Þegar maðurinn deyr.

  

TVÖ ERINDI

ÞEGAR MAÐURINN DEYR.

Á AÐ LEITA TIL HINNA DAUÐU?

JÚLÍUS GUÐMUNDSSON

Útgefandi: Forlag S.D.A., Reykjavík,1966

Þegar maðurinn deyr

"Þeir, sem lifa, vita að þeir eiga að deyja," segir spekingurinn Salómon. Með því lætur hann í ljósi að dauðinn sé hið eina örugga og óumflýjanlega.

Þetta vitum við fullvel, en samt er það svo að sauðinn er eitt af því, sem við eigum mjög erfitt með að sætta okkur við til fulls. Þegar við fréttum lát einhvers, sem haldinn var ólæknandi sjúkleika, segjum við að gott var að hann fékk að hvílast. En hafi hann verið okkur nákominn, getur staðreyndin, að hann sé ekki framar lífs, þrátt fyrir allt, orðið okkur allerfið.

Aðskilnaður frá ástvinum og dauði eru staðreyndir, sem við mennirnir eigum erfitt með aðvenjast og sætta okkur við. Er það vegna þess, að "vér erum guðsættar"? Byggist það á því að manninum var upprunalega ekki ætlað að deyja?

Menn hafa gert sér margvíslegar hugmyndir um dauðann - hvað hann sé í raun og veru, og hér eru skoðanir manna mjög skiptar. Biblían hefur sínar skoðanir - þær eru einfaldar og auðskildar. Við skulum athuga þær.

Athugum fyrst kenningu hennar um sköpun mannsins. Hún segir að Guð hafi gert manninn af leiri jarðar og blásið lífsanda í nasir hans - "og þannig varð maðurinn lifandi sál."

Líkaminn var fyrst líflaus. Lífsandinn var ekki persóna eða sál áður en hann sameinaðist líkamanum. En þegar líkami mannsins og lífsandi Guðs sameinuðust, varð maðurinn lifandi sál. Þá tók sálarlíf mannsins til starfa - fyrr ekki.

Þegar maðurinn deyr, gerist þetta sama, en í öfugri röð. "Og moldin hverfur aftur til jarðarinnar, þar sem hún áður var, og andinn til Guðs, sem gaf hann." Préd. 12: 7.

Lífsandinn hverfur aftur til Guðs og líkami mannsins sameinast jörðunni á ný - maðurinn hættir að lifa.

Er þá tilveru mannsins lokið? Nei, því að Guð, sem skapaði manninn í upphafi, mun skapa hann á ný, reisa hann upp frá dauðum. "En deyi maðurinn, þá liggur hann flatur, og gefi manneskjan upp andann - hvar er hún þá? eins og vatnið hverfur úr stöðuvatninu og fljótið grynnist og þornar upp, þannig leggst maðurinn til hvíldar og rís eigi aftur á fætur þar til er himnarnir farast, rumska þeir ekki og eru ekki vaktir af svefninum." "Þegar maðurinn deyr, lifnar hann þá aftur? Þá skyldi ég þreyja alla daga herþjónustu minnar, þar til er lausnartíð mín kæmi." Job 14: 10. -12. 14.

"En ég veit að lausnari minn lifir og hann mun síðastur ganga fram á foldu. Og eftir að þessi húð mín er sundurtætt og allt hold er af mér, mun ég líta guð. Ég mun líta hann mér til góðs; já, augu mín sjá hann, og það eigi sem andstæðing, - hjartað brennur af þrá í brjósti mér!" Job 19: 25. - 27.

Er þetta ekki skoðun Gamla Testamentisins? Jú, en það er einnig skoðun Nýja Testamentisins eins og séð verður af eftirfarandi versum: "Og þetta er vitnisburðurinn, að Guð hefir gefið oss eilíft líf, og þetta líf er í syni hans. Sá, sem hefir soninn, hefir lífið; sá, sem ekki hefir Guðs son, hefir ekki lífið." 1. Jóh. 5: 11.-12.

"En þetta er vilji hans er sendi mig, að af öllu því, sem hann hefir gefið mér, skuli ég ekki láta neitt glatast, heldur upp vekja það á efsta degi. Því að þetta er vilji föður míns, að hver sem sér soninn og trúir á hann, hafi eilíft líf; og ég mun vekja hann á efsta degi." Jóh. 6: 39.- 40.

Þetta er háð sambandi mannsins við Jesúm Krist. "Sannlega, sannlega segi ég yður: sá sem heyrir mitt orð og trúir þeim, sem sendi mig, hefir eilíft líf og kemur ekki til dóms, heldur hefir hann stigið yfir frá dauðanum til lífsins. Sannlega, sannlega segi ég yður: sú stund kemur, já er þegar komin, er hinir dauðu munu heyra raust Guðs - sonarins, og þeir, sem heyra, munu lifa. Því að eins og faðirinn hefir líf í sjálfum sér, þannig hefir hann einnig gefið syninum að hafa líf í sjálfum sér." Jóh. 5: 24.-26.

Hinir andlega dauðu heyra orð Krists og öðlast andlegt líf - undrist ekki þetta, segir Jesús - þið munuð sjá hann gera það, sem er ennþá áþreifanlegra.

"Undrist ekki þetta, því að sú kemur stund, er allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust hans, og þeir munu ganga út, þeir sem gott hafa gjört, til upprisu lífsins, en þeir, sem ill hafa aðhafs, til upprisu dómsins." Jóh. 5: 28.-29.

Þetta var fyrirheiti Jesú til fylgjenda sinna, og til þess að sýna þeim, að þetta væri meira en orðin tóm, vakti hann upp dána menn, og sjálfur reis hann upp á þriðja degi eftir dauða sinn. Hann hafði lífið í sjálfum sér og gat því kallað aðra fram til lífsins. ‘i trúnni á hann gátu menn því tekið dauðanum óttalaust.

Þegar Lazarus, vinur Jesú, dó, talaði Jesús um dauða hans á eftirfarandi hátt: "Þetta talaði hann og eftir það segir hann við þá: Lazarus vinur vor er sofnaður, en ég fer nú til þess að vekja hann. Lærisveinarnir sögðu þá við hann: Herra, ef hann er sofnaður, þá mun honum batna. En Jesús hafði talað um dauða hans, en þeir héldu að hann ætti við hvíld svefnsins; því sagði Jesús þeim þá með berum orðum: Lazarus er dáinn." Jóh. 11: 11.-14.

Í sjálfu sér er dauðinn ekki svefn - en ekkert, sem menn þekkja, er líkara dauðanum en svefninn. Dauðinn er blátt áfram það, að lífið stanzar þar til það verður vakið að nýju.

Er þetta einkennilegt - torskilið eða óskiljanlegt? Sjáum við ekki þetta fyrir augum okkar í sköpunarverki guðs? Á haustin fölnar blómskrúð jarðarinnar og hverfur. Greinar lauftrjánna verða naktar, blómin hverfa af jörðunni, og allt verður fölt og líflaust. En líf gróðursins er ekki horfið, það bíður aðeins þar til vorið kemur, þá brýzt það fram á ný. Þetta höfum við séð alla ævi okkar, þess vegna vitum við að það muni verða svo á hverju vori. En að skilja hvers vegna þetta er svo - það er önnur saga.

Eitthvert leyndadómsfullt og yfirnáttúrlegt afl fylgir vorinu og kallar fram lífið, sem blundaði g veið meðan veturinn stóð yfir. Þannig mun vor hins eilífa lífs vekja að nýju þá, sem hurfu til duftsins.

Já, segjum við, en er ekki dapurlegt að hugsa um hinn langa biðtíma hins dána? Á hann að liggja í gröf sinni og bíða í margar aldir eftir upprisunni?

Hér komum við að merkilegu atrið, sem Biblían kennir, og nýju vísindin virðast hafa staðfest. Það er að hugtakið tími sé einungis til hér í jarðvistartilveru okkar mannanna.

"Því að þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn, já eins og næturvaka." Sálm. 90: 4.

Þessari hugsun lýsir skáldsnillingurinn okkar, Einar Benediktsson, með eftirfarandi orðum í ljóðinu "Dagurinn mikli."

 "Og andans veröld á tímann ei til

  það telst hvorki ára né dægra bil.

  En viðburðarhringsins endalaust undur

  sést aðeins í brotum í táranna dal.

  Hvað var og hvað er og hvað verða skal

  í vitund Drottins ei greinist í sundur."

Tíminn er til hjá okkur, sem lifum þessu jarðlífi, - þegar út fyrir það er komið, er hann ekki framar til.

Sá, sem deyr, leggst til hvíldar - og það næsta, sem hann veit um, er að hann er kallaður fram til lífsins á ný. Tíminn milli dauða og upprisu er ekki hjá hinum dána. Lífsstarfsemi hans er stönzuð. "Því að þeir, sem lifa, vita að þeir eiga að deyja, en hinir dauðu vita ekki neitt og hljóta engin laun framar, því að minning þeirra gleymist. Bæði elska þeirra og hatur og öfund, það er fyrir löngu farið, og þeir eiga aldrei framar hlutdeild í neinu því, sem við ber undir sólunni." "Allt, sem hönd þín megnar að gjöra með kröftum þínu, gjör þú það; því að í dánarheimum, þangað sem þú ferð, er hvorki starfsemi, né hyggindi, né þekking, né vizka." Préd. 9: 5.-6. 10.

Nú finnst sumum kannski að þetta sé ný kenning og einkennileg og frávik frá réttri trú. Hvaða trú, spyrjum við?

Ekki þeirri, sem kennd er við Lúther. Hann segir í skýringum sínum á bók Prédikarans eftirfarandi: "Hinir dánu eru algerlega meðvitundarlausir og hugsa ekki neitt. Þeir hvílast - telja hvorki daga né ár, heldur mun þeim finnast, þegar þeir eru vaktir, að þeir hafi tæplega sofið eitt augnablik." "Sál mannsins sefur þannig, að svo er sem öll skilningarvit hans séu grafin, en gröfin er eins og hvílurúm. Í dánarheimi er því engin kvöl, heldur er það eins og sagt er: þeir hvíla í friði. Við hverfum héðan og komum fram aftur á efsta degi, áður en við vitum af. Okkur er ekki heldur ljóst, hve lengi við höfum sofið." Skýring Lúthers á 1. Mósebók, 2. b. bls. 1234.

"Hvað er dauðinn annað en nætursvefn? Eins og þreytan hverfur við svefninn og kraftarnir koma aftur, svo að við rísum upp að morgni hraust og glöð, munum við aftur á hinum mikla degi rísa upp eins og við hefðum sofið einungis eina nótt." Borðræður Lúthers, bls. 97.

Þetta var trú manna, meðan boðskapur Biblíunnar var tekinn alvarlega. Íslenzka þjóðskáldið góðkunna, Bjarni Thorarensen túlkar hana í eftirfarandi ljóði, sem nefnist:

"Hinir látnu."

"Æ hversu sætt

þeir sálugu hvíla

að hverra bústöðum

hugur minn leitar.

Æ hversu sætt

Þeir sofa í gröfum

djúpt til rotnunar

í duft of sokknir.

 

Og syrgja ei lengur,

þar sorgir flýja allar

og gleðjast ei lengur,

þar gleði flýr öll

og blunda cypressum

Sorglegum undir

unz þá engillinn

upp mun kalla."

Kenningin, að sál mannsins sé andavera, sem losni við líkamann í dauðanum og lifi samt, er ekki biblíukenning. Forn-Egyptar og aðrar heiðnar þjóðir trúðu þannig. Þess vegna voru svonefnd dánarrit lögð í grafir manna og ýmsir dýrgripir. Þess vegna smurðu Egyptar lík sín og vörðu þau rotnun, því að þeir héldu að sálinni kæmi vel að geta horfið aftur endrum og eins í sinn fyrri bústað.

Þessi skoðun stangast mjög á við hugmynd Biblíunnar um lífið og dauðann.

Menn segja að hinn látni sé með ástvinum sínum, sem eftir lifa, og fylgist með þeim. Ef svo væri - mundi þá öllum, sem dánir eru, líða vel? Sá, sem dauðinn hefur svift  ástvinum, hefur vissulega þörf á boðskap, sem veit hugarstyrk. En er nokkuð, sem veitir huggun á borð við boðskap Biblíunnar um þetta mál?

"Komist börn hans til virðingar, þá veit hann það ekki, séu þau lítilsvirt, þá verður hann þess ekki var," segir Biblían. Samkvæmt skoðun hennar er dauðinn líknsöm hvíld öllum, nákvæmlega eins og hann kemur okkur fyrir sjónir.

Á tíma síðustu heimsstyrjaldar var frægur rússneskur læknir, sem hét Dr. Negovski, að gera tilraunir með að lífga dána menn. Dag nokkurn var komið með ungan útvarpsvirkja á sjúkrahúsið. Hann var hræðilega særður, og meðan verið var að gera að sárum hans, dó hann. Þrem mínútum síðar byrjaði Dr. Negovski að gera lífgunartilraunir á honum með tækjum sínum; eftir litla stund tók hjarta hins dána að slá aftur, og eftir þrjár mínútur var sjúklingurinn kominn til meðvitundar og náði loks fullum bata.

Um þetta sagði hinn ungi útvarpsvirki eftirfarandi, sem birt var í tímaritinu Magazine Digest, nóvember heftinu árið 1946: "Læknar og aðrir hafa spurt mig hvernig það sé að vera dáinn? Þeir búast við svari, sem leiði eitthvað stórkostlegt í ljós. En svar mitt er þetta: "Ég særðist, missti meðvitundina og vaknaði aftur." Hann segir að sig hafi ekkert dreymt og að hann hafi ekkert vitað, heldur hafi dauðinn verið algert meðvitundarleysi."

Þannig er dauðinn. En hinir látnu eru ekki gleymdir - þeir njóta enn ástríkis hins góða og mikla Guðs. Hvorki dauði né líf mun gera oss viðskila við kærleika guðs, segir postulinn.

"En þetta er vilji hann er sendi mig, að af öllu því, sem hann hefir gefið mér skuli ég ekki láta neitt glatast, heldur uppvekja það á efsta degi." Jóh. 6:39.

"Mínir sauðir heyra raust mína, og ég þekki þá og þeir fylgja mér, og ég gef þeim eilíft líf og þeir skulu aldrei að eilífu glatast, og enginn skal slíta þá úr hendi minni." Jóh. 10: 27.-28.

Sagt er að fornleifafræðingur einn, Lindsay að nafni, er vann að uppgreftri fornminja í Egyptalandi, hafi veitt því athygli að ein af múmíunum hafði fastkreppta hönd eins og hún geymdi einhvern dýrgrip. Þegar fingur hennar voru réttir upp, kom það í ljós að höndin geymdi þurran blómlauk. Athugun leiddi í ljós að laukurinn virtist vera óskemmdur, þótt áletrun á grafhýsi múmíunnar sýndi að líkið hafði verið greftrað fyrir u.þ.b. 2000 árum. Blómlaukurinn var lagður í mold, og þar tók hann að spíra og upp óx hin fegursta planta. Lífið hafði beðið í 2000 ár eftir hentugum skilyrðum til þess að þroskast og blómgast.

Hversu undursamleg er ekki ráðstöfun Guðs og verk hans. Líf okkar er í hendi hans hvort sem við lifum eða deyjum. Ástvinir okkar, sem dánir eru, eru í hendi hans - hann mun engum týna - engum gleyma. Á hinum mikla degi mun hann vekja alla þá, sem dóu í trú, til hins fullkomna, skuggalausa lífs, sem hann hefur fyrirbúið börnum sínum. Um þetta segir postulinn þessi orð: "Sjá, ég segi yður leyndardóm: Vér munum ekki allir sofna, en allir munum vér umbreytast í einni svipan, á einu augabragði, við hinn síðasta lúður, því að lúðurinn mun gjalla, og hinir dauðu munu upprísa óforgengilegir, og vér munum umbreytast. Því að þetta hitt forgengilega á að íklæðast óforgengileikanum og þetta hið dauðalega hefir íklæðst óforgengileikanum og þetta hið dauðlega hefir íklæðst ódauðleikanum, þá mun rætast orð það, sem ritað er: Dauðinn er uppsvelgdur í sigur. Dauði, hvar er sigur þinn? Dauði, hvar er broddur þinn? En syndin er broddur dauðans, en lögmálið afl syndarinnar. Guði séu þakkir, sem gefur oss sigurinn fyrir Drottin Jesúm Krist! Þess vegna, mínir elskuðu bræður, verið fastir, óbifanlegir, síauðugir í verki Drottins, vitandi, að erfiði yðar er ekki árangurslaust í Drottni." 1. Kor. 15: 51.-58.

Eftirfarandi ljóð er hugleiðing um hinn merka dund fornleifafræðingsins í Egyptalandi:

Fyrir tvö þúsund árum óx

yndislegt blóm, mjög langt í burt.

Svo var í dauðs manns lófa lögð

lifandi rót og fögur jurt.

 

Og löngu fyrir fæðing Krists

sá frómi maður uppi var,

er blómið ilm sinn gjöfult gaf,

og guðsdýrð fagurt vitni bar.

 

Þá liðu tímar, aldir, ár,

sitt yndi dauða höndin fól.

Þótt eyddi þjóðum örlög grimm,

þá átti þetta líf sér skjól.

 

Svo skeði undur, eilíft, stórt,

er opnuð skorpna höndin var

og beinhörð rótin bleytt í jörð,

að blóma nýjan fékk hún þar.

 

Fyrir tvö þúsundum árum í

Egyptalandi spratt og dó,

slík jurt sem þessi, er nú á ný,

í nýrri jörð mót sólu hló.

 

Hvort vill ei sá, sem varðveitt gat

þá visnu rót um langa töf,

sín veik og elskuðu vernda börn,

þótt verði' um stund þau lögð í gröf?

 

Hvort mun ei sá, hinn sami Guð,

af svefni dauðans vekja hér

sitt barn, er liggur lágt í mold

og leiða fram í dýrð hjá sér?

 

Því kvíðalaust ég kalli tek,

er kveð ég þennan tára dal.

Þótt ár tvö þúsund endist bið,

ég aftur Guð minn líta skal.

                                                                                                   S. H. Bradford.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Rósa mín.

Ég var að lesa þessa grein þína sem mér fannst mjög góð,og mættu fleiri lesa og kommenta.

Mér fannst stórfurðulegt að lesa þetta með blómlaukinn.Og reyndar ekki ,en fyrir okkur mannfólkið sem þyrstir í Guðs orð,er þetta magnað!

 Ég á eftir að lesa meira af greinum þínum.Haltu áfram að skrifa og upplýsa okkur hin.

 Guðs blessun.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 13.1.2008 kl. 01:52

2 identicon

En þegar öllu er á botninn hvolft þá er guð lélegasta barnapía/gæludýraeigandi í heimi

DoctorE (IP-tala skráð) 13.1.2008 kl. 02:28

3 Smámynd: Úlfar Þór Birgisson Aspar

Rósa þú segir nokkuð.Það góða við þessa grein er að þegar maður hefur lesið hana,þá sit ég hér og hugsa og er það ekki akkurat mergur málsins að reyna með skrifum okkar að fá okkur til að hugsa smá.

Guð veri með þér Rósa og guð minn komdu við hjá Dokksa og kýktu á kall.

Úlfar Þór Birgisson Aspar, 13.1.2008 kl. 08:38

4 Smámynd: Svala Erlendsdóttir

Þennan pistil var skemmtilegt að lesa og fræðandi

Svala Erlendsdóttir, 13.1.2008 kl. 09:52

5 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæl öll. Ég var nokkuð dugleg í gær að skrifa inn athugasemdir hjá bloggvinum og skrifa inn rit sem er í tveimur færslum. Ætli klukkan hafi ekki verið um hálf þrjú þegar ég loksins lét það eftir mér að fara í bælið mitt sem er alveg dásamlegur staður þó ég sé bara ein þar. Pabbi kenndi mér samt einhvern tímann. "Mér vantar yndi mér vantar allt, mér þykir bólið mitt vera svo kalt."  Þetta var s.s. kennsla föður til dóttur.  

Ég sé að Doctor E. hefur heiðrað mig með nærveru sinni. Þetta er hans skoðun og ekkert hægt að segja um hana nema megi Almáttugur Guð gefa honum peninga svo hann geti farið til augnlæknis og fengið ný gleraugu. Ég samt hélt að hann ætti nóg af þeim þar sem hann titlar sig Doctor E. En svona í alvöru þá líkar mér ágætlega við Doctor E. og vona að hann sé hamingjusamur.

Kæru bloggvinir Þórarinn og Úlli, takk fyrir innlitið. Þið eruð góðir bloggvinir.

Kæra Svala. Takk fyrir að senda mér bréf og biðja mig að verða bloggvinur þinn. Minn er heiðurinn. Ég var að hugsa um, bíddu, bíddu hver er þetta en svo fór ég að skoða síðuna þína og þá man ég að ég var búin að skrifa þar.

Ég vona að þið eigið öll yndislegan dag. Guð blessi ykkur öll. Kærar þakkir.

Rósa Aðalsteinsdóttir, 13.1.2008 kl. 11:19

6 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll Valli minn. Fimm af sex greinunum sem ég er búin að setja hér eru gömul rit sem ég hef pikkað á tölvuna. Þetta er svo mikill fróðleikur. Efst skrifa ég hvað ritið heitir og allar heimildir um ritið. Ég skipti þessu riti í tvennt eins og höfundur ritsins gerði og er seinni hlutinn hér næst fyrir neðan.

Guð blessi þig Valli minn.

Rósa Aðalsteinsdóttir, 13.1.2008 kl. 11:55

7 Smámynd: Ari Guðmar Hallgrímsson

Þú verður að venja þig á, að fara að sofa á kristilegum tíma Rósa mín svona næturgöltur gengur ekki lengur. Annars var þessi pistill bara mesta furða...

Kveðja

Ari Guðmar Hallgrímsson, 13.1.2008 kl. 21:35

8 Smámynd: Ragnar Kristján Gestsson

Þakka líka fyrir mig, Guði sé lof að ég fæ einhverntíman að deyja.  Góð grein.

Ragnar Kristján Gestsson, 13.1.2008 kl. 21:45

9 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sælir strákar. Þið eruð skemmtilegir.

Valli fínt að allt gengur vel og við verðum áfram í bandi

Ari, ég fór að hugsa um þegar ég las athugasemdina þína að við Júlli  vinur okkar,  ættum ekki samleið. Hann er algjör morgunhani.  En við pabbi erum í stíl við erum næturhrafnar. En það var ekki þannig hjá pabba eins og þú veist. Aldurinn hefur færst yfir.

Ragnar, fyndinn. Ég kíkti aðeins í heimsókn á síðuna hjá þér. Ríkur af börnum. Þú hefur sko tekið Guðs orð bókstaflega að uppfylla jörðina.

Guð gefi ykkur góða nótt og góðan mánudag.

Rósa Aðalsteinsdóttir, 13.1.2008 kl. 23:29

10 Smámynd: Ragnar Kristján Gestsson

Ég tók eftir að þú ert, eins og ég, vígbúin: hjálmur hjálpræðinsins og sverð andans (Efe 6.17) - "áfram kristsmenn krossmenn" sungu aðrir hermenn einu sinni á götum borgarinnar okkar.  Og með blessuðum börunum fylgir sterkt fyrirheit - sem ég uppsker í ríkum mæli

Ragnar Kristján Gestsson, 14.1.2008 kl. 16:18

11 Smámynd: Ragnar Kristján Gestsson

Ég las nú færsluna þína aftur Rósa, og betur að þessu sinni.  Og er mun ánægðari í yngra skiptið.  Varð einmitt hugsað til barnanna minna og tímans endalausa og hins forgengilega og dauðans sem er uppsvelgdur í sigur: einhverstaðar eru börnin uppfylling tímans - með návistum við þau finn ég mjög sterkt, bæði fyrir því hvernig við öll erum hlekkir í einhverri keðju sem Drottinn býr til, og eins hve lífið sjálft heldur áfram þar.  Takk aftur

Ragnar Kristján Gestsson, 14.1.2008 kl. 16:32

12 identicon

Rósa, hin kraftmikla, full af orku og áhuga fyrir andlegum málum.

Þessar endurrituðu greinar þínar eftir Júíus Guðmundsson f.v Fortöðumann SDA, eru markvissar, fullar af sannfærandi krafti um hina Biblíulegu boðun, varðandi hið eilífa líf.

Ég minnist orða Ásmundar Eiríkssonatr sem var Forstöðumaður Fíladelfíu-safnaðarinns í Reykjavík, þegar ég sem ungur maður hlustaði á Biblíufræðslu hans. Hann sagði mér frá Júlíusi Guðmundssyni, forstuöðumanni S.D Aðventista í Reykjavík og nefndi hann sem einn af fróðurstu Biblíufræðurum hér á landi.

Þrír þekktir kennimenn sem höfðu mikil áhrif á trú mína á þeim tíma, voru Ásmundur Eiríksson, Fíladelfíu. Sæmundur G.Jóhannesson, Sjónarhæðarsöfnuði og Júlíus Guðmundsson,  Kirkju S.D.Aðventísta í Reykjavík.

Þeir voru ekki allir sammála um öll kenningaratriði Ritninganna, en allir gáfu þeir okkur heilnæma, djúpa og holla, andlega fæðu sem marga vantar í dag í hinum ólíku samfélögum.

Það er ekki nóg að hafa skemmtilegar samkomur með háværri tónlist, rokk.gospel + klapp og dans. Það er ekkert athugavert við slíkar stundir, en ef hinir nýkomnu ungu og eldri sem eru að komast til trúar fá ekki einnig hina andlegu fæðu sem Ritningarnar boða, getur verið að sigur í trúarlífinu, verði skamvinnur.

Ég þakka þér Rósa fyrir þessar frá bæru greinar og mættu þær verða með til að vekja unga og eldri til þess að kanna hvað orðið segir. Við þurfum heilnæma fæðu, til að geta lifað.

Guð blessi þig Rósa og gefi þér áframhaldandi þrek og þor á Veginum.
 

Shalom kveðja,
Ólafur.  

Ólafur Jóhannsson (IP-tala skráð) 14.1.2008 kl. 21:52

13 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll og blessaður Ragnar. Ég fór í heimsókn á síðuna þína og skrifaði einnig í gestabókina þína. Þakka þér fyrir innlitið hér. Guð blessi ykkur á Suðurlandinu.

Rósa Aðalsteinsdóttir, 14.1.2008 kl. 22:59

14 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll og blessaður Ólafur Ísraelsfari.

Ég sá það þegar ég var að skoða ritið eftir Júlíus Guðmundsson og sérstaklega seinni greinina: "Á að leita til hinna dauðu?" að hann skrifaði sumt öðruvísi en ég hef lært og lesið. Hann leggur mikla áherslu á að þegar við deyjum sofum við sálarsvefni þangað til Endurkoma Jesú Krists verður. Ég vil samt hafa þessi rit hér inni því þau eru mjög góð til leiðbeiningar. Við þurfum á heilnæmri fæðu að halda eins og þú skrifar réttilega.

Við förum ekki að deila um það hvort við sofum sálarsvefni eða hvaða dag við höfum sem hvíldardag. Shalom/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 14.1.2008 kl. 23:10

15 Smámynd: Guðsteinn Haukur Barkarson

Guðsteinn Haukur Barkarson, 15.1.2008 kl. 09:07

16 Smámynd: Magnús Paul Korntop

Sæl Rósa mín. og gleðilegt árið.

Hörkupistill hjá þér og útskýrir margt,en þar sem ég er spíritisti þá trúi ég því að sálin lifi áfram eftir dauðann og við endurfæðumst því eitthvað hlýtur hlutverk okkar hér á jörðinni að vera ekki satt?

En ég tr´ðui á Guðálmáttugann skapara himins og jarðar.

Haltu áframáð skrifa greinar umí þessum anda svo við hin getum lært eitthvað meira um kristindóminn.
Hafðu kæra þökk fyrir.

Magnús Paul Korntop, 15.1.2008 kl. 23:23

17 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll Magnús og takk fyrir innlitið. Þetta rit og svo næsta á eftir er eftir Júlíus Guðmundsson sem var Aðventisti. Ég mun koma með rit frá fleiri kirkjum og þá getur fólk séð að stundum eru áherslumunur. Ég útskýrði þetta aðeins með áherslumuninn í lokin í ritinu hér fyrir neðan sem heitir: "Á að leita til hinna dauðu?"

Við getum endurfæðst núna. Við þurfum að biðja Jesú Krist að fyrirgefa okkur misgjörðir okkar. Þegar krakkarnir eru að fermast þá gera þau Jesú Krist að leiðtoga lífs síns, frelsara lífs síns. Þetta er kannski ekki nógu  vel skýrt fyrir þeim. Sum eru með þetta á hreinu, eins og vinkona mín þegar hún fermdist.

Guð blessi þig kæri bloggvinur.

Rósa Aðalsteinsdóttir, 16.1.2008 kl. 01:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband