Kristnitakan á Íslandi

Kristnitakan á Íslandi 

Norrænir menn kynntust kristni í víkingaferðum t.d. á Bretlandseyjum. Á Norðurlöndum reis trúboðsalda á 10. –11. öld og  náði til Íslands á 10 öld.

Nokkrir trúboðar lögðu leið sína til Íslands. Fyrstir voru Þorvaldur Koðránsson og Friðrekur biskup frá Saxlandi í Þýskalandi. Ólafur Tryggvason sendi Stefni Þorgilsson hingað til lands  og síðar Þangbrand Vilbasússon.   

Vatnslitamynd Ásgríms Jónssonar frá ÞingvöllumHallur Þorsteinsson frá Þvottá í Álftafirði, Gissur hvíti Teitsson af Mosfellingaætt og Hjalti Skeggjason úr Þjórsárdal voru með þeim fyrstu sem tóku trú og létu skírast.

Gissur hvíti og Hjalti fóru til Noregs til að hitta Ólaf konung Tryggvason. Hittu þeir konung reiðan. Hafði Þangbrandur þá borið Íslendingum illa söguna.

Konungur var með hótanir og tók fjóra gísla. Gissur og Hjalti lofuðu að reyna að kristna Íslendinga.

Gissur og Hjalti fóru á Alþingi og boðuðu kristna trú. Varð uppi fótur og fit. Þorgeir Ljósvetningagoði var fenginn til að fella úrskurð.    

Mikil pressa var á Íslendingum vegna gíslatökunnar. Viðskipasambönd við útlönd voru í hættu.
 
Fyrir kristnitökuna var ásatrú

Norrænir menn kynntust kristni í víkingaferðum t.d. á Bretlandseyjum. Á Norðurlöndum reis trúboðsalda á 10.-11. öld. Trúboðsaldan náði til Íslands á 10. öld.

Árið 1000  gerðist stórmerkilegur atburður á Íslandi. Íslendingar tóku kristna trú. Áður  var ásatrúin ríkjandi hér allt frá landnámi. Ásatrúin er einnig nefnd “heiðinn siður.” Ásatrúin á sér langa sögu og er hægt að rekja söguna aftur til Grikkja og Rómverja og jafnvel enn lengra.

Ásatrúarmenn áttu mörg átrúnaðargoð s.s. Óðin, Þór, Frey, Tý, Baldur, Njörð, Frigg og Freyju.

Hátíðir Ásatrúarmanna voru blót og blótveislur. Menn tilbáðu goð sín, það var kallað að blóta goðin. Ásatrúarmenn dýrkuðu goð sín í hofum og hörgum. Það er heiðið vé, blóthús eða blótstallur.

Goðaveldið. Valdamestu menn landsins voru goðar. Goðarnir voru fyrst 36 og síðar 39. Goðarnir áttu sæti í Lögréttu og voru með öll völd þar, þangað til  að biskup tók sæti í Lögréttu. Til viðbótar við goðana 36/39  voru 9 menn með goðavöld á Alþingi. Það var gert til að hafa jafn marga goða úr öllum landsfjórðungum. (Árni Hermannsson o.fl.2000:100)

Af þessum 36 goðorðum voru tvö í Vopnafirði. Það voru goðorð Hofverja og Krossvíkingagoðorð. Á sama tíma var bara eitt goðorð í Reykjavík. Þrjú goðorð bættust við 965 og eitt af þeim var Ljósvetningagoðorð. Þar var Þorgeir Þorkelsson goði og eftir að hann gerðist kristinn henti hann öllum goðalíkneskjum í Goðafoss í Skjálfandafljót. (Árni Daníel Júlíusson o.fl.1991:59)

Þegar kristnitakan átti sér stað voru goðarnir valdamestir og koma þeir mikið við sögu. Það voru Hallur Þorsteinsson úr Álftafirði, Gissur hvíti Teitsson úr Haukadal  og Þorgeir Þorkelsson frá Ljósavatni.  

 

Fyrstu trúboðarnir

Þorvaldur hinn víðförli Koðránsson frá Stóru-Giljá í Húnaþingi kynntist kristinni trú í Saxlandi í Þýskalandi og tók þar skírn.  Friðrekur biskup á Saxlandi skírði Þorvald. Friðreks er ekki getið í heimildum erlendis. Hann hefur því aðeins verið trúboðsbiskup. Þorvaldur bað Friðrek að koma með sér til Íslands til að  skíra frændur sína. Þeir dvöldu á Íslandi 981-986. Þorvaldur og Friðrekur dvöldu á Stóru-Giljá og svo á Lækjarmóti í Víðidal. Þorvaldi og Friðrek varð svolítið ágengt  með kristniboðið á Norðurlandi. Frændgarður Þorvalds tók skírn.

Ein af höfuðskyldum kristinna manna var að breiða út GuðsríkiFriðrekur og Þorvaldur boðuðu Koðráni föður Þorvaldar kristna trú. Koðrán var bundinn af trú sinni á verndarvætti. Verndarvætturinn bjó í steini rétt hjá Giljá og vakti hann yfir fé Koðráns og varaði hann við aðsteðjandi hættum. Koðrán hreifst af helgihaldi sonar síns og þeir feðgar gerðu með sér samkomulag að Koðrán skyldi gerast kristinn ef Friðrekur myndi hrekja vættinn á brott. Daginn eftir vígði biskup vatn. Hann fór með bæn og sálmasöng. Síðan dreifði hann vatninu umhverfis steininn og hellti yfir steininn helgu vatni. Koðrán dreymdi nóttina eftir að spámaður sinn kæmi til sín og talaði við hann. Var hann dapur að sjá og hræddur. Hann var ósáttur við gesti Koðráns og vildi meina að þeir væru með svik við Koðrán. Lýsti hann því að þegar Friðrekur hafði hellt vatninu yfir bústað hans þá hefðu börn hans ekki þolað það og þau  brennst.  Biskup þurfti í þrjá daga að vera með yfirsöng yfir steininum til að reka vættinn á brott. Það  tókst að afhjúpa illt eðli vættarinnar. Koðrán, Járngerður kona hans og allt heimilisfólkið á Giljá tóku kristna trú nema Ormi bróðir Þorvaldar. (Hjalti Hugason o.fl. 2000:123-161)

Heiðnir menn fóru að yrkja níð um Þorvald og Friðrek.  “Hefir börn borið biskup níu, þeirra er allra Þorvaldur faðir.” (Sigurður Líndal.1974:231-236)   Með þessu var verið að gefa í skyn að biskup væri kynvilltur. Vegna þessa drap Þorvaldur tvo menn. Fannst Friðrek ganga hægt hjá Þorvaldi að læra fyrirgefningarboðskap kristninnar. Þeir yfirgáfu landið skömmu síðar. (Gunnar Karlsson.1989:75-76)

Þorkell krafla á Hofi í Vatnsdal og Eyjólfur Valgerðarson á Möðruvöllum í Eyjafirði létu prímsignast. (Jón Jóhannesson.1956:152-153). Að prímsignast, það var fyrsta blessun, krossmark var gert yfir þeim og þeir voru afdjöflaðir. Eftir að þeir létu prímsignast máttu þeir ekki lengur taka þátt í opinberum blótum og mökum við myrkravöldin. Þá máttu þeir hafa samskipti við kristna menn. Margir létu prímsignast og margir gerðu það í hagnaðarskyni. (Árni Daníel Júlíusson o.fl. 1991:64)

Ólafur Tryggvason sendi hingað mann sem var af íslensku bergi brotinn Stefni Þorgilsson. Stefnir var afkomandi Helga bjólu, hins kristna landnámsmanns á Kjalarnesi.(Sigurður Líndal.1974:236-237) Talið er að hann hafi dvalist hér 995-996.
 (Hjalti Hugason o.fl.2000:123-161).  Honum varð ekki ágengt og “ tók þá að meiða hof og hörga og brjóta skurðgoð.”(Gunnar Karlsson o.fl. 1989:76) Hann var dæmdur sekur fyrir gjörðir sínar og fór hann alfarinn frá Íslandi.  Einnig er Stefnir sagður afkomandi Bjarna bunu. (Hjalti Hugason o.fl. 2000:123-161)

Ólafur Tryggvason lét ekki deigan síga og sendi hingað þýskan prest sem hét Þangbrandur. Skip Þangbrands  kom inn Berufjörð og inn að Gautavík. Bændur sem bjuggu í Berunesi bönnuðu mönnum að eiga kaup við Þangbrand. Hallur Þorsteinsson (Síðu-Hallur) sem bjó á Þvottá í Álftafirði frétti um afdrif Þangbrands og bauð honum að dvelja hjá sér. Síðu-Hallur og öll hans hjú tóku skírn. Talið er að skírnin hafi verið framkvæmd í ánni Þvottá í Álftafirði. (Kristnitakan.Vefsíða). (Heimildir eru í Kristni á Íslandi 1. bls.138 að Þangbrandur hafi fyrst tekið land í  Hamarsfirði).

Margir höfðingjar létu skírast þ.á. m. voru þeir Gissur hvíti Teitsson, Ketilbjarnarsonar landnámsmanns frá Mosfelli í Grímsnesi í Árnessýslu og tengdasonur hans Hjalti Skeggjason úr Þjórsárdal. (Gizur þannig var nafn hans skrifað. Ketilbjörn var Ketilsson).

Bæði Þangbrandur og Stefnir boðuðu kristna trú með Biblíuna í annarri hendi og sverðið í hinni. (Árni Hermannsson o.fl.2000:111)

Þangbrandur boðaði trú á Suðausturlandi, Suðurlandi og hann fór alla leið yfir á Barðaströnd. Þangbrandur þurfti að yfirgefa Ísland sumarið 999 (eða 998) eftir að hafa vegið tvo eða þrjá menn. (Árni Hermannsson o.fl.2000:111) Skrifað er um Þangbrand í Heimskringlu að hann hafi verið vígamaður og ofstopamaður en vaskur maður og góður klerkur.

Gissur hvíti Teitsson og Hjalti Skeggjason

Turn Hólakirkju en á Hólum var um aldir önnur tveggja dómkirkna á ÍslandiGissur hvíti var af ríkri og valdamikilli ætt og var goðorðsmaður í Mosfellingagoðorði í Grímsnesi í Árnessýslu. (Kristnitakan á Íslandi. Vefsíða) Gissur hvíti og Hjalti  voru með þeim fyrstu sem tóku kristna trú og létu skírast. Hjalti var dæmdur fjörbaugsmaður. Þann dóm fékk hann fyrir að hafa líkt Freyju við tík í kviðlingi. “Vil ég eigi goð geyja; grey þykir mér Freyja” (Sigurður Líndal.1974:239-247) Dómurinn var þriggja ára útlegð frá Íslandi. Gissur hvíti og Hjalti fóru á fund Ólafs konungs Tryggvasonar. Dvöldu þeir einn vetur í Noregi. Ágiskanir eru um að  “Gissur hvíti hafi verið fulltrúi kristinna manna  er átti að tryggja áframhaldandi stuðning konungs við kristni á Íslandi.”(Hjalti Hugason o.fl. 2000:83-121). Gissur hvíti og Ólafur konungur voru náskyldir. Þeir voru þreminningar. (Jón Jóhannesson.1956:159)

Þegar þeir hittu konung, þá komust þeir að því að Þangbrandur hafði sagt konungi ýmisleg miður úr för sinni til Íslands. Þangbrandur sagði að Íslendingar hefðu ort níð um hann og sumir hafi viljað drepa hann. (Kristnitakan á Íslandi. Vefsíða.) Konungur brást reiður við og var með hótanir við Gissur hvíta og Hjalta. Hann ætlaði að láta meiða eða drepa Íslendinga í Noregi. (Árni Hermannsson o.fl. 2000:111.)

Ólafur konungur tók fjóra gísla: Kjartan son Ólafs pá í Hjarðarholti; Sverting son Runólfs goða í Dal; Halldór son Guðmundar ríka á Möðruvöllum og Kolbein Þórðarson bróður Brennu-Flosa á Svínafelli. (Jón Jóhannesson.1956:159-160). Þetta voru allt synir höfðingja og var þetta gert til að pressa á Íslendinga að gerast kristnir.       

Gissur hvíti og Hjalti voru í mjög slæmri stöðu en þeir lofuðu konungi að fara til Íslands og beita sér fyrir kristnun á Íslandi. Ólafur konungur lét þá fá mikið fé til að vingast við höfðingja á Íslandi. (Kristnitakan á Íslandi. Vefsíða.)

Boðuð kristin trú á Alþingi

Sumarið eftir héldu Gissur hvíti og Hjalti heim á leið. Með þeim í för var prestur sem hét Þormóður. Þegar þeir voru við Dyrhólaós var Flosi Þórðarson á leið til Alþingis. Hann reið yfir Arnarstakksheiði. Flosi fékk fréttir um “gíslatökuna” frá mönnum sem höfðu róið út í ósinn til þeirra Gissurar hvíta og Hjalta. Fréttirnar um gíslatökuna fór svo Flosi með á Alþingi. Einn af gíslunum var bróðir Flosa. (Jón Hefill Aðalsteinsson. 1971:73)

Gissur hvíti og Hjalti komu til Vestmannaeyja. Þá voru liðnar 10 vikur af sumri og þennan dag áttu menn að ríða til Alþingis. Héldu þeir strax frá Vestmannaeyjum yfir til fastalandsins. Þeir héldu til Þingvalla en komu fyrst við í Laugardal. Þar gerðu þeir með sér samkomulag að Hjalti yrði eftir ásamt tólf manns því hann hafði ekki tekið út sinn dóm. Þegar Gissur og hans menn voru komnir að Vellankötlu við Þingvallavatn  sendu þeir boð til allra sem ætluðu að fylgja þeim að málum og báðu þá að koma til móts við sig. Þeir höfðu frétt að andstæðingar þeirra vildu verja þeim þingvöllinn (Gunnar Karlsson o.fl.1989:78) Frændur og vinir komu til móts við þá. En áður en Gissur hvíti og fylgdarmenn hans riðu inn á þingstaðinn slóst Hjalti í för með þeim. Hann tók þar mikla áhættu því hann hafði ekki tekið út sinn dóm. Hefur örugglega ríkt ófriðarástand að Hjalti skyldi koma til þings en hafði bara afplánað eitt ár af þremur.

Gissur og Hjalti gengu til Lögbergs og báru upp erindi sín. Þeir boðuðu kristna trú. Varð uppi fótur og fit. Heiðnir menn og kristnir sögðu sig úr lögum hverjir við aðra. Leit út fyrir að litla Ísland yrði tvö ríki. “Athugulir menn og varfærir sáu að við svo búið mátti ekki standa” (Árni Hermannsson o.fl. 2000:111)

Á meðan á þessu stóð kom maður hlaupandi og sagði að jarðeldur væri  byrjaður í Ölfusi og að hann stefndi á bæ Þórodds goða. Heiðnir menn sögðu “Eigi er undur í að guðin reiðist tölum slíkum” Snorri goði að Helgarfelli  mælti þá. “Um hvað reiddust goðin þá, er hér brann hraunið , er nú stöndum vér á. (Hjalti Hugason o.fl. 2000:83-121)

Var Hallur Þorsteinsson goði úr Álftafirði, sem var foringi kristna flokksins, fenginn til að segja upp lög er fylgja skyldu kristni. Hallur leystist undan því og fékk hann Þorgeir Þorkelsson Ljósvetningagoði og lögsögumann um að fella úrskurð í þessu máli. Þorgeir var þá ennþá heiðinn.

Þorgeir Þorkelsson frá Ljósavatni

Goðafoss í Skjálfandafljóti en sagan segir að Þorgeir hafi varpað þar í goðamyndum sínum er hann snéri sem kristinn maður aftur af þingi og nafn fossins dregið þar afÞorgeir Þorkelsson goði frá Ljósavatni gekk til búðar sinnar eftir að hann hafði tekið við flóknu hlutverki að vera lögsögumaður tveggja ólíkra fylkinga. Sagt er að hann hafi lagst undir feld. Lá hann þar til næsta morguns án þess að mæla orð. Morguninn eftir var hann tilbúinn að ljúka því verki sem honum var falið og sagði mönnum að ganga til Lögbergs.

Þorgeir flutti ræðu á Alþingi. Það er örugglega ein örlagaríkasta ræða sem haldin hefur verið á Íslandi. Þorgeir talaði um að það væri hættulegt að hafa ekki bara ein lög. Hann talaði um að ef þeir myndu slíta í sundur lögin að þá myndu þeir einnig slíta og friðinn. Hann sagði að allir skyldu hafa ein lög, þau sem hann myndi ákveða. Þegar menn höfðu játast undir þessa skuldbindingu, þá kvað hann upp úr: “að allir menn skyldi kristnir vera og skírn taka.” (Sigurður Líndal.1974:239-247) Til að milda ákvörðun sína ákvað Þorgeir að heiðnir menn mættu gera þrennt sem þeir hefðu gert áður: Að bera út börn, éta hrossakjöt og blóta heiðin goð á laun. Fáeinum vetrum síðar var þessi heiðni afnumin. (Gunnar Karlsson o.fl. 1989:79)

Boðskapur í ræðu Þorgeirs felst m.a í því að farsæl mannvist í landinu fái ekki staðist nema allir íbúar þess lifi í sama samfélagi.  Þess vegna taldi Þorgeir að allir yrðu að játa sömu trú. Ef það væru tveir siðir í landinu væri allsherjarsamfélagið úr sögunni. Þá myndi ríkja ófriður, glundroði og óregla. (Hjalti Hugason o.fl.2000:83-121). Lögtaka kristninnar á Alþingi er einn af stærstu og merkustu atburðum í sögu þjóðarinnar. Ríkinu var bjargað frá ófriði og klofningi. Hér á landi var kristnitakan samþykkt á löggjafarþingi. Út um víða veröld þurfti oft langan tíma til að koma á kristni og þurfti oft að beita valdi. (Jón Jóhannesson.1956:163-164) Ef til átaka hefði komið, hefðu við kannski misst sjálfstæðið til Noregskonungs. Á þessum tíma vorum við í miklum viðskiptum við Noreg og því lífsnauðsynlegt að halda friðinn við ofureflið Ólaf Tryggvason.

Eftir kristnitökuna

Eftir kristnitökuna höfðu erlendir trúboðsbiskupar eftirlit með kristnihaldi. Eftir að landsmenn tóku upp kristna trú vantaði kirkjur, presta og biskupa. (Gunnar Karlsson o.fl.1989:85).  Gissur hvíti lét reisa kirkju í Skálholti á eignarjörð sinni.

Ekki eru til myndir af kirkju Gissurar í Skálholti en hér gefur að lýta mynd frá 1772 af kirkju Brynjólfs Sveinssonar. Hún var hin síðasta í langri röð stórra útbrota kirkna á staðnum. Slátrið úr henni fór í byggingu kirkju sem Valgerður ekkja Hannesar Finnssonar síðasta biskups í Skálholti lét reisa upp úr aldamótunum 1800 á grunni þeirrar fyrri og var margfalt minni.Árið 1050 fannst landsmönnum tími til kominn að stofna biskupsstól. Ísleifur Gissurarson hins hvíta var kosinn fyrsti biskup landsins. Ísleifur hafði stundað nám í Þýskalandi. Var hann talin fyrsti Íslendingurinn sem fór til náms erlendis. Hann fór utan á fund páfa sem sendi hann til Aðalberts erkibiskups í Brimum. Þar var hann vígður 1056. (Íslenska Alfræðiorðabókin H-O 1990:175). Ísleifur var fimmtugur þegar hann varð biskup. Hann sat í Skálholti og stofnaði skóla fyrir tilvonandi presta.  Oft reyndi á Ísleif því kristnin og siðferðið var nýtt fyrir fólki. Hann var biskup í 24 ár og lést í Skálholti 1082.

Gissur Ísleifsson stundaði nám í Saxlandi. Hann vígðist til prests og  bjó á Hofi í Vopnafirði.  Hann fór nokkrum sinnum til útlanda og m.a. til Rómar.Hann var kosinn biskup 1081 og var vígður biskup í Magdeburg 1082. (Íslenska Alfræðiorðabókin A-G 1990:511) Gissur tók við af föður sínum 1082 en með einu skilyrði þó. Hann fór fram á það við landsmenn að þeir gæfu honum fyrirheit um að vera eftirgefanlegri við hann en þeir voru við föður hans.

Gissur var skörungur mikill og embættisfærslur allar vann hann að af dugnaði. Hann kom því til leiðar að Skálholt yrði biskupssetur. (Árni Hermannsson o.fl.2000:113)  Kirkjulegur skattur , tíund var lögfest á meðan Gissur Ísleifsson var biskup. Fyrirmyndin var komin erlendis frá. (Hjalti Hugason o.fl. 2000:201) Tíundin var 1% eignarskattur og skiptist hún í fjóra hluta á milli biskups, presta, kirkna og fátækra. Á Norðurlöndunum sá kirkjan um að útdeila tíund til fátækra en hér á landi sáu hrepparnir um það. Á biskupsárum Gissurar fóru Norðlendingar fram á að biskupsstóll yrði stofnaður í þeirra fjórðungi.

Biskupsstóll var stofnaður á Hólum í Hjaltadal og var Jón Ögmundsson fyrsti biskupinn. Hann var í skóla hjá Ísleifi Gissurarsyni.  Hann var vígður 1106. Jón stofnaði dómsskóla á Hólum og lét reisa skólahús.Hann fékk erlenda kennara til skólans. Jón var mjög stjórnsamur og efldi grundvöll kristninnar. Hann beitti sér fyrir  afnámi leifa úr heiðni eins og að vikudagarnir bæru nöfn Óðins, Þórs og Týs. (Íslenska Alfræðiorðabókin bls.218) 

Ísleifur og Gissur sonur hans voru trúboðsbiskupar. Þeir höfðu ekki fastan biskupsstól né lögsögu.  (Kristnitakan á Íslandi. Vefsíða.). Gissur gaf Skálholt til biskupsseturs og fór fram á að þar skyldi alltaf vera biskupstóll á meðan  kristni væri á Íslandi og landið í byggð. (Árni Daníel o.fl. 1991:65) Eftirmaður Gissurar, Þorlákur Runólfsson fékk fyrsta eiginlega biskupsstólinn. Össur erkibiskup af Lundi vígði hann til biskups árið 1118. (Kristnitakan á Íslandi.Vefsíða)

Lokaorð:

Mikinn fróðleik hef ég fengið með að skrifa þessa ritgerð. Á Íslandi ríkti ásatrú fyrir árið 1000. Þá reis upp mikil trúboðsalda sem náði til Íslands á 10. öld. Ólafur Tryggvason konungur í Noregi sendi trúboða hingað til að kristna landsmenn. Um aldir voru allir kristnir menn á Íslandi kaþólskir. Breyting varð á 16 öld við siðbreytingu þegar tekin var upp mótmælendatrú. Nú tilheyra flestir landsmenn hinni evangelísku lúthersku þjóðkirkju.
 
Kristniboðarnir sem Ólafur sendi hingað boðuðu kristna trú með Biblíuna í annarri hendi og vopn í hinni. Bæði Þorvaldur og Þangbrandur drápu menn sem höfðu ort níð um þá. Boðskapur kristninnar um fyrirgefninguna vantaði. Í Heimskringlu er Þangbrandi lýst að hann hafi verið vígamaður og ofsopamaður mikill, en vaskur maður og góður klerkur. Að vera vígamaður og ofstopamaður fer ekki saman við að vera klerkur og boða Guðs kærleika.

Ólafur konungur var með hótanir við Íslendinga ef þeir ekki tækju við boðskap kristinnar trúar. Aðferð Ólafs stangast á við Biblíuna. Þar getur maður lesið að Guð gaf manninum frjálsan vilja að velja og hafna.

Hvers vegna urðu engin átök? Vopnuð átök milli kristinna og heiðinna manna hafa verið miklu minni hér en annarsstaðar.Það var pressa á þjóðinni vegna gíslatökunnar. Kristnir voru í meirihluta. Heiðni stóð ekki djúpum rótum lengur. Viðskipti við útlönd voru í hættu.

Á þessum árum var niðurdýfingarskírn og menn veigruðu sér við að taka skírn vegna kalda vatnsins. Biblían boðar niðurdýfingu. Jesús Kristur var skírður í ánni Jórdan af Jóhannesi. Matteus 2. 13-17, þar er frásögn um þegar Jesús var skírður. Matteusar guðspjall er að sjálfsögðu í hinni helgu bók Biblíunni.

Að mínu áliti var þetta það besta sem gaf komið fyrir íslenska þjóð að gerast kristin. Ég trúi á almáttugan Guð, föður , skapara himins og jarðar. Ég trúi því að Guð hafi sent son sinn Jesúm Krist í heiminn til að frelsa okkur frá syndum okkar og þegar að við höfum tekið við Jesú Kristi sem frelsara okkar þá höfum við eignast eilíft líf með Jesú þegar við deyjum. Það er leiðin til eilífðar.

Veturinn 2003 las ég um fimm stærstu  trúarbrögð heims í Félagsfræði 103.  Það er gyðingdómurinn, íslam, búddatrú, hindúatrú og svo kristnin. Eftir þann lestur þá er ég ennþá meira sannfærð en áður að við séum á réttri leið til eilífðar og það er forfeðrum og mæðrum að þakka. 

Ritgerð skrifuð apríl 2003

Rósa Aðalsteinsdóttir

Heimildir:

Árni Hermannsson; Jón Ingvar Kjaran; Lýður Björnsson og Margrét Gunnarsdóttir. 2000. Íslands- og Mannkynssaga NB 1. Nýja bókafélagið, Reykjavík.

Árni Daníel Júlíusson, Jón Ólafur Ísberg og Helgi Skúli Kjartansson. 1991. Íslenskur Sögu Atlas 1. Iðunn Reykjavík.

Gunnar Karlsson og sagnfræðinemar við Háskóla Íslands. 1989.  Samband við miðaldir.  Mál og menning, Reykjavík.

Hjalti Hugason. 2000. Kristni á Íslandi 1: Frumkristni og upphaf kirkju.  “Kristnitakan á alþingi” bls 83-121 ; “Getið í eyður kristnitökusögunnar” bls.123-161.  Alþingi, Reykjavík.

Íslenska alfræðiorðabókin.  Dóra Hafsteinsdóttir og Sigríður Harðardóttir (ritstjórar). 1990. Bókaútgáfan Örn og Örlygur Reykjavík.

Jón Hefill Aðalsteinsson. 1971. Kristnitakan á Íslandi. Almenna bókafélagið, Reykjavík.

Jón Jóhannesson. 1956. Íslendingasaga 1.  Almenna bókafélagið, Reykjavík.

“Kristnitakan á Íslandi árið 1000”. Vefsíða.
http://www.fsu.is/vefir/erlingur/kristnitaka.htm 
 
 “Kristnitakan.” Saga Djúpavogs. Vefsíða:
http://www.djupivogur.is/sagan/kristnitaka.html
Sigurður Líndal. 1974.  Saga Íslands 1. “Frumkristni á Íslandi” bls 231-238 ; “Kristnitakan” bls. 239-248.  Hið íslenska bókmenntafélag. Sögufélagið. Reykjavík. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Trúaðir eru á rangri leið og þeir vita það, heimurinn er að færast í átt að raunveruleikanum, eftir 50 ár eða svo verða ekki margir trúaðir eftir; staðreynd

DoctorE (IP-tala skráð) 25.2.2008 kl. 13:39

2 Smámynd: Árni þór

það gæti verið að þú hafir rétt fyrir þér í þessu DoctorE þar sem næst á dagatali Guðs er burthrifningin, þar sem þeir sem lifa sigrandi lífi í samfélaginu við Jesúm Krist munu fara til fundar við hann í loftinu.

Árni þór, 25.2.2008 kl. 18:56

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég man þegar ég var að læra þetta í barnaskóla, fannst svo gaman og man helling ennþá, greinilega eftir lestur þessa psitils.  Takk og kær kveðja til þín Rósa mín.

Ásdís Sigurðardóttir, 25.2.2008 kl. 20:55

4 Smámynd: Úlfar Þór Birgisson Aspar

Doctorf u´r right on the money núna minn kæri,eftir 50 ár veður djöfullinn uppi og reyndar fylgisveinar hans.Vonandi verð ég bara að bíða dóms míns um hvoru megin ég enda hjá drottni vorum Jesú eða bara í skítamálum með þér og the rest of the pack.

Úlfar Þór Birgisson Aspar, 25.2.2008 kl. 22:04

5 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæl öll. Mér fannst Árni svara Doctor E. svo vel og ætla að láta það nægja. Ég vona að við verðum öll tilbúin að mæta frelsara okkar þegar okkar tími, hvers og eins kemur. Ég þakka innlitið og vona að þið hafið haft gagn af lestrinum um kristnitökuna. Ég skrifaði þessa ritgerð fyrir 5 árum  Guðsteinn vinur okkar lagaði ritgerðina og setti hana í bloggform. Klippt var burtu efnisyfirlit og formáli og letur á heimildaskrá var smækkað. Guðsteinn er flottastur.

Kærar þakkir Guðsteinn

Guð blessi ykkur öll og ég vona að Doctor E. taki við blessunum Guðs fyrr heldur en seinna. SHALOM.

Rósa Aðalsteinsdóttir, 25.2.2008 kl. 22:35

6 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Þakka þér fyrir þennan fróðleik Rósa, sem hefði jafnvel orðið enn betri ef við hefðum skrifað þetta saman. Ég hef dálítið lagt mig eftir að kynna mér þessa sögu og sem hvergi er hægt að lesa í heild sinni. Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar til að draga saman fróðleik um þessi mál og mér finnst engum hafa tekist jafn vel til og Einari Arnórssyni, fyrrum ráðherra og hæstaréttardómara. Ritgerð sína birti hann í Skírni 1941, bls. 79 -118. Eins og fram kemur í þessari samantekt var kristnitakan þetta pólitísk ákvörðun og það sama má segja um þegar Íslendinga skipta yfir í mótmælendatrú. Bæði Ólafur Tryggvason og Þorvaldur víðförli voru "ortodox kristnir" (kaþólska kemur hálfri öld síðar). Íslendingar "tóku ekki kristni" árið eittþúsund enda skírðist enginn maður á Þingvöllum heldur gengust menn undir vilja Ólafs. Margir voru aftur á móti prímsigndir eða skírðir að Laugarvatni skömmu síðar. Þessi saga er fyrst skrifuð 122 árum eða þremur mannöldrum eftir að atburðir gerðust, aðrar frásagnir eru yngri. Sagan var í öllum tilfellum ritskoðuð og í einhverjum tilviku hreinn uppspuni * og þess vegna verður að raða saman brotum úr ýmsum áttum til að fá út heildstæða mynd, enda var bannað að gagnrýna norska kónginn.

* "Hraunið sem rann" Jarðsögulega rangt.

* "Elsta heimild um að goðum hafi verið fleygt í Goðafoss er frá miðri síðustu öld úr kennslubók sem Jónas frá Hriflu skrifaði.

Eins eins og Ari fróði sagði: "Hafa skal það sem sannara reynist"

Sigurður Þórðarson, 25.2.2008 kl. 23:25

7 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Rósa ég var nú ekki búinn að sjá síðustu færsluna þína þegar ég skrifaði mína athugasemd.  En ég vil undirstrika að mér finnst ritgerðin skemmtileg hjá þér og Guðsteini vini mínum, sem ég er sammála þér í að er flottastur.

kær kveðja 

Sigurður Þórðarson, 25.2.2008 kl. 23:34

8 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll Sigurður Þórðarson. Takk fyrir innlitið og þitt innlegg. Hvernig gengur að ná mér í FF?  Ég skrifaði þessa ritgerð fyrir 5 árum og þá vissi ég ekki að þú værir til.  Heldurðu að við hefðum fengið 10 í stað 9 ef við hefðum skrifað ritgerðina saman?  Ætli Davíð Oddson sé afkomandi Ólafs Tryggvasonar?  Báðir einræðisherrar.

Íslendingar í raun áttu ekkert val, þeim var hótað. Ég er sæl að kristin trú sé á Íslandi en ég hefði viljað að forfeður og formæður okkar hefðu haft frjálsan vilja.

Í ritgerðinni gerði ég auðvita í því sem kristin kona, að koma því að að fólk tók niðurdýfingarskírn sem margir Íslendingar í dag telja að sé nýjung og hafi byrjað á sl. öld og tala um sértrú og ofstæki.  Hér á bloggsíðunni skrifa ég um barnaskírn og niðurdýfingarskírn og átti þessi ritgerð að koma strax í kjölfarið en vegna kunnáttuleysis varð ekki af því.

Ég vissi að fólkið tók ekki skírn á Þingvöllum samkvæmt heimildum:

Hér fyrir neðan eru heimildir úr bókinni Kristni á Íslandi. Þar sem ég tek heimildir, þar er mynd af Vígðalaug við Laugarvatn. Sagt er að margir Sunnlendingar hafi tekið skírn þar vegna ótta síns við að fara í kalt vatn. Vona að þú verðir ánægður með þessar heimildir. Dró ekkert undan. ERUM VIÐ VINIR ÞÓ ÉG SÉ EKKI Í FF?

"Í Kristni sögu segir að þingmenn hafi verið skírðir á leið heim, Norðlendingar og Sunnlendingar í Reykjalaug (Vígðulaug) í Laugadal en Vestlendingar í Reykjalaug í Lundarreykjadal. Ólafs saga Tryggvasonar hin mesta segir aftur á móti að gjörvallur þingheimur hafi verið prímsigndur og margir auk þess verið skírðir. Hins vegar hafi ekki verið mögulegt að skíra alla þar sem Norðlendingum og Austfirðingum hafi hrosið hugur við að fara í kalt vatn.  Alþýða manna var að sögn skírð eins fljótt og við varð komið þetta sama sumar. Ástæða er þó til að taka frásagnir þessar með fyrirvara. Til dæmis er ólíklegt að allir hafi brugðist vel við og látið skírast. hefur margt haldið aftur af mönnum í því efni: Tryggð við fyrri átrúnað, rótgróin íhaldssemi, ótti við nýjungar og andúð á skírnarsiðum kirkjunnar, ekki síst niðurdýfingu í kalt vatn. Þá hefur klerkaskortur valdið því að ýmsir áttu ekki kost á skírn fyrr en löngu eftir kristnitöku. Er raunar vandséð hvernig standa hefði átt að skíra heils samfélags áður en kirkja var komin á laggirnar og einungis fáeinir farandklerkar voru í landinu sem gátu innt slíka þjónustu af hendi. Má jafnvel telja ólíklegt að eldri kynslóðir hafi almennt náð að skírast áður en þær söfnuðust til feðra sinna. Skírnartímabili íslenskrar frumkristni lauk því að líkindum ekki fyrr en með fyrstu kynslóðaskiptum eftir kristnitöku. Klerkar hafa þó gert sitt til að auðvelda þessa hreinsunarathöfn landslýðs. Til dæmis hafa þeir skírt fólk í hópum án mikils undirbúnings. Mest hefur samt munað um af hvaða krafti einstakir höfðingjar fylgdu skírnarkröfunni eftir meðal skjólstæðinga sinna. Þá er líklegt að prímsigning hafi verið mikilvæg millistig á leið margra til skírnar.Hugmyndir um eiginlega prímsigningu allra landsmanna fá þó varla staðist þar sem jafnvel hún hefur verið mikið fyrirtæki ekki síður en allsherjarskírn." Hjalti Hugason. 2000. Kristni á Íslandi 1: Frumkristni og upphaf kirkju. “Kristnitakan á alþingi” bls 83-121 ; Alþingi, Reykjavík. (Þessi grein er á bls. 100 - 101)

SHALOM


 

Rósa Aðalsteinsdóttir, 26.2.2008 kl. 00:57

9 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll vertu Páll Jónsson alnafni langafa míns.

Þessi ritgerð var ekki gerð í upphafi fyrir fólk sem væri að setja út á hverja einustu setningu.

Fimm leiðir til eilífðar skrifaði kennarinn minn en ég veit að það er bara ein leið til eilífðar. Kennarinn skrifar: "Mér fannst þetta ágætt kaflaheiti á fimm stærstu trúarbrögð heims - en það eru hindúismi, búddismi, gyðingdómur, íslamstrú og kristni. Það sem kom mér á óvart var að það eru til um 2.700 mismunandi trúarstefnur innan kristni - það er ekki skrítið þótt fólk verði nú stundum svolítið ruglað í öllum þessum stefnum. ekki skánar málið þegar við förum að skoða hindúismann - en þar eru stefnurnar jafn margar þorpunum á Indlandi - eða yfir 600.000." Vona að þetta skýri málið allavega að hluta. Friðarkveðjur.

Rósa Aðalsteinsdóttir, 26.2.2008 kl. 02:13

10 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Sæl Rósa, þú ert alveg bráðskemmtileg.  Ég er á því að mínar ritgerðir yrðu betri ef ég nyti þinnar aðstoðar. Auðvitað hefur þú rétt fyrir þér varðandi skírnina og mér finnst  þú útskýra það mjög vel.  En það sem ég var nú að reyna að segja að var að sögur og ekki síst söguritun virðist alltaf taka mið af því hver er valhafi á hverjum tíma.  Auðvitað vil ég gjarnan vera vinur þinn óháð hvar þú ert í pólitík. En mér finnst þú réttsýn og ég vona að þú virðir það til betri vegar við mig þó mér finnist mikill fengur í þér enda hefur Guðsteinn vinur minn hælt þér mikið í mín eyru. 

 Með bestu vina- og friðarkveðju til þín Rósa. 

Sigurður Þórðarson, 26.2.2008 kl. 08:14

11 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Ekki gleyma því Rósa að þegar menn norrænir námu hér land þá var hér fyrir kristið samfélag. Því verður vart trúað, þó svo að Ari Þorgilsson láti liggja að því, að þeir hafi einfaldlega pakkað saman föggum sínum og yfirgefið skerið sisvona. Þeir hafa líklegast einhverjir verið gerðir að hjúum hjá landtökumönnum og enn aðrir teknir "eignarnámi" og þannig hafi aðkomumenn kynnst kristni og kristilegu hugarfari.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 26.2.2008 kl. 09:47

12 Smámynd: Sigurður Rósant

Það er alltaf gaman að rifja upp sögur Íslendinga. En hversu sannar þær eru - það dregur maður í efa eftir því sem lengra líður á ævina.

Það kæmi mér ekki á óvart að í tengslum við Kristniþröngvunina hafi mörgum verið slátrað án dóms og laga. Ýmsu var hér breytt sem ekki náðist að breyta á Norðurlöndum.

Ein lítil vísbending: Dagaheitin eins og þau eru í dag, Sunnudagur, Mánudagur o.s.frv. Engum sögum fer af því hvort eða hvenær dagaheitin breyttust úr nöfnum fornra Guða og í þri, mið, fim og fös.

Hér í Danmörku heita dagarnir ennþá í höfuð fornu Guðanna. Tisdag, Onsdag, Torsdag, Fredag og ættu til samræmis að heita hjá Íslendingum Týrsdagur, Óðinsdagur, Þórsdagur og Freysdagur (eða Freyjudagur).

Ekki hef ég rekist á frásagnir um hvenær þessar breytingar urðu eða hvort þær kostuðu átök.

Er einhver með heimildir um það?

Sigurður Rósant, 26.2.2008 kl. 11:09

13 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sælir strákar.

Allir forstöðumenn í Hvítasunnukirkjunni vita að ég er að blogga og þeir sjá að ég sópa að mér karlpeningnum. Sennilega munu þeir hafa áhyggjur því þeir þekkja mig allir mjög vel og vita að ég er algjörlega kona einsömul.  

Ritgerðin mín fjallaði um kristnitökuna en það er rétt hjá Predikaranum að kristnir menn voru hér áður en norrænir menn námu hér land samkvæmt þeim heimildum sem við höfum.

Sigurður Þórðarson skrifar: "En það sem ég var nú að reyna að segja að var að sögur og ekki síst söguritun virðist alltaf taka mið af því hver er valhafi á hverjum tíma." ÉG SKILJA  Svar hér fyrir neðan fyrir þig og Predikarann:

"Landnámsbók er ekki eina frásögnin af upphafi byggðar á Íslandi og ekki sú sem talin er traustust. Íslendingabók er eftir nafngreindan höfund, Ara þorgilsson prest hinn fróða. Ritunartími Íslendingabókar er líka þekktur nákvæmlega.Í formála segir Ari hafa skrifað bókina að beiðni biskupanna Þorláks og Ketils og hlýtur þar að eiga við Þorlák Runólfsson í Skálholti og Ketil Þorsteinsson á Hólum, en þeir voru aðeins ellefu ár samtímis á biskupsstóli, 1122-33. Ari er líka á margan hátt afar traustvekjandi söguritari. Hann er allt að því vísindalega nákvæmur um tímatal og raunsær í frásögn sinni. Þar er ekkert yfirnáttúrulegt, ekki einu sinni í sögunni af kristnitöku Íslendinga.

Galli Íslendingabókar er hins vegar sá að hún er afar stuttorð. Ari rekur meginatburði Íslandssögunnar fram undir ritundartíma bókarinnar í texta sem rúmast á um það bil 20 blaðsíðum í prentaðri bók. Um fund Íslands og upphaf landnáms staðfestir hann í fyrsta lagi þá frásögn Dicuilusar að írskir munkar hafi komist til Íslands; þeir hafi meira að segja verið þar þegar norrænir menn komu þangað. Þá voru hér kristnir, þeir er Norðmenn kalla papa, en þeir fóru síðan á braut, af því að þeir vildu eigi vera hér við heiðna menn, og létu eftir bækur írskar og bjöllur og bagla. Af því má skilja að þeir væru menn írskir." Heimild: Fornir tímar bls. 101-102. Gunnar Karlsson og fl sömdu þessa kennslubók og var hún gefin út af Mál og menningu 2003.

Sigurður Rósant skrifaði: "Það kæmi mér ekki á óvart að í tengslum við Kristniþröngvunina hafi mörgum verið slátrað án dóms og laga. Ýmsu var hér breytt sem ekki náðist að breyta á Norðurlöndum."

Í ritgerðinni sagði ég frá þegar Þorvaldur drap tvo menn. Ég valdi á sínum tíma að hafa þessa heimild með því ég var mjög ósátt við gjörðir Þorvaldar sem kom ásamt Friðrek til að boða kristna trú. Sjá textann hér fyrir neðan:

"Heiðnir menn fóru að yrkja níð um Þorvald og Friðrek. “Hefir börn borið biskup níu, þeirra er allra Þorvaldur faðir.” (Sigurður Líndal.1974:231-236) Með þessu var verið að gefa í skyn að biskup væri kynvilltur. Vegna þessa drap Þorvaldur tvo menn. Fannst Friðrek ganga hægt hjá Þorvaldi að læra fyrirgefningarboðskap kristninnar. Þeir yfirgáfu landið skömmu síðar. (Gunnar Karlsson.1989:75-76)"  

Sigurður Rósant, ég veit ekki um heimildir með heiti vikudagana. Aftur á móti heita dagarnir ekki svona heitum í Ísrael heldur er þar dagur 1,2,3,4,5,6, en sjöundi dagurinn heitir Shabbat sem er hvíldardagurinn. Talað er um að á fyrsta degi vikunnar og á þriðja degi vikunnar o.s.frv.

LÝST ER EFTIR HEIMILDUM UM HEITI Á VIKUDÖGUNUM OKKAR.

Vikudagarnir okkar, sunnudagur = dagur sólar; mánudagur = tengt Mánanum; þriðjudagur = þriðji dagur vikunnar eins og í Ísrael; miðvikudagur = dagur í miðri viku; fimmtudagur = fimmti dagur vikunnar eins og í Ísrael; föstudagur = fasta, þá neyttu kaþólikkar ekki kjöts; Laugardagur = Hreinsa sig, lauga sig. Fólk fór greinilega bara í bað á laugardögum!! 

Sigurður Þórðarson skrifar:  "mér finnist mikill fengur í þér" og á öðrum stað skrifaði þú um hvalreka  Ég er nú ekki viss að öllum líki skoðun mín á hvalveiðum. Guðsteinn

"Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd, hann skapaði hann eftir Guðs mynd, hann skapaði þau karl og konu. Og Guð blessaði þau, og Guð sagði við þau: ,,Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna og drottnið yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir öllum dýrum, sem hrærast á jörðinni." Og Guð sagði: ,,Sjá, ég gef ykkur alls konar sáðberandi jurtir á allri jörðinni og alls konar tré, sem bera ávöxtu með sæði í. Það sé ykkur til fæðu. Og öllum villidýrum og öllum fuglum loftsins og öllum skriðkvikindum á jörðinni, öllu því, sem hefir lifandi sál, gef ég öll grös og jurtir til fæðu."  1. Mós. 1: 27.-30.

Mennirnir eiga að sjá svo um að það sé jafnvægi í dýraríkinu. Ekki að einblína á eina tegund og veiða hana þangað til ekkert er eftir eins og með síldina. Norðmenn veiddu og veiddu smásíld á sjöunda áratug sl. aldar þannig að það tók mörg ár fyrir stofninn að jafna sig. Ég lít svo á að við eigum að veiða hval til að hafa jafnvægi í sjónum. Ég hef unnið í fiski mestan hluta ævi minnar og oft var lítið að gera hjá okkur á meðan hvalurinn hafði nóg. Í nokkur ár þurftum við að vinna uppþýddan rússafisk því ekkert annað var að hafa. Það var oft ógeðslegt hráefni og heyrði ég að Kanadamenn keyptu afurðir af okkur fyrir fanga.

Sælir að sinni.
 

Rósa Aðalsteinsdóttir, 26.2.2008 kl. 14:10

14 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Takk fyrir skemmtilegt svar Rósa.  Ég fell ekki kylliflatur fyrir tilgátu prédikara af ýmsum ástæðum auk þess að ég sé enga skynsamlega ástæðu fyrir því að séra Ari Þorgilsson og aðrir sem tjáð sig hafa um þessi mál hafi verið að skrökva. Ég hef mikla trú á Ara en mér fróðari menn hafa haldið því fram að ritskoðun hafi einungis átt sér stað þegar hagsmunir yfirvaldsins (norski konungurinn og kirkjan) kröfðust þess. Þá held ég að nafni minn hafi góðu heilli rangt fyrir sér um mikið mannfall eða ófrið varðandi fyrri siðskiptin.  Þvert á móti er allt sem bendir til að þetta hafi farið friðsamlega fram. Meðal þeirra skýringa sem gefnar hafa verið er sú að heiða menn sé í góðu lagi að bæta við einum guð og endurbót úr nýjum sið. Satt að segja skil ég forfeður okkar vel að þessu leyti.

Sigurður Þórðarson, 26.2.2008 kl. 14:39

15 Smámynd: Jens Sigurjónsson

skemmtileg grein. Eg sit herna a Stanset flugvelli i London ad bida eftir flugi, svo tad er gott ad hafa eitthvad gott ad lesa.

Bestu kvedjur Jenni.

Jens Sigurjónsson, 26.2.2008 kl. 14:42

16 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll Sigurður Þórðarson  Ég hef aldrei lesið heimildir um að það hafi verið mannfall þegar kristnitakan fór fram en ég hef lesið eins og þú að þetta hafi farið friðsamlega fram. En ég var ekki ánægð að lesa um Þorvald sem þoldi ekki níð og drap tvo menn þess vegna. Lítill kærleikur þar á ferð. Ég veit ekki um þegar norrænir menn komu hingað fyrst en ég held að Paparnir hafi sjálfir kosið að fara héðan. Ég setti mig ekkert inní þetta með Papana þegar ég var að skrifa um kristnitökuna sem var meira en einni öld eftir að Ísland var numið af norrænum mönnum. Siggi við látum engan slá okkur kylliflöt, verum keik.  

Sæl Jens minn. Langt síðan að við höfum heyrt frá þér hér í BLOGGHEIMUM.  Vona að þú eigir gott flug hvort sem það er til eyjunnar okkar eða eitthvað annað. 

Guð blessi ykkur og varðveiti.

Rósa Aðalsteinsdóttir, 26.2.2008 kl. 15:36

17 Smámynd: Guðsteinn Haukur Barkarson

Rósa mín, hvalreki er auðvitað notað frá gamalli tíð og er átt við er það rosalegur fengur í þeim sem er átt við. Það er nú þannig í þinu tilfelli að þú værir jú hvalreki ef þú gengir í FF. Það er sko alveg á hreinu!

En þú segir:

Ég er nú ekki viss að öllum líki skoðun mín á hvalveiðum. Guðsteinn

Útskýrðu þetta betur þar sem ég hef aldrei spurt þig um þetta .... 

En greinin er flott og setti ég hana upp eins vel og hægt var, efni hennar spannar margt sem margir eru fáfróðir um og er þess vegna kærkominn fróðleikur á bloggið. Takk fyrir það Rósa mín, þetta er vel unnið hjá þér. 

Guðsteinn Haukur Barkarson, 26.2.2008 kl. 16:52

18 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll Guðsteinn minn.

Þetta með hvalveiðar var bara grín og við Sigurður þekkjum sennilega engan sameiginlega nema þig. Nafnið þitt fyrir aftan og svo grín karl. Við þurfum að ræða skoðanir okkar um pólitík sérstaklega ef ég íhuga tilboðið um FF  Mér datt þetta bara í hug þegar Sigurður fór að tala um hvalreka sem merkti allt annað í skrifum hans á bloggsíðunni hans  

Frábært að þú hjálpaðir mér annars hefði þessi ritgerð ekki verið komin á bloggið. Hún er flott uppsett. Jens bloggvinur okkar var í London að bíða eftir flugi og var að lesa þessa grein. Við viljum halda áfram að vera kristin þjóð og alls ekki að skyggja á ljósið eins og þingmenn vilja gera með því að skrifa einhver önnur orð en kristið siðgæði en það á samt að þýða kristið siðgæði.

Friðarkveðjur

Rósa Aðalsteinsdóttir, 26.2.2008 kl. 17:45

19 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Rósa, þetta með hvalrekann er nákvæmlega rétt skilið og útskýrt hjá Guðsteini.

 Annars myndi ég ekki lofa því að við þekkjum engan sameiginlega annan en Guðstein okkar. Ísland er jú lítið land og öll erum við jú skyld amk í 6 lið.  En jafnvel þó svo ólíklega vildi til að við eigum bara einn sameiginlegan vin, þá er það samt alls ekki lítið, þar sem Guðsteinn er annars vegar. 

 Besta kveðja

Sigurður Þórðarson, 26.2.2008 kl. 17:56

20 Smámynd: Sigurður Rósant

Rósa - "Allir forstöðumenn í Hvítasunnukirkjunni vita að ég er að blogga og þeir sjá að ég sópa að mér karlpeningnum. Sennilega munu þeir hafa áhyggjur því þeir þekkja mig allir mjög vel og vita að ég er algjörlega kona einsömul."

Þú ferð sennilega að fá það orð á þig að þú sért orðin einstaklega - Mannelsk-

Sigurður Rósant, 26.2.2008 kl. 22:59

21 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sælir strákar.

Sigurður Þórðarson og Valli. Guð veri með ykkur og við eigum örugglega eftir að skrifast á.

Sigurður Rósant, ég mátti til að djóka með þetta en mannelsk- .  Nei það held ég að verði ekki skrifað í minningargreinina mína, frekar farið hefur fé betra.  En hvernig finnst þér að strákarnir vilja endilega fá mig í Frjálslynda flokkinn?

Rósa Aðalsteinsdóttir, 26.2.2008 kl. 23:10

22 Smámynd: Adda bloggar

Adda bloggar, 26.2.2008 kl. 23:44

23 Smámynd: Ari Guðmar Hallgrímsson

Talið er að vikudagarnir hafi borið eftirfarandi nöfn á Íslandi fram á 12. öld.

 sunnudagur mánadagur týsdagur óðinsdagur þórsdagur frjádagur þvottdagur/laugardagur
Þessi nöfn eru í samræmi við daganöfn annars staðar í Norður-Evrópu. Uppruna þessara nafna er að finna hjá Rómverjum sem töldu að vikudögunum væri stjórnað af föruhnöttunum sól, mána, Mars, Merkúríusi, Júpíter, Venus og Satúrnusi. Germanskar þjóðir þýddu svo og staðfærðu þessi nöfn þegar þau bárust til þeirra.

Eftir kristnitöku reyndi svo kirkjan að koma á notkun eftirfarandi heita í stað gömlu daganafnanna:

 drottinsdagur annar dagur þriðji dagur miðvikudagur fimmti dagur föstudagur laugardagur
Sum þessara heita festust í málinu en enn höldum við í daga sólar og mána.


Heimild:
Árni Björnsson (1993), Saga daganna, Reykjavík: Mál og menning.

  Fann þetta í fljótu bragðiKveðja  Ari G

Ari Guðmar Hallgrímsson, 26.2.2008 kl. 23:49

24 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll Ari minn. Kærar þakkir fyrir hjálpina með dagana. Vona að Sigurður Rósant sjái svarið þitt.

Við erum FLOTT hér á Vopnafirði

Rósa Aðalsteinsdóttir, 26.2.2008 kl. 23:54

25 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæl Adda mín. Svakalega er ég hrifin af myndunum sem þú ert að setja hérna á bloggið hjá mér. Ég er greinilega glysgjörn. Kær kveðja

Rósa Aðalsteinsdóttir, 26.2.2008 kl. 23:57

26 Smámynd: Sigurður Rósant

Ari - Þakka þér þessar upplýsingar. Ásatrúarmenn hafa þá haldið í gömlu heitin í rúm 100 ár eða svo. Danir, Svíar og Norðmenn halda enn í Tisdag, Onsdag, Torsdag og Fredag.

Þjóðverjar eru með Diestag, Mittwoch=Miðvikudag, Donnerstag og svo Freitag=Freyjudagur (Freysdagur).

Rósa - Mér líst vel á að þú takir við forystu í Frjálslynda Flokknum. Stelpurnar þar eru alveg getulausar.

Sigurður Rósant, 27.2.2008 kl. 00:41

27 Smámynd: Jón Valur Jensson

Sæl, kæra Rósa, ég ætlaði að vera búinn að skrifa hér allnokkur orð til að hrósa þér fyrir eljuna og ýtarlega, fjörlega samantektina – hefði þá orðið fyrstur til að svara, en hafði þá öðru að sinna (og þá varð DrE fyrri til, sá ábyrgðarlausi guðlastari sem allir kristnir bloggarar eiga að sjá sér skylt að boycottera).

Og það er ekkert vit í því, að ég fari að skrifa hér langt mál um miðja nótt – vil bara vara þig við því að taka hann eðal(ginseng)vin minn Sigurð Þórðarson á orðinu um margt það sem hann segir – það er t.d. út í hött að segja Íslendingum hafa verið mútað eða þeir neyddir til að meðtaka kristni (um) árið 1000, en fleira var rangt í máli hans, enda ástrúar blessaður og þó viðræðugóður og gegn mörgum fremur.

Svo var auðvitað rangt, að það væru ekki heimildir fyrir nafnabreytingunni á vikudögunum – ég held ég fari rétt með (án uppflettinga), að það hafi verið herra Jón helgi Ögmundarson á Hólum, sem tók upp nýju vikudaganöfnin og frá því væntanlega greint í sögu hans og e.t.v. fleiri heimildum frá þeim tíma.

Kveð þig hér með virktum á hraðferð frá svæðinu.

Jón Valur Jensson, 27.2.2008 kl. 03:24

28 Smámynd: Ari Guðmar Hallgrímsson

Sæl Rósa. Hér kemur meira um vikudagana

Hér fer á eftir tafla um nöfn vikudaganna í nokkrum tungumálum, ásamt athugasemdum og skýringum.

LATÍNAÍTALSKAFRANSKAENSKADANSKAdies solis1/

d. domenica2domenicadimancheSundaysöndagd. lunae3lunedilundiMondaymandagd. Martis4martedimardiTuesdaytirsdagd. Mercurii5mercoledimercrediWednesdayonsdagd. Iovis6giovedijeudiThursdaytorsdagd. Veneris7venerdivendrediFridayfredagd. Saturni8sabatosamediSaturdaylördag

1Dies solis merkir "dagur sólarinnar", eins og "sunnudagur".

2Dies dominica merkir hins vegar "dagur herrans", sbr. "drottins dagur" í fornu íslensku máli.

3Dies lunae merkir "dagur tunglsins", sbr. "mánudagur".

4Dies Martis merkir "dagur Mars" en Mars var hernaðarguð Rómverja eins og Týr í Ásatrú, sbr. enska og danska nafnið.

5Dies Mercurii er "dagur Merkúríusar". "Wednesday" merkir "dagur Óðins". Óðinn hefur verið hliðstæður Merkúríusi.

6Dies Iovis þýðir "dagur Júpíters" sem svarar þá til Þórs.

7Dies Veneris er "dagur Venusar" enda merkir "fredag" í raun og veru "dagur Freyju".

8Dies Saturni er "dagur Satúrnusar". Ítalir hafa hlaupið frá latínunni á laugardögum og tekið saman við Gyðinga. Enskan er hér óvenju trú latneska þættinum í uppruna sínum.

Vikudagar munu lítið sem ekki hafa verið notaðir í forngrísku

Latnesku heitin vísa kerfisbundið til föruhnattanna sjö sem svo hafa verið kallaðir, það er að segja til þeirra himinhnatta sem hreyfast á himninum miðað við fastastjörnurnar og eru sýnilegir berum augum. Þessir föruhnettir voru áður fyrr kallaðir plánetur á erlendum málum en það orð fékk aðra merkingu með sólmiðjukenningunni og er nú einkum haft um reikistjörnurnar níu sem eru á braut um sól.

Föruhnettirnir eru venjulega taldir í þessari röð: Tunglið, Merkúríus, Venus, sólin, Mars, Júpíter og Satúrnus. Ef við byrjum á sólinni (sunnudagur) og förum þrjú skref aftur á bak í röðinni lendum við á tunglinu (mánudagur), þrjú skref þaðan vísa á Mars sem þriðjudagur er kenndur við, og þannig koll af kolli þar til við endum á Satúrnusi á laugardegi.

Heimild: Þorsteinn Vilhjálmsson, 1986. Heimsmynd á hverfanda hveli 1. Reykjavík: Mál og menning, bls. 38-39.

Kveðja

Ari Guðmar Hallgrímsson, 27.2.2008 kl. 07:55

29 Smámynd: Jón Valur Jensson

  • Það safnast í þekkingarsarpinn
  • hjá sumum – þótt verði' engin byrði.
  • Svo gleðjum við Rósu garpinn,
  • Guðsbarn á Vopnafirði.

Jón Valur Jensson, 27.2.2008 kl. 09:09

30 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sælir strákar mínir.  Þið eruð algjörir töffarar =  Mikið er gaman hérna.

Magnús: Flestar athugasemdirnar voru mjög góðar en Doctor E. fær reisupassann ef hann getur ekki verið málefnalegur og kurteis. Það er fínt að fá skoðanir og sjónarmið en nauðsynlegt að þau séu vel útskýrð, málefnaleg og vel sett fram þó þau sú í andstöðu við pistil höfundar hverju sinni. Ég lít á bloggsíðuna mína eins og heimilið mitt. Ég vil helst fá að ráða hverjum ég býð inní heimilið mitt. Svo finnst mér alveg fáránlegt að Doctor E. skuli setja færslurnar sínar í flokkinn "Trúarbrögð" Hann er í því að vinna gegn kristinni trú en Guð þekkir hann og veit hvar hann er á vegi staddur. Kannski reynist grunur minn réttur að hann er að berjast við köllun frá Drottni um að frelsast. Bæði ég og fleiri höfum kynnst fólki sem berst svona og svo rétt á eftir hafa þau gefist Drottni. Man eftir frásögn vina minna sem áttu heima í Stykkishólmi. Það var maður sem sýndi þeim svo mikla ókurteisi, þegar hann mætti þeim á götu þá var hann með hróp og köll og orðin voru ekki falleg en svo stuttu seinna þá tók hann afstöðu með Drottni .

Sigurður Rósant: Ari er bjargvættur minn og ég þarf að hafa samband við Guðjón Arnar og athuga hvort formannsstarfið sé laust. Ég skal ganga í Frjálslynda flokkinn ef ég fæ formannsstarfið. Allt eða ekkert.

Ari: En og aftur bjargvættur minn. Frábært að eiga hann Ara að en við búum bæði á draumastað veraldar, á hjara veraldar og liggja flottir vegir frá okkur til allra átta =  Vopnafirði .

Jón Valur: Kærar þakkir fyrir innlitið, fróðleikinn og sérstaklega fyrir vísuna. Sigurður Þórðarson er mjög viðræðuhæfur og við erum sammála um margt og hann er mjög skemmtilegur.  Sem betur fer var tekin ákvörðun á Alþingi að taka upp kristna trú og er það farsælasta ákvörðun  sem hefur verið tekin. Mættu Alþingismenn í dag taka skynsamar ákvarðanir en mér finnst mörg af þessum lögum sem þeir eru að semja og leggja fram algjör steypa og algjör hneisa fyrir þá.

"Það er í rauninni undarlegt að mennirnir skuli hafa þurft að setja þúsundir lagagreina til að tryggja að boðorðin tíu væru haldin." Earl Wilson

"Þegar ríkið er spilltast verða lögin flóknust." Tacitus

"Það er auðveldara að gera suma hluti löglega en að gera þá lögmæta." Sebastian Chamfort

Hlakka til að fá ykkur aftur í heimsókn. Friðarkveðjur.

Rósa Aðalsteinsdóttir, 27.2.2008 kl. 12:01

31 Smámynd: Linda

Hér er fjör ofan á fjör.  Knús Rósa mín. 

Linda, 27.2.2008 kl. 14:27

32 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæl Linda mín. Þið eruð þrjár stelpurnar hérna. Smá mótvægi við allan karlpeninginn

Rósa Aðalsteinsdóttir, 27.2.2008 kl. 14:36

33 identicon

Fjör hjá þér .Bara að kasta á þig kveðju og þakka fyrir meil

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 27.2.2008 kl. 14:57

34 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæl Birna mín. Gott að sjá stelpur hérna í heimsókn. Var byrjuð að hafa áhyggjur

Rósa Aðalsteinsdóttir, 27.2.2008 kl. 15:05

35 Smámynd: Jonni

Það er athyglisvert að íslendingar létu sig platkristnast á alþingi eftir hótanir og gíslatöku hryðjuverkamanns í Noregi. Segir sitt um sögulegt siðferði kristinna manna.

Jonni, 27.2.2008 kl. 20:06

36 Smámynd: Arafat í sparifötunum

Við ræddum þetta mikið í áfanga sem ég stunda í framhaldsnámi við Háskóla íslands. Hvernig stendur á því að umskipti milli kristni og heiðni var svona átakalaus. Fornleifafræðin segir okkur að strax eftir kristnitöku er farið að grafa fólk eftir kristnum sið og um allt land. Þetta gerist þrátt fyrir að langur tími líður þar til menn sem eru vel að sér í kristnum kenningum fór að koma til landsins. Hugsanlega hefur það haft áhrif, að hér voru mjög margar kristnar konur frá Bretlandseyjum-þó við finnum ekki minjar um þær hafa nýlegar DNA rannsóknir staðfest þetta. Þessar konur og líka menn konu frá landi sem hafði verið kristið síðan um 400. Líklegt er að það sé einmitt vegna þessa fólks að kristnar rætur voru mun sterkari hér, en vegna þess að þetta voru konur og þrælar fór ekki mikið fyrir þessu í landnu fyrr en eftir kristnitöku. Hinir heiðnu höfðingjar kristnuðust vegna þrýstings frá konungi, til að halda skipasamgöngum við landið og til að auðvelda viðskipti við valda og viðskiptamenn.

Arafat í sparifötunum, 27.2.2008 kl. 20:27

37 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll Erlingur. Takk fyrir innlitið. Guð blessi þig.

Sæll Jonni. Íslendingar létu ekki platkristna sig en þeir fengu hótanir. Eftir ákvörðun að verða kristnir er ég alveg sannfærð um að þeir voru hamingjusamir með þá ákvörðun alveg eins og þegar ég ákvað að fylgja Jesú þá breyttist margt í lífi mínu. Ég hef séð skrif þín á bloggsíðu Jóns Vals og víðar. Ég er ekkert hrifin. Allir menn eru breyskir og það er misjafn sauður í mörgu fé og í þeim hópi sem þú tilheyrir þá grunar mig að þú sért einn af þeim sauðum.

Megi almáttugur Guð miskunna þér.

Rósa Aðalsteinsdóttir, 27.2.2008 kl. 20:31

38 Smámynd: Jonni

Ég var nú ekki að sækjast eftir hrifningu þinni heldur langaði mér nú bara til þess að benda á þetta atriði með kristnitökuna. Ég kalla það platkristnun að ákveða það svona á alþingi, og bæta því við að það megi blóta í laumi. Þetta vitnar auðvitað um stjórnsýslulega kænsku höfðingja íslendinga á þessum tíma og sýnir hversu frábrugnir við erum norðmönnum. Norðmenn eru svo þrjóskir að eðlisfari að ég get ekki ímyndað mér að þeir hefðu nokkurn tíman brugðist svona við.

Þetta með sauðina; er ég einn af misjöfnum sauðum? Geturðu útskýrt þetta nánar? Ég trúi ekki á guð en ég ætla ekkert að fara að núa þér trú þinni um nasir. Við veljum hvert okkar veg og þurfum ekki að koma með sleggjudóma um hvort annað þótt á milli mála skilji.

Jonni, 27.2.2008 kl. 20:48

39 Smámynd: Sigurður Rósant

Já, svona fór um dagaheitin þau. Skrýtið að Ásatrúarmenn skuli ekki krefjast þess að fá dagaheitin til baka. Svona eins og íslenska ríkisstjórnin gerði kröfu til Dana um að fá handritin heim.

Annars verður fróðlegt að sjá framan í kristna í framtíðinni, þegar og ef Islam verður þröngvað upp á Vesturlandabúa eins og allt virðist benda til. Danir eru hægt og sígandi að gefa eftir. Nú fá muslimir bráðlega vaxtalaus lán í Dönskum bönkum. Þeir eru búnir að fá sér grafreit.  Asmaa Abdol-Hamid fær að tala á Danska þinginu með slæðu um höfuðið. Næst fá þær að tala í Burqa. Þá segja muslimar eitthvað þessu líkt:  "Sem betur fer var tekin ákvörðun á Alþingi að taka upp Islam  og er það farsælasta ákvörðun  sem hefur verið tekin."

En ég vona að við trúleysingjar eigum það sameiginlegt í framtíðinni með kristnum að berjast af fullu afli gegn Islam og venjum þeirra.

Sigurður Rósant, 27.2.2008 kl. 20:49

40 Smámynd: Adda bloggar

Adda bloggar, 27.2.2008 kl. 21:36

41 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sælir strákar.

Arafat í sparifötum: Kærar þakkir fyrir fróðleikinn.

Sigurður Rósant  Já við verðum að taka saman höndum og berjast af fullu gegn Íslam og venjum þeirra. Það er  farsæl ákvörðun Ég sit hérna við tölvuna og mér finnst þessi athugasemd fyndin.

Jonni: Þú skrifar: "Segir sitt um sögulegt siðferði kristinna manna."  =  Sleggjudómar. 

Sjá ritgerð: "Til að milda ákvörðun sína ákvað Þorgeir að heiðnir menn mættu gera þrennt sem þeir hefðu gert áður: Að bera út börn, éta hrossakjöt og blóta heiðin goð á laun. Fáeinum vetrum síðar var þessi heiðni afnumin. (Gunnar Karlsson o.fl. 1989:79)"

Sem betur fer að mínu áliti var heiðni afnumin og það hlýtur að vera vegna þess að þekking manna jókst um kristna trú og að heiðni átti alls ekki samleið með kristinni trú. Eins og þú veist sjálfur þá eru Ásatrúarmenn algjörlega sér með sín trúarbrögð hér á Íslandi og eiga enga samleið með kristni. En aftur á móti er þetta fólk alveg ágætis fólk og meira að segja ég þekki einn Sigga gutta sem er í Ásatrúarsöfnuðinum og hann er skemmtilegur bloggvinur. Víst getum við skipst á skoðunum en skrif þín á síðum trúbræðra og trúsystra minna hafa ekki vakið hrifningu mína og ég hlýt að mega segja þá skoðun. Þess vegna vona ég að ef þú vilt skrifa hér í framtíðinni að þú getir skrifað markvisst, fært rök og notað sómasamleg orð án sleggjudóma. Þetta er jú mín bloggsíða og gilda sömu reglur á bloggsíðu minni og ef þú værir gestkomandi á heimili mínu. Ef þú værir þar með óþekkt þá bæði ég vini mína að hjálpa mér að koma þér út. Vona að þú skiljir samlíkinguna. Ég skrifaði: " misjafn sauður í mörgu fé " þá var ég með í huga skrif þín sem ég hef lesið á bloggsíðum trúbræðra og trúsystra minna. Ef það gleður þig eitthvað í lokin þá er ég ein af þessum í hópi Hvítasunnumanna nema að þá myndi ég nota orðið rolla þar sem ég er kvenkyns.

Friðarkveðjur og ég óska þess að þessi síða sé ekki vígvöllur.

Rósa Aðalsteinsdóttir, 27.2.2008 kl. 21:41

42 Smámynd: Jonni

Mér dettur ekki í hug að segja neitt misjafnt um þig og mun ekki gera það svo þú getur verið alveg óhrædd. Það getur hins vegar verið að ég sé ósammála þér í hinu og þessu og það ætti gestgjafi bloggsíðu að geta þolað.

Jonni, 27.2.2008 kl. 21:54

43 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll Jonni. Já það ætla ég að þola svo framalega sem það er gert af skynsemi, færð skynsöm rök, vera málefnalegur og þá ættum við alveg að geta skrifast á. Sigurður Rósant er ekki trúaður en hann hefur oft komið hér með fróðleik og ég er mjög þakklát fyrir það. Alltaf gaman að fræðast. Ég skellihló af síðustu færslunni hans. Ég sagði einum bloggvini mínu sem er ekki heldur trúaður að beina frekar skítkasti á okkur einstaklingana heldur á Guð almáttugan ef hann þyrfti að vera með skítkast á annað borð. Það var áður en ég opnaði mína bloggsíðu. Segi þér þetta vegna síðasta innleggs þíns.

Gleymdi að segja í síðasta innleggi til þín að ég væri oft búin að taka það fram að fólk hefur frjálsan vilja og getur aðhyllst trú eða ekki. Við búum í lýðræðislegu landi hvað það snertir. Svo vona ég að þú hafir lesið reglu hér efst í dálknum þar sem er djókmynd af höfundi = þetta er ekki ég, að öll dýr í skóginum eiga að vera vinir. Stundum þarf að fara fram smá spjall áður en fólk skilur hvort annað. Við höfum náð því takmarki.  Friðarkveðjur

Rósa Aðalsteinsdóttir, 27.2.2008 kl. 22:14

44 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Kæra Adda. Takk fyrir fallega textann.    ég er svo upptekinn að skrifast á við karlpeninginn sem sópast að mér. Ég er alveg undrandi

Rósa Aðalsteinsdóttir, 27.2.2008 kl. 22:16

45 Smámynd: Jakob Falur Kristinsson

Þetta er mjög fróðleg grein hjá þér og sem kristinn maður er alltaf gott að geta bætt við sinn fróðleik um kristna trú.  Af því það eru svo margir að skrifa hjá þér, þá man ég ekki hver var að ræða um Íslam-trú.  En mitt álit á þeirri trú er að í henni felist oftæki, þ.e. að ekkert er rétt nema Íslam og ég hef á tilfinngunni að hún sé talsvert varasöm og vona að íslendingar haldi sig við hina kristnu trú.  Þótt auðvitað eigi hver að hafa þann rétt að trúa á það sem hann vill.  En reynsla dana af Íslam er ekki góð, þeir reyna alltaf að komast lengra og lengra með trú sína í danskt þjóðfélag.  Þetta er eins og sagt er um suma að ekki sé óhætt að heilsa viðkomandi, nema að telja fingurna til að vera viss um að þeir séu ennþá á hendinni eftir handtakið, því menn óttast að það gæti kannski vantað einn fingur.  Þetta er nú orðið lengra en ég ætlaði mér, því ég hef ekki hundsvit á trúmálum. 

Annars ætlaði ég ekki að fara að rökræða við þig um trúmál, heldur þakka fyrir blómin.  Og því lofa ég þér hér og nú að blómin verða sett í vasa á skrifborði borgarstjóra og alltaf þegar ég lít á þau, hugsa ég um Rósu á Vopnafirði.  Takk fyrir og aftur takk og enn meira takk.

Gangtu á Guðs vegum, þá er framtíðin björt og fögur.

Jakob Falur Kristinsson, 27.2.2008 kl. 22:22

46 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll Jakob. Það var t.d.  Sigurður Rósant sem var að skrifa um Islam en hann er búsettur í Danmörku og veit þar af leiðandi mjög vel um allt sem þar gengur á. Ég vona að Íslendingar læri af misstökum Evrópubúa sem ætluðu að vera svo umburðarlynd í upphafi en hafa komist að því að öfgamúslímar ætlast til að öllu sé breytt að þeirra siðum. Hvernig ætli fari með öll svínin í Danmörku. Verður það ekki næst að skipa Dönum að hætta að hafa svín, slátra þeim og jarða. Banna allt svínakjötsát  til að þóknast Múslimum. Það var frétt núna í dag þar sem starfsmenn Hollenskra banka þurftu að hætta að gefa börnum sparibauk sem var sennilega svínslegur. Það sem veldur mér áhyggjum er að stjórnmálamennirnir okkar eru að leika sama hlutverk = umburðarlyndi eins og Evrópubúar gerðu. Það þarf að senda stjórnmálamennina okkar til augnlæknis svo þau fái sjónina vesalings fólkið og við skattgreiðendur skulum borga.

Rósa Aðalsteinsdóttir, 27.2.2008 kl. 22:42

47 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ég þakka þér Rósa og reyndar Jóni Val góðkunningja mínum fyrir skemmtileg skrif, þó hann hafi til öryggis varað við mér. Kannski er það nú eins gott?  Það er alveg rétt, og ég hef ekki farið leynt með það að ég er trúaður þó með öðrum hætti sé en þið flest.  Það kemur ekki í veg fyrir að ég met mjög mikils kærleiksboðskap Krists. Ég þakka það líka umburðalyndi kristinnar trúar að ég hef aldrei goldið trúar minnar.  Ég vil ekki meta fólk eftir því hverrar trúar það segist vera. " Af ávöxtunum skulið þér þekkja þá"  Margir af bestu vinum mínum eru trúaðir kristnir einstaklingar en sumir eru auðvitað ásatrúar eins og ég. Ég met mikils að fólk reyni eins og þú Rósa að hafa það sem sannara reynist.  Mér tekst það örugglega ekki nærri alltaf, enda þykir hverjum sinn fugl fagur. Vinur minn Jón Valur hefði, að mínu mati, frekar átt að benda á hvað ég sagði rangt. Ég tek ekki þátt í að níða trú fólks eða það sem því finnst heilagt.  Kannski eru það kristileg áhrif að gera ekki öðrum það sem þú villt ekki að aðrir geri þér? En það er sama hvaðan gott kemur. 

Sigurður Þórðarson, 27.2.2008 kl. 23:08

48 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll Siggi minn, hætti að vera formleg og skrifa Sigurður Þórðarson. Það var gert vegna þess að ég á bloggvin sem heitir Sigurður Rósant. Ég og þú við höldum áfram að vera keik eins og Keikó og látum ekkert slá okkur út af laginu. Ég lenti einu sinni inná síðu þar sem var verið að hnýta í Jón Val og ég ákvað að skrifa og sagði að hann væri langflottastur og hafði ég efasemdir um að þeir kæmust þar sem Jón Valur hefði hælana og ef þeir ætluðu að reyna að ná honum yrðu þeir að gefa í því Jón Valur væri á fleygiferð. Þá fékk ég fyndin svör. Þessi ágæti bloggari kallaði mig eðal sveitapenna og síðar kom færsla hjá honum um ofurfemínista og þar var mynd sem mér fannst flott. Ég skrifaði inná bloggið og spurði hvar hann hefði fundið þessa mynd og sagði í gríni að þetta væri ég. Þetta var svo flott dama svo ég setti hana hér á bloggið hjá mér sem mynd af höfundi og þemað er sveitapenni á hjara veraldar. Þegar ég byrjaði að blogga þá biðlaði ég til hans og er hann bloggvinur minn. Guðsteinn vinur okkar er ekkert hrifinn af þessari mynd.  Mér finnst þessi dama aftur á móti alveg meiriháttar flott.

Flott orðin sem þú vitnar í: Ætli þú verðir ekki næsti biskup Íslands og Jakob okkar næsti borgarstjóri???

 FF. Friðarkveðjur.

Rósa Aðalsteinsdóttir, 28.2.2008 kl. 00:22

49 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Sæl Rósa, ég er ekki sammála vini okkar honum Guðsteini, það er eitthvað svo gyðjulegt við þessa huggulegu dömu, sem heillar ásatrúarmenn eins og mig gjörsamlega upp úr skónum. Varðandi Jón Val get ég sagt að ég hef þekkt hann lengi og finnst hann fínasti náungu. Ég get alveg fyrirgefið honum þó honum finnist sín trú flottari en mín. Við erum annar ótrúlega of sammála og sumir hafa sagt að það sé vegna þess að ég sé hálf kristinn. Mig grunar hinsvegar að því sé öfugt farið. JVJ hefur líka þann ágæta  kost að vera óforbetranlega réttsýnn. Mig grunar því að líklegra sé að hann gangi í Ásatrúarfélagið en ég verði biskup. En þó Ólafur F sé alls góðs maklegur þá myndi ég mikið gefa fyrir að sjá mætan vin okkar hann Jakob sem borgarstjóra.

Sigurður Þórðarson, 28.2.2008 kl. 09:10

50 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll Siggi minn. Við erum komin að niðurstöðu, ÉG, ÞÚ OG JÓN VALUR ERUM FLOTTUST. Þegar ég ákvað að hafa þessa mynd og bróðurdætur mínar voru að hjálpa mér að setja upp síðuna var mikið hlegið. Síðar kom bróðursonur minn sem er 10 ára og sá myndina og við höfum greinilega sama húmorinn. Hann skellihló. Vinur minn Ólafur B. Valgeirsson hefur áhuga að fara með myndina í vinnslu og setja mitt andlit inn í gervið á þessari flottu dömu. Óli hefur verið bjargvættur minn með ritgerðirnar mína. Hann setti þær upp fyrir mig á sínum tíma og hjálpaði mér að velja myndir. Ég á eftir að setja inn fleiri ritgerðir og ein þeirra verður algjör bomba og hlakka ég til þess slags. Hún er um Palestínu og Ísrael. Í sambandi við Ólaf borgarstjóra þá skil ég ekki þessa vitleysu að hann klári ekki kjörtímabilið í staðinn fyrir að skipta um skipstjóra einu sinni enn. Sjómenn yrðu þreyttir ef þeir vissu ekki hver yrði skipstjórinn þeirra á morgunn og svo eftir tvo mánuði yrði annar. Það hlýtur að vera leiðinlegt að vinna undir svoleiðis stjórn. ég er svo glöð með að Jesús er sá sami í gær og í dag og um alla eilífð. FF. Friðarkveðjur.

Doctor E. var hér á ferð með ljót orð og klippti ég út athugasemdina og hann er ekki lengur velkominn hingað. Ég er búin að útskýra að bloggsíðan mín er eins og heimilið mitt og ég vil hafa gesti sem eru málefnalegir, kurteisir og koma með rök og ekki skemmir að koma með fróðleik. Það er í lagi að fólk sé ekki með sömu skoðanir og ég. Við erum ekki lengur börn og hljótum að vera hætt að hárreytta aðra. Síðan mín er ekki vígvöllur og ef fólk vill ekki virða þetta við mig þá verður þeim hent út. Ef fólki yrði hent út af heimili mínu er það hátt fall. Margar tröppur, mikið fall. Sjá myndaalbúm. Húsið okkar er beint fyrir ofan bryggjuna.  HÉR RÆÐ ÉG.  FRIÐARKVEÐJUR.

Rósa Aðalsteinsdóttir, 28.2.2008 kl. 12:00

51 Smámynd: Sigurður Rósant

Já, Danskir bankamenn eru líka að fjarlægja sparígrísirnar. Sennilega verða þeir að lokum að hætta framleiðslu og neyslu svínakjöts af tillitssemi við muslima. Það eru þó nokkrir á þingi sem vilja veita Islamvæðingunni mótspyrnu, eins og t.d. Helle Thorning Schmidt, Socialdemókrati.

Rósa - Jú, þetta er að sjálfsögðu fyndið. En við nánari skoðun sjáum við að trúleysingjar njóta góðs af kristnu umburðarlyndi. Jesús Kristur sjálfur barðist gegn einstrengislegum ákvæðum Gyðingdómsins og ruddi því um leið braut trúleysingja. Trúleysingjar ættu því að vera í þakkarskuld við þennan hugrakka Palestínumann. Símon Pétur sneri boðskap hans hins vegar til skilyrðislausrar hlýðni og dró upp sverð til varnar sínum lífsstíl og sótti hart til að afla frumsöfnuðinum tekna, sbr. frásögnin af Ananías og Saffíru Post 5:1-11 sem seldu jarðareign en skiluðu ekki öllu fénu til gjaldkerans Símonar Péturs. Persónulega hef ég grun um að Símon Pétur hafi höggvið hjónin í spað og grafið þau í hasti. Hverjum var ekki sama um þá sem gerðust kristnir á þessum slóðum og á þeim tímum.

Sigurður Rósant, 28.2.2008 kl. 12:24

52 Smámynd: Guðsteinn Haukur Barkarson

æ Rósa mín ... losaðu þig nú við þessa bryðjulegumynd! Hún er allt of ásatúarleg !  hehehe ...  er það ekki Siggi? 

Guðsteinn Haukur Barkarson, 28.2.2008 kl. 19:22

53 Smámynd: Sigurður Rósant

Flest allir trúarsöfnuðir eru byggðir upp á því sama og söfnuður Benny Hinn. Fjársöfnun og kónglíf leiðtogans.

Sigurður Rósant, 28.2.2008 kl. 20:58

54 Smámynd: Adda bloggar


Christian Glitter by www.christianglitter.com

sæl vertu rósin mín.ég er búinn að laga bloggið aftur, þú ættir að geta lesið núna mín kæra.þakka ábendinguna.sofðu vel þín vinkona adda.

ps.skoðaðu gestabókina þína hehe

Adda bloggar, 28.2.2008 kl. 21:41

55 Smámynd: Magnús Paul Korntop

Sammála þér í því að kristnitakan árið 1000 á Þingvöllum var mjög heilladrjúg fyrir íslendinga en ég segi stundum að ég sé heiðingi að hálfu því mér finnst alveg mergjað hvernig Víkingar börðust í bardögum og blótuðu goðin þess á milli en auðvitað fór Ólafur konungur offari við að kristna Ísland en frábær ritgerð og þú átt heiður skilið fyrir þetta,ég hef nú lesið þetta gegnum íslendingasögurnar og Sturlungu.

Magnús Paul Korntop, 28.2.2008 kl. 22:00

56 Smámynd: halkatla

frábær grein og enn betri umræða á eftir henni

Guðsteinn, það er erfitt að vera of ásatrúarlegur

halkatla, 28.2.2008 kl. 22:04

57 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ég tek þetta þannig að Rósa sé að hafa sig til  fyrir mér.  Guðsteinn, ég vil hvetja þig til að láta af þessari afbrýðissemi.

Sigurður Þórðarson, 28.2.2008 kl. 23:19

58 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæl öll. Hér eru allir í stuði með Guði á meðan ég var að taka til, ryksuga og skúra. Lélegur skipstjóri að vera ekki í brúnni.

Sigurður Rósant er búinn að koma með tvö innlegg síðan ég var að vafra hér í hádeginu. Hann er búinn að halda uppi fjöri hér ásamt fleirum.

Rósa: "Sem betur fer var tekin ákvörðun á Alþingi að taka upp kristna trú og er það farsælasta ákvörðun sem hefur verið tekin.

Sigurður Rósant: "Sem betur fer var tekin ákvörðun á Alþingi að taka upp Islam og er það farsælasta ákvörðun sem hefur verið tekin."

Sigurður Rósant:"En ég vona að við trúleysingjar eigum það sameiginlegt í framtíðinni með kristnum að berjast af fullu afli gegn Íslam og venjum þeirra."

Rósa: "Sigurður Rósant  Já við verðum að taka saman höndum og berjast af fullu gegn Íslam og venjum þeirra. Það er  farsæl ákvörðun Ég sit hérna við tölvuna og mér finnst þessi athugasemd fyndin. =  Athugasemd Sigurðar Rósant.

Ég ítreka að við þurfum öll að leggjast á árarnar og vinna af fullu afli gegn því að Múslímar ætli að innleiða siði sína hér á Vesturlöndum. Þetta fólk flutti til okkar og ef þau vilja ekki aðlaðast okkur þá finnst mér þau geti farið til síns heima þar sem allt er sniðið að þeirra þörfum.

Ábending Sigurðar Rósant um Jesú Krist var mjög góð. Aftur á móti get ég ekki alveg kyngt framhaldinu með Pétur. Ekki veit ég af hverju Ananías og Saffíra ætluðu að láta allt andviðri jarðar sinnar til Péturs. Þau hafa greinilega verið búin að ákveða það en svo freistuðust þau til að draga undan hluta af andvirði jarðarinnar. Pétur sem var fylltur af Heilögum Anda fékk leiðsögn Heilags Anda að þau væru að drýgja synd.  Pétur sagði við Ananías að hann hafi látið Satan freista sín og að Ananías hafi  logið að Heilögum Anda. Sama var um konu hans. Þau höfðu óhlýðnast því sem þau voru búin að ákveða að gera fyrir Guð að gefa allt féð. Það er ekkert sverð þarna og það kemur skýrt fram að þegar Ananías og síðan konan hans þremur tímum seinna heyrðu þetta þá féllu þau niður og gáfu upp öndina.Ef einhver getur útskýrt um Ananías og Saffíra væri það þegið með þökkum.

Í sambandi við innlegg þitt með með fjársöfnun safnaða er ég að mörgu leyti sammála. Við þurfum samt að reka okkar kirkjur, þær eru ekki á spena hjá Geir H. Haarde og co. eins og Lúterskakirkjan. Kristnir menn geta alveg eins og aðrir farið út af sporinu og sýnt fégirni í hegðun sinni. "Fégirni er rót alls þess, sem illt er. Við þá fíkn hafa nokkrir villst frá trúnni og valdið sjálfum sér mörgum harmkvælum." 1. Tím. 6: 10. "Sýnið enga fégirni í hegðun yðar, en látið yður nægja það, sem þér hafið. Guð hefur sjálfur sagt: Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.""Hebr. 13. 5. Hér er smá ábætir. "Ver þú ekki meðal þeirra, er ganga til handsala, meðal þeirra, er ganga í ábyrgð fyrir skuldum, því þegar þú ekkert hefir að borga með, viltu þá láta taka sængina undan þér?" Orðskv. 22. 26.-27. Margir hafa farið illa að gangast í ábyrgð fyrir aðra.

Sigurður Rósant, ég er með eina spurningu fyrir þig. Siggi Þ skrifar: "Ég tek þetta þannig að Rósa sé að hafa sig til  fyrir mér.  Guðsteinn, ég vil hvetja þig til að láta af þessari afbrýðissemi." Finnst þér ekki strákurinn vera óþekkur. Hann er kvæntur maður?

Guðsteinn vill losna við myndina af þessari sætu dömu en Siggi ekki. hvað er til ráða???

Adda mín kom hér og setti inn fallega mynd. Mynd af Biblíunni okkar sem boðar okkur kærleiksboðskap sbr. 1. Kor. 13.

Anna Karen takk fyrir innlitið. Gott að þú hefur ekki alveg yfirgefið okkur hér í BLOGGHEIMUM. Guðsteinn lýsir myndinni sem bryðjulegulegri mynd og að hún sé allof ásatrúarleg. Fyndið innleggið þitt Anna Karen

Þetta er búið að vera gaman, kærar þakkir. Guð blessi ykkur öll.

Rósa Aðalsteinsdóttir, 29.2.2008 kl. 01:40

59 Smámynd: Óskar Arnórsson

Ég bara er að skoða nýjar víddir eftir að hafa lesið í gegn um fjöldan allan af þessi bloggi. Þvílík hvíls frá loðnuþrasi og stjórnmálum. Skal viðurkenna með kristni, þá er það feimnismál fyrir mig og hefur alltaf verið. Það er aðdráttarafl í þessu sem er stórmerkilegt fyrir mig að lesa. Þetta er svo vel útskýrt að ég get tekið undir allt. Ég varð sérstaklega hrifin af vitleysunni í því sem felst í að blóta. Það var reyndar engin trúarmaður sem kenndi mér leyndarmálið á bak við blót. Þegar ég vandi mig af blóti fékk ég annað vandamál. Ég varð óskaplega feimin og er enn, en hef verið góður að láta ekki bera á því við aðra. Merkilegt að lesa þetta fyrir mig. Og alls ekki tilviljun. þetta er bara frábært allt saman, segi ég bara.

Óskar Arnórsson, 29.2.2008 kl. 01:59

60 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll Óskar minn. Velkominn á bloggið hjá mér. Ég sé að það eru fleiri næturhrafnar en ég. Umræðurnar eru um heima og geyma hér á blogginu. Við hittumst hjá Þórarni og hann er duglegur að blogga fyrir öryrkja og krefjast leiðréttingar. Siggi sæti skrifar um loðnuna og Ingibjörgu Sólrúnu sem er myndarkona en ég er ekki sammála henni með Evrópubandalagið. Gangi þér vel að skoða það sem við erum að bögglast með hér á blogginu. Það er ærið verkefni. Góða nótt og góða hvíld.

Rósa Aðalsteinsdóttir, 29.2.2008 kl. 02:20

61 Smámynd: Úlfar Þór Birgisson Aspar

Ég er kominn heim aftur Rósa,og læt kannski í mér heira fljótlega.Annars hörku fín umræða hér og skemmtileg.

Úlfar Þór Birgisson Aspar, 29.2.2008 kl. 07:33

62 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll Úlli minn. Þegar ég fer í utanlandsferðir þá stoppa ég nú aðeins lengur en einn eða tvo daga.  Kannski sjáum við þá færslu hjá þér um helgina um íþróttir, kannski um nýja landsliðsþjálfarann í handbolta eða kannski bara hvernig Rósu nöfnu minni líður  Til gamans þá erum við hérna tvö að blogga sem erum náskyld Guðmundi. Það erum við Benedikt Halldórsson. Við erum öll þremenningar í móðurætt mína. Eðalætt úr Ísafjarðardjúpi  Þórdís langamma okkar trúði á Drottinn Jesú og hann var hennar styrkur í gegnum erfiða lífsgöngu. Það var mikil fátækt og barnahópurinn var stór. Engin hjálpartæki í eldhúsinu og börnin léku sér á moldargólfinu. En það sem ég hef heyrt um langömmu er frábært. Hún treysti Drottni. Það er búið að vera mjög gaman hér á bloggsíðunni og allir nema einn algjört eðalfólk.  Úti er að snjóa í fallegu sveitinni og börnin örugglega glöð að fá meiri snjó. Guð blessi þig kæri vinur.

Rósa Aðalsteinsdóttir, 29.2.2008 kl. 11:28

63 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Bloggvinainnlitskvitt!

Góð!

Benedikt Halldórsson, 29.2.2008 kl. 14:14

64 Smámynd: Úlfar Þór Birgisson Aspar

Segðu Rósa mín,ég skal senda inn eina létta færslu á morgun varðandi mína menn,jú Njarðvík vann í gær.

Og síðan er hörkurimma um helgina Arsenal og Aston Villa,svo nú verða mínir menn að spýta í lófana og sína sitt rétta andlit og djörfung.

Já ég verð að segja eins og er þetta er auðvitað rugl ég vaknaði í gærdag 4:30 var kominn á flugvöllinn 5:30 og ég lenti aftur heima rétt um 3 leytið í nótt.Gekk frá öllu og bang vaknaður kl 7 og mættir í vinnu fyrir 8 og mun síðan vinna á morgun varðandi lausnir og stórt verkefni.

Jú Jú svona er bara oft lífið og eins og lagið góða segir ´hún hefur kennt mér að vaka og vinna.......................................heheheh bestu kveðjur héðan sunnann með sjó.

Úlfar Þór Birgisson Aspar, 29.2.2008 kl. 15:22

65 Smámynd: Sigurður Rósant

Rósa - "Það er ekkert sverð þarna og það kemur skýrt fram að þegar Ananías og síðan konan hans þremur tímum seinna heyrðu þetta þá féllu þau niður og gáfu upp öndina."

Það er nú alveg óþarfi að láta sem þú þekkir ekki Símon Pétur. Þú þarft ekki að afneita eðli hans þó að hann hafi afneitað vini okkar Jesú á sínum tíma. Hann var formaður á sinni skektu og bar alltaf sverð á sér sem er kallað sverð eða sveðja í dag. Hann beitti því m.a. gegn þjóni æðstaprestsins þegar Jesús var handtekinn, sbr. Matt 26:51 "Einn þeirra, sem með Jesú voru, greip til sverðs og brá því, hjó til þjóns æðsta prestsins og sneið af honum eyrað." Ég neita alveg að trúa því að þau hafi bæði dottið niður dauð í kjölfar "hvítrar lygi" gegn Símoni Pétri, þá ætti Benny Hinn og fleiri peningapredikarar að vera margdauðir.

En varðandi eftirfarandi spurningu þína "Finnst þér ekki strákurinn vera óþekkur. Hann er kvæntur maður?", þá fylgist ég lítið með hver er með hverjum, eða hvernig bíl náunginn á. Hins vegar verðum við að taka Frelsarann til fyrirmyndar í öllu og þá ekki síst hvernig hann sýnir okkur að ástunda skuli - kærleikann - þegar stúlkur/konur eru annars vegar.

Þig ætti ekki að skorta kærleikann frekar en Maríu Magdalenu forðum eins og ég lýsi nánar í færslu á bloggsíðu nafna míns Þórðarsonar, undir "Prestur hvetur söfnuðinn til aukins kynlífs"

Sigurður Rósant, 29.2.2008 kl. 16:41

66 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sælir Strákar.

Ég var að skrifa athugasemd hér rétt áðan til Úlla og var að segja honum frá Benedikt Halldórssyni og svo mætir Benni frændi með stæl í nærstu færslu.

Benni minn takk fyrir innlitið. Kíki á eftir á síðuna hjá þér til að tékka á fjörinu.

Úlli minn, þetta er nú meira ferðalegið. Eins gott að þú ert hraustur. Það nálgast að Lóan komi og fari að syngja fyrir okkur að vaka og vinna. Þá verður þú að passa nöfnu mína, kisu Rósu.  En fyrr má nú rota en dauðrota með að vaka og vinna 

Sigurður minn Rósant. Við mennirnir erum öll breysk og ég hef lesið söguna um Pétur og þjón æðsta prestsins og einnig um þegar hann afneitaði Jesú og að haninn galaði: "Einn þeirra, sem með Jesú voru, greip til sverðs og brá því, hjó til þjóns æðsta prestsins og sneið af honum eyrað." Þetta var Pétur en það er óþarfi að klína á hann eða aðra því sem þeir hafa ekki gert. En ég get ekki útskýrt betur söguna um  Ananías og Saffíru. Ég get ekki útskýrt þá hluti sem þarna áttu sér stað en við vitum að laun syndarinnar er dauði.

Ef einhver getur útskýrt söguna um Ananías og Saffíru væri það þegið með þökkum.

"Trúin er fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá."

Jesú er kærleiksríkur og hann fyrirgaf Maríu Magdalenu syndir hennar, hann fyrirgaf mér mínar syndir. Jesús er Drottinn.

Við verðum að vona að Benny Hinn sé í stuði með Guði. ´

Guð blessi ykkur. SHALOM

Rósa Aðalsteinsdóttir, 29.2.2008 kl. 18:31

67 Smámynd: Adda bloggar

góða helgi mín kæra

Adda bloggar, 1.3.2008 kl. 01:03

68 Smámynd: Ólafur Als

Væntanlega er ég að bera í bakkafullan lækinn með innskoti mínu - en ég vildi taka fram að ég sannfærðist fyrir mörgum árum um að hinn heiðni siður á Íslandi fyrir kristnitökuna var ekki nema að hluta til Ásatrúar. Miklu fremur var að menn væru vættatrúar, eins og Halldor Laxnes og fleiri hafa sagt frá. Hin sterka áhersla á að klína á Íslendinga Ásatrú er að ég held nokkuð misskilin, e.t.v. byggt á rómantískum misskilningi Ara forðum daga. Ásatrúin á rætur að rekja til Germaníu til forna og fremur ólíklegt að hún hafi gert alvarlegt strandhögg í Skandinavíu, hvað þá á Íslandi.

Að öðru leyti vil ég þakka fyrir góða umræðu og óska ykkur öllum friðar.

Ólafur Als, 1.3.2008 kl. 01:36

69 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæl og blessuð.

Adda kærar þakkir og sömuleiðis.

Ólafur Als. Kærar þakkir fyrir þitt innlegg.

Guð blessi ykkur

Rósa Aðalsteinsdóttir, 1.3.2008 kl. 11:27

70 Smámynd: Sigurður Þórðarson

 Sæll Ólafur, Gísli Jónsson fyrrum amtbókavörur skýrði nafnið Ólafur þannig að það væri sá sem lofaður væri af Ásum og rökstuddi það rækilega.  Fram að þeim tíma var talið að Ólafur væri sá sem lofaður væri af áum þ.e. forfeðrum. 

Ég er að hluta til sammála Ólafi Als en vel að merka aðeins hluta til. 

Það er enginn vafi á að forfeður okkar trúðu á Æsi, það sést ekki bara á Íslendingasögunum, Snorra Eddu, nafnahefðum og fornminjum heldur ekki síður í Eddukvæðum sem eru miklu eldri en landnám. Það ætti hver maður líka að sjá þetta á allri þjóðfélagsskipaninni hér voru goðar sem fóru með goðorð = orð frá goðum les Ásum og Ásynjum, þ.e. geistlegt vald. 

Það sem er rétt eða öllu heldur sem veldur misskilningi er það að forfeður okkar  trúðu jafnframt á vættir, huldufólk, bergbúa, dverga, landvættir osf.  Þessar vættir voru vinir fólksins eins og víða má sjá má t.d. í Landnámubók. 

Hitt atriðið sem kann að valda þessari skoðun Ólafs er að orðið Ásatrú er nýyrði í íslenskri tungu.  Sá sem fyrstur notaði þetta orð fyrir slysni var Ólafur Jóhannesson, meðan hann gengdi starfi lagaprófessors en síðar varð hann forsætisráherra eins og allir vita.  Forfeður okkar "trúðu ekki á" eins og sagt er í dag. Þeir kölluðu trú sína sið og sín á milli töluðu þeir um "vorn sið".   Í vorum sið trúa menn á Æsi og aðrar máttugar verur. Og hananú!

Sigurður Þórðarson, 2.3.2008 kl. 00:55

71 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll Siggi minn. Alltaf í boltanum. Takk fyrir þitt innlegg.  Ekki ætla ég að reyna að skilja þetta allt því ég ætla að fara í mitt ból og það NÚNA 

Kær kveðja/ Rósa frá Ási í Vopnafirði

Rósa Aðalsteinsdóttir, 2.3.2008 kl. 01:53

72 identicon

Sæl Rósa mín.

Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi,og það gerir hinn stórmekilegi fróðleikur sem þú leggur hér fram fyrir okkur á síðunni þinni.

þú átt heiður skilið og eins það að svara öllum þessum fjölda er afrek útaf fyrir sig.

Þú ert svo vel   BRYNJUÐ Á MYNDINNI OG ÉG VEIT AÐ ÞANNIG ER MÁLFLUTNINGUR ÞINN VEL VARINN.

Góður Guð vaki yfir þér og þínum.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 2.3.2008 kl. 03:49

73 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Sammála Þórarni að forkurinn hún Rósa á heiður skilið fyrir þessa ritgerð. Hún réðist ekki á garðinn þar sem hann var lægstur því þetta er merkur kafli í Íslandssögunni og  risaverkefni og umræðan um hann verður seint tæmd. Það er alveg rétt að skírnarathafnir voru alltaf framkvæmdar með niðadýfingu.  Ég tel að vísu óvarlegt að tala um að kristni hafi verið "boðuð" á Þingvöllum en hún var lögfest.  Mér finnst stundum eins og hlutverk Þingvalla sé ofmetið en annarra staða eins og Laugarvatns vanmetin. En það er bara mín skoðun.

Varðandi ummæli kunningja míns Ólaf Als, (sem ég bið kærlega að heilsa) vil ég benda á eitt augljóst dæmi. Goðgá (guðlast) var bannað á Íslandi og á sjálfu alþingi var erindreki konungs dæmdur fyrir að hallmæla Freyju, dóttur Óðins og systur Þórs. Þetta þótti hin mesta hneysa og konungi þótti miður að Íslendingar hefðu verið móðgaðir.  

Sigurður Þórðarson, 2.3.2008 kl. 12:10

74 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sælir strákar. Ég þakka hólið en hér er smá fyrir Sigga vegna skrifa hans á síðu Guðrúnar Sæm:

En um heiðingja, sem trú hafa tekið, höfum vér gefið út bréf og ályktað, að þeir skuli varast kjöt fórnað skurðgoðum, blóð, kjöt af köfnuðum dýrum og saurlifnað.“Post: 21:25. 

Ég lít því svo á, að eigi skuli íþyngja heiðingjum þeim, er snúa sér til Guðs, heldur rita þeim, að þeir haldi sér frá öllu, sem flekkað er af skurðgoðum, frá saurlifnaði, frá kjöti af köfnuðum dýrum og frá blóði. Frá fornu fari hafa menn prédikað Móse í öllum borgum. Hann er lesinn upp í samkundunum hvern hvíldardag.“ Postularnir og öldungarnir, ásamt öllum söfnuðinum, samþykktu þá að kjósa menn úr sínum hópi og senda með Páli og Barnabasi til Antíokkíu þá Júdas, er kallaður var Barsabbas, og Sílas, forystumenn meðal bræðranna. Þeir rituðu með þeim: ,,Postularnir og öldungarnir, bræður yðar, senda bræðrunum í Antíokkíu, Sýrlandi og Kilikíu, er áður voru heiðnir, kveðju sína. Vér höfum heyrt, að nokkrir frá oss hafi óróað yður með orðum sínum og komið róti á hugi yðar, án þess vér hefðum þeim neitt um boðið. Því höfum vér einróma ályktað að kjósa menn og senda til yðar með vorum elskuðu Barnabasi og Páli, mönnum, er lagt hafa líf sitt í hættu vegna nafns Drottins vors Jesú Krists. Vér sendum því Júdas og Sílas, og boða þeir yður munnlega hið sama. Það er ályktun heilags anda og vor að leggja ekki frekari byrðar á yður en þetta, sem nauðsynlegt er, að þér haldið yður frá kjöti fórnuðu skurðgoðum, blóði, kjöti af köfnuðum dýrum og saurlifnaði. Ef þér varist þetta, gjörið þér vel.Verið sælir“ Post. 15: 20.-29.

 

VERIÐ SÆLIR AÐ SINNI 

Rósa Aðalsteinsdóttir, 2.3.2008 kl. 17:10

75 Smámynd: Ragnar Kristján Gestsson

Fróðleg ritgerð, merkilegar umræður líka og býsna athyglisverðar.  Vildi síðan leggja hermannlegu útliti þínu lið Rósa, enda þótt ég sé þarna líka í dularklæðum, kannski ekki ósvipað þér...

Ragnar Kristján Gestsson, 2.3.2008 kl. 20:43

76 Smámynd: Aida.

Já ég segi bara eitt Rósa mín. Mínar gáfur ná ekki mikið lengra en bænir og svo smá lestur í hinu góða bók bókanna.

'Eg veit að Jesús er Drottinn og svo læt ég hann fræða mig.

Þetta er rosalega flott hjá þér.

Eg ólst upp í Svíðjóð og þarf þvi miður að segja að ég þekki lítið 'Island og sögu þess.En eitt sem ég elska við land okkar er Kristinn trú Hallelúja og herlaust land.'Eg hef ferðast mikið og hvergi heyrt jafn mikið um Drottinn og hér á landi.Yndislegt,enda fann ég Bibliunna í eldhúsglugga fyrir 10 árum síðan og hef ekki litið af henni síðan.

Aida., 2.3.2008 kl. 21:17

77 Smámynd: Aida.

'Eg vil lika þakka þér fyrir innlitð Rósa hjá mér.

Það gladdi mig mikið.

Aida., 2.3.2008 kl. 21:24

78 Smámynd: Sigurður Rósant

Þessi ritgerð þín Rósa er með ágætum vel skrifuð. En það er ekki þín sök að það vantar heimildir, sem aldrei urðu skráðar. Á ég þá við þá einstaklinga og þær fjölskyldur sem þurftu að þola háð, spott, ofsóknir og hótanir kaþólsku kristinboðanna sem þú dásamar svo sem frelsara þjóðarinnar.

Orðið "heiðni" og "heiðingjar" er í dag oft notað í niðrandi merkingu um trúleysingja. Orðið "trúleysingi" á hins vegar ekkert skylt með orðinu "heiðingi" að mínu mati.

Orðið "heiðingi" var notað upprunalega um þá sem "komu af heiðum ofan", eða úr dreifbýlinu, eins og við segjum í dag. Hvort tveggja í niðrandi merkingu. Siðir þeirra sem komu úr "sveitinni" voru svolítið púkalegir í augum þeirra sem bjuggu í þéttbýlinu. Sum þéttbýlin þóttu sérlega flott, eins og Róm. Þaðan kemur svo orðtakið "rómantík", "rómó" o.s.frv.

Trúleysingi hins vegar getur búið hvar sem er og verið "rómó" eða "sveitó". Trúleysingi getur hins vegar aldrei verið "heiðingi". Heiðingi lifði eftir ákveðnum trúarlegum siðum, sem hann síðan lét af ef hann fluttist í þéttbýlið.

En þetta er nú svona mín niðurstaða eftir margra ára vangaveltur, með þessi orð og önnur. Sjá "Pagan", "Heathen" í Wikipediu.

Sigurður Rósant, 2.3.2008 kl. 23:31

79 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Sigurður það er mín skoðun að það verði að gera greinarmun á orðunum heiðinn og heiðingi. Heiðingi eins og þú segir réttilega er maður sem býr upp til sveita sbr. pesant eða pagan. Ég minnist þess ekki að hafa séð þetta orð í gömlum ritum en þar er aftur á móti talað um að menn séu heiðnir.  Heiðinn er að mínu mati samstofna orðinu heiður = bjartur eða tær sbr. heiður himinn.  Þessa skýringu er ekki að finna í orðabókum og um hana er deilt. 

Sigurður Þórðarson, 3.3.2008 kl. 12:57

80 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Rósa vinkona, mig langar bara að vita hvernig þú hefur það?

Sigurður Þórðarson, 3.3.2008 kl. 12:58

81 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Guð gefi ykkur góðan dag.

Ég átti eftir að botna þessa umræðu þegar allt í einu var ekki hægt að setja inn fleiri athugasemdir og kunni ég ekki að opna fyrir athugasemdir. Ég vil bara segja við hann Sigga minn: Við skulum fara fram á við Guðstein vin okkar að hann bjóði okkur í mat þegar ég kem til höfuðborgar Ólafs einn góðan veðurdag. Ég er til í ýmislegt nema ég neyti ekki blóðs og borða ekki blóðmör. Jesús lýsti alla fæðu hreina en hann bauð okkur að: Hér kemur orðið hreint og ómengað: "Það er ályktun heilags anda og vor að leggja ekki frekari byrðar á yður en þetta, sem nauðsynlegt er, að þér haldið yður frá kjöti fórnuðu skurðgoðum, blóði, kjöti af köfnuðum dýrum og saurlifnaði. Ef þér varist þetta, gjörið þér vel. Verið sælir"Post. 15: 20.-29.

Shalom/ Vopna-Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 13.3.2008 kl. 06:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband