Frásögn Rósu

Glitter Graphics

Rose Glitter Graphics

Frásögn Rósu

Fyrri hluti

Skrifað fyrir 10 árum:

Þegar ég var aðeins tveggja ára byrjuðu erfiðleikar í lífi mínu. Ég var með flogaveiki (krampaköst) Fimm ára datt ég í sjóinn og munaði mjög litlu að ég drukknaði. Eftir það urðu veikindi mín miklu erfiðari. Ég var mjög hrædd við veikindin og fór þetta mjög í skapið á mér. Var ég þar af leiðandi oft mjög leiðinleg í samskiptum.  

Því miður hafði engin skilning á þessum sjúkdóm þegar ég var barn og leið ég oft fyrir það og foreldrar mínir líka. Okkur var ekki sagt að lyfin sem ég þurfti að taka væru lystaukandi en ég var feitlagin sem barn og er enn. Kannski hefðum við  getað barist gegn þessu með þá vitneskju í farteskinu? Kannski ekki? Lengi býr af fyrstu gerð og það á svo sannarlega við í mínu tilviki.

Móðir mín var mjög veik á þessum árum og föður mínum ráðlagt að fá ráðskonu til að sjá um heimilið. Hún var hjá okkur í 6 og ½  vetur. Á sumrin fór hún í Önundarfjörð. Þar var rekið sumarheimili fyrir börn á kristilegum grunni. Ég fór með henni þangað þrisvar sinnum. Árið 1967 í desember fór mamma á Landspítalann í hinsta sinn. Ég grét mikið. Mér fannst alveg ömurlegt að hún væri að fara og jólin að koma. Ég mátti alls ekki við neinu ójafnvægi. Þá vissu allir hvernig næsta nótt yrði, andvökunótt fyrir pabba. Þess vegna því miður var svo erfitt að taka á ýmsu sem annars hefði verið gert. Sárnar mér oft fyrir hönd foreldra minna þegar fólk hefur sagt: "Ef ég hefði átt þig hefði ég rassskellt þig" og svo framvegis. Þetta var ekki alveg svona auðvelt eins og fólk hélt.

Ég sá mömmu aðeins einu sinni eftir þetta þegar ég var á leiðinni vestur í júní 1968. Ég man eftir kveðjustundinni eins og hún hefði gerst í gær. Ég ætlaði ekki að getað slitið mig frá móður minni. Í ágúst taldi ég dagana þangað til við færum til Reykjavíkur því þá ætlaði ég að heimsækja mömmu. Tveimur dögum áður en við fórum til Reykjavíkur dó mamma. Pabbi hringdi en sú ákvörðun var tekin af starfsfólki barnaheimilisins að segja mér ekki frá þessu. Eldri krökkunum var sagt frá þessu og það endaði þannig að ein stúlkan sagði mér frá þessu uppi í hlíðinni fyrir ofan bæinn. Þetta var daginn áður en við fórum til Reykjavíkur. Ég vildi ekki trúa þessu og við fórum heim að bænum. Ég spurði og því miður var svarið já. Ég hljóp upp í tóftina fyrir ofan bæinn. Þar var ég lengi ein og grét. Vinur minn Jonni kom öðru hvoru til mín en ég rak hann í burtu. Enginn fullorðinn sinnti um mig.

Þegar við fórum til Reykjavíkur þurfti ég að bíða og bíða eftir föður mínum og bræðrum. Ég var orðin mjög óþolinmóð. Mig vantaði fjölskyldu mína til að vera með. Ég átti mjög erfiða tíma. Ég bað föður minn að setja mömmu mína ekki ofan í moldina. Vegna erfiðleika minna virtist ég eiga auðvelt með að fá önnur börn upp á móti mér. Margur leikurinn endaði með þessum orðum " Mikið er gott að mamma þín er dauð"

Áður en mamma dó gekk mér þokkalega í skóla en í nokkur ár á eftir þá gat ég ekki lært. Ég var eirðarlaus og vansæl. Ég þorði ekki að fara að sofa á kvöldin fyrr en pabbi var búin að biðja með mér. Ég vissi réttu leiðina en ég þráaðist við. Að verða fjórtán ára tók ég á móti Jesú og þá fór að ganga betur í skólanum. Skólastjórinn minn sagði við Pétur Pétursson frænda sinn og Kristínu Jónsdóttur. "Rósa fór burtu í sumar. Þegar hún kom til baka var hún svo mikið breytt. Hún fór að hafa áhuga fyrir að læra. Hvað kom fyrir Rósu?"  Svarið var: "Hún mætti Jesú Kristi sem frelsara sínum. Hún frelsaðist."

Jesús læknaði mig af krampaköstum/flogaveiki daginn eftir að ég frelsaðist. En erfiðleikarnir voru ekki búnir. Ég var með of háan blóðþrýsting, fékk þursabit og sinaskeiðabólgu löngu fyrir tvítugt. Ég reyndi að takast á við nám sem mistókst. Það var ekkert skrítið. Sjálfsálitið var í núlli. Ég hafði óbeit á sjálfri mér. Ég hef líka þjáðst af mígreni, vefjagigt, vöðvabólgu og ýmsu öðru. Læknirinn segir oft:" Minnkaður líkamsþyngdina". Stundum hefur það tekist en farið aftur í sama farið og versnað með árunum. Í mörg ár hef ég ekki einu sinni reynt. Ég bara get það ekki. Það vantar kjark og mér hefur liðið svo illa andlega. Ég hef átt erfiðar stundir í vinnunni. Ég hef verið áreitt kynferðislega. Þá lent ég í miklu einelti og var gert lítið úr mér vegna þess að ég á ekki fjölskyldu. Gallinn við mig er að ég fer í vörn, segi margt og geri margt sem mér hefur liðið illa yfir. Samviskan hefur plagað mig oft. Ég hef oft spurt sjálfa mig af hverju bregst ég svona við. Af hverju svara ég svona og svo framvegis. Ég veit að þetta er rangt. Þegar ég hef beðið fólk að láta mig í friði þá segir það: "Þú býður upp á þetta". Ég hef verið viðkvæm og fólk finnur það og er ég tekin fyrir þar af leiðandi

Undanfarin ár hef ég verið óvenju viðkvæm og átt mjög erfitt þegar ég hef glímt við fjölskyldu- og vinamissi. Ég forðast vini mína sem hafa misst fjölskyldumeðlim. Ég hef bara ekki treyst mér til að hitta þá.

Í ágúst 1996 fór ég á Kotmót sem er kristilegt mót. Ég ákvað að vera dugleg og leita mér hjálpar og fór nokkrum sinnum fram til fyrirbænar. Unnur Ólafsdóttir bað fyrir mér. Þegar við höfðum beðið í svolítinn tíma þá spurði hún mig: "Eigum við að biðja um eitthvað sérstakt?" Ég svaraði : Ég bara veit það ekki". Unnur fór þá aftur að biðja fyrir mér og þá gaf Drottinn henni orð til mín. "Mamma þín". Þá losnaði um stíflu og tárin runnu niður vangana. Ég sagði henni að þessi sorg hefði elt mig allt lífið.

Ég trúi því og finn nú þegar að Drottinn er að hjálpa mér að gera við brotna kerið mitt. Oft hefur fólk undrast yfir því að ég hjálpaði ekki við starfið í Hvítasunnukirkjunni. Hér er skýringin. Ég hef bara ekki getað það. Fólk trúir ekki að ég hafi verið svona beygð. Ég hlýt að vera úrvals leikari fyrst fólki duldist þetta. Ég er ekki beisk út í neinn nema sjálfa mig. Nú stend ég frammi fyrir því að ég hef enga menntun. Ég stunda vinnu sem er alltof erfið fyrir mig. Ég hef ekki getað barist við líkamlega sjúkdóma mína vegna þess að mér hefur liðið svo illa andlega. Ég hef oft hugsað um það í gegnum árin: "Hvers vegna fékk ég ekki að deyja þegar ég var fimm ára?" Þá hefði ég losnað við alla þessa erfiðleika.

Nú er ég hér og hef ákveðið að skrifa þetta á blað, sjálfri mér til hjálpar og ef til vill öðrum sem glíma við sjálfan sig eins og ég og vita ekki ennþá hvar rótin af vandamálinu liggur.

Að lokum: Ég er þakklát að hafa fengið þá náð að eignast Jesú. Ég hefði aldrei komist í gegnum þetta nema að ég átti Jesú. Ég er þakklát fyrir föður minn Aðalstein sem oft átti andvökunætur mín vegna og kvartaði ekki. Ég vildi óska að fleiri ættu góða foreldra eins og ég. Ég vildi óska þess að mamma hefði verið lengur hjá mér en það var ekki hægt. Ég er þakklát fyrir alla vini mína sem þóttu vænt um mig og báðu fyrir mér.

Vopnafirði 24. júní 1998.

Rósa Aðalsteinsdóttir

 

Frásögn Rósu

Viðbót

Rifjað upp:

Ég vann og vann erfiðisvinnu í gegnum árin og ég viðurkenni að mér fannst oft gaman að spreyta mig. Ég var oft illa haldin af verkjum en ég þrjóskaðist áfram. Ég er ein af þeim sem kann ekki á bremsurnar og viðurkenni að ég ofgerði mér.

Eins mætti ég miklum erfiðleikum á vinnustað. Þegar ég fór að vinna sem unglingur, var eins og strákarnir fyndu það á sér  að þarna var á ferðinni einstaklingur sem þoldi ekki stríðni og því var ég tekin fyrir af þeim. Í mörg ár fór ég í vinnuna, kvíðin  og með spennta vöðva. Ég var alltaf í feluleik, vildi ekki að neinn sæi að ég var viðkvæm. Ég lenti í einelti, grófri kynferðislegri áreitni og var þetta oft daglegur viðburður.

Ég kenndi mér um þetta allt vegna þess að ég fór í vörn og var virkilega dónaleg og orðljót í þessum viðbjóðslega feluleik mínum. Ég upplifði mig líka mjög skítuga. Þegar ég kom heim var ósjaldan sem ég fór afsíðis og grét og grét vegna þess að ég var svo ósátt, mest við sjálfa mig og minn hlut í þessu. Ég öfundaði svo marga af vinnufélögum mínum. Þær voru svo snjallar að losa sig við þessa stráka og man ég sérstaklega eftir aðferð einnar sem gerði það að verkum að hún fékk algjöran frið eftir þetta. Ég var alltaf að reyna svona aðferðir en mistókst.

Einn af sérfræðingunum mínum sem ég gekk til vildi að ég færi út af vinnumarkaðinum vegna þess að ég var mjög þjáð en ég hló innra með mér af honum og ég var svo viss um að þetta myndi lagast en það fór á hinn veginn. Læknirinn  sótti um örorku fyrir mig og hætti ég að vinna í desember 2003. Hann hafði rétt fyrir sér og ég rangt. Ég gekk út af vinnustaðnum án þess að vera kvödd af verkstjórunum mínum. Engar góðar óskir en ég var að fara út í mikla óvissu. Ég var samt afskaplega fegin að yfirgefa þennan vinnustað og hef ekki farið þangað  síðan ég hætti. Ég bara hef ekki löngun til þess og þegar ég get farið aftur út á vinnumarkaðinn ætla ég að finna mér aðra vinnu.

Staðan í dag:

Sem betur fer hefur margt lagast á þessum árum. Áður en ég þurfti að fara af vinnumarkaðinum, var ég byrjuð í fjarnámi og hefur það gefið mér mikið í bataferlinum mínum. Ég hef ekki getað stundað námið af eins miklum krafti eins og margar vinkonur mínar því ég hef þurft að fara nokkrum sinnum í endurhæfingu samfara náminu. Það eru nokkrar annir sem ég hef ekkert verið í fjarnámi sem fer mest fram á netinu og hef ég ekki aðgang að netinu  þegar ég er fjarri heimilinu mínu. Ég finn að þetta smá lagast og er sátt þótt ferlið sé á hraða snigilsins.

Ég er alveg sannfærð um að allir þessir erfiðleikar á vinnustað samfara erfiðri vinnu og slæmum vinnuaðstæðum stuðluðu að  veikindum mínum. Þegar ég sagði gigtlækni sögu mína þá sagði hann: „Þeir sem eiga forsögu eins og þú, þeim er hættara við að fá vefjagigt en öðrum."

Þessi skrif eru ekki til að biðja fólk um vorkunn. Von mín er að þessi skrif geti hjálpað einhverjum sem eru að glíma við erfiðleika og vita ekki um útgönguleið frekar en ég, í öll þessi ár þegar ég var að vinna hjá fiskvinnslufyrirtækinu hér á Vopnafirði. Nú vona ég að þeir sem eru gerendur í dag, í svona málum, fái hjálp sín vegna, sem myndi bjarga mörgum fórnarlömbum þeirra. Ég bið alla þá sem ég kom illa fram við á þessum vinnustað fyrirgefningar og vona til Guðs að engin hafi orðið fyrir tjóni vegna mín.

Vopnafirði 31. júlí 2008.

Rósa Aðalsteinsdóttir

 

Um Verslunarmannahelgina er "Kotmót" sem byrjar í kvöld. Kotmót er kristilegt mót og er haldið í Kirkjulækjarkoti í Fljótshlíð í Rangárvallarsýslu. Þar er einnig haldið kristilegt Barnamót nú um helgina. Nánari upplýsingar: http://www.kotid.is/ 

Þessi skrif eru ekki til að biðja fólk um vorkunn


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Glitter Graphics

Rose Glitter Graphics

Kæru vinir.

Njótið helgarinnar.

Guð veri með ykkur og varðveiti frá hættum og slysum.

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 31.7.2008 kl. 20:16

2 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Elsku Hjartans Rósa mín mikið hefur þú átt bágt. Takk fyrir að deila þessari reynslu þinni með okkur ég er bara með tár í augunum, af lestrinum. guð veri með þér elsku Rósa mín.

Kristín Katla Árnadóttir, 31.7.2008 kl. 20:48

3 Smámynd: Dísa Dóra

Þú hefur greinilega átt langt í frá gott líf.  Það er gott að þú hefur öðlast frið og öryggi í trúnni.  Þannig á trúin að virka.

Vonandi gefur framtíðin þér betri líðan

Takk fyrir að deila þessu með okkur

Dísa Dóra, 31.7.2008 kl. 20:52

4 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sælar stelpur mínar og takk fyrir innlitið.

Þessi skrif mín voru nú ekki til að biðja fólk um vorkunn eins og ég skrifaði í síðustu málsgrein og hef ég nú skrifað sömu setninguna allra neðst og stækkað textann.

Katla mín, það var gott að tala við þig í símanum fyrr í dag.

Dísa Dóra, ég trúi því líka að tíminn vinni með mér og framtíðin verði góð.

Guð blessi ykkur og varðveiti

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 31.7.2008 kl. 21:07

5 Smámynd: Linda

Knús

Linda, 31.7.2008 kl. 21:44

6 Smámynd: Guðsteinn Haukur Barkarson

Mikill ert þú kvenskörungur kæra Rósa, og kallar ekki allt ömmu þína miðað við þessa merkilegu frásögn.  Ég vona bara að frásögn þín hjálpi þeim sem lesa hana, og verði Guði til dýrðar. Því þegar talað er svona af hjartanu þá snertir þú við fólki sem les, og er von mín sú að það hafi tekist.

Guð blessi þig Rósa mín og takk fyrir yndislega vináttu.

Guðsteinn Haukur Barkarson, 31.7.2008 kl. 22:40

7 identicon

Merkileg frásögn.

Gott að þér líði betur

Jakob (IP-tala skráð) 31.7.2008 kl. 22:50

8 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

var búin að lesa hluta af þessu hjá þér, manstu þú sendir mér, ég á söguna enn í tölvunni og hef stundum lesið hana yfir, erfitt lif hefur styrkt þig og gefið þér þann kost að geta hjálpað og styrkt aðra.  Þú ert heil og góð manneskja og hefur hlotið eldskírn frá unga aldri og gert það besta við reynslu þina, þú hefur látið gott af þér leiða og hjálpar þeim sem erfitt eiga í dag.  Þú ert hetja.  Hafðu það gott vina mín og við verðum í bandi eins og alltaf. 

Ásdís Sigurðardóttir, 31.7.2008 kl. 23:02

9 Smámynd: Úlfar Þór Birgisson Aspar

Þú er kjarkkona og heiðursmanneskja Rósa,saga þín snerti mig djúft og ég veit að svona hreinskilni er ekki létt verk.Við viljum jú oftast ekkert bera raunir okkar á borð fyrir alla,en þegar það er gert af heiðarleika er það bæði til hjálpar sjálfum sér og öðrum,þar með gefur maður um leið og maður þiggur og slíkt læknar.

Megi Guð yfir þér og þínum vaka. Kveðja Úlfurinn.

Úlfar Þór Birgisson Aspar, 31.7.2008 kl. 23:04

10 identicon

Óskaplega eru margir með erfiðar sögur á bakinu.

Ef til vill er það ferill í batanum að skrifa sig frá þessu.

Og þakka þér fyrir að leyfa mér að lesa þessa sögu þína. Kannski gefur það mér þann kjark sem ég þarf, til þess sama.

Sigrún Jóna (IP-tala skráð) 31.7.2008 kl. 23:06

11 Smámynd: Ólafur Jóhannsson

Rósa mín! Ég var nú að tala við þig í símanum og þakka þér allar góðar ábendingar og persónulega hjálp, vegna komu minnar í bloggheima!

Varðandi grein þín hér að ofan vil ég einnig hrósa þér fyrir þennan hluta af sögu þinni. Ég vil trúa því að saga þín eigi eftir að leiða fleiri til frelsara okkar og ekki minnst þeirra sem eiga og hafa átt í svipuðum erfiðleikum og þú.

Sjálfur kannast ég við ýmislegt úr mínu lífi, þó það hafi nú verið nokkuð mikið verra.  

En Drottinn er hinn sami.

Guð blessi þig og styrki.

Þinn gamli vinur og trúbróðir 

Ólafur Jóhannsson, 1.8.2008 kl. 00:03

12 identicon

Ja hérna Rósa, þú hefur aldeilis lífsreynslu. Ég er viss um að þú sért sterk persóna, og veistu ég var í heimsókn hjá gamalli frænku minni og hún hefur safnað gömlum tímaritum af öllu tagi. Þar sá ég eitt gamalt tímarit frá 1980 og er ekki lengur starfandi og hét Afturelding. Var þar ekki viðtal við konu eina, Rósu Aðalsteinsdóttur frá Vopnafirði.... kannastu eitthvað við það?

kv.

Magnús Einarsson (IP-tala skráð) 1.8.2008 kl. 00:04

13 identicon

Sæl Rósa mín.

Þetta er magnaður lestur, um það hvað hefur á daga þína drifið, og ekki hefur það verið létt verk að umbera það sé tekið tillit til aldurs þíns.

Svo er miklu meira sem að maður getur upplifað, (láti maður hugarflugið ráða) við þessa frásögn þína, sem ég held ég megi segja að sé einstök.

Það þarf kjark og þor að standa fyrir framan lesendur, keik eftir allt saman.

Og með þessari frásögn þinni höfðar þú til fólks---- með þessa sígildu setningu að leiðarljósi

                              " AÐGÁT SKAL HÖFÐ Í NÆRVERU SÁLAR "

Mér finnst framlag þitt til annarra,með þessari grein þinni    STÓRKOSTLEGT.

Rósa mín, Algóður Guð gæti þín dag sem nótt,alla þína daga.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 1.8.2008 kl. 01:38

14 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæl og blessuð og takk fyrir innlitið.

Ég hélt að allir væru komnir út í sveit og það yrði rólegt í bloggheimum.

Linda mín, kær kveðja til þín.

Guðsteinn minn, vona að þessi tilraun mín nái árangri og veki okkur öll til umhugsunar um að ýmsar gjörðir geta haft afdrifarík áhrif. Gjörðir sem voru gerðar í hugsunarleysi. Einn vinnufélagi minn sagði að hann vissi að ég væri í vörn en honum leiddist svo í vinnunni og það bjargaði öllu að gera at m.a. í mér.  Vinátta þín er mér líka mikils virði.

Jakob minn, já svo sannarlega líður mér betur og þetta mjakast hægt og hægt uppá við.

Ásdís mín, ég man eftir þessum bréfaskriftunum og þín bíður tölvupóstur. Vona að sárin séu að gróa eftir aðgerðina. Hugsa til þín, þetta er erfitt núna en ég trúi því að þetta verði til góðs fyrir þig og þína.

Úlli minn, þetta er líka mín reynsla að það er mikil hjálp fyrir okkur að segja öðrum hvað hefur gengið á í lífinu. Svo vona ég að þetta geti orðið til góðs fyrir þá sem eru þjáðir og eins fyrir þá sem í hugsunarleysi sínu leika sér með tilfinningar annarra og hafa ekki gert sér grein fyrir afleiðingunum.

Sigrún mín, þetta er frábær leið sem margir hafa valið sem hefur verið þeim og öðrum í leiðinni til góðs.

Guðlaug mín, takk fyrir yndislegt Guðs orð.

Ólafur minn, já við vorum að tala í símann og ég varð að hætta að skrafa því ég átti eftir að kíkja á bloggið og fullt af tölvupósti. Vona að þér vegni vel í bloggheimum, verðir ljós og salt fyrir okkur öll með málefni Miðausturlanda.

Magnús minn, þetta er rétt með greinina í Aftureldingu. Er með greinina hér við hliðina á mér vegna þessara skrifa. Þar skrifa ég um frelsissögu mína og hvernig ég læknaðist af flogaveiki. Ætla að skrifa nánar um þessa góðu lífsreynslu eftir helgi ef allt gengur að óskum.

Lady Vally, kærar þakkir fyrir góðar óskir og heimsóknina á síðuna mína.

Guð blessi ykkur öll og varðveiti.

Kær kveðja/Rósa 

Rósa Aðalsteinsdóttir, 1.8.2008 kl. 01:53

15 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll Þórarinn minn.

Takk fyrir innlitið og þín fallegu orð.

Guð blessi þig og varðveiti og gefi þér fullkominn bata.

Kær kveðja/Rósa

Til allra bloggvina minna og gesta.

"Fel Drottni vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá." Sálm. 37: 5.

"Verið ávallt glaðir í Drottni. Ég segi aftur: Verið glaðir. Ljúflyndi yðar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd. Verið ekki hugsjúkir um neitt, heldur gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú." Fil. 4: 4.-7. 

Rósa Aðalsteinsdóttir, 1.8.2008 kl. 02:03

16 Smámynd: Óskar Arnórsson

Takk fyrir þessa kjörkuðu frásögn Rósa mín. Vond æska, og barnaheimurinn hefur verið þér harður. Ég veit ekki hvað ég á að segja við þig annað enn ég skil þetta tímabil í lífi þínu mjög vel! Það hjálpar mörgum að lesa frásögn þína Rósa! Þú ert einstakur og sérstakur persónuleiki  sem bara er hægt að dást að.  Ég veit ekki hvort ég verði nokkurn tíma svo sterkur að skrifa svona nákvæmlega um mig sjálfan. Enn ég get haft þig að leiðarljósi, og fæ reyndar styrk frá þér nú þegar. 

Takk aftur fyrir að seigja frá reynslu þinni, þú hefur hugrekki sem er bara hægt að fyllast aðdáun yfir...

Óskar Arnórsson, 1.8.2008 kl. 06:15

17 Smámynd: Kristín Gunnarsdóttir

Elsku Rósa mín, þetta er átakanleg saga, sumt varstu búin að skrifa mér og annað er ég að lesa fyrst nú. Þú ert bara svo sterkur persónuleiki að hafa komist heil í gegnum þetta alt. Guð blessi þig Rósa mín

Kristín Gunnarsdóttir, 1.8.2008 kl. 07:08

18 Smámynd: Brynja skordal

Takk fyrir að deila þessu með okkur duglega Rósa Hafðu ljúfa helgi elskuleg og Guð geymi þig

Brynja skordal, 1.8.2008 kl. 08:54

19 Smámynd: Guðrún Sæmundsdóttir

Drottinn er megnugur og hefur hjálpað þér á undursamlegan hátt. Alltof oft hefur maður hitt fólk í lífinu sem gengið hefur í gegnum erfiðleika sem gert hefur  fólkið að bitrum neikvæðum einstaklingum.

Guð almáttugur hefur mætt þér og breytt þínum erfiðleikum í reynslu og þroska sem gerir þig að kröftugum kristniboða. Guði er ekkert um megn og hann getur svo sannarlega dimmu í dagsljós breytt. Um það ert þú lifandi vitnisburður.

Guð blessi þig og varðveiti 

Guðrún Sæmundsdóttir, 1.8.2008 kl. 08:56

20 Smámynd: Bryndís Eva Vilhjálmsdóttir

Rósa mín ég bið Guð að blessa útgang þinn og inngang, ég trúi því að Hann sem vakir yfir okkur hafi áætlun til heilla til að veita okkur vonaríka framtíð, og þá hugsar maður bíddu HALLÓ er þá Guð ósanngjarn að láta mann ganga í gegnum kringumstæður sem maður hefði aldrei kosið sér.

Nei Guð er svo sannarlega réttlátur Guð, ég sjáf get vitnað um það, Elsku vinkona Hugsaðu um hvað Guð getur notað þig á stórkostlegan hátt með alla þessa reynslu og samt uppistandandi og vitnandi um Drottinn, þú skilur fólk í sárum betur enn aðrir, og þannig getur þú og ert svo sannarlega ljós fyrir aðra, hversu oft er ekki verið að sparka í liggjandi fólk særða við veginn.

Saga þín snerti mig svo mikið að ég legg til að þú skrifir sögu þína í bók og gefir út, biðjum Guð að opna dyr ef það er hans vilji.

Af hverju þetta og hitt gerist og af hverju fékkstu ekki að njóta móður þinna  lengur, er okkur hulið, en allt er með tilgangi gert, Guð horfir til eilífðar við sjáum bara núið.

Ó er okkar vinir allir mætast þar

ganga á geisla fögrum grundum eilífðar

lofa Guð og lambið lífið sem oss gaf

sólin skín sorgin dvín sjá Guðs náðarhaf.

Elsku Rósa knús á þig!

Bryndís Eva Vilhjálmsdóttir, 1.8.2008 kl. 14:24

21 identicon

Já elsku Rósa mín - það komast ekki allir með tærnar þar sem þú hefur hælana!!
Þú ert heppin að eiga svona mikinn vinafjöld í dag - betri tímar komnir hjá þér elsku frænka - alveg frábært!!!
Guð blessi þig og umvefji og gefi þér yndislega helgi!!

Ása (IP-tala skráð) 1.8.2008 kl. 14:31

22 Smámynd: Aðalbjörn Leifsson

Sæl frú mín góð! Þetta er ekkert mál mín kæra, minn Guð er þinn Guð. Hann er læknirin og græðarinn góði. Þú munt fá fulla heilsu og lifa lífinu lifandi. Halt þú áfram að lofa Drottinn og mundu að hann hefur tvisar reist mig upp. Hann mun reisa þig líka upp,. Ég veit það. 1.Pét 2:24 Guð blessi þig og varðveiti í Jesú nafni Amen.

Aðalbjörn Leifsson, 1.8.2008 kl. 18:43

23 identicon

 Duglega Rósa,Drottinn blessi þig

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 1.8.2008 kl. 19:12

24 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæl og blessuð.

Takk fyrir innlitið, falleg hvatningarorð, góðar óskir og fyrir vináttu ykkar allra.

Óskar minn, auðvita skilur þú að barnæskan mín hafi verið erfið. Ég kynntist þér á blogginu hans Guðsteins þar sem þú skrifaðir um æskuárin þín. Mér leið svo illa eftir lestur athugasemda frá þér. Ég reyndi að uppörva og styðja þig og ég hafði skilning á að þarna hafði verið lítill drengur sem var særður djúpu sári aftur og aftur. Þú þarft að fá lausn, finna gott fólk til að styðja þig og biðja Jesú að lækna hjartasárin þín.

Svandís mín, alveg sammála þér um að Jesús læknar sárin ef við biðjum hann um það. Við höfum frjálsan vilja og við vitum sem betur fer um bestu leiðina að biðja Jesú um hjálp í öllum kringumstæðum. Ég er ekki heldur á Kotmóti. Er heima á hjara veraldar.

Kristín mín, seinnihlutinn af pistlinum var skrifaður í gær en þú varst búin að sjá fyrrihlutann sem var skrifaður 1998. Við höfum nú líka skrifast á í gegnum netið og þú hefur verið svo góð að hringja í mig frá Danmörku.

Brynja mín, takk fyrir þess fallegu orð. TIL HAMINGJU MEÐ AFMÆLIÐ Í DAG.

Guðrún mín, sammála að Guði er ekkert um megn. Takk fyrir falleg orð.

Erlingur minn, takk fyrir góðar óskir.

Bryndís mín, við skiljum ekki allt en þegar við förum heim til Guðs föður okkar, fáum við skýringar á svo mörgu. Þá fáum við svör við svo mörgu úr Biblíunni, um sköpunarverkið, hvar var garðurinn Eden? og margt fleira.  Það verður spennandi. Fallegur Kotsöngurinn okkar.

Ása mín, ég er mjög lánsöm að eiga fullt af vinum. Takk fyrir falleg orð.

Alli minn, ég veit að Jesús er læknirinn mesti og besti. Við treystum Drottni.

Birna mín, takk fyrir hólið og yndisleg orð.

Er að hlusta á Lindina á samkomu sem er núna í Kirkjulækjarkoti á meðan ég erað skrifa ykkur. Endilega njótið að hlusta á Lindina.

Sjá dagskrá: http://www.kotid.is/

Guð blessi ykkur og varðveiti.

Kær kveðja/Rósa.

Rósa Aðalsteinsdóttir, 1.8.2008 kl. 21:20

25 Smámynd: Jakob Falur Kristinsson

Ég fékk nú bara tár í augun við að lesa þessa frásögn Rósa mín. það er vel þekkt ráð að skrifa sig frá miklum erfileikum.  Það var mér ráðlag eftir slysið sem ég lenti í og það hjálpaði mér mikið.  Maður verður líka að skrifa beint frá hjartanu eins og þú gerir í þinni frásögn.

Guð veri með þér dag sem nótt.

Ég vil sérstaklega þakka þér fyrir að deila þessu með okkur, því þetta mun líka hjálpa öðrum.

Jakob Falur Kristinsson, 2.8.2008 kl. 11:54

26 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll Jakob minn.

Takk fyrir innlitið og fallegar óskir. Það er ósk mín að við getum öll staðið saman og hjálpað hvert öðru ef með þarf. Þegar ég skrifaði fyrri hlutann fyrir 10 árum þá var það mikil hjálp fyrir mig og einnig þegar ég las "Frásögn Rósu"  fyrir samkomugesti í Örkinni í Kirkjulækjarkoti á Kotmóti sennilega líka fyrir 10 árum. Þar gat ég beðið safnaðarsystkini mín afsökunar á öllum mínum ljótu orðum sem ég viðhafði í vinnunni minni. Ég veit að fólk dæmir oft gjörðir einstaklinga og yfirfærir á alla kirkjuna og  mér leið illa að hafa sett bletti á kirkjuna mína. Eftir þetta var miklu fargi létt af mér. Ég vildi svo ganga lengra og lesa þessa frásögn fyrir Vopnfirðinga og biðjast afsökunar en fékk ekki. Það að biðjast afsökunar er einn þáttur í að fá bata að mínu mati. Vona að Vopnfirðingar sjái þessa frásögn hérna á netinu.

Guð veri með þér og öllu þínu fólki.

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 2.8.2008 kl. 12:48

27 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Þetta hefur verið skelfilegt elsku Rósa mín mér Finns allt þetta svo sorglegt. Guð blessi  þig og styrki elsku Rósa mín

Kristín Katla Árnadóttir, 2.8.2008 kl. 15:59

28 Smámynd: Guðni Már Henningsson

Elsku bloggvinkona. Takk fyrir. Það fyrsta sem ég ætla að gera ef ég kem einhverntíman til Vopnafjarðar er að leita þig uppi. Og ef þú verður á ferð hérna í höfuðstaðnum hafðu þá samband. Ég er mikið stoltur af þér og finnst þú einhver merkasta persóna sem ég hef haft spurnir af. Vopnfirðingar mega vera stoltir af þér sem bæjarbúa. Guð geymi þig alltaf og ég veit að þú ert í sérstöku uppáhaldi hjá Jesú Kristi frelsara vorum.

Guðni Már Henningsson, 2.8.2008 kl. 21:38

29 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæl og blessuð Katla og Guðni Már.

Takk fyrir innlitið og hlý orð.

Katla mín, Guð hefur gert svo mikið fyrir mig og ég er að ganga upp brekkurnar frá þessum djúpa dal sem ég var í. Guð er oss hæli og styrkur og örugg hjálp í nauðum.

Guðni minn, kannski kemur þú með Séra Theódór eins og ég kalla hann í trúboðsferð til Vopnafjarðar. Ég hef einkarétt að kalla Tedda "Séra." Ég gat nú ekki annað en hlegið af þessu: "Vopnfirðingar mega vera stoltir af þér sem bæjarbúa."Hm. Ég er ekki í takt við meirihluta hreppsnefndar hér og er þar af leiðandi ekki vinsæl. Datt í hug að fara aftur á silfursmíðanámskeið og búa til einhverja eftirhermu af fálkaorðu og sæma þig orðunni fyrir þessa mögnuðu setningu.  Við vorum á samkomu áðan og hlustuðum á söngsamkomu frá Kirkjulækjarkoti í gegnum Lindina. Mjög góð samkoma.

Áður en samkoman í Kotinu byrjaði var lesið úr Heilagri Ritningu. Lesið var úr Jeremía 31. 1.-6. og Jeremía 33. 6. Einnig tókum við með bænarefni.

Í gær fórum við faðir minn yfir á Hérað og vorum á samkomu á Eyjólfsstöðum sem er rétt fyrir innan Egilsstaði. Þar hefur Íslenska Kristskirkjan aðsetur og hafa þau í mörg ár verið með  kristilegt mót um Verslunarmannahelgi. Þau reka gistiheimili þarna og held ég að það sé opið allt árið. Meiriháttar fallegt þarna.

Með ævarandi elsku elskaði ég þig


"Á þeim tíma mun ég - segir Drottinn - vera Guð fyrir allar ættkvíslir Ísraels, og þeir munu vera mín þjóð.

Svo segir Drottinn:

Sá lýður, er undan sverðinu komst, fann náð í óbyggðum, er Ísrael leitaði hvíldar.

Úr fjarlægð birtist Drottinn mér: "Með ævarandi elsku hefi ég elskað þig. Fyrir því hefi ég látið náð mína haldast við þig."

Enn vil ég endurreisa þig, svo að þú verðir endurreist, mærin Ísrael. Enn munt þú skreyta þig með bjöllum og ganga út í dansi fagnandi manna.

Þú munt enn planta víngarða á Samaríufjöllum. Þeir, sem hafa gróðursett þá, munu og hafa nytjar þeirra.

Já, sá dagur mun koma, að varðmennirnir kalla á Efraím-fjöllum: Standið upp, förum upp til Síon, til Drottins, Guðs vors!"

"Sjá, ég legg við hana umbúðir og græðslulyf og lækna þá og opna þeim gnægð stöðugrar hamingju." 

Guð blessi ykkur og varðveiti og gefi ykkur náð.

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 3.8.2008 kl. 15:56

30 identicon

Sæl Rósa min.

Já, það hefur bæst við athugasemdirnar hjá þér síðan ég kom við hjá þér. Og allt á sama veginn.

Allir/ar vilja þér vel.              

 OG

Guð vakir yfir þér.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 4.8.2008 kl. 03:08

31 identicon

Sæl Rósa!

Mér finnst þú virkilega kjörkuð og kærleiksrík kona. Ég ætla vera dugleg að koma hér við og lesa skrifin þín. Þau eru öllum mikilvægur innblástur og sérstaklega þeim sem eru að spá í lífið og tilgang þess. Ég elska að spá í lífið og hvernig því sé best varið!

Kærleikskveðja Jóhanna J

Jóhanna Jens (IP-tala skráð) 4.8.2008 kl. 16:08

32 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæl og blessuð Þórarinn og Jóhanna.

Takk fyrir innlitið.

Þórarinn, takk fyrir góðar óskir.

Jóhanna, velkomin á síðuna hjá mér. Takk fyrir hlýleg orð.

Megi almáttugur Guð vera með ykkur í öllu sem þið takið ykkur fyrir hendur.

Kær kveðja/Rósa

"Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæsluríkur." Sálm. 103: 8.

"Styrkist nú í Drottni og í krafti máttar hans." Efes. 6: 10.

Rósa Aðalsteinsdóttir, 4.8.2008 kl. 18:08

33 Smámynd: Halldóra Lára Ásgeirsdóttir

Sæl og blessuð Rósa mín!

Magnaður lestur,þú varst reyndar búin að gefa mér hlutdeild í þessari lesningu áður.

Guð hefur örugglega viljað gefa þér öðruvísi reynslu sjóð,en vel flestum, til þess að getað blessað og miðlað góðu úr þessum reynslum sem þú varðst fyrir.Það er nefnilega svo sérstakt að Guð mótar okkur í gegnum þær reynslur sem við verðum fyrir.

Líklega var þér trúað fyrir þessu öllu, af því að þú átt karakter til að nota þær öðrum til hjálpar.

Það þ arf nefnilega sterkt fólk til að opna einkalíf sitt fyrir öðrum.

Gangi þér vel í öllu þínu mín kæra Rósa og Guð veri með þér!

                  Kveðja  Halldóra.
 

Halldóra Lára Ásgeirsdóttir, 4.8.2008 kl. 21:50

34 Smámynd: Birgirsm

Sæl kjarkmikla kona

Vildi bara þakka fyrir að fá að lesa frásögnina þína. Var reyndar aðeins búinn að fá smáforsmekk, en það er alltaf hvatning fyrir mig þegar ég les eitthvað sambærilegt þinni sögu, að hvetja krakkana mína til þess að taka upp hanskann fyrir önnur börn, sem einhverra hluta vegna svara ekki fyrir sig og verða þ,a,l  auðvelt skotmark.

 Kær kveðja til þín Rósa 

Birgirsm, 4.8.2008 kl. 22:58

35 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæl og blessuð Halldóra og Birgir.

Takk fyrir innlitið og hlý orð.

Halldóra mín, þetta var virkilega erfitt og ég eiginlega skil ekki að ég sé ennþá uppistandandi. Ég þrjóskaðist áfram og ég bað Guð um að hjálpa mér.

Birgir minn, gott hjá þér að hvetja börnin að taka upp hanskann fyrir þeim sem eru minnimáttar.

Megi almáttugur Guð blessa ykkur og blessa verk handa ykkar.

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 5.8.2008 kl. 00:00

36 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Kristín Katla Árnadóttir, 5.8.2008 kl. 12:26

37 Smámynd: Erna Friðriksdóttir

Kæra Rósa mín...........Ég skil þig sannarlega, maður er ekkert að biðja um vorkunsemi , þó að maður segji frá lífshlaupi sínu sem að greinilega hefur verið mjög erfitt hjá þér... ég bara finn til........enn oft er gott að fá að vera með, þá á ég við að maður er ekki einn að basla með eitthvað, ef þú skilur hvað ég er að meina :)

Bestu kveðjur til þín

Erna Friðriksdóttir, 5.8.2008 kl. 15:27

38 Smámynd: Elísabet Sigmarsdóttir

Elsku frænka, þú hefur mátt þola mikið en vonandi er bjart framundan. Guð veri með þér.Glitter Graphics

Angel Glitter

Elísabet Sigmarsdóttir, 5.8.2008 kl. 16:30

39 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sælar stelpur mínar, takk fyrir innlitið og hlý orð.

Katla mín takk fyrir hjartað.

Erna mín  já ég skil hvað þú meinar og ég veit svo sannarlega að margir hafa reynt miklu meira en ég. Það sem þarf eru forvarnir og myndi það spara ríkinu mikla peninga. Byrgja brunninn áður en barnið dettur ofaní hann. Margir sem verða fyrir erfiðri lífsreynslu bæði sem börn og fullorðnir enda sem öryrkjar.

Elísabet mín  takk fyrir fallega mynd og góðar óskir.

Megi almáttugur Guð vera með ykkur.

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 5.8.2008 kl. 18:36

40 identicon

Elsku Rósa - já það er sko rétt að ekki er staðið að þessum málum nógu vel - til dæmis með harðari dómum yfir brotamenn svo börnin fái þann skilning að það sem gert var við þau sé voða ljótt og að við stöndum með þeim í að verja þau - ekki þessir máttlausu dómar sem gefa tvívirk skilaboð...úff.....!!!

Ása (IP-tala skráð) 5.8.2008 kl. 19:55

41 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæl frænka.

Ég er mjög ósátt við dómskerfið gagnvart börnum sem hafa orðið þolendur t.d. vegna misnotkunar. Þvílík svívirðing sem börnin þurfa að þola og ekki batnar það þegar leitað er réttar fyrir þau.

Börnin eru gjöf Guðs. Þau eru hrein og saklaus og þau eiga allt gott skilið. Þau eiga sinn rétt að mínu mati en lagalega eiga þau engan rétt og það er hneisa.

Megi Guð almáttugur gefa þeim visku sem stjórna þessu landi.

Guð blessi þig og varðveiti.

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 6.8.2008 kl. 11:01

42 Smámynd: Óskar Arnórsson

Það er nóg af "viskufólki" í stjórn þessa lands. Það er samt undarlegt hversu lítill vilji er til að gera réttindi barna sterkari. Eins og litla barnið sem þurfti erlendis til að leita læknisaðstoðar. Það á að greiðast af íslenskum stjórnvöldum, enn það þurfti samskot...bara eitt dæmi...ég var sendur erlendis til læknis og var það prívarpersóna sem borgaði aðgerðina. TR tekur ekki þátt í lækningum fyrir börn frekar enn fyrri daginn. Mætti alveg laga þessi lög til..nóg er aaf visku og skynsemi. Enn hvaða gagn er í því ef viljan vantar? Þessi félagslega fötlun stjórnvalda veerður ekki löguð í bráð er mitt mat..

Óskar Arnórsson, 6.8.2008 kl. 13:16

43 Smámynd: Óskar Arnórsson

..já, eins og þú bentir réttilega á, eru til lög sem heimila hjálp til barna, enn önnur lög sem segja að Siglingamálanefnd getur sagt nei til barna ef þeim þóknast svo. Svona nefnd sem hefur verið óþarfi hjá TR í mörg ár...og er enn..

Óskar Arnórsson, 6.8.2008 kl. 13:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband