31.12.2008 | 01:46
Hvað boðar nýárs blessuð sól?
Hvað boðar nýárs blessuð sól?
Hún boðar náttúrunnar jól.
Hún flytur líf og líknarráð.
Hún ljómar heit af Drottins náð.
Sem Guðs son forðum gekk um kring.
Hún gengur ársins fagra hring.
Og leggur smyrsl á lífsins sár.
Og læknar mein og þerrar tár.
Ó, sjá þú Drottinn björtu braut.
Þú barn, sem kvíðir vetrar þraut.
Í sannleik: hvar sem sólin skín.
Er sjálfur Guð að leita þín.
Því hræðst þú ei, þótt hér sé kalt.
Og heimsins yndi stutt og valt.
Og allt þitt ráð sem hverfult hjól.
Í hendi Guðs er jörð og sól.
Hann heyrir stormsins hörpuslátt.
Hann heyrir barnsins andardrátt.
Hann heyrir sínum himni frá.
Hvert hjartaslag jörðu á.
Í hendi Guðs er hver ein tíð.
Í hendi Guðs er allt vort stríð.
Hið minnsta happ, hið mesta fár.
Hið mikla djúp, hið litla tár.
Í almáttugri hendi hans.
Er hagur þessa kalda lands.
Vor vagga, braut, vor byggð og gröf.
Þótt búum við hin ystu höf.
Vor sól og dagur, Herra hár.
Sé heilög ásján þín í ár.
Ó, Drottinn, heyr vort hjartans mál.
Í hendi þér er líf og sál.
Matth. Joch.
Nú árið er liðið í aldanna skaut.
Og aldrei það kemur til baka.
Nú gengin er sérhver þess gleði og þraut.
Það gervallt er runnið á eilífðarbraut.
En minning þess víst skal þó vaka.
En hvers er að minnast og hvað er það þá,
sem helst skal í minningu geyma?
Nú allt er á fljúgandi ferð liðið hjá.
Það flestallt er horfið í gleymskunnar sjá.
En miskunnsemd Guðs má ei gleyma.
Hún birtist og reynist sem blessunarlind.
Á blíðunnar sólfagra degi.
Hún birtist sem lækning við böli og synd.
Hún birtist þó skærast sem Frelsarans mynd.
Er lýsir oss lífsins á vegi.
Nú Guði sé lof fyrir gleðilegt ár.
Og góðar og frjósamar tíðir.
Og Guði sé lof því að grædd urðu sár.
Og Guði sé lof, því að dögg urðu tár.
Allt breytist í blessun um síðir.
Ó, gef þú oss Drottinn, enn gleðilegt ár.
Og góðar og blessaðar tíðir.
Gef himneska dögg gegnum harmanna tár.
Gef himneskan frið fyrir Lausnarans sár.
Og eilífan unað um síðir!
Vald. Briem.

Kæru vinir nær og fjær.
Gleðilegt nýtt ár. Kærar þakkir fyrir frábær kynni á blogginu.
Megi almáttugur Guð blessa ykkur nú og um ókomin ár.
Munum að treysta Drottni. Hann mun vel fyrir sjá.
Ég trúi því að Drottinn mun snúa við högum okkar.
Kær kveðja
Rósa Aðalsteinsdóttir
Ási Vopnafirði
Trúmál og siðferði | Breytt 7.1.2009 kl. 12:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (34)
23.12.2008 | 20:32
Spádómur um Jesú Krist sem Guð gaf Jesaja spámanni á síðari hluta 8. aldar f. Kr. Gleðilega hátíð landsmenn allir nær og fjær.
Jesaja var einn af stóru spámönnunum meðal Ísraelsmanna. Hann hefur stundum verið nefndur konungurinn meðal spámanna" Jesaja var Amozson og bjó í Jerúsalem. Guð kallaði Jesaja til spámanns í stjórnartíð Ússía konungs um 748 f. Kr
Hver trúði því, sem oss var boðað, og hverjum varð armleggur Drottins opinber?
Hann rann upp eins og viðarteinungur fyrir augliti hans og sem rótarkvistur úr þurri jörð.
Hann var hvorki fagur né glæsilegur, svo að oss gæfi á að líta, né álitlegur, svo að oss fyndist til um hann.
Hann var fyrirlitinn, og menn forðuðust hann, harmkvælamaður og kunnugur þjáningum, líkur manni, er menn byrgja fyrir andlit sín, fyrirlitinn og vér mátum hann einskis.
En vorar þjáningar voru það, sem hann bar, og vor harmkvæli, er hann á sig lagði.
Vér álitum hann refsaðan, sleginn af Guði og lítillættan, en hann var særður vegna vorra synda og kraminn vegna vorra misgjörða.
Hegningin, sem vér höfðum til unnið, kom niður á honum, og fyrir hans benjar urðum vér heilbrigðir.
Vér fórum allir villir vega sem sauðir, stefndum hver sína leið, en Drottinn lét misgjörð vor allra koma niður á honum.
Hann var hrjáður, en hann lítillætti sig og lauk eigi upp munni sínum. Eins og lamb, sem leitt er til slátrunar, og eins og sauður þegir fyrir þeim, er klippa hann, lauk hann eigi upp munni sínum.
Með þrenging og dómi var hann burt numinn, og hver af samtíðarmönnum hans hugsaði um það?
Hann var hrifinn burt af landi lifenda, fyrir sakir syndar míns lýðs var hann lostinn til dauða.
Og menn bjuggu honum gröf meðal illræðismanna, legstað með ríkum, þótt hann hefði eigi ranglæti framið og svik væru ekki í munni hans.
En Drottni þóknaðist að kremja hann með harmkvælum: Þar sem hann fórnaði sjálfum sér í sektarfórn, skyldi hann fá að líta afsprengi og lifa langa ævi og áformi Drottins fyrir hans hönd framgengt verða.
Vegna þeirra hörmunga, er sál hans þoldi, mun hann sjá ljós og seðjast.
Þá menn læra að þekkja hann, mun hann, hinn réttláti, þjónn minn, gjöra marga réttláta, og hann mun bera misgjörðir þeirra.
Fyrir því gef ég honum hina mörgu að hlutskipti, og hann mun öðlast hina voldugu að herfangi, fyrir það, að hann gaf líf sitt í dauðann og var með illræðismönnum talinn.
En hann bar syndir margra og bað fyrir illræðismönnum." Jesaja 53.
Kæru bloggvinir
Guð gefi ykkur Gleðilega Jól og farsæld um ókomin ár.
"En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki." Matt. 6:33.
Munum að biðja Guð um hjálp fyrir landið okkar og okkur öll, þá verðum við bænheyrð.
Ég trúi því að Guð muni snúa við högum okkar á nýju ári með hækkandi sól.
Þakka frábær kynni á blogginu.
Guð blessi ykkur og fjölskyldur ykkar.
Kær kveðja
Rósa Aðalsteinsdóttir
Ási Vopnafirði
P.s. Sigvaldi bloggvinur minn er með fínan pistil: http://sigvardur.blog.is/blog/sigvardur/
Kv/Rósa
Trúmál og siðferði | Breytt 7.1.2009 kl. 12:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (58)
16.12.2008 | 21:07
Ég veit að mamma grætur á jólunum
Kæru bloggfélagar. Sagan hér fyrir neðan er af Jólavef Júlíusar Júlíussonar frá Dalvík. Á þessum vef er einnig Matarblogg Júlla, Kærleiksvefurinn - knús, Fyrirbænasíða, Kveiktu á kerti, Dalvíkurskjálftinn, Frásögn um Jóhann Svarfdæling, um Dalvík, Íbúana á Dalvík og margt fleira. Slóðin er: http://www.julli.is/
Ég veit að mamma grætur á jólunum"
(e. Sigurjón Jóhannsson frá Hlíð í Skíðadal. Heimild Bæjarpósturinn. Birt með leyfi Bp)
Það er frostbitur desember dagur fyrir 24 árum. Norðanþræsingur þeytir snjórenningi niður Strandgötuna á Akureyri. Þótt skammdegismyrkrið sé alrátt er mér nokkuð létt í sinni. Ég er að bíða eftir jólablaði þess vikublaðs er ég veiti forstöðu og því innan fárra daga verð ég komin heim í kyrrð dalsins míns ! Brátt rennur sendibíll prentsmiðjunnar að gangstéttinni - og í sömu mund kemur drengurinn hann Nonni, sem ber út blaðið í miðbæinn . Ég tek fljótt eftir því að Nonni er ekki eins og hann á að sér að vera, glaður og hressilegur. Nú minnir hann frekar á gamlan mann , álútan og svifaseinan, líkt og þung byrði sé á herðum hans sem hann er nær kominn að kikna undan. Óbeðinn hjálpar hann mér að bera blöðin upp í skrifstofuna og fer síðan þegjandi að telja þau blöð er komu í hans hlut að bera út. Ég fylgdist áhyggjufullur með þessum 10 ára vini mínum og fann til löngunar að nálgast hann, vita hvað þjáði hann ef ske kynni að ég gæti úr bætt. Mér fannst ég ekki geta séð á eftir honum út í myrkrið svona á sig kominn. Til að tefja tímann svolítið á meðan ég væri að átta mig á hvað gera skyldi, spurði ég hann hvort hann vildi hjálpa mér að telja blöðin til hinna krakkanna. Hann kinkaði kolli og án orða fór hann að telja er ég fékk honum lista yfir nöfn krakkanna og tölu þeirra fjölda blaða er hvert þeirra átti að fá. Til að reyna að rjúfa þagnarmúrinn milli okkar spurði ég í hálfgerðum vandræðum; "Hlakkar þig til jólanna ?" " Nei " var svar hans kalt og hranalegt. "Hvers vegna ekki ?" spurði ég og var kominn í hálfgerða varnarstöðu. "Ég veit að mamma fer að gráta eins og á jólunum í fyrra ". "Hvers vegna ?" hraut af vörum mér. Það kom andartaks hik á drenginn en svo kom svarið og tóntegundin var hin sama hörð og næstum hatursfull. " Þig varðar ekkert um það". Með þessu svari fannst mér Nonni hafa mátað mig gersamlega. Við erum búnir að telja blöðin. Snögglega stendur drengurinn á fætur og býst til ferðar, grípur sinn blaðabunka og snýr til dyra. Þegjandi legg ég peningana í lófa hans . Ég finn að hönd hans er ísköld og hann skelfur. Eitthvað innra með mér mótmælir því að ég láti drenginn svona á sig kominn fara frá mér út í nepjuna og myrkrið. Hugdettu skýtur upp í kollinum "Heyrðu Nonni minn. Viltu ekki hjálpa mér að keyra út blaðinu svo ég verði fljótari ?" Og útskýri hálf flaumósa hvernig hann geti flýtt fyrir, að ég beri blöðin úr bílnum til krakkanna en hann verði með peningaumslögin til þeirra. Hann hikar litla stund en kinkar síðan kolli, sem ég tók sem jáyrði við bæn minni. "En viltu ekki hringja heim fyrst og segja mömmu þinni að þér seinki vegna þess að þú sért að hjálpa mér ?" "Mamma er ekki heima hún er að skúra". "En pabbi þinn. Er hann ekki kominn heim úr ...." Ég sé strax að við þessa spurningu mína þyngist byrðin til muna á ungum herðum hans. Hann lútir höfði og drjúglöng þögn hefur völdin - en svo kemur svarið kreist út á milli samanbitinna tanna : "Pabbi er fullur einhverstaðar fyrir sunnan", síðan koma nokkur ekkasog og á eftir þrúgandi þögn. Ég spyr ekki meir en legg hönd yfir axlir hans og teygi mig í símann og hringi á leigubíl. Svo hjálpumst við án orða að bera blöðin niður stigann. Brátt flautar bíll fyrir utan innan stundar erum við lagðir af stað. Við þurfum að koma við á átta stöðum víðsvegar um bæinn. Ég afhendi krökkunum blöðin en Nonni bréfin eins og um var samið. Ég óska börnunum gleðilegra jóla og taka þau glaðlega undir, en litli ferðafélaginn minn var þögull sem gröfin. Eftir rúman hálftíma erum við aftur komnir niður í Strandgötu. Við göngum hlið við hlið upp stigann að skrifstofunni og nú var aðeins eftir að bera blöðin hans Nonna út í miðbæinn.. "Jæja Nonni. Nú hjálpa ég þér við við útburðinn" segi ég hressilega "En fyrst fáum við okkur eitthvað í svanginn ". Á leið okkar um bæinn hafði ég keypt nokkrar pylsur og kók í sjoppu er leið okkar lá framhjá. Yfir andlit hans færðist dauft bros. Keyptirðu þetta handa mér ? " og það var furða í rödd hans. "Handa okkur báðum. Þeir sem vinna þurfa að borða karl minn" er svar mitt. Ég fann gleðitilfinningu fara um mig. Skyldi mér auðnast að rjúfa þagnarmúrinn sem hann varði sig með?
Að loknum snæðingi hófum við blaðburðinn og mér fannst hann ekki eins þungstígur og áður er hann gekk niður stigann. Líkt og byrðin á herðum hans hefði örlítið lést. Úti var enn napurt og renningskóf og án andmæla leyfði hann mér að draga loðfóðraða hanska á hendur hans. Við tókum á sprett undan kófinu og gekk blaðburðurinn hratt og vel fyrir sig og innan stundar vorum við aftur komnir heim á skrifstofukompuna. Ég sá að bragði að það þyrmdi aftur yfir félaga minn - og með óstyrkri hendi seildist hann eftir umslaginu sínu, ég vildi ekki sleppa honum strax. Þrá mín til að vinna traust hans varð æ heitari. "Hvíldu þig aðeins áður en þú ferð út í kuldann á ný". Hann settist þegjandi eins og hann væri bíða einhvers. Vænti hann kannski hjálpar frá mér ? Ég fann til vanmáttar. Var ég þess megnugur að lyfta okinu af herðum hins unga drengs og svartnættinu úr sál hans ? Þögnin í litlu skrifstofunni var orðin löng og þrúgandi. En allt í einu fannst mér birta til - mér fannst ég finna til nálægðar móður minnar og sem í leiðslu hvíslaði ég til drengsins "Kanntu að biðja , Nonni ?" Hann hrökk við og við horfðumst í augu og svo kom svar hans. "Já mamma og pabbi kenndu mér það. " Hálf feiminn spyr ég aftur; "Viltu biðja með mér um að mamma þín þurfi ekki að gráta um jólin og að pabbi þinn komi heim og öðlist þrek til að hætta að drekka ?" Hann stóð hikandi upp og rétti mér höndina og hlið við hlið krupum við niður við borðið. Einhver ósegjanlegur friður gagntók mig og ég skynjaði einnig að hinn ungi vinur minn var einnig á valdi heitra tilfinninga. Hve lengi við krupum og báðum veit ég eigi en er við stóðum upp kom Nonni í fang mér og tár sem tærar perlur runnu niður vanga hans. Ég leyfði honum að gráta og strauk sem annars hugar ljósu lokkana á kolli hans.
Nokkru síðar vorum við aftur komnir út í hríðarkófið og leiddumst hönd í hönd uns við vorum komnir heim til hans. Við kvöddumst á tröppunum en um leið og hann opnaði hurðina hvíslaði hann í eyra mér í barnslegri einlægni: "Ég ætla að biðja mömmu líka að biðja með mér áður en við förum að hátta" að svo búnu lokaði hann hurðinni hljóðlega á eftir sér. Á leiðinni til baka fóru efasemdir að sækja að mér. Hafði ég raunverulega gert rétt með framkomu minni ? Hafði ég ekki vakið falsvonir í huga drengsins - og því yrði sársaukinn enn óvægnari er hann stæði frammi fyrir því að bænastund okkar saman var aðeins haldlaust hjóm og blekking - en samt þetta kvöld ríkti friður innra með mér og ég sofnaði óvenju fljótt er ég hallaði mér á koddann.
Daginn fyrir Þorláksmessu var för mín ákveðin heim í dalinn. Dálítið annars hugar var ég að taka nokkurt dót saman til fararinnar . Dagana á undan hafði ég oft verið kominn að því að hringja heim til Nonna , en ávallt brostið kjarkur. Ég lít á úrið og sá að aðeins var klukkutími uns rútan legði af stað til Dalvíkur. Ég geng um gólf til að drepa tímann. Ég hrekk við er bankað er að dyrum í flýti opna ég. Fyrir utan stendur Nonni og heldur í hönd manns sem er mér ókunnur. "Þetta er pabbi " hrópar drengurinn. " Hann er kominn heim " og augu vinar míns geisluðu af gleði - "og hann er hættur að drekka " bætir hann við og hleypur í fang mér ör og kátur. Faðir hans réttir fram höndina og handtak hans er fast og hlýtt . Ég horfi í augu hans. Þau eru að vísu döpur en samt finnst mér örlítil geislablik gefa þeim líf . Þeir feðgar hjálpa mér með dótið á brottfararstað rútunnar. Á þeirri göngu eru þeir hinir sterku að mé finnst, en ég hinn veikburða.

Oft varð mér hugsað til Nonna yfir jólin. Skyldi faðir hans standast ofurvald vínguðsins ? ótti og von toguðust á í huga mér.Á leiðinni til Akureyrar að jólaleyfi loknu ákvað ég að það skyldi verða mitt fyrsta verk er ég kæmi í bæinn að hringja í Nonna. Er ég dró upp lykillinn að skrifstofunni blasti við mér hvítt blað límt á hurðina og þar gaf að lesa Sigurjón komdu í kaffi strax og þú kemur í bæinn og undir orðsendingunni stóð með stórum stöfum NONNI. Ég mun aldrei gleyma því heimboði. Ást, friður og hamingja ríkti í litla húsinu. Faðir Nonna var kominn í fasta vinnu og stóð sem sigurvegari í glímunni við Bakkus konung.
Allan þennan vetur og næsta sumar var ég hálfgerður heimagangur hjá Nonna og foreldrum hans. Þau góðu kynni veittu mér oft frið og hvíld frá erli starfsins. En að haustdögum rofnuðu að mestu tengslin. Ég hætti blaðamennsku og nokkru síðar flutti fjölskyldan í annan landshluta. Nú eru báðir foreldrar Nonna dánir en hann virtur kennari á höfuðborgarsvæðinu.
Það var eitt sinn ætlun mín að skrifa ævisögu móður minnar og vorum við bæði búin að leggja nokkur drög að henni - og nafn bókarinnar var löngu ákveðið. Bænin var minn styrkur, það var nafnið. En snöggt og óvænt var mamma kölluð á braut og því bókin um hana óskráð. Þessi minningarbrot vil ég henni og lífssögu hennar, sem vörðuð var af kjarki, mildi og kærleika og síðast en ekki síst af æðri trú og handleiðslu.
Senn líður enn að jólum, fæðingarhátíðar mannvinarins mikla. Það er einlæg bæn mín og von að ekkert barn kvíði komu jólanna altekið ótta um að mamma þess gráti um jólin.
Ég bið þess að sjúkir, syrgjendur og þeir sem einmana reika öðlist styrk, frið og hvíld, frá þeim er fórnaði lífi sínu í baráttunni geng grimmd og hatri. Reynum að vera boðberar kærleikans. Minnist þess að jafnvel þétt handtak og hlýtt bros getur varpað ljósi inn í myrkvaða sál. Ég óska lesendum hvíldar og friðar um heilög jól.
S.J
Þessi saga blessaði mig og ákvað ég að senda Júlíusi tölvupóst og spyrja hann hvort ég mætti birta söguna. Sem betur fer fékk ég leyfi og er ég þakklát fyrir það.
Ég sjálf hef upplifað kraftaverk í lífi mínu þegar ég bað Jesú að lækna mig af flogaveiki. Sjá bloggfærslu í byrjun ágúst 2008.
"Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða." Matt. 7: 7.-8.
"Mannfjöldinn varð þess var og fór á eftir honum. Hann tók þeim vel og talaði við þá um Guðs ríki og læknaði þá, er lækningar þurftu." Lúk. 9:11.
"Þegar Jesús steig á land, sá hann þar mikinn mannfjölda, og hann kenndi í brjósti um þá og læknaði þá af þeim, er sjúkir voru." Matt. 14:14.
Megi almáttugur Guð blessa ykkur.
Kær kveðja
Rósa Aðalsteinsdóttir
Trúmál og siðferði | Breytt 17.12.2008 kl. 12:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (35)
11.12.2008 | 23:15
AÐVENTAN

Þegar dagarnir styttast og dimmir um storð,
sérðu dýrlega stjörnu, þar ljómar Guðs orð,
um fæðingu hans, sem varð frelsari manna
og færði´ okkur jólin og gleðina sanna.
Þau færast nær og nær,
og nú er allt svo bjart,
er kærleikshátíð kristni hans
skal klædd í jólaskart.
Og svo kveikjum við ljósin á kertunum hér,
er við komum nú saman að fagna hjá þér,
sem gafst okkur lífið og gleðina bjarta.
Sú gleði er Jesús í sérhverju hjarta.
Þau færast nær og nær,
og nú er allt svo bjart,
er kærleikshátíð kristni hans
skal klædd í jólaskart.
Svo er upp renna jólin og annríkið dvín,
verða englar á ferð, þar sem kvöldstjarnan skín.
Er barnsaugun glitra í ljósanna ljóma,
þau lyfta upp hug, þegar sálmarnir hljóma.
Þau færast nær og nær,
og nú er allt svo bjart,
er kærleikshátíð kristni hans
skal klædd í jólaskart.
Rósa Aðalsteinsdóttir
Stóru Mörk

Kertin eru fjögur og hvert og eitt er táknrænt, til að hjálpa okkur að íhuga boðskap jólanna.
Fyrsta kertið heitir Spádómskerti og minnir á spádóma Gamla testamentisins um frelsarann sem koma skyldi.
Næsta kerti er kallað Betlehemskerti. Það leiðir hugann að bænum þar sem Jesús fæddist í fjárhúsi og var lagður í jötu.
Þriðja kertið sem kveikt er á er Hirðakerti og minnir á hirðana sem voru fyrstu mennirnir sem heyrðu um fæðingu Jesú.
Það fjórða er Englakertið og vísar til englanna sem birtust á jólanótt og sögðu frá því að Jesús væri fæddur. Hringurinn sjálfur táknar eilífðina.
Við kveikjum einu kerti á,
Hans koma nálgast fer,
sem fyrstu jól í jötu lá
og Jesú barnið er.
Við kveikjum tveimur kertum á
og komu bíðum hans.
Því Drottinn sjálfur soninn þá
mun senda í líking manns.
Við kveikjum þremur kertum á
því konungs beðið er,
þótt Jesús sjálfur jötu og strá
á jólum kysi sér.
Við kveikjum fjórum kertum á;
brátt kemur gesturinn
og allar þjóðir þurfa að sjá
að það er frelsarinn.
Sigurd Muri 1963 - Lilja Kristjánsdóttir
Trúmál og siðferði | Breytt 13.12.2008 kl. 15:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (56)
5.12.2008 | 18:39
Rósa gengin í barndóm
Halló, alló.
Á þriðjudaginn, var Enok Örn frændi minn og Hófi nágranni okkar að leika sér í rennibrautinni sem Enok Örn hafði búið til. Ég ákvað að renna og biðja Enok Örn að taka myndir. Hann vildi endilega taka myndband en það er hægt á myndavélinni minni.
Við ákváðum svo að gera eitthvað skemmtilegt með myndirnar og voru tvö myndbönd sett á YoyTube með hjálp Lindu bloggvinkonu minni og vinkonu.
Á meðan við vorum að læra var oft heilmikið fjör og fjörugar setningar flugu frá Vopnafirði yfir í Grafarvoginn og einnig til baka.
Nú ætlum við að setja myndböndin inná bloggið. Þið sjáið að þið eigið skrítinn bloggfélaga.
Góða skemmtun allir.
Kæra Linda. Takk fyrir hjálpina. Vona að þú hafir gaman af þessu líka.
3.12.2008 | 23:00
Er friðarsúla Yoko Ono ófriðarsúla?
Þessi grein birtist á forsíðu erlends dagblaðs, föstudaginn, 28 sept. 2007.
Friðarsúla Yoko Ono í Viðey vekur athygli.
Afhjúpun friðarsúlu Yoko Ono í Viðey á 67 ára afmælisdegi Johns Lennons 9. október er farin að vekja athygli. AP fréttastofan sendi út frétt með viðtali við Yoko í gær og Breska tónlistarblaðið NME sagði frá atburðinum á vefsíðu sinni. Yoko segir í AP-viðtalinu að hún og John hafi rætt um að gera þetta fyrir 40 árum. "Nú er draumurinn loks að verða að veruleika." Verkið heitir Imagine Peace Tower. Öflugri ljóssúlu mun stafa upp úr súlunni og teygja sig til himins úr óskabrunni í grunni hennar þar sem orðin "Ímyndum okkur frið" eru skráð á 24 tungumálum. Gert er ráð fyrir því að kveikt verði á súlunni á hverju ári á afmælisdegi Lennons og lýsi fram að dánardægri hans 8. desember. Yoko segir að Ísland hafi orðið fyrir valinu vegna þess að það sé mjög vistvænt land sem reiði sig á jarðhita.
Hún segir súluna mjög fallega. "Það er ákveðinn framandleiki yfir henni, galdrablær liggur mér við að segja," segir Yoko. "Þetta er stærsta afmælisgjöfin sem ég hef gefið John." Yoko hefur safnað 495.000 friðaróskum, sem grafnar verða í jörðu í sérstökum hylkjum umhverfis súluna. Trjám verður plantað með hverri ósk. "Þetta verður skógur þegar fram líða stundir."
Yoko Ono hyggst sjálf greiða 70 milljóna króna umframkostnað sem orðið hefur við verkið. Upphaflega var áætlað að kostnaðurinn við smíði súlunnar myndi nema 30 milljónum króna sem Reykjavíkurborg og Orkuveitan höfðu samþykkt að greiða. Í fyrra varð ljóst að áætlunin var fjarri lagi og er talið að verkið muni kosta um 100 milljónir. Lennon-Ono friðarverðlaunin voru veitt í Höfða 9. október í fyrra. Yoko Ono hyggst framvegis afhenda verðlaunin í Reykjavík. Samkvæmt samningi Yoko Ono og Reykjavíkurborgar verður líka kveikt á súlunni á nýársnótt og í fyrstu viku sumars.
2. Mós. 34:13 heldur skuluð þér rífa niður ölturu þeirra, brjóta í sundur merkissteina þeirra og höggva niður asérur þeirra.
5. Mós. 7:5 Heldur skuluð þér svo með þá fara: Þér skuluð rífa niður ölturu þeirra, brjóta í sundur merkissteina þeirra, höggva sundur asérur þeirra og brenna skurðgoð þeirra í eldi.
5. Mós. 12:3 Þér skuluð rífa niður ölturu þeirra, brjóta í sundur merkissteina þeirra, brenna asérur þeirra í eldi, höggva sundur skurðlíkneski guða þeirra og afmá nafn þeirra úr þeim stað.
Christian Glitter by www.christianglitter.com
1Kon. 14:15
1. Kon. 14:23 Því að einnig þeir gjörðu sér fórnarhæðir, merkissteina og asérur á öllum háum hólum og undir hverju grænu tré.
2. Kon. 17:10 Þeir reistu sér merkissteina og asérur á öllum háum hólum og undir hverju grænu tré
2. Kon. 17:16 Þeir yfirgáfu öll boð Drottins, Guðs síns, og gjörðu sér steypt líkneski, tvo kálfa, og þeir gjörðu asérur, féllu fram fyrir öllum himinsins her og dýrkuðu Baal.
2. Kron. 33:3 Hann reisti af nýju fórnarhæðirnar, er Hiskía faðir hans hafði rífa látið, reisti Baölunum ölturu og lét gjöra asérur, dýrkaði allan himinsins her og þjónaði þeim.
2. Kron. 33:19 En um bæn hans og hvernig hann var bænheyrður, og um allar syndir hans og ótrúmennsku, svo og um staðina, þar sem hann reisti fórnarhæðir og setti asérur og líkneski, áður en hann lægði sig, um það er ritað í sögu sjáandanna.
Míka 5:14 (5:13) Ég vil brjóta niður asérur þínar og eyðileggja guðalíkneski þín,
Jes. 66:17 Þeir sem helga sig og hreinsa sig til þess að fara inn í fórnarlundana, bak við einhvern, sem fyrir miðju er, sem eta svínakjöt, viðurstyggileg skriðdýr og mýs - þeir skulu allir undir lok líða - segir Drottinn.
Jer. 17:2 þeim til áminningar. Ölturu þeirra og fórnarsúlur standa hjá grænu trjánum, á háu hæðunum,
Esekíel 6:6 Svo langt sem byggð yðar nær, skulu borgirnar í eyði liggja og fórnarhæðirnar standa gjöreyddar, til þess að ölturu yðar séu niður brotin og í rústum, skurðgoð yðar sundurbrotin og að engu gjörð, sólsúlur yðar mölvaðar og handaverk yðar afmáð.
Hós. 4:13 Efst uppi á fjöllunum fórna þeir sláturfórnum, og á fórnarhæðunum færa þeir reykelsisfórnir, undir eikum, öspum og terebintum, því að skuggi þeirra er ununarfullur. Fyrir því drýgja dætur yðar hór og fyrir því hafa yðar ungu konur fram hjá.
Þessa grein fékk ég í pósti og bað um leyfi til að birta hana okkur öllum til umhugsunar.
Drottinn blessi ykkur.
Rósa Aðalsteinsdóttir
Vopnafirði
Trúmál og siðferði | Breytt 10.12.2008 kl. 19:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (67)
27.11.2008 | 22:05
Tilhleypingakvöld - Yfirlitssýning hjá Séra Pétri
Hörku partý á laugardagskvöldið 29. nóv., hjá Séra Pétri sem er prestur hjá Óháðasöfnuðinum í Reykjavík. Partýið verur á Hagamel helming hundraðs, að hætti Péturs og er mæting tvær í tvöþúsund.
Yfirlitssýning = þegar Pétur býður stúlkum heim á Hagamel 50, sem eru á lausu og lætur Guðsgeldingagengið líta á þær.
Ég fór einu sinni í svona partý í denn eða 1992. Pétur reyndi og reyndi að koma mér til við einn af gestum hans en ég var og er erfið viðureignar. Kannski ert þú auðveldar viðureignar en ég? Pétur hvetur ykkur, sem eruð á lausu, að mæta.
Ég lofaði Pétri að auglýsa Pétrísku-íslensku Orðabókina hans. Þið sem hafið áhuga að kaupa Orðabókina en getið ekki mætt í tilhleypingapartýið eða þurfið þess ekki, getið hringt í Pétur . Síminn er 5522652.
Ég verð nú að setja inn fáein orð úr Pétrísku-íslensku Orðabókinni en ég mun velja orðin svo það líði ekki yfir ykkur.
Eitt sinn kom Pétur í heimsókn til Vopnafjarðar og var í heimsókn hjá vinum okkar sameiginlegum á leið í Loðmundafjörð. Hann hringdi en ég var ekki heima. Klukkan tíu kom ég heim og ætlaði að drífa mig í rúmið því erfið vinna beið daginn eftir og ég með mígreni. Þá hafði Pétur hringt. Ég fór að hitta Pétur og vini mína. Hann sá að ég var slöpp og ég sagði honum að ég væri með mígreni. Þá spurði hann mig hvort það væri Kommúnistafundur í kjallaranum hjá mér?" Ég hváði en fattaði strax hvað hann átti við. Ég var nú ekkert að svara þessu hvorki játandi eða neitandi, fannst pilti ekkert koma það við en hann hitti nú samt naglann á höfuðið.
Kommúnistafundur í kjallaranum = tíðarblæðingar sbr. RÓSA FRÆNKA Í HEIMSÓKN
Að þykkna upp = verða ólétt; (Pabbi minn segir að konurnar hafi verið bólusettar. Rósa)
Afleggjari = maður í megrun
Andlitsát = sviðaveisla
Auðkúla = vömb á karlmönnum
Áleggsbrauð = brauð þar sem presturinn er með æðardúntekju, en æðakollurnar liggja á eggjunum og dúnninn er tíndur úr hreiðrinu
Ástarhöldur = spikfellingar á hliðum manna (SH: velmegunarvöðvar, auðkúla, kúlulegur)
Bálreið = slökkviliðsbifreið
Bjórúlfar = Björgólfsfeðgar í Samson, þar sem þeir fóru sem úlfar í hjörð Sóla Sig. Á vormisseri 2003 í - Búnaðarþingi - honum gersamlega að óvörum
Blindfyllerísmótið í Alkalæk = Bindindismótið í Galtalæk, haldið á frídegi verslunarmanna
Dómkirkja = kona mjög væn að vallarsýn (þar sem líkaminn á að vera musteri eins og segir í Biblíunni) Lýsing á mér- Rósa
Eiturblys = sígaretta (SH: Hvíti dauði)
Endurholdgun = að fita aftur eftir megrun
Fálkaungi = barn fálkaorðuhafa
Feimið hvítkál = rauðkál
Fingrafæði = pinnamatur. Það tekur því varla að mæta í slík boð þar sem maturinn er það rýr að alveg eins er hægt að stanga úr tönnunum í staðinn (SH: tannstönglakviðfylli)
Fitufátæktarmatur = diet, megrunarmatur
Grautur og gras = súpa og salat
Hálffress = rauðsokka eða femínisti
Hátíðarblys = vindill
Hrökkbrauð = embætti farprests
Kalli og co = þeir sem tilheyra alríkiskirkjunni, þjóðkirkjunni þar sem Karl er biskup
Kjaftakerling = ökuriti í rútu og vöruflutningabifreið sem skráir ökuhraða og vinnutíma
Kjaftasaga = Útvarp Saga, eftir að hún varð talmálsstöð á vormisseri 2002
Krabbameinshvati = ljósabekkur
Kransæðakítti = majones o.þ.h.l.
Kreppukort = greiðslukort (SH: Eyðslukort)
Krítarkort = póstkort frá eyjunni Krít
Kroppakrem = body lotion
Kúlukýlingarkall = golfleikari
Kúlusukk = Perlan, þar sem sukkað var með peninga við byggingu hennar
Kviðlingur = ófætt barn (SH: bumbubúi)
Maggi dóni = Hamborgarstaðurinn McDonalds
Mammonsfræði = viðskiptafræði
Marteinsmaður = Lútherstrúarmaður
Melakleppur = Háskóli Íslands
Naglhreinsa = fótaaðgerðakona við störf
Nýheiðindómur = nýöld
O.A. = ofát og aukakíló
Pottormar = spagettí
Randabrauð = meðlæti, einkum kökur með rjóma
Sendiherra = stjórnmálamaður sem orðin er hættulegur eða óþægilegur stjórnarflokkum og er því sendur erlendis
Skeifuskoltur = maður sem er sífellt fýldur á svipinn
Skófluskattur = kirkjugarðsgjald
Skráveifa = meðhjálpari í kirkju sem dreifir messuskrá
Skröltsskór = inniskór starfsfólks heilbrigðisstofnana, sem auka á skarkala á göngum stofnananna
Stelpugöngin = veggöngin úr Siglufirði yfir í Héðinsfjörð, þar sem Strákagöngin eru hinu megin yfir í Fljótin
Svampbotn = rass á konu sem er - væn að vallarsýn (SH: Bústýrubotn, ráðskonurass) Það hlýtur að vera að Pétur
sé virkilega skotin í okkur sem erum frjálslegar vaxnar miðað við orðabókina hans - Rósa.
Svartbaunaseyði = kaffi
Svipting = gifting (SH: sjálfsforræðissvipting)
Túristatrú = Ásatrú, þar sem erlendir ferðamenn koma til Íslands til að kynna sér hana
Uxahryggir = t-beina steik
Vangefin = kona, sem ekki hefur verið gefin manni
Veiðivatn = ilmvatn
Vitlausa vikan = síðasta vikan fyrir jól
Vínarbrauð = brauð S.Á.Á. - prestsins
Votti óhófi = Votti Jehóvi, þar sem heimsóknir þeirra verða að ofsóknum
Þurrkaðir hringormar = cheerios
Ævisaga = lygasaga sem einhver gengst við
Örendur = sáralitlar endur
Öskureið = ruslabifreið, sorpbifreið
Sjá nánar hjá Guðrúnu fræ. bloggvinkonu minni: http://goodster.blog.is
Færslurnar heita: Nú nálgast hið árlega.... Skrifað 26/11. 2008 og Að gefnu tilefni.. skrifað 24/1 2008.
Góða skemmtun að lesa þessa vitleysu.
Guð veri með ykkur öllum bæði ykkur sem eruð á lausu eða orðið fyrir sjálfsforræðissviptingu.
Kær kveðja/Rósa
Spaugilegt | Breytt 3.12.2008 kl. 23:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (46)
15.11.2008 | 22:00
Blessanir í lífi mínu - Nýtt klukk

Christian Glitter by www.christianglitter.com
Hún Linda bloggvinkona mín kom af stað þessu klukkveseni. Ætli sé ekki best að vera stillt og góð og taka áskorun með þetta klukkvesen. Hélt að hún væri vinkona mín og svona gera vinirnir ekki eða hvað?
Hvað ætli ég geri nú á eftir annað en að bögga ykkur kæru bloggvinir.
Þá eru það blessanir í lífi mínu.

Christian Glitter by www.christianglitter.com
1. Það er mikil blessun að hafa eignaðist góða foreldra
sem elskuðu Jesú Krist. Þau kenndu mér um
Jesú Krist
og þegar ég var 13 ára þá varð ég fyrir því láni að taka á móti
Jesú Kristi
sem frelsara mínum. Það var mikil vernd að taka á móti
Jesú
svona ung því þá fór ég ekki út í að nota vímuefni. Ef ég hefði rambað inná þá braut þá einhvern veginn held ég að það hefði verið gert hraustlega eins og allt annað sem ég hef tekið mér fyrir hendur um ævina og sumt orðið mér að tjóni eins og erfiðisvinna í fiski.
2. Það er blessun að eiga tvo bræður, mákonu og þrjú bróðurbörn.
Bróðurbörnin mín hafa og eru miklir gleðigjafar í lífi mínu.
Þau heita Katrín Stefanía, Lýdía Linnéa og Enok Örn.
Ég sagði Erninum mínum í dag að hann væri einn af því besta sem ég hef eignast um ævina.
3. Það er blessun að eiga heimili ásamt föður mínum. Það er ekki sjálfgefið að eiga heimili.

Christian Glitter by www.christianglitter.com
4. Kirkjan mín á Vopnafirði og trúsystkinin mín.
Að fara í
Guðshús
hefur mikla þýðingu fyrir mig.

Christian Glitter by www.christianglitter.com
5. Trúsystkini, ættingjar, vinir og bloggvinir.
Ég hef alltaf verið vinamörg um ævina. Síðast þegar ég var í Reykjavík þá hitti ég óvenju marga vini, þá tæpu þrjá sólahringa sem ég stoppaði í höfuðborginni.

Christian Glitter by www.christianglitter.com
6. Guð hefur gefið mér ágætis hæfileika og er ég þakklát fyrir allar gjafir Guðs.
7. Létt lund þrátt fyrir erfiða lífsgöngu, sjá nánar blogg í byrjun ágúst sl. SÆLIR ERU BJARTSÝNIR.
8. Það er blessun að njóta fegurðar þessa lands sem flýtur í mjólk og hunangi. Guð er mikil listasmiður.
9. Það er mikil blessun að hafa farið aftur í nám á gamalsaldri.
Ég er þakklát fyrir allar
góðu einkunnirnar
sem ég hef fengið.
10. Það er mikil blessun að sjá góðar breytingar í lífi mínu, bæði andlegar og líkamlegar.
Fyrir benjar Jesú Krists mun ég verða heilbrigð.
Ég trúi því.

Christian Glitter by www.christianglitter.com
Svo að þetta klukkvesen hennar Lindu komist eitthvað áleiðis, ætla ég að skora á alla bloggvini mína,
sem nú þegar hafa ekki fengið áskorun, að telja upp allar blessanir sínar.
Guð blessi ykkur og varðveiti.
Kær kveðja/Rósa Guðskerling.
P.s. Fékk þetta flotta nafn "Rósa Guðskerling." á mbl. blogginu. Ég er mjög lukkuleg með þetta nýja nafn.
Trúmál og siðferði | Breytt 16.11.2008 kl. 12:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (67)
12.11.2008 | 22:03
ABC hjálparstarf - Nytjamarkaður til styrktar ABC barnahjálp og Líknarfélagi Kærleikans
Sæl og blessuð
Kynning á ABC hjálparstarfi tekið af vef: http://www.abc.is/ABChjalparstarf/UmABCbarnahjalp/Almennarupplysingar/
ABC hjálparstarf var stofnað árið 1988 sem íslenskt, samkirkjulegt hjálparstarf.
Tilgangurinn með stofnun þess var að veita nauðstöddum börnum varanlega hjálp og vera farvegur fyrir framlög gjafmildra Íslendinga sem skila sér óskert til umkomulausra barna í fátækari löndum.
ABC barnahjálp sér nú fyrir yfir 8000 börnum með hjálp íslenskra og nú einnig erlendra fósturforeldra, aðallega á Indlandi, Úganda, Filippseyjum, Pakistan og Kenýa. Um 5000 stuðningsaðilar styðja börn á vegum starfsins í dag. Aðeins einn aðili stendur að baki hverju barni.
Hjálpin sem veitt er felst aðallega í menntun barna sem annars ættu ekki kost á skólagöngu, en einnig er þeim séð fyrir læknishjálp, framfærslu og heimili þar sem þörf er á. Í mars 2004 var tekin ákvörðun um að breyta nafni starfsins í ABC barnahjálp sem lýsir enn betur starfseminni.
ABC barnahjálp er sjálfseignarstofnun og skilar endurskoðuðum ársreikningum til Ríkisendurskoðunar ár hvert.
Öll framlög til ABC renna óskipt til hjálpar munaðarlausum og þurfandi börnum nema þau sem sérstaklega eru gefin til rekstrar.
Bréf frá ABC hjálparstarfi:
Opnaður hefur verið Nytjamarkaður til styrktar ABC barnahjálp og Líknarfélagi Kærleikans. Markaðurinn hefur fengið nafnið Nytjamarkaðurinn og er til húsa að Faxafeni 8 (í sama húsi og Íslensku Alparnir baka til).
Á Nytjamarkaðnum eru til sölu bæði nýjar og notaðar vörur svo sem föt, heimilistæki, húsgögn og í raun allt milli himins og jarðar. Opnunartími Nytjamarkaðarins er milli 11:00 og 18:00 alla virka daga og milli 11:00 og 16:00 á laugardögum.
Nú er tilvalið tækifæri til að fara í gegnum geymsluna, bílskúrinn eða fataskápinn og athuga hvort að þar leynist ekki eitthvað sem tilvalið væri að gefa framhaldslíf á Nytjamarkaðnum. Tekið er við dóti í Faxafeni 8 á opnunartíma og einnig er hægt að láta sækja hluti sé þess óskað.
Síminn hjá Nytjamarkaðinum er 520-5500
Við hvetjum alla til þess að leggja leið sína á Nytjamarkaðinn og kanna hvort þar sé eitthvað sem hugur þess girnist og um leið styðja við og styrkja gott málefni.
Þeim sem vantar eitthvað að gera er velkomið að hafa samband við Erlu Guðrúnu framkvæmdarstjóra í síma 696-7266 eða senda mail á erla@mozaik.is og skrá sig sem sjálfboðaliða.
Endilega kíkið á bloggvini mína Andra og Árna Kærleik.
Andri Krossfari:http://andrifr.blog.is/blog/andrifr/entry/703668/#comments
Árni Kærleikur: http://arncarol.blog.is/blog/arncarol/entry/709446/#comments
Guð blessi Ísland og alla Íslendinga nær og fjær.
Kær kveðja/Rósa
![]() |
Vopnað rán á skrifstofu ABC í Kenýa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál og siðferði | Breytt 16.11.2008 kl. 10:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
29.10.2008 | 01:11
Móðir Theresa
Bænin hér fyrir neðan er bæn Theresu sem er dýrlingur þess sem lítið er. Hún trúði því að gera litla hluti í lífinu með miklum kærleika og ást. Rósir voru hennar blóm. Megi hver og einn sem les eftirfarandi bæn vera margblessuð eða margblessaður.
Megi dagurinn finna frið innra með þér.
Megi þú teysta Guð að þú sért nákvæmlega sú/sá sem þú átt að vera.
Megi ekkert fá þig til að gleyma hinum óendanlegu möguleikum sem fæðast með trú.
Notaðu þær gjafir sem þér hefur verið gefið, eins og þú upplifðir kærleika, sýndu kærleika.
Megi þú vera sátt við að þú sért barn Guðs.
Leyfðu viðveru hans leggjast yfir benjar þínar, og gefðu sál þinni frelsi til að syngja og dansa allt til sýna ást og kærleika til hans.
Hann er hér fyrir okkur öll
Áhyggjur líta í kringum sig. Afsökun lítur til baka, en trú lítur fram á við og upp.
Þessi engill sendi þér þetta.
Angel Glitters
Þýð: Linda 21.5.2008
Smá viðbót:
Móðir Teresa, upphaflegt nafn hennar var Agnes Gonxha Bojaxhiu f. 1910. í Albaníu d. 5. september 1997 í klaustri sínu í Kalkútta á Indlandi, 87 ára gömul. Hún fór til Indlands 1928 til að kenna í klausturskóla, sór lokaheit sitt sem nunna árið 1937. Starfaði frá 1948 í fátækrahverfum Kalkútta á Indlandi. Þar annaðist hún munaðarlaus börn, sjúklinga og dauðvona fólk; stofnaði 1950 reglu Kærleiksboðberanna (Missionaries of Charity) sem starfar víða um lönd. Hlaut friðarverlaun Nóbels 17. október 1979 fyrir baráttu sína í þágu fátækra á Indlandi.
Móðir Theresa (1910-97) var sem engill af himnum í fátækrahverfunum í Kalkútta á Indlandi. Hún líknaði sjúkum og gerði allt sem hún gat til að lina þrautir. Einu sinni fékk amerískur ferðamaður að fylgja henni eftir og horfði stóreygur á þegar Theresa þvoði hryllilega útlítandi og illþefjandi sár holdsveikisjúklings. Kaninn dró sig til baka og sagði svo við móður Theresu þegar hún hafði lokið verki sínu. "Þó mér væru boðnir milljón dollarar myndi ég ekki vilja þvo svona sár." Theresa brosti og sagði án hiks: "Ekki ég heldur."
Markaðssérfræðingar hjá Bens ákváðu að gefa Móður Theresu þrjá Mercedes Bens. Þeir sendu bílana til Kalkúta á Indlandi. Móður Theresu voru afhentir bílarnir og þakkaði hún fyrir þessa miklu velvild. Fáum dögum seinna átti hún enga Mercedes Ben en gnægð matar og mikið af lyfjum. Hún hafði selt bílana og notaði andvirði bílanna til að kaupa mat og lyf handa skjólstæðingum sínum. Áfram gekk hún frá morgni til kvölds í nafni Drottins og sinnti þeim sem minna máttu sín.
Trúmál og siðferði | Breytt 5.11.2008 kl. 07:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (51)