Tilvera Djöfulsins

 

Tilvera Djöfulsins

Sigurður Sveinbjörnsson

Prentsmiðjan Oddi h.f

Reykjavík 1952

Vegna ítrekaðrar eftirspurnar birtist hér ný grein, sem áður kom út í tímaritinu "Dagrenning", 29. hefti 1950, með nokkrum viðbótum og lagfæringum. Skrifað 1952.

6. útgáfa var gefin út í Reykjavík 1970

Útgefandi: Sigurður Jónsson frá Bjarnastöðum

Útbýtt ókeypis

(Nota nýjasta ritið sem er til hér í Ási, Vopnafirði. R.A.)

Hver er orsök tilveru djöfulsins? Heilög Ritning gefur oss vel glögga útskýringu því viðkomandi og skal hér getið nokkurra helztu tilvitnana.

"Og Guð leit allt, sem Hann hafði gjört, og sjá, það var harla gott." 1. Mós: 31.a. (very good - mjög gott - ensk þýðing).

Fyrst er þá að íhuga það, að vort frelsi og frjálsa val til þess að gjöra oss að mönnum eða ómennum, hefir sínar rétt-lögmætu afleiðingar. Auðvitað gildir þetta frelsi og frjálsa val jafnt um menn og engla, engla og menn. Hæzta stig viðkomandi tilbeiðslu lesum vér í 1. Kon. 18: 21.-40.* Þar en Elía spámaður Guðs, annarsvegar, en fjögur hundruð og fimmtíu Baals-prestar hins vegar, fórnuðu sínum nautinu hvor, hvor á sínu altari, og sá skyldi vera sannur Guð, sem svaraði með eldi, en það gjörði Ísraels Guð.

Og aftur í Spádómsbók Daníels. Þriðja kapítula, þegar allar þjóðir voru, samkvæmt valdboði Nebúkadnezar konungs, skyldaðar til að falla fram fyrir gulllíkneskinu, sem konungur hafði gjöra látið. En Hebrearnir þrír, sem trúðu á Guð Ísraels og lögmálsins, höfðu hugrekki til mótmæla, þótt þeir vissu, að með því legðu þeir líkami sína í sölurnar og það kostaði þá líf þeirra, þegar framkvæmd yrði sú hótun, að þeim var kastað í eldsofn, kynntan sjöfalt heitari en vant var. Kappar konungs, er köstuðu þeim bundnum inn í eldsofninn, féllu dauðir niður, en Ísraels Guðs eða Hans engill (Kristur), gekk með Hebreunum í eldsofninum svo þá sakaði ekki. Þegar konungur kallaði þá út úr ofninum var ekki hár sviðið af höfði þeirra né eimur af eldi í fötum þeirra. Þá tók Nebúkadnezar til máls og sagði: "Lofaður sé Guð þeirra Sadraks, Mesaks og Abed-Negós, sem sendi engil sinn og frelsaði þjóna sína, er treystu Honum og óhlýðnuðust boði konungsins, en lögðu líkami sína í sölurnar, til þess að þeir þyrftu ekki að dýrka né tilbiðja neinn annan guð en sinn Guð. Nú gef ég út þá skipun, að hver sá, hverrar þjóðar, hvers lands og hverrar tungu sem er, er mælir lastmæli gegn Guði þeirra Sadraks, sá skal höggvinn verða sundur og hús hans gjört að sorphaug. Því að enginn annar guð er til, sem eins getur frelsað og Hann." Dan. 3: 28.-2. Af þessu getum vér séð hverjum tilbeiðslan tilheyrir. - Sjá einnig Lúk. 4:1.-13.*

Þar næst skulum við íhuga virka þátttöku karakters, eðlis og eiginleika höggormsins (djöfulsins), og svo skulum vér einnig íhuga virka þátttöku karakters, eðlis og eiginleika Guðs og Jesú Krists.

Fyrstu orð höggormsins (djöfulsins) lýsa karakter eiginleka hans og mætti kalla þau tortryggnis-áróður: "Er það satt að Guð hafi sagt." (Yu, hu!) hath God said). 1. Mós. 3: 1.-4.* Önnur setning (aðalatriði): "Vissulega munuð þið ekki deyja!" og þar með gjörði hann Orð Guðs að lýgi.

Heilög Ritning upplýsir oss um aðeins þrjá erkiengla, Mikael, verndarengil Gyðinga, Dan. 10: 21. "Þó vil ég gjöra þér kunnugt, hvað skrifað er í bók sannleikans, þótt enginn veiti mér lið móti þeim, nema Mikael, verndarengill yðar." Gabríel, sem nokkuð oft er nefndur og boðaði Maríu mey fæðingu Drottins Jesú Krists, og svo Lúsifer, sem þýðir: sá sem ljósið ber, en síðar meir hefur hann með framkomu sinni og verkum áunnið sér þau nöfn, sem rituð eru í Op. 12: 9. "Og varpað var niður drekanum mikla, hinum gamla höggormi, sem afvegaleiðir alla heimsbyggðina - honum var varpað niður á jörðina, og englum hans var varpað niður með honum." Þau sömu nöfn eru endurtekin í Op. 20: 2.* En í 2. Kor. 4: 4. er hann nefndur "guð".. "Þar sem guð þessarar aldar* hefur blindað hugsanir hinna vantrúuðu, til þess að ekki skuli skína birta af fagnaðarerindinu um dýrð Krists, Hans, sem er ímynd Guðs." * Í eldri íslenzkri og enskri þýðingu er hann nefndur "guð þessa heims."

Viðkomandi hættunni, sem í því felst að útþurrka þessi nöfn, getum við lesið í Op. 22: 18.-20. "Ég votta fyrir hverjum þeim manni, sem heyrir spádómsorð þessarar Bókar, að leggi nokkur við þau, mun Guð á hann leggja þær plágur, sem um er ritað í þessari Bók. Og taki nokkur burt nokkuð af orðum Spádómsbókar þessarar, þá mun guð burttaka hlut hans í tré lífsins og í borginni helgu, sem um er ritað í þessari Bók. Sá, sem þetta vottar, segir: "Já, Ég kem skjótt. Amen. Kom þú, Drottinn Jesú!"

Sjá einnig orð Jesú Krists í Mark. 8: 38; Lúk 10: 18; Lúk. 12:5.*

Næst skulum vér íhuga hina eftirtektar- og undraverðu lýsingu af þessum ljómandi fallega engli, Lúsifer. "Sonur morgunsins" var hans dýrðartitill, áður en hann gjörði uppreisn gegn Guði. Í spádómi Esekíels 28: 12.-19. segir: Og orð Drottins kom til mín svo hljóðandi: "Mannsson hef upp harmhljóð yfir konunginum í Týrus (konungurinn í Týrus táknar Lúsifer, djöfull) og seg við hann: Svo segir Herrann Drottinn: Þú varst ímynd innsiglishrings, fullur af speki og fullkominn að fegurð! Þú varst í Eden, aldingarði Guðs. Þú varst þakinn alls konar dýrum  steinum: karbunkel, smaragð og umgjörðir þínar og útflúr var gjört af gulli; daginn, sem þú varst skapaður, var það búið til. - Ég hafði skipað þig verndarkerúb; þú varst á hinu heilaga Guðsfjalli; þú gekkst innan um glóandi steina. Þú varst óaðfinnanlegur í breytni þinni frá þeim degi, er þú varst skapaður, þar til er yfirsjó (iniquity = ranglæti Ensk Biblía) fannst hjá þér. Fyrir þína miklu verzlun fylltir þú þig hið innra ofríki og syndgaðir; þá óhelgaði Ég þig og rak þig burt af Guðsfjallinu og tortímdi þér, þú verndarkerúb, burt frá hinum glóandi steinum. Hjarta þitt varð hrokafullt af fegurð þinni; þú gjörðir speki þína að engu vegna viðhafnarljóma þíns. Ég varpaði þér til jarðar, ofurseldi þig konungum, svo að þeir mættu horfa nægju sína á þig. Með hinum mörgu misgjörðum þínum, með hinni óráðvöndu kaupverzlun þinni vanhelgaðir þú helgidóma þína. Þá lét Ég eld brjótast út frá þér, hann eyddi þér, og Ég gjörði þig að ösku á jörðinni í augsýn allra er sáu þig. Allir þeir meðal þjóðanna, er þekktu þig, voru agndofa yfir þér; þú fórst voveiflega og ert eilíflega horfinn." (Eilíflega horfinn frá sinni miklu og dýrlegu tign). Sjá einnig 2. Pét. 2: 4. og Júdasarbréf 6 vers.* (Enda þótt þar sé um aðra engla að ræða).

Í Jesaja, kapítula 14: 12.-15.,* getum vér máski skilið ennþá betur tilgang, karakter, eðli og eiginleika óvinar okkar sálna, þar segir: "Hversu ertu hröpuð af himni áborna morgunstjarna." (Ísl.þýð).

"How art thou fallen from heaven, O, Lucifer, son of the morning." (Ensk Þýðing).

Hér snýr íslenzk þýðing nöfnunum alveg við, og tileinkar fallið af himni Herranum Jesú, eins og sjá má á eftirfarandi tilvitnunum: "Ég, Jesús hef sent engil minn til að votta fyrir yður þessa hluti í söfnuðinum. Ég er rótarkvistur og kyn Davíðs, stjarnan skínandi, morgunstjarnan." Op. 22: 16.

Verð ég því hér að nota ensku þýðinguna  12 vers.. "Hversu ert þú fallinn af himni, ó Lúsifer, sonur morgunsins"... 13 vers. "Af því þú sagðir í hjarta þínu: Ég vil upp stíga í himininn. Ég vil upphefja hásæti mitt ofar stjörnum Guðs." Ég vil, ég vil, ég vil, fimm sinnum í ensku þýðingunni. Ég vil upp, upp, og yfir allt.

Af þessu og fleiru, getum við séð og skilið algjörlega og fullkomna aðstæðu á karakter, eðli og eiginleikum höggormsins (djöfulsins) annars vegar.

Hins vegar, þótt ekki sé nema aðeins með fáum orðum, gætum vér hugleitt eða íhugað karakter, eðli og eiginleika Guðs og Jesú Krist: "Því að svo elskaði Guð heiminn, að Hann gaf Son sinn eingetinn, til þess að hver, sem á Hann trúir, glatist ekki, heldur hafi eilíft líf." Jóh. 3: 16. Fyrir þetta megum vér lofa Guð, því ritað er: "Allir hafa syndgað, og skortir Guðs dýrð." Róm. 3: 23. en Hann, Guðs eingetinn Sonur -fórnarlambið Guðs, oss til handa. - "Sjá Guðs-Lambið, er ber synd heimsins." Jóh. 1: 29.b. - "Hann drýgði ekki synd, og svik voru ekki fundin í hans munni." 1. Pét. 2: 22.

 - "Því að þér þekkið náð Drottins vors Jesú Krists, að Hann, þótti ríkur væri, gjörðist yðar vegna fátækur, til þess að þér auðguðust af fátækt Hans."  2. Kor. 8: 9. "Því að þér vitið, að þér eruð eigi leystir með forgengilegum hlutum, silfri eða gulli, frá fánýtri hegðun yðar, er þér höfðuð að erfiðum tekið frá feðrum yðar, heldur með dýrmætu Blóði Krists, eins og lýtalauss og óflekkaðs lambs."1. Pét. 1: 18.-19.  "Til þess birtist Guðs sonur, að hann skyldi brjóta niður verk djöfulsins. 1. Jóh. 3: 8.b. 1. Jóh. 5: 9.-21. *

Hann kom úr dýrð síns föður á jörðina til vor, ekki til þess að gjöra sinn vilja, heldur Síns Föður. "Því að ég hef stigið niður af himni, ekki til þess að gjöra vilja minn, heldur vilja þess sem sendi mig. - Því að þetta er vilji föður míns, að hver sem sér soninn og trúir á hann, hafi eilíft líf, og ég mun upp vekja hann á efsta degi." Jóh. 6: 38. 40., Jóh. 17: 25.-26.* " Og er Hann kom fram að ytra hætti sem maður, lítillækkaði Hann sjálfan sig, og varð hlýðinn allt fram í dauða, já fram í dauða á krossi." Fil. 2: 8. Ritað er: "Bölvaður er hver sá, sem á tré hangir." Gal. 3: 13.b. "Minna gat oss ekki nægt vorra synda vegna, til þess að geta keypt oss Guði til handa með blóði sínu." Hebr. 9: 22.  "Og þeir syngja nýjan söng: Verður ert þú að taka við bókinni og ljúka upp innsiglum hennar, því að þér var slátrað og þú keyptir menn Guðs til handa með blóði þínu af sérhverri kynkvísl og tungu, lýð og þjóð. "Op. 5: 9.

Bæði Meistarinn, Drottinn Jesú Kristur, og hans postular, gjöra á mörgum stöðum glöggan greinarmun á börnum Guðs og börnum djöfulsins, (Jóh. 8: 44.)* (1. Jóh. 3: 10.)*  einnig andlega dauðum, og þeim sem lífið hafa öðlast í Honum (Kristi) , til þess að geta flutt Fagnaðarboðskapinn. ... "Lát hina dauðu jarða sína dauðu, en far þú og boða Guðsrík." Lúk. 9:60. ... "Þá voruð þér dauðir vegna afbrota yðar og synda." Efes. 2: 1. - Þess vegna: aðeins fyrir hlýðni Jesú Krists og friðarþægingu á krossinum fyrir Hans Sáttmála-Blóð, er oss opinn vegurinn til eilífs lífs og friðar við Guð. (Efes. 2. 13.-23.)*  - (Jóh. 3: 16.)* - (Hebr. 9: 22.)*

Eins og frelsun er virkileiki, svo er einnig glatað ástand virkileiki, og eins og Himnaríki er raunverulegt, og umritað sem sælustaður, svo er líka einnig Helvíti raunverulegt sem kvalastaður, eins og um er ritað í Heilagri Ritningu.

Þessi stutta skilgreining á góðu og illu, sælu og vansælu er fullnægjandi til að sýna hversu gjörólíkt er karakter, eðli og eiginleiki Guðs og Drottins Jesú Krists annars vegar, en höggormsins, drekans, dýrsins og djöfulsins hins vegar.

Þess vegna er Drottinn Jesú Kristur hinn Sanni Guð og Eilífa lífið. Sjá og les Post. 4: 12.* Post 12: 1.,* 1 Jóh. 5: 20.,* Jóh. 10: 9.-11.*

"Að lokum: Styrkist nú í Drottni og í krafti máttar hans. Klæðist alvæpni Guðs, til þess að þér getið staðist vélabrögð djöfulsins. Því að baráttan, sem vér eigum í, er ekki við menn af holdi og blóði, heldur við tignirnar og völdin, við heimsdrottna þessa myrkurs, við andaverur vonskunnar í himingeimnum. Takið því alvæpni Guðs, til þess að þér getið veitt mótstöðu á hinum vonda degi og haldið velli, þegar þér hafið sigrað allt. Standið því gyrtir sannleika um lendar yðar og klæddir brynju réttlætisins og skóaðir á fótunum með fúsleik til að flytja fagnaðarboðskap friðarins. Takið umfram allt skjöld trúarinnar, sem þér getið slökkt með öll hin eldlegu skeyti hins vonda. Takið við hjálmi hjálpræðisins og sverði andans, sem er Guðs orð. Gjörið það með bæn og beiðni og biðjið á hverri tíð í anda. Verið því árvakrir og staðfastir í bæn fyrir öllum heilögum. Biðjið fyrir mér, að mér verði gefin orð að mæla, þá er ég lýk upp munni mínum, til þess að ég kunngjöri með djörfung leyndardóm fagnaðarerindisins." Efes. 6: 10.-19.

Heilög Ritning fræðir oss um, að þessi yfirburða fallegi engill, Lúsifer, hafi haft háveglegt embætti á himnum, þar til hann gerði uppreisn gegn Guði, því ritað er: Ég hafði skipað þig verndarkerúb." Líklegt er að það embætti hafi verið prestsembætti, sem gæta átti réttar og einnig sannrar tilbeiðslu til Drottins Guðs skapara síns, en ekki til sjálfs sín aða annars þess, sem gæta átti réttar og einnig sannrar tilbeiðslu til Drottins Guðs skapara síns, en ekki til sjálfs sín, eða annars þess, sem skapað var. Til þess benda orð Drottins Jesú Krists töluð til djöfulsins: "Drottinn Guð þinn átt þú að tilbiðja og þjóna honum einum." Lúk. 4: 8.b. Lúk. 4. kapítuli.* Sá gamli djöfull og Satan er enginn klaufi né viðvaningur í að teyma velflesta presta og prófessora burtu frá Orði Krossins Jesú Krists, sem þeir voru vígðir til að prédika sér og lýðnum, frá glötun og til eilífs lífs, Jóh. 3: 16.* Satan segir þeim að úrelt sé að byggja trú sína á því, en lætur þá í þess stað búa til skáldsögur, leikrit, andatrú o.fl., sér og öðrum til stórtjóns. Jafnvel er svo langt inn í vantrúna gengið að hafa sambönd við "andaverur vonzkunnar í himingeimnum," með miðilsfundum og komast þannig á fremstu brún geigvænlegrar glötunar.

Æðsta embætti veitt í nýrri sköpun í Drottni Jesú Kristi er prestsembætti. Hann (Lambið) keypti menn Guði til handa með Blóði sínu af sérhverri kynkvísl og tungu og lýð og þjóð. (Op. 5 kapítuli;* Op. 20: 4.-6.)* Honum séu eilífar þakkir, vegsend og dýrð. Amen. Reykjavík í desember 1952.

HÉR LÝKUR SJÁLFU RITINU.

Hér fyrir neðan eru ritningarvers úr Heilagri Ritningu sem höfundur ritsins "Tilvera Djöfulsins" vitnar í en skráir ekki í ritinu sjálfu. Hægt að lesa ritningarversin við hentugt tækifæri.

* 1. Kon. 18: 21.40.

Þá gekk Elía fram fyrir allan lýðinn og mælti: ,,Hversu lengi ætlið þér að haltra til beggja hliða? Sé Drottinn hinn sanni Guð, þá fylgið honum, en ef Baal er það, þá fylgið honum."` En lýðurinn svaraði honum engu orði. Þá mælti Elía til lýðsins: ,,Ég er einn eftir af spámönnum Drottins, en spámenn Baals eru fjögur hundruð og fimmtíu. Fáið oss nú tvö naut. Skulu Baalsspámenn velja sér annað nautið og hluta það sundur og leggja á viðinn, en leggja eigi eld að, en ég mun fórna hinu nautinu og leggja á viðinn, en leggja eigi eld að. Ákallið síðan nafn yðar guðs, en ég mun ákalla nafn Drottins. Sá guð, sem svarar með eldi, er hinn sanni Guð." Þá svaraði allur lýðurinn og sagði: ,,Þetta er vel mælt." Þá sagði Elía við spámenn Baals: ,,Veljið yður nú annað nautið og fórnið fyrst, því að þér eruð svo margir, og ákallið nafn yðar guðs, en leggið eigi eld að." Þá tóku þeir nautið og fórnuðu því og ákölluðu nafn Baals frá morgni og til hádegis og sögðu: ,,Baal, svara þú oss!" En þar var steinhljóð og ekkert svar. Og þeir höltruðu kringum altarið, sem þeir höfðu gjört. En er komið var hádegi, tók Elía að gjöra gys að þeim og mælti: ,,Kallið hárri röddu, því að hann er guð. Hann er hugsi, eða hefir brugðið sér burt, eða er farinn í ferð. Ef til vill er hann sofnaður og verður fyrst að vakna." En þeir kölluðu hárri röddu og ristu á sig skinnsprettur að sínum sið með sverðum og spjótum, uns þeim blæddi. En er komið var fram yfir hádegi, komust þeir í guðmóð, þar til bera átti fram matfórnina. En þar var steinhljóð og ekkert svar og engin áheyrn. Þá sagði Elía við allan lýðinn: ,,Gangið hingað til mín!" Og allur lýðurinn gekk til hans. Þá reisti hann við altari Drottins, er niður hafði verið rifið. Og Elía tók tólf steina, eftir ættkvíslatölu sona Jakobs - þess manns er orð Drottins hafði komið til, svolátandi: ,Ísrael skalt þú heita!` - og reisti af steinunum altari í nafni Drottins og gjörði skurð umhverfis altarið, á stærð við reit, er í fara tvær seur útsæðis. Síðan lagði hann viðinn á altarið, hlutaði sundur nautið og lagði það ofan á viðinn. Því næst mælti hann: ,,Fyllið fjórar skjólur með vatni og hellið yfir brennifórnina og viðinn."  Þeir gjörðu svo. Þá mælti hann: ,,Gjörið það aftur." Og þeir gjörðu það aftur. Og enn mælti hann: ,,Gjörið það í þriðja sinn." Og þeir gjörðu það í þriðja sinn. Og vatnið rann allt í kringum altarið. Jafnvel skurðinn fyllti hann vatni. En í það mund, er matfórnina skyldi fram bera, gekk Elía spámaður fram og mælti: ,,Drottinn, Guð Abrahams, Ísaks og Ísraels! Lát í dag kunnugt verða, að þú ert Guð í Ísrael og ég þjónn þinn og að ég hefi gjört alla þessa hluti að þínu boði. Bænheyr mig, Drottinn! Bænheyr mig, að lýður þessi megi komast að raun um, að þú, Drottinn, ert hinn sanni Guð, og að þú snýrð aftur hjörtum þeirra." Þá féll eldur Drottins niður og eyddi brennifórninni, viðnum, steinunum og grassverðinum, og vatnið í skurðinum þurrkaði hann einnig upp. Og er allur lýðurinn sá það, féllu þeir fram á ásjónur sínar og sögðu: ,,Drottinn er hinn sanni Guð, Drottinn er hinn sanni Guð!" En Elía sagði við þá: ,,Takið höndum spámenn Baals. Látið engan þeirra komast undan!" Og þeir handtóku þá, og Elía fór með þá niður að Kísonlæk og banaði þeim þar. "

* Lúkas. 4: 1.-13.

En Jesús sneri aftur frá Jórdan, fullur af heilögum anda. Leiddi andinn hann um óbyggðina fjörutíu daga, en djöfullinn freistaði hans. Ekki neytti hann neins þá daga, og er þeir voru liðnir, var hann hungraður. En djöfullinn sagði við hann: ,,Ef þú ert sonur Guðs, þá bjóð þú steini þessum, að hann verði að brauði." Og Jesús svaraði honum: ,,Ritað er: ,Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði." Þá fór hann með hann upp og sýndi honum á augabragði öll ríki veraldar. Og djöfullinn sagði við hann: ,,Þér mun ég gefa allt þetta veldi og dýrð þess, því að mér er það í hendur fengið, og ég get gefið það hverjum sem ég vil. Ef þú fellur fram og tilbiður mig, skal það allt verða þitt." Jesús svaraði honum: ,,Ritað er: Drottin, Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum." Þá fór hann með hann til Jerúsalem, setti hann á brú musterisins og sagði við hann: ,,Ef þú ert sonur Guðs, þá kasta þér hér ofan, því að ritað er: Hann mun fela englum sínum að gæta þín og: þeir munu bera þig á höndum sér, að þú steytir ekki fót þinn við steini." Jesús svaraði honum: ,,Sagt hefur verið: ,Ekki skalt þú freista Drottins, Guðs þíns."Og er djöfullinn hafði lokið allri freistni, vék hann frá honum að sinni.

* 1. Mós. 3: 1.-4 - 5.

Höggormurinn var slægari en öll önnur dýr merkurinnar, sem Drottinn Guð hafði gjört. Og hann mælti við konuna: "Er það satt, að Guð hafi sagt: ‘Þið megið ekki eta af neinu tré í aldingarðinum'?" Þá sagði konan við höggorminn: "Af ávöxtum trjánna í aldingarðinum megum við eta, en af ávexti trésins, sem stendur í miðjum aldingarðinum, ,af honum,' sagði Guð, , megið þið ekki eta og ekki snerta hann, ella munuð þið deyja.'" Þá sagði höggormurinn við konuna: "Vissulega munuð þið ekki deyja!" En Guð veit, að jafnskjótt sem þið etið af honum, munu augu yðar upp ljúkast, og þið munuð verða eins og Guð og vita skyn góðs og ills."

* Op. 20: 2.

"Og hann tók drekann, þann gamla höggorm, sem er djöfull og Satan, og batt hann um þúsund ár."

* Mark. 8: 38;

"En þann sem blygðast sín fyrir mig og mín orð hjá þessari ótrú, syndugu kynslóð, mun mannsonurinn blygðast sín fyrir, er hann kemur í dýrð föður síns með heilögum englum."

* Lúk 10: 18;

"En hann mælti við þá: ég sá Satan hrapa af himni sem eldingu."

Lúk. 10: 19.-20.

Viðbót: "Ég hef gefið yður vald að stíga á höggorma og sporðdreka og yfir öllu óvinarins veldi. Alls ekkert mun yður mein gjöra. Gleðjumst samt ekki af því, að andarnir eru yður undirgefnir, gleðjist öllu heldur af hinu, að nöfn yðar eru skráð í himnum."

*Lúk. 12:5. "Ég skal sýna yður, hvern þér eigið að hræðast. Hræðist þann, er hefur vald að deyða og að því búnu varpa í helvíti. Já, ég segi yður, hræðist hann."

*2. Pét. 2: 4. "Ekki þyrmdi Guð englunum, er þeir syndguðu. Hann steypti þeim niður í undirdjúpin og setti þá í myrkrahella, þar sem þeir eru geymdir til dómsins."

*Júdasarbréf 6 vers. "Og englana, sem ekki gættu tignar sinnar, heldur yfirgáfu eigin bústað, hefur hann í myrkri geymt í ævarandi fjötrum til dóms hins mikla dags."

*Jes.14: 12.-15. "Hversu ertu hröpuð af himni þú árborna morgunstjarna! Hversu eru þú að velli lagður, undirokari þjóðanna! Þú sem sagðir í hjarta þínu; "Ég vil upp stíga til himins! Ofar stjörnum Guðs vil ég reisa veldistól minn! Á þingfjalli guðanna vil ég setjast að, yst í norðri. Ég vil upp stíga ofar skýjaborgunum, gjörast líkur Hinum hæsta!" Já, til Heljar var þér niður varpað, í neðstu fylgsni grafarinnar.

* 1. Jóh. 5: 9.-21.

Vér tökum manna vitnisburð gildan, en vitnisburður Guðs er meiri. Þetta er vitnisburður Guðs, hann hefur vitnað um son sinn. Sá sem trúir á Guðs son hefur vitnisburðinn í sjálfum sér. Sá sem ekki trúir Guði hefur gjört hann að lygara, af því að hann hefur ekki trúað á þann vitnisburð, sem Guð hefur vitnað um son sinn. Og þetta er vitnisburðurinn, að Guð hefur gefið oss eilíft líf og þetta líf er í syni hans. Sá sem hefur soninn á lífið, sá sem ekki hefur Guðs son á ekki lífið. Þetta hef ég skrifað yður, sem trúið á nafn Guðs sonar, til þess að þér vitið, að þér hafið eilíft líf. Og þetta er sú djörfung, sem vér höfum til hans: Ef vér biðjum um eitthvað eftir hans vilja, þá heyrir hann oss. Og ef vér vitum, að hann heyrir oss, um hvað sem vér biðjum, þá vitum vér, að oss eru veittar þær bænir, sem vér höfum beðið hann um. Ef einhver sér bróður sinn drýgja synd, sem er ekki til dauða, þá skal hann biðja, og Guð mun gefa honum líf, þeim sem ekki syndgar til dauða. Til er synd til dauða. Fyrir henni segi ég ekki að hann skuli biðja. Allt ranglæti er synd, en til er synd, sem ekki er til dauða. Vér vitum, að hver sem af Guði er fæddur syndgar ekki, sá sem af Guði er fæddur varðveitir hann og hinn vondi snertir hann ekki. Vér vitum, að vér tilheyrum Guði og allur heimurinn er á valdi hins vonda.Vér vitum, að Guðs sonur er kominn og hefur gefið oss skilning, til þess að vér þekkjum sannan Guð. Vér erum í hinum sanna Guði fyrir samfélag vort við son hans Jesú Krist. Hann er hinn sanni Guð og eilífa lífið.

Börnin mín, gætið yðar fyrir skurðgoðunum.

* Jóh. 17: 25.-26.

"Réttláti faðir, heimurinn þekkir þig ekki, en ég þekki þig, og þessir vita, að þú sendir mig. Ég hef kunngjört þeim nafn þitt og mun kunngjöra, svo að kærleikur þinn, sem þú hefur auðsýnt mér, sé í þeim og ég sé í þeim."

*Jóh. 8: 44.  "Þér eigið djöfulinn að föður og viljið gjöra það, sem faðir yðar girnist. Hann er manndrápari frá upphafi og aldrei í sannleikanum, því í honum finnst enginn sannleikur. Þegar hann lýgur fer hann að eðli sínu, því hann er lygari og lyginnar faðir."

*1. Jóh. 3: 10. "Af þessu eru augljós börn Guðs og börn djöfulsins. Sá sem iðkar ekki réttlætið og elskar ekki bróður sinn heyrir ekki Guði til."

*Efes. 2. 13.-23.

Í honum eruð og þér, eftir að hafa heyrt orð sannleikans, fagnaðarerindið um sáluhjálp yðar og tekið trú á hann og verið merktir innsigli heilags anda, sem yður var fyrirheitið. Hann er pantur arfleifðar vorrar, að vér verðum endurleystir Guði til eignar, dýrð hans til vegsemdar. Eftir að hafa heyrt um trú yðar á Drottin Jesú og um kærleika yðar til allra heilagra, hef ég þess vegna ekki heldur látið af að þakka fyrir yður, er ég minnist yðar í bænum mínum. Ég bið Guð Drottins vors Jesú Krists, föður dýrðarinnar, að gefa yður anda speki og opinberunar, svo að þér fáið þekkt hann. Ég bið hann að upplýsa sálarsjón yðar, svo að þér skiljið, hver sú von er, sem hann hefur kallað oss til, hver ríkdómur hans dýrlegu arfleifðar er, sem hann ætlar oss meðal hinna heilögu, og hver hinn yfirgnæfandi máttur hans við oss, sem trúum. En þetta er sami áhrifamikli, kröftugi mátturinn, sem hann lét koma fram í Kristi, er hann vakti hann frá dauðum og lét hann setjast sér til hægri handar í himinhæðum, ofar hverri tign og valdi og mætti, ofar öllum herradómi og sérhverju nafni, sem nefnt er, ekki aðeins í þessari veröld, heldur og í hinni komandi. Allt hefur hann lagt undir fætur honum og gefið hann kirkjunni sem höfuðið yfir öllu. En kirkjan er líkami hans og fyllist af honum, sem sjálfur fyllir allt í öllu.

*Jóh. 3: 16.

"Því að svo elskaði Guð heiminn, að Hann gaf Son sinn eingetinn, til þess að hver, sem á Hann trúir, glatist ekki, heldur hafi eilíft líf."

*Hebr. 9: 22.

"Og samkvæmt lögmálinu er þjónustuna. Og samkvæmt lögmálinu e það nálega allt, sem hreinsar með blóði, og eigi fæst fyrirgefning án úthellingar blóðs."

*Post. 4: 12.

"Ekki er hjálpræði i neinum öðrum. Og ekkert annað nafn er mönnum gefið um víða veröld, sem getur frelsað oss."

*Post 12: 1.

"Um þessar mundir lét Heródes konungur leggja hendur á nokkra úr söfnuðinum og misþyrma þeim.

*1 Jóh. 5: 20.  

"Vér vitum, að Guðs sonur er kominn og hefur gefið oss skilning, til þess að vér þekkjum sannan Guð fyrir samfélag vort við son hans Jesú Krist. Hann er hinn sanni Guð og eilífa lífið."

*Jóh. 10: 9.-11.

"Ég er dyrnar. Sá sem kemur inn og út og finna haga. Þjófurinn kemur ekki nema til að stela og slátra og eyða. Ég er kominn til þess, að þeir hafi líf, líf í fullri gnægð. Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina."

*Lúk. 4. kapítuli.

En Jesús sneri aftur frá Jórdan, fullur af heilögum anda. Leiddi andinn hann um óbyggðina fjörutíu daga, en djöfullinn freistaði hans. Ekki neytti hann neins þá daga, og er þeir voru liðnir, var hann hungraður. En djöfullinn sagði við hann: ,,Ef þú ert sonur Guðs, þá bjóð þú steini þessum, að hann verði að brauði." Og Jesús svaraði honum: ,,Ritað er: ,Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði." Þá fór hann með hann upp og sýndi honum á augabragði öll ríki veraldar. Og djöfullinn sagði við hann: ,,Þér mun ég gefa allt þetta veldi og dýrð þess, því að mér er það í hendur fengið, og ég get gefið það hverjum sem ég vil. Ef þú fellur fram og tilbiður mig, skal það allt verða þitt." Jesús svaraði honum: ,,Ritað er: Drottin, Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum." Þá fór hann með hann til Jerúsalem, setti hann á brún musterisins og sagði við hann: ,,Ef þú ert sonur Guðs, þá kasta þér hér ofan, því að ritað er: Hann mun fela englum sínum að gæta þín og: þeir munu bera þig á höndum sér, að þú steytir ekki fót þinn við steini." Jesús svaraði honum: ,,Sagt hefur verið: ,Ekki skalt þú freista Drottins, Guðs þíns." Og er djöfullinn hafði lokið allri freistni, vék hann frá honum að sinni. En Jesús sneri aftur til Galíleu í krafti andans, og fóru fregnir af honum um allt nágrennið. Hann kenndi í samkundum þeirra, og lofuðu hann allir. Hann kom til Nasaret, þar sem hann var alinn upp, og fór að vanda sínum á hvíldardegi í samkunduna og stóð upp til að lesa. Var honum fengin bók Jesaja spámanns. Hann lauk upp bókinni og fann staðinn, þar sem ritað er: Andi Drottins er yfir mér, af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins. Síðan lukti hann aftur bókinni, fékk hana þjóninum og settist niður, en augu allra í samkundunni hvíldu á honum. Hann tók þá að tala til þeirra: ,,Í dag hefur rætst þessi ritning í áheyrn yðar." Og allir lofuðu hann og undruðust þau hugnæmu orð, sem fram gengu af munni hans, og sögðu: ,,Er hann ekki sonur Jósefs?" En hann sagði við þá: ,,Eflaust munuð þér minna mig á orðtakið: ,Læknir, lækna sjálfan þig!` Vér höfum heyrt um allt, sem gjörst hefur í Kapernaum. Gjör nú hið sama hér í ættborg þinni." Enn sagði hann: ,,Sannlega segi ég yður, engum spámanni er vel tekið í landi sínu. En satt segi ég yður, að margar voru ekkjur í Ísrael á dögum Elía, þegar himinninn var luktur í þrjú ár og sex mánuði, og mikið hungur í öllu landinu, og þó var Elía til engrar þeirra sendur, heldur aðeins til ekkju í Sarepta í Sídonlandi. Og margir voru líkþráir í Ísrael á dögum Elísa spámanns, og enginn þeirra var hreinsaður, heldur aðeins Naaman Sýrlendingur."Allir í samkunduhúsinu fylltust reiði, er þeir heyrðu þetta, spruttu upp, hröktu hann út úr borginni og fóru með hann fram á brún fjalls þess, sem borg þeirra var reist á, til þess að hrinda honum þar ofan. En hann gekk gegnum miðja mannþröngina og fór leiðar sinnar. Hann kom nú ofan til Kapernaum, borgar í Galíleu, og kenndi þeim á hvíldardegi. Undruðust menn mjög kenningu hans, því að vald fylgdi orðum hans. Í samkunduhúsinu var maður nokkur, er haldinn var óhreinum, illum anda. Hann æpti hárri röddu: ,,Æ, hvað vilt þú oss, Jesús frá Nasaret? Ert þú kominn að tortíma oss? Ég veit, hver þú ert, hinn heilagi Guðs." Jesús hastaði þá á hann og mælti: ,,Þegi þú, og far út af honum." En illi andinn slengdi honum fram fyrir þá og fór út af honum, en varð honum ekki að meini. Felmtri sló á alla, og sögðu þeir hver við annan: ,,Hvaða orð er þetta? Með valdi og krafti skipar hann óhreinum öndum, og þeir fara." Og orðstír hans barst út til allra staða þar í grennd. Úr samkundunni fór hann í hús Símonar. En tengdamóðir Símonar var altekin sótthita, og báðu þeir hann að hjálpa henni. Hann gekk að, laut yfir hana og hastaði á sótthitann, og fór hann úr henni. En hún reis jafnskjótt á fætur og gekk þeim fyrir beina. Um sólsetur komu allir þeir, er höfðu á sínum vegum sjúklinga haldna ýmsum sjúkdómum, og færðu þá til hans. En hann lagði hendur yfir hvern þeirra og læknaði þá. Þá fóru og illir andar út af mörgum og æptu: ,,Þú ert sonur Guðs." En hann hastaði á þá og bannaði þeim að tala, því að þeir vissu, að hann var Kristur. Þegar dagur rann, gekk hann burt á óbyggðan stað, en mannfjöldinn leitaði hans. Þeir fundu hann og vildu aftra því, að hann færi frá þeim. En hann sagði við þá: ,,Mér ber og að flytja hinum borgunum fagnaðarerindið um Guðs ríki, því að til þess var ég sendur." Og hann prédikaði í samkundunum í Júdeu.

*Op. 5 kapítuli.

Í hægri hendi hans, er í hásætinu sat, sá ég bók, skrifaða innan og utan, innsiglaða sjö innsiglum. Og ég sá sterkan engil, sem kallaði hárri röddu: ,,Hver er maklegur að ljúka upp bókinni og leysa innsigli hennar?" En enginn var sá á himni eða jörðu eða undir jörðunni, sem lokið gæti upp bókinni og litið í hana. Og ég grét stórum af því að enginn reyndist maklegur að ljúka upp bókinni og líta í hana. En einn af öldungunum segir við mig: ,,Grát þú eigi! Sjá, sigrað hefur ljónið af Júda ættkvísl, rótarkvistur Davíðs, hann getur lokið upp bókinni og innsiglum hennar sjö." Þá sá ég fyrir miðju hásætinu og fyrir verunum fjórum og öldungunum lamb standa, sem slátrað væri. Það hafði sjö horn og sjö augu, og eru það sjö andar Guðs, sendir út um alla jörðina. Og það kom og tók við bókinni úr hægri hendi hans, er í hásætinu sat. Þegar það hafði tekið við henni, féllu verurnar fjórar og öldungarnir tuttugu og fjórir niður frammi fyrir lambinu. Þeir höfðu hver um sig hörpu og gullskálar, fullar af reykelsi, það eru bænir hinna heilögu. Og þeir syngja nýjan söng: Verður ert þú að taka við bókinni og ljúka upp innsiglum hennar, því að þér var slátrað og þú keyptir menn Guði til handa með blóði þínu af sérhverri kynkvísl og tungu, lýð og þjóð. Og þú gjörðir þá, Guði vorum til handa, að konungsríki og prestum. Og þeir munu ríkja á jörðunni. Þá sá ég og heyrði raust margra engla, sem stóðu hringinn í kringum hásætið og verurnar og öldungana, og tala þeirra var tíu þúsundir tíu þúsunda og þúsundir þúsunda. Þeir sögðu með hárri röddu: Maklegt er lambið hið slátraða að fá máttinn og ríkdóminn, visku og kraft, heiður og dýrð og lofgjörð. Og allt skapað, sem er á himni og jörðu og undir jörðunni og á hafinu, allt sem í þeim er, heyrði ég segja: Honum, sem í hásætinu situr, og lambinu, sé lofgjörðin og heiðurinn, dýrðin og krafturinn um aldir alda. Og verurnar fjórar sögðu: ,,Amen." Og öldungarnir féllu fram og veittu lotningu.

*Op. 20: 4.-6.*

"Og ég sá hásæti og menn settust í þau og dómsvald var þeim fengið, og ég sá sálir þeirra, sem hálshöggnir höfðu verið sakir vitnisburðar Jesú og sakir orðs Guðs. Það voru þeir hinir sömu sem höfðu ekki tilbeðið dýrið né líkneski þess og ekki fengið merki á enni sér og hönd. Og þeir lifnuðu og ríktu með Kristi um þúsund ár. En aðrir dauðir lifnuðu ekki fyrr en þúsund árin voru liðin. Þetta er fyrri upprisan. Sæll og heilagur er sá, sem á hlut í fyrri upprisunni. Yfir þeim hefur hinn annar dauði ekki vald, heldur munu þeir vera prestar Guðs og Krists og þeir munu ríkja með honum um þúsund ár."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Adda bloggar

ansi mögnuð grein hjá þér.takk fyrir að deila henni

Adda bloggar, 23.1.2008 kl. 17:00

2 identicon

Er djöfullinn geimvera?

Flosi Þorgeirsson (IP-tala skráð) 23.1.2008 kl. 17:44

3 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæl og blessuð. Takk fyrir innlitið. Ég vil meina að þetta rit útskýri sig sjáft  og þar kemur ekki fram að myrkrahöfðinginn sé geimvera en andaverur vonskunnar eru í himingeimnum. Shalom.

Rósa Aðalsteinsdóttir, 23.1.2008 kl. 18:03

4 Smámynd: Úlfar Þór Birgisson Aspar

Jæja Rósa mín þú heldur manni við efnið svo sannarlega,vel ýtarlegar greinar sem þú hefur fram að færa.Ég verð orðið vegna tímaleysis að lesa færslur þínar í 2 atrennum,ekki miskilja mig ég er þér þakklátur bara ég er mjög önnum kafinn þessa daga og get ekki bloggað eins og forðum þessvegna.Endilega haltu áfram að fræða okkur,ekki veitir nú af þessa dagana kveðja Úlli.

Úlfar Þór Birgisson Aspar, 23.1.2008 kl. 21:31

5 Smámynd: Erna Friðriksdóttir

Mér finst Guð ekkert alltaf vera góður eða sonur hans verð ég að segja. en bara mín skoðun enn ég svosem trúi nú eki á þessa kalla þarna uppí himnaríki, hvað þá á djöfulinn sjálfan

Erna Friðriksdóttir, 23.1.2008 kl. 23:50

6 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sælir strákar og takk fyrir innlitið.

Úlli minn ég veit að þú ert á eins konar vertíð eins og er. tilgangurinn með að setja þessi rit á vefinn er að fólk geti lesið þau þegar þau hafa tíma. Nú ef maður vill fræðast um þessi efni þá hef ég farið inn á leit.is og þá koma oft upp færslur sem hafa verið skrifaðar á mbl.is. Þá gagnast þessi rit sem voru skrifuð fyrir hálfri öld þeim sem vilja kynna sér þessi mál. þeir sem ekki vilja lesa þá er það allt í lagi mín vegna.

Valli minn hafðu það sem best. Við verðum í sambandi.

Rósa Aðalsteinsdóttir, 24.1.2008 kl. 02:07

7 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæl Erna bloggvinkona. Allt í lagi. Þér er velkomið að hafa þína skoðun. Langar að vitna í vers og bloggfærslu sem mér datt í hug þegar ég las innlegg þitt.

Kær kveðja/Rósa

"Því að orð Guðs er lifandi og kröftugt og beittara hverju tvíeggjuðu sverði og smýgur inn í innstu fylgsni sálar og anda, liðamóta og mergjar, það dæmir hugsanir og hugrenningar hjartans. Enginn skapaður hlutur er honum hulinn, allt er bert og öndvert augum hans. Honum eigum vér reikningsskil að gjöra. " Hebr. 4: 12.-13.

Við getum lesið um það í Heilagri Ritningu að Guð getur orðið reiður yfir vondri hegðun barna sinna. Alveg eins og foreldrar geta orðið reið vegna hegðun barna sinna. Sumir foreldrar meira að segja hafa ekki hemil á skapi sínu og eru ill og  blóta þegar þau eru að arga á börnin sín. Hvaðan kemur þessi illska? Ég svara fyrir mig að þessi illska kemur frá Satan og þau eru óviljandi að ákalla hinn illa yfir sig og börnin sín. En við erum svo lánsöm að geta beðið Guð fyrirgefningar og það geta börnin líka gert gagnvart foreldrum sínum.

 

Rósa Aðalsteinsdóttir, 24.1.2008 kl. 02:26

8 Smámynd: Jens Sigurjónsson

Gaman ad lesa tessa grein sem er mjog god.

Gud blessi tig.

Jens Sigurjónsson, 24.1.2008 kl. 03:37

9 Smámynd: Aðalbjörn Leifsson

Fín grein hjá þér Rósa, djöfulinn og englar hans vilja helst taka sér bólsetu í mönnum!

Aðalbjörn Leifsson, 24.1.2008 kl. 03:53

10 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sælir strákar. Við þurfum að muna að toga í bænastrenginn og biðja um varðveislu Drottins gegn allri vá. Þakka ykkur fyrir innlitið. Shalom

Rósa Aðalsteinsdóttir, 24.1.2008 kl. 13:09

11 Smámynd: Erna Friðriksdóttir

Sæl Rósa  :)  þú skrifar :

Við getum lesið um það í Heilagri Ritningu að Guð getur orðið reiður yfir vondri hegðun barna sinna............

Þá hugsa ég , verður mér þá refsað á einhvern hátt ef að honum finst ég ekki hegða mér vel ?

Kveðja þín bloggvinkona að pæla 

Erna Friðriksdóttir, 25.1.2008 kl. 17:21

12 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæl Erna. Ég hef skilið þetta ef við erum að framkvæma mjög slæma hluti. Ég varð allavega ekki vör við það þegar ég var unglingur og var stödd á Akureyri að Guð yrði reiður við mig þegar ég sló ungan mann í andlitið. Þessi ungi maður var að pirra mig fyrir utan Sjallann þegar ég og vinir mínir gegnu þar framhjá á leið heim til okkar. En ef við framkvæmum hluti sem eru gegn boðorðunum tíu eins og þú skalt ekki fremja morð þá veit ég að Guð fyrirgefur ef viðkomandi biður Guð um fyrirgefningu. En ef viðkomandi biður ekki fyrirgefningar getum sá hinn sami kallað yfir sig vanblessun, jafnvel reiði Guðs. Þetta á einnig við þjóð sem fer í stríð og framkvæmir viðbjóðslegt ódæði, þetta getur haft áhrif á alla þjóðina, s.s. vanblessun, þó svo að það voru bara forráðamenn sem tóku þessa ákvörðun. Vona að þetta hjálpi en ef ekki þá endilega skrifaðu aftur og ég mun biðja vini mína að hjálpa mér að útskýra það sem uppá vantar. Guð blessi þig.

Rósa Aðalsteinsdóttir, 25.1.2008 kl. 19:03

13 Smámynd: Erna Friðriksdóttir

Sæl Blogg vinkona.......   Það sem ég er að hugsa um ef að ég hef nú gert eitthvað af mér (hver gerir það nú ekki)         ég hef aldrei td framið morð, selt né notað dóp , enn kanski einhvern kjánagang            jæja en að trúin sé að manni sé refsað með þeim afleiðingum td að missa manninn sinn 25 ára, að missa föður sinn 62 ára í ömurlegu sjóslys, fá ólæknanlegan sjúkdóm og fleira sem að ég hef upplifað í missi ??

Er það meiningin ?? eða er ég að misskilja ?? 

Erna Friðriksdóttir, 25.1.2008 kl. 20:03

14 Smámynd: halkatla

þú ert með æðislegt blogg sem ég hlakka til að skoða betur, það er þvílíkt gaman að fá tækifæri til að sjá þessar greinar  ég hef oft séð þig gera athugasemdir en þá varstu ekki með blogg, mér leist líka vel á þær svo þetta er bara frábært :)

halkatla, 25.1.2008 kl. 20:18

15 Smámynd: halkatla

Erna, ég held ekki að trúin sé að refsa okkur eitthvað með þessum hætti heldur er m.a tilviljunum háð hversu ósanngjarnt lífið er fólki, því miður og það er óbærilegt að hugsa til þess hvað það getur margt hræðilegt gerst 

dómurinn sem á að koma seinna er ekki að eiga sér stað hér og nú gegnum nein verk, eða svo segir ritningin - þessvegna er maður oft að pirra sig á því að virkilega slæmt fólk sem gerir ranga hluti fær ekki makleg málagjöld svo við sjáum í þessu lífi, en góða fólkið þjáist.

halkatla, 25.1.2008 kl. 20:23

16 Smámynd: Erna Friðriksdóttir

Ó bay Anna Karen,,,,,,,,, ertu þá að meina að Stóri Dómurinn eigi ............líka eftir að hrynja yfir mig??    Ég veit ei hvað ég þoli mikið lengur...........en þó maður VERÐUR víst að taka því sem höndum ber....amk hingað til

Erna Friðriksdóttir, 25.1.2008 kl. 20:59

17 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sælar stelpur. Anna Karen svarar mjög vel og þakka ég henni fyrir hjálpina. Við vitum að allt illt er frá Myrkrahöfðingjanum sem vill meiða okkur. Jesús var sendur til okkar á jörðina til að leysa okkur úr viðjum hins illa. Hann dó á krossi fyrir syndir okkar og hann bar sjúkdóma okkar upp á krossins tré. Það er hinn illi sem leggur á okkur byrðar eins og sjúkdóma. Ég er alveg með það á hreinu að Guð almáttugur var ekki að refsa mér þegar mamma dó þegar ég var 9 ára gömul. Mamma var búin að berjast við illvígan sjúkdóm frá því hún var unglingur.

 Ég hef einmitt svipaða sögu og þú Erna. Ég veiktist af flogaveiki aðeins 2 ára, missti móður mína 9 ára, varð fyrir grófu kynferðislegu áreiti og einelti á vinnustað. Ég þurfti að þola niðurlægjandi framkomu starfsfélaga minna sem hefur meitt mig andlega og leitt til vefjagigtar. Ég mætti í spennutreyju í vinnu í fleiri ár og þetta hafði áhrif á vöðvana mína, andlega álagið sem ég var í. Ég var alltaf í vörn og sagði margt ljótt og gerði margt ljótt til að fela hvað mér leið illa. Svo kom ég heim og grét eftir vinnu og ég grét oft.

Ég fór oft til kvensjúkdómalæknis vegna þess að heimilislæknirinn vildi það og eins í krabbameinsskoðanir. Kvensjúkdómalæknirinn kom illa fram við mig og ég var oft þjáð á líkama og sál meðan á skoðun stóð og eins á eftir. Loksins þegar ég var send til annars kvensjúkdómalæknis var um seinan og ég varð að fara í skurðaðgerð. Ég var búin að vera með sjúkdóm sem heitir Slímhúðarflakk (vona að ég skrifi þetta rétt)

Ég er öryrki í dag og ég bý ásamt föður mínum sem er 82 ára. Fyrir 15 árum síðan var keyrt á hann og eftir það hefur hann ekki verið heill. Ég hef þurft að standa með honum þó ég sé í vandræðum með sjálfa mig. Hann hefur lent í hjartaáfalli og fengið gangráð og nú hef ég þurft að berjast fyrir honum í örugglega eitt ár um sjúkdóm sem við fengum ábendingu um frá sjúkraþjálfara hans sem enginn af læknunum vildu hlusta á okkur fyrr en nú í desember þegar afleysingarlæknir sem við höfðum aldrei hitt áður staðfesti þetta við okkur af fyrra bragði. Pabbi er kominn í rétta meðhöndlun núna. Hann datt fyrir nokkrum dögum á öxlina sem hann meiddist á nú í vikunni og líður illa þess vegna akkurat núna. Ég trúi ekki að þetta sé frá Guði. En við verðum víst að bíta í þessu súru epli og halda áfram.

Ég samhryggist Erna að hafa misst manninn þinn, föður þinn og síðan fengið ólæknandi sjúkdóm. Þetta er ömurlegt og ég trúi því að við höfum verið leiddar saman af Guði því við getum hjálpað hvor annarri. Ef þú klikkar á djókmyndina af mér þá á bak við myndina eru allar upplýsingar um mig s.s. netfang. Endilega sendu mér póst.

Guð blessi ykkur stelpur og Erna ég bið þig að senda mér póst. Kær kveðja

Rósa Aðalsteinsdóttir, 25.1.2008 kl. 22:56

18 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæl öll aftur. Í færslunni hér fyrir neðan er einnig svar frá mér sem getur að sumu leyti svarað umræðunni sem hefur átt sér stað hér. Það er svar til Hjalta Rúnars. Guð varveiti okkur frá allri mynd hins illa.  

Rósa Aðalsteinsdóttir, 25.1.2008 kl. 22:59

19 Smámynd: Erna Friðriksdóttir

Get ekki sent þér tölvupóst á þetta netfang ??? sendu mér á ernafri@simnet.is

Erna Friðriksdóttir, 28.1.2008 kl. 15:32

20 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll Erlingur. Þakka þér fyrir innlitið og fróðleikinn. Gaman að vita að Jónas Guðmundsson var frá Nesskaupsstað. Þar áttu margir trúaðir heima en fluttu á mölina. Ég vona að það sé einhver, sem býr þar í dag sem biður fyrir staðnum. Brandarinn fínn með staðsetninguna.  Með Njál, það var stórmerkileg saga.  Sammála þér að sumir andar eru góðir og aðrir illir. Kom sér vel að Njáll var forspár. Vona að andarnir hans hafi verið frá Guði, allavega reddaðist ýmislegt sem annars hefði farið illa. Það gekk aldeilis mikið á þarna á Suðurlandi og ég er bara alls ekki sátt hvernig endalok Gunnars á Hlíðarenda voru og einnig endalok Njáls. Ósátt við Hallgerði Langbrók.  Ég lifði mig alveg inní bókina og mér líkaði alls ekki óvinir Gunnars og Njáls.

Sæl Erna. Sendi tölvupóst strax. Guð blessi ykkur.

Rósa Aðalsteinsdóttir, 28.1.2008 kl. 16:29

21 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll Magnús. Takk fyrir innlitið. Búin að kíkja yfir til þín. Verum í bandi. Friðarkveðjur.

Rósa Aðalsteinsdóttir, 29.1.2008 kl. 00:54

22 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Maður þarf stundum að kíkja á dagatali, þegar maður les svona.  Sérstaklega á ártalið. Var ekki viss um hvort ég væri samtímamaður Jóns Magnússonar þumals. En dagatalið segir 2007, svo eitthvað virðist fattarinn langur hjá sumum.

Jón Steinar Ragnarsson, 29.1.2008 kl. 20:55

23 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

2008 raunar.

Jón Steinar Ragnarsson, 29.1.2008 kl. 20:56

25 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

´Þú veist væntanlega að þetta er sami prestur og skrifaði Píslarsöguna og startaði brennufárinu fyrir vestan er það ekki?  Galdrafárið. Ef þú lest þá bók, þá veistu hvað ég á við.

Jón Steinar Ragnarsson, 30.1.2008 kl. 09:18

26 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll Jón Steinar. Ég á bókina og ég brosi allan hringinn. Náði í bókina upp í bókahillu þegar þú fórst að tala um Jón Magnússon þumal. Þetta var virkilega skemmtileg umræða sem við áttum núna og ættfræðin fyndin. Ég var alveg viss að ég myndi tengjast honum í móðurætt. Talað var um að hann hafi verið prestur í Vatnsfirði. Nákvæmlega á því svæði sem móðurföður ætt mín er frá en skyldleiki minn við hann í móðurætt var lengra aftur en í gegnum föðurföður fólk mitt sem kom úr Þingeyjarsýslu. Takk fyrir skemmtilega umræðu.

Rósa Aðalsteinsdóttir, 30.1.2008 kl. 11:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband