16.1.2008 | 23:53
Biblían og Spíritisminn
Biblían og Spíritisminn
Höfundur: Benedikt Arnkelsson cand. theol.
Útgefandi: Orð Dagsins Glerárgötu 1, 600 Akureyri.
5 útgáfa 2003. Samtals hafa verið gefin út 17.000 þúsund eintök.
Prentun Offsetstofan.
Sett á netið með leyfi útgefanda sem er Jón Oddgeir Guðmundsson.
Hann rekur búð með kristilegu efni á Akureyri. Búðin heitir "Litla húsið."
Hann gefur út Öskjurnar "Orð Guðs til þín" "Bílabænina, Sjóferðabænina, Mótorhjólabænina, ofl." Nýjasta er lyklakippa með bílabæninni.
Einnig heldur hann úti símaþjónustu: "Orð dagsins" Sími: 462 1840
Dulhyggja, galdratrú og ýmislegt kukl hefur mjög breiðst út um hinn vestræna heim á seinni árum. Hvers konar "einkennilegir atburðir" vekja eftirtekt og menn leggja stund á fræði sem talin voru tilheyra miðaldasögunni.
Fullyrt er að í Frakklandi séu fleiri seiðmenn, sem starfa opinberlega, en læknar. Í héraðinu Normandí eru meira en þrjú hundruð kapellur helgaðar dultrúarathöfnum.
Álög og galdratrú eru við lýði í Þýskalandi. Tíu þúsund seiðkarlar og seiðkerlingar á Ítalíu mótmæltu því fyrir nokkru að stjórnin neitaði að viðurkenna starfsgrein þeirra og vildi ekki veita þeim sem stétt almannatryggingar og ellilífeyri.
Lög um galdrakukl voru afnumin í Englandi árið 1951. Nú eru galdrar algengir þar.
Börn eru helguð Satan á Vesturlöndum.
Fyrsta "Satanskirkjan" var vígð í San Fransiskó í Bandaríkjunum árið 1955. Nokkrum árum síðar var fullyrt að safnaðarmenn væru orðnir tíu þúsund. Menn dýrka Satan jafnvel á Norðurlöndum, t.d. í Noregi. Þar hafa þeir kveikt í kirkjum. Mannát hefur átt sér stað við athafnir Satansdýrkenda.
Margir sökkva sér niður í austræna heimspeki og iðka svonefnda hugleiðslu. - Þannig má lengi telja.
Spíritisminn er eins konar dultrúarstefna og virðist eiga miklu fylgi að fagna hér á landi. Innlendir og útlendir miðlar halda fundi og tala í útvarp og sjónvarp og spíritistafélög eru stofnuð.
Spíritismi er það að reyna að komast í samband við dáið fólk. Forsendan er sú að menn lifi áfram og að unnt sé að ná tali af þeim. Spíritistar eru sannfærðir um að það hafi tekist. Það gerist jafnan fyrir tilstilli miðla. Þeir virðast stundum falla í einhvers konar mók, sem kallað er trans, og telja sig tala við dauða menn og flytja skilaboð til þeirra eða frá þeim eða dauðir menn tali með munni þeirra og raddböndum. Stundum segjast þeir geta læknað sjúkdóma og þeir njóti þá hjálpar framliðinna lækna.
Sálfræðingar eru ekki á eitt sáttir um hvernig eigi að skýra þetta - eða jafnvel hvort þetta sé til. Ýmsir ætla að hér sér eingöngu um að ræða sálræna hæfileika. Menn tala um fjarskynjun eða hugsanaflutning, t.d. frá fundarmönnum til miðilsins. Nefnd er hlutskyggni, hæfileiki til að skynja liðna sögu hluta og þá einnig sögu manna, og kunni miðillinn að hafa slíka eiginleika.
Enn eru þeir sem eru sannfærðir um að illir andar séu á ferðinni til að blekkja menn og leiða þá í villu. Svo er um fyrrverandi miðil að nafni Rose Bevill. Hún segir að það hafi lokist upp fyrir sér að hún hafi verið dregin á tálar af djöflinum. Og hún varar menn ákaft við spíritismanum og kallar hann blómum stráðan helveg. Hún sneri sér til Jesú Krist og varð ný manneskja (Asbjøn Kvalbein: Okkultisme og åndetro i Bibelens lys, Osló; Rose Bevill: Andatrúin afhjúpuð *)
Hvað segir Biblían?
Biblían er bók Guðs. Hún er orð hans. Hvað segir hún um illa anda og um spíritismann, að leita sambands við hina dauðu? Hún skýrir frá tilveru djöfulsins og illra anda. Það þarf t.d. ekki að lesa lengi í guðspjöllunum þar til við rekumst á frásögur af því er Jesús rak illa anda út af mönnum. Þeir höfðu farið í þá og náð tökum á þeim. Sjá t.d. Lúkas 8: 26.-39.* Já, áður en Jesú hóf starf sitt opinberlega háði hann harða baráttu við hinn vonda. Hann sigraði hann og notaði orð ritningarinnar í þeirri glímu. Þess vegna er ritningin einnig okkar vopn og viðmiðun. Það er skemmst frá því að segja að ritningin bannar allt samband við anda. Andasæringar og miðilsfundir voru þekkt fyrirbrigði meðal heiðinna þjóða á tímum Gamla testamentisins. Þegar Guð fræddi Ísraelsmenn um þessi mál líkti hann því við ótrúmennsku í hjónabandi að koma nálægt andasæringum. Það var meira að segja svo alvarlegt að fyrirskipað var í lögmálinu að þeir, sem færu með slíka hluti, skyldu líflátnir:
"Sá sem leitar til særingaranda og spásagnaranda til þess að taka fram hjá með þeim, gegn honum vil ég snúa augliti mínu og uppræta hann úr þjóð sinni. Helgist og verið heilagir því að ég er Drottinn Guð yðar." 3. Mós. 20: 6.-7.
"Þegar þú kemur inn í landið, sem Drottinn Guð þinn gefur þér, þá skalt þú ekki taka upp svívirðingar þessara þjóða. Eigi skal nokkur finnast hjá þér sá er láti son sinn eða dóttur ganga gegnum eldinn eða sá er fari með galdur og spár eða fjölkynngi eða töframaður eða gjörningamaður eða særingamaður eða spásagnamaður eða sá er leiti frétta af framliðnum. Því að hver sá er slíkt gjörir er drottni andstyggilegur og fyrir slíkar svívirðingar rekur Drottinn Guð þinn þá burt undan þér. Þú skalt vera grandvar gagnvart Drottni Guði þínum. Því að þessar þjóðir, er þú rekur nú burt, hlýða á spásagnamenn og galdramenn en þér hefir Drottinn Guð þinn eigi leyft slíkt." 5. Mós 18: 9.-14.
Sál konungur
Gamla testamentið segir raunar frá miðilfundi. Sál Kísson var fyrsti konungur Ísraelsmanna. Hann var dugmikill herforingi. En hann óhlýðnaðist Guði og þá fór að síga á ógæfuhliðina.
Nú hafði sál gert alla særingamenn og spásagnamenn landræka og var það í samræmi við vilja Guðs. Sál átti í ófriði við Filista. Hann missir móðinn og Drottinn svarar honum ekki þegar hann leitar hans.
Þá skipar Sál þjóum sínum að leita uppi miðil. Það tekst og hann fer á fund særingakonu, dulbúinn. Hún uppgötvar hver hann er og verður skelfd. Um þennan miðilsfund má lesa nánar í 1. Samúelsbók. 28* og verður sagan ekki rakin hér frekar.
En á það skal sérstaklega bent að Sál vissi að hann átti ekki að leita frétta af framliðnum en hann gerir það samt þegar hann hefur yfirgefið Guð og Guð hefur yfirgefið hann.
Sál batt sjálfur enda á líf sitt og eru athyglisverð orð Biblíunnar þegar hún greinir frá dauða hans: "Þannig lét Sál líf sitt sakir ótrúmennsku sinnar við Drottin, sakir þess að hann eigi varðveitti boð Drottins og einnig sakir þess að hann hafði gengið til frétta við vofu," 1. Kron. 10:13.
Falsspámenn voru þeir menn nefndir sem fluttu boðskap í andstöðu við orð Guðs. Svo virðist sem þessir falsspámenn hafi hvatt fólk til að taka mark á furðulegum fyrirbærum og gefa gaum að "fréttum að handan." Jesaja var einn af þjónum Drottins sem falið var m.a. að tala á móti þeim. Hann segir: Ef þeir segja við yður: "Leitið til særingamanna og spásagnamanna sem hvískra og umla! Á ekki fólk að leita frétta hjá guðum sínum og leita til hinna dauðu vegna hinna lifandi?" - Þá svarið þeim: "Til kenningarinnar og vitnisburðarins!" Jes. 8:19.-20. Menn áttu ekki að leita til andaheimsins heldur gefa gaum að orðinu frá Drottni og útskýringu þess.
Það fer ekki á milli mála að Gamla testamentið bannar algjörlega allar tilraunir til að komast í samband við framliðna. Slíkt athæfi er talið til svívirðinga sem tíðkast meðal heiðinna þjóða.
Er bannið fallið úr gildi?
Nú er ýmislegt í Gamla testamentinu fallið úr gildi. Þar má nefna fyrirmæli um mataræði, helgisiði o.s.frv. Því spyrja sumir: Er bannið við að leita frétta af framliðnum ekki líka úr sögunni? Var það ekki aðeins bundið við Ísraelsmenn til forna?
Nei, bannið verður að teljast staðfest í Nýja testamentinu. Í bréfinu til Galatamanna segir svo: "Holdsins verk (syndir) eru augljós: Frillulífi, óhreinleiki, saurlífi, skurðgoðadýrkun, fjölkynngi, fjandskapur, deilur, metingur, reiði, eigingirni, tvídrægni, flokkadráttur, öfund, ofdrykkja, svall og annað þessu líkt. Og það segi ég yður fyrir, eins og ég hef áður sagt, að þeir, sem slíkt gjöra, munu ekki erfa Guðs ríki." Gal. 5: 19.-21. Í síðustu bók Biblíunnar segir: "Og eigi gjörðu þeir iðrun né létu af manndrápum sínum og töfrum, frillulífi sínu og þjófnaði. Op. 9: 21. "En fyrir hugdeiga og vantrúaða og viðurstyggilega og manndrápara og frillulífsmenn og töframenn, skurðgoðadýrkendur og alla lygara er staður búinn í díkinu, sem logar af eldi og brennisteini. Það er hinn annar dauði." Op. 21: 8.
Hér er ekki beinlínis talað um að leita frétta af framliðnum heldur fjölkynngi og töfra en í Gamla testamentinu er þetta allt nefnt í sömu andránni og talið til svívirðinga heiðingjanna.
Til er frásaga sem sýnir að fyrstu kristnu vottarnir kærðu sig ekki um hjálp þeirra, er höfðu "dulargáfur" af þessu tagi, til að flytja fagnaðarerindið um hinn krossfesta og upprisna son Guðs og frelsara Jesú Krist. Kona ein, sem hafði spásagnaranda, elti Pál postula og félaga hans í borginni Filippí og hrópaði að þeir væru þjónar hins hæsta Guðs og boðuðu veg til sáluhjálpar. Páli féll þetta illa og þar kom að hann rak andann út af konunni. Postulasagan 16: 16.-34.*
Á öðrum stað í sama riti segir frá því þegar áhrif fagnaðarboðskaparins um Jesú breiddust út í Efesusborg. "Margir þeirra, sem trú höfðu tekið, komu, gjörðu játningu og sögðu frá athæfi sínu. Og allmargir er farið höfðu með farið með kukl, komu með bækur sínar og brenndu þær að öllum ásjáandi og reiknaðist verð þeirra fimmtíu þúsund silfurpeningar. Þannig breiddist orð Drottins út og efldist í krafti hans." Post. 19: 18.-20.
Jesús hvatti menn aldrei til að leita frétta af framliðnum. Hann sagði söguna af ríka manninum og Lasarusi. Hlutskipti ríka mannsins í öðru lífi var svo hræðilegt að hann vildi fá að senda einhvern frá hinum dauðu til að vara bræður sína við svo að þeir lentu ekki í sama kvalastað.
En það var ekki leyft og ríki maðurinn fékk þetta svar: "Ef þeir hlýða ekki Móse og spámönnunum (þ.e. ritningunum) láta þeir ekki heldur sannfærast þótt einhver rísi upp frá dauðum." Lúk. 16. 19.-31.*
Nokkrir ávextir spíritismans
Það er fleira sem rennir stoðum undir það að spíritisminn og tilraunir til að ná sambandi við dauða séu af hinu illa. Jesús hefur gefið lærisveinum sínum ráð til að prófa andlegar stefnur og kenningar. Hann segir: "Af ávöxtunum þeirra skuluð þér þekkja þá." Matt. 7: 16. - Matt. 7: 15.-29.* Ekki verður betur séð en að í spíritismanum sé afneitað grundvallarkenningum ritningarinnar, einkum um Jesú Krist og hjálpræði hans.
Ég átti einu sinni erindi á skrifstofu í Reykjavík. Þar hitti ég mann sem ég vissi að var ákafur andatrúarmaður, jafnvel miðill. Þegar ég hafði lokið erindi mínu spjallaði ég við hann nokkra stund. Ég sagði eitthvað á þessa leið:
"Þið spíritistar segið að miðlarnir beri okkur "boðskap að handan." Þegar ég les þennan "boðskap" sé ég að í honum er hafnað öllum helstu kenningum kristinnar kirkju, þ.e. að Jesús hafi verið fæddur af Maríu mey, að hann sé sonur Guðs í einstæðri merkingu, að hann hafi dáið friðþægingardauða fyrir mennina, að hann hafi risið upp líkamlega á þriðja degi og að hann komi aftur á efsta degi til að halda dóm eins og ritningin kennir."
Svar skrifstofumannsins var skýrt og afdráttarlaust: "Þú hefur rétt fyrir þér. Þessu er öllu neitað, enda trú ég engu af því."
Þessu má víða finna stað, bæði að spíritisminn sannfærir menn ekki um sannindi kristindómsins (sbr. svarið sem ríki maðurinn fékk) og að sumir fulltrúar þessarar stefnu afneita þeim beinlínis. Íslenskur miðill, sem var kunnur á sinni tíð, lýsti því yfir í fjölmiðli að hann tryði því ekki að Jesús væri drottinn. Annar framámaður andatrúarstefnunnar sagði frá því í blaði að hann tryði því ekki að Jesús Kristur væri eina lausnarvon mannkynsins, enda leit hann ekki svo á að Jesús hefði dáið fyrir syndir mannanna eða risið upp frá dauðum líkamlega né að hann hefði allt vald á himni og jörðu eins og Biblían kennir þó.
Jónas Þorbergsson hét maður. Hann samdi margar bækur um ágæti spíritismans. Hann segir berum orðum í einni bók sinni: "Ég trúi ekki á Jesú Krist eins og Guð." Hann taldi Jesú aðeins einn af háum sendiboðum almættisins. Samt segir Biblían að Jesús sé sonur Guðs og jafn Guði. Já, hann er Guð og varð hold. "Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf." Jóh. 3:16. "Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði. Allir hlutir urðu fyrir hann, án hans varð ekki neitt, sem til er. Í honum var líf, og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu, og myrkrið tók ekki á móti því." Jóh.1: 1.-5. "Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika, og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn einn á frá föðurnum." Jóh. 1:14.
Endurlausn Jesú fær harða útreið í ritum spíritista. Jónas Þorbergsson kynnir í einni bók sinni útlending sem hann segir vera einn skeleggasta rannsóknarmann og rithöfund spíritismans er uppi hafi verið. Úr riti eftir hann getur hann um "niðurstöður spíritismans" í sjö meginatriðum sem séu viðurkennd af spíritistum "hvarvetna á okkar jörð, ekki sem trúaratriði heldur sem samhljóða fræðsla til allra spíritista sem náð hafa öruggu sambandi við næsta tilverusvið."
Þar er eitt meginatriði að "sérhverjum einstaklingi beri að vera sinn eigin frelsari en getur með engum rétti varpað því yfir á annan að líða fyrir eigin syndir og misgerðir." Í stað þess er boðaður óendanlegur þroski. "Hér er trúarlegur kjarni sem allir hugsandi og vitibornir karlar og konur geta aðhyllst og þeim er fullnægjandi." Sextán frelsarar hafa verið uppi fyrir Krists burð, segir í þessu riti. Jesús er sá sautjándi. Þetta á auðvitað að styðja þá kenningu að Jesús sé enginn frelsari.
Ekki tekur betra við þegar spíritistar fara að lýsa því hvernig einlægir trúmenn, sem hafa verið dyggir lærisveinar Drottins Jesú og boðað orð hans í samræmi við ritninguna meðan þeim entist orka og aldur, hafi turnast í öðru lífi og taki aftur öll fyrri orð sín og prédikun.
Þannig segir í andatrúarriti eins að Helgi Hálfdanarson, einn ágætasti sonur íslenskrar kristni, hafi nú séð að sér og biðji þess að fermingarkver sitt verði brennt, svo og allt sem um kirkjumál fjallar og nafn sitt sé kennt við svo að það verði engum framar til tjóns.
Hallgrímur Pétursson, sem flestir róma, hefur líka gerst trúskiptingur fyrir handan. Í áðurnefndri bók á hann að kveða svo fast að orði að endurlausnarkenningin sé eitruð ósannindi. "Ég elskaði frelsarann og orðið frelsari og trúði því af dýpstu sannfæringu að þetta væri heilagur sannleikur." Nú hefur Jesús sýnt Hallgrími fram á að skáldið rangfærði kenningar hans. Já, Guð sjálfur hefur birt Hallgrími að hann hafi engum gefið vald til að frelsa menn frá illgjörðum þeirra eða friðþægja fyrir syndir þeirra. Þess vegna séu Passíusálmarnir lýsing á lausnara sem aldrei hafi verið til nema í ímyndun hans og annarra. (Jónas Þorbergsson: 1965. Ljós yfir landamærin, Reykjavík, Setberg. (bls. 189, 197, 264). - Soffanías Torkelsson, 2. bindi, 1932 og 3. bindi 1950. Bréf frá Ingu, Winnipeg, Kanada. (2. bindi, bls. 167-171; 3. bindi, 1950, bls. 184-185).
Trúin á Jesú frelsar
Nægir þetta ekki til þess að sýna af hvaða rótum spíritisminn er runninn? Skiljum við nú ekki svolítið betur hvers vegna Guð hefur bannað allar tilraunir til að ná sambandi við andaheiminn?
Spíritisminn eflir ekki trúna á orð Drottins, hvetur menn ekki til að spyrja Biblíuna um veginn til sáluhjálpar. Spíritisminn segir fólki ekki að reiða sig á tign og vald Jesú Krists og endurlausnina sem hann hefur unnið okkur með dauða sínum og upprisu.
Hann hjálpar mönnum ekki að átta sig á því að fyrir Guði eru allir menn sekir syndarar og geta ekki frelsað sig sjálfir, ekki heldur með ímynduðum þroska handan grafar og dauða.
Kenningar spíritismans og kristindómsins fara ekki saman frekar en eldur og vatn. Spíritisminn er andstæður Biblíunni og þar með fagnaðarerindinu um Jesú Krist son Guðs.
Vangaveltur um "framhaldslíf" nægja ekki. Það sem máli skiptir er þetta: hvað á ég að gera til þess að verða hólpinn? Hvað um syndir mínar? Hvernig get ég öðlast frið við Guð?
Biblían á rétta svarið: "Trú þú á Drottin Jesú og þú munt verða hólpinn" Post. 16:31 "Hann bar sjálfur syndir sínar upp á tréð" 1. Pét. 2:24a. "Hann er vor friður" Efes. 2:14a.
Jesús sagði: Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig." Jóh. 14:6. "Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi." Jóh. 11: 25. "Allt vald er mér gefið á himni og jörðu." Matt. 28:18b.
Jesús kom til þess að verða frelsari mannanna. Hann tók á sig synd þeirra og sekt þegar hann dó á krossinum á Golgata. Hver sem snýr sér í auðmýkt til hans öðlast fyrirgefningu syndanna og samfélag við Guð. Upprisa Jesú er trygging eilífs lífs og sáluhjálpar þeim sem á hann trúa.
Leiðin til hjálpræðis er því að snúa sér frá syndum sínum, frá allri fánýtri trú á mátt sinn og megin eða liðsinni frá andaheiminum og leita nú þegar hælis hjá Jesú Kristi og setja allt traust sitt á hann. Hann leiðir menn í föðurfaðm Guðs. Hjá honum einum er að finna það skjól sem treysta má í lífi og dauða. Hann er bjargið sem bifast ekki.
Hvatning Biblíunnar er sífellt tímabær: "En halt þú stöðuglega við það sem þú hefur numið og hefur fest trú á, þar eð þú veist af hverjum þú hefur numið það. Þú hefur frá blautu barnsbeini þekkt heilagar ritningar. Þær geta veitt þér speki til sáluhjálpar fyrir trúna á Krist Jesú." 2. Tím. 3: 14.-15.
Vegurinn, sannleikurinn og lífið
Þú, Jesús, ert vegur til himinsins heim
í heimkynnið sælunnar þreyða,
æ, lát oss ei villast frá veginum þeim
á veginum til glötunar breiða.
Þú, Jesús, ert sannleikur, lát oss fá lært
ei lyginnar röddum að hlýða
en veit að oss öllum sé indælt og kært
af alhug þitt sannleiks orð blíða.
Þú, Jesús, ert lífið sem dauðann fær deytt,
lát dauðann úr sálunum víkja
en lífið, sem eilífan unað fær veitt,
með almættiskrafti þar ríkja.
Helgi Hálfdánarson.
HÉR LÝKUR SJÁLFU RITINU.
Hér fyrir neðan eru ritningarvers sem höfundur ritsins "Biblían og Spíritisminn vitnar í eða vísað í bloggfærslur, bloggeiganda þar sem þessi biblíuvers eru nú þegar skráð í öðrum bloggfærslum.
* "Andatrúin afhjúpuð" eftir Rose Bevill. Sjá blogg hjá Rósu Aðalsteinsdóttir.
* Lúkas 8: 26.-39.
Þeir tóku land í byggð Gerasena, sem er gegnt Galíleu. Er hann sté á land, kom á móti honum maður nokkur úr borginni, sem haldinn var illum öndum. Langan tíma hafði hann ekki farið í föt né dvalist í húsi, heldur í gröfunum. Þegar hann sá Jesú, æpti hann, féll fram fyrir honum og hrópaði hárri röddu: ,,Hvað vilt þú mér, Jesús, sonur Guðs hins hæsta? Ég bið þig, kvel þú mig eigi!" Því að hann hafði boðið óhreina andanum að fara út af manninum. En margsinnis hafði hann gripið hann, og höfðu menn fjötrað hann á höndum og fótum og haft í gæslu, en hann hafði slitið böndin og illi andinn hrakið hann út í óbyggðir. Jesús spurði hann: "Hvað heitir þú?" En hann sagði: ,,Hersing," því að margir illir andar höfðu farið í hann. Og þeir báðu Jesú að skipa sér ekki að fara í undirdjúpið. En þar var stór svínahjörð á beit í fjallinu. Þeir báðu hann að leyfa sér að fara í þau, og hann leyfði þeim það. Illu andarnir fóru þá úr manninum og í svínin, og hjörðin ruddist fram af hamrinum í vatnið og drukknaði. En er hirðarnir sáu, hvað orðið var, flýðu þeir og sögðu tíðindin í borginni og sveitinni. Menn fóru þá að sjá, hvað gjörst hafði, komu til Jesú og fundu manninn, sem illu andarnir höfðu farið úr, sitja klæddan og heilvita við fætur Jesú. Og þeir urðu hræddir. Sjónarvottar sögðu þeim frá, hvernig sá, sem haldinn var illum öndum, hafði orðið heill. Allt fólk í héruðum Gerasena bað hann þá fara burt frá sér, því menn voru slegnir miklum ótta. Og hann sté í bátinn og sneri aftur. Maðurinn, sem illu andarnir höfðu farið úr, bað hann að mega vera með honum, en Jesús lét hann fara og mælti: ,,Far aftur heim til þín, og seg þú frá, hve mikið Guð hefur fyrir þig gjört." Hann fór og kunngjörði um alla borgina, hve mikið Jesús hafði fyrir hann gjört."
* Samúelsbók 28.
Í þann tíma drógu Filistar saman her sinn og bjuggust að fara í hernað móti Ísrael. Og Akís sagði við Davíð: ,,Vita skaltu, að þú verður að fara með mér í leiðangurinn, bæði þú og menn þínir." Davíð svaraði Akís: ,,Nú skalt þú fá að reyna, hverju þjónn þinn fær orkað." Og Akís sagði við Davíð: ,,Þá skipa ég þig höfuðvörð minn allar stundir." Samúel var dáinn, og allur Ísrael hafði syrgt hann og jarðað hann í Rama, hans eigin borg. En Sál hafði gjört landræka alla andasæringamenn og spásagnamenn. Nú söfnuðust Filistar saman og komu og settu herbúðir sínar í Súnem. Þá safnaði Sál saman öllum Ísrael og setti herbúðir sínar á Gilbóafjalli. En þegar Sál sá her Filista, varð hann hræddur og missti móðinn. Sál gekk til frétta við Drottin, en Drottinn svaraði honum ekki, hvorki í draumum né með úrím né fyrir milligöngu spámannanna. Þá sagði Sál við þjóna sína: ,,Leitið fyrir mig að særingakonu, svo að ég geti farið til hennar og leitað frétta hjá henni." Og þjónar hans sögðu við hann: ,,Í Endór er særingakona." Sál gjörði sig torkennilegan og klæddist dularbúningi og lagði af stað og tveir menn með honum. Þeir komu til konunnar um nótt, og Sál sagði: ,,Lát þú andann spá mér og lát koma fram þann, er ég nefni til við þig." Konan svaraði honum: ,,Sjá, þú veist, hvað Sál hefir gjört, að hann hefir upprætt úr landinu alla andasæringamenn og spásagnamenn. Hví leggur þú þá snöru fyrir mig til þess að deyða mig?" Þá vann Sál henni eið við Drottin og mælti: ,,Svo sannarlega sem Drottinn lifir skal engin sök á þig falla fyrir þetta." Þá sagði konan: ,,Hvern viltu að ég láti koma fram?" Hann svaraði: ,,Lát þú Samúel koma fram fyrir mig." En er konan sá Samúel, hljóðaði hún upp yfir sig. Og konan sagði við Sál: ,,Hví hefir þú svikið mig? Þú ert Sál." En konungurinn mælti til hennar: ,,Ver þú óhrædd. En hvað sér þú?" Og konan sagði við Sál: ,,Ég sé anda koma upp úr jörðinni." Hann sagði við hana: ,,Hvernig er hann í hátt?" Hún svaraði: ,,Gamall maður stígur upp og er hjúpaður skikkju." Þá skildi Sál, að það var Samúel, og hneigði andlit sitt til jarðar og laut honum. Þá sagði Samúel við Sál: ,,Hví hefir þú ónáðað mig og látið kalla mig fram?" Sál mælti: ,,Ég er í miklum nauðum staddur. Filistar herja á mig, og Guð er frá mér vikinn og svarar mér ekki lengur, hvorki fyrir milligöngu spámannanna né í draumum. Fyrir því lét ég kalla þig, til þess að þú segir mér, hvað ég á að gjöra." Samúel svaraði: ,,Hví spyr þú mig þá, fyrst Drottinn er frá þér vikinn og orðinn óvinur þinn? Drottinn hefir þá við þig gjört, eins og hann hefir sagt fyrir minn munn. Drottinn hefir rifið frá þér konungdóminn og gefið hann öðrum, gefið Davíð hann. Af því að þú hlýddir ekki boði Drottins og framkvæmdir ekki hans brennandi reiði á Amalek, fyrir því hefir Drottinn gjört þér þetta í dag. Og Drottinn mun og gefa Ísrael ásamt þér í hendur Filista, og á morgun munt þú og synir þínir hjá mér vera. Drottinn mun og gefa her Ísraels í hendur Filista." Þá varð Sál hræddur og féll endilangur til jarðar, og hann skelfdist mjög af orðum Samúels. Hann var og magnþrota, því að hann hafði eigi matar neytt allan daginn og alla nóttina. Konan gekk nú til Sáls, og er hún sá, hversu mjög hann var felmtsfullur, sagði hún við hann: ,,Sjá, ambátt þín hefir hlýtt raustu þinni, og ég hefi lagt líf mitt í hættu, og ég hefi gjört það, sem þú baðst mig um. Hlýð þú þá líka raust ambáttar þinnar: Ég ætla að færa þér matarbita, og skalt þú eta, svo að þér aukist þróttur og þú getir farið leiðar þinnar." En hann færðist undan og sagði: ,,Eigi vil ég eta." En er bæði menn hans og konan lögðu að honum, þá lét hann að orðum þeirra og stóð upp af gólfinu og settist á rúmið. Og konan átti alikálf í húsinu. Slátraði hún honum í skyndi, tók mjöl, hnoðaði það og bakaði úr því ósýrðar kökur. Síðan bar hún það fyrir Sál og menn hans, og er þeir höfðu etið, tóku þeir sig upp og lögðu af stað þessa sömu nótt.
* Postulasagan 16: 16.-34.
Eitt sinn, er vér gengum til bænastaðarins, mætti oss ambátt nokkur, sem hafði spásagnaranda og aflaði húsbændum sínum mikils gróða með því að spá. Hún elti Pál og oss og hrópaði: ,,Menn þessir eru þjónar Guðs hins hæsta, og boða þeir yður veg til hjálpræðis!" Þetta gjörði hún dögum saman. Páli féll það illa. Loks sneri hann sér við og sagði við andann: ,,Ég býð þér í nafni Jesú Krists að fara út af henni.`` Og hann fór út á samri stundu. Nú sem húsbændur hennar sáu, að þar fór ábatavon þeirra, gripu þeir Pál og Sílas og drógu þá á torgið fyrir valdsmennina. Þeir færðu þá til höfuðsmannanna og sögðu: ,,Menn þessir gjöra mestu óspektir í borg vorri. Þeir eru Gyðingar og boða siði, sem oss, rómverskum mönnum, leyfist hvorki að þýðast né fylgja." Múgurinn réðst og gegn þeim, og höfuðsmennirnir létu fletta þá klæðum og skipuðu að húðstrýkja þá. Og er þeir höfðu lostið þá mörg högg, vörpuðu þeir þeim í fangelsi og buðu fangaverðinum að gæta þeirra vandlega. Þegar hann hafði fengið slíka skipun, varpaði hann þeim í innsta fangelsið og felldi stokk á fætur þeim. Um miðnætti báðust þeir Páll og Sílas fyrir og lofsungu Guði, en bandingjarnir hlustuðu á þá. Þá varð skyndilega landskjálfti mikill, svo að grunnur fangelsisins riðaði. Jafnskjótt opnuðust allar dyr, og fjötrarnir féllu af öllum. Fangavörðurinn vaknaði við, og er hann sá fangelsisdyrnar opnar, dró hann sverð sitt og vildi fyrirfara sér, þar eð hann hugði fangana flúna. Þá kallaði Páll hárri raustu: ,,Gjör þú sjálfum þér ekkert mein, vér erum hér allir!" En hann bað um ljós, stökk inn og féll óttasleginn til fóta Páli og Sílasi. Síðan leiddi hann þá út og sagði: ,,Herrar mínir, hvað á ég að gjöra til að verða hólpinn?" En þeir sögðu: ,,Trú þú á Drottin Jesú, og þú munt verða hólpinn og heimili þitt." Og þeir fluttu honum orð Drottins og öllum á heimili hans. Á þessari sömu næturstund tók hann þá með sér og laugaði meiðsli þeirra eftir höggin, og var hann þegar skírður og allt hans fólk. Síðan fór hann með þá upp í hús sitt, bar þeim mat, og var hann og allt heimafólk hans fagnandi yfir því að hafa tekið trú á Guð.
* Lúkas 16: 19.-31 - Sjá blogg hjá Rósu Aðalsteinsdóttir: "Á að leita til hinna dauðu?"
* Matteus 7. 15.-29.
"Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum, en innra eru þeir gráðugir vargar. Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. Hvort lesa menn vínber af þyrnum eða fíkjur af þistlum? Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu, en slæmt tré vonda. Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu. Hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað. Af ávöxtum þeirra skuluð þér því þekkja þá. Ekki mun hver sá, sem við mig segir: ,Herra, herra, ganga inn í himnaríki, heldur sá einn, er gjörir vilja föður míns, sem er á himnum. Margir munu segja við mig á þeim degi: ,Herra, herra, höfum vér ekki kennt í þínu nafni, rekið út illa anda í þínu nafni og gjört í þínu nafni mörg kraftaverk?` Þá mun ég votta þetta: ,Aldrei þekkti ég yður. Farið frá mér, illgjörðamenn.` Hver sem heyrir þessi orð mín og breytir eftir þeim, sá er líkur hyggnum manni, er byggði hús sitt á bjargi. Nú skall á steypiregn, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi, en það féll eigi, því það var grundvallað á bjargi. En hver sem heyrir þessi orð mín og breytir ekki eftir þeim, sá er líkur heimskum manni, er byggði hús sitt á sandi. Steypiregn skall á, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi. Það féll, og fall þess var mikið." Þegar Jesús hafði lokið þessari ræðu, undraðist mannfjöldinn mjög kenningu hans, því að hann kenndi þeim eins og sá, er vald hefur, og ekki eins og fræðimenn þeirra.
Flokkur: Trúmál og siðferði | Breytt 23.1.2008 kl. 15:15 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Valgeir. Flott hjá þér að nota tæknina. Ritið sjálft er rúmur helmingur af færslunni og svo set ég Biblíuvers fyrir neðan sem höfundur ritsins vitnar í. Jón Oddgeir er mjög duglegur að gefa út ýmislegt sem öðrum hefur ekki dottið í hug eins og öskjuna með spjöldunum, bílabænina o.fl. Hægt er að kaupa þessa hluti á Reykjavíkursvæðinu í verslunum í kirkjunum og í Kirkjuhúsinu á Laugarvegi. Valli minn áttu góðan dag. Guð blessi þig.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 17.1.2008 kl. 11:48
Sæl Rósa, þetta er mjög þörf umræða og gagnleg. Takk fyrir mig.
Aðalbjörn Leifsson, 17.1.2008 kl. 16:25
Sæll Alli. Þetta er frábært rit og Jón Oddgeir á til þessi rit til ef þig eða aðrir hafa áhuga að eignast ritið til að gefa vinum ykkar rit.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 17.1.2008 kl. 17:19
Sæl Rósa las ekki alveg ´færsluna þína enn þú mátt endilega bara ef þú vilt commenta á mig sem bloggvin, kann svo lítið á þennnan tölvu heim he he he
Bestu kv
Erna Friðriksdóttir, 17.1.2008 kl. 19:41
Sæl Rósa ég er ekki búinn að lesa nema hálfa færslu þína mál er að ég var að koma heim úr vinnu minni,já það eru langir dagar núna hjá mér enda fullt hús af útlendingum að kenna okkur réttu fræðin og stjórnun vélanna sem ég mun vinna á framvegis.Ég mun kommentara betur þegar ég hef lesið allt og sendi þér að sinni bestu kveðjur héðan af Reykjanesinu góða.
Úlfar Þór Birgisson Aspar, 17.1.2008 kl. 21:45
Hæ Erna og Úlli. Ritið sjálft endar þar sem kvæðið eftir Helgi Hálfdánarson er. Höfundur vitnar oft í Ritninguna og það er ekki skráð í ritinu því þá yrði það oft langt. Ég setti ritningaversin með ef einhver hefur góðan tíma.
Úlli gangi þér vel að tjónka við útlendingana. Láttu þá ekkert komast upp með frekju.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 17.1.2008 kl. 22:25
Comment á þig Rósa he heh eh eheh eh ehehe þú er aldeilis
Erna Friðriksdóttir, 17.1.2008 kl. 22:59
Sæl Erna. Já við verðum að hafa gaman af þessu líka og gera at þar sem það á við.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 17.1.2008 kl. 23:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.