan á Íslandi. Vefsíða.)

Boðuð kristin trú á Alþingi

Sumarið eftir héldu Gissur hvíti og Hjalti heim á leið. Með þeim í för var prestur sem hét Þormóður. Þegar þeir voru við Dyrhólaós var Flosi Þórðarson á leið til Alþingis. Hann reið yfir Arnarstakksheiði. Flosi fékk fréttir um “gíslatökuna” frá mönnum sem höfðu róið út í ósinn til þeirra Gissurar hvíta og Hjalta. Fréttirnar um gíslatökuna fór svo Flosi með á Alþingi. Einn af gíslunum var bróðir Flosa. (Jón Hefill Aðalsteinsson. 1971:73)

Gissur hvíti og Hjalti komu til Vestmannaeyja. Þá voru liðnar 10 vikur af sumri og þennan dag áttu menn að ríða til Alþingis. Héldu þeir strax frá Vestmannaeyjum yfir til fastalandsins. Þeir héldu til Þingvalla en komu fyrst við í Laugardal. Þar gerðu þeir með sér samkomulag að Hjalti yrði eftir ásamt tólf manns því hann hafði ekki tekið út sinn dóm. Þegar Gissur og hans menn voru komnir að Vellankötlu við Þingvallavatn  sendu þeir boð til allra sem ætluðu að fylgja þeim að málum og báðu þá að koma til móts við sig. Þeir höfðu frétt að andstæðingar þeirra vildu verja þeim þingvöllinn (Gunnar Karlsson o.fl.1989:78) Frændur og vinir komu til móts við þá. En áður en Gissur hvíti og fylgdarmenn hans riðu inn á þingstaðinn slóst Hjalti í för með þeim. Hann tók þar mikla áhættu því hann hafði ekki tekið út sinn dóm. Hefur örugglega ríkt ófriðarástand að Hjalti skyldi koma til þings en hafði bara afplánað eitt ár af þremur.

Gissur og Hjalti gengu til Lögbergs og báru upp erindi sín. Þeir boðuðu kristna trú. Varð uppi fótur og fit. Heiðnir menn og kristnir sögðu sig úr lögum hverjir við aðra. Leit út fyrir að litla Ísland yrði tvö ríki. “Athugulir menn og varfærir sáu að við svo búið mátti ekki standa” (Árni Hermannsson o.fl. 2000:111)

Á meðan á þessu stóð kom maður hlaupandi og sagði að jarðeldur væri  byrjaður í Ölfusi og að hann stefndi á bæ Þórodds goða. Heiðnir menn sögðu “Eigi er undur í að guðin reiðist tölum slíkum” Snorri goði að Helgarfelli  mælti þá. “Um hvað reiddust goðin þá, er hér brann hraunið , er nú stöndum vér á. (Hjalti Hugason o.fl. 2000:83-121)

Var Hallur Þorsteinsson goði úr Álftafirði, sem var foringi kristna flokksins, fenginn til að segja upp lög er fylgja skyldu kristni. Hallur leystist undan því og fékk hann Þorgeir Þorkelsson Ljósvetningagoði og lögsögumann um að fella úrskurð í þessu máli. Þorgeir var þá ennþá heiðinn.

Þorgeir Þorkelsson frá Ljósavatni

Goðafoss í Skjálfandafljóti en sagan segir að Þorgeir hafi varpað þar í goðamyndum sínum er hann snéri sem kristinn maður aftur af þingi og nafn fossins dregið þar afÞorgeir Þorkelsson goði frá Ljósavatni gekk til búðar sinnar eftir að hann hafði tekið við flóknu hlutverki að vera lögsögumaður tveggja ólíkra fylkinga. Sagt er að hann hafi lagst undir feld. Lá hann þar til næsta morguns án þess að mæla orð. Morguninn eftir var hann tilbúinn að ljúka því verki sem honum var falið og sagði mönnum að ganga til Lögbergs.

Þorgeir flutti ræðu á Alþingi. Það er örugglega ein örlagaríkasta ræða sem haldin hefur verið á Íslandi. Þorgeir talaði um að það væri hættulegt að hafa ekki bara ein lög. Hann talaði um að ef þeir myndu slíta í sundur lögin að þá myndu þeir einnig slíta og friðinn. Hann sagði að allir skyldu hafa ein lög, þau sem hann myndi ákveða. Þegar menn höfðu játast undir þessa skuldbindingu, þá kvað hann upp úr: “að allir menn skyldi kristnir vera og skírn taka.” (Sigurður Líndal.1974:239-247) Til að milda ákvörðun sína ákvað Þorgeir að heiðnir menn mættu gera þrennt sem þeir hefðu gert áður: Að bera út börn, éta hrossakjöt og blóta heiðin goð á laun. Fáeinum vetrum síðar var þessi heiðni afnumin. (Gunnar Karlsson o.fl. 1989:79)

Boðskapur í ræðu Þorgeirs felst m.a í því að farsæl mannvist í landinu fái ekki staðist nema allir íbúar þess lifi í sama samfélagi.  Þess vegna taldi Þorgeir að allir yrðu að játa sömu trú. Ef það væru tveir siðir í landinu væri allsherjarsamfélagið úr sögunni. Þá myndi ríkja ófriður, glundroði og óregla. (Hjalti Hugason o.fl.2000:83-121). Lögtaka kristninnar á Alþingi er einn af stærstu og merkustu atburðum í sögu þjóðarinnar. Ríkinu var bjargað frá ófriði og klofningi. Hér á landi var kristnitakan samþykkt á löggjafarþingi. Út um víða veröld þurfti oft langan tíma til að koma á kristni og þurfti oft að beita valdi. (Jón Jóhannesson.1956:163-164) Ef til átaka hefði komið, hefðu við kannski misst sjálfstæðið til Noregskonungs. Á þessum tíma vorum við í miklum viðskiptum við Noreg og því lífsnauðsynlegt að halda friðinn við ofureflið Ólaf Tryggvason.

Eftir kristnitökuna

Eftir kristnitökuna höfðu erlendir trúboðsbiskupar eftirlit með kristnihaldi. Eftir að landsmenn tóku upp kristna trú vantaði kirkjur, presta og biskupa. (Gunnar Karlsson o.fl.1989:85).  Gissur hvíti lét reisa kirkju í Skálholti á eignarjörð sinni.

Ekki eru til myndir af kirkju Gissurar í Skálholti en hér gefur að lýta mynd frá 1772 af kirkju Brynjólfs Sveinssonar. Hún var hin síðasta í langri röð stórra útbrota kirkna á staðnum. Slátrið úr henni fór í byggingu kirkju sem Valgerður ekkja Hannesar Finnssonar síðasta biskups í Skálholti lét reisa upp úr aldamótunum 1800 á grunni þeirrar fyrri og var margfalt minni.Árið 1050 fannst landsmönnum tími til kominn að stofna biskupsstól. Ísleifur Gissurarson hins hvíta var kosinn fyrsti biskup landsins. Ísleifur hafði stundað nám í Þýskalandi. Var hann talin fyrsti Íslendingurinn sem fór til náms erlendis. Hann fór utan á fund páfa sem sendi hann til Aðalberts erkibiskups í Brimum. Þar var hann vígður 1056. (Íslenska Alfræðiorðabókin H-O 1990:175). Ísleifur var fimmtugur þegar hann varð biskup. Hann sat í Skálholti og stofnaði skóla fyrir tilvonandi presta.  Oft reyndi á Ísleif því kristnin og siðferðið var nýtt fyrir fólki. Hann var biskup í 24 ár og lést í Skálholti 1082.

Gissur Ísleifsson stundaði nám í Saxlandi. Hann vígðist til prests og  bjó á Hofi í Vopnafirði.  Hann fór nokkrum sinnum til útlanda og m.a. til Rómar.Hann var kosinn biskup 1081 og var vígður biskup í Magdeburg 1082. (Íslenska Alfræðiorðabókin A-G 1990:511) Gissur tók við af föður sínum 1082 en með einu skilyrði þó. Hann fór fram á það við landsmenn að þeir gæfu honum fyrirheit um að vera eftirgefanlegri við hann en þeir voru við föður hans.

Gissur var skörungur mikill og embættisfærslur allar vann hann að af dugnaði. Hann kom því til leiðar að Skálholt yrði biskupssetur. (Árni Hermannsson o.fl.2000:113)  Kirkjulegur skattur , tíund var lögfest á meðan Gissur Ísleifsson var biskup. Fyrirmyndin var komin erlendis frá. (Hjalti Hugason o.fl. 2000:201) Tíundin var 1% eignarskattur og skiptist hún í fjóra hluta á milli biskups, presta, kirkna og fátækra. Á Norðurlöndunum sá kirkjan um að útdeila tíund til fátækra en hér á landi sáu hrepparnir um það. Á biskupsárum Gissurar fóru Norðlendingar fram á að biskupsstóll yrði stofnaður í þeirra fjórðungi.

Biskupsstóll var stofnaður á Hólum í Hjaltadal og var Jón Ögmundsson fyrsti biskupinn. Hann var í skóla hjá Ísleifi Gissurarsyni.  Hann var vígður 1106. Jón stofnaði dómsskóla á Hólum og lét reisa skólahús.Hann fékk erlenda kennara til skólans. Jón var mjög stjórnsamur og efldi grundvöll kristninnar. Hann beitti sér fyrir  afnámi leifa úr heiðni eins og að vikudagarnir bæru nöfn Óðins, Þórs og Týs. (Íslenska Alfræðiorðabókin bls.218) 

Ísleifur og Gissur sonur hans voru trúboðsbiskupar. Þeir höfðu ekki fastan biskupsstól né lögsögu.  (Kristnitakan á Íslandi. Vefsíða.). Gissur gaf Skálholt til biskupsseturs og fór fram á að þar skyldi alltaf vera biskupstóll á meðan  kristni væri á Íslandi og landið í byggð. (Árni Daníel o.fl. 1991:65) Eftirmaður Gissurar, Þorlákur Runólfsson fékk fyrsta eiginlega biskupsstólinn. Össur erkibiskup af Lundi vígði hann til biskups árið 1118. (Kristnitakan á Íslandi.Vefsíða)

Lokaorð:

Mikinn fróðleik hef ég fengið með að skrifa þessa ritgerð. Á Íslandi ríkti ásatrú fyrir árið 1000. Þá reis upp mikil trúboðsalda sem náði til Íslands á 10. öld. Ólafur Tryggvason konungur í Noregi sendi trúboða hingað til að kristna landsmenn. Um aldir voru allir kristnir menn á Íslandi kaþólskir. Breyting varð á 16 öld við siðbreytingu þegar tekin var upp mótmælendatrú. Nú tilheyra flestir landsmenn hinni evangelísku lúthersku þjóðkirkju.
 
Kristniboðarnir sem Ólafur sendi hingað boðuðu kristna trú með Biblíuna í annarri hendi og vopn í hinni. Bæði Þorvaldur og Þangbrandur drápu menn sem höfðu ort níð um þá. Boðskapur kristninnar um fyrirgefninguna vantaði. Í Heimskringlu er Þangbrandi lýst að hann hafi verið vígamaður og ofsopamaður mikill, en vaskur maður og góður klerkur. Að vera vígamaður og ofstopamaður fer ekki saman við að vera klerkur og boða Guðs kærleika.

Ólafur konungur var með hótanir við Íslendinga ef þeir ekki tækju við boðskap kristinnar trúar. Aðferð Ólafs stangast á við Biblíuna. Þar getur maður lesið að Guð gaf manninum frjálsan vilja að velja og hafna.

Hvers vegna urðu engin átök? Vopnuð átök milli kristinna og heiðinna manna hafa verið miklu minni hér en annarsstaðar.Það var pressa á þjóðinni vegna gíslatökunnar. Kristnir voru í meirihluta. Heiðni stóð ekki djúpum rótum lengur. Viðskipti við útlönd voru í hættu.

Á þessum árum var niðurdýfingarskírn og menn veigruðu sér við að taka skírn vegna kalda vatnsins. Biblían boðar niðurdýfingu. Jesús Kristur var skírður í ánni Jórdan af Jóhannesi. Matteus 2. 13-17, þar er frásögn um þegar Jesús var skírður. Matteusar guðspjall er að sjálfsögðu í hinni helgu bók Biblíunni.

Að mínu áliti var þetta það besta sem gaf komið fyrir íslenska þjóð að gerast kristin. Ég trúi á almáttugan Guð, föður , skapara himins og jarðar. Ég trúi því að Guð hafi sent son sinn Jesúm Krist í heiminn til að frelsa okkur frá syndum okkar og þegar að við höfum tekið við Jesú Kristi sem frelsara okkar þá höfum við eignast eilíft líf með Jesú þegar við deyjum. Það er leiðin til eilífðar.

Veturinn 2003 las ég um fimm stærstu  trúarbrögð heims í Félagsfræði 103.  Það er gyðingdómurinn, íslam, búddatrú, hindúatrú og svo kristnin. Eftir þann lestur þá er ég ennþá meira sannfærð en áður að við séum á réttri leið til eilífðar og það er forfeðrum og mæðrum að þakka. 

Ritgerð skrifuð apríl 2003

Rósa Aðalsteinsdóttir

Heimildir:

Árni Hermannsson; Jón Ingvar Kjaran; Lýður Björnsson og Margrét Gunnarsdóttir. 2000. Íslands- og Mannkynssaga NB 1. Nýja bókafélagið, Reykjavík.

Árni Daníel Júlíusson, Jón Ólafur Ísberg og Helgi Skúli Kjartansson. 1991. Íslenskur Sögu Atlas 1. Iðunn Reykjavík.

Gunnar Karlsson og sagnfræðinemar við Háskóla Íslands. 1989.  Samband við miðaldir.  Mál og menning, Reykjavík.

Hjalti Hugason. 2000. Kristni á Íslandi 1: Frumkristni og upphaf kirkju.  “Kristnitakan á alþingi” bls 83-121 ; “Getið í eyður kristnitökusögunnar” bls.123-161.  Alþingi, Reykjavík.

Íslenska alfræðiorðabókin.  Dóra Hafsteinsdóttir og Sigríður Harðardóttir (ritstjórar). 1990. Bókaútgáfan Örn og Örlygur Reykjavík.

Jón Hefill Aðalsteinsson. 1971. Kristnitakan á Íslandi. Almenna bókafélagið, Reykjavík.

Jón Jóhannesson. 1956. Íslendingasaga 1.  Almenna bókafélagið, Reykjavík.

“Kristnitakan á Íslandi árið 1000”. Vefsíða.
http://www.fsu.is/vefir/erlingur/kristnitaka.htm 
 
 “Kristnitakan.” Saga Djúpavogs. Vefsíða:
http://www.djupivogur.is/sagan/kristnitaka.html
Sigurður Líndal. 1974.  Saga Íslands 1. “Frumkristni á Íslandi” bls 231-238 ; “Kristnitakan” bls. 239-248.  Hið íslenska bókmenntafélag. Sögufélagið. Reykjavík. 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband