21.1.2008 | 21:24
Er Biblían Guðsorð?
Er Biblían Guðsorð?
H.W.Á og H.S. 1955
Útgefandi:
Sigurður Jónsson, Bjarnastöðum
Grímsstaðarholti.
Útbýtt ókeypis.
Engin bók hefur verið gefin út á eins mörgum tungumálum og Biblían, engin bók í eins mörgum eintökum og Biblían, menn hafa rætt um hana, og deilt um hana, og vísindamenn hafa reynt með tækni sinn að sanna að ýmislegt í henni gæti ekki staðizt eftir þeirra dómi, en Biblían hefir staðizt.
Sumir segja, að Biblían sé ekkert annað en saga þeirrar þjóðar, sem reit hana, og margir telja hana fulla af mótsögnum. Enn aðrir vilja vinsa úr henni það, er þeim líkar, en hafna hinu, eins og menn gera yfirleitt með öll mannanna verk.
Ef við athugum Biblíuna sjáum við, að hún er svo snilldarlega rituð, að það er hverjum manni ofviða að skrifa slíka bók af eigin hyggjuviti.
Athugum til dæmis í gamla testamentinu þær lífsreglur, sem þar eru settar mönnum til eftirbreytni. Lesum spádómana, sem skrifaðir voru fyrir þúsundum ára síðan, hversu þeir hafa komið fram, og eru enn að rætast fyrir augum vorum. Til dæmis hin óviðjafnanlegu Móse lög, svo sem þetta í 5. Mós. 22: 1.-3: "Þegar þú sér naut eða sauð bróður þíns á slæðingi, þá skalt þú ekki ganga fram hjá þeim, heldur skal þú reka þau aftur til bróður þíns. En ef bróðir þinn býr eigi í grennd við þig eða ef þú þekkir hann ekki, þá skalt þú taka það heim til þín og hafa hjá þér, unz bróðir þinn leitar þess; þá skalt þú fá honum það aftur. Eins skalt þú fara með asna hans, og eins skalt þú fara með klæðnað hans, og eins skalt þú fara með hvern þann týndan hlut, er bróðir þinn hefir misst og þú fundið; þú mátt eigi leiða það hjá þér."
Ennfremur um orðheldni:
5. Mós. 23: 23. "Það, sem komið hefir yfir varir þínar skalt þú halda og breyta eftir því, eins og þú sjálfviljuglega hefir heitið Drottni, Guði þínum, það sem þú hefir talað með munni þínum."
Mós. 16: 19. "Þú skalt eigi halla réttinum, þú skalt eigi gjöra þér mannamun og eigi þiggja mútur, því að mútan blindar augu hinna vitru og umhverfir máli hinna réttlátu. Réttlætinu einu skalt þú framfylgja, til þess að þú megir lifa og fá til eignar landið, sem Drottinn, Guð þinn gefur þér."
5. Mós. 19. 14. -15. "Þú skalt eigi færa úr stað landamerki náunga þíns, þau er forfeðurnir hafa sett á arfleið þinni, er þú munt eignast í landinu sem Drottinn, Guð þinn gefur þér til eignar. Eigi skal eitt vitni koma fram gegn manni, þá er um einhvern glæp eða einhverja synd er að ræða - hvaða synd sem það nú er, sem hann hefir drýgt; því aðeins skal framburður gildur vera, að tveir eða þrír vottar beri."
5. Mós. 24: 19. "Þegar þú sker upp korn á akri þínum, og gleymir kornbundinni úti á akrinum, þá skalt þú ekki snúa aftur og sækja það, útlendingurinn, munaðarleysingin og ekkjan mega fá það, til þess að Drottinn, Guð þinn blessi þig í öllu, sem þú tekur þér fyrir hendur."
5. Mós 24: 14. "Þú skalt eigi beita fátækan og þurfandi daglaunamann ofríki, hvort sem hann er einn af bræðrum þínum, eða útlendingum þeim, er dvelja í landi þínu - en þú skalt greiða honum kaup hans sama daginn áður en sól er sezt, því að hann er fátækur og hann langar til að fá það."
5. Mós. 24: 17. "Þú skalt ekki halla rétti fátæks manns eða munaðarleysingja, og þú skalt ekki taka fatnað ekkjunnar veði."
Og það er mjög mikið af slíkum algildum lögum, sem enn í dag eru hrein fyrirmynd í manúð og réttlæti, enda eru þetta Guðs lög, sem ekki þurfa endurskoðunar við.
Þegar Kristur spáði um eyðileggingu Jerúsalemborgar, og þá einkum Musterisins, hefir hann auðsjáanlega haft spádóminn í Davíðssálmi 74: 7. í huga, þar stendur:
"Þeir hafa lagt eld í helgidóm þinn. Vanhelgað bústað nafns þíns niður að jörðu." Kristur sagði, að ei myndi verða þar steinn yfir steini," þar er allt brennt og rifið niður að jörðu. Vér sjáum því að Kristur þorði að byggja spádóm sinn á þessum spádómsorðum þó gömul væru, og þetta rættist nákvæmlega allt, um árið 70. Steinarnir tala, og jörðin sjálf vitnar um sannleiksgildi Biblíunnar, og um þá dýrð Guðs, sem er opinberuð í Jesú Kristi Drottni vorum. Lesið Biblíuna, ekki til að leita að ímynduðum mótsögnum í henni, heldur til að finna sannlekann, Guð mun láta þig finna lykilinn að sannleikanum, Jesú er sannleikurinn og lífið, hættu ekki fyrr en þú finnur hann.
Öll hin sterkustu og beztu rök fyrir því, að Biblían sé Guðs orð, fáum vér hjá Kristi sjálfum, og því er skeði í sambandi við hann. Hann staðfesti svo að segja öll rit Gamla testamentisins. Kristur spurði Gyðinga eitt sinn: "Hver von er til þess að þið trúið mér eða mínum orðum, þar eð þér trúið ekki Móse bókum." Jóh. 5: 47.
Með þessu gaf hann ótvírætt í skyn, að Biblíugagnrýnendur, og þeir er gagnrýna Krist, væru í sama flokki manna.
Það er ætlunarverk Biblíunnar að opinbera hugsanir Guðs, verk hans og dóma. Kristur er hinn eini algildi fulltrúi þessara hugsana; það er hann, sem vinnur verkið og framkvæmir dómana. Vér vitum alls ekkert um Krist nema það, sem Biblían skýrir oss frá. Það er engum efa undirorpið, að samkvæmt Krists eigin orðum í Nýja testamentinu, þá trúði hann því, að hann væri sendur af Guði, til að uppfylla hina mörgu spádóma Gamla testamentisins um Messías.
Er flokkur vopnaðra manna kom í Grasgarðinn til þess að handtaka Jesú, þá sagði hann: "Þetta er framkomið svo að ritningarnar rætist." Mark. 14: 49.
Mörg af orðum Krists á krossinum eru tekin úr sálmum Davíðs, svo sem "Guð minn, Guð minn, hví hefir þú yfirgefið mig?" "Það er fullkomnað," og "Faðir í þínar hendur fel ég anda minn."
Athyglisverð eru spádómsorð Jesaja 50: 6. um þá meðferð sem Kristur sætti af óvinunum. "Ég bauð bak mitt þeim, sem börðu mig, og kinnar mínar þeim, sem reyttu mig; ég byrgi eigi ásjónu mína fyrir háðungum og hrákum."
En það, sem ef til vill sannar bezt af öllu Guðlegt gildi og Guðlegan innblástur Biblíunnar, eru óvinir Krists, bæði Gyðingar og heiðnir Rómverjar, og það hversu nákvæmlega þeir uppfylltu spádómana, alls óafvitandi um, að þeir væru að því og að Kristur sjálfur (mannlega séð), gat engu um það ráðið, eins og til dæmis það, að það voru tveir ræningjar krossfestir með honum, hvar gröf hans skyldi vera, að hann var með illræðismönnum talinn, og að Júdas seldi hann fyrir 30 silfurpeninga, (þrælsverð). Að leirkerasmiðsakur var keyptur fyrir þá peninga. Hvernig hinir 4 hermenn, er krossfestu Krist skiptu með sér klæðum hans, allt saman samkvæmt mörg hundruð ára gömlum spádómum Biblíunnar. Ekki vissu heiðnir Rómverjar, að samkvæmt spádómum mátti ekki brjóta fótleggi hans, eins og ræningjanna, en í þess stað átti að leggja hann spjóti í síðuna. Hvernig gat nú Kristur komið því til leiðar að allt þetta rættist á honum?
Hver sá, er vill teljast hafa heilbrigða skynsemi, verður að játa, að uppfylling allra þessara spádóma, ásamt mjög mörgum öðrum, sem ekki eru taldir hér, bendir ótvírætt til þess að Kristur sé hinn Guðdómlegi Messías spámannanna, og ólíkur öllum öðrum er hér hafa lifað á þessari jörð. En Guðs orð er sem tvíeggjað sverð, sem sker til beggja hliða. Ef Kristur er Guðdómleg persóna, af því að ritningarnar spá um hann, þá hljóta ritningarnar - það er að segja frumritin, eins og þau voru rituð - einnig að vera Guðdómleg af því að Kristur staðfestir þau.
Rætast hlaut ritning sú, er Heilagur andi hafði fyrir sagt, fyrir munn Davíðs um Júdas, sem gjörðist leiðtogi þeirra er höndluðu Jesúm." Post. 1: 16.
En Pétur og Lúkas eru hér sem annars staðar ekki í vafa um að þeir er rituðu Gamla testamentið hafi verið innblásnir af Heilögum anda.
Lesum Nýja testamentið, frásagnir um Jesú, kærleika hans og breytni, og hvernig hann í dæmisögum og prédikunum ávallt benti mönnum á að snúa sér til Guðs og láta af hinu illa.
Hver hefur skrifað Biblíuna? Það gerðu ýmsir menn, en Guð lagði þeim orð í munn. Um Guðlegt gildi Biblíunnar eru til mörg og samhljóða vitni, og skal hér benda á nokkra slíka vitnisburði, sem allir eru á einn veg.
Pétur segir:
"Ekki fylgjum vér spaklega uppspunnum skröksögum." Páll segir: "Ég veit á hvern ég hef sett traust mitt, og ég er sannfærður."
Jóhannes segir:
"Vér vitum ... vér þekkjum .... "Þetta er 27 sinnum endurtekið af honum, og ennfremur: "Efni vort er það, sem var frá upphafi, það, sem vér höfum heyrt, það, sem vér höfum séð með augum vorum, sem vér horfum á og hendur vorar þreifuðu á, það er orð lífsins."
Jakob spyr: "Haldið þér að ritningin fari með hégóma?" Kristur segir: "Ef sá er nokkur, sem vill gjöra vilja hans.... hann mun komast að raun um, hvort kenningin er frá Guði." Jóh. 7: 17.
Nú er það svo, hér á þessari jörð, að til þess að fá atvinnu þarf einhverja lágmarks þekkingu, og þar eð við getum ekki unnið eða tekið að okkur verk, sem menn hafa undirbúið, er þá hægt að búast við að við getum skilið bók Guðs, sem er full af Guðdómlegri speki, nema fá einhverja tilsögn, eða hjálp, og hver á að gefa slíka tilsögn? Vitanlega höfundur Biblíunnar, Guð. - Í 2. Pét. 1: 20.-21. stendur: "Vitið það umfram allt, að enginn ritningar-spádómur verður þýddur af sjálfum sér. Því að aldrei var nokkur spádómur borinn fram af vilja manns, heldur töluðu menn frá Guði, knúðir af Heilögum anda." Það er því augljóst, að án hjálpar Guðs anda verður Biblían ekki skilin réttilega.
Leitum því til Guðs í anda bænarinnar um hjálp til skilnings á orði hans svo framalega sem vér viljum eignast þá speki og þann sannleik, sem Biblían hefir að geyma, þá viðjum við Guð að gefa oss skilning og trú á bók bókanna, sýnum þolinmæði og úthald í bæn og lestri Guðs orðs, allt sem einhvers er vert kostar fyrirhöfn. Tökum til dæmis tónlistina, margt er það í henni, sem verður því ánægjulegra sem menn heyra það oftar, en flestir, sem unna tónlist telja það ekki eftir sér að leggja á sig nokkurt erfiði til að fá notið hennar, og ef um skemmtanir er að ræða leggja margir á sig ferðalög og önnur óþægindi. Er þá ekki leggjandi á sig að fórna nokkrum kvöldstundum til bænahalds og Biblíulestrar með alvarlegri íhugun, ef það gæti leitt til trúar og veitt þann frið, sem er öllu öðru æðri?
Þú, sem þetta lest, ertu ánægður og sæll? Geta skemmtanirnar, sem þú sækir veitt þér þann frið og öryggi hjartans, sem þú sækir veitt þér þann frið og öryggi hjartans, sem hverjum manni er eðlilegt að þrá, og hver manns sál þarfnast? Er það ekki heldur þannig, að þú sækir meir, sem þú teygar af hinum óhreinu lindum þessa heims, því meir þyrstir þig, og þannig vaxa nautnirnar unz þær eru orðnar að spillingu, sem þú ræður ekki lengur við, ein syndin býður annarri heim, og maðurinn er orðinn þræll áður en hann veit af. Þeir, sem ekki hafa eignast trú á Jesúm Krist sem sinn persónulega frelsara, geta ekki skilið, að hinir trúuðu skuli ekki hafa ánægju af að sækja skemmtanir heimsins, sumir halda að trúin eða trúarlífið sé svo strangt, að þeim sé ekki leyfilegt að sækja skemmtanir yfirleitt, en því er ekki þann veg farið, heldur hafa trúaðir aðrar hollari og betri skemmtanir. Guðsbarnið gleður sig í Guði, sínum kærleiksríka föður, en forðast allt það er óvinurinn teflir fram, og sem er ætlað mönnum til falls og hvar af kemur fjöldi synda.
Munum, að það var einmitt vegna þessara vorra synda, sem Kristur dó á krossi, og að það skeði allt samkvæmt ritningunum. Látið engar mannlegar kennisetningar villa yður sýn, því hér er alltof mikið í húfi, þín eigin velferð og ef til vill margra annarra. Hver hefir fórnað meiru en Kristur? Hver sýnt meiri kærleika mér eða þér? Hverjum er frekar óhætt að treysta í þeim málum, sem við ráðum ekki við sjálfir? Er ekki þín eigin sál það dýrmætasta, sem þú átt? Líftryggðu þig hjá Guði, Kristur er meðalgangari vor hjá honum, sú líftrygging, sem Kristur veitir, fellur aldrei úr gildi, hann veitir oss eilíft líf. Kjósum þá lífið. Hjálpræðið er í Kristi!
Hallgrímur Pétursson segir:
"Fullkomnað lögmál fyrir þig er,
fullkomnað gjald til lausnar þér,
fullkomnað allt, hvað fyrr var spáð,
fullkomna skaltu eignast náð."
Passíusálmur 43: 15 erindi.
Flokkur: Trúmál og siðferði | Breytt 22.1.2008 kl. 20:22 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Valli minn. Þetta er rit og ég prentaði upp textann. Ræð engu um lengd þegar ég er að setja gömul rit á vefinn. Í sambandi við nýju þýðinguna þá voru sumir textar breyttir þannig að merking þeirra breyttist. Þess vegna vorum við ekki ánægð. Sumt pirrar mig alls ekki eins og að breyta setningum þannig að þær séu ætlaðar bæði konum og körlum. Sumar konur þoldu ekki þegar textarnir byrjuðu á bræður. En á þessum tímum voru konur réttlágar. Ég hef alltaf tekið þennan texta til mín líka því ég vissi forsöguna. Þegar Jesús dvaldi á meðal okkar þá rétti hann hlut kvenna. Þarf að senda þér tölvupóst. Verum í bandi.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 22.1.2008 kl. 02:13
Sael Rosa.
Biblian er bok bokana, og svo sannarlega er hun Guds ord.
Skemmtilegur pistill.
Gud blessi tig. Bestu kvedjur Jenni.
Jens Sigurjónsson, 22.1.2008 kl. 18:44
Góð skrif ! Eins og oft áður . Kveðja : Conwoy
conwoy (IP-tala skráð) 22.1.2008 kl. 21:14
Sannlega sannlega segi ég yður,ég kýs að trúa þeim orðum krists.Og þar með heldur orðið enda af guði.Amen.
Úlfar Þór Birgisson Aspar, 22.1.2008 kl. 23:12
Rosa góður pistil hjá þér Rósa eins og svo oft áður hjá þér .
Jóhann Helgason, 23.1.2008 kl. 00:49
Sælir strákar mínir. Fimm sætir gæjar komnir í heimsókn. Ekki slor það. Þakka ykkur innlitið. Þetta var gott rit og á morgun kemur annað og þá???? verður kannski fjör. Mér finnst þessi rit vera svo góð og ágætt að koma þeim á netið fyrir þá sem vilja lesa þau. Ég er búin að vera í heimsókn hjá Alla bloggvini mínum. Þar er fjör og eins á borgarheimilinu í Reykjavík.
Guð blessi ykkur og gangi ykkur vel í öllu sem þið takið ykkur fyrir hendur. Friðarkveðjur
Rósa Aðalsteinsdóttir, 23.1.2008 kl. 01:34
Sæl Rósa mín.
Og takk fyrir framtakið að koma þessum svo bráðnauðsynlegu pistlum á Bloggið þitt.
Ég ætlaði varla að þora því 5 sætir strákar voru á undan mér.Hvað skyldi hún kalla mig?
Sá sjetti var svo aldraður
að ek hélt hann væri galdraður
en sá gamli reyndist það ekki
hann var bara kominn í kekki.
Svo bið ég algóðan Guð að geyma þig Rósa mín.
Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 23.1.2008 kl. 04:02
Sæl kæri Þórarinn. Þú lítur mjög vel út á þessari mynd. Duglegur ertu að setja saman vísur svona einn tveir og þrír. Vísan var fyndinn. Vildi hafa þennan hæfileika sérstaklega þegar ég er með áróður t.d. í pólitík. Set inn annað rit í dag. Guð blessi þig og gefi þér kraft í málefnunum okkar, you know.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 23.1.2008 kl. 11:32
jæja krúttið mitt, ég bara varð að lesa þetta í gegn og sé ekki eftir því, þú átt þakir skilið fyrir að setja þetta hér inn. Knús vina og Guð blessi þig.
Linda, 23.1.2008 kl. 19:32
Sæl Linda mín. Takk fyrir innlitið. Þetta er gott rit og hefur erindi til okkar núna eins og fyrir rúmum 50 árum. Var að senda þér tölvubréf. Shalom
Rósa Aðalsteinsdóttir, 23.1.2008 kl. 20:18
Er þér (eða öllu heldur höfundi þessarar greinar) alvara? Móselögin eru grimmúðleg. Til dæmis skal grýta brúði sem er ekki hrein mey. Það hlýtur líka að vera "hrein fyrirmynd í manúð [sic] og réttlæti" og "Guðs [sic] lög, sem ekki þurfa endurskoðunar við". Nema þú viljir "vinsa úr henni það, er þeim líkar, en hafna hinu, eins og menn gera yfirleitt með öll mannanna verk", eins og höfundur greinarinnar kemur svo vel að orði.
Hjalti Rúnar Ómarsson, 25.1.2008 kl. 02:42
Sæll og blessaður Hjalti.Móse fór upp á Sínaífjall til móts við Guð almáttugan. Sáttmálinn varð gjörður þar. Guð gaf okkur boðorðin 10 og þau er í gildi í dag og þurfa ekki endurskoðunar við.Þegar Jesús Kristur var á meðal fólksins fyrir um 2000 þúsund árum þá urðu breytingar um ýmis lögmál. Hann kom til að uppfylla og lifum við nú með nýjan sáttmála. “Hefði hinn fyrri sáttmáli verið óaðfinnanlegur, þá hefði ekki verið þörf fyrir annan.” Hebr. 8: 7Dæmi: En Jesús fór til Olíufjallsins. Snemma morguns kom hann aftur í helgidóminn, og allur lýður kom til hans, en hann settist og tók að kenna þeim. Farísear og fræðimenn koma með konu, staðna að hórdómi, létu hana standa mitt á meðal þeirra og sögðu við hann: ,,Meistari, kona þessi var staðin að verki, þar sem hún var að drýgja hór. Móse bauð oss í lögmálinu að grýta slíkar konur. Hvað segir þú nú?” Þetta sögðu þeir til að reyna hann, svo þeir hefðu eitthvað að ákæra hann fyrir. En Jesús laut niður og skrifaði með fingrinum á jörðina. Og þegar þeir héldu áfram að spyrja hann, rétti hann sig upp og sagði við þá: ,,Sá yðar, sem syndlaus er, kasti fyrstur steini á hana.” Og aftur laut hann niður og skrifaði á jörðina. Þegar þeir heyrðu þetta, fóru þeir burt, einn af öðrum, öldungarnir fyrstir. Jesús var einn eftir, og konan stóð í sömu sporum. Hann rétti sig upp og sagði við hana: ,,Kona, hvað varð af þeim? Sakfelldi enginn þig?” En hún sagði: ,,Enginn, herra.” Jesús mælti: ,,Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar.”
Hjalti þarna var orðin breyting á. Jesús sakfelldi ekki konuna og fyrir tilstuðlan hans var hún ekki grýtt eins og var gera á dögum Móse.
Í Rómverjabréfinu 8: 1.-2. Nú er því engin fordæming fyrir alla þá, sem tilheyra Kristi Jesú. Lögmál lífsins anda hefur í Jesú Kristi frelsað þig frá lögmáli syndarinnar og dauðanum.”
Náðin Drottins vors Jesú Krists sé með yður. Róm. 16: 20a. Kærleikskveðjur.Rósa Aðalsteinsdóttir, 25.1.2008 kl. 16:59
Já það er oft svo með þá er biblíuna lesa og finna sér allt til armmæðu,er einmitt þetta að lesi maður í nýja textamentinu,þá einmitt bauð koma Jesú nýja siði og gamla textamenti laut fyrir fyrirgefningunni sem Jesú og bauð.Gott að láta þetta koma fram svona við og við,Hjalti DrE og fleiri mætir menn sem jú vilja ekki trúa guð okkar.Sem þeim er jú frjálst eru nefninlega mjög yðnir við að lemja á Gamla sáttmálanum,sem hefur ekkert með okkar tíma að gera heldur þegar Jesú dó þá hætti guð að sjá okkur sömu augum heldur í gegnum blóð sonar síns.
Úlfar Þór Birgisson Aspar, 26.1.2008 kl. 00:07
Sæll Úlli minn. Sammála þér. Guð blessi þig.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 26.1.2008 kl. 00:19
Mín kæra Rósa, frábært framtak hjá þér að blogga Hlakka til að fylgjast með þér, og þakka Guði fyrir þig og skrifin þín
Guðrún Sæmundsdóttir, 26.1.2008 kl. 06:09
Sæl Guðrún. Takk fyrir innlitið. Við sjáum til hvort þetta verður eitthvað að viti hjá mér Guð blessi þig. Kær kveðja af hjara veraldar.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 26.1.2008 kl. 11:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.