20.2.2008 | 17:57
"Farið burt frá þeim, og skiljið yður frá þeim, segir Drottinn"
Farið burt frá þeim, og skiljið yður frá þeim, segir Drottinn"
Höfundur ritsins: D.L.Moody.
Hvað hefir musteri Guðs við skurðgoð saman að sælda?" 2. Kor. 6: 16. Vitið þér ekki, að þér eruð Guðs musteri og að Guðs andi býr í yður?" 1. Kor. 3: 16.
Ýmsir hinna kristnu halda því fram, að af því að Kristur bað að við værum ekki teknir burtu úr heiminum Jóh. 17: 15., þar af sé það ljóst, að við eigum að gefa okkur að því sem heimsins er.
En það er mikill munur á því að vera í heiminum og hinu, að hafa heiminn í sér. Það er alveg eins mikill munur á því, eins og að skipið er í vatninu og því, að vatnið er í skipinu. Það fyrra er eðlilegt, en hið síðara beinlínis hættulegt. Þegar ég því er fullur af því, sem heimsins er, og elska það og þrái, svo að ég lifi mest fyrir það, sem hans er, þá truflast samfélag mitt við Guð, og andlegt líf mitt veiklast.
Hið besta ráð til þess að leiða Guðsbarnið burt frá heiminum, er að bjóða því eitthvað, sem er ennþá betra.
Ég þekki ekki neitt, sem er yndislegra en virkilega hreint og heilagt samlíf með Drottni Jesú, og að Faðirinn og Sonurinn komi til okkar og búi hjá okkur. Það er betra en allt það, sem heimurinn hefir að bjóða. Vilt þú ekki heldur, að Drottinn dýrðarinnar búi hjá þér, ekki bara endrum og sinnum, heldur alltaf og stöðuglega? Er það ekki eftirsóknarverðara en gæði þessa heims, svo stopul sem þau ætíð eru? Þetta er það, sem Guð vill gjöra, ef við bara elskum hann og hlýðum hans heilaga vilja.
Samfélag við heiminn kælir og sljóvgar hinn trúaða. Ef við í sannleika tilheyrum Guði, þá þráum við að halda okkur frá því sem er heimsins. En sú spurning getur komið fram: Hvað er heimsins?
Það er sérhvað það, er truflar samfélag okkar við Guð, - það sem hindrar okkar andlega vöxt í Guði og kælir kærleikann til Krists. Allt slíkt ber okkur að forðast. Séum við viljug til þess, þá mun það færa okkur margfalda blessun í Kristi. Ýmsir hinna kristnu virðast ala með sér þá ósk, að geta lifað í svo nánu sambandi við heiminn, sem frekast er unnt, en vilja samt tilheyra Kristi. Reynsla mín er sú, að það fólk sé hið aumkunarverðasta fólk á jörðunni, því að þeir gleðjast hvorki í heiminum né í Kristi, þeir hafa tekið sér dvalarstað á mjög hættulegum landamærum. Fylgjast með heiminum í dag og með Kristi og hans fólki á morgun, en það er hollast að halda sig svo langt frá heiminum sem mögulegt er, að hafa sem allra minnst með hann að gera. Eitt enn spurðu menn Vilny Dawson að, hvernig heimurinn væri. Hann svaraði, að það vissi hann ekki, því hann hefði ekki verðið þar nokkur undanfarin ár.
Ég minnist þess, að það stóð stórt og veglegt eplatré rétt við veginn þar sem ég átti heima, þegar ég var barn, og ég held, að þetta eplatré hafi verið mjög góðrar tegundar. En það stóð bara allt of nærri veginum, og af þeirri ástæðu bar það aldrei fullþroskuð epli, því að drengirnir týndu alltaf eplin af því löngu áður en þau voru fullþroskuð. En hefði tréð verið gróðursett lengra frá veginum og notið þar skjóls og friðar, þá veit ég, að eplin á því hefðu verið ágæt. Nú stóð það við alfaraveg, og afleiðingin varð sú, að það bar lítinn ávöxt og óþroskaðan. Þannig sýnist mér það vera með marga þá, er játa Krist, að þeir bera aldrei fullþroskaða ávexti, af því þeir lifa í of nánu sambýli við heiminn og hann tekur því of mikið rúm í þeim, og aðgreining er lítil sem engin, og þá vantar lifandi vitnisburð um Krist.
Ég veit, að ýmsir færa fram þá ástæðu, að ef ég lifi svo fráskilinn heiminum, að hann sé mér eins og dauður, þá muni ég engin áhrif geta haft á hann. Ég hef nú þegar lifað alllengi og ekki gengið með lokuð augu, og hefir mér þó ekki enn auðnast að finna eina einustu manneskju, sem lifað hefir í nánu samlífi við heiminn, og þó haft þar áhrif til betrunar og leitt aðra nær Kristi. Hefir þú nokkurn tíma þekkt veraldlega sinnaða eiginkonu, er lifað hefir að hætti heimsins, jafnframt haft bætandi áhrif á mann sinn í kristilegum efnum, eða þá að slíkur maður hafi haft þau áhrif á konu sína og leitt hana til trúar á Krist? Ég held að betrandi áhrif Lots á Sódómu hafi verið minni en Abrahams, því þegar hann vildi bjarga tengdasonum sínum, þá hæddu þeir hann og sinntu engu orðum hans.
Í hvert sinn sem Ísraelsmenn viku af vegi Guðs og lögðu lag sitt við aðrar þjóðir, til þess að festa sig í sessi á þann hátt, og auka áhrifavald sitt í heiminum þá varð ávalt reyndin sú, að þeir töpuðu stórlega, einmitt því sem þeir hugðust að vinna, þeir misstu sjálfstæðið sitt, og flest annað fór þá einnig það er þeim var dýrmætast. Þú getur ekki öðlast vináttu heimsins án þess að hætta um leið trúarsamfélagi þínu við Krist og missa algjörlega áhrifavald þitt sem sannkristinn maður.
Ýmsar konur hafa komið til mín, og sagt að þær hafi reynt að fá eiginmenn sína til þess að fara með sér á kristilegar samkonur, og fengið það svar hjá manni sínum, að vilji hún koma með honum í leikhúsið, þá skuli hann koma með henni í kirkjuna, ég spurði þá hvernig þetta hafi reynst. Hefur maðurinn þinn eins mikla virðing fyrir trú þinn nú eins og hann hafði áður? Í hvert einasta skipti, er mér tjáð, að konan hafi misst trúarstaðfestu sína, og áhrifamöguleika til að leiða mann sinn til trúar.
Því er haldið fram, að ef við setjum markið of hátt, þá muni fólkið yfirgefa kirkjur og bænahús og á því er alls enginn vafi, en við munum þá fá aðra og ef til vill miklu fleiri í staðinn. Kraftur Guðs mun vera með í verkinu og þá bætast nýjar og nýjar sálir við í söfnuðinn. Eða hvað er það sem við höfum fyrir augum okkar í dag? Lágar hugsjónir eða kröfur í kristilegum efnum, og afleiðingin er aflvana kristindómur og dapurt kirkjulíf, og fáir sem snúa sér í einlægni til Krists.
Fólkið heldur áfram kirkjustarfinu, eflir og eykur kórsöngva, og dýrindis hljóðfæri eru keypt, og það er prédikað og sungið, sungið og prédikað en að syndarar frelsis, nei það fer lítið fyrir því. Hvað veldur þessu? Það er kominn sjór í skipið; heimurinn er kominn inn í kirkjuna, og þegar svo er komið þá getur sumu fólki jafnvel fundist fínt að tilheyra kirkjunni. Við þurfum að gá að hvar við stöndum, og kosta kapps um að skilja okkur frá heiminum, svo framarlega sem við viljum reynast trúir Kristi. Ég vil leyfa mér að vitna í eina grein í 2. Kroníkubók 18. Í kapítula þessum er frá því skýrt að konungurinn Jósafat var mjög framkvæmdasamur og í miklum uppgangi hafði safnað miklum auði og ríki hans stóð með miklum blóma. Hann hafði síðan mægst við nágranna konung sinn Akab. En þá, og upp frá því fór ríki hans og vald hnignandi. Hann hafði gjört félag við einn þann versta valdhafa er þá var uppi.
Akab leit á Elía spámann sem einn af verstu óvinum sínum. Þessir tveir áttu því ekkert sameiginlegt, en Jósafat hefir eflaust hugsað sér að styrkja og efla ríki sitt með þessum félagsskap, og við lesum því næst að hann er farinn niður til Samaríu með fríðu föruneyti að heimsækja Akab, og að Akab telur hann á að fara með sér í hernað, og fylgja sér að málum en Jósafat fær dóttur Akabs fyrir konu handa syni sínum, en allt þetta varð honum og ríki hans að falli. Guð forði okkur frá heiminum, og hjálpi okkur til að losna úr þeim tengslum við hann sem við ef til vill höfum bundist, eða ef við höfum gengið í tengdir við Akab."
Þá skulum við játa það, og biðja Guð að fyrirgefa okkur það, svo við getum nálgast hann aftur í fullkomnu andlegu samfélagi.
Það er eitt vers í Biblíunni sem er nú sérstaklega ríkt í huga mínum, en ég vildi að þið legðuð ykkur á hjarta: Nálægið yður Guði þá mun hann nálgast yður."
D. L. Moody.
HÉR LÝKUR SJÁLFU RITINU.
Boðorðin tíu.
Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.
Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma.
Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan.
Heiðra föður þinn og móður þína.
Þú skalt ekki morð fremja.
Þú skalt ekki drýgja hór.
Þú skalt ekki stela.
Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum.
Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns.
Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, ekki þræl hans eða ambátt,
ekki uxa hans eða asna né nokkuð það sem náungi þinn á.
Smá fallegt í restina. Fann þessa litlu sögu á netinu og heillaðist af henni vegna heiti sögunar en ekki hvað?
Rósa og blómin
Eitt sinn fann Rósa litla blátt blóm úti í haga. Hún sleit það upp og sagðist ætla að eiga það. "Þú getur ekki átt þetta blóm lengi, Rósa mín, því að blómin deyja, þegar búið er að slíta þau upp", sagði mamma hennar. "Af hverju deyja blómin, ef þau eru slitin upp?" spurði Rósa litla. "Blómin þurfa fæðu, eins og allar lifandi verur," sagði mamma, "og þegar þau eru slitin upp úr moldinni, deyja þau, því að úr henni fá öll blóm og jurtir efni, sem þau nærast á, en auk þess þurfa þau vatn, ljós og hita til þess að geta lifað."
Flokkur: Trúmál og siðferði | Breytt 21.2.2008 kl. 12:52 | Facebook
Athugasemdir
Aha ljómandi þá þarf ég bara að gefa mér góða stund síðar og lesa vel og vanlega,svo mun ég vissulega kommenta eitthvað skemmtilegt við tækifæri.Og ég þakka að þú hafir orðið við bón okkar um að smella einni ljúfri færslu inn svona okkur til heilla.
Bestu kveðjur Úllmann.
Úlfar Þór Birgisson Aspar, 20.2.2008 kl. 20:04
sæl rósin mín.yndislegur pistill
Adda bloggar, 20.2.2008 kl. 21:33
Hvað hefir musteri Guðs við skurðgoð saman að sælda ? 2.kor.6:16. Sæl vertu Rósa alltaf gaman að lesa af síðunni þinni nema núna,, ,, miðað við hvernig þú byrjar þessa færslu úr Korintubréfinu og endar svo á að birta Boðorðin þá get ég ekki betur séð en að þú sért að gleyma einhverju og það ekki litlu ? Hvar er boðorðið sem leiðir okkur frá skurðgoðadýrkun og er númer 2 í Boðorðaröðinni bæði í 2.Mós og 5.Mós ???? og af hverju tala þessi boðorð sem þú birtir og eru númer 9 og 10 um sama hlutinn, það er að girnast.? Þú fyrirgefur vonandi onígjöfina
Birgir Sm (IP-tala skráð) 20.2.2008 kl. 21:40
Sæl Rósin mín, takk fyrir þetta innlegg. Hafðu það gott fyrir austan mín kæra. Kveðja til þín.
Ásdís Sigurðardóttir, 20.2.2008 kl. 21:47
Sæll Birgir. Takk fyrir innlitið. Ég vona að ég geti svarað spurningum þínum. Ég þakka góðar ábendingar og lít ekki á athugasemd þína sem ofanígjöf.
Gangið ekki undir ósamkynja ok með vantrúuðum. Hvað er sameiginlegt með réttlæti og ranglæti? Hvaða samfélag hefur ljós við myrkur? Hver er samhljóðan Krists við Belíar? Hver hlutdeild er trúuðum með vantrúuðum? Hvernig má sætta musteri Guðs við skurðgoð? Vér erum musteri lifanda Guðs, eins og Guð hefur sagt: Ég mun búa hjá þeim og ganga um meðal þeirra, og ég mun vera Guð þeirra, og þeir munu vera lýður minn. Þess vegna segir Drottinn: Farið burt frá þeim, og skiljið yður frá þeim. Snertið ekki neitt óhreint, og ég mun taka yður að mér og ég mun vera yður faðir, og þér munuð vera mér synir og dætur, segir Drottinn alvaldur.Þeir sem fylgja Jesú Kristi er samlíkt við musteri Guðs sbr. 2. Kor. 6: 16. Mér dettur líka kór í hug sem ég læt hér með fylgja. Líf okkar á að grundvallast á sannleikanum Jesú Kristi og við eigum að vera börn sannleikans en ekki lyginnar. Við eigum að vera heiðarleg. Ef við leggjum okkur fram þá mun húsið okkar vaxa sem hægt er að samlíkjast að við helgumst Jesú Kristi.
Musteri‘ úr okkur Guð vill reisa
sem honum einum hæfa skal
Og þetta Guðshús kallast kirkja,
grundvallað á sannleika.
Dýrðarsteinar sem Jesús á,
mótaðir af hans undranáð.
Með elsku‘ og trausti til hvors annars
húsið fagra vex og vex.
Ég ákvað að birta boðorðin og fyrsta boðorðið á við spurningu þína: „Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.“ 1. Mós. 20: 1.
Þá sagði Drottinn við Móse: ,,Far þú og stíg ofan, því að fólk þitt, sem þú leiddir út af Egyptalandi, hefir misgjört. Skjótt hafa þeir vikið af þeim vegi, sem ég bauð þeim. Þeir hafa gjört sér steyptan kálf, og þeir hafa fallið fram fyrir honum, fært honum fórnir og sagt: „Þetta er guð þinn, Ísrael, sem leiddi þig út af Egyptalandi.Mér finnst munur á tveimur síðustu boðorðunum. Annað er að girnast eigur annarra en hitt er miklu viðameira þar er talað um eiginkonu náunga þíns og um vinnufólið og allt sem náungi þinn á.
Ef ég er að klikka á einhverju þá endilega hafðu aftur samband. Guð blessi þig.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 20.2.2008 kl. 22:25
Þetta kalla ég krassandi og góð skrif! Haltu áfram að vera Salt kæra vinkona ekki veitir af
Guðrún Sæmundsdóttir, 20.2.2008 kl. 22:28
Sæl Rósa mín. Ég ætla ekki að hætta mér út í biblíulegar vangaveltur,það klæðir mig engan vegin, en mér fannst allt í lagi að lesa þetta, og læt það duga. Ég er sammála þér með söguna,hún er í lagi,en það er auðvitað nafnið sem gefur henni gildið,veit að þig langaði til að segja," það eina fallega við þessa sögu er nafnið MITT,en að sjáfsögðu gerðir þú það ekki af þínu meðfædda lítillæti
Kveðja
Ari Guðmar Hallgrímsson, 20.2.2008 kl. 23:03
Einhvernveginn finnst mér að guð hljóti að stama, því síðustu tvö boðorðin eru í raun hið sama. Svo er nú upplýsandi að hann nefni konur í sömu andrá og asna, þræla og uxa.
Hefur þú pælt í sögunni um gullkálfinn, þar sem fólkið var að dýrka aðra guði, áður en það vissi að það mætti ekki. Móses var með töflurnar í höndunum, á leið niður af fjallinu, þegar hann sá ósköpin og missti þær til og með og braut þær. Hann gat því ekki einu sinni sýnt fólkinu lögin áður en þeir kumpánar stútuðu 3000 manns og lögðu aðrar plágur á mannskapinn fyrir vikið. Hmmm...svo á guð að vera réttlátur. Sama gerðist raunar með Adam og Evu. Þau þekktu ekki muninn á réttu og röngu, áður en þau frömdu syndina sína. Samt setti guð þau á féló.
Jón Steinar Ragnarsson, 21.2.2008 kl. 00:14
Sæl Guðrún og Ari. Ég fíla broskarlana hans Ara. Ari tókstu eftir að í þessu riti var heilmikill samhljómur með því sem þú skrifaðir þegar ég skrifaði rit um Barnaskírn -Niðurdýfingarskírn. Báknið og allt svo flott en virkar ekki. Tala smá undir rós en ég held að þú fattir hvað ég meina
Rósa Aðalsteinsdóttir, 21.2.2008 kl. 00:17
Hjáguðir : Viðauki fyrir Birgir
Í augum Ísraelsmanna voru allir guðir og guðverur hjáguðir nema Guð Ísraels. En Ísraelsmenn gátu ekki látið vera að tigna marga guði eins og nágrannarnir, eða gjöra sér áþreifanlegar myndir af Guði sínum. Þegar Ísraelsmenn fóru frá Egyptalandi og Móse dvaldist um skeið á Sínaífjalli, gerðu þeir sér gullkálf, sem átti að tákna Guð Ísraels. 2. Mós. 32. Ísraelsmenn höfðu séð í Egyptalandi, hversu sú þjóð tilbað myndir og styttur af nautum.
Þegar Ísraelsmenn hertóku Kanaanland, voru þar fyrir margir helgidómar og fórnarstaðir, þar sem Kanverjar tignuðu guði sína. Musterin voru áreiðanlega mikið skreytt og þjónuðu þar margir prestar. Ísraelsmenn lærðu fljótt að tilbiðja guði Kanverja hefðu mátt til þess að gefa gott veður og ríkulega uppskeru þeim, sem ræktuðu jörðina.
Baal: Baal og El voru tignustu guðir Kanverja. Baal drottnaði yfir gróðri jarðar og veðurfarinu. Rödd hans var í þrumuskýi, og hann gaf jörðinni líf og regn. Fundist hafa myndir af Baal, þar sem hann sveiflar eldingunni með annarri hendi.
El: Guð himins og sköpunar. Hann var mest dýrkaður í Jerúsalem.
Baalat eða Astarte: var kona Baals. Hún var gyðja móðurinnar og frjóseminnar. Hún vakti yfir vexti gróðurs, dýra og manna.
Aséra: Móðurgyðjan Astarte í annarri mynd. Nátengd dýrkun hennar var „hið heilaga tré,“ lífsins tréð, og nefndist hann Aséra.
Í Nýja testamentinu er sagt frá því, að Páll postuli hafi í borginni Efesus í Litlu-Asíu lent í deilum við þá, sem tignuðu gyðjuna Díönu. Díana er rómverskt heiti grísku gyðjunnar Artemis. Hún var gyðja skóganna, villidýranna og veiðanna. Jafnframt var hún hin mikla móðurgyðja. Í borginni Efeus í Litlu-Asíu var frægt musteri, þar sem gyðjan var tilbeðin. Musterið var eitt af sjö furðuverkum heims.
Júpiter: Rómversk-grískur guð. Grikkir nefndu hann Seif. Hann var talinn tignastur allra guða, faðir guða og manna. Musteri hans voru mjög víða. Nýja testamentið getur um eitt. Post. 14: 8.-18.
Merkúr: rómversk-grískur guð. Grikkir nefndu hann Hermes. Hann var sérstakur verndari verslunar og vega. Heimildir: Biblíuhandbókin þín, Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf, 1974.
Guði sé lof að þurfa ekki á þessum hjáguðum að halda. Nóg fyrir mig, heilög þrenning þ.e. Guð almáttugur, einkasonur hans Jesús Kristur og Huggarinn Heilagur andi. SHALOM
Rósa Aðalsteinsdóttir, 21.2.2008 kl. 00:48
Sæl Rósa mín.
Frábær lesning.Ég er ekki frá því að þar sem þú talar um að Heimurinn sé að hluta til kominn inn í söfnuðina.Ég hef farið á misjafnar samkomur í mismunandi söfnuðum.Og verð að segja fyrir mig að mér finnst sumstaðar auglýsingaflóðið vera með ólíkindum,og ýmsar aðrar uppákomur og stundum er lagt mikið í sönginn,en MÉR PERSÓNULEGA FINNST MEGA VERA MEIRA UM FRÆÐSLU OG LESNINGU ÚR RITNINGUNNI Á ALMENNUM SAMKOMUM.ÉG HELD AÐ ÞAÐ MEGI KOMA ÞESSUM AUGLÝSINGUM Á VEFI VIÐKOMANDI SÖFNUÐA EÐA ÞÁ UPPHENGDAR AUGLÝSINGAR VIÐ INN OG ÚTGANGA.EN ég verð líka að bæta því við að umfang safnaðastarfanna er orðið mikið og fjölbreyttara(sérhæfðara) sem ég tel þó á vissan hátt af hinu GÓÐA.Ég mun seint skilja hártoganir vantrúaðra eða hvað þeir vilja kalla sig.
MÉR LÍÐUR VEL MEÐ AÐ ÞVÍ LESA
OG HEYRA LESIÐ UPP ÚR RITNINGUNNI.
SHALOM.
Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 21.2.2008 kl. 04:12
Góðan daginn Rósa.
Alveg með Rósina í lagi."Fattaði" upp á þessu um leið eins og börnin segja.
Kveðja
Ari Guðmar Hallgrímsson, 21.2.2008 kl. 10:47
Sæll Jón Steinar.
Við erum alltaf í stuði með Guði saman. Tíunda boðorðið var nú þannig að konan var fremst í boðorðinu, síðan komu þrælar og ambáttir og síðan dýrin hans og í restina allt sem hann átti. Guð er almáttugur og stamar ekki. En Móse sagði við Guð þegar Guð hafði kallað hann til að leiða Ísraelsmenn út af Egyptalandi að hann hafi aldrei málsnjall maður verið. 2. Mós. 4: 10.
Ísraelsmenn höfðu séð í Egyptalandi, hversu sú þjóð tilbað myndir og styttur af nautum. Að mínu áliti vissu þau alveg að þau voru að drýgja synd. Jón Steinar þú vitnar í 2. Mós. kafla 32. um fráfall 3000 manns. Ég get ekki svarað þessu öðru vísi en svona: „Já, mínar hugsanir eru ekki yðar hugsanir, og yðar vegir ekki mínir vegir - segir Drottinn. Heldur svo miklu sem himinninn er hærri en jörðin, svo miklu hærri eru mínir vegir yðar vegum og mínar hugsanir yðar hugsunum.“ Jesaja 55: 8.-9. (uppá samhengi: Vers 1.-11.) Ég get ekki svarað því hvað Guð hugsaði og hvað hann hugsar í dag. Enginn veit nema hann hvenær burthrifningin verður, ekki einu sinni einkasonur hans Jesús Kristur. Það er hægt að velta þessu fyrir sér og einnig að Aron samþykkti ósk fólksins og það var hann sem kom með hugmyndina um að allir sem væru með gull myndu slíta það af sér og hann kastaði gullinu í eldinn og síðan var gullkálfurinn steyptur. Ég get alveg velt um af hverju var Aroni hlíft en ekki fólkinu? Hann hefði getað sagt nei. Adam og Eva vissu alveg hvað var rétt og hvað var rangt: Og Drottinn Guð bauð manninum og sagði: ,,Af öllum trjám í aldingarðinum máttu eta eftir vild, en af skilningstrénu góðs og ills mátt þú ekki eta, því að jafnskjótt og þú etur af því, skalt þú vissulega deyja. 1. Mós. 2: 16.-17. Adam var búinn að segja Evu frá þessu því hún svaraði höggorminum þegar hann var að tæla hana til að gera það sem Guð hafði fyrirskipað að yrði ekki gert: Þá sagði konan við höggorminn: ,,Af ávöxtum trjánna í aldingarðinum megum við eta, en af ávexti trésins, sem stendur í miðjum aldingarðinum, ,af honum,` sagði Guð, ,megið þið ekki eta og ekki snerta hann, ella munuð þið deyja. Þá sagði höggormurinn við konuna: ,,Vissulega munuð þið ekki deyja! 1. Mós. 3: 2.-3. (Myndin við hliðina á höggorminum = Satan sem er höfundur lyginnar. Ef við förum með bendilinn á karlana sem við getum valið og bíðum aðeins kemur upp hvað þeir tákna. Bið trúsystkinin mín að athuga þetta)Jón Steinar ef við færum saman í greindarpróf myndir þú hafa vinninginnen ég skal reyna að svara í einlægni eins og ég get. Vináttukveðjur.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 21.2.2008 kl. 14:10
Sælir Ari og Þórarinn
Ari
Þórarinn á myndinni sem ég sé af þér getur þú varla verið meira en 10 ára? Þú skýtur og skýtur en ert ekki með byssuleyfi
Rósa Aðalsteinsdóttir, 21.2.2008 kl. 14:12
Hæ ! hey góð upprifjun á boðorðunum tíu sem að maður lærði Kvitta fyrir mig . takk
Erna Friðriksdóttir, 21.2.2008 kl. 16:57
Sæl Rósa þetta er góður boðskapur.. minnir mig svoldið á 12 spora vinnuna sem snýst svoldið um tiltekt:)
Sigvarður Hans Ísleifsson, 21.2.2008 kl. 19:52
Sæl aftur Rósa, finnst þér ekki mikill munur á Boðorðinu að trúa og tilbiðja hinn eina sanna Guð sbr, Boðorð nr 1 eða því Boðorði sem ég vil meina að sé nr 2 sem hljóðar svona " Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér, engar myndir eftir því sem er á himnum uppi, eða því sem er á jörðu niðri, eða því sem er í vötnunum undir jörðinni. Þú skalt ekki tilbiðja þær og ekki dýrka þær, því að ég, Drottinn Guð þinn, er vandlátur Guð, sem vitja misgjörða feðranna á börnunum, og í þriðja og fjórða lið, þeirra sem mig hata, en auðsýni miskunn þúsundum, þeirra sem elska mig og varðveita boðorð mín. 5 Mós 5 kafli 8-10 vers. 1981 útg. Ef þú ert enn á sömu skoðun og í gær hvers vegna mín kæra lést þú þá þetta sem stendur hér skyggt ekki fljóta með boðorði númer 1.?? Höfum við kristnir einstaklingar leyfi til að leika okkur með boðorð Guðs í stíl Eiginhagsmunaguðfræði. Kveðja til þín
Birgir Sm (IP-tala skráð) 21.2.2008 kl. 21:00
Sæll Birgir. Gott að heyra í þér aftur. Sennilega átti ég von á að heyra í þér aftur því ég er búin að vera að skoða boðorðin í allt kvöld. Búin að skoða bæði boðorðin í 2. Mós 20. kafla og eins í 5. Mós. 5. kafla. Einnig er ég búin að fara inn á vef hjá Þjóðkirkjunni og Kaþólskukirkjunni. Boðorðin tíu sem ég birti eru frá Kolfreyjustaðaprestakalli. Ég fann boðorðin tíu hjá Þjóðkirkjunni og þau eru greinilega úr annarri þýðingu, eldri samkvæmt orðalagi en innihald alveg eins. Þar er t.d. notað eigi í staðinn fyrir ekki. Í 5. Mós. 5. þar er orðalag öðruvísi með boðorð 9 og 10. Kaþólikkar notast við þann kafla og 9 boðorðið er "Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns." 10. "Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns né neitt sem honum heyrir til." Í sambandi við skyggða textann þá get ég ekki annað séð í fljótu bragði en að sá texti tilheyri boðorði 1. Það er heilmikill texti sem fylgir mörgum af þessu boðorðum. Í bæði 2. og 5. Mósebók eru eingöngu fjögur boðorðin sem eru ekki með aukatexta. En ég hef lagt þetta mál í nefnd og gaman væri að þú gætir fylgst með því. Læt þetta duga í bili en við skulum endilega halda áfram að pæla í þessu. Við erum fáein sem bíðum spennt eftir að nefndin láti frá sér heyra. Netfangið hjá mér er riorosin@simnet.is Guð blessi þig og varðveiti.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 21.2.2008 kl. 23:08
Sæl Erna og Sigvarður. Takk innilega fyrir innlitið. Guð blessi ykkur.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 21.2.2008 kl. 23:10
Heyrðu Rósa mín.
það er sennilega rétt hjá þér að mig vanti skotleyfi,og mun ég því að áeggjan þinni yfirgefa þennan pistil með loforð til þín að ég verði með byssuleyfi einhvern ókominn daginn. SVO VORU ÞETTA EINS KONAR PÚÐURSKOT.
Satt best að segja er ég ekki hrifinn af NEINS KONAR VOPNUM.
ENN VOPN FIRÐINGAR?
MÉR FINNST ÍS BETRI
(MEÐ KARAMELLUSÓSU) ÍS FIRÐINGUR. KVEÐUR.
JÆJA,ÉG ÆTLA AÐ FYLGJAST MEÐ UMRÆÐUM YKKAR.
Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 22.2.2008 kl. 01:53
Hér er bara heilmikið fjör og skemmtilegar umræður,ég verð kannski að fara fletta í einhverjum bókum og fræðum til að hafa eitthvað af viti að segja.Sem auðvitað er alls ekki mín sterka hlið,ég er meira svona maður sem læt hug minn og hjarta segja mér mest um hvað guð hefur boðað,en hvernig orðalag og hvernig orðið er sagt skiptir kannski ekki öllu heldur að við skiljum orðið er fremur svona það sem ég leitast eftir.
En ég mun um helgina fletta þessu öllu upp og sjá hvað mun sitja eftir í huga mínum og kannski kommenta ég þá eitthvað um málið,carry on the good work Rósa mín og guð blessi ykkur öll í Jesú nafni Amen.
Úlfar Þór Birgisson Aspar, 22.2.2008 kl. 07:06
Sælir strákar. Þið eruð flottir.
Þórarinn minn, ís með karamellusósu er meiriháttar og þú mátt skjóta eins og þú vilt þótt ungur sért
Úlli minn, Já hér er fjör en mjög góð innlegg eins og innleggin hans Birgis. Hugsaðu þér innleggin hans Þórarins sem er c.a 10 ára. Greindur lítill drengur og alveg vitlaus í ís með karamellusósu. Hellings útgjöld á heimilinu í ískaup
Guð blessi ykkur
Rósa Aðalsteinsdóttir, 22.2.2008 kl. 11:17
Sæl Rósa. kíkti aftur á síðun hef engu við að bæta. Veit ekki nema ég verði dregin sundur og saman í háði eins og littli drengurinn: Mér finnst miðað við trú þína og lífsskoðun, ljótt af þér að hæðast að barninu, sem er greinilega vel gefið og bráðþroska.
Kveðja
Ari Guðmar Hallgrímsson, 22.2.2008 kl. 11:32
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 22.2.2008 kl. 13:36
Sæl Anna mín og takk fyrir innlitið.
Sæll Magnús minn. Allt í lagi þó þú hafir ekki nennt að lesa allt. Gaman að sjá þig í heimsókn.
Guð blessi ykkur
Rósa Aðalsteinsdóttir, 22.2.2008 kl. 18:43
hæ þú vinnur vel á akri Guðs ágæta vina og sendi þér með knús í leiðinni með Guðs blessun
Animated Gifs
Linda, 22.2.2008 kl. 21:27
Sæl Linda mín Takk fyrir innlitið og fallegu myndina Guð blessi þig og alla sem hafa áhuga að lesa síðuna hjá mér. Friðarkveðjur.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 22.2.2008 kl. 23:31
Sæl enn og aftur Rósa lagðir þú nokkuð túlkunina á Boðorðunum í fangið á Fjárlaganefnd eða kannski Fjallskilanefnd ? nei ég segi svona, ég er með eitt vers í huga varðandi málefnið okkar og er það í 1.jóh 5 kafla 1-4 vers. útg 1981 . Hver sem trúir, að Jesús sé Kristur, er af Guði fæddur,og hver sem elskar föðurinn elskar einnig barn hans. Að vér elskum Guðs börn þekkjum við af því, að vér elskum Guð og breytum eftir boðorðum hans. Því að í þessu birtist elskan til Guðs, að við höldum hans boðorð. Og boðorð hans eru ekki þung. Tókst þú eftir þessu síðasta "ekki þung" ég skil þetta þannig að auðvelt ætti að vera fyrir okkur að fara eftir þeim og enn auðveldara fyrir okkur að skilja þau. ((( nú tala ég eins og ég sé fullkominn en er í rauninni svart flekkóttur jafnvel golsóttur syndaselur))). Svo ég víki að öðru þá á ég bók sem ég nota mikið samhliða Biblíunni sú bók er algerlega laus við allar kreddukenningar, mannasetningar svo ég tali nú ekki um mannaboðorð, sú bók er mjög góð til fræðslu. Allt sem ég vil fræðast um í sambandi við td áfengi eða áfengisnotkun eða iðrun, finn ég í bókinni Biblíulykill orðalyklar að Biblíunni 1981. Hið íslenska Biblíufélag. Þetta er sú eina bók sem ég leyfi mér að kýkja í og fletta þegar mig langar að fræðast um eitthvað í bók bókanna. Af hverju?,,,, jú ég er logandi hræddur við bækur eftir alskonar kalla og kellingar sem tekið hafa sér rétt til þess að setja Biblíuna í andlegar þvottavélar með þeytingu og vindingu með alskonar þvottaprógrömmum sem einungis skemma og villa um fyrir sannleiksleitandi og fróðleiksþyrstum einstaklingum sem eru nýjir á göngu sinni í leit að Kristi. Kveðja til þín Rósa og ég bíð SSppeenntur og vona að ekkert sofni í neinni nefnd
Birgir Sm (IP-tala skráð) 23.2.2008 kl. 13:29
Birgir ég segi það með þér að það er allt fullt af kreddum og mannasetningum svo ég tali nú ekki um undarlegar prédikanir þar sem snúið er útúr Orðinu og allt gert til að safna peningum útá það svei!!
Guðrún Sæmundsdóttir, 23.2.2008 kl. 15:18
Rósa "Ég þekki ekki neitt, sem er yndislegra en virkilega hreint og heilagt samlíf með Drottni Jesú, og að Faðirinn og Sonurinn komi til okkar og búi hjá okkur. Það er betra en allt það, sem heimurinn hefir að bjóða."
Ekki gerði ég mér nú grein fyrir því Rósa, að svona væri komið fyrir þér. En svona heilagt samlíf eins og þú kallar það, sem veitir þér yndi sem er öllu öðru yndi fremra, hef ég heyrt að nunnur upplifi. Það er sennilega ekki verra en hvað annað hlutskipti sem konur velja sér í sínu lífi.
En það skil ég hins vegar ekki, hvernig Jesús getur elskað allar þær konur jafnt sem hann lifir heilögu samlífi með á þennan máta.
Hann olli smá afbrýðisemi hjá lærisveinunum þegar hann kyssti Maríu Magdalenu á munninn fyrir framan þá skv. Filippusarguðspjalli (Apókrýfu-bók).
Eitthvað var María honum erfið í heilögu samlífinu þar sem hann þurfti eitt sinn að reka úr henni 7 illa anda skv. einu Guðspjallanna.
Sigurður Rósant, 23.2.2008 kl. 15:51
Sæll Birgir. Ég sendi nokkrum trúbræðrum mínum bréf en þeir hafa ekki svarað mér. Greinilega brjálað að gera hjá þeim. Aftur á móti fóru vinir mínir sem einnig eru trúbræður mínir inná vefinn: http://tru.is og þar fundu þeir boðorðin tíu eins og þjóðkirkjan túlkar boðorðin. Þín lýsing á sjálfum þér er svart flekkóttur jafnvel golsóttur syndaselur, mín lýsing þá á sjálfri mér röndóttur og golsóttur syndaselur eða kolsvört rolla.Í sambandi við 1. Jóh. 5: 1.-4. Boðorðin voru gefin undir lögmálinu. Jesús Kristur kom í heiminn og þá var gerður nýr sáttmáli = náðarsáttmáli. Jesús tók byrðina á sig. Ef við göngum með Drottni og framgöngum í vilja hans eiga boðorðin ekki að vera þung en ef við erum ekki leyst undan áþján syndar þá eru boðorðin þung. Hefðir þú sent mér póst á e-mail hefði verið auðveldara að senda gögnin sem ég var búin að vinna í gærkvöldi. Nú er ég búin að reyna að endurvinna þau en taflan sem ég fann á síðu Kaþólikka myndi ekki virka copy-paste inná athugasemd hér.Er með Biblíuþýðingu frá 1981 og Biblíuorðalykil sem var gefin út 1994 sem er orðalykill fyrir Biblíuna sem var gefin út 1981. Vona að við séum þar af leiðandi með sömu gögn.2. Mós. 20: 1.-17. Svona voru mér kennd boðorðin.1. Guð talaði öll þessi orð og sagði: ,,Ég er Drottinn Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig. Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér né nokkrar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eður því, sem er á jörðu niðri, eður því, sem er í vötnunum undir jörðinni. Þú skalt ekki tilbiðja þær og ekki dýrka þær, því að ég, Drottinn Guð þinn, er vandlátur Guð, sem vitja misgjörða feðranna á börnunum, já í þriðja og fjórða lið, þeirra sem mig hata, en auðsýni miskunn þúsundum, þeirra sem elska mig og varðveita boðorð mín. 2. Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma, því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt, sem leggur nafn hans við hégóma. 3. Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan. Sex daga skalt þú erfiða og vinna allt þitt verk, en sjöundi dagurinn er hvíldardagur helgaður Drottni Guði þínum. Þá skalt þú ekkert verk vinna og ekki sonur þinn eða dóttir þín, þræll þinn eða ambátt þín eða skepnur þínar, eða nokkur útlendingur, sem hjá þér er innan borgarhliða þinna, því að á sex dögum gjörði Drottinn himin og jörð, hafið og allt sem í þeim er, og hvíldist sjöunda daginn. Fyrir því blessaði Drottinn hvíldardaginn og helgaði hann. 4. Heiðra föður þinn og móður þína, svo að þú verðir langlífur í því landi, sem Drottinn Guð þinn gefur þér. 5. Þú skalt ekki morð fremja. 6. Þú skalt ekki drýgja hór. 7. Þú skalt ekki stela. 8. Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum. 9. Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. 10. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, ekki þræl hans eða ambátt, ekki uxa hans eða asna, né nokkuð það, sem náungi þinn á.“ 5. Mós. 5: 6.- 21.1 ,,Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig. Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér, engar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eða því, sem er á jörðu niðri, eða því, sem er í vötnunum undir jörðinni. Þú skalt ekki tilbiðja þær og ekki dýrka þær, því að ég, Drottinn Guð þinn, er vandlátur Guð, sem vitja misgjörða feðranna á börnunum, og í þriðja og fjórða lið, þeirra sem mig hata, en auðsýni miskunn þúsundum, þeirra sem elska mig og varðveita boðorð mín. 2. Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma, því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt, sem leggur nafn hans við hégóma. 3. Gættu þess að halda hvíldardaginn heilagan, eins og Drottinn Guð þinn hefir boðið þér. Sex daga skalt þú erfiða og vinna allt þitt verk, en sjöundi dagurinn er hvíldardagur helgaður Drottni Guði þínum. Þá skalt þú ekkert verk vinna og ekki sonur þinn eða dóttir þín, þræll þinn eða ambátt þín, uxi þinn eða asni eða nokkur skepna, eða útlendingur, sem hjá þér er innan þinna borgarhliða, svo að þræll þinn og ambátt þín geti hvílt sig eins og þú. Og minnstu þess, að þú varst þræll á Egyptalandi og að Drottinn Guð þinn leiddi þig út þaðan með sterkri hendi og útréttum armlegg. Þess vegna bauð Drottinn Guð þinn þér að halda hvíldardaginn. 4. Heiðra föður þinn og móður þína, eins og Drottinn Guð þinn hefir boðið þér, svo að þú verðir langlífur og svo að þér vegni vel í því landi, sem Drottinn Guð þinn gefur þér. 5. Þú skalt ekki morð fremja. 6. Þú skalt ekki drýgja hór. 7 Þú skalt ekki stela. 8. Þú skalt ekki bera falsvitni gegn náunga þínum. 9. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, SAMKVÆMT KAÞÓLSKUKIRKJUNNI 10. og ekki ágirnast hús náunga þíns, ekki land hans, ekki þræl hans eða ambátt, ekki uxa hans eða asna, né nokkuð það, sem náungi þinn á.“ SAMKVÆMT KAÞÓLSKUKIRKJUNNI Svona líta Boðorðin út á vef Þjóðkirkjunnar: „Þessi röð og uppsetning á boðorðunum tíu er sótt í Fræðin minni eftir Lúther. Þar er að finna skýringar við hvert boðorð fyrir sig.“ http://www.kirkjan.is/
Boðorðin tíu Fyrsta boðorð: Þú skalt eigi aðra guði hafa. Annað boðorð: Þú skalt eigi leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma. Þriðja boðorð: Halda skaltu hvíldardaginn heilagan. Fjórða boðorð: Heiðra skaltu föður þinn og móður. Fimmta boðorð: Þú skalt eigi mann deyða. Sjötta boðorð: Þú skalt eigi drýgja hór. Sjöunda boðorð: Þú skalt eigi stela. Áttunda boðorð: Þú skalt eigi bera ljúgvitni gegn náunga þínum. Níunda boðorð: Þú skalt eigi girnast hús náunga þíns.Tíunda boðorð: Þú skalt eigi girnast konu náunga þíns, þjón, þernu, fénað né nokkuð það sem náungi þinn á.
Boðorð Kaþólskukirkjunnar: http://mariu.kirkju.net/trufraedslurit/index.html Skoða einnig töflu http://mariu.kirkju.net/trufraedslurit/2052.html#tafla Skrifa boðorð eins og þau eru á töflunni.
1. Ég er Drottinn Guð þinn, þú skalt ekki aðra guði hafa. 2. Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma. 3. Halta skaltu hvíldadaginn heilagann. 4. Heiðra skaltu föður þinn og móður. 5. Þú skalt ekki morð fremja. 6. Þú skalt ekki drýgja hór. 7. Þú skalt ekki stela. 8. Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum. 9. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns. 10. Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns né neitt sem honum heyrir til. Friðarkveðjur.Rósa Aðalsteinsdóttir, 23.2.2008 kl. 18:35
Sæll Sigurður Rósant. Hvar er þessi setning? " Rósa "Ég þekki ekki neitt, sem er yndislegra en virkilega hreint og heilagt samlíf með Drottni Jesú, og að Faðirinn og Sonurinn komi til okkar og búi hjá okkur. Það er betra en allt það, sem heimurinn hefir að bjóða."" Hér hlýtur að vera um einhvern misskilning að ræða því ég stunda ekki mitt trúarlíf eins og þú hefur skilið. Við verðum að finna út úr þessu. Þetta einmitt finnst mér rugl eins og þú lýsir og get ég fengið vinkonu mína til vitnis fyrir mig ef þú vilt. Við höfum einmitt rætt svona hluti af sérstökum ástæðum sem varðaði ekki okkar eigin persónur og okkur finnst þetta út í Hróa Hött.
Aftur á móti er yndislegt að vera Guðsbarn og hafa meðtekið syndafyrirgefningu. Við syngjum oft: Hvítari en snjór, þvo þú mig í brunninum blóðs, þá verð ég hvítari en snjór. Þú sem kennari værir ekki ánægður með mig núna. Ég á að skila stærðfræðiverkefni á morgunn í síðasta lagi og ég er ekki byrjuð að læra. Heyri vonandi fljótlega frá þér. SHALOM.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 23.2.2008 kl. 18:50
Flower Glitters
Adda bloggar, 23.2.2008 kl. 19:47
Christian Glitter by www.christianglitter.com
og ein í viðbót sérstaklega handa þér.
vísan var frábær, ég skellihló af henni.love you þín adda
Adda bloggar, 23.2.2008 kl. 20:50
Bara að gefa innlitskvitt elsku Rósa!
Guð blessi þig og umvefji og varðveiti þig í faðmi sínum!!
Ása (IP-tala skráð) 24.2.2008 kl. 00:04
Ástæðan fyrir því að kaþólska kirkjan vill ekki hafa hátt með "þú skalt ekki gjöra þér líkneski" er vegna þess að þeirra kirkjur voru fullar af líkneskjum af alls konar guðum; til að þurfa ekki að eyðileggja þær þá slepptu þeir þessu boðorði. Þannig að í dag eru óbeint líkneski af alls konar dýrlingum sem kaþólikkar biðja til og hneigja sig fyrir.
Síðan auðvitað fjórða boðorðið sem varðar hvíldardaginn, þá vilja sumir velja sinn eigin dag til að halda heilagann en auðvitað er það aðeins Guð sem getur gert eitthvað heilagt. Ef það er eitthvað í Biblíunni sem við eigum pottþétt ekki að vera með puttana í þá eru það boðorðin tíu.
Varðandi nýja sáttmálan. Gamli sáttmálinn var musteris þjónustan þar sem menn fengu fyrirgefningu með fórn sem benti til krossins; þegar Kristur dó á krossinum þá var sá sáttmáli ekki lengur í gildi því að raunverulega fórnin var komin. Boðorðin breyttist ekkert vegna þessa enda segir Jesú að ekki einn stafakrókur úr lögmálinu muni breytast enda sagði sálma skáldið að lögmál Drottins sé fullkomið.
Kærar kveðjur,
Halldór
Mofi, 24.2.2008 kl. 02:23
Það er alveg rétt Mofi. Fyrsta boðorðið er ekki svona.
Sigurður Þórðarson, 24.2.2008 kl. 03:23
Sæl öll.
Adda og Ása Gréta takk fyrir innlitið.
Sigurður Þórðarson, Mofi er flottur. Þú meinar að annað boðorðið ætti að vera svona: "Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér né nokkrar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eður því, sem er á jörðu niðri, eður því, sem er í vötnunum undir jörðinni. Þú skalt ekki tilbiðja þær og ekki dýrka þær, því að ég, Drottinn Guð þinn, er vandlátur Guð, sem vitja misgjörða feðranna á börnunum, já í þriðja og fjórða lið, þeirra sem mig hata, en auðsýni miskunn þúsundum, þeirra sem elska mig og varðveita boðorð mín."
Mofi minn, kærar þakkir. Hvenær ætli þessu hafi verið breytt??
Slóð frá Jóni Hjörleifi: http://jonhjorleifur.blog.is/blog/jonhjorleifur/entry/268166/
Vona að þessi skrif Jóns Hjörleifs svari spurningum sem hafa verið í umræðunni hér.
Þetta er mjög fróðlegt og gagnlegt fyrir okkur öll.
Shalom
Rósa Aðalsteinsdóttir, 24.2.2008 kl. 04:18
Já, ég bið þig forláts, Rósa. Ég var ekki viss, en mér fannst eins og þetta væri þín yfirlýsing, en titillinn D.L. Moody's. Svona er algengt hér í þessu bloggi og maður fer sjálfur ekki varhluta af slíkum flumbrugangi, þrátt fyrir fyrri störf.
Gaman að þessum fróðleik um forna Guði. Þú hefðir kannski gaman af að kynna þér Ma'at forn-Egypskan guð, en hann setti m.a. fram lög í 42 greinum fyrir fólkið til að fara eftir um 3000 árum fyrir Krist. Svo kom Hammúrabí konungur með lög í mörg hundruð greinum 1760 fyrir Krist, en Móse kom með sín 10 eða 12 um 1280 fyrir Krist. Sjá History of Law í Wikipedia.org.
Sigurður Rósant, 24.2.2008 kl. 22:14
Sæll Sigurður Rósant. Takk fyrir fróðleikinn. Ég leitaði og leitaði í athugasemdum mínum og fann ekki þessa setningu en hún er efst í ritinu hans Moody's. Hann hlýtur að meina samband við Jesú Krist. Auðvita á samband okkar við Jesú Krist að vera náið en ekki óheilbrigt. Við biðjum til hans og segjum honum frá gleði okkar og sorg. Gerum óskir okkar kunnar honum. Biðjum fyrir sjúkum og sorgmæddum. Fyrir landi og þjóð. Ég t.d. bið oft um visku því ég er oft að rembast eins og rjúpan við staurinn við námið mitt. Höldum áfram að skrifast á hér á blogginu og þú þarft ekkert að biðja forláts á þessu. Bara gaman af þessu svona eftir á en ég viðurkenni að ég hrökk svolítið við. Gangi þér vel í Danaveldi þar sem mér finnst vera heldur ófriðvænlegt þessa stundina. Sæll að sinni bloggvinur minn með flotta nafnið.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 25.2.2008 kl. 01:37
Sæl öll.
Birgir, málið er ennþá í nefnd og ég er búin að hringja í fólk og senda e-mail.
Hið æðsta boðorð:
Þegar farísear heyrðu, að hann hafði gjört saddúkea orðlausa, komu þeir saman. Og einn þeirra, sem var lögvitringur, vildi freista hans og spurði: ,,Meistari, hvert er hið æðsta boðorð í lögmálinu?" Hann svaraði honum: ,,,Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.`Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. Annað er þessu líkt: ,Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.` Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir."
Shalom
Rósa Aðalsteinsdóttir, 25.2.2008 kl. 14:13
Halló Rósa ég bíð bara rólegur en samt með eftirvæntingu hvað félagar þínir og vinir segja. Mín skoðun á svari Krists við spurningu mannsins um hið æðsta boðorð er sú að þarna dregur Jesús boðorðin saman í minni útgáfu. Flestir vita að fyrri hluti Boðorðanna fjalla um skildur okkar gagnvart Guði og seinni hlutinn um skildur okkar gagnvart náunganum. Enginn hefði getað svarað þessari spurningu betur en Kristur, þar sem lítill vafi er á því að maðurinn sem spurði Krist spurningarinnar hefur gjörþekkt boðorðin út og inn. Hann var jú lögvitringur. Kveðja
Birgir Sm (IP-tala skráð) 25.2.2008 kl. 19:03
Sæll Birgir. Nú þegar er ég með gögn sem ég hefði viljað senda þér í gegnum e-mail. Ef þú vilt þiggja þessi gögn þarf ég e-mail þitt. Mitt er riorosin@simnet.is En það getur vel verið að ég þurfi að bíða og bíða. Kæmi mér ekkert á óvart. Gæjarnir láta allavega bíða eftir sér. Það er mín reynsla En þegar ég er búin að fá endanlega niðurstöðu um hvernig Hvítasunnukirkjan setur fram boðorðin mun ég birta niðurstöður. Gaman væri að sjá hvernig fleiri kirkjur setja fram boðorðin en nú er ég búin að setja fram boðorðin frá tveimur kirkjum. Vona að þú viljir lesa pistilinn sem kom inná bloggið frá mér í dag og fleiri eru tilbúnir. Læt líða nokkra daga á milli svo hver pistill fá meiri athygli í staðinn fyrir að setja tvo þrjá pistla inná dag. Það væri annað mál ef ég væri að skrifa um fréttir eða grín. Kær keðja frá kolsvartri rollu
Rósa Aðalsteinsdóttir, 25.2.2008 kl. 20:07
Hæ hæ Þú ert ekki eins kindaleg eins og ég þegar ég er hangi yfir tölvunni pikkandi með einum putta og leitandi að þ,inu og æ,inu og ð,inu og ö,inu hvað þá að vinna það afrek að finna þetta att merki @ ,sko mig, (ég er rennandi blautur á bak við eyrun ( hornin) í tölvumálum), og það tekur alveg óratíma hjá mér að skrifa, enn þetta kemur allt saman. Já ég þigg þessi gögn með þökkum e-mail,ið hjá konunni minni er mhh@hi.is varðandi fleiri kirkjur og boðorðin þá veit ég að hinir vinnusömu Vottar Jehova vita ekki í hvorn fótinn þeir eiga að stíga þegar að boðorðunum kemur, í Varðturninum 1 feb 1990 á bls 3 eru þeir að mínu mati með hárrétta uppröðun og sleppa engu boðorðanna en svo inni í blaðinu á bls 6 undir mynd af Jesú hangandi á "" staur"" stendur eftirfarandi,,,,Dauði Jesú batt enda á lögmálið meðal annars boðorðin tíu sem Ísraelsmönnum voru gefin á Sínaífjalli,,,,, beint undir myndinni neðst á sömu síðu stendur eftirfarandi með hliðsjón af Matt 22:37-39. Boðorðin eru sannarlega merkingarþrungin fyrir okkur. Þau byggjast á meginreglum Guðs sem úreldast aldrei og við ættum því að meta þau mikils sem áminningar um þá skildu okkar að elska Guð og náungann . ég skil alls ekki hvað þarna er í gangi annars vilja þeir og þær sem heimsótt hafa mig ekki ræða þessi boðorða mál að neinu gagni en þér að segja dáist ég dálítið af því hvað þau eru iðin við að bera sína sannfæringu sína á torg , fleiri söfnuðir mættu alveg láta almenning heyra meira frá sér. Kveðja til þín HRÚTURINN ó,,,HREINN
Birgir Sm (IP-tala skráð) 26.2.2008 kl. 20:26
Sæll Birgir. Það má læra ýmislegt af Vottum í sambandi við aðferðir að boða. Þau eru mjög dugleg og ég hef heyrt að þau þurfi að skila ákveðnu verki daglega en það er auðvita to much. Einnig hef ég heyrt að kennslan hjá þeim sé mjög markviss. Þegar nýir koma í hópinn þá er þeim kennt markvisst um kenningar Vottana. En ekki er ég hrifin af Vottunum og ætla seinna að birta rit um þau.
Svo sannarlega eru boðorðin í gildi og ég er sammála þér að þau úreldast aldrei.
Smá grín í lokin: "Það er í rauninni undarlegt að mennirnir skuli hafa þurft að setja þúsundir lagagreina til að tryggja að boðorðin tíu væru haldin." Earl Wilson
Ertu búinn að lesa um Kristnitökuna?
Bréf á leiðinni eftir augnablik. Friðarkveðjur.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 26.2.2008 kl. 22:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.