Á að leita til hinna dauðu?

 

TVÖ ERINDI

ÞEGAR MAÐURINN DEYR.

Á AÐ LEITA TIL HINNA DAUÐU?

JÚLÍUS GUÐMUNDSSON

Útgefandi: Forlag S.D.A., Reykjavík,1966

Á að leita til hinna dauðu?

"Og þeir segja til yðar: "Leitið frétta hjá konum þeim, er upp vekja dauða menn úr jörðu, og hjá fjölkynngis mönnum, þeim er umla og muðla fyrir munni sér!" Þá skuluð þér svara: á ekki fólkið að leita frétta hjá guði sínum? Á það að leita frétta hjá hinum dauðu, í staðinn fyrir hjá hinum lifendum? Gætið lærdómsins og vitnisburðarins! Ef þeir tala ekki samkvæmt honum þá vitið, að fólkið hefir engan birtu." Jes.8:19.-20. (eldri þýð.) Gyðingaþjóðin var aldrei annað en lítil þjóð - mjög lítil samanborin við stórveldin tvö, sem hún var í nágrenni við og hafði náin samskipti við. Egyptaland í vestri og Babýlon í austri. Frá þessum tveim stórveldum eru til firnin öll af minjum, sem vitna um hátt menningarstig þeirra.

Palestína er aftur á móti fátæk af fornminjum. Frá almennu sjónarmiði séð, stóð gyðingþjóðin langt að baki þessum stórþjóðum í menningarlegu tilliti. Það, sem grafið hefir verið upp úr rústum Palestínu, ber þess vitni, að framleiðsla Gyðingaþjóðarinnar og listmunir hafi að meira eða minna leyti verið eftirlíking þess, sem aðrar þjóðir höfðu gert.

En viðurkennt er, að trúarbrögð þessarar litlu þjóðar voru langt ofar trúarbrögðum nokkurrar annarrar fornþjóðar.

Það eru þessir yfirburðir, sem Páll postuli talar um í Róm. 3: 1.-2. - "Hvað hefir Gyðingurinn fram yfir? Mikið í öllu tilliti. Fyrst er þá það, að þeim hefir verið trúað fyrir orðum Guðs."

Henni hafði verið gefin opinberun og þekking á andlegu sviði, sem var hátt hafin yfir þekkingu þeirra þjóða, er lengst náðu í menningu og annarri þekkingu.

Það var vandasamt hlutverk fyrir litla, fátæka þjóð, sem var umkringd af stærri og auðugri þjóðum, að varðveita þennan fjársjóð. Var henni og mjög lagt á sinni að gæta þessara frábæru verðmæta - láta þau ekki mengast af röngum hugmyndum annarra. Hún mátti ekki semja sig að siðum og lífsvenju, sem voru á lægra stigi en sá siðferðismælikvarði, sem hún hafði í arf tekið.

Áður hefur verið að því vikið, hve sterkur þáttur í trú Forn-Egypta var sú skoðun þeirra, að sálir manna lifðu sem andaverur eftir líkamsdauðann. Slík trú var að meira eða minna leyti sameiginleg hinum heiðnu fornþjóðum - eins og trúin á anda dáinna manna er yfirleitt sterkur þáttur í heiðnum trúarbrögðum.

Dauðinn hefur jafnan verið mönnum erfitt vandamál. Menn eru illa haldnir þegar ástvinir þeirra hverfa burt úr þessari tilveru. Þar sem því var trúað, að sál hins dána eða andi lifði sem sjálfstæð vera, var það því ekki óeðlilegt að þeir, sem eftir lifðu og söknuðu hins dána, reyndu að ná sambandi við hann. Vissir menn tóku að sér að veita aðstoð í því að ná slíkum samöndum, og voru þeir nefndir særingamenn.

Slíkt var algerlega bannað Gyðingaþjóðinni, eins og sjá má af eftirfarandi versum:

"Leitið eigi til særingaranda né spásagnaranda; farið eigi til frétta við þá, svo að þér saurgist ekki af þeim; ég er Drottinn, Guð yðar." 3. Mós. 19:31.

"Og sá sem leitar til særingaranda og spásagnaranda, til þess að taka fram hjá með þeim, - gegn honum vil ég snúa augliti mínu og uppræta hann úr þjóð sinni." 3. Mós. 20: 6.

"Eigi skal nokkur finnast hjá þér, sá er láti son sinn eða dóttur ganga gegn um eldinn, eða sá er fari með galdur eða spár eða fjölkynngi, eða töframaður, eða gjörningamaður eða særingarmaður eða spásagnamaður, eða sá er leiti frétta af framliðnum. Því að hver sá er slíkt gjörir, er Drottni andstyggilegur, og fyrir slíkar svívirðingar rekur Drottinn, Guð þinn, þá burt undan þér. Þú skalt vera grandvar gagnvart Drottni, Guði þínum. Því að þessar þjóðir, er þú rekur nú burt, hlýða á spásagnamenn og galdramenn, en þér hefir Drottinn, Guð þinn, eigi leyft slíkt. Spámann mun Drottinn Guð þinn upp vekja meðal þín, af bræðrum þínum, slíkan sem ég er; á hann skuluð þér hlýða." 5. Mós. 18: 10.-15.

Boðskapur Guðs til þjóðar sinnar um hina dánu var sá, að þeir lifðu alls ekki milli dauðans og upprisunnar.

"En deyi maðurinn, þá liggur hann flatur, og gefi manneskjan upp andann - hvar er hún þá? eins og vatnið hverfur úr stöðuvatninu og fljótið grynnist og þornar upp,  þannig leggst maðurinn til hvíldar og rís eigi aftur á fætur þar til er himnarnir farast, rumska þeir ekki og eru ekki vaktir af svefninum." Job. 14: 10.-12.

"Því að þeir, sem lifa, vita að þeir eiga að deyja, en hinir dauðu vita ekki neitt og hljóta engin laun framar, því að minning þeirra gleymist. Bæði elska þeirra og hatur og öfund, það er fyrir löngu farið, og þeir eiga aldrei framar hlutdeild í neinu því, sem við ver undir sólinni." Préd. 9: 5.-6.

Kenning hins heiðna heims um það, að sál mannsins sé andavera eftir líkamsdauðann, er því í algerri andstöðu við þá opinberun Guðs sem Ísraelsþjóðin hafði öðlazt. Að aðhyllast þessar skoðanir heiðingjanna var því að hrapa á lægra stig - að taka hugmyndir manna fram yfir það, sem Guð hafði opinberað spámönnum hinnar útvöldu þjóðar.

Gegn þessum ráðum Guðs fór Sál konungur á fund konu, sem þóttist geta sært fram dána menn. Sjá 1. Sam. 28. kapítula.

Sál hafði orðið viðskila við Guð sinn - honum leið illa - hann var hræddur við aðsteðjandi hættu. Samúel spámaður var dáinn. Sál bað, að hann yrði kallaður fram - og fyrir tilstilli þessarar konu var svo sem hann heyrði málróm Samúels og hlýddi á úrskurð hans. En heillaspor reyndist þetta ekki fyrir Sál. Það var vegur, sem virtist greiðfær en endaði á helslóðum.

Skömmu eftir þetta greip Sál til þess í örvæntingu sinni að svipta sjálfan sig lífi. Tökum eftir skýringum Biblíunnar á því hvers vegna fór svo illa fyrir þessum glæsilega konungi. "þannig lét Sál líf sitt sakir ótrúmennsku sinnar við Drottin, sakir þess að hann eigi varðveitti boð Drottins og einnig sakir þess, að hann hafði gengið til frétta við vofu, en við Drottin hafði hann eigi gengið til frétta." 1. Kron. 10: 13.

Í Nýja Testamentinu lesum við að sögur Gamla Testamentisins séu skráðar okkur til lærdóms og viðvörunar - svo að okkur hendi ekki sama ógæfan og þar er sagt frá.

Samkvæmt skoðun Biblíunnar er það algerlega útilokað að hægt sé að hafa samband við dána menn.

Hvers vegna er það þá bannað?

Vegna þess að hin almenna skoðun heiðinna þjóða var að það væri hægt, og menn héldu að þeir kölluðu fram dána menn. - Ísraelsmenn voru stranglega varaðir við þessu, eins og ýmsu öðru, sem heiðingjar tömdu sér.

En sé nú ekki hægt að komast í samband við dána menn - hvað er það þá, sem menn komast í sambandi við og kemur fram í gervi dáinna manna?

Það er augljós staðreynd að margt er til í umhverfi okkar, sem við hvorki sjáum né skynjum að öllum jafnaði. Biblían talar um andlegar verur, sem hún segir að séu hér. Englar Guðs eru útsendir til hjálpar og blessunar mönnum. En til eru einnig illar andaverur - fallnir englar, sem fylgdu upphafsmanni syndarinnar og vinna í þjónustu hans - fara með blekkingar eins og hann.

Menn skilja aldrei eðli hins illa í heiminum fyrr en þeir gera sér grein fyrir því að þessar illu verur eru til og koma hér fram í dulgervi og gegna erindum illra afla.

"Og ekki er það undur, því að Satan sjálfur tekur á sig ljósengilsmynd. Það er því ekki mikið, þótt þjónar hans taki á sig mynd réttlætis-þjóna." 2. Kor. 11: 14.-15. f.hl.

"En andinn segir berlega, að á síðari tímum muni sumir ganga af trúnni, og gefa sig að villuöndum og lærdómum illra anda." 1. Tím. 4: 1. "En ég vil ekki að þér komist í samfélag við illu andanna." 1. Kor. 10: 20.

Guð bannar ekki neitt að ástæðulausu - hann gerir það eingöngu til að afstýra ógæfu. Freistingarsagan á fyrstu blaðsíðum Biblíunnar sýnir okkur afleiðingar þess að taka ekki orð Guðs alvarlega, en voga sér út á forboðnar brautir. Margir eru reikandi í skoðunum sínum eða hafa skoðanir, sem ekki standast próf raunveruleikans. Slíka menn dæmum við ekki, en við hvetjum þá til að leita í orði Drottins, lesa og láta orðið skera úr hvað sé rétt og hvað rangt.

"Margur vegurinn virðist greiðfær," segir Ritningin. Þess eru mörg dæmi, að menn hafa byggt á einu eða öðru, sem virðist öruggt, en bregzt þegar verst gegnir. Að heyra orð Drottins og breyta eftir því, segir Jesús að jafngildi því að byggja hús sitt á bjargi.

Í dæmisögu sinni um ríka manninn og Lazarus segir Jesús þessi eftirtektarverðu orð við þá, sem telja að boðskapur frá dánum mönnum muni bjarga: "Þeir hafa Móse og spámennina, (þ.e. orð Guðs), hlýði þeir þeim. Ef þeir hlýða ekki Móse og spámönnunum muni þeir heldur ekki láta sannfærast, þótt einhver rísi upp frá dauðum." Lúk. 16: 28. 31.

Þetta er nákvæmlega samhljóða því, sem við lesum í Jes. 8: 19.-21. Ef þeir segja við yður: "Leitið til andasæringamanna og spásagnamanna, sem hvískra og umla! Á ekki fólk að leita frétta hjá guðum sínum og leita til hinna dauðu vegna hinna lifandi?" - Þá svarið þeim: "Til kenningarinnar og vitnisburðarins!" Ef menn tala ekki samkvæmt þessu orði, hafa þeir engan morgunroða og munu ráfa hrjáðir og hungraðir.

Kenningin og vitnisburðurinn - opinberun Guðs, veitir örugga leiðsögn - sá, sem heyrir orð mín og breytir eftir þeim, honum má líkja við hygginn mann. Matt. 7: 24.-25.

Menn telja að andasæringar séu gagnlegar til þess að fá vissu fyrir framhaldslífinu.

Hvað segir orð Guðs?

"Og þetta er vitnisburðurinn, að Guð hefir gefið oss eilíft líf, og þetta líf er í syni hans. Sá sem hefir soninn, hefir lífið; sá sem ekki hefir Guðs son, hefir ekki lífið." 1. Jóh. 5: 11.-12.

Tökum við þetta trúanlegt? Ef svo er, hvers þurfum við þá framar við?

Sumir spyrja, hvernig beri að skilja orð Jesú við ræningjann: "Sannlega segi ég þér - í dag skaltu vera með mér í Paradís."

Styður þetta ekki hina útbreiddu skoðun, að um leið og maðurinn deyr - hverfi hann á stig æðri tilveru?

Svo virðist vera í fljótu bragði. En við nánari athugun stenzt það þó ekki af eftirfarandi ástæðum:

  1. Á upprisudeginum segist Jesús enn ekki vera farinn upp í himininn. Jóh. 20: 16.-17.
  2. Ræningjarnir voru ekki dánir á föstudagskvöldinu, þegar þeir voru teknir af krossinum, þess vegna voru fótleggir þeirra brotnir, svo að þeir hlypust ekki á brott. Jóh. 19: 31.-34.
  3. Ræninginn bað Jesú að minnast sín, þegar hann kæmi í konungsdýrð sína. Lúk. 23: 42 - þ.e. þegar hann kemur og kallar fram hina dánu. Jóh. 5: 28.-29; 1. Þess. 4: 16.

Nýja Testamentið var skrifað á Forn-Grísku - en í því máli eru engar kommur - engin greinarmerki. Greinarmerkin voru sett inn löngu síðar. Í grísku útgáfu Nýja Testamentisins stendur þetta vers þannig orðrétt: "Sannlega ég segi við þig í dag með mér þú skalt vera í Paradís."

Meiningin í versinu er háð því hvar komman er sett - hvort hún er sett á undan , í dag' eða á eftir. Sé hún sett á eftir ,í dag', þýðir versið einungis það, að Jesús kemur aftur, sem konungur lífsins og vekur upp hina dánu. Að komman var sett á undan , í dag', byggist vafalaust á því, að þegar kommusetningin var færð inní textann, höfðu menn veitt viðtöku þeirri óbiblíulegu skoðun, að menn færu annað hvort í sælu eða í kvalarstað strax eftir dauðann.

Það er örugg trúarviss, sem gerir manninn sterkan og færan um að taka með stillingu og hugarró því, sem að höndum ber - hvort sem það er líf eða dauði. Þannig voru hetjur trúarinnar fyrr á tímum.

"Allir þessir menn dóu í trú, án þess að hafa öðlast fyrirheitin, heldur sáu þeir þau álengdar og fögnuðu þeim, og játuðu að þeir væru gestir og útlendingar á jörðunni." Hebr. 11: 13.

"Því að það er nú svo komið, að mér er fórnfært, og tíminn er kominn, að ég taki mig upp. Ég hefi barist góðu baráttunni, hefði fullnað skeiðið, hefi varðveitt trúna. Og nú er mér geymdur sveigur réttlætisins, sem Drottinn mun gefa mér á þeim degi, hann hinn réttláti dómari; en ekki einungis mér, heldur og öllum, sem elskað haf opinberun hans." 2. Tím. 4: 6.-8.

Slíka trú þurfum við að öðlast. Trú, sem er byggð á bjargi. En að byggja á bjargi er að heyra orð Guð og breyta eftir því.

 

Smá viðauki: Júlíus Guðmundsson var Aðventisti. Aðventistar hafa aðra skoðun en margir aðrir um hvort maðurinn fari í sælu eða kvalarstað strax eftir dauðann: Þeir vilja meina að maðurinn sofi sálarsvefni þangað til Endurkoma Drottins verður.

Ég hef skilið þetta öðruvísi en Aðventistar en aðalatriðið fyrir mér að við séum öll skráð í lífsins bók og hef ég engan áhuga að togast á um þetta atriði frekar en hvaða dag við höldum hvíldardag.

"Því að sjálfur Drottinn mun stíga niður af himni með kalli, með höfuðsengils raust og með básúnu Guðs, og þeir, sem dánir eru í trú á Krist, munu fyrst upp rísa. Síðan munum vér, sem eftir lifum, verða ásamt þeim hrifnir burt í skýjum til fundar við Drottin í loftinu. Og síðan munum vér vera með Drottni alla tíma." 1. Þess. 4: 16.-17. Þarna er spurning hvort um er að ræða líkamsleifar þeirra sem dánir eru eða bæði líkami og sál?

"En Enok gekk með Guði og hvarf, af því að Guð nam hann burt." 1. Mós. 5: 24.

" 'Ég er Guð Abrahams, Guðs Ísaks og Guð Jakobs.' Ekki er hann Guð dauðra, heldur lifenda."Matt. 22: 32.-33.

Þegar Jesús var krossfestur voru tveir aðrir krossfestir á sama tíma: Annar hæddi Jesú en hinn ekki. Hann sagði: "Jesús minnst þú mín, þegar þú kemur í ríki þitt!" Og Jesús sagði við hann: "Sannlega segi ég þér: Í dag skaltu vera með mér í Paradís." Lúkas 23: 42.-43.

"Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes, bróður hans og fer með þá upp á hátt fjall, að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra, ásjóna hans skein sem sól, og klæði hans urðu björt eins og ljós. Og Móse og Elía birtust þeim og voru þeir á tali við hann. Pétur tók til máls og sagði við Jesú: "Herra, gott er, að vér eru hér. Ef þú vilt, skal ég gjöra hér þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina." Meðan hann var enn að tala, skyggði yfir þá bjart ský, og rödd úr skýinu sagði: "Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á . Hlýðið á hann.!" Matt. 17: 1.-5.

Ríkur og snauður.

Einu sinni var maður nokkur ríkur, er klæddist purpura og dýru líni og lifði hvern dag í dýrlegum fagnaði.   

En fátækur maður, hlaðinn kaunum, lá fyrir dyrum hans og hét sá Lasarus.  Feginn vildi hann seðja sig á því, er féll af borði ríka mannsins, og jafnvel hundar komu og sleiktu kaun hans.

En nú gjörðist það, að fátæki maðurinn dó, og báru hann englar í faðm Abrahams. Ríki maðurinn dó líka og var grafinn.

Og í helju, þar sem hann var í kvölum, hóf hann upp augu sín og sá Abraham í fjarska og Lasarus við brjóst hans.

Þá kallaði hann: ,Faðir Abraham, miskunna þú mér, og send Lasarus, að hann dýfi fingurgómi sínum í vatn og kæli tungu mína, því ég kvelst í þessum loga.`

Abraham sagði: ,Minnstu þess, barn, að þú hlaust þín gæði, meðan þú lifðir, og Lasarus böl á sama hátt. Nú er hann hér huggaður, en þú kvelst.

Auk alls þessa er mikið djúp staðfest milli vor og yðar, svo að þeir, er héðan vildu fara yfir til yðar, geti það ekki, og eigi verði heldur komist þaðan yfir til vor.`

En hann sagði: ,Þá bið ég þig, faðir, að þú sendir hann í hús föður míns,

en ég á fimm bræður, til þess að vara þá við, svo þeir komi ekki líka í þennan kvalastað.`

En Abraham segir: ,Þeir hafa Móse og spámennina, hlýði þeir þeim.`

Hinn svaraði: ,Nei, faðir Abraham, en ef einhver kæmi til þeirra frá hinum dauðu, mundu þeir gjöra iðrun.`

En Abraham sagði við hann: ,Ef þeir hlýða ekki Móse og spámönnunum, láta þeir ekki heldur sannfærast, þótt einhver rísi upp frá dauðum.`Lúkas 16: 19.-31.

"Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf. Jóh. 3: 16.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Margar eru frásögurnar af því, að andar "framliðinna" hafi komið fram á miðilsfundum og sagt að vondi staðurinn sé ekki til .

1. Þessir andar eru fyrst og fremst lygaandar (Ekki framliðinna ættingja )

2. "Vondi" staðurinn er ekki til sem slíkur, heldur munu þeir illu eyðast í dómnum .

3. satann sjálfur mun ekki pína og kvelja vonda fólkið að lokum . Fólkið sem kaus að trúa lyginni sem satann útbreyddi, hefur sjálft dæmt sálu sína til ákveðinna endaloka seinna meir . 

4. Ein af lygum satans er á þessa leið : Guð er ekki til .

5. En sú vinsælasta hjá honum er : ÉG er ekki til  he-he . .

conwoy (IP-tala skráð) 14.1.2008 kl. 17:20

2 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll Conwoy. Takk fyrir innlitið. Doctor E. er alltaf að láta okkur einmitt vita að Guð sé ekki til og þess vegna geti hann ekki þegið gjafir þess sem er ekki til. Eins er alltaf verið að segja að Satan sé ekki til en hvaðan kemur þá öll þessi vonska? Við höldum áfram í Jesú nafni. Guð blessi þig.

Rósa Aðalsteinsdóttir, 14.1.2008 kl. 23:25

3 identicon

Sæl Rósa.

Mér fannst þessi grein mjög góð og vel fram sett.Á eftir að lesa hana oftar.

Hafðu þökk fyrir.Guð blessi þig.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 16.1.2008 kl. 03:21

4 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæl Þórarinn. Guð blessi þig kæri bloggvinur.

Rósa Aðalsteinsdóttir, 16.1.2008 kl. 12:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband