5.2.2008 | 22:04
Síðasta nóttin: Saga frá finnsku fangelsi.
Síðasta nóttin
(Saga frá finnsku fangelsi)
Útgefandi: Sigurður Jónsson, Bjarnastöðum, Grímsstaðarholti, 1956.
Prentsmiðja Jóns Helgasonar
Frásögn A. Nordenberg, verkfræðingur
Grein úr Norðurljósinu 20. árg.
Nordenberg, kunnur verkfræðingur í Finnlandi, segir þessa sögu úr borgarstríðinu þar í landi árið 1918:
Ég var foringi í her Mannerheims hershöfðingja. Vér tókum borg eina frá uppreisnarmönnum og marga fanga. Sjö þeirra voru dæmdir til dauða, og aftakan var ákveðin næsta mánudagsmorgun. Aldrei skal ég gleyma þessum sunnudegi! Hinir dauðadæmdu voru í varðhaldi í kjallaranum í ráðhúsi bæjarins og hermenn mínir stóðu á verði í ganginum. Þeir voru hreyknir yfir sigri sínum og stríddu föngunum við og við. En fangarnir rögnuðu og bölvuðu og börðu hnefunum á vegginn.
Þessir menn áttu að deyja um sólaruppkomu vegna misgerða þeirra. En höfðu hermenn mínir hreinni hendur en þeir? Þessu gat ég ekki svarað. Vér vorum að vísu sigurvegarar, en eftir því sem leið á nóttina, virtist þetta ekki hafa mjög mikið að segja. Mér fannst eins og bölvun hvíldi yfir öllum þessum hernaði, hvort sem maðurinn væri að berjast fyrir oss eða hina. Meðan ég var í þessum hugleiðingum, hrökk ég við allt í einu, því að einn af hinum "rauðu" var farinn að syngja. "Aumingja maðurinn, hann hefur tapað sér," hugsuðum við fyrst í stað. En þegar ég gáði að því, hvaða maður þetta var, mundi ég eftir, að hann var ekki einn af þeim, sem höfðu látið illa. Hann hafði setið rólegur á bekknum og virtist yfirkominn af sorg. Hann hét Koskinen. Hann söng dálítið feimnislega fyrst, en bráðum virtist hann fá meiri kjark og söng með djúpum kraftmiklum rómi. Þetta voru orðin, sem hann söng:
"Frelsuð í faðmi Jesú! Frelsuð Hans hjarta við! Óhult þar önd mín hvílir, eilífan hefur frið!"
Hann söng sömu orðin aftur og aftur, og þegar hann þagnaði, sátu allir kyrrir og sögðu ekki neitt. Þá kallaði einn af föngunum: "Hvaðan fékkstu þessa vissu, lagsi? Heldur þú, að við ætlum að gerast trúræknir?"
Eftir dálitla þögn leit Koskinen upp og við sáum tárin í augum hans. "Félagar," sagði hann, "viljið þið hlusta á mig nokkur augnablik?" Enginn svaraði, svo hann hélt áfram: "Þið spyrjið, hvar ég hafi lært þetta vers. Það var á samkomu, sem ég sótti fyrir þremur vikum. Ég hló að þessu fólki, en sálmi þessum hef ég ekki getað gleymt. Móðir mín var vön að biðja og syngja sálma um Jesúm." Hann hikaði við, en stóð þá upp, horfði beint á félaga sína og sagði:
"Það er ragmennska, að kannast ekki hreinlega við það, sem maður trúir. Nú vil ég kannast við það, að sá Guð, sem móðir mín trúði á, er líka minn Guð. Ég get ekki gert grein fyrir því, hvernig þetta hefur orðið, en ég veit, að ég segi satt. Ég lá andvaka nóttina sem leið, og ég hugsaði um móður mína, og þá mundi ég eftir þessum orðum, sem ég hafði heyrt á samkomunni. Þá varð mér það ljóst, að ég yrði að leita Frelsarans og finna frið í Honum. eins og ræninginn, sem bað til Hans á krossinum, bað ég Hann að fyrirgefa mér syndir mínar og hreinsa hina spilltu sál mína, svo að ég yrði reiðubúinn að standa frammi fyrir Guði mínum, sem verður nú ekki langt að bíða. Síðan hefur mér liðið ósegjanlega vel. Það er eins og bjart ljós skíni kringum mig. Vers úr Biblíunni og sálmunum, sem ég hef fyrir löngu gleymt, koma mér aftur í hug og færa mér heim vissu um það, að Frelsari minn hefur úthellt blóði sínu fyrir mig, til þess að hreinsa mig og undirbúa mig fyrir þann stað, sem Hann er sjálfur búinn að undirbúa handa mér. Ég hef þakkað Honum fyrir náð Hans við mig, og síðan hefur þetta sálmavers endurtekið sig í huga mér, svo að ég varð að syngja það upphátt. Eftir nokkrar klukkustundir mun ég verða kominn í návist Drottins, frelsaður af náð Hans."
Nú skein andlit mannsins af gleði Guðs. Félagar hans sátu grafkyrrir. Sjálfur var ég eins og steini lostinn. Verðirnir þyrptust að til að hlusta, ef hinn "rauði" uppreisnarmaður ætlaði að segja meira. Þá sagði einn af félögum hans: "Þú hefur rétt fyrir þér, Koskinen. Ef ég þyrði að halda, að ég myndi öðlast náð, þá skyldi ég reyna líka, en, æ blóðið, sem þessar hendur hafa úthellt! Ó, hve ég hef lastmælt Guði og troðið undir fótum allt, sem heilagt er! Nú veit ég, að helvíti er til og að það er rétti staðurinn fyrir mig. Á morgunn verð ég þegar kominn þangað!" Hann gat ekki talað meira. Hann hneig niður á gólfið og líkami hans engdist saman af kvölunum, sem þjáðu sál hans, og andlit hans lýsti megnustu örvæntingu. "Bið fyrir mér, Koskinen!" hrópaði hann. "Ég verð að deyja á morgun og sál mín er í höndum djöfulsins!"
Ég gat varla trúað eyrum mínum né augum. Þar horfði ég á þessa tvo "rauðu" uppreisnarmenn krjúpa á kné, meðan annar bað fyrir hinum. Bænin var ekki löng, en það var eins og hún lyki upp flóðgáttum himinsins fyrir báðum. Við, sem horfðum á, gleymdum hatri okkar, er við sáum tvo dauðadæmda menn, sem áttu að deyja innan fárra stunda, leita sáttar við Guð.
Áður en bæjarklukkan sló fjögur þennan morgun, voru allir hinir uppreisnarmennirnir farnir líka að biðja fyrir sér, þrátt fyrir hina fyrri vantrú þeirra og guðlast. Andlega andrúmsloftið í klefanum var gersamlega umbreytt. Því miður átti enginn Biblíu, en menn höfðu yfir það, sem þeir mundu eftir.
- Þá kom einhverjum í hug að skrifa til fólksins heima. Við það tóku þeir allir að skrifa ástvinum sínum. Tárin féllu á bréfin, er þeir játuðu afbrot sín og könnuðust við trú á Frelsarann.
Nú var farið að birta af degi. Klukkan sex átti aftakan að fara fram, það var lítill tími eftir. Menn luku við bréf sín, og þá sagði einn: "Koskinen, syngdu þetta vers fyrir okkur einu sinni enn."
Þeir sungu aftur, bæði þetta vers og önnur, sem þeir mundu eftir. Verðirnir báðu þá um leyfi til þess að syngja með þeim, og ég gat ekki bannað þeim það. Hvílík sjón! Þar stóðu "óvinirnir", sem fyrir stuttu höfðu barist á banaspjótum, og sungu um kærleika Jesú Krists og um blóð Hans, sem hreinsar frá allri synd!
Þá sló klukkan sex. Æ, ég vildi, að ég hefði getað útvegað náðun handa þessum mönnum, en ég vissi, að það kom ekki til nokkurra mála. Þessir sjö menn gengu milli vopnaðra hermanna til aftökustaðarins. Þeir stóðu í röð, og hermennirnir, sem áttu að skjóta þá, stóðu gegnt þeim. Þá bað einn um leyfi til að syngja, og þeir tóku allir undir og sungu um Frelsarann. Þegar söngurinn var á enda, báðu þeir um leyfi til að deyja, án þess að bundið væri fyrir augu þeirra. Þar stóðu þeir allir og lyftu höndum sínum til himins og sungu ennþá einu sinni: "Frelsuð í faðmi Jesú, frelsuð Hans hjarta við, óhult þar önd mín hvílir, eilífan hefur frið!" Þá kallaði undirforinginn: "Skjótið!" Og hinir sjö féllu dauðir niður.
Frá þeim tíma varð ég nýr maður. Ég hafði lært að þekkja Krist gegnum nokkra hinna veikustu og yngstu lærisveina Hans, því að það, sem ég hafði séð og heyrt, hafði sannfært mig um það, að ég mætti einnig kona og finna náð.
(Norðurljósið 20. árg.) A. Nordenberg, verkfræðingur
Nokkur Biblíuvers frá höfundi þessa rits:
Náð sé með yður og friður frá Honum, sem er og var og kemur og frá Honum, sem er trúr vottur, Honum, sem er frumburður dauðra, og Honum, sem er höfðingi yfir konungum jarðarinnar, Honum sem elskaði oss og leysti oss frá syndum vorum með blóði sínu. Opinb. 1: 4.-5.
Því að þér var slátrað og þú keyptir menn Guði til handa með blóði þínu, af sérhverri kynkvísl og tungu og lýð og þjóð. Opinb. 5: 9.
Eftir þetta sá ég, og sjá: Mikill múgur, sem enginn gat tölu á komið, af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum. Þeir stóðu frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir Lambinu, skrýddir skikkjum, og höfðu pálma í höndum. - Og einn af öldungunum tók til máls og sagði við mig: - "Þessir, sem skrýddir eru hvítu skikkjunum, hverjir eru þeir, og hvaðan eru þeir komnir?" Og ég sagði við hann: "Herra minn, þú veist það." Og hann sagði við mig: "Þetta eru þeir, sem komnir eru úr þrengingunni miklu og hafa þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins." Opinb. 7: 9., 13.-14.
Sælir eru þeir, sem þvo skikkjur sínar, til þess að þeir geti fengið aðgang að lífsins tré og megi ganga um hliðin inn í borgina. Opinb. 22: 14.
En Honum, sem megnar að varðveita yður frá hrösun og láta yður koma fram fyrir dýrð sína, lýtalausa í fögnuði, einum Guði, Frelsara vorum, sé fyrir Jesúm Krist, Drottinn vorn, dýrð, hátign, máttur og vald, fyrir allar aldir og nú og um allar aldirnar. Amen. Júdasarbréf 24.-25.
Flokkur: Trúmál og siðferði | Facebook
Athugasemdir
Gott að lesa þetta fyrir nóttina. Kær kveðja til þín Rósa mín.
Ásdís Sigurðardóttir, 6.2.2008 kl. 00:34
Sterkur pistill, hvernig á ég að segja þetta...? Ég óska þess að Guð gefi kringustæður eins þær sem Nordenberg lýsir þar sem fólk verður svo altekið af syndarmeðvitund og iðrun að það er reiðubúið að þiggja Guð sem þá hjálp sem Hann er: að geta jafnvel staðið frammi fyrir aftökusveit en vera svo öruggur, hafa þvílíkan frið, að ekkert geti skyggt þar á. Magnað. Þess óska ég sjálfum mér.
Ragnar Kristján Gestsson, 7.2.2008 kl. 17:40
Ég er sammála Ragnari það er ekkert að óttast þegar þú hefur guð í hjarta þínu,hans loforð standa þó við mannskepnan svíkum oft loforð okkar.Annars var þetta svona öðruvísi lesning,en maður á að venjast á blogginu og það er bara hið besta mál.
Úlfar Þór Birgisson Aspar, 7.2.2008 kl. 20:11
Sæl öll. Frábærar athugasemdir. Guð gefi okkur náð þegar þrengingarnar byrja. Verðum við tilbúin? Ég hef oft hugsað út í hvort ég myndi bregðast? Guð gefi okkur náð að byggja okkur upp á meðan tími er og vera tilbúin þrengingum. Guð elskar okkur öll og þess vegna sendi hann Jesú til jarðarinnar til að vinna lausnarverkið fyrir okkur. JESÚS ELSKAR OKKUR ÖLL. SHALOM.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 7.2.2008 kl. 20:34
mikið er þetta fallegt
Adda bloggar, 10.2.2008 kl. 23:28
Ansi ertu dugleg að skrifa :) Bara svona innlitskvitt fyrir svefnin . Bestu kveðjur
Erna Friðriksdóttir, 11.2.2008 kl. 22:57
Góður lestur,takk fyrir þennann pistil eins og alla hina,GUÐ blessi þig
Magnús Paul Korntop, 12.2.2008 kl. 00:10
Sæl öll. Takk fyrir innlitið.
Adda varstu að tala um nýja útlitið á síðunni eða ritið? Vinur minn hannaði þetta flotta útlit fyrir mig.
Erna það er ljúft að lesa eitthvað fallegt fyrir svefninn. (Ekki eitthvað um P.B. og fleiri. Þú fattar hvað ég meina)
Magnús þetta var magnað rit.
Guð blessi ykkur öll.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 13.2.2008 kl. 03:05
sæl rósa.
ég var að tala um síðuna og söguna.
Adda bloggar, 14.2.2008 kl. 07:48
Sæl Adda mín. Við verðum í bandi. Kannski hittumst við einhvern tíman þegar ég er á ferðinni þarna. Systir pabba míns, Svava átti heima allan sinn búskap á Reyðarfirði. Svava er núna á Eskifirði á dvalarheimili. Hún á 6 uppkomin börn og búa þrjú þeirra á Reyðarfirði og svo búa 3 ömmubörn Pálu heitinnar föðursystur minnar á Neskaupsstað.
Batakveðjur til dóttur þinnar. Guð blessi þig og launi fyrir að styðja Valla sem er sameiginlegur bloggvinur okkar.
Kær kveðja
Rósa Aðalsteinsdóttir, 14.2.2008 kl. 13:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.