Á Jónsmessu Hólabiskups

 

Á Jónsmessu Hólabiskups

Friðrik Friðriksson

31. Mars 1953.

Visiones

Oft minn hugur hvarflar glaður

Hóla til, er biskupsstaður

Lýsti nýr um landið hér,

Er þinn ástvin hóf upp Hóla

Heiðurs til og reistir skóla,

Drottinn minn, til dýrðar þér.

 

Kem ég nú að banabeði

Biskups þess er stólnum réði

Fyrstur manna‘, í fimmtán ár.

Heyri‘ ég söngva svella skæra,

Sjúkur vildi lofgjörð færa,

fyrr en lykjast fölar brár.

 

Hann í söng af hjartans grunni

Hörpu Davíðs stilla kunni

Fram í andláts ystu neyð.

Söng um frelsi‘ úr fjötrum nauða,

Fyrirgefning, lausn frá dauða,

Englavörð og lífsins leið.

 

Sæt var rödd með sigurhreimi,

Sætust þó í öfugstreymi

Banameins á beiskri stund;

Meðan tungan mátti hrærast,

Meðan varir kunnu‘ að bærast,

Söng hann fram að síðsta blund.

 

Sjö og hálfa öld minn andi

Andartak á hugans gandi

Flýgur næst til Hóla heim.

Þegar Brandur stýrði stóli,

Strangur vetur ríkti á bóli,

Nísti lýð í nauðum þeim.

 

Mars hinn þriðji má ei gleymast,

Minning björt í sögum gleymast

Mun um aldir Ísalands,

Þá er upp úr gröf var grafinn,

Guðs í kirkju síðan hafinn,

Helgidómur heilags manns.

 

Aldir þrjár og hér um hálfa

Höfuðkirkju prýddi sjálfa.

Skrínið hans með heilög bein.

Margur fann þá meinabætur,

Mörgum fannst þar ilmur sætur,

Trú því olli heit og hrein.

 

Þá úr Hóla helgidómi

Hrifinn var sá kirkjusómi,

Hulinn aftur mjúkri mold.

Enginn veit, hvar bein hans bíða

Betri‘ og sælli morguntíða,

Þegar upprís andað hold.

 

Síðan aldir eru fjórar.

Umbyltingatíðir stórar

Flæddu‘ um sveitir föðurlands. -

Féll í auðn og fyrnsku stundar

Forna prýðin fósturgrundar,

Skálaholts og Hóla glans.

 

Ef til vill nú önnur kemur

Öld, sem feðradáðir nemur,

Þroski vorrar þjóðar vex.

Biskups Jóns þá stytta á stalli

Stendur reist á kirkjupalli,

Tvö þúsund og talan sex.

 

Þá mun hátíð haldin verða

Hólastóls og orsök ferða

Út frá hverri sýslu‘ og sveit.

Ferðamarkið heim til Hóla,

Heilags Jóns að vitja skóla -

Framtak nýt á fornum reit.

 

Þúsund tjalda‘ á grænni grundu

Gesta þeirra, er veginn fundu

Gegnum loft, á landi‘ og sjá.

Stofnár Hólastólsins forna

Styrkir lýð, - þá fer að morgna

Skagafjarðarfjöllum á.

 

Hóla byrðu‘ í helgum hlíðum

Hátt á stalli birtast lýðum

Helgir menn í heimsókn þá:

Fremstur Jón og Gvöndur góði,

Guðbrandur, og sæll í ljóði

Hallgrímur mun hörpu slá.

 

Píslavættis skrýddur skrúða

Skín í þessum flokki prúða

Örfum með Jón Arason.

Fjallið allt er hulið hrönnum

Helgra manna, líkjast fönnum,

Blessun lýsa‘ á landsins von.

Líkt og sumars sunnanvindar

Svífa‘ í lofti´að fjallatindar

Hringinn kringum Hjaltadal.

Blána í misturs móðu fríðir,

Megir lífsins standa blíðir,

Ljóma‘ um fagran fjallasal.

 

Fylking sunnan fer hin glæsta,

Fagurskreytt í leyfi‘ ins Hæsta,

Til að hylla Hólastó. -

Skálholts og Hólasóminn

Heilsast nú, og frelsisljóminn

Skín sem mildust morgunsól.

 

Yfir mun þeim ljóma lýsa

Lífsins sól, er heglir prísa

Dýrðin Krists og Konungs náð:

Hans er vald á himni‘ og jörðu,

Honum lof með þakkargjörðu

Færi allt um lög og láð.

 

Sjá, þú Ísalandsins lýður,

Listrænt hlutverk þín nú bíður.

Fremd og dáðir fylgjast að.

Vakna, drótt, af doða‘ og svefni,

Drjúgum fær þú viðfangsefni,

Margt að vinna‘ á mörgum stað.

 

Upp þú skalt úr rústum reisa

-  Ræktarleysið er þér hneisa -

Skálaholtsins höfuðból.

Gissurs mikla‘ og Ísleifs andi

Á að ríkja hér á landi

Undir nýrri aldarsól.

 

Þjóðarminjum má ei týna,

Metnað þann í verki að sýna

Þjóðar göfgi glæðir best.

Oddastað má ekki gleyma,

Áttu þar í vöggu heima

Fræðin, sem oss frægja mest.

 

Þá mun trúar alskær alda

Yfir flæða landið kalda,

Vekja þjóð úr doða‘ og deyfð.

Trúarvissan, trúarglóðin,

Trúarjátning, sigurljóðin

Fegri vora föðurleifð.

 

Æskulýður, Íslands prýði

Efling fær í trúarstríði,

Krossins fána fylgir trúr.

Hallgrímskirkja‘ á Hallgrímssetri

Hefst til vegs, er tíðir betri

Renna‘ upp undir andans skúr.

 

Sumar hvert mun sjá þann skara,

Sem í trausti Krists mun fara

Upp í víðan Vatnaskóg.

Kristin æska kæn að störfum

Kann að bæta‘  úr mörgum þörfum,

Hafi‘ hún Krist, hún hefur nóg.

 

Skógar vaxa, grundin grænkar,

Göfgra bænda hagur vænkar,

Tún og akur frjósemd fær.

Skynsemd stjórnar, vélar vinna,

Vötn og fossar kraftinn inna,

Auðlegð veitir víður sær.

 

Afneitun og vantrú víkja,

Vegsemd Jesú Krists mun ríkja

Lærðum bæði og leikum hjá. -

Kirkjur fyllast kristnum anda,

Klerkar fremst í broddi standa,

Menntun sannri lið að ljá.

 

Skólar fagra fræðslu veita,

Forna‘ og nýja, í borg, til sveita,

Íþróttirnar efla dáð. -

Háskóli‘ Íslands hæst skal gnæfa:

Heilög menning, list og gæfa

Þaðan út um leggi láð.

 

„Guðs vors lands": já lands vors faðir,

Lýstu þjóð um aldaraðir.

Lát oss ætíð lúta þér.

Varðveit frelsi, frið og sóma,

Forsetann og rétta dóma.

Fyrir öllu illu‘ oss ver.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Takk fyrir þetta elsku Rósa mín, ég tek á hverjum morgni miða og les ég hvað er sagt við mig og þá líður mér svo vel. Takk aftur.

Kristín Katla Árnadóttir, 23.6.2008 kl. 22:43

2 Smámynd: Úlfar Þór Birgisson Aspar

Jahérna þetta er engin smá limra,ussssss ef maður hefði nú þá list fengið að getað ort svona nokk.Ég þakka pent Rósa fyrir færsluna þína.

Úlfar Þór Birgisson Aspar, 23.6.2008 kl. 23:10

3 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæl öll.

Ég hélt að ég hefði ekki haft opið fyrir athugasemdir á þessari færslu því ég var að undirbúa aðra færslu. Þessi færsla átti bara að fara á netið sem desert.  Ég fann þennan kveðskap í smáriti hjá bróðir mínum í Kópavogi og skrifaði þennan texta þar. Kveðskapurinn er eftir Friðrik Friðriksson.

Sæl kæra Guðlaug Helga. Hann bróðir minn er alltaf að fara á fornsölur og hann fann rit með þessum texta held ég í Kolaportinu af öllum stöðum.  Þess vegna sagði ég þér á þínu bloggi var ég byrjuð með færslu á meðan ég var á Suðvesturhorninu.

Sæll Guðlaugur frændi. Gott að þér líkar þetta. Vonandi koma fleiri æstir gestir á síðuna þína en ég.

Sæl Katla mín. Frábært að heyra þetta. Þetta eru magnaðir miðar og ég sé á blogginu þínu að þú ert í góðum gír.

Sæll Úlli minn. Úff, þetta var alveg óvart að það var opið fyrir athugasemdir en innleggin ykkar eru ómissandi vegna brandara eins og "ekkert smá limra, ussssss."  Svo þetta var bara ágætis slys eftir allt saman.

Eigið frábæran dag á morgunn á sjálfri Jónsmessu.

Guð veri með ykkur.

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 23.6.2008 kl. 23:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband