Ég veit að mamma grætur á jólunum

Kæru bloggfélagar. Sagan hér fyrir neðan er af Jólavef Júlíusar Júlíussonar frá Dalvík. Á þessum vef er einnig Matarblogg Júlla, Kærleiksvefurinn - knús, Fyrirbænasíða, Kveiktu á kerti, Dalvíkurskjálftinn, Frásögn um Jóhann Svarfdæling, um Dalvík, Íbúana á Dalvík og margt fleira.  Slóðin er: http://www.julli.is/



Ég veit að mamma grætur á jólunum"

(e. Sigurjón Jóhannsson frá Hlíð í Skíðadal. Heimild Bæjarpósturinn. Birt með leyfi Bp)

Það er frostbitur desember dagur fyrir 24 árum. Norðanþræsingur þeytir snjórenningi niður Strandgötuna á Akureyri. Þótt skammdegismyrkrið sé alrátt er mér nokkuð létt í sinni. Ég er að bíða eftir jólablaði þess vikublaðs er ég veiti forstöðu og því innan fárra daga verð ég komin heim í kyrrð dalsins míns ! Brátt rennur sendibíll prentsmiðjunnar að gangstéttinni - og í sömu mund kemur drengurinn hann Nonni, sem ber út blaðið í miðbæinn . Ég tek fljótt eftir því að Nonni er ekki eins og hann á að sér að vera, glaður og hressilegur. Nú minnir hann frekar á gamlan mann , álútan og svifaseinan, líkt og þung byrði sé á herðum hans sem hann er nær kominn að kikna undan. Óbeðinn hjálpar hann mér að bera blöðin upp í skrifstofuna og fer síðan þegjandi að telja þau blöð er komu í hans hlut að bera út. Ég fylgdist áhyggjufullur með þessum 10 ára vini mínum og fann til löngunar að nálgast hann, vita hvað þjáði hann ef ske kynni að ég gæti úr bætt. Mér fannst ég ekki geta séð á eftir honum út í myrkrið svona á sig kominn. Til að tefja tímann svolítið á meðan ég væri að átta mig á hvað gera skyldi, spurði ég hann hvort hann vildi hjálpa mér að telja blöðin til hinna krakkanna. Hann kinkaði kolli og án orða fór hann að telja er ég fékk honum lista yfir nöfn krakkanna og tölu þeirra fjölda blaða er hvert þeirra átti að fá. Til að reyna að rjúfa þagnarmúrinn milli okkar spurði ég í hálfgerðum vandræðum; "Hlakkar þig til jólanna ?" " Nei " var svar hans kalt og hranalegt. "Hvers vegna ekki ?" spurði ég og var kominn í hálfgerða varnarstöðu. "Ég veit að mamma fer að gráta eins og á jólunum í fyrra ". "Hvers vegna ?" hraut af vörum mér. Það kom andartaks hik á drenginn en svo kom svarið og tóntegundin var hin sama hörð og næstum hatursfull. " Þig varðar ekkert um það". Með þessu svari fannst mér Nonni hafa mátað mig gersamlega. Við erum búnir að telja blöðin. Snögglega stendur drengurinn á fætur og býst til ferðar, grípur sinn blaðabunka og snýr til dyra. Þegjandi legg ég peningana í lófa hans . Ég finn að hönd hans er ísköld og hann skelfur. Eitthvað innra með mér mótmælir því að ég láti drenginn svona á sig kominn fara frá mér út í nepjuna og myrkrið. Hugdettu skýtur upp í kollinum "Heyrðu Nonni minn. Viltu ekki hjálpa mér að keyra út blaðinu svo ég verði fljótari ?" Og útskýri hálf flaumósa hvernig hann geti flýtt fyrir, að ég beri blöðin úr bílnum til krakkanna en hann verði með peningaumslögin til þeirra. Hann hikar litla stund en kinkar síðan kolli, sem ég tók sem jáyrði við bæn minni. "En viltu ekki hringja heim fyrst og segja mömmu þinni að þér seinki vegna þess að þú sért að hjálpa mér ?" "Mamma er ekki heima hún er að skúra". "En pabbi þinn. Er hann ekki kominn heim úr ...." Ég sé strax að við þessa spurningu mína þyngist byrðin til muna á ungum herðum hans. Hann lútir höfði og drjúglöng þögn hefur völdin - en svo kemur svarið kreist út á milli samanbitinna tanna : "Pabbi er fullur einhverstaðar fyrir sunnan", síðan koma nokkur ekkasog og á eftir þrúgandi þögn. Ég spyr ekki meir en legg hönd yfir axlir hans og teygi mig í símann og hringi á leigubíl. Svo hjálpumst við án orða að bera blöðin niður stigann. Brátt flautar bíll fyrir utan innan stundar erum við lagðir af stað. Við þurfum að koma við á átta stöðum víðsvegar um bæinn. Ég afhendi krökkunum blöðin en Nonni bréfin eins og um var samið. Ég óska börnunum gleðilegra jóla og taka þau glaðlega undir, en litli ferðafélaginn minn var þögull sem gröfin. Eftir rúman hálftíma erum við aftur komnir niður í Strandgötu. Við göngum hlið við hlið upp stigann að skrifstofunni og nú var aðeins eftir að bera blöðin hans Nonna út í miðbæinn.. "Jæja Nonni. Nú hjálpa ég þér við við útburðinn" segi ég hressilega "En fyrst fáum við okkur eitthvað í svanginn ". Á leið okkar um bæinn hafði ég keypt nokkrar pylsur og kók í sjoppu er leið okkar lá framhjá. Yfir andlit hans færðist dauft bros. Keyptirðu þetta handa mér ? " og það var furða í rödd hans. "Handa okkur báðum. Þeir sem vinna þurfa að borða karl minn" er svar mitt. Ég fann gleðitilfinningu fara um mig. Skyldi mér auðnast að rjúfa þagnarmúrinn sem hann varði sig með?


Að loknum snæðingi hófum við blaðburðinn og mér fannst hann ekki eins þungstígur og áður er hann gekk niður stigann. Líkt og byrðin á herðum hans hefði örlítið lést. Úti var enn napurt og renningskóf og án andmæla leyfði hann mér að draga loðfóðraða hanska á hendur hans. Við tókum á sprett undan kófinu og gekk blaðburðurinn hratt og vel fyrir sig og innan stundar vorum við aftur komnir heim á skrifstofukompuna. Ég sá að bragði að það þyrmdi aftur yfir félaga minn - og með óstyrkri hendi seildist hann eftir umslaginu sínu, ég vildi ekki sleppa honum strax. Þrá mín til að vinna traust hans varð æ heitari. "Hvíldu þig aðeins áður en þú ferð út í kuldann á ný". Hann settist þegjandi eins og hann væri bíða einhvers. Vænti hann kannski hjálpar frá mér ? Ég fann til vanmáttar. Var ég þess megnugur að lyfta okinu af herðum hins unga drengs og svartnættinu úr sál hans ?   Þögnin í litlu skrifstofunni var orðin löng og þrúgandi. En allt í einu fannst mér birta til - mér fannst ég finna til nálægðar móður minnar og sem í leiðslu hvíslaði ég til drengsins "Kanntu að biðja , Nonni ?" Hann hrökk við og við horfðumst í augu og svo kom svar hans. "Já mamma og pabbi kenndu mér það. " Hálf feiminn spyr ég aftur; "Viltu biðja með mér um að mamma þín þurfi ekki að gráta um jólin og að pabbi þinn komi heim og öðlist þrek til að hætta að drekka ?" Hann stóð hikandi upp og rétti mér höndina og hlið við hlið krupum við niður við borðið. Einhver ósegjanlegur friður gagntók mig og ég skynjaði einnig að hinn ungi vinur minn var einnig á valdi heitra tilfinninga. Hve lengi við krupum og báðum veit ég eigi en er við stóðum upp kom Nonni í fang mér og tár sem tærar perlur runnu niður vanga hans. Ég leyfði honum að gráta og strauk sem annars hugar ljósu lokkana á kolli hans.

Nokkru síðar vorum við aftur komnir út í hríðarkófið og leiddumst hönd í hönd uns við vorum komnir heim til hans. Við kvöddumst á tröppunum en um leið og hann opnaði hurðina hvíslaði hann í eyra mér í barnslegri einlægni: "Ég ætla að biðja mömmu líka að biðja með mér áður en við förum að hátta" að svo búnu lokaði hann hurðinni hljóðlega á eftir sér. Á leiðinni til baka fóru efasemdir að sækja að mér. Hafði ég raunverulega gert rétt með framkomu minni ? Hafði ég ekki vakið falsvonir í huga drengsins - og því yrði sársaukinn enn óvægnari er hann stæði frammi fyrir því að bænastund okkar saman var aðeins haldlaust hjóm og blekking - en samt þetta kvöld ríkti friður innra með mér og ég sofnaði óvenju fljótt er ég hallaði mér á koddann.

Daginn fyrir Þorláksmessu var för mín ákveðin heim í dalinn. Dálítið annars hugar var ég að taka nokkurt dót saman til fararinnar . Dagana á undan hafði ég oft verið kominn að því að hringja heim til Nonna , en ávallt brostið kjarkur. Ég lít á úrið og sá að aðeins var klukkutími uns rútan legði af stað til Dalvíkur. Ég geng um gólf til að drepa tímann. Ég hrekk við er bankað er að dyrum í flýti opna ég. Fyrir utan stendur Nonni og heldur í hönd manns sem er mér ókunnur. "Þetta er pabbi " hrópar drengurinn. " Hann er kominn heim " og augu vinar míns geisluðu af gleði - "og hann er hættur að drekka " bætir hann við og hleypur í fang mér ör og kátur. Faðir hans réttir fram höndina og handtak hans er fast og hlýtt . Ég horfi í augu hans. Þau eru að vísu döpur en samt finnst mér örlítil geislablik gefa þeim líf . Þeir feðgar hjálpa mér með dótið á brottfararstað rútunnar. Á þeirri göngu eru þeir hinir sterku að mé finnst, en ég hinn veikburða.


Oft varð mér hugsað til Nonna yfir jólin. Skyldi faðir hans standast ofurvald vínguðsins ? ótti og von toguðust á í huga mér.Á leiðinni til Akureyrar að jólaleyfi loknu ákvað ég að það skyldi verða mitt fyrsta verk er ég kæmi í bæinn að hringja í Nonna. Er ég dró upp lykillinn að skrifstofunni blasti við mér hvítt blað límt á hurðina og þar gaf að lesa Sigurjón komdu í kaffi strax og þú kemur í bæinn og undir orðsendingunni stóð með stórum stöfum NONNI. Ég mun aldrei gleyma því heimboði. Ást, friður og hamingja ríkti í litla húsinu. Faðir Nonna var kominn í fasta vinnu og stóð sem sigurvegari í glímunni við Bakkus konung.

Allan þennan vetur og næsta sumar var ég hálfgerður heimagangur hjá Nonna og foreldrum hans. Þau góðu kynni veittu mér oft frið og hvíld frá erli starfsins. En að haustdögum rofnuðu að mestu tengslin. Ég hætti blaðamennsku og nokkru síðar flutti fjölskyldan í annan landshluta. Nú eru báðir foreldrar Nonna dánir en hann virtur kennari á höfuðborgarsvæðinu.

Það var eitt sinn ætlun mín að skrifa ævisögu móður minnar og vorum við bæði búin að leggja nokkur drög að henni - og nafn bókarinnar var löngu ákveðið. Bænin var minn styrkur, það var nafnið. En snöggt og óvænt var mamma kölluð á braut og því bókin um hana óskráð. Þessi minningarbrot vil ég henni og lífssögu hennar, sem vörðuð var af kjarki, mildi og kærleika og síðast en ekki síst af æðri trú og handleiðslu.

Senn líður enn að jólum, fæðingarhátíðar mannvinarins mikla. Það er einlæg bæn mín og von að ekkert barn kvíði komu jólanna altekið ótta um að mamma þess gráti um jólin.

Ég bið þess að sjúkir, syrgjendur og þeir sem einmana reika öðlist styrk, frið og hvíld, frá þeim er fórnaði lífi sínu í baráttunni geng grimmd og hatri. Reynum að vera boðberar kærleikans. Minnist þess að jafnvel þétt handtak og hlýtt bros getur varpað ljósi inn í myrkvaða sál. Ég óska lesendum hvíldar og friðar um heilög jól.

S.J

Þessi saga blessaði mig og ákvað ég að senda Júlíusi tölvupóst og spyrja hann hvort ég mætti birta söguna. Sem betur fer fékk ég leyfi og er ég þakklát fyrir það.


Ég sjálf hef upplifað kraftaverk í lífi mínu þegar ég bað Jesú að lækna mig af flogaveiki. Sjá bloggfærslu í byrjun ágúst 2008.

"Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða." Matt. 7: 7.-8.

"Mannfjöldinn varð þess var og fór á eftir honum. Hann tók þeim vel og talaði við þá um Guðs ríki og læknaði þá, er lækningar þurftu." Lúk. 9:11.

 "Þegar Jesús steig á land, sá hann þar mikinn mannfjölda, og hann kenndi í brjósti um þá og læknaði þá af þeim, er sjúkir voru." Matt. 14:14.


Máttur bænarinnar er mikill og ég vil hvetja ykkur að biðja Jesú um að koma inní kringumstæðurnar ykkar.  Sjáið versið hér fyrir ofan sem byrjar svona:  Biðjið og yður mun gefast,... 


Megi almáttugur Guð blessa ykkur.

Kær kveðja

Rósa Aðalsteinsdóttir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Linda

Vá, með einu orði sagt "´VÁ" þetta er yndisleg saga, ég er með tár í augunum eftir að hafa lesið hana orð fyrir orð, og ég hef persónulega fengið að upplifa blessanir Guðs, bænheyrslu hans í gegn um tíðina, stundum sé ég ekki svör Drottins fyrr en ég lít til baka og stundum sé ég þau strax eða fljótlega.  Bænasvörin eru ekki alltaf eins og við kannski óskuðum eftir, en þau eru alltaf, alltaf okkur fyrir bestu.

Þakka þér fyrir vinkona að deila þessari með okkur.

Bk.

Þína vinkona

ps.  Verð að horfa á sakamála þáttinn á rúv á rúv plús heheh

Linda.

Linda, 16.12.2008 kl. 22:53

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Algjörlega magnað elsku vinkona, takk fyrir og kærleikskveðja.

Ásdís Sigurðardóttir, 16.12.2008 kl. 22:58

3 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Takk takk elsku Rósa mín fyrir þessa yndislegu söguhún kom við hjartað í mér

knús á þig og góða ljúfa nóttina

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 16.12.2008 kl. 23:56

4 identicon

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 17.12.2008 kl. 09:05

5 Smámynd: Kristín Gunnarsdóttir

Þetta er yndisleg saga, sem endaði svo vel. Guð blessi þig Rósa mín

Kristín Gunnarsdóttir, 17.12.2008 kl. 09:24

6 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sælar stelpur og takk fyrir innlitið.

Linda mín, þetta er svo falleg saga. Ég heyrði hana lesna á Lindinni og svo kom Benný, sú sem les hana á Lindinn í heimsókn til okkar og las söguna hér á söngsamkomu í byrjun desember. Hún sagði okkur frá vefnum hans Júlla og ég fór á netið og gúgglaði hann upp eins og nú er sagt í staðinn fyrir að segja að ég hafi leitað að vefnum hans. Svo sá ég þessa yndislegu sögu líka hjá Kristínu Ketilsdóttur.

Linda mín, svo sannarlega snertir þessi saga okkur. Guð er svo góður að svara bænum þessa litla drengs sem var svo hryggur vegna foreldra sinna. Guð snýr við högum okkar ef við biðjum hann um að hjálpa okkur.

Nína mín, já þetta er svo yndisleg saga sem snertir hjartað. Blessaði litli drengurinn var búinn að líða svo mikið vegna pabba síns. Því miður eru mörg börn í hans sporum í dag.

Svandís mín, takk fyrir hjartað.

Birna mín, takk fyrir hjartað.

"En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki. Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning." Matt. 6: 33.-34.

"Fyrir því segi ég yður: Hvers sem þér biðjið í bæn yðar, þá trúið, að þér hafið öðlast það, og yður mun það veitast." Mark. 11: 24


"Leitið heldur ríkis hans, og þá mun þetta veitast yður að auki." Lúk. 12:31

Drottinn blessi ykkur og varðveiti

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 17.12.2008 kl. 09:26

7 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæl Kristín mín.

Takk fyrir innlitið. Svo sannarlega endaði þessi saga vel. Hugsaðu þér að þessi saga gerðistá Akureyri, heimabænum þínum.

"Verið ávallt glaðir í Drottni. Ég segi aftur: Verið glaðir. Ljúflyndi yðar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd. Verið ekki hugsjúkir um neitt, heldur gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú." Fil. 4: 4.-7.

Vertu Guði falin.

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 17.12.2008 kl. 09:31

8 Smámynd: Helena Leifsdóttir

Sæl og blessuð.
Yndisleg saga, sé fyrir mér tissjúklúta á Aglowfundi verði þessi saga lesin upp. Minnir okkur á að Guð bregst aldrei. EN Rósa mín, já en... allt of mörg börn líða fyrir áfengisfíkn foreldris sem eru undir hamri áfengisguðsins það er ömurleg tilhugsun. Takk innilega fyrir fallega sögu sem snerti hajrta mitt á þessum fallega morgni.

Guð blessi þig Rósa glimmer dúlla.
Helena

Helena Leifsdóttir, 17.12.2008 kl. 11:03

9 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæl Helena mín og takk fyrir innlitið.

Því miður eru mörg börn sem líða vegna áfengisfíknar foreldra og nú þurfa þau að bera byrðar fullorna fólksins þegar þau heyra um öll vandræðin sem við erum að takast á við núna. Þetta hefur mjög slæm áhrif á börn.

"Svo bar við, er hann nálgaðist Jeríkó, að blindur maður sat þar við veginn og betlaði. Hann heyrði, að mannfjöldi gekk hjá, og spurði, hvað um væri að vera. Var honum sagt, að Jesús frá Nasaret færi hjá. Þá hrópaði hann: "Jesús, sonur Davíðs, miskunna þú mér!" En þeir sem á undan fóru, höstuðu á hann, að hann þegði. En hann hrópaði því meir: "Sonur Davíðs, miskunna þú mér!" Jesús nam staðar og bauð að leiða hann til sín. Er hann kom nær, spurði Jesús hann: "Hvað vilt þú, að ég gjöri fyrir þig?" Hinn svaraði: "Herra, að ég fái aftur sjón. Jesús sagði við hann: "Fá þú aftur sjónina. Trú þín hefur bjargað þér." Jafnskjótt fékk hann sjónina. Og hann fylgdi honum og lofaði Guð. En allt fólkið, er sá þetta, vegsamaði Guð." Lúk. 18: 35.-43.

 Vertu Guði falin

Kær kveðja/Rósa 

Rósa Aðalsteinsdóttir, 17.12.2008 kl. 12:35

10 Smámynd: Sigríður Ásdís Karlsdóttir

Kæra Rósa jólakveðjur til þín vina Guð veri með þér.     Kveðjur frá Sirrý.

Sigríður Ásdís Karlsdóttir, 17.12.2008 kl. 21:44

11 Smámynd: Halldóra Lára Ásgeirsdóttir

Sæl Rósa!

Þú ert snillingur að ná þér í áhrifaríkar sögur!

Vá hvað þú yrðir góður blaðamaður á kristilegu blaði

Við sem höfum verið þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa ekki alist upp eða lifað við svona nokkuð

finnum til með þeim sem líða á þennan hátt, og þá sérstaklega á þessum tíma árs.

Umvefji þig englar Guðs 

                     Kveðja úr Garðabæ     Halldóra.

Halldóra Lára Ásgeirsdóttir, 17.12.2008 kl. 22:50

12 Smámynd: Aida.

Takk elsku Rósa.

Virkilega fallegt og synir hve stórkostlegur Drottinn okkar er.

Eg vil biðja fyrir þér hér og nú að Drottinn blessi þig enn meir og að hann aldrei leyfi þér að sleppa takinu á sér.

I Jesú heilaga nafni.Amen.

Aida., 18.12.2008 kl. 16:21

13 Smámynd: Guðsteinn Haukur Barkarson

Frábært!

Guðsteinn Haukur Barkarson, 18.12.2008 kl. 16:28

14 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæl og blessuð og takk fyrir innlitið.

Gulli frændi, þakka þér fyrir þessi fallegu blessunarorð. Vona að þú njótir Aðventunnar, hér er allt í orden.

Sirrý mín, takk fyrir jólakveðjurnar. Góða ferð heim á Frón á morgunn.

Halldóra mín, þetta er mögnuð saga. Jesús er stórkostlegur. Því miður eiga alltof mörg börn um sárt að binda hér á Íslandi. Megi almáttugur Guð vernda börnin okkar frá allri mynd hins illa.

Adia mín, já Jesús er stórkostlegur, hann svarar bænum. Þakka þér hjartanlega fyrir bæn og blessunarorð fyrir mig. 

Guðsteinn minn, já Jesús er frábær.

Megi almáttugur Guð vernda ykkur og varðveita.

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 18.12.2008 kl. 17:19

15 Smámynd: Ragnar Kristján Gestsson

Ég er alltaf snertur af svona spiritus contra spiritum - sögum (vínandi gegn heilögum anda) enda liggja rætur frá öðrum yfir í hinn Takk fyrir mig Rósa.

Ragnar Kristján Gestsson, 18.12.2008 kl. 22:25

16 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sælir strákar

Takk fyrir innlitið.

Ragnar, segjum tvö. Meiriháttar þegar fólk losnar undan fjötrum Bakkusar. Dýrð sé Guði.

Ásgeir minn, máttur bænarinnar er svo sterkur. Þú átt nú eiginkonu sem er mikil bænakona. Væna konu, hver hlaut hana? Svar= Ásgeir.

Megi almáttugur Guð vera með ykkur.

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 19.12.2008 kl. 17:03

18 Smámynd: Úlfar Þór Birgisson Aspar

.

Úlfar Þór Birgisson Aspar, 19.12.2008 kl. 20:03

19 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll og blessaður Úlli minn.

Sendi þér blikk til baka

Þegar ég heyrði þessa sögu þá heyrði ég að þarna var lítill strákur sem leið illa. Ég fór að hugsa, af hverju líður honum svona illa, af hverju er hann svona vansæll?  Svo leið á söguna og hann sagði Sigurjóni frá pabba sínum. Þetta var svo sárt. En svo sneri Guð þessu til góðs vegna bæna. Máttur bænarinnar er mikill og Orðið er kröftug.

Þessi saga snart mig svo mikið. 

9. desember fyrir 40 árum fór mamma í hinsta sinn frá Vopnafirði. Við fylgdum henni inná flugvöll og þar reyndi ég að halda haus innan um allt fólkið en þegar ég kom heim þá grét ég og grét. Mamma var farin á sjúkrahús og jólin voru að koma. Mér fannst þessi tilhugsun skelfileg. Ábyggilega eru mörg börn í sporunum okkar Nonna. Megi almáttugur Guð vernda þau, styrkja og senda þeim hjálp.

Megi almáttugur Guð blessa þig og varðveita.

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 20.12.2008 kl. 12:26

20 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Yndisleg saga elsku Rósa mín vertu guð falin ég hugsa til þín.

Kristín Katla Árnadóttir, 20.12.2008 kl. 13:27

22 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Knús í hús og ljúfar kveðjur

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 20.12.2008 kl. 23:15

23 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sælar stelpur mínar

Takk fyrir innlitið og góðar óskir.

Katla mín, sammála þér.  Þessi saga snart mig svo að ég bara varð að senda bréf til Júlíusar sem er með þessa sögu á vefnum sínum og biðja um leyfi að birta söguna.

Hanna mín, kíki á myndbandi þegar jólafjörinu er lokið.

Linda mín, sömuleiðis kærar kveðjur til þín.

Guð gefi ykkur Gleðileg jól og farsæld á komandi árum.

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 21.12.2008 kl. 09:47

25 Smámynd: Dísa Dóra

Ég bara elska kærleiksvef Júlla og kíki alltaf reglulega þangað inn.  Hef alveg gleymt að fara inn á jólasíðuna hans fyrir þessi jól - geri það núna.

Haðu það gott kæra bloggvinkona

Dísa Dóra, 21.12.2008 kl. 23:31

26 Smámynd: Elísabet Sigmarsdóttir

Sæl frænka,ég tala við Guð í huganum og hann hjálpar mér alltaf eins og þú veist. Annars væri ég varla hérna meginn.
Christian Glitter by www.christianglitter.com

Elísabet Sigmarsdóttir, 22.12.2008 kl. 00:42

27 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sælar stelpur og takk fyrir innlitið.

Dísa mín, kærleiksvefurinn er flottur hjá Júlla. 

Elísabet frænka mín, ég veit að þú ert algjört kraftaverk alveg síðan þú fæddist. Þá var þér bjargað af fagmönnum sem ég trúi að hafi hlotið visku frá Guði til að sinna sínum mikilvægu störfum.

Megi almáttugur Guð blessa ykkur og varðveita.

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 22.12.2008 kl. 12:27

28 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Ég og mín kæra fjölskylda viljum óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári og þökkum árið sem er að líða.....Jólakveðja

 Linda og Fjölskylda :):):):)

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 23.12.2008 kl. 01:16

29 identicon

Sæl Rósa mín.

Ekki hafði ég gleymt að lesa ,en ég vildi lesa söguna þannig að ég væri heill og í jafnvægi.

Þetta er mögnuð saga og Blessuð börnin hvað þau verða oft fyrir hinu kalda lífi.

Og máttur bænarinnar er mikill.

Ég held að fólk ætti að hugleiða það og þakka fyrir þegar bænasvarið er komið. 

Góður Guð blessi þig Rósa mín.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 23.12.2008 kl. 03:40

30 Smámynd: Theódór Norðkvist

Rósa mín, megi Guð gefa þér og þínu fólki gleðileg jól og gæfuríkt komandi ár. Takk fyrir ánægjuleg samskipti á árinu sem er að líða.

Theódór Norðkvist, 23.12.2008 kl. 20:32

31 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæl og blessuð og takk fyrir innlitið

Linda mín, kærar þakkir fyrir jólakveðjuna.

Þórarinn minn, börnin eru gjöf frá Guði og það er sorglegt þegar börn líða illa vegna erfiðleika foreldra.

Teddi minn, takk fyrir jólakveðjuna. Ég þakka líka fyrir ánægjuleg samskipti á þessu ári. Þegar ég skrifa hér þá rifjast upp að  mamma þín kvaddi sína jarðnesku vist á þessu ári. Megi almáttugur Guð vera með þér nú á fyrstu jólunum án hennar.

Gleðileg jól og farsælt komandi ár.

Megi almáttugur Guð blessa ykkur og varðveita.

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 23.12.2008 kl. 20:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband