19.1.2008 | 00:21
Er nokkur hagur að blóta?
Er nokkur hagur að blóta?
Smárit
eftir
Séra Friðrik Friðriksson
frá árinu 1902
Orð, sem eiga erindi til vor
enn í dag.
"Eigi saurgar það manninn, sem inn fer í munninn, heldur það, sem út fer af munninum, það saurgar manninn." Matt. 15: 11.
Útgefandi: KFUM & KFUK, Akureyri
Akureyri 1983.
Er nokkur hagur að blóta?
Þegar ég heyri einhvern blóta og ragna eins og hann ætli öllu að sökkva, dettur mér oft í hug: "Hvaða hag skyldi hann sjá sér í þessu?" Ég hefi velt þessu spursmáli fyrir mér á ýmsar hliðar, en ekki getað séð eða skilið, að menn hefðu nokkurt gagn af blótsyrðum sínum. Ég hefi reynt að skoða það frá ýmsum hliðum, þar á meðal þessum:
Er nokkur hagur í því
- a) í Guðs augum? Nei. Í Guðs augum er það synd og andstyggð. Hann hefir sagt: "Fyrir hvert illyrði, sem mennirnir mæla, skulu þeir á dómsdegi reikningsskap lúka!"
- b) En í augum trúaðra manna? Nei, í þeirra augum er það svívirðilegt hneyksli.
- c) En þá í augum siðaðra manna? Nei. Þótt þeir séu vantrúaðir, álíta þeir blót argasta dónaskap og merki upp á siðleysi. -
- d) Fegrar það málið? Nei, fjarri fer því.
- e) Gjörir það málið kröftugra? Nei, því að það eru meiningarlausir hortittir. Það er haft án tillits til efnis og innihalds út í bláinn. Margir brúka það, hvernig sem á stendur við ljótt eða fallegt, illt og gott. Ef þeir í leik missa marks, bölva þeir, ef þeir eru svo heppnir að ná marki, bölva þeir líka. Ef þeir tapa slag í spilum, bölva þeir og eins ef þeir vinna. Ef þeir draga fisk úr sjó, bölva þeir af gleði; ef þeir ekkert fá, hafa þeir sömu orðin í bræði. - Það er því að eins þvaður út í bláinn. -
Ef beztu umhugsun hefi ég þannig komizt að raun um, að blót er:
Synd og viðurstyggð fyrir Guði, hneyksli trúuðum mönnum, siðleysi í augum siðaðra manna, lýti og hortittir í málinu og meiningarlaust þvaður og sjálfsmótsögn eftir innihaldinu.
Hvað er unnið við það? Ef einhverjir af þeim, sem hafa fengið mikla æfingu og þar af leiðandi reynslu í þessari fögru (!!) list, vilja gjöra svo vel að sannfæra mig með gildum rökum í hverju tilliti hagur sé að blóta, mun ég vera þeim mjög þakklátur fyrir, því að ég get ekki séð hvar hann er fólginn. Friðrik Friðriksson.
Jesús sagði: "Hvern þann, sem drekkur af vatninu, sem ég mun gefa honum, mun aldrei að eilífu þyrsta, heldur mun vatnið, sem ég mun gefa honum, verða í honum að lind, er sprettur upp til eilífs lífs."Jóh. 4: 13.-14."
En hjá þér er fyrirgefning, svo að menn óttist þig." Sálm. 130: 4.
"Börnin mín. Þetta skrifa ég yður, til þess að þér skulið ekki syndga; og jafnvel þótt einhver syndgi, þá eigum vér árnaðarmann hjá föðurnum, Jesúm Krist, hinn réttláta." 1. Jóh. 2.-1.
Við freistingum gæt þín og falli þig ver,
því freisting hver unnin til sigurs þig ber.
Gakk öruggur rakleitt mót ástríðu her,
en ætíð haf Jesúm í verki með þér.
Hinn vonda soll varast, en vanda þitt mál,
og geymdu nafn Guðs þíns í grandvarri sál.
Ver dyggur, ver sannur, því drottinn þig sér,
haf daglega Jesúm í verki með þér.
Hver sá, er hér sigrar, skal sigurkrans fá,
í trúnni vér vinnum, þótt verði margt á,
því sá, er oss hjálpar, við hrösun oss ver.
Ó, hafðu þinn Jesúm í verki með þér.
H. R. Palmer. - M. Joch. þýddi.
HÉR LÝKUR SJÁLFU RITINU.
Viðbót:
Hvaða orð eru það sem eru blótsyrði?
Margir gera sér ekki grein fyrir að ansi, andsvíti, déskoti, púki, púkó, shit og fucking séu blótsyrði
Shit = fjandinn; andskotinn (shit þýðir ýmisleg fleira eins og t.d. drit, skíthæll)
Fucking = bölvaður, andskotans, fjárans.
Þetta er bara smá brot af blótsyrðum. Því miður eru blótsyrði notuð eins og lýsingarorð. T.d. að lýsa hvað maturinn var góður?? Persónulega finnst mér þegar fólk bölvar og notar slík orð sem lýsingarorð, oft vera vegna kunnáttuleysi í íslensku. Margir taka ekki eftir því þegar þau blótar fyrr en einhver segir þeim að þau hafi verið að blóta. Þetta er ljótur vani.
Fyrir mörgum, mörgum árum var ég beðin ásamt fleiri unglingum í kirkjunni minni í Reykjavík að gefa smárit á Verkalýðsdaginn, 1 maí. Ritið heitir "Algjör bylting" og er rautt með svörtu letri. Við gengum niður Laugaveginn og gáfum fólki ritið sem var í kröfugöngu. Þegar við komum niður á Lækjartorg hitti ég fullorðinn mann og bauð honum smárit. Hann sagðist ekki vilja svona Kommúnistarit. Ég svaraði glöð að þetta væri ekki Kommúnistarit heldur Kristilegt rit og skýrði það nánar. Þá sagði maðurinn setningu sem ég hef ekki gleymt því mér fannst orðin sem sögð voru, ógeðsleg. Maðurinn sagði: "Farðu til helvítis". Ég sem betur fer svaraði og sagði: "Nei, ég vil ekki fara þangað". Ég man að maðurinn var mjög hissa yfir svari mínu og glápti á mig. Hvaða kjáni er þetta hefur hann kannski hugsað! Kannski var hann hissa að ég þorði að segja nei þegar hann var búinn að segja þessi ljótu orð við mig. Hvað hann hugsaði veit ég ekki og langar ekki að vita það en að óska þess að einhver fari til helvítis finnst mér viðbjóðslegt. Fólk er að ákalla hinn Vonda og hans illu öfl yfir sig og heimili sitt en því miður gerir fólk sér ekki grein fyrir alvöru málsins. Oft hef ég heyrt foreldra bölva þegar þau eru reið við börnin sín. Þau eru í raun að ákalla ill öfl yfir sig og börn sín. Ég viðurkenni að ég finn fyrir sársauka innra með mér þegar ég hef orðið vitni af slíku. Hræðileg framkoma við börnin sem eru gjöf frá Guði. Samkvæmt orði Guðs er það synd að bölva. Það er alveg jafn ljótt að nota ensk orð "fucking!" eða "shit!" Vona að fólk sem notar þessi orð viti hvað þau þýða en það er kannski stóra spurningin?? Ætli fólki finnist vægi enska orðsins minna en þess íslenska eins og t.d. fucking?
Vildi óska að ég væri betri manneskja og myndi aldrei segja neitt ljótt. Margt sem við segjum er ljótt þó svo að það sé ekki blótsyrði. Og hugsanir okkar eru oft slæmar.
Guð hjálpi okkur öllum að vanda mál okkar og læra hvað er rétt og hvað er rangt.
Rósa Aðalsteinsdóttir Ási Vopnafirði.
Flokkur: Trúmál og siðferði | Breytt 23.1.2008 kl. 15:21 | Facebook
Athugasemdir
Sæl Rósa mín þetta er frábær grein hjá þér, en ég var að velta fyrir mér af hverju þú ert með trúníðing, bölvald og mann sem kallar þig lygara og hræsnara sem blogg vin þinn? Þú kallar bölvun yfir þig og fjölskyldu þína með slíku háttarlagi. Kveðja í Jesú nafni Amen. SHALOM.
Ps. Ég á við Jón Steinar.
Aðalbjörn Leifsson, 19.1.2008 kl. 10:05
Sæll Valli minn. Þú ert svo tæknivæddur. Flott að láta lesa greinina yfir fyrir sig og hafa það notalegt á meðan.
Sæll Alli minn. Við Jón Steinar erum vinir og vil ég ekki skýra nánar okkar kynni. Ég veit að hann er á öndverðri skoðun en ég. Jón Steinar er Ísfirðingur og móðir mín var úr Ísafjarðardjúpi. Hún frelsaðist á Ísafirði 19 ára gömul og var ein af stofnendum Salem safnaðarins. Átthagaböndin binda. Biddu Guð að hjálpa mér.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 19.1.2008 kl. 13:16
Já Rósa mín ég bið fyrir þér, það skýrir margt með Jón Steinar að hann er ísfizkur!! Ha Ha Ha
Aðalbjörn Leifsson, 19.1.2008 kl. 13:38
Alli minn, skoðaðu þá allan bloggvinalistann minn! Ég er með fjöldann allan af "trúníðingum" þar. Og þá ætti bölvun sannarlega við mig og mína. En ég minni á að við eigum að fara út meðal þjóðanna og boða fagnaðarerimdið, persónulega þá finnst mér meiri líkur að ná til fólks ef við erum nógu áberandi.
Og ef ég er í bloggvinalistanum þeirra þá eru meiri líkur á að hinir vantrúuðu komi og kannski sannfærist. Það er einlæg trú mín að við höfum jákvæð áhrif á aðra og virkar það sem trúboð um leið.
Auk þess sat Jesús sjálfur meðal tollheimtumanna og syndara, eftir hans fordæmi fer ég og greinilega Rósa líka. Þú skilur hvað ég er að fara?
Guðsteinn Haukur Barkarson, 19.1.2008 kl. 16:41
Sael Rosa.
Tetta er god lesning, nei tad borgar sig ekki ad blota.
Gud blessi tig.
Bestu kvedjur Jenni.
Jens Sigurjónsson, 19.1.2008 kl. 17:01
Hæ. Ég skemmti mér vel. Við verðum öll að velja vini okkar sjálf og ég hef valið og við það stend ég. Við Alli erum búin að vera í e-mail sambandi í dag og allt í orden.
Kæri Guðsteinn. Takk fyrir mjög gott innlegg. Auðvita eigum við að eiga vini þó að þau séu ekki eins og við.
Kæri Jens. Takk fyrir innlitið. Ætla að drífi mig að senda þér bón um bloggvinasamband.
Svo var líka eina reglan sem ég setti hér á síðunni að öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir. Ég fer inná síðuna hjá Jóni Steinari og er að gera prakkarastrik og hann tekur því bara vel því hann er búinn að læra svolítið á mig.
Friðarkveðjur til ykkar allra. Áfram Ísland.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 19.1.2008 kl. 17:52
Gott hjá þér Rósa,enda er umburðarlyndi lykilinn og þó maður trúi og hafi skoðun þá er alveg óþarft að vera ekki vinsamleg hvert við annað.Ég dæmi oftast fólk eftir verkum þeirra þó auðvitað sé það ekki mitt að dæma en ég get umgengist fólk sem ég kýs sjálfur og þá skiptir kannski ekki öllu hverju viðkomandi trúir heldur hvað hann gerir.Góð lesning og takk fyrir mig kveðja Úlli.
Úlfar Þór Birgisson Aspar, 19.1.2008 kl. 19:05
Sæll Úlli minn. Vona að innihaldið í pistlinum skili sér. Það er það sem skiptir máli. Því miður varð smá truflun hér. En þar sem við erum með e-mail hjá hvort öðru getum við þá sent línu okkar á milli og varpað fram spurningum sem koma færslunni ekkert við.
Það er eitt af því ljótasta í uppeldiaðferðum foreldra þegar þau blóta vegna þess að þau eru reið við börnin sín. Ég hef verið vitni af því og þvílíkur vanlíðan að þurfa að hlusta á svona.
Ég gleymi aldrei kallinum sem ég hitti 1 maí forðum daga. Þegar hann var búinn að svara reiðilega að hann myndi ekki vilja Kommúnistarit og þá varð ég svaka spræk og sagði honum að þetta væri ekki Kommúnistarit.
Guð blessi þig Úlli minn og sólargeislana þína.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 19.1.2008 kl. 20:17
Sæll Magnús. Þú átt örugglega marga skoðunarbræður eins og sagt er, en ritið eftir Friðrik Friðrikson gerir það kannski að verkum að þú ferð að hugsa út í þessa hluti. Sagan af prestinum. Þú ert nú meiri brandarakarlinn Magnús minn. Takk fyrir innlitið.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 19.1.2008 kl. 23:24
Hmmm? Hvað á Alli við með því að uppruni minn skýri afstöðu mína til trúmála?? Svolítið langsótt að skilja, jafnvel fyrir trúníðing. Svo hlær hann ógurlega. Megum við hlægja með Alli? Komdu nú með eina netta ritningarskýringu kæri vinur vina minna. (Úbbs, skyldi hann kalla yfir sig bölvun með að eiga vini sem eru vinir mínir? Ég vona ekki, en maður veit aldrei með þennan óútreiknanlega og hefnigjarna, refsandi sadista sem Guð hans er).
Jón Steinar Ragnarsson, 20.1.2008 kl. 00:15
Sæll Jón Steinar. Ég talaði um að þú værir Ísfirðingur og mamma mín var úr Djúpinu og ég talaði um að átthagaböndin binda, sjá færslu 3. Það held ég að hann hafi meinað með seinna svari sínu eftir mínar útskýringar. Bara það að þú varst frá Ísafirði af öllum stöðum, þá fékkstu mörg prik hjá mér. Hef oft komið á Ísafjörð og inní Djúp á æskustöðvar móðurfólks míns. Guðsteinn og Úlli svöruðu þessu líka og Guðsteinn lagði fram spurningu til Alla um hvað þá með alla hans bloggvini? Svo fannst mér Magnús fyndinn þegar hann fór að tala um blessaðan prestinn. Hann er nú meiri prakkarinn. Ég verð að láta Alla vita að það eru spurningar til hans hér hjá mér. Heyrumst fljótlega og hafðu það sem best kæri vinur.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 20.1.2008 kl. 01:07
Sæl öll. Smá innlegg:
Þótt ég talaði tungum manna og engla, en hefði ekki kærleika, væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla. Og þótt ég hefði spádómsgáfu og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking, og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú, að færa mætti fjöll úr stað, en hefði ekki kærleika, væri ég ekki neitt. Og þótt ég deildi út öllum eigum mínum, og þótt ég framseldi líkama minn, til þess að verða brenndur, en hefði ekki kærleika, væri ég engu bættari. Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn. Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni, en samgleðst sannleikanum. Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi. En spádómsgáfur, þær munu líða undir lok, og tungur, þær munu þagna, og þekking, hún mun líða undir lok. Því að þekking vor er í molum og spádómur vor er í molum. En þegar hið fullkomna kemur, þá líður það undir lok, sem er í molum. Þegar ég var barn, talaði ég eins og barn, hugsaði eins og barn og ályktaði eins og barn. En þegar ég var orðinn fulltíða maður, lagði ég niður barnaskapinn. Nú sjáum vér svo sem í skuggsjá, í ráðgátu, en þá munum vér sjá augliti til auglitis. Nú er þekking mín í molum, en þá mun ég gjörþekkja, eins og ég er sjálfur gjörþekktur orðinn. En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, en þeirra er kærleikurinn mestur.
Nú ætla ég að njóta lífsins og fara að drífa mig að loka augunum og hrjóta rösklega. Góða nótt.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 20.1.2008 kl. 01:22
Sæl Rósa ég vissi ekki að innlegg mitt myndi græta heiðursmanninn Jón Steinar.
Haukur minn kæri þú mátt eiga alla þá vini sem þú villt, en vandaðu valið. Júdas var vinur Jesú en sveik hann og hlaut eilífa glötun fyrir vikið, það er ekki það sama að eiga vini eða kunningja. Be blessed not stressed.
Það sem ég átti við að Jón Steinar bölvi þér og okkur er innlegg hans við grein mína "Nýr siður" frá 19. des síðastlíðnum.
Þar fer hann að segja mér og mínum bloggvinum að hugsa um endaþarma eins og Jón Valur?? Jón Steinar segir mig og bloggvini mína ljúga, vera hræsnara, að við hrósum okkur af e-u í blekkingarskyni. Hann segir að annað hvort smjöðrum við fyrir Guði eða að við brennum í helvíti. Síðan segir hann að sá sem blaðrar mest veifar mest og fær flottustu flogin er trúaðastur, fær væntanlega svítuna á himni.
Hann hefði getað sagt þetta allt um mig einan en hann dró bloggvini mína inn í þetta, ekki eru allir þar trúaðir né kristnir, þannig að hann ætti að gæta að sér.
Jón minn Steinar það að þú sért frá Ísafirði er fyndið vegna þess að ég hef svo oft heyrt að allt vont komi að vestan, sjálfur er ég ættaður frá Ísafirði og á ættingja þar. Guð blessi þig og þína Jón Steinar.
Rósa Guð blessi þig.
Aðalbjörn Leifsson, 20.1.2008 kl. 09:07
Sæl Rósa.Pistillinn góður, og eins og þú veist best sjálf tala ég aldrei ljótt,og ef það hendir þvæ ég strax munninn. þetta er þrælskemmtilegir bloggvinir sem þú átt.
Kveðja
Ari Guðmar Hallgrímsson, 20.1.2008 kl. 12:25
Sæll Ari minn. Hér er hörku fjör. Ég veit allt um að þú ert virkilega grandvar maður. Þú þyrftir að eignast fleiri bloggvini svo þú fáir fleiri athugasemdir því þú ert að skrifa um fréttir og ekki veitir nú af að fá almennilegan gust í kringum ýmis spillingarmál sem viðgengst hjá ráðamönnum þjóðarinnar og stóreignarliðinu. Það þarf að veita þessu liði aðhald.
Sæll Alli minn. Það gustar heldur betur hjá þér. Svo þú ert líka af úrvalsliðinu hér í bloggheimum. Mundu bara framvegis að ef þú vilt koma með ábendingu til mín sem varðar ekki skrif mín eins og hér að senda mér tölvupóst. Þú hefðir betur séð frétt hjá Ara um daginn um hvar vegir liggja rétt hjá Ísafjarðarbæ. Þar var talað um að vegurinn lægi við hlíðina en við Ari sem eigum heima á Vopnafirði vitum að vegurinn liggur í hlíðinni. Varðandi Jón Steinar þá kemur allt gott að vestan og það getur Ari staðfest því við erum vinir. Öll móðurætt mín er af Vestfjarðarkjálkanum. Og ættin er svakamyndarleg. Margar stelpur, afkomendur Bjarnastaðafólksins í Ísafirði v/Djúp hafa hlotið titilinn Ungfrú Reykjavík. Ekki dónalegt að þetta eru náfrænkur mínar. Jón Steinar er skáld og rithöfundur og kann þar af leiðandi að kveða að og setja í stílinn. Ég hef kynnst honum utan bloggsins og veit að hann er prýðismaður. Við verðum að sýna honum þolinmæði og þá kannski uppskerum við að hann sýnir okkur þolinmæði og kannski hættir hann að nenna að kíkja á bloggið hjá okkur sem hann hefur oft sagt að sé rugl. Mér dettur í hug sunnudagaskólalag og ætli ég óski ekki eftir því að það verði sungið í dag, það er lagið þegar stormur. Hér hefur snjóað og var þræl mikill stormur hér í gærkvöldi og nótt. Úti er allt hvítt og fallegt. Trén umvafin snjó. Allt svo hreint og fallegt. Þannig þarf það nú að vera með hjörtu okkar og tungu. Guð gefi okkur öllum náð. Njótið dagsins, það ætla ég að gera. Nú ætla ég að drífa mig á samkomu. Shalom.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 20.1.2008 kl. 13:21
Gleymdir að undirstrika þarna úr fyrsta Kor 13, sem er megininntakið: Breiðir yfir allt og trúir öllu.
Jón Steinar Ragnarsson, 20.1.2008 kl. 14:13
Aðalbjörn Leifsson, 20.1.2008 kl. 15:24
Aðalbjörn - Jesús gefur okkur það boðorð að elska alla menn eins og okkur sjálf - svo ef við færum að draga fólk í dilka með hvort það væri viðræðuhæft eða ekki eftir trú viðkomandi - erum við alls ekki að ganga á vegum Jesús!!
Guð blessi þig Rósa frænka!!
Ása (IP-tala skráð) 20.1.2008 kl. 16:15
Sæl og blessuð.
Ása Gréta takk innilega fyrir innlitið. Jesús fór út á meðal fólks. Jesús fór ekki í manngreinarálit og fyrir það er ég þakklát.
"Sá er hyggst standa, gæti því vel að sér, að hann falli ekki." 1. Kor. 10: 12. "Dæmið ekki, og þér munuð eigi dæmdir verða." Lúk. 6: 37.
Ég hugsa oft um þessi vers. Ég man eftir atburðum sem áttu sér stað í Bandaríkjunum. Það var sjónvarpsprédikari sem var að dæma trúbróðir sinn fyrir misgjörðir hans þannig að við meira að segja fréttum af þessu hér á Íslandi. Hann hefði geta rætt þetta við trúbróður sinn í einrúmi í staðinn fyrir að nota sjónvarpið til þess. En svo datt þessi maður í sama drullupyttinn og framkvæmdi nákvæmlega sömu synd og sá sem var að dæma.
Við þurfum að vera varkár því að Satan reynir að fella okkur og meiða. Ef hann finnur smá smugu, smá veikan blett þá ræðst hann á okkur eins og óargadýr.
Guð varðveiti okkur.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 20.1.2008 kl. 17:14
Herra Jón Steinar ég bið þig afsökunar og fyrirgefningar á að hafa kallað þig trúníðing og bölvald. Rósa ég bið þig líka afsökunar og fyrirgefningar á að hafa farið ógætilega í orðavali. Vona að þið sýnið mér skilning, með kærri kveðju og Guðs blessun. Al
Ps Be blessed not stressed.
Aðalbjörn Leifsson, 20.1.2008 kl. 19:29
Amen Alli minn, þú ert alveg að ná meiningu okkar Rósu !
Guðsteinn Haukur Barkarson, 20.1.2008 kl. 19:39
Btw, ég vil einnig biðja Jón Steinar afsökunar á framferði mínu við hann.
Guðsteinn Haukur Barkarson, 20.1.2008 kl. 19:55
Sælir strákar. Alli minn allt í orden, þér er fyrirgefið og ég ætla að kjósa þig hetju dagsins eftir allt og allt. Þeir sem geta beðist fyrirgefningar hafa góðan mann að geyma. Það reynist mörgum erfitt. Shalom
Rósa Aðalsteinsdóttir, 20.1.2008 kl. 19:55
Ekkert að fyrirgefa. Ég umber allt og elska allt, jafnvel auðmjúka trú manna, hvort sem það er á stokk og steina eða hvað annað. Valdbeiting og fordæming í nafni persónulegra hugmynda um lífið er samt illa réttlætanleg. Það er enginn ykkar sekur um. Ég hef ekkert nema gaman af að glíma við ykkur ef þið nennið. Orð manna verða aldrei meira en minnisvarðar um þá sjálfa og það er líka í þeirra valdi að taka þá minnisvarða niður. Áhrýni mín er eingöngu vegna þess að mér finnst slæmt að sjá góðar og efnilegar manneskjur bæla líf sitt með hindurvitnum. Amen.
Rósa þú ert svosem ágæt líka.
Jón Steinar Ragnarsson, 20.1.2008 kl. 20:43
Sæll Jón Steinar. Kærar þakkir fyrir innlitið. Við höldum áfram að vera í sambandi og kannski tölum við saman um stokka og steina einhvern tímann. Við getum öll farið að sofa sátt við hvort annað og það er hið besta mál. Ég tek ofan fyrir Alla að biðja þig Jón Steinar fyrirgefningar. Nú byrjum við aftur á byrjunarreit og svo verðum við að muna að öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir þó að þau séu ekki eins. Það liggur við að ég fari að syngja fallega þjóðsönginn okkar núna. Friðarkveðjur.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 20.1.2008 kl. 22:01
Sæl Rósa mín. Ég vil byrja á því að þakka þér birtingu á þessari grein.þar er margt sem ég VISSI og þar er líka margt sem ég VISSI EKKI.Mér fannst athugasemd þín nr14 :sæl, smá innlegg: vera TOPPURINN á allri þessari umræðu um leið og það særði mig að sjá góða Bloggara hnýta í hvorn annan.Svo sannast það best að fyrirgefningin er máttug og menn leggja niður vopn svo verði friður í hjarta.Það eru ekki margir dagar síðan að ég var að hugsa um að henda út Bloggvin,en vitið þið, það kom strax upp í hugsun mín að það væri ekki réttlátt,því að tjáningar okkar hér á netinu eru mis-málefnalega góðar(hugsa ég,hugsa þú og allir aðrir).Hver er það sem dregur mörkin um það að HVAÐ SÉ MÁLEFNALEGA GOTT EÐA SLÆMT. ERU það vitsmunir mínir sem segja mér það eða annara?
Mér er gefið að spila á píanó til dæmis(ég þarf ekki að hafa mikið fyrir því,og mér finnst það skrýtið hvað ég þarf nánast ekkert að hafa fyrir því.ÞESS VEGNA LÍT ÉG Á ÞAÐ SEM GUÐSGJÖF ÞÓ AÐ ÞAÐ SÉ MEIRA SEM MÉR VAR GEFIÐ). Ég er núna fyrst eftir öll þessi ár að átta mig. Ég er nú svo heppinn að geta fylgst með umræðum hér á netinu og hvert ykkar er blóm í skóginum.Og að lokum þetta . Ég er að Vestan nánar tiltekið frá ÍSAFIRÐI MEÐ ÆTTARREK TIL ÍSAFJARÐARDJÚPS OG BREIÐAFJARÐAR OG Í HINA ÁTTINA TIL STRANDA.
VERIÐ SVO ÖLL GÓÐ HVORT VIÐ ANNAÐ. Þá er eftirleikurinn auðveldur. Guð blessi ykkur öll og þig líka vinur minn Jón Steinar því ég geymi alltaf í huga mér er barn þú varst.
Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 20.1.2008 kl. 23:07
Jamm, takk fryrir það Þói minn. Það er víst ekkert leyndarmál að við þekktums vel hér í den og unnum saman líka. Úlla þekki ég líka mætavel og gætti hans stundum sem pjakks. Góðar og heilsteyptar manneskjur, þót ekki deili ég með þeim sannfæringu í öllu.
Jón Steinar Ragnarsson, 20.1.2008 kl. 23:21
Sælir strákar. Skemmtilegt að vita að þið Jón Steinar og Þórarinn hafið þekkst og einnig Úlli og Theódór. Þórarinn minn ef þú ferðast einhvern tímann í áttina þar sem ég á heima, þá eigum við ágætis píanó í Hvítasunnukirkjunni. Ég viðurkenni að ég hef gaman að gríni og ég veit að Magnús var grínast við mig í dag og svoleiðis læt ég ekki pirra mig. Eins Ari, mér fannst hann fyndinn. Það er allt í lagi að fá sniðug innlegg. Það skemmir engan en hitt var leiðinlegt en búið að kippa því í lag. Jón Steinar var Úlli algjör pjakkur? Get alveg ímyndað mér að hann hafi verið líflegur. Þórarinn var Jón Steinar fyrirmyndar barn? Það hlýtur að vera. Ég las svo fyndna sögu sem hann skrifaði á bloggið sitt. Þar sagði hann okkur frá fjallgöngu þegar hann var lítill drengur. Alveg magnað. Og Þórarinn minn, við erum sammála um að við eigum að sjá fyrir horn og sjá ýmsa kosti við fólk þó að þau séu ekki með sömu skoðanir við. Það væri leiðinlegt ef allir væru steyptir í sama mót og við hefðum enga kynlega kvisti eins og Bobby Fischer var. Ég man vel eftir þeim tíma og hvað gekk mikið á. Strákar gangi ykkur vel. Hittumst á blogginu.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 21.1.2008 kl. 01:42
Hæ strákar. Gleymdi að taka fram þegar Jón Steinar var að grínast við mig, innlegg nr. 18. Ég tók þessu ekkert hátíðlega og brosti bara allan hringinn. Við verðum líka að hafa gaman af lífinu saman.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 21.1.2008 kl. 01:45
Sælt veri fólkið, takk Rósa fyrir góðan pistil og ykkur hinum fyrir hressilegar samræður. Ég vissi reyndar að blót væri illskufóður löngu áður en ég fór að fylgja Guði - verð því miður stundum að naga mig í handarbökin eftir að hafa misst eitthvað útúr mér sem betur hefði heima setið. Kannski það sé vegna Önfirsks uppruna míns - voru ekki tómir galdramenn þarna úr fjörðunum?
Ragnar Kristján Gestsson, 21.1.2008 kl. 14:19
Sæll Ragnar minn. Við vitum ef okkur verður á þá getum við beðist fyrirgefningar við hvort annað og einnig beðið Jesú að fyrirgefa okkur ef við gerum rangt. Við erum mannleg en ekki fullkomin og okkur verður oft á, á lífsgöngunni. Aftur á móti finnst mér að allir viti betur en við hvernig við eigum að vera og oft gerðar kröfur sem eru út í Hróa Hött. Guð gaf okkur visku og við vitum alveg sjálf ef við gerum rétt og eins þegar við gerum rangt. Hjartað og hugsanir okkar láta okkur alveg vita ef við erum ranglát gagnvart einhverjum.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 21.1.2008 kl. 14:57
Góð færsla hjá þér.Takk fyrir það.Ég nota ekki blótsyrði.Sé ekki tilganginn með því að hreyta ljótum orðum útúr mér.Það gagnast ekki mér eða þeim sem í kringum mig eru.Hlýleg orð eru betri.Það er rétt að blót er illsku fóður.Knús til þín
Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 21.1.2008 kl. 15:03
Snilldarfærsla og passlega löng ég blota, en það er lítið mjög lítið og þá er þá oftast "shit" afsk. en samt afar sjaldan, eiginlega vegna þess að ég þoli ekki blót hvorki í mér eða öðrum.
Comment Buddy
MySpace Comments
Linda, 22.1.2008 kl. 00:52
Sælar stelpur. Takk fyrir innlitið. Enginn er gallalaus og við þurfum öll að vera í sjálfskoðun á hverjum degi. Stelpur "surprise" það er tölvubréf sem bíður ykkar.
Miklar sviptingar og sviptivindar í póltíkinni í borginni ykkar.
Guð blessi ykkur kæru vinkonur
Rósa Aðalsteinsdóttir, 22.1.2008 kl. 01:06
Sæl aftur . Datt í hug að gefa þér upp netfang mitt .
conwoy@visir.is
conwoy (IP-tala skráð) 23.1.2008 kl. 23:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.