8.1.2008 | 01:54
Andaverur vonzkunnar
Andaverur vonzkunnar
Reynsla Raphaels Gassons þá er hann var starfandi miðill
Sérprentun úr Fagnaðarboðanum
Raphael Gasson var um skeið starfandi miðill En eftir að hann hafið hlotið þá náð að komast til lifandi trúar á Jesúm Krist ritar hann bókina "The Challenging Counterfeit", sem náð hefir gífurlegri sölu.
Hér fer á eftir endursagður kafli úr bókinni, ásamt ummælum Kay Pernina, til skýringar og leiðbeiningar.
Þegar Raphael Gasson var fimm ára gamall bar svo við eitt sinn, að mynd, sem hékk á vegg, varð allt í einu sem lifandi fyrir augum hans. Þetta furðulega fyrirbæri kom fyrir aftur og aftur, unz barnið lifði í stöðugum ótta við myndina. Þegar ekki var lengur um að villast, að eitthvað óeðlilegt var á seiði, fór amma Raphaels með hann til konu, sem var miðill. Þessi kona leitaði nú frétta "andanna" og fékk það svar, að hér væri andi að verki, sem eingöngu vildi gæta barnsins og vera því til verndar. Ætlunin væri engan veginn að hræða það á nokkurn hátt. Miðillinn gaf nú andanum þá viðvörun, að hann skyldi ekki gera sig augljósan eða sýnilegan barninu. Hann gæti þó haldið áfram gæzlu sinni við það.
Ekki var annað að sjá, en að andinn hefði hlýtt þessum fyrirmælum miðilsins, því nú brá svo við, að ekkert furðulegt í sambandi við myndina gerðist framar.
Þegar Raphael Gasson var orðinn fulltíða maður, tók að vakna hjá honum sú spurning, hvort hann ætti að gerast kristinnar trúar. Eitt sinn, er hann var í þessum hugleiðingum, sá hann allt í einu sjálfan sig í sýn. Um leið heyrði hann rödd segja: "Fylgdu mér". Hann hlýddi og fór eins og röddin leiddi hann. Innan stundar var hann kominn inn í safnaðarhús spíritista. Þar stóð yfir fundur, og stjórnaði honum kona, sem hafði miðilsgáfu. Fyrst var sungið, síðan kvaddi hún sér hljóðs og sagðist nú mundi leiða fram sannanir um mátt "stjórnendanna." Síðan beindi hann máli sínu persónulega til Raphaels Gassons og greindi frá því, sem nú rétt áður hafði fram við hann komið. Enn fremur brá hún nokkrum atvikum úr lífi hans. Hún sagði, að hann hefði miðilshæfileika og hélt svo áfram að telja fram ýmislegt úr lífsferli hans, meðal annars að ekki hefði farið framhjá guði hin innri barátta, sem hann átti í, og því hefðu honum verið sendir "andarnir" til aðstoðar. Þeir hefðu nú leitt hann inn á þennan fund.
Allur þessi framburður miðilsins leiddi til þess, að Raphael Gasson fannst nú sem lausnin væri fundin, og gerðist hann nú spíritisti.
Hann tók að sækja miðilsfundi (seances) og komu þá fram með honum ýmis konar miðilshæfileikar. Honum var því tekið opnum örmum af andahyggjumönnum.
Raphael Gasson gerði sér sérstakt far um að rannsaka allt, er að þessum efnum lýtur, jafnt það, sem að sálarlífinu snýr sem vísindunum. Hann leitaðist við að samræma viðhorf kristindóms og spíritisma. Kom að því, að hann gerðist safnaðarleiðtogi spíritista. Hann trúði því, að spíritisminn væri sú kristni, sem Ritningin boðar. Þar segir: - prófið andana. Og einlægur ásetningur hans var að gera það. "Leiðsöguandi" hans kvaðst hafa verið kunnur Evrópumaður á sínum tíma. Til þess að sannprófa þetta, vildi Raphael komast í samband við einhvern þann, er skildi mál þessarar Evrópuþjóðar. En leiðsöguandinn reis andvígur gegnt því, að slík prófun færi fram. Þetta þótti Gasson meir en lítið furðulegt. En ekki var hér um að villast. Andinn var þessu algerlega mótsnúinn. Sitthvað fleira varð einnig til þess að rumska við Gasson og vekja hann til frekari ígrundunar um þessi mál. Hann hitti t.d. mann, sem var alger guðleysingi og vildi ekkert með bænir né sálmasöng hafa. Hann fordæmdi allt slíkt. Maður þessi taldi sig hafa komizt langt á sviði svartagaldurs (black magic) og fór ekki leynt með þá vitneskju sína, að þeir, sem honum stjórnuðu, væru illir andar. Hann hélt því eindregið fram, að þeir spíritistar, er gæfu sig út fyrir að vera kristnir menn, villtu á sér sýn.
Nú bauð maður þessi Raphael Gasson heim til sín. Hann fór fram á, að þeir héldu þar sameiginlegan andafund. Báðir skyldu þeir falla í dásvefn (trance) en áreiðanlegt vitni átti að fylgjast með og segja frá því, sem gerðist. En Raphael til hinnar mestu furðu, virtust nú allir andarnir, sem komu, vera ein vinfengis-samkunda. Mikið rót komst á allt sálarlíf Gassons við þessa vitneskju, að öllum þessum öndum, illum og góðum að hans áliti, skyldi koma vel saman. Það kemur glöggt fram af orðum hans, sem hér fara á eftir:
--Ég tók þetta allt mjög nærri mér. Annars vegar var um að ræða mann, algeran guðleysingja, sem ástundaði vísvitandi samskipti við illa anda, andvígur öllum bænum og sálmasöng, en sem engu síður gat, fyrir tilstilli þessara illu anda, leitt fram skýra fyrirburði og unnið sín undraverðu góðverk, að því er virtist. Hins vegar var svo ég, sem eyddi miklum tíma til bæna og annarrar guðrækni, en reyndist þó ekki standa honum framar að neinu leyti í miðilsstarfinu. Þetta var mér alger ráðgáta. Hvar var ég á vegi staddur? Var það ekki Guð, sem svaraði bænum mínum? Gat það verið, að þeim væri svarað af andaverum vonzkunnar? Eða var Guð að verki með þessum manni, en ekki illir andar, eins og hann hélt fram? Slíkt var með öllu óhugsandi. Breytti það engu um, þó viðhafður væri sálmasöngur og bænir?
Hvar var Guð að finna og hvar var Hann ekki að finna? Hvar var Hans að leita og hvar ekki?
Í öllu þessu spíritista-starfi sínu trúði Gasson því af einskærri vanþekkingu, að hinar ýmsu miðilsgáfur hans væru guðlegar gjafir, á sama hátt og Jeane Dixon, stjörnuspákonan reynir að fella saman í eitt kristni og spíritisma. En nú ákvað Gasson að gera allt, sem í hans valdi stóð, til þess að komast til botns í öllu þessu róti. Hann hóf leit sína með því að lesa og ígrunda Orð Biblíunnar. Jafnframt fór hann að ferðast um og hlýða á þann boðskap, sem fluttur var innan annarra safnaða.
Hann átti nú í strangri, innri baráttu, en var staðráðinn í því að reyna allt, sem í hans valdi stóð, til þess aðkomast að hinu sanna og rétta. Dag einn sótti hann samkomu í söfnuði trúaðra og varð þá vottur að því, er menn, fylltir Heilögum Anda, töluðu tungum, útlistuðu og spáðu. Í fyrstu hélt hann sig vera kominn á fund spíritista. En fljótlega komst hann að raun um, að það, sem hér var ríkjandi, var allt annars eðlis, en það, sem hann þekkti frá andafundunum.
Forstöðumaðurinn fór að predika. Og hvort það var tilviljun ein, þá talaði hann um spíritisma. Hann sagði, að allt slíkt væri frá Satan runnið, myrkursins valdi, og í algerri andstöðu við hinn eina sanna Guð.
Reiðin sauð niðri í Gasson, er hann heyrði þessi ummæli. Og strax að samkomunni lokinni, átti hann tal við ræðumanninn. Þeir töluðu lengi saman, allt til klukkan 11 um kvöldið. Ræðumaðurinn benti honum á Ritningarstaði, þar sem andahyggja er fordæmd. Ekki gat Gasson neitað því, að hér var rétt með farið. Allt stóð þetta í Biblíunni. Hann hlaut að staldra hér við á leitarbraut sinni að hinu rétta og sanna.
Um þetta segir Gasson: - Ég hafði ávallt áður bægt allri umhugsum um þessa Ritningarstaði burt úr huga mér og fundið þar til ýmsar átyllur, til þess að forðast frekari hugleiðingar um það, sem í þessum Ritningargreinum stóð. Hinn vantrúaði getur gengið ótrúlega langt í blindi sinni. Í sjálfsblekking minni hafði ég einnig í vissum tilvikum rangfært Orðið, svo allt gæti samræmst skoðunum spíritista. En nú varð ég að taka við þeirri staðreynd að þeir möguleikar væru ekki útilokaðir að aðvörunarorð Ritningarinnar væru Sannleikans-Orð. Allt þetta var aðdragandi þess, að ég fór að ígrunda málið gaumgæfilega. Og þótt afturhvarf mitt ætti sér ekki stað þetta kvöld, var lokabaráttan gegn "anda-stjórnendum" mínum nú hafin. Andarnir töluðu til mín og héldu því fram, að heimskulegt væri að leggja hlustirnar við framburði manns, sem aldrei hefði á miðilsfund komið og gæti aðeins rökrætt málið út frá gömlum, úreltum staðhæfingum Biblíunnar.
En hvað sem framburði andanna og öllu öðru leið, þá varð þeirri ákvörðun minni ekki haggað, að ég vildi sjálfur kljúfa málið til mergjar og taka mína persónulegu afstöðu til þess. Loks var ég kominn inn á rétta braut, því nú hafði ég tekið þá afstöðu að vilja hverfa burt frá spíritisma og Satans vegi.
Gasson snéri nú aftur heim til sín, staðráðinn í því að næsti miðilsfundur hans skyldi verða sá síðasti. En þá ver svo við, að á þessum fundi reyna "andarnir" að gera út af við hann, með því að halda honum í svefndáinu, svo hann kæmist ekki aftur til meðvitundar.
Tveimur dögum síðar sá hann auglýsta samkomu, þar sem Fagnaðarerindi Jesú Krists yrði boðað fullt og óskert, og hann ákvað að fara þangað. Andarnir lögðu honum það ráð, að fara ekki, slíkt yrði honum ekki til neins góðs. En það breytti engu um ásetning hans. Og hann fór. Þar var sunginn sálmurinn. "Dýrðlega vissa." Og eins og elding leiftrar, lukust nú upp fyrir honum hin dýru sannindi Fagnaðarerindisins, - hjálpræði Guðs í Jesú Kristi. Hann bað til Drottins, bað Hann að frelsa sig og gefa sér hina öruggu trúarvissu.
Áður en sálmurinn var sunginn til enda, hafði lausnarverk Drottins gerzt á Raphael Gasson, og hann öðlazt trúarsannfæringuna í hjarta sitt, vissuna um, að syndirnar voru honum fyrirgefnar fyrir Sáttmálablóð Jesú Krists.
Við nánari ígrundu Guðs Orðs, varð hann sannfærður um, að andar þeir, sem hann hafði látið stjórnazt af og átt samskipti við, voru engir aðrir en, andaverur vonzkunnar, Satans útsendarar.
Hann var viðstaddur skírnarathöfn, og hlýðnaðist þá boði Drottins um að taka niðurdýfingarskírn. Skömmu síðar skírði Drottinn hann í Heilögum Anda.
Hann segir svo frá: - Þá er ég, að skírninni lokinni, hafði vitnað um afturhvarf mitt og var kominn heim til mín aftur, sótti á mig svo mikill höfgi, að engu mátti muna, að ég félli í dásvefn. Andarnir, sem ég hafði áður fyrr undirgefizt og látið stjórnast af, reyndu nú gegn vilja mínum, að koma mér í dásvefn (trance). En þeir höfðu ekki búizt við, að til slíks þyrfti að koma, - ef viðhafa má slík venjuleg ummæli í sambandi við andaverur þessar. Hvað eftir annað reyndu þeir að kyrkja mig með mínum eigin höndum. Aðeins með því eina móti fékk ég staðizt gegn þessu ofurvaldi Satans og útsendara hans, að halda mér fast í trú við fyrirheiti Guðs, og vera stöðugur í ákalli og bæn til Drottins, að Blóð Hans væri mín vernd og kraftur gegn ógnarvaldi þessu, - einnig voru trúaðir vakandi í bænum sínum fyrir mér. Andaárásum þessum hélt áfram í nokkra mánuði, og hvert áhlaupið gert á fætur öðru. En Drottinn Jesús Kristur hefir sigrað djöfulinn og allt hans vald. Og fyrir Nafn Jesú Krists náðist sigurinn og fullkominn lausn að lokum.
Nú veit ég betur við hvað er að berjast, og hve djöfullinn er slyngur og slóttugur. En ég veit einnig, að ég hef öðlazt sigur, já meir en sigur fyrir Jesúm Krist, sem elskaði mig svo mikið, að hann lagði líf sitt í sölurnar fyrir mig. Honum ægði ekki dauðinn, til þess að kaupa mér líf og lausn. Lofað og vegsamað sé hans dýrlega Nafn að eilífu.
Hér lýkur þessum kafla bókarinnar
"The Challenging Counterfeit" efit Raphael Gasson.
BARÁTTAN ER EKKI VIÐ BLÓÐ OG HOLD
Hver endurfæddur, kristinn maður má búast við því að verða að mæta árásum frá andaheimi myrkravaldsins, eins og berlega kemur fram hjá Páli postula, er hann segir: ....klæðist alvæpni guðs, til þess að þér getið staðist vélabrögð djöfulsins. Því að baráttan, sem við eigum í, er ekki við blóð og hold, heldur við tignirnar og völdin, við heimsdrottna þessa myrkurs, við andaverur vonzkunnar í himingeimnum. (Efes. 6: 10.-12). Með öðrum orðum, hver trúaður maður má gera ráð fyrir því að þurfa að stríða gegn andaverum, sem sækja á með sínum vélabrögðum og reyna að koma að hjá hinum trúuðu efasemdum, ótta, freistingum eða öðru, sem rænir þá innri ró og friði. Ef til vill mætti segja, að nú á seinni tímum vaði hinar fölsku opinberanir til táls og ginningar enn meira uppi en áður, opinberanir, sem birtar eru fyrir tilverknað andavera vonzkunnar, sem koma þá fram með yfirskyni guðrækninnar og þar með villa á sér sýn, svo menn ganga í snöruna og halda, að þar séu að verki þjónustubundnir andar frá sönnum Guði.
TRÚIÐ EKKI SÉRHVERJUM ANDA
Í fyrsta bréfi Jóhannesar, 4: 1 er þessi aðvörun gefin: Þér elskaðir, trúið ekki sérhverjum anda, heldur reynið andana, hvort þeir séu frá Guði....
Þessi viðvörun - trúið ekki sérhverjum anda - innifelur í sér það, að hver skynjun, sem huggar eða gleður, hvort heldur er í sýn, vitrun eða opinberun, er ekki bundin þeim eina möguleika, að vera frá Guði runnin, þ.e. gefin fyrir hans Heilaga Anda. Vald og máttur hins illa, er svo víðtækur á andlega sviðinu, að gegn því ofurvaldi standa menn agndofa og mega sín einskis í eigin mætti. Við skulum ekki láta okkur gleymast, að á dögum Móse, gátu spásagnarmenn Farós líkt eftir sumum þeim stórmerkjum, er Guð geði með Móse.
Enn í dag sér margur og reynir öfl verkandi með mönnum til "yfirnáttúrlegra" hluta. Kemur það m.a.a fram í birtingu þess, sem áður var leynt og hulið eða í framkvæmd furðuverka, já jafnvel til lækninga. Þessi öfl eiga sér enga þá stoð í Guðs Orði, að þeim verði þar fundinn nokkur sá grundvöllur, að þau séu frá Guði komin.
En hið hörmulega á sér iðulega stað, að jafnvel trúaðir menn renna í snöruna og flækjast í þessum lyga og blekkingarvefi.
HVERNIG SKAL PRÓFA ANDANA?
Ein óbrigðul leið, til þess að prófa andana, er að prófa þá með orði Ritningarinnar. Guðs Orðið er hið tvíeggjaða sverð, sem greinir sannleikann frá lyginni, hvort heldur um er að ræða það, sem mönnum er innblásið við dáhrif eða hughrif, - hefir opinberazt þeim eða er framkvæmt með þeim, þá verður það allt að hlíta úrskurði Guðs Orðs. þ.e. prófast í öllum atriðum með því, sem Guðs Orð segir um það skýrt og bert, svo ekki verði um villst. Þetta krefst sinnar tilvitnunar, útheimtir að á sé bent, hvar það standi í Biblíunni, - í hvaða bók hennar, - hvaða kapítula og hvaða versi.
Um gjafirnar í Heilögum Anda, Anda-gáfurnar, og allt verk Andans Heilaga er berlega og skýrt talað um í Guðs Orðinu. Guð vill ekki, að mennirnir þurfi að vera í neinni óvissu um þessi veigamiklu atriði, sem hverjum og einum, andlega talað, er lífsnauðsyn að þekkja.
Í Orði sínu gefur Guð okkur vísbending. Þar leiðbeinir Hann okkur og aðvarar. Við eigum að halda okkur fast við hina "heilnæmu kenningu." Þess vegna eigum við að hafa Orð Guðs sem prófstein í einu og öllu, sem krefjast veður, að við tökum afstöðu til í lífinu.
Jesús sjálfur svaraði þá er Hans var freistað af Satan: Ritað er . . . . síðan mælti Hann fram Ritningarorðið. Sigurinn yfir valdi hins illa, Satan, er vís, ef sverði Guðs Orðs er beitt gegn honum.
Flokkur: Trúmál og siðferði | Facebook
Athugasemdir
Valli minn. Ég skil. Ég er spennt að sjá framfarir í sambandi við veikindin þín. Guð blessi þig og leiði.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 8.1.2008 kl. 15:46
Vá segi ég nú bara, ég las þetta og las og svo sá ég fyrir endann á þessum frábæra pistli, það er ekki vanþörf á svona greinum í Íslensku samfélagi kæra vina, þú átt þakkir fyrir. Knús og Guð blessi þig.
Linda, 8.1.2008 kl. 20:09
Takk Rósa mín fyrir þennann pistil,ég hef sjálfur farið svona leið að þurfa að byðja guð griða fyrir þeim er um mig situr.Og ég veit hann bíður mín tilbúinn og auðvitað vill hann villa mér leið,en gegn sannleikanum flýr hann eins og sá sem og hann er og það er heigull,lygari og rotta.Guðs blessun til ykkar allra kveðja Úlli.
Úlfar Þór Birgisson Aspar, 8.1.2008 kl. 23:06
Hæ Valgeir , Linda og Úlli. Þið eruð með fín innlegg. Takk fyrir það og Guðs blessun.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 8.1.2008 kl. 23:46
Þakka þér fyrir þennan pistil kæra Rósa, þetta er alveg magnað. Ég þekki svo vel það sem er sagt í þessum pistli, hef reynt þetta sjálfur. Hafðu þökk fyrir, Guð blessi þig í Jesú nafni Amen.
Aðalbjörn Leifsson, 9.1.2008 kl. 19:06
Sæl Rósa. Þakka þér commentið, eins og þú veist er ég mjög grandvar maður...Kveðja
Ari Guðmar Hallgrímsson, 10.1.2008 kl. 12:40
Amen Rósa mín! :) Frábær samantekt.
Guðsteinn Haukur Barkarson, 10.1.2008 kl. 18:12
Sælir strákar. Takk fyrir innlitið. Hér var nóg með að borða í dag. Fullt af konum og börnum í heimsókn. Já Ari minn ég veit næstum allt um þig Kær kveðja til ykkar allra.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 10.1.2008 kl. 19:52
Þú átt heiður skilið fyrir þessa uppfræðslu . Glæsilegt-frábært-og margt f.l . Keep on writing !!!
conwoy (IP-tala skráð) 11.1.2008 kl. 20:39
Gleði og friðar ár Rósa, ég sé að þú hefur mikinn áhuga á spíritisma, og öfugt við Vottana sem heimsækja mig annað slagið, þá viltu bara glíma við þessa skratta með biflíuna að vopni! Mér þykir þú kræf, ég læt allar slíkar tilraunir vera, þó ég trúi ekki einu sinni á biflíuna, það er bara kreepy að rífa kjaft við einhver öfl sem þú sérð ekki né skilur.
Hvað segja andarnir um nútíma málefni, svo sem 11-sept (hvað segir í opinberunarbókinni, kafla 9, vers 11 ), hvað segja þeir t.d. um byggingu 7, eða WTC7 eins og Google vill að við spyrjum?
Eins og Björn Heiðdal segir, hvernig stendur á því að forsetinn heitir Bush og er yfir manni sem heitir Dick?
Velkominn í bloggheiminn.
Gullvagninn (IP-tala skráð) 12.1.2008 kl. 16:03
Sæll kæri Gullvagn. Ég hef fengið heimsóknir af Vottum Jehóva og ég get sagt þér að þeir voru ekki öfundsverðir eftir samtal við mig. Því miður er ég meira kunnug andatrú og spíritisma en þú heldur. Ég á marga vini sem hafa látið glepjast af þessu rugli. Auðvita er ég kræf en ekki hvað? Mun kíkja hingað aftur inn síðar en ég er smá að basla að fara hringinn hjá bloggvinum.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 12.1.2008 kl. 17:31
Sæll aftur kæri Gullvagn. Flott lag hjá Bjögga Hall. með Gullvagninn. "Sendu nú gullvagninn að sækja mig."
Þú vitnar í vers í Op. 9.11. "Konung hafa þær yfir sér, engil undirdjúpsins. Nafn hans er á hebresku Abaddon og á grísku heitir hann Apollýón." Á íslensku heitir hann Satan. Það er einmitt Satan sem vill afvegaleiða okkur og þessir pistlar sem ég hef að mestu skrifað upp úr ritum er aðeins brot af aðferðum hins illa til að skemma okkur. Vertu Guði falinn.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 12.1.2008 kl. 18:44
Sæll og blessaður kæri Gylfi.
Þú spyrð um Huldufólk. Ég trúi að þetta sé þjóðtrú og að þetta sé ein af blekkingar aðferðum myrkrahöfðingjans. Ég er alveg sannfærð að fólk sér allskyns hluti sem eru sett í hlutverk Huldufólks, Álfa, Dverga, Tröllkarla og Tröllkerlinga. Um huldubyggð í Vopnafirði veit ég ekki en örugglega geta margir upplýst þig hér um allskyns dótarí og reimleika. Það er nóg af fólk hér sem trúir liggur við öllu og blandar öllu saman í hafragraut sem ég hef ekki lyst á að bragða á.
"Þér elskaðir, trúið ekki sérhverjum anda, heldur reynið andana, hvort þeir séu frá Guði. Því margir falsspámenn eru farnir út í heiminn. Af þessu getið þér þekkt anda Guðs: Sérhver andi, sem játar, að Jesús sé Kristur kominn í holdi, er frá Guði. En sérhver andi, sem ekki játar Jesú, er ekki frá Guði. Hann er andkristsins andi, sem þér hafið heyrt um að komi, og nú þegar er hann í heiminum. Þér börnin mín heyrið Guði til og hafið sigrað falsspámennina, því að sá er meiri, sem í yður er, en sá, sem er í heiminum. Falsspámennirnir heyra heiminum til. Þess vegna tala þeir eins og heimurinn talar, og heimurinn hlýðir á þá. Vér heyrum Guði til. Hver sem þekkir Guð hlýðir á oss. Sá sem ekki heyrir Guði til hlýðir ekki á oss. Af þessu þekkjum vér sundur anda sannlekans og anda villunnar. 1. Jóh. 4: 1.-6.
Ég vill alls ekki dæma fólk, það er að leita að sannleikanum eins og allir aðrir. Og við höfum ekkert leyfi til að segja að þessi sé í himnaríki og þessi í víti. Hvað vitum við um það? Hvað vitum við um þó að viðkomandi hafi ekki lifað í takt við Guð og leiðsögubókina sem Guð gaf okkur? Við nefnilega vitum ekkert hvað t.d. gerist á síðustu augnablikum hvers einstaklings. Þetta er mín skoðun.
Ég er alveg sammála þér um sjálfskipaða predikara. "Margir munu koma í mínu nafni og segja: ,Það er ég!' og marga munu þeir leiða í villu." Mark. 13:6. Ég man eftir frásögn frá Bandaríkjunum en ekki hvað? Veit ekki hvort hún sé sönn. Það var maður sem ferðaðist víða um Bandaríkin. Hann þóttist vera lækningapredikari. Sama fólkið (leikararnir) fór með honum stað úr stað. Það var maður sem var á ferðalagi sem hafði sótt samkomu hjá þessum sjálfskipaða predikara í heimabyggð sinni og hann sá auglýsingu um samkomu með honum og ákvað að drífa sig á samkomu. Lækningapredikarinn byrjaði að biðja fyrir sjúkum og þarna var fólk sem var í hjólastólum og eitthvað fleira. Þetta fólk læknaðist að talið var. Þetta var sama fólkið sem átti að hafa læknast í heimabyggð ferðamannsins. Þessi maður lét vita um þessa vitleysu og var fólk varað við þessu fólki. Ef þetta er satt þá finnst mér þetta mjög lágkúrulegt. Ég þoli ekki óheiðarleika. Það eru til margir loddarar.
Gangi þér vel með vídeóupptökuvélina en gagtu hægt inn um gleðinnar dyr hjá sálarangistarfélaginu. Helst, slepptu því. Ég vildi ekki vera í nágrenni við Sálarangistarfélagið. Ef ég kem í búðina til þín þá mun ég fara með bæn áður um varðveislu Guðs. Endilega sendu mér línu aftur. Við hljótum að geta skrifast á og við verðum að muna regluna hjá mér að öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir. Ég vona að þér gangi vel í sölumennskunni. Friðarkveðjur.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 14.1.2008 kl. 01:01
S æl Rósa mín.
Mikið var þetta kærkomin grein fyrir mig.Ég var einn af þeim sem sótti miðilsfundi hér áður fyrr ekki marga en nóg.Ekki vissi ég betur þá,þó að mér var bent á að þetta væri ekki af hinu góða. En hef lagt þá niður.Og það er svo margt í þessari grein sem skýrir ýmislegt fyrir mér.Ég sé það betur og betur hvað það er mikilvægt að þekkja ORÐ GUÐS.Og þess vegna er gott að eiga þig að með það að UPPLÝSA OKKUR. Þrjár síðustu færslur þínar eru hver annari betri og á ég eftir að fara yfir þær oftar.
Guð blessi þig. Amen.
Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 16.1.2008 kl. 04:03
Sæll Þórarinn. Það er hættulegt að daðra við andatrúna en fólk veit ekki að þetta er hættulegt og rangt samkvæmt orði Guðs. Ég sagði við mann sem er ofarlega í valdastiganum í Hvítasunnukirkjunni að mér fyndist að við ættum að fara í herferð og segja fólki frá hvað þetta væri hættulegt en hann var sko ekki sammála. Ég fékk send fleiri rit í gær og á von á fleirum. Við stöndum saman kæri bloggvinur og svo syngjum við saman gleði, gleði, gleði, annað hvort hér á jörð eða þegar við hittumst í himnesku Jerúsalem.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 16.1.2008 kl. 12:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.