1.6.2008 | 17:44
Menn hafsins
Guð gefi ykkur öllum góðan dag í Jesú nafni.
Sjómenn til hamingju með daginn.
Megi Guð almáttugur blessa ykkur og varðveita.
Menn hafsins:
Þeir sem fóru um hafið á skipum, ráku verslun á hinum miklu vötnum, þeir hafa séð verk Drottins og dásemdir hans á djúpinu." Sálmarnir 107: 23.-24.
Drottinn hafsins:
Þegar hann setti hafinu takmörk, til þess að vötnin færu eigi lengra en hann bauð, þegar hann festi undirstöður jarðar." Orðskviðirnir 8: 29.
Drottinn, Guð hersveitanna, hver er sem þú? Þú ert voldugur, Drottinn, og trúfesti þín er umhverfis þig. Þú ræður yfir ofstopa hafsins, þegar öldur þess hefjast, stöðvar þú þær; Þinn er himinninn, þín er og jörðin, þú hefir grundvallað veröldina og allt sem í henni er." Sálmarnir 89: 9.-10; 12.
Hættulíf sjómannsins:
Þeir sem fóru um hafið á skipum, ráku verslun á hinum miklu vötnum, þeir hafa séð verk Drottins og dásemdir hans á djúpinu. Því að hann bauð og þá kom stormviðri, sem hóf upp bylgjur þess. Þeir hófust til himins, sigu niður í djúpið, þeim féllst hugur í neyðinni. Þeir römbuðu og skjögruðu eins og drukkinn maður, og öll kunnátta þeirra var þrotin. Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, og hann leiddi þá úr angist þeirra. Hann breytti stormviðrinu í blíðan blæ, svo að bylgjur hafsins urðu hljóðar. Þá glöddust þeir, af því að þær kyrrðust, og hann lét þá komast í höfn þá, er þeir þráðu. Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn, vegsama hann á þjóðarsamkomunni og lofa hann í hóp öldunganna." Sálmarnir 107. 23.-32.
Hvert get ég farið frá anda þínum og hvert flúið frá augliti þínu? Þótt ég stigi upp í himininn, þá ertu þar, þótt ég gjörði undirheima að hvílu minni, sjá, þú ert þar. Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans og settist við hið ysta haf, einnig þar mundi hönd þín leiða mig og hægri hönd þín halda mér. Og þótt ég segði: "Myrkrið hylji mig og ljósið í kringum mig verði nótt," þá myndi þó myrkrið eigi verða þér of myrkt og nóttin lýsa eins og dagur, myrkur og ljós eru jöfn fyrir þér." Sálmarnir 139: 7.-12.
Herra hafsins:
Í stormi
Að kvöldi sama dags sagði hann við þá: "Förum yfir um!" Þeir skildu þá við mannfjöldann og tóku hann með sér, þar sem hann var, í bátnum, en aðrir bátar voru með honum. Þá brast á stormhrina mikil, og féllu öldurnar inn í bátinn, svo við lá, að hann fyllti. Jesús var í skutnum og svaf á kodda. Þeir vöktu hann og sögðu við hann: "Meistari, hirðir þú ekki um, að vér förumst?" Hann vaknaði, hastaði á vindinn og sagði við vatnið: "Þegi þú, haf hljótt um þig!" Þá lægði vindinn og gerði stillilogn. Og hann sagði við þá: "Hví eruð þér hræddir, hafið þér enn enga trú?" En þeir urðu miklum ótta lostnir og sögðu hver við annan: "Hver er þessi? Jafnvel vindur og vatn hlýða honum." Markús 4. 35.-41.
Mig viljið þér ekki óttast - segir Drottinn - eða skjálfa fyrir mínu augliti? fyrir mér, sem hefi sett hafinu fjörusandinn að takmarki, ævarandi girðingu, sem það kemst ekki yfir. Og þótt öldur þess komi æðandi, þá vinna þær ekki á, og þótt þær gnýi, þá komast þær ekki yfir hana." Jeremía 5: 22.
Svo segir Drottinn, hann sem lagði veg yfir hafið og braut yfir hin ströngu vötn." Jesaja 43: 16.
Gangan á öldunum:
Það er ég
Tafarlaust knúði hann lærisveina sína að fara í bátinn og halda á undan sér yfir um, meðan hann sendi fólkið brott. Og er hann hafði látið fólkið fara, gekk hann til fjalls að biðjast fyrir í einrúmi. Þegar kvöld var komið, var hann þar einn. En báturinn var þegar kominn langt frá landi og lá undir áföllum, því að vindur var á móti. En er langt var liðið nætur kom hann til þeirra, gangandi á vatninu. Þegar lærisveinarnir sáu hann ganga á vatninu, varð þeim bilt við. Þeir sögðu: "Þetta er vofa," og æptu af hræðslu. En Jesús mælti jafnskjótt til þeirra: "Verið hughraustir, það er ég, verið óhræddir." Pétur svaraði honum: "Ef það ert þú, herra, þá bjóð mér að koma til þín á vatninu." Jesús svaraði: "Kom þú!" Og Pétur sté úr bátnum og gekk á vatninu til hans. En sem hann sá rokið, varð hann hræddur og tók að sökkva. Þá kallaði hann: "Herra, bjarga þú mér!" Jesús rétti þegar út höndina, tók í hann og sagði: "Þú trúlitli, hví efaðist þú?" Þeir stigu í bátinn, og þá lægði vindinn. En þeir sem í bátnum voru, tilbáðu hann og sögðu: "Sannarlega ert þú sonur Guðs." Matteus 14: 22.-33.
Vitnisburður fiskimanns:
Pétur sagði síðar um Krist
Það er sagan um Jesú frá Nasaret, hvernig Guð smurði hann heilögum anda og krafti. Hann gekk um, gjörði gott og græddi alla, sem af djöflinum voru undirokaðir, því Guð var með honum. Vér erum vottar alls þess, er hann gjörði, bæði í landi Gyðinga og í Jerúsalem. Og hann hengdu þeir upp á tré og tóku af lífi. En Guð uppvakti hann á þriðja degi og lét hann birtast, ekki öllum lýðnum, heldur þeim vottum, sem Guð hafði áður kjörið, oss, sem átum og drukkum með honum, eftir að hann var risinn upp frá dauðum. Og hann bauð oss að prédika fyrir lýðnum og vitna, að hann er sá dómari lifenda og dauðra, sem Guð hefur fyrirhugað. Honum bera allir spámennirnir vitni, að sérhver, sem á hann trúir, fái fyrir hans nafn fyrirgefningu syndanna." Postulasagan 10. 38.-43.
Ekki er hjálpræðið í neinum öðrum. Og ekkert annað nafn er mönnum gefið um víða veröld, sem getur frelsað oss." Postulasagan 4. 12.
Til þessa eruð þér kallaðir. Því að Kristur leið einnig fyrir yður og lét yður eftir fyrirmynd, til þess að þér skylduð feta í hans fótspor. "Hann drýgði ekki synd, og svik voru ekki fundin í munni hans." Hann illmælti eigi aftur, er honum var illmælt, og hótaði eigi, er hann leið, heldur gaf það í hans vald, sem réttvíslega dæmir. Hann bar sjálfur syndir vorar á líkama sínum upp á tréð, til þess að vér skyldum deyja frá syndunum og lifa réttlætinu. Fyrir hans benjar eruð þér læknaðir." 1. Pétursbréf 2: 21.-24.
Morgunverður við vatnið:
Þegar Drottinn var risinn upp frá dauðum
Jesús birtist við Tíberíasvatn
Eftir þetta birtist Jesús lærisveinunum aftur og þá við Tíberíasvatn. Hann birtist þannig: Þeir voru saman: Símon Pétur, Tómas, kallaður tvíburi, Natanael frá Kana í Galíleu, Sebedeussynirnir og tveir enn af lærisveinum hans. Símon Pétur segir við þá: "Ég fer að fiska." Þeir segja við hann: "Vér komum líka með þér." Þeir fóru og stigu í bátinn. En þá nótt fengu þeir ekkert. Þegar dagur rann, stóð Jesús á ströndinni. Lærisveinarnir vissu samt ekki, að það var Jesús. Jesús segir við þá: "Drengir, hafið þér nokkurn fisk?" Þeir svöruðu: "Nei." Hann sagði: "Kastið netinu hægra megin við bátinn, og þér munuð verða varir." Þeir köstuðu, og nú gátu þeir ekki dregið netið, svo mikill var fiskurinn. Lærisveinninn, sem Jesús elskaði, segir við Pétur: "Þetta er Drottinn." Þegar Símon Pétur heyrði, að það væri Drottinn, brá hann yfir sig flík - hann var fáklæddur - og stökk út í vatnið. En hinir lærisveinarnir komu bátnum, enda voru þeir ekki lengra frá landi en svo sem tvö hundruð álnir, og drógu netið með fiskinum. Þegar þeir stigu á land, sáu þeir fisk lagðan á glóðir og brauð. Jesús segir við þá: "Komið með nokkuð af fiskinum, sem þér voruð að veiða." Símon Pétur fór í bátinn og dró netið á land, fullt af stórum fiskum, eitt hundrað fimmtíu og þremur. Og netið rifnaði ekki, þótt þeir væru svo margir. Jesús segir við þá: "Komið og matist." En enginn lærisveinanna dirfðist að spyrja hann: "Hver ert þú?" Enda vissu þeir, að það var Drottinn. Jesús kemur og tekur brauðið og gefur þeim, svo og fiskinn. Þetta var í þriðja sinn, sem Jesús birtist lærisveinum sínum upp risinn frá dauðum. Jóhannes 21: 1.-14.
Dæmisaga frá sjónum:
Jesús birtist við Tíberíasvatn
Enn er himnaríki líkt neti, sem lagt er í sjó og safnar alls kyns fiski. Þegar það er fullt, draga menn það á land, setjast við og safna þeim góðu í ker, en kasta þeim óætu burt. Svo mun verða, þegar veröld endar: Englarnir munu fara til, skilja vonda menn frá réttlátum og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna." Matteus 13: 47.-50.
Skipbrot, en mannbjörg:
Páll postuli æðrulaus í ofviðri
Páll siglir til Rómar
Þegar ákveðið var, að vér skyldum sigla til Ítalíu, voru Páll og nokkrir bandingjar aðrir seldir í hendur hundraðshöfðingja, er Júlíus hét, úr hersveit keisarans. Vér stigum á skip frá Adramýttíum, sem átti að sigla til hafna í Asíu, og létum í haf. Aristarkus, makedónskur maður frá Þessaloníku, var oss samferða. Á öðrum degi lentum vér í Sídon. Júlíus sýndi Páli þá mannúð að leyfa honum að fara á fund vina sinna og þiggja umönnun þeirra. Þaðan létum vér í haf og sigldum undir Kýpur, því að vindar voru andstæðir. Þá sigldum vér yfir hafið undan Kilikíu og Pamfýlíu og komum til Mýru í Lýkíu. Þar fann hundraðshöfðinginn skip frá Alexandríu, er sigla átti til Ítalíu, og kom oss á það.
Siglingin gekk tregt allmarga daga. Komumst vér með herkjum móts til Knídus, en þar bægði vindur oss. Þá sigldum vér undir Krít við Salmóne. Vér beittum þar hjá með naumindum og komumst á stað einn, sem kallast Góðhafnir, í grennd við borgina Laseu.
Enn leið drjúgur tími, og sjóferðir voru orðnar hættulegar, enda komið fram yfir föstu. Páll vildi því vara þá við og sagði við þá: "Það sé ég, góðir menn, að sjóferðin muni kosta hrakninga og mikið tjón, ekki einungis á farmi og skipi, heldur og á lífi voru." En hundraðshöfðinginn treysti betur skipstjóra og skipseiganda en því, er Páll sagði. Höfnin var óhentug til vetrarlegu. Því var það flestra ráð að halda þaðan, ef þeir mættu ná Fönix og hafa þar vetrarlegu. Sú höfn er á Krít og veit til útsuðurs og útnorðurs.
Í ofviðri
Nú rann á hægur sunnanvindur. Hugðust þeir þá hafa ráð þetta í hendi sér, léttu akkerum og sigldu fram með Krít nærri landi. En áður en langt leið, skall á af landi ofan fárviðri, hinn illræmdi landnyrðingur. Skipið hrakti, og varð ekki beitt upp í vindinn. Slógum vér undan og létum reka. Vér hleyptum undir litla ey, sem nefnist Káda. Þar gátum vér með naumindum bjargað skipsbátnum. Þeir náðu honum upp og gripu til þeirra ráða, sem helst máttu til bjargar verða, og reyrðu skipið köðlum. Þeir óttuðust, að þá mundi bera inn í Syrtuflóa; því felldu þeir segl og létu reka. Daginn eftir hrakti oss mjög undan ofviðrinu. Þá tóku þeir að ryðja skipið. Og á þriðja degi vörpuðu þeir út með eigin höndum búnaði skipsins. Dögum saman sá hvorki til sólar né stjarna, og ekkert lát varð á ofviðrinu. Tók þá að þrjóta öll von um það, að vér kæmumst af.
Nú höfðu menn lengi einskis matar neytt. Þá stóð Páll upp meðal þeirra og mælti: "Góðir menn, þér hefðuð átt að hlíta mínu ráði og leggja ekki út frá Krít. Þá hefðuð þér komist hjá hrakningum þessum og tjóni. En nú hvet ég yður að vera vonglaðir, því enginn yðar mun lífi týna, en skipið mun farast. Því að á þessari nóttu stóð hjá mér engill þess Guðs, sem ég heyri til og þjóna, og mælti: ,Óttast þú eigi, Páll, fyrir keisarann átt þú að koma. Og sjá, Guð hefur gefið þér alla þá, sem þér eru samskipa.' Verið því vonglaðir, góðir menn. Ég treysti Guði, að svo muni fara sem við mig hefur verið mælt. Oss mun bera upp á einhverja eyju."
Á miðnætti, þegar vér höfðum hrakist um Adríahaf í hálfan mánuð, þóttust skipverjar verða þess varir, að land væri í nánd. Þeir vörpuðu grunnsökku, og reyndist dýpið tuttugu faðmar. Aftur vörpuðu þeir grunnsökku litlu síðar, og reyndist dýpið þá fimmtán faðmar. Þeir óttuðust, að oss kynni að bera upp í kletta, og köstuðu því fjórum akkerum úr skutnum og þráðu nú mest, að dagur rynni. En hásetarnir reyndu að strjúka úr skipinu. Þeir settu bátinn útbyrðis og þóttust vera að færa út akkeri úr framstafni. Þá sagði Páll við hundraðshöfðingjann og hermennina: "Ef þessir menn eru ekki kyrrir í skipinu, getið þér ekki bjargast." Hermennirnir hjuggu þá festar bátsins og létu hann fara. Undir dögun hvatti Páll alla að neyta matar og sagði: "Þér hafið nú þraukað hálfan mánuð fastandi og engu nærst. Það er nú mitt ráð, að þér fáið yður mat. Þess þurfið þér, ef þér ætlið að bjargast. En enginn yðar mun einu hári týna af höfði sér." Að svo mæltu tók hann brauð, gjörði Guði þakkir í allra augsýn, braut það og tók að eta. Urðu nú allir hressari og fóru líka að matast. Alls vorum vér á skipinu tvö hundruð sjötíu og sex manns. Þá er þeir höfðu etið sig metta, léttu þeir á skipinu með því að kasta kornfarminum í sjóinn.
Skipbrot
Þegar dagur rann, kenndu þeir ekki landið, en greindu vík eina með sandfjöru. Varð það ráð þeirra að reyna að hleypa þar upp skipinu. Þeir losuðu akkerin og létu þau eftir í sjónum, leystu um leið stýrisböndin, undu upp framseglið og létu berast undan vindi til strandar. Þeir lentu á rifi, skipið strandaði, stefnið festist og hrærðist hvergi, en skuturinn tók að liðast sundur í hafrótinu. Hermennirnir ætluðu að drepa bandingjana, svo að enginn þeirra kæmist undan á sundi. En hundraðshöfðinginn vildi forða Páli og kom í veg fyrir ráðagjörð þeirra. Bauð hann, að þeir, sem syndir væru, skyldu fyrstir varpa sér út og leita til lands, en hinir síðan ýmist á plönkum eða braki úr skipinu. Þannig komust allir heilir til lands." Postulasagan 27. 1.-44.
Ótti við menn leiðir í snöru, en þeim er borgið, sem treystir Drottni." Orðskviðirnir 29: 25.
Postulinn Páll ritaði:
Vakið, standið stöðugir í trúnni, verið karlmannlegir og styrkir." 1. Korintubréf 16: 13.
Þetta er það, sem ég minni þig á, barnið mitt, Tímóteus, með þau spádómsorð í huga, sem áður voru yfir þér töluð. Samkvæmt þeim skalt þú berjast hinni góðu baráttu, í trú og með góðri samvisku. Henni hafa sumir frá sér varpað og liðið skipbrot á trú sinni." 1. Tímóteusarbréf 1: 18.-19.
Syndum varpað í djúp hafsins:
Ef hinn réttláti naumlega frelsast, hvar mun þá hinn óguðlegi og syndarinn lenda? 1. Pétursbréf 4: 18.
Meðan vér enn vorum óstyrkir, dó Kristur á settum tíma fyrir óguðlega; En Guð auðsýnir kærleika sinn til vor, þar sem Kristur er fyrir oss dáinn meðan vér enn vorum í syndum vorum. Rómverjabréfið 5: 6, 8.
Því það kenndi ég yður fyrst og fremst, sem ég einnig hef meðtekið, að Kristur dó vegna vorra synda samkvæmt ritningunum, 4að hann var grafinn, að hann reis upp á þriðja degi samkvæmt ritningunum." 1. Korintubréf 15: 3.-4.
Hver er slíkur Guð sem þú, sá er fyrirgefur leifum arfleifðar sinnar misgjörð þeirra og umber fráhvarf þeirra, - sem eigi heldur fast við reiði sína eilíflega, heldur hefir unun af að vera miskunnsamur? Þú munt aftur miskunna oss, troða niður misgjörðir vorar. Já, þú munt varpa öllum syndum vorum í djúp hafsins." Míka 7: 18.-19.
Þjáningar Krists:
Krossfestingin
Þá lét Pílatus taka Jesú og húðstrýkja hann. Hermennirnir fléttuðu kórónu úr þyrnum og settu á höfuð honum og lögðu yfir hann purpurakápu. Þeir gengu hver af öðrum fyrir hann og sögðu: "Sæll þú, konungur Gyðinga," og slógu hann í andlitið. Pílatus gekk aftur út fyrir og sagði við þá: "Nú leiði ég hann út til yðar, svo að þér skiljið, að ég finn enga sök hjá honum." Jesús kom þá út fyrir með þyrnikórónuna og í purpurakápunni. Pílatus segir við þá: "Sjáið manninn!" Þegar æðstu prestarnir og verðirnir sáu hann, æptu þeir: "Krossfestu, krossfestu!" Pílatus sagði við þá: "Takið þér hann og krossfestið. Ég finn enga sök hjá honum." Gyðingar svöruðu: "Vér höfum lögmál, og samkvæmt lögmálinu á hann að deyja, því hann hefur gjört sjálfan sig að Guðs syni;
Jesús krossfestur
Þeir tóku þá við Jesú. Og hann bar kross sinn og fór út til staðar, sem nefnist Hauskúpa, á hebresku Golgata. Þar krossfestu þeir hann og með honum tvo aðra sinn til hvorrar handar; Jesús í miðið.
Jóhannes 19. 1.-7; 17.-18.
Dauði hans
Jesús vissi, að allt var þegar fullkomnað. Þá sagði hann, til þess að ritningin rættist: "Mig þyrstir." Þar stóð ker fullt af ediki. Þeir settu njarðarvött fylltan ediki á ísópslegg og báru að munni honum. Þegar Jesús hafði fengið edikið, sagði hann: "Það er fullkomnað." Þá hneigði hann höfuðið og gaf upp andann." Jóhannes 19. 28.-30.
Greftrunin
Þeir tóku nú líkama Jesú og sveipuðu hann línblæjum með ilmjurtunum, eins og Gyðingar búa lík til greftrunar. En á staðnum, þar sem hann var krossfestur, var grasgarður og í garðinum ný gröf, sem enginn hafði enn verið lagður í. Þar lögðu þeir Jesú, því það var aðfangadagur Gyðinga, og gröfin var nærri." Jóhannes 19. 40.-42.
Upprisa Krists
Tóma gröfin. Hann er upprisinn
En í afturelding fyrsta dag vikunnar komu þær til grafarinnar með ilmsmyrslin, sem þær höfðu búið. Þær sáu þá, að steininum hafði verið velt frá gröfinni, og þegar þær stigu inn, fundu þær ekki líkama Drottins Jesú. Þær skildu ekkert í þessu, en þá brá svo við, að hjá þeim stóðu tveir menn íleiftrandi klæðum. Þær urðu mjög hræddar og hneigðu andlit til jarðar. En þeir sögðu við þær: "Hví leitið þér hins lifanda meðal dauðra? Hann er ekki hér, hann er upp risinn. Minnist þess, hvernig hann talaði við yður, meðan hann var enn í Galíleu. Hann sagði, að Mannssonurinn skyldi framseldur verða í hendur syndugra manna og krossfestur, en rísa upp á þriðja degi." Lúkas 24: 1.-7.
Drottinn kemur til lærisveinanna
Um kvöldið þennan fyrsta dag vikunnar voru lærisveinarnir saman og höfðu læst dyrum af ótta við Gyðinga. Þá kom Jesús, stóð mitt á meðal þeirra og sagði við þá: "Friður sé með yður!" Þegar hann hafði þetta mælt, sýndi hann þeim hendur sínar og síðu. Lærisveinarnir urðu glaðir, er þeir sáu Drottin; En einn af þeim tólf, Tómas, nefndur tvíburi, var ekki með þeim, þegar Jesús kom. Hinir lærisveinarnir sögðu honum: "Vér höfum séð Drottin." En hann svaraði: "Sjái ég ekki naglaförin í höndum hans og geti sett fingur minn í naglaförin og lagt hönd mína í síðu hans, mun ég alls ekki trúa." Að viku liðinni voru lærisveinar hans aftur saman inni og Tómas með þeim. Dyrnar voru læstar. Þá kemur Jesús, stendur mitt á meðal þeirra og segir: "Friður sé með yður!" Síðan segir hann við Tómas: "Kom hingað með fingur þinn og sjá hendur mínar, og kom með hönd þína og legg í síðu mína, og vertu ekki vantrúaður, vertu trúaður." Tómas svaraði: "Drottinn minn og Guð minn!" Jesús segir við hann: "Þú trúir, af því þú hefur séð mig. Sælir eru þeir, sem hafa ekki séð og trúa þó." Jóhannes 20: 19.20; 24.-29.
Festu traust þitt á Kristi
Jesús gjörði einnig mörg önnur tákn í augsýn lærisveina sinna, sem eigi eru skráð á þessa bók. En þetta er ritað til þess að þér trúið, að Jesús sé Kristur, sonur Guðs, og að þér í trúnni eigið líf í hans nafni." Jóhannes 20: 30.-31.
Ritið flytur eingöngu orð úr Heilagri ritningu - orði Guðs. Vér hvetjum yður einlæglega til að fá ykkur Biblíu og lesa hana, því að hún birtir guðlegan sannleika.
Scripture Gift Mission SGM Radstock House, Eccleston Street, London, SW1
Þýðandi M.S. Prentað í Bretlandi.
Ég ætla að birta uppáhaldssálminn hans Tóta föðurbróður míns sem nú er heima hjá Jesú í hinni nýju Jerúsalem.
1. Vort líf, það er sigling á æðandi öldum. Á aldimmri nótt gegnum boða og sker.
En áfram þó leiðinni hiklaust vér höldum. Vor hjartkæri Frelsari skipstjórinn er.
Kór.
Svo örugg vér höllum oss upp að hans hjarta, því aldrei vor Frelsari stýrir af leið.
Sé báturinn lakur, oss ber ekki' að kvarta, því bráðum á himni er þrotin öll neyð.
2. Þótt dimmt sé og kalt úti' á djúpinu tíðum, Guðs dýrmæta orð varpar ljósi á sæ.
Það léttir af ótta- og angistarhríðum. Og umbreytir stormi í hæglátan blæ.
3. Þótt stormurinn blási og öldurnar æði. Vér óðfluga nálægjumst takmarkið þreyð.
Þá enduð er sorgin í eilífðar næði. Og aflokið ferðinni, gleymd sérhver neyð.
Á morgunn 2. júní 1952 giftu mamma og pabbi sig. Ég var búin að blogga um brúðkaupsdaginn þeirra og langar mig að birta slóðina fyrir þá sem hafa áhuga að lesa um skemmtilega brúðkaupsferð sem tengist hafinu heldur betur.
http://rosaadalsteinsdottir.blog.is/blog/rosaadalsteinsdottir/entry/427641/#commentsGuð blessi ykkur öll.
Rósa Aðalsteinsdóttir
Flokkur: Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 19:45 | Facebook
Athugasemdir
Svona á að gera sjómannadeginum skil,þú ert dugleg Rósa mín.
Ég aftur á móti eyddi deginum með börnum mínum með veskið á lofti í hávaða roki,hér suður í Grindavíkinni góðu.
Takk fyrir mig Rósa og keep up the good work.
Úlfar Þór Birgisson Aspar, 1.6.2008 kl. 19:59
Falleg færsla á þessum merkisdegi. Til hamingju með daginn allir sjómenn nær og fjær. Kær kveðja til þín elsku Rósa og takk fyrir kveðjur til mín og minna.
Ásdís Sigurðardóttir, 1.6.2008 kl. 20:37
Sæl Rósa mín.
Falleg og uppörvandi grein tileinkuð Sjómannadeginum.
Þetta var þér líkt,og lýsir þér vel. Að gleyma ekki sjómanninum,hann er svo mikilvægur í skrásetningunni í hinni Helgu Bók, Biblíunni.
þú gleymir engum ,því alltaf er nóg af fólki sem þarf á hjálp að halda og þar ert þú.
Algóður Guð vaki yfir þér og þínum.
Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 2.6.2008 kl. 04:28
Sæl Rósa.
Thetta var ahugaverd lesning, snerti mig var sjomadur her adur fyrr og minn besti æsku vinur er sá sem samndi ljodid um thig.
Kvedja
Baluo (IP-tala skráð) 2.6.2008 kl. 09:44
Já Rósa mín, okkur ætti að bera að halda þennan dag en hátíðlegri en við gerum, því það er á öxlum þessara manna sem okkar þjóðfélag stendur í dag, ef ekki fyrir þá veit ég ekki hvar við værum. Guð blessi þá.
knús
Linda, 2.6.2008 kl. 10:14
Sælt veri fólkið. Takk fyrir hólið. Ussussuss. Hættið nú að láta svona. PLEASE
Sæl kæra Guðlaug Helga. Greinilega merkisdagur. Föðuramma mín fæddist þennan dag fyrir 117. árum. Tóti föðurbróðir minn kvæntist þennan dag tveimur árum eftir að pabbi og mamma giftu sig. Þeir mundu ekkert eftir afmæli móður sinnar. Skemmtilegar tilviljanir. Svo á ég frænku sem á afmæli í dag. Við erum systradætur. Hún átti merkisafmæli sl. ár.
Einhöm - Nei það er nú ekki svo. Ég ætlaði að koma þessari færslu í loftið á laugardagskvöld en Sigurður Rósant stal frá mér laugardagskvöldinu með allskyns spurningum.
Sæll Úlli minn. Ég var að enda við að skrifa Guðlaugu Helgu um hvernig frændi þinn sá mér fyrir vinnu á laugardagskvöldið. Kynntist smá því sem þú upplifðir þegar þú varst með færslu um kennslu í ........... uss. Ég vildi endilega koma þessari færslu í loftið þótt seint væri. Ég kíkti ekkert hér niður á bryggju í gær en hér fyrir neðan voru hátíðahöld vegna Sjómannadagsins. Í gær var sól og yndislegt veður og einnig í dag. Vopnfirðingar voru greinilega sólarmegin í lífinu í gær og í dag. Þökk sé Guði.
Sæl Ásdís mín. Þar sem ég er sjómannsdóttir fannst mér við hæfi að koma með færslu sem tengist sjómönnum. Á samkomunni í gær báðum við fyrir ykkur á Suðurlandinu vegna jarðskjálftana og einnig fyrir ykkur hjónunum vegna slæmsku í baki. Jesús er besti læknirinn og ég trúi að ég verði bænheyrð með lækningu fyrir ykkur.
Sæll Þórarinn minn. Sjómannsdóttir má nú ekki klikka á þessu fyrst hún er að bulla á blogginu á annað borð. Ég ólst upp hér rétt við sjóinn og leikskólinn hjá okkur börnunum var m.a. á síldarplaninu innan um fólkið sem var á fullu að vinna. Við fengum sum áminningu. Frændi minn datt 5 sinnum í sjóinn og ég þrisvar sinnum. Margir fleiri fengu sjóbað. Það munaði litlu með mig í eitt skiptið því enginn sá þegar ég datt í sjóinn. Við fórum svo öll ung að vinna í síldinni. Held ég hafi verið 7 eða 8 ára þegar ég saltaði síld. Man að ég náði einu sinni tveimur tunnu þegar þær hörðustu (fullornar konur) náðu 20 tunnum. Í dag finnst mér þetta heilmikið afrek.
Sæll Baluo. Velkominn í heimsókn á síðuna mína. Ertu að tala um Sigurð Ægisson? Ertu að tala um ljóðið sem er á bak við djókmyndina af höfundi? Ég sýni ekki mitt rétta andlit og þú ekki þitt rétta nafn. Fjör á síðunni sem við hittumst á í morgunn.
Sæl Linda mín. Sammála. Dugnaður sjómanna hefur skilað miklu í þjóðarbúið okkar. Því miður höfum við misst marga í hafið. Fyrir rúmu ári vorum við Vopnfirðingar minnt á ógn hafsins. Við misstum mann í hafið. Hann var að vitja um grásleppunetin sín. Ekkjan hans og ég erum frænkur og vinkonur. Við söltuðum saman á seinni síldarárunum og afköstin voru mjög góð þó ég segi sjálf frá.
Guð blessi ykkur öll og gefi ykkur góðan dag í Jesú nafni.
Kær kveðja/Rósa.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 2.6.2008 kl. 12:08
Sæl aftur.
Ætla að koma með fallegan sálm úr Hörpustrengjum sem er sálmabók Hvítasunnumanna.
1. Ég er á langferð um lífsins haf. Og löngum breytinga kenni. Mér stefnu Frelsarinn góður gaf. Ég glaður fer eftir henni. Mig ber að dýrðlegum ljósum löndum. Þar lífsins tré gróa' á fögrum stöndum við sumaryl og sólardýrð.
2. Og stundum sigli ég blíðan byr. Og bræðra samfylgd þá hlýt ég. Og kjölfars hinna er fóru fyr, án fyrirhafnar þá nýt ég. Í sólarljósi er særinn fríður. Og sérhver dagurinn óðar líður er siglt er fyrir fullum byr.
3. En stundum aftur ég aleinn má. Í ofsarokinu berjast. Þá skellur niðadimm nóttin á svo naumast hægt er að verjast. Ég greini' ei vita né landið lengur í tæka tíð. En ljúfur Jesús á öldunum gengur um borð til mín í tæka tíð.
4. Mitt skip er lítið en lögur stór og leynir þúsundum skerja. En granda skal hvorki sker né sjór. Því skipi' er Jesús má verja. Hans vald er sama sem var það áður. Því valdi' er særinn og stormur háður. Hann býður: "Verði blíðalogn!"
5. Þá hinsti garðurinn úti er. Ég eygi land fyrir stöfnum. Og eftir sólfáðum sæ mig ber. Að sælum, blælygnum höfnum. Og ótal klukkur ég heyri hringja. Og hersing ljósengla Drottins syngja: "Velkominn hingað heim til vor!"
6. Lát akker falla! Ég er í höfn. Ég er með Frelsara mínum. Far vel, þú æðandi, dimma dröfn. Vor Drottinn bregst eigi sínum. Á meðan akker í ægi falla. Ég alla vinina heyri kalla. Sem fyrr urðu hingað heim.
Henry Trandberg - Vald. V. Snævarr.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 2.6.2008 kl. 12:34
Ég var á sjó í 10 ár og alltaf ætlaði ég að hætta. henti stakknum og stígvélunum vertíð eftir vertíð. Vissi alltaf að ég var engin sjómaður. það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom til Íslands eftri 20 ára fjarveru, var að fara í einn afleysingartúr á línubát frá Sandgerði. Mjög uppfrískandi túr. það er alltaf eitthvað heillandi við sjómennsku þó ég hafi allatf viljað gera eitthvað annað..Takk fyrir frábæra grein að venju Rósa mín..
Óskar Arnórsson, 2.6.2008 kl. 23:26
Sæl Rósa.
Er ekki undir dulnefni nema sidur se, Baluo mitt gælu nafn en heiti Baldur! kalldur Baluo á spönsku Baluoz. Var sjomadur adur en eg lenti i bilslysi og lamadist, hef ekki bloggsidu en fynst alveg ótrulega gamann ad lita vid a bloggid hja fólkinu i landinu.
Bestu kvedjur
Baluo (IP-tala skráð) 3.6.2008 kl. 07:44
sæl elsku vinkona.mikið er ég glöð yfir að guð færði mér svona yndislega vinkonu, það eru forréttindi að fá að eiga vináttu þína.frábært blogg hjá þér um hafið, það bæði gefur og tekur frá okkur.mörg móðirin hefur þurft að taka á honum stóra sínum hér áður.Langamma mín Anna Soffía Stefánsdóttir, horfði 7 ára gömul á pabba sinn drukna við veiðar úr fjöru án þess að geta nokkuð gert
Adda bloggar, 3.6.2008 kl. 10:53
Sæl Rósa!
Alltaf gaman að skoða færslurnar þínar, enda ekkert bull,bara gott efni.
Takk fyrir það mín kæra!
Sumar kveðja úr Garðabæ Halldóra .
Halldóra Lára Ásgeirsdóttir, 3.6.2008 kl. 11:49
Sæl öll og takk fyrir innlitið.
Sæll Guðlaugur frændi. Fyndinn ertu. Hvernig leist þér á myndirnar? Með því að fara með bendilinn á myndirnar þá sérðu texta. Allar þessar myndir eru hérna beint fyrir neðan æskuheimilið mitt. Neðst er mynd af okkur systkinunum. Myndin er framkölluð í ágúst 1961 og foreldrar mínir eru við hliðina. Þannig að ég hef verið á þriðja ári þarna að snuðra í kringum síldartunnur.
Sæll Óskar minn. Þú varst alltaf að hætta á sjónum og hentir sjófötunum en þraukaðir samt í 10 ár. Get ímyndað mér að það hafi bæði verið viðbrigði og eins líka gaman að fara á sjóinn eftir öll þessi ár. Vonandi var þetta um sumar svo sjóveikin hafi ekki plagað þig. Eitt haustið fór ég og frænka mín til skiptis með pabba á sjó. Það var undiralda og mér leið illa. Vinir okkar komu þar sem við vorum að renna færum og pabbi vissi um mína stöðu. Hann sagði: "Ef þú þarft að æla þá ferðu niður í lúkar og ælir þar frekar en að láta mennina sjá þig æla." Get ekki gleymt þessari fyndnu setningu. Oj bara ef ég eða pabbi hefðum þurft að verka upp ælu. ég slapp í þetta skipti en ég er algjör landkrabbi og hef orðið sjóveik. við fjölskyldan fórum frá Reykjavík til Vestmannaeyja árið 1964. Þegar við sigldum fram hjá Reykjanesinu varð óþverra veður. Við urðum öll sjóveik. Þvílíkur viðbjóður. Ég gleymi seint þessari ferð.
Sæl Adda mín. Ég er líka glöð að eiga þig að sem vinkonu. Hræðileg lífsreynsla sem amma þín varð fyrir þegar hún var 7 ára. hafið hefur tekið sinn toll. Get ekki gleymt jólunum þegar Suðurlandið fórst á leið til Sovétríkjanna sálugu með síld og var lestað síðast hér á Vopnafirði. Minnir að þetta hafi verið á Aðfangadagskvöld. Daginn eftir eða annan í jólum fórst svo erlent skip í minni Fáskrúðsfjarðar hjá Skrúð. Sumir af mönnunum stukku frá borði. Sennilega ekki gert sér grein fyrir miklum hitamun í sjónum miðað við heima hjá þeim. Minnir líka að það var ýmislegt ábótavant með björgunarbúnað.
Sæl Halldóra mín. Ég verð að viðurkenna fyrir þér að það verður svolítið bullað á blogginu mínu seinnipartinn í júní en mesta áherslan er lögð á að dusta ryki af gömlum ritum sem eiga fullt erindi á bloggið í dag. Ég hugsaði eins og þú að koma með kristilegt efni á vefinn í von um að einhverjir myndu lesa hvort sem það væri í gegnum mbl.is eða ef einhver væri að gúggla og leita af einhverju efni þá kannski kæmu ritin sem ég setti inná vefinn að gagni og myndu gefa fólki víðari sýn.
Sæll Erlingur minn. Ég mun hafa samband. Næ í gögnin og kannski áttu greinar um Pýramídana og um Benjamín ættkvíslina á íslensku fyrir mig.
Guð blessi ykkur öll.
Kær kveðja/Rósa
Rósa Aðalsteinsdóttir, 3.6.2008 kl. 22:01
Takk fyrir frabara grein Rosa, ter bregst ekki bogalistin frekar en fyrri daginn.
Kem til Islands um helgina tangad til bid eg ad heilsa
Siggi
Sigurður Þórðarson, 4.6.2008 kl. 02:22
Sæll Siggi minn.
Gaman að fá innlegg frá þér frá Noregi. Vona að þú njótir dvalarinnar í Norge.
Guð blessi þig og varðveiti og leiði þig heim aftur.
Kær kveðja/Rósa
Rósa Aðalsteinsdóttir, 4.6.2008 kl. 08:43
Elsku Rósa mín, þú ert bara frábær penni, gaman aðlesa skrifin þín. Góða ferð í borgina heiri í þér þegar þú kemur heim .
Guð geimi þig kæra Rósa
Kristín Gunnarsdóttir, 5.6.2008 kl. 11:18
Sæl kæra Kristín.
Takk fyrir innlitið, tölvupóst og símtöl frá Danmörku. Vona að húsnæðismálin leysist sem fyrst. Hlakka til að heyra í þér.
Guð veri með þér og þínum.
Kær kveðja/Rósa
Rósa Aðalsteinsdóttir, 5.6.2008 kl. 22:45
1. Þegar lífs á hafi hefjast. Hörðu veðrin, sést ei strönd. Vil ég skjóls og skýlis leita Sálu minni' í Drottins hönd.
Kór: Hann mig verndar, hann mín gætir, hans í vernd ei tjón mér mætir, Hann mig verndar, böl mitt bætir, Blessuð sé hans föðurhönd.
2. Mér þótt Drottinn mæðu sendi. Mér hún eykur himinþrá. Því af ást, en ekki reiði, okið hann mig leggur á.
3. Heimsins mega svikasveitir sinna bragða nota mátt. Drottinn snýr þó málum mínum. Mér til góðs á einhvern hátt.
M.E. Servoss - Þýð. óþ.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 5.6.2008 kl. 23:08
1. Herra, sjá bylgjurnar brotna Og beljandi stormur hvín, Og himinninn hulinn er skýjum, Vér hrópum í neyð til þín. Hirðir þú ei um það, Herra, Hér þó að týnumst vér? Hvernig geturðu blundað á bárum? Vor bátur í voða er.
Kór: Sjá, ég hefi vald yfir vindi' og sjó! :,: Verði ró :,: Alls enginn maður né myrkravald, Ei magnþrunginn hafsjór, með öldufald, Fær grandað því skipi, er geymir í sér, Þann Guð, sem frá upphafi var og er. :,: Sjá, ég hefi vald yfir vindi' og sjó! Verði ró! :,: Verði hér ró!
2. Herra, ég andvarpa' í angist, Því anda minn skortir frið, Og hafdjúp míns hjarta er ókyrrt Um hjálp þína' og náð ég bið. Sál mín glötuð að sökkva Syndmyrka hylinn í, Tak við stjórninni, himneski Herra, Ég hjálparlaus til þín flý.
3. Herra, nú heyrist ei andblær, Nú hefi ég fundið skjól. Mín önd speglar himininn hreina, Sem hafdjúpið morgunsól. Drottinn minn, far þú ei frá mér, Fylg mér, því leið er vönd, Unz ég höfn næ og hugglaður uni á himneskri friðarströnd.
Mary A. Baker. Sbj. Sveinsson.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 5.6.2008 kl. 23:24
1. Enginn getur elskað meira En að gefa sjálfan sig. Lífsins orðin lát mig heyra, Ljúfi Jesús, bænheyr mig. Lífsvon mín og ljós mitt ertu, Ljóssins Guð, á saltri dröfn. Efst í hug mér alltaf vertu Að ég nái ljóssins höfn.
2. Aflasæld þú oss mátt veita Eins og lærisveinum fyr, Ofsaroki og kannt breyta Oss til lífs í hægan byr. Haf þú hjá oss, son Guðs sæti, Sjónum gef úr mikinn auð. Hógværð með og lítillæti Lát oss þiggja daglegt brauð.
3. Blessa, Jesús bátsmenn alla, Blessa þeirra skyldulið. Oft þú gerir á oss kalla, Ást þín býður náð og frið. Sæl með Jesú saman búum Samfélagsins uppbygging. Eilíft líf, ef á hann trúum, Öruggasta líftrygging.
4. Þökkum Guði í himinhæðum, Hann oss gefur veðrin blíð. Lofi Drottin, líf í æðum, Lofum Guð á hverri tíð. Lofum, þökkum ljúfa friðinn, Ljóssins Guð á Ísagrund. Þökkum Drottni daginn liðinn, Dýrð fyrir hverja morgunstund.
Guðríður S. Þóroddsdóttir.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 5.6.2008 kl. 23:40
Sæl Rósa Vá æðislegt færsla hjá þér kæra vinkona ég tek undir með það að Rósa mín er mikil penni ,okkur ætti að bera að halda þennan dag en hátíðlegri en við gerum.
Guð Blessi Þig
Jói
Jóhann Helgason, 8.6.2008 kl. 11:10
Já, Jóhann! Rósa er nú heldur betur meira enn góður penni! Tek undir þetta með að halda hvíldardaginn heilagan. Myndi ábyggilega stórlaga mitt líf þó ég gæti bara komið þeirri rútínu á.
Óskar Arnórsson, 8.6.2008 kl. 11:41
Falleg færsla Rósa mín og takk fyrir allt.
Kristín Katla Árnadóttir, 8.6.2008 kl. 15:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.