Hvítasunnukirkjan á Vopnafirði. Grein eftir Daníel Jónasson sagnfræðing 1995. Frelsissaga Stefaníu og Stefáns Aðalsteins o.fl. Grein eftir Rósu Aðalsteinsdóttir Hvítasunnukirkjan á Vopnafirði: http://www.123.is/hvitasunnukirkja/ Hvítasunnuhreyfingin á Íslandi: http://www.gospel.is/
Brautryðjandi Hvítasunnustarfsins á Vopnafirði var Sigurmundur Einarsson. Á trúboðsferðum hans og fleiri um Austurland var Vopnafjörður fastur viðkomustaður. Fyrstu Austurferðirnar munu hafa verið farnar eftir sumarmót, sem haldin voru á Akureyri. Sú fyrsta hefur líklega verið farin 1944.
Árið 1945 kynntust trúboðarnir Ingibjörg Pálsdóttir ljósmóðir, sem keypti af þeim stóra Biblíu. Á samkomu í kirkjunni bað hún um að fá að lesa Guðs orð og las 23. Davíðssálm. Fljótlega varð andleg hræring á Vopnafirði. Sigurmundur heimsótti staðinn oft og dvaldi þá lengi, hafði samkomur í Ási, húsi Ingibjargar, sem frelsaðist fyrst og tók skírn 2. sept. 1947 í Fíladelfíu í Reykjavík.
Sigurmundur starfaði mest á Vopnafirði á veturna. Hann annaðist um fólkið sem tekið hafði trú, var sérfræðingur í einkasamtölum og góður leiðbeinandi. Hann ræddi við fólkið og leiðbeindi því í leit sinni. Mörgum fannst fræðsla hans ómetanleg.
Aðalsteinn Sigurðsson, sonur Ingibjargar frelsaðist í júlí 1952 á samkomu í stofunni í Ási. Hann kvæntist Stefaníu Sigurðardóttir 1955 og héldu þau ásamt vinunum uppi starfinu þegar engir trúboðar voru í plássinu. Aðalsteinn hóf framkvæmdir við byggingu samkomuhúss í júlí 1954 ásamt tvíburabróður sínum Sveini og stóð Aðalsteinn fyrir verkinu meðan húsið var í smíðum. Húsið er samkomusalur, félagsaðstaða og íbúð. Allt húsið var orðið fokhelt haustið 1955. Þegar búið var að einangra og múrhúða íbúðarhlutann voru samkomurnar fluttar á neðri hæðina úr stofunni í Ási, um 1960.
Sigurmundur og Margrét fluttu til Vopnafjarðar 1961 og var þá íbúðin í samkomuhúsinu tilbúin. Næstu árin var unnið við samkomusalinn og var húsið vígt að viðstöddu fjölmenni 20. ágúst 1967, rúmum þrettán árum eftir að bygging þess hófst. 1985 var byrjað að stækka húsið. Í viðbótinni eru tvö herbergi uppi og bílskúr og á neðri hæðinni góð viðbót við safnaðarheimilið. Fyrir lítinn vinahóp var bygging svo veglegs samkomuhúss mikið átak, bæði hvað fjármögnun og framkvæmd snerti. Byggt var mest í sjálfboðavinnu og Guð einn veit hvað margar hendur unnu að þessu verki, skrifaði Aðalsteinn undir reikningsyfirlit.
Magnea Sigurðardóttir kom til starfa á Vopnafirði í janúar 1967. Hún annaðist heimili Aðalsteins og Stefaníu vegna veikinda hennar og fór brátt að sinna barnastarfi. Hún hélt uppi fjölsóttum sunnudagaskóla og öðru barnastarfi. Hún var mjög hugmyndarík, samdi sögur, orti söngva út frá biblíulegum efnum og kenndi börnunum. Einnig var hún fundvís á ýmiss konar föndurvinnu fyrir börnin. Rauði þráðurinn var boðun Guðs orðs og kristileg fræðsla í tali og söng. Magnea starfaði á Vopnafirði í um sex og hálft ár.Hjónin Snorri Óskarsson og Hrefna Brynja Gísladóttir tóku við starfinu í september 1973 og störfuðu í tvö ár. Þeim fannst Vopnfirðingarnir sem sóttu samkomurnar vera mjög uppörvandi og þakklátir og var barnastarfið með miklum blóma. Sumarmót Hvítasunnumanna var á Vopnafirði 1974 og einnig 2004. Helgi Jósefsson og Arnbjörg Pálsdóttir, kona hans fluttu til Vopnafjarðar 1974. Sunnudagaskólinn var áfram með miklum blóma og eins annað barnastarf, að jafnaði yfir 80 börn. Um tíma var Helgi einnig með unglingastarf. Á þeim fundum var m.a. unnið með ýmiss konar föndur. Astrid Örn Aðalsteinsson kom með ferskleika inn í unglingastarfið, stofnaði hóp, sem hún kallaði Stjörnuhóp, fyrir krakkar frá 12-14 ára. Það vatt fljótlega utan á sig og hún var mjög hugmyndarík og hafði mikla fjölbreytni í þessu starfi. Helgi og Arnbjörg önnuðust starfið í ein 15 ár, auk þess að hann kenndi við Grunnskólann allan tímann. Elías Árnason og Svandís Hannesdóttir kona hans komu að starfinu frá 1990 til nóvember 1993. Barnastarfið var þeim til mikillar blessunar, þá sérstaklega krakkakórinn sem þau byrjuðu með veturinn 1990. Eftir æfingar kórsins var foreldrum, systkinum og öðrum sem tengdust börnunum boðið að koma og hlýða á. Iðulega fylltist kirkjan þá af fólki. Í öllu barnastarfinu nutu þau tryggrar aðstoðar Astridar.1994 komu Carina Brengesjö og Kristinn Óskarsson og bjuggu á Vopnafirði í tvö ár. Eftir að þau fóru frá Vopnafirði 1996 hjálpuðu nokkrir aðilar til í starfinu, þar á meðal Lilja Óskarsdóttir og hjónin Gísli Sigmarsson og Hrund Snorradóttir dvöldu þar eitt sumar áður en þau fluttu þangað. Þau tóku við sem forstöðuhjón og voru sett inn í starfið á Vopnafirði í febrúar 2000. Þau létu af störfum í desember 2005.Daníel Jónasson 27. júní 2005.
Frelsissaga Stefaníu og Stefáns Aðalsteins o.fl. Grein eftir Rósu Aðalsteinsdóttir 2008.
Stefanía tók á móti Jesú Kristi sem frelsara sínum.
Mamma frelsaðist þegar hún var unglingur. Þá átti hún heima í Hörgshlíð í Mjóafirði v/Djúp ásamt fjölskyldu sinni og fjölskyldu Guðbjargar Salóme Þorsteinsdóttur.1 Þær voru bræðradætur og var Gugga frænka búin að taka á móti Jesú á undan mömmu. Kristín Sæmundsdóttir2 og Gugga voru búnar að segja mömmu frá Jesú. Dag einn var mamma stödd ásamt systur sinni, Þórdísi Halldóru og fleirum rétt hjá Hörgshlíð í hyl þar sem Millufoss fellur. Hún varð fyrir sérstakri reynslu þarna og varð óttaslegin.3 Hún hrópaði á Jesú Krist og bað hann um að frelsa sig. Um veturinn var hún í saumanámi hjá Kristínu Sæmundsdóttir á Ísafirði. Hún bjó hjá Rósumundu Guðmundsdóttir og Ástmari Benedikssyni4 sem áttu heima í Sundstræti 11. Morgunn einn var hún á göngu á milli Sundstrætis og Aðalstrætis. Sennilega á leiðinni til Kristínar í saumanámið. Allt í einu fylltist hún svo mikilli gleði og sannfæringu að hún væri frelsuð og horfði til himins og sá hvað hann var bjartur og fagur og snjórinn var svo hvítur og hreinn. Þá ómaði í hjarta hennar: :,:Hvítari en snjór! :,: Þvo þú mig í brunninum blóðs, brátt þá verð ég hvítari en snjór. Mamma tók niðurdýfingarskírn í lok desember 1944 í Hnífsdal. Í Biblíunni hennar stendur: Frelsuð af náð 19 ára. 1 janúar 1945 var Salem, sem er kirkja Hvítasunnumanna stofnuð á Ísafirði. Mamma var á meðal stofnenda en í 4 ár á undan var fólk búið að taka afstöðu með Jesú Kristi á Ísafirði. Þau komu saman og var oft fjölmennt á samkomum hjá þeim. Mamma var kaupakona hjá Gunnfríði Bjarnardóttir og Helga Daníelssyni á Björk í Eyjafirði sumarið 1945. Þar sá Helga Jónsdóttir, mömmu í fyrsta skipti.5 Síðar flutti mamma til Reykjavíkur og sótti samkomur á Hverfisgötu 44.
1Gugga frænka sem er 89 ára er búsett á Ísafirði og er frábær vitnisburður fyrir Ísfirðinga. Hún giftist Sigfúsi Bergmanni Valdimarssyni Sjómannatrúboða og eignuðust þau 6 börn.
2Kristín Sæmundsdóttir og afi minn Sigurður Rósinkar Halldórsson voru fermingasystkini. Þau voru fermd í Vatnsfirði.3Síðar kom í ljós að þetta atvik var upphaf af veikindum mömmu.
4Síðar kynntist ég, Rósa í Ási barnabarni Ástmars og Rósumundu og heitir hún Rósa Aðalsteinsdóttir, búsett í Stóru Mörk undir Eyjafjöllum og erum við miklar vinkonur. Hún hefur hjálpað mér mjög mikið, nú þegar ég er að basla við fjarnám á gamalsaldri!
5Helga Jónsdóttir átti heima á Kambi í Eyjafirði. Hún hitti mömmu þegar þær voru á leið frá Akureyri með mjólkurbíl inn í sveit. Henni er svo minnisstætt hvað þessi stúlka var falleg og að hún hafði verið svo glöð og leiftrandi af fjöri. Hún hitti mömmu mjög sjaldan eftir þetta en þegar mamma var að fara í hinsta sinn frá Vopnafirði var hún veðurteppt á Akureyri og gisti hjá Torfhildi og Sveini á Lundargötu. Þar hitti Helga mömmu og hún vissi að mamma var mikið veik. Helgu er minnistætt hvað hún var brennandi í trúnni á Jesú Krist. Þau áttu saman stund þar sem þau sungu og báðu saman. Mamma lét veikindin ekki aftra sér og tók þátt af líf og sál. Mættum við öll læra af henni mömmu. Ég kynntist Helgu~Eið og föðursystrum Helgu veturinn 1976-1977. Það var mikið lán og hef ég oft komið í heimsókn þangað og þá höldum við samkomur saman. Við lesum Guðorð, syngjum og biðjum til Drottins.
Sigurmundur Einarsson, Daníel Glad, Dagbjartur Guðjónsson og fleiri fóru á hverju sumri í mörg ár í trúboðsferðir. Móðir mín Stefanía fór í nokkrar ferðir með þeim. Þau byrjuðu trúboðsferðirnar í Hrútafirði og ferðuðust um allt Norður- og Austurland alla leið til Djúpavogs. Vopnafjörður var fastur viðkomustaður. Í einni ferðinni sem mamma var í, þá hitti hún og Simmi, bónda í Húnavatnssýslu og Simmi bauð honum bækur og blöð til sölu. Bóndinn vildi alls ekki kaupa neitt. Á meðan Simmi og mamma voru að tala við bóndann kom hestur bóndans og hrifsaði blaðið sem mamma hélt á. Bóndinn sagði að nú yrði hann að kaupa blaðið. Þegar ferðalangarnir voru komnir frá bænum sagði Simmi: Málleysinginn hafði meira vit en bóndinn!
Árið 1952 í júlí kom mamma í fyrsta skipti til Vopnafjarðar. Þegar hún kom og sá þorpið í fyrsta skipti frá Dröngunum sagði hún. Hérna gæti ég hugsað mér að eiga heima. Stuttu áður dreymdi hana Rauðan Hana! Ferðalangarnir komu í Ás og hér voru haldnar samkomur.
Stefán Aðalsteinn tók á móti Jesú Kristi sem frelsara sínum:
Pabbi kom á samkomurnar og 22 júlí1 þá tók hann á móti Jesú en sagði engum frá því. Um kvöldið keyrði Simmi, afa inní Hofsárdal þar sem símamenn voru að vinna og pabbi var með í för.2 Pabbi stakk uppá því við Simma að þau skyldu halda eina samkomu í viðbót. Á samkomunni 23. júlí1 spurði Simmi hvort einhver hér vildi taka á móti Jesú. Pabbi sagði: Hér er einn. Þarna játaði hann fyrir framan alla að hann vildi fylgja Jesú. Með því að játa fyrir framan samkomugesti þá þurfti hann ekkert að hafa fyrir því að láta neinn vita að hann hefði tekið á móti Jesú Kristi því fréttin af Alla í Ási barst um Vopnafjörð eins og eldur í sinu. Þegar pabbi frelsaðist þá upplifði hann stórkostlega reynslu. Allt var svo fallegt, himinninn var svo blár, fjöllin voru svo blá og hálsarnir voru svo grænir.
Mamma og pabbi kynnast:
Fljótlega hófust kynni á milli þeirra mömmu og pabba og þau ákváðu síðar að gifta sig. Pabbi hafði beðið Guð löngu áður en hann frelsaðist að gefa sér sannkristna konu. Hann varð bænheyrður og mamma hitti Rauða Hanann sinn á Vopnafirði! Þau trúlofuðu sig 11. desember 1954. Þegar þau svo ætluðu að gifta sig 2 júní 19553, þá var Ásmundur Eiríksson í Svíþjóð og Einar J. Gíslason ætlaði að koma frá Vestmannaeyjum og gifta þau. Hann var veðurtepptur í Vestmannaeyjum surprise en komst til Reykjavíkur seinnipartinn. Einar flýtti sér uppí Fíladelfíu á Hverfisgötu 44 og gifti hann mömmu og pabba um sexleytið. Það lá svo mikið á að hann fór ekki úr frakkanum á meðan á athöfninni stóð. Það var vegna þess að mamma og pabbi ætluðu með strandferðarskipi sem var að fara frá Reykjavík. Klukkan átta voru þau komin út á Faxaflóa í brúðkaupsferðina. Pabbi spurði mömmu á Faxaflóanum hvort hún sæi eftir því að hafa gifst honum og hann fékk svar sem honum líkaði. Rómatíkin var nú svo mikil í þessari ferð að þau voru ekki í sama klefa. Mamma var með konunum í klefa og pabbi með karlmönnunum! Bogi Einarsson trúbróðir þeirra var stýrimaður eða skipstjóri í þessari ferð. Bogi sýndi pabba í radar þegar skipið sigldi út Dýrafjörðinn. Pabbi hafði aldrei áður séð í radar. Skipið kom við í hverri höfn á Vestfjörðum og þá drifu mamma og pabbi sig frá borði og gengu um þorpin og sögðu fólki frá Jesú og buðu þeim kristilegar bækur og blöð til sölu. Þegar þau komu til Ísafjarðar var orðið áliðið en þau heimsóttu Guggu. Farið var svo seint um kvöld frá Ísafirði og siglt fyrir Horn. Pabbi fór uppá þilfar til að sjá Hornbjarg en þá var svarta þoka.4 Þau komu svo til Akureyrar á Sjómannadaginn og heimsóttu trúsystkinin þar. Brúðkaupsferðin þeirra var alvöru trúboðsferð. Trúi ég að þau uppskeri því að þegar orð Drottins er boðað þá kemur það aldrei tómt til baka.
1 Frelsisdagurinn hans pabba og dagurinn sem hann staðfesti að hann vildi frelsast eru merkisdagar í fjölskyldunni okkar. Mamma átti afmæli 22. júlí og þau eignuðust frumburðinn sinn 23. júlí 1956. Þau eignuðust 3 börn.
2Símamenn voru að vinna rétt hjá Hofsárbrú og gistu í tjöldum. Okkur finnst þetta merkilegt í dag því vegalengdin er c.a. 5 kílómetra frá þorpinu.
3Algjör tilviljun, þessi dagur var afmælisdagur Ingibjargar ömmu minnar.
4Mamma og pabbi ásamt eldri bróður mínum fóru þessa sömu leið 1956 og þá var vont í sjóinn svo ekki tókst pabba að sjá Hornbjarg. Hann hefur bara farið þarna um á sjó tvisvar. Þau voru á leið til Keflavíkur og pabbi var að fara á vertíð. Þau sóttu samkomur hjá Hvítasunnumönnum í Keflavík. Á einni samkomunni var Ericson að prédika. Allt í einu sagði Erickson: Þú Stebbusonur, þú hefur of hátt!
Sjá myndaalbúm - skýringar
Rósa Aðalsteinsdóttir 27. janúar 2008.
Flokkur: Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 18:07 | Facebook
Athugasemdir
Þú ert duglegur penni Rósa . Það yrði þér létt verk að skrifa eitt stykki æfisögu á 3 dögum
Gaman að þessari sögu, takk fyrir . Kveðja : Conwoy
conwoy (IP-tala skráð) 28.1.2008 kl. 19:39
Þú ert greinilega að meina Einar í Betel ?? Í vestmanneyjum sótti ég alltaf sunnudagsskóla hjá honum, þar sem hann þrumaði yfir okkur og bróðir hans sem að við systur kölluðum eggja karlinn því hann seldi egg gæti heitið Snorri ?? æji man það ekki.. en þessar samkomur voru frábærar og lögin sem við lærðum líka enda heyri ég að í dag er farið að syngja þau í sunnudagaskólum í kirkjunni en það var nú ekki þegar að ég var barn.....................
Þú ritar svaka greinar Rósa :)
Erna Friðriksdóttir, 28.1.2008 kl. 20:15
Engin smá grein komin þarna frá þér stelpa, þetta þarf að lesast í köflum, ekki allt í belg og biðu. Takk fyrir og kveðja til þín.
Ásdís Sigurðardóttir, 28.1.2008 kl. 22:17
Sæll Conwoy. Mér fannst nauðsynlegt að setja þessar greinar á netið. Sú fyrri er eftir vin minn og trúbróður Daníel Jónasson sem er sagnfræðingur. Sú síðari reyndi ég að setja saman. Þetta er í beinu framhaldi af þætti sem þú heyrðir á Lindinni þar sem starf Hvítasunnumanna á Vopnafirði var kynnt. Mér finnst saga foreldra minna mögnuð og ég er svo stolt af brúðkaups-trúboðsferðinni þeirra. Það var verið að hugsa um Drottinn og hvert tækifæri sem gafst var notað og farið frá borði til að hitta þorpsbúa og segja þeim frá Jesú og kærleika hans. Draumurinn hennar mömmu um Rauða hanann var virkilega fyndinn en pabbi var rauðhærður þá
Sæl Erna. Ég er að meina Einar í Betel. Hann komst í tæka tíð til að gifta mömmu og pabba. Einar og Guðný konan hans höfðu komið til Vopnafjarðar á fimmta áratugnum. Einar gaf pabba Biblíu áður en pabbi tók afstöðu með Jesú Kristi. Simmi og Margrét voru foreldrar Guðnýjar. Þar sem þú ert nú frá Vestmannaeyjum hlýtur þú að vita um Simma og Unni sem reka ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum. Hann er barnabarn Simma og Margrétar. Bróðir Einars hét Óskar Magnús og sonur hans er Snorri Óskarsson. Ég sá að þú nefndir nafnið hans. Bróðir Snorra er Gísli Óskarsson sem við sjáum stundum með fréttir frá Vestmannaeyjum í sjónvarpinu. Daníel Jónasson er líka frá Vestmannaeyjum. Móðir hans Guðbjörg var frá Skaftafelli. Bróðir hennar Óskar Guðjónsson kom til Vopnafjarðar 1954 til að hjálpa með kirkjubygginguna. Talað er um í Biblíunni að við fáum laun á himnum ef við höfum áverkað einhverju fyrir Guðsríki hér á jörð. Pabbi segir að Óskar hafi fengið laun greidd strax hjá Guði því hann kynntist tilvonandi konu sinni hér Önnu Jónsdóttir frá Sólgarði. Þau eru búsett í Vestmannaeyjum. Pabbi er nú hlutdrægur því pabbi og Anna eru tvímenningar. Ég hef svo gaman af ættfræði og tengslum svo nú naut ég mín að skrifa um Eyjamenn.
Guð blessi ykkur. Friðarkveðjur frá Vopnafirði
Rósa Aðalsteinsdóttir, 28.1.2008 kl. 22:19
Sæl Ásdís mín. Einhvern tímann þegar þú veist ekkert hvað þú átt að gera þá kíkir þú á bloggið hjá mér. Verst að geta ekki boðið þér kaffi.
Guð veri með þér kæra vinkona.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 29.1.2008 kl. 00:56
Sæl,Rósa mín.
Já, það er með ólíkindum hverju þú kemur í verk.Ég hef svolítið gaman af dagsetningum í þinni grein.því faðir minn var fæddur 22 júlí.Og svo kannast ég líka við svolítið af þessu fólki.Já frábært hjá þér Rósa mín.Þú fræðir okkur hin um heimahagana, fjölskylduna, venslafólkið, söfnuðinn og ég veit ekki hvað.Ekki ofgera þér,því við viljum sjá meira frá þér.Það er heilmikill sagnaritari í þér og frásögnin er líka lifandi.Löng var greinin,sem læknaði meinin.
Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 29.1.2008 kl. 02:04
Ég þarf að fá mér kaffi og kleinu til þess að geta lokið við lestur þessarar greinar. En það sem ég hef lesið líst mér afar vel frá kjarnakonunni Rósu.
Guðsteinn Haukur Barkarson, 29.1.2008 kl. 08:29
Sælir strákar. Munið að helmingurinn af þessari færslu var skrifaður af vini mínum og trúbróður Daníel Jónassyni. Það er hann sem er sagnaritarinn hér. Ég kom bara með viðauka. En við Daníel höfum alltaf verið flott. Ég vildi endilega koma þessari grein á framfæri í framhaldi af þætti sem þú Þórarinn hlustaðir á í sl. viku. Guðbjörg frænka mín á Ísafirði og Helga Jónsdóttir á Akureyri fræddu mig heilmikið og sumt vissi ég ekki um móðir mína eins og hvernig og hvar veikindi hennar byrjuðu. Ég vissi að Helga sá mömmu mína 1945 en ég vissi ekkert nánar um það fyrr en núna. Þórarinn, ég á helling af efni sem ég er búin að skrifa í skólanum sem ég ætla að birta og þá þarf ég bara að koma því yfir á netið. Ég var búin að sýna Guðsteini sumt af þessu. Ég skal muna að ofgera mér ekki í bloggheimum því nú í þessari viku þarf ég að byrja í fjarnáminu, kannski ég nái að klára námið fyrir sjötugt. Friðarkveðjur úr sveitinni fögru.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 29.1.2008 kl. 10:22
Þú ert hafsjór af fróðleik, Rósa. Takk fyrir þetta.
Guðrún Markúsdóttir, 29.1.2008 kl. 12:32
þetta er svoldið áhugavert að lesa þetta sérstaklega með giftingarathöfnina. Það væri hálf skrítið að sjá presta í dag flýta sér svona hehe
Sigvarður Hans Ísleifsson, 29.1.2008 kl. 12:54
Gaman að sjá afa minn "Boga Einars" nefndan á nafn.
Knús.
Linda, 29.1.2008 kl. 18:09
Sæl öll og takk fyrir innlitið.
Guðrún og Valli eru þið nú viss um að ég sé hafsjór af fróðleik?
Sigvarður, það lá á að gifta annars hefðu þau þurft að bíða eftir næstu ferð. Samgöngur voru lélegar á þessum tíma. Hugsaðu þér að afi sem var að vinna í símavinnu hér rétt við bæjardyrnar eða 5 kílómetra frá heimilinu sínu 1952 og hann og félagar hans þurftu að gista í töldum.
Linda ég gerði það viljandi að nefna Boga afa þinn vegna þín og ég vona að þú getir komist að því hvort Bogi var skipstjóri eða stýrimaður 1952 og á hvaða skipi hann var þá? pabba fannst skemmtilegt þegar Bogi vinur þeirra mömmu sýndi pabba í radar. Bogi kom oft hér við og heimsótti okkur eða pabbi og föðurbræður mínir fóru niður á bryggju að heilsa uppá hann. Ég man vel eftir afa þínum. Vona að þú getir aflað þessara heimilda fyrir okkur. Shalom
Rósa Aðalsteinsdóttir, 29.1.2008 kl. 18:22
Ég er viss. Sagnfræði er greinilega þitt fag.
Guðrún Markúsdóttir, 29.1.2008 kl. 18:42
Sæl Guðrún fræ. Kíktu og gáðu hvað þessir karlar þýða.
"Nú falla vötn öll til Dýrafjarðar." Gísla saga Súrssonar.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 29.1.2008 kl. 19:45
Sæl Rósa. Vel skrifuð grein hjá þér, hún ýtir undir forvitni hjá mér. Móður amma mín Stefanía Kristjánsdóttir, var fædd á Leifsstöðum í Vopnafirði 16. nóvember 1893...Ég hef upp á síðkastið verið að fletta í Íslendingabók og fundið frændur og frænkur sem ég vissi ekki um.
Kannski erum við skyldar, báðar ættaðar frá Vopnafirði?
Ef þú vilt senda mér á maili fæðingardag þinn og ár. gmhelgadottir@hotmail.com. þá svalar þú forvitni minni...Takk fyrir ofurlofið á bloggsíðu minni.
Guðrún Magnea Helgadóttir, 29.1.2008 kl. 21:56
OK, ég játa mig sigraða. Ég er torlæs á gula kalla og búin að gleyma Gísla sögu Súrssonar. Dýrafjarðar hvað? Það er líka ofar mínum skilningi hvernig þú getur haft allar þessar tilvitnanir á hraðbergi! Ég kann eina sem ég las í Fréttablaðinu um daginn: ,,Þegar ég var ungur mundi ég allt en skildi ekkert. Nú skil ég allt, en man ekkert." (Þráinn Bertelsson). Ég er ekki lengur ung, en heldur ekki eins gömul og Þráinn, svo þarafleiðandi man ég ekki lengur neitt, en skil ekkert heldur ennþá...
Guðrún Markúsdóttir, 30.1.2008 kl. 00:59
Sæl Guðrún. Bækurnar hjálpa mér. Á slatta af bókum; Íslenskri speki, Íslensk orðsnilld, Spakmæli, Perlæur málsins, slatta í viðbót. Og svo á ég Hafnafjarðarbrandarabók og Petrískuorðabókina. = hlátur. Ég skrifaði þetta með Dýrafjörð í gríni en pabbi fékk að kíkja í radar í fyrsta skipti á æfi sinni er hann var í brúðkaupsferðinni. En ég man eftir þegar ég las Gísla sögu Súrsonar. Fannst hún spennandi. = á hvolfi. Vantar karl sem er ruglaður eða ruglukollur.
Stútur; Glætan; Efins. Þegar við förum með bendilinn á karlana kemur fram texti og við getum fundið út hvað þeir þýða. Þetta er töffari, vantar alveg brosandi skvísu. Meira ójafnræðið. = Springa úr hlátri. Friðarkveðjur.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 30.1.2008 kl. 01:33
Eftir lestur þessarar greinar Rósa verð ég að vera sammála Guðrúnu,Sagnfræði er þitt fag með undirliggjandi ættfræði sem hliðargrein.Hvað eru annars að nema í fjarnáminu þínu?
Það er gaman af þessu og endilega haltu áfram í þínum létta og skemmtilega stíl með færslur þínar.Bestu kveðjur austur Úlli.
Úlfar Þór Birgisson Aspar, 30.1.2008 kl. 07:05
Sæll Úlli minn. Ég er ekki sammála Guðrúnu vinkonu minni. Við höfum þekkst frá því að við vorum unglingar og ég held að þetta sé í fyrsta skipti sem við erum ekki sammála. Það var oft virkilega gaman hjá okkur þegar við áttum báðar heima í Reykjavík vegna náms. Svo þarf fólk að átta sig á að helmingurinn af pistlinum hér fyrir ofan eftir Daníel Jónasson sagnfræðing sem er vinur minn og trúbróðir í marga áratugi. Fjarnámið sem ég er að basla við núna er stærðfræði og er það hár þröskuldur að fara yfir. Var að láta mér detta í hug að fá hefill lánaðan hjá bróður mínum og lækka þröskuldinn þannig. Svo þarf ég seinna á þessari önn að kíkja aftur á ensku en hún er erfið og ég er að hugsa um sömu aðferð og með stærðfræðina. "Nota hefil" Þá kannski klára ég einingarnar mínar til stúdentsprófs fyrir sjötugt.
Úlli minn takk fyrir innlitið. Ég sá þig í heimsókn hjá Tedda vini okkar beggja og ég varð að freistast að taka þátt í pólitískri umræðu þar um vinstri og hægri halla, skyndikynni Dags, Margrétar, Svandísar og Björns Inga ofl. Guð blessi þig og sólargeislana þína. Segi eins og annar vinur okkar: "Þú veist hvað ég meina." Hittumst aftur á blogginu.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 30.1.2008 kl. 11:17
Sæl Rósa
Thetta er falleg uppsetning hjá thér, en ég hef ekki tíma eins og er til ad lesa thetta.
En thad er leitt hve margir hafa misst af tækifærinu til ad aftrúast. Í dag geta trúadir fengid slík tækifæri á netinu líkt og adrir sem hafa ánetjast fíkniefnum og alls kyns midur heppilegum lífsvenjum.
Med kvedju
Sigurdur
Sigurður Rósant, 30.1.2008 kl. 11:35
Sæll kæri bloggvinur. Sá þig áðan hjá Mofa Þú kíkir einhvern tímann þegar lítið er að gera eins og með Ásdísi bloggvinkonu. Held mér við trúna og vona til Guðs að hann vilji eiga mig áfram. Gangi þér vel í Baunaríki eins og vinkona mín kallar Danmörku. Friðarkveðjur
Rósa Aðalsteinsdóttir, 30.1.2008 kl. 12:09
Sæl Guðrún Magnea. Ég sendi tölvupóst í gær eða réttara sagt í nótt sem leið. Þarf að spyrja pabba um ömmu þína? Spennandi að vita hverjir eru ættingjar þínir hér. Guð veri með þér og eigðu góðan dag.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 30.1.2008 kl. 12:13
Sael Rosa.
Skemmtileg og frodleg grein hja ter Rosa.
Jens Sigurjónsson, 30.1.2008 kl. 16:10
Rósa ég las póstinn frá þér og sá að því miður erum við ekki náskyldar...Já það er virkilega spennandi að vita ef einhverjir afkomendur systkina ömmu eru ennþá búsett á Vopnafirði
Guðrún Magnea Helgadóttir, 30.1.2008 kl. 16:24
Góð lesning eins og allt sem þú skrifar.Takk fyrir e-mala
Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 30.1.2008 kl. 20:23
Takk fyrir mig, snertir alltaf við mér að lesa sögur sem enda vel , ég sé að þú ert rétta manneskjan til að fá smá bloggfræðslu (hvað þýðir annars stútur?)
Ragnar Kristján Gestsson, 30.1.2008 kl. 21:10
Sæl öll. Takk fyrir innlitið.
Jens gaman að fá heimsókn frá Kanada. Fékk bréf frá vinum mínu í Kanada í dag. Þau eiga heima rétt hjá Edmonton. Eiginkonan kom hingað til Vopnafjarðar c.a 1980, þá einhleyp. Það var stór hópur af fólki frá Kanada sem kom og dvalið á mörgum stöðum, í tvo mánuði út á landi og hjálpaði við kirkjustarfið okkar. Einnig voru sum þeirra með annan fótinn í höfuðborginni. Ég á fullt af vinum út um allt þarna og skyldmenni sem ég er búin að kynnast. Gaman að tala við þau á íslensku. Þú kannast við ojá í staðinn fyrir já. Virkilega spennandi en ergilegt að enskan er alltaf að stríða mér. Samt miklu betra en 1980.
Guðrún Magnea. Þetta verður spennandi. Þú hlýtur að eiga ættingja hér. Ef pabbi fattar ekki hver Stefanía Kristjánsdóttir var, þá hringi ég í vini mína.
Birna Dís. Takk fyrir innlitið og takk fyrir að koma fram í Kompás og segja okkur sögu dóttur þinnar. Búin að koma á bloggið þitt og ræða þessi alvarlegu mál. Skömm að vita að þeir sem eiga í neyð sé vísað frá þegar þeir biðja um hjálp.
Ragnar. Þetta með stútinn var grín. Eigum við að segja að ég hafi sett stút á munninn þegar Guðrún fræ vinkona mín var að hæla mér. Mér finnst svo skemmtilegt hvernig frelsissögur mömmu og pabba voru. Þau sáu svo mikla fegurð í náttúrunni, meir en venjulega og svo finnst mér magnað brúðkaups-trúboðsferðalagið þeirra. Svona á þetta að vera. Því miður fengu pabbi og mamma ekki að vera lengi saman vegna veikinda hennar og það var sárt að segja bless aðeins 9 ára. Því miður fór þetta mjög illa með mig og á ég eftir að segja ykkur frá því síðar. En ég þarf að sjá fleiri sjónarmið. Mamma hefur það gott í himnesku Jerúsalem.
Gaman að eiga ykkur sem bloggvini = = Glaður, Ég er glöð = Ánægður, Ég er ánægð. Ég ætla að blogga mest um trúmál en ég á bloggvini sem skrifa um pólitík, íþróttir, og margt fleira sem ég hef áhuga á og þá nýt ég mín að heimsækja þau og ræða málin þar.
Guð blessi ykkur og varðveiti.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 30.1.2008 kl. 23:12
Rósa. Ein af eftirmælum ömmu minnar Stefaníu Sigurlaugu Kristjánsdóttit var að eldstu menn á austurlandi mundu ekki eftir að hafa litið fegurra fljóð en hana...
Guðrún Magnea Helgadóttir, 30.1.2008 kl. 23:20
Hæ Rósa mín - bara að kvitta fyrir innlit - hef ekki farið inná tölvuna síðan ég fór af klakanum 25 janúar...........
Knús!! Ása.
Ása (IP-tala skráð) 31.1.2008 kl. 02:34
Sæl vinkona.
Þú ert nú meiri kerlingin,hvað á það að þýða aðskrifa svona mikið í einu og skemma fyrir mér minn dýrmæta tíma,þú veist hvað ég er forvitinn og þegar ég var byrjaður að lesa á annað borð varð ég að klára. Svo ertu að tala um hvað ég sé sprettharður í skriftunum það eru bara nokkur orð á stangli um hitt og þetta satt og logið og frekar ómerkilegt.
Þetta var góður pistill hjá þér,haltu svona áfram,eg les yfirleitt það sem þú skrifar en ég er latur að kvitta,já já ég veit að það er lti en svona er það samt...... Kveðja
Ari Guðmar Hallgrímsson, 31.1.2008 kl. 22:20
Þetta átti að vera ég veit að það er leti,en ég nennti ekki að skrifa e ið........
Ari Guðmar Hallgrímsson, 31.1.2008 kl. 22:23
Sæll Ari. Fyndinn ertu
Rósa Aðalsteinsdóttir, 31.1.2008 kl. 23:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.