Spíritisminn

 

Spíritisminn

Erindi eftir

A. FIBIGER

Sóknaprest við Elíaskirkjuna

Í KAUPMANNAHÖFN

Árni Árnason þýddi mest af þessu riti

Kafli úr ræðu eftir Ólaf Ólafsson

Þriðja útgáfa 1969 - HS

Ritið útbýtt ókeypis

Útgefandi Sigurður Jónsson frá Bjarnastöðum

 

Er andinn segir berlega, að á

síðari tímum muni sumir ganga

af trúnni, er gefa sig að villu-

öndum og lærdómum illra anda.

1. Tímóteusarbréf 4:1.

Erindi þetta kom út í sérstöku riti í Kaupmannahöfn 1920. Birtist hér úrdráttur úr fyrri kafla þess og síðari hlutinn í orðréttri þýðingu.

Inngangur erindisins er á þessa leið:

"Laugardagskvöld eitt í febrúar 1920, var ég boðinn af öldunaráði stúdentafélagsins til að taka þátt í umræðum um spíritismann. Hóf ég þá mál mitt með því að lýsa yfir, að afstaða mín gagnvart honum væri sú, að ég viðurkenndi tilveru hans, en væri um leið ákveðinn andstæðingur. Þessi tvö atriði vil svo í fáum orðum skýra nánar."

1) Þar sem innihald fyrra atriðisins eru að nokkru leyti lýsingar á ýmsum vantrúarhreyfingum og stefnum, er uppi voru í Danmörku fyrir og um þann tíma, sem erindið er flutt, þá hefir það ekki svo mikið að  segja fyrir oss, að taka þann kafla orðréttan.

En tilgangur höfundarins með þeim lýsingum, er að sýna orsök þess að vér nú erum stödd í slíku flóði spíritískra kenninga, sýna hvernig skynsemistrú og efnishyggja, þ.e. vantrúin, hefir gengið yfir og gripið fjöldann af fólkinu, en getur þó aldrei fullnægt því á alvörustundum lífsins. Þá kemur áreksturinn og afturkastið. Þá leitar sál mannsins inn á andlega sviðið, leitar eftir svari við ótal ráðgátum tilverunnar, leitar umfram allt svölunar í trú og trausti. Einmitt undir þessum kringumstæðum lendir leitin oft út á alls konar villigötum, svo sem í spíritisma og teosofi (andatrú og guðspeki) og þess hátta afvegaleiðandi stefnum.  Og dæmin höfum vér við höndina, segir hann. Fríhyggja og vantrú höfðu undirbúið jarðveginn, þegar alvörutímar heimsstyrjaldarinnar gengu yfir, og í lok hennar spánska veikin 1918. En það varð lítið úr þeim stefnum gagnvart ógnum dauðans. Allur sá fjöldi af nýjum gröfum og öll þau djúpu sár, kröfðust annarrar úrlausnar.

Þarna var tilbúinn jarðvegur fyrir spíritismann, því boðberar þeirra stefnu létu sig ekki vanta, og framarlega í þeim hóp enski eðlisfræðingurinn Sir Oliver Lodge. Og nú höfum vér árangurinn: blöð og tímarit eru full af spíritískum frásögnum og allt trúarlíf er meira og minna gegnsósað af spíritisma.

Fyrri kaflinn endar svo með þessum orðum: "Það er nú ekki ætlunarverk mitt í þessum umræðum, að gjöra frekar grein fyrir hvað spíritistarnir í þessu tilliti hafa - eða þykjast hafa. - En til að fylgja sannleikanum, verð ég að segja, að jafnvel þó ávallt hafi verið og muni halda áfram að verða, hinum mestu kynstrum af dulfræðilegum tilbúningi og blekkingum svikulla miðla, blandað inn í spíritismann, þá er þó víst að í öllu þessu eru í hreyfingu einhver raunveruleg öfl. Að neita því bæri vott um þekkingarleysi á því sem um er að ræða."

2) Þegar ég nú hefi talað um spíritismann, og sannleikans vegna gefið honum það sem hans er, þá verð ég jafneinbeittur að koma fram sem ákveðinn mótstöðumaður hans, já segja honum stríð á hendur upp á líf og dauða. Í fyrsta lagi geri ég það af hlýðni við Guð. Í orði sínu hefir Guð skýrt og ákveðið bannað oss, að hafa nokkuð með andasæringar að gera, eða á nokkurn hátt að leita frétta hjá framliðnum, sjá t.d. 5. Mós. 18: 11. Í öðrum stað segir svo: "Hinir leyndu hlutir heyra Drottni Guði vorum, en það sem opinberað er, heyrir oss og börnum vorum." 5. Mós. 29: 29. Við sjáum líka greinilega vanþóknun Guðs og reiði koma yfir Sál konung, þegar hann, - stuttu áður en hann í guðleysi framdi sjálfsmorð, - leitaði á fund spákonunnar í Endor og fékk hana til að særa fram anda Samúels.

Í öðru lagi er ég í algerðri mótstöðu við spíritismann, að því hann myndar sér sín eigin tilbúnu trúarbrögð. Tekur út úr kristnidóminum það, sem talsmönnum hans líkar, en kastar burt því, sem ekki samrýmist skynsemi hins náttúrlega manns. Eins og t.d. kenningunni um glötun. Þar af leiðandi vilja spíritistar ekki beygja sig fyrir því sem er þó staðfest í Guðs Orði, að þeir, sem eru til vinstri handar, verða að fara burt í þann eilífa eld, sem búinn er djöflinum og englum hans, meðan þeir til hægri handar ganga inn til eilífrar sælu. Og þó það sé Jesús sjálfur, sem segir þetta - í Matt. 25. - þá breytir það ekki meiningu spíritista. Nei, þeir ætla að vera "meðaumkunarsamari en Guð." Þess vegna fleygja þeir umsvifalaust allri hugsun um eilífa glötun og kenna að allir verði sælir; það er komist í sæluríkt samfélag við Guð.

Ég veit nú að til eru menn, sem telja sig vera kristna, og það innan þjóðkirkjunnar, - sem ekki vilja viðurkenna að til sé eilíf glötun. Ég trúi heldur ekki að nokkurt einlægt Guðsbarn fari með þá kenningu með gleði. Þvert á móti er hugsunin um eilífa útskúfun, bæði óumræðilega sár og leyndardómsfull fyrir hugann. En vér verðum samt að segja með Lúther: "Textinn er mér ofurefli, en það er ómögulegt fyrir þann, sem vill byggja á sannleiksgrundvelli Guðs Orðs að komast framhjá honum."

Ritningin hefir fjölda marga vitnisburði um þetta, og þegar vér beygjum oss í hlýðni fyrir Orði Guðs, þá höfum vér leyfi til að leggja allar þessar hugsanir frá oss og gefa Jesú dómsvaldið. Hann, sem segir um sjálfan sig, að hann hafi lyklana.  "Hann, sem lýkur upp svo enginn læsir og læsir svo að enginn lýkur upp." Op. 1: 18. og 3: 7. Og "ef nokkur boðar yður annað fagnaðarerindi en það, sem þér hafið viðtöku veitt þá sé hann bölvaður." Gal.1: 9.

Í þriðja lagi, - og það er alvarlegasta ástæðan, - verðum vér að tilkynna spíritismanum stríð upp á líf og dauða, vegna afstöðu hans til friðþægingardauða Jesú Krists, _ með öðrum orðum - til krossins. Hér kemur það skýrast og ákveðnast í ljós, að þótt segja megi um þessar ósjálfráðu hreyfingar að í þeim séu duldir kraftar og þeir sterkir, þá verður jafnframt að segja um þær allar sem eina, að þar eru að verki öfl myrkravaldsins, - kraftur Satans.

Aftur og aftur er sagt í Guðs Orði, að ef mennirnir vilja ekki trúa sannleikanum, þá eru þeir neyddir til að trúa lyginni: "En koma hans er fyrir tilverknað Satans, með alls konar krafti og táknum og undrum lyginnar, og með alls konar vélum ranglætisins fyrir þá sem glatast, af því þeir veittu ekki viðtöku kærleikanum til sannleikans, að þeir mættu verða hólpnir. Og þess vegna sendir Guð þeim megna villu, til þess að þeir trúi lyginni." 2. Þessal. 2: 9. -11.

Víst eru það dýrleg og guðdómleg sannindi að: "Guð vill ekki dauða syndugs manns, heldur að hann snúi sér og lifi." Sömuleiðis það, að Guð kastar engum í glötun. "Guð vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum." 1. Tím. 2: 4. En kærleika sinn til vor, hefir Hann opinberað með því: "að Hann gaf Son sinn eingetinn, til þess að hver, sem á Hann trúir, glatist ekki, heldur hafi eilíft líf." - Jóh. 3: 16. Látum oss því í eitt skipti fyrir öll losna við þetta væmna hugleysisskraf um, hvað Guð geti fengið af sér að gera, eða muni gera.

Á meðan vér höfum hinn blóðuga kross á Golgata, sem tákn þess, hve heitt Guð hefir elskað oss og hve dýru verði vér erum keyptir.

Hér á Golgata er kærleikur Guðs eilíflega opinberaður.

Hér var Jesús Kristur sleginn af reiðileiftri Guðs, þegar "Hann var særður vegna vorra synda og kraminn vegna vorra misgjörða. Hegningin, sem vér höfum til unnið, kom niður á Honum og fyrir Hans benjar urðum vér heilbrigðir." Jes. 53. Og nú stendur þessi kross hér, eins og eldingavari og sá, sem í einlægni og trú heldur sig við krossinn, hjá Jesú, verður aldrei snertur af eldingum Guðs hegnandi réttlæti.

Þetta viðurkennir Marteinn Lúther með orðunum: "Hann er minn Drottinn, sem mig glataðan og fyrirdæmdan mann hefur endurleyst, friðkeypt og frelsað, frá öllum syndum, frá dauðanum og frá djöfulsins valdi, eigi með gulli né silfri, heldur með sínu heilaga dýrmæta Blóði og með sinni saklausu pínu og dauða."

Hér skaltu koma og lauga hjarta þitt hreint í þessari lind, sem opnuð er gegn allri synd og óhreinleika.  "Blóð Jesú Krists Guðs Sonar hreinsar oss frá allri synd." 1. Jóh. 1: 7.

Það er þetta - um krossinn - sem spíritistar og þeirra fylgjendur neita.

Taktu eftir því, að það er hér, sem stríðið stendur, - í Honum og um Hann, hið blæðandi Guðs Lamb með vanvirðu krossins, sem ber alheimsins synd. - Þetta örugga vígi Guðs barna er það, sem um er barist. En með þessu auglýsir spíritisminn sjálfan sig og hver sá er, sem stendur bak við hann. Vér sjáum hér mjög ljóst, hina gömlu tilraun Satans að taka dýrðarljóma guðdómsins af ásjónu Jesú Krists, hans óþreytandi áhlaup móti því, sem er kjarni kristnidómsins: Friðþægingunni fyrir blóð Krists, hans lævísu aðferð til að "kross Krists missi gildi sitt." 1. Kor. 1: 17.-18. en vér vitum einnig að hér mun hann - eins og áður - sjálfur sundur molast, " því að ekki er oss ókunnugt um vélráð hans." 2. Kor. 2: 11.

Í þessu er það, sem spíritisminn sýnir sig algjörlega óhafandi. Spíritisminn, guðspekin og slíkar stefnur, eru ekki af sannleikanum, jafnvel þó í þeim finnist stolinn sannleikur frá Guðs Orði. Þeir ganga um sem úlfar í sauðarklæðum, og leggja venjulega mikið kapp á að látast hafa sömu meiningu og vér.

Mér hefir sjálfum nú þessa dagana verið send mörg falleg spíritísk rit, þar sem mjög fögur og hrífandi orð eru viðhöfð um hinn göfuga Jesú, hinn kærleiksríka meistara, Hans vísdómsfullu orð og miskunnsemi. Já jafnvel um niðurlægingu Hans og dauða á krossinum. En krossinn sjálfan, kraft hans og friðþæginguna fyrir syndir mannanna, þar fara þeir lævíslega í kringum, og þegja um aðalatriðin, til þess að hægara sé fyrir þá að veiða trúhneigða menn og konur í snörur sínar.

Um fyrstu grein trúarjátningarinnar getum við svo hæglega verið sammála. - O, jú jú! Þeir trúa nú líka á kærleiksríkan guð og Föður. - Og þriðju greinina, um Heilagan Anda sömuleiðis; - tökum Heilagan Anda með, því fleiri andar því betra. - En önnur grein trúarjátningarinnar, hún, sem hefir í raun og veru gefið kristindóminum nafn, og sem er hans miðpunktur og kraftur, orðin um Jesú dauða og úthellt Blóð, þau hafa svo sterkan hljóm, að þar geta þeir ekki verið með. Hér er hið sterka táknorð, hinn mikli ásteytingarsteinn og hneykslunarhella. Ennþá er Jesús það "tákn sem móti verður mælt, ... til þess að hugsanir margra hjartna verði opinberar." Lúk. 2: 34. - 35.

Frá þessu meginatriði kristnidómsins, getum vér ekki hopað um hársbreidd. Hér er frelsisins trausta borg, vor óbifanlegi grundvöllur þó himinn og jörð farist.

Þess vegna getum vér heldur aldrei haft félagsskap með spíritistum, eða dregið hið ólíka ok með þeim. Fyrir oss er ekki nema um eina afstöðu að gera gagnvart þeim, er neita fórnardauða Jesú Krists, og það er: - stríð upp á líf og dauða!

Hvað er það svo, sem spíritistarnir bjóða oss í staðinn fyrir það, er þeir kasta? Hvað er þetta auðvirðilega skraf þeirra um, að sálarrannsóknirnar hafi numið burtu hræðsluna við dauðann og brugðið björtu ljósi yfir eilífa lífið?

Það er þó sannarlega nokkuð barnalegt, að ætlast til að fólk með sæmilegri skynsemi og uppalið í kristnu landi, gleypi slíkan úlfalda. Eða vill nokkur neita því, að sá eini er skýrt og ákveðið hefir kastað ljósi yfir hið eilífa líf, og gefið oss sigur yfir dauðanum, það er Jesús Kristur, sá hinn sami er augliti til auglitis við hina opnu gröf og rotnandi lík, sagði: "Ég er upprisan og lífið, sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi." Jóh. 11: 25.

Hvernig er þá með þessa tómu og innihaldslausu hluti, sem þessir efnislegu andar hafa með að gjöra? Það eru margendurtekin dauð og ómerk orð og hinar allra auðvirðilegustu athafnir, svo sem borðdans, högg og dump í gólf og veggi o.fl. o.fl.

Stundum getur það komið fyrir, að grípur mann hressandi hlátur, er feykir burtu allri hjátrúarþokunni. Eins og þegar spíritistar eitt sinn, mjög hátíðlega, hvöttu unga ekkju til að sækja andatrúarfund, og gerðu ráð fyrir að hún myndi þar komast í samband við manninn sinn sálaða. - Hvað var það svo, er hún fékk að sjá og reyna. - Jú þessir andar gátu fært úr stað þunga hluti, lyft henni marga þumlunga upp af gólfinu, spilað bæði á sýnileg og ósýnileg hljóðfæri o.s.frv. o.s.frv. "Þökk", svaraði konan með hæðnisbrosi, "maðurinn minn snerti aldrei á svona löguðum hlutum meðan hann lifði, svo ég er hrædd um, að ég skilji ekki vel þessa nýju aðferð hans við að gefa sig til kynna."

Hversu alólíkur, ljós og auðskilinn er ekki sannleikurinn í opinberuðu orði Guðs. Lesum frásögur guðsspjallanna í öllum sínum einfaldleik og ákveðni. Hve háleit er ekki frásagan um sálarstríð Frelsarans í Getsemane og öllu öðru fremur um friðþægingardauða Hans á krossinum, er Hann leið sem hið þolinmóða Guðs lamb.

Í sannleika: Það er páskamorgunsins bjarta ljós annars vegar, en hins vegar myrkraherbergi spíritískra fræðikenninga.

Spíritistarnir snúa máli sínu sérstaklega að þeim atriðum, er alvarlegast snerta alla menn, sem sé dauðanum og dánum ástvinum. En í raun og veru eru ekki hugsanir og vonir guðsbarna bundnar við dauðann. Það sem gagntekur hug og hjarta þeirra er páskadagsmorguninn og líf, sem kemur eftir dauðann. Og til þess lífs hefir Guð endurfætt oss til lifandi vonar, fyrir upprisu Jesú Krists frá dauðum. Þess vegna er það skylda þeirra sem lifa - eins og trúaður kennari hefur sagt, - að gjalda varhuga við villunni og ekki búa sér til ósannar og svikular vonir og leika sér með anda framliðinna.

Guð hefir gjört það öllum augljóst, með því að reisa Jesúm Krist upp frá dauðum, að til er eilíft líf. Að dauðinn er ekki hið sterkasta vald og að það er ekki hann, sem hefir síðasta orðið. "En þetta líf er í Hans Syni. Sá, sem hefir Soninn, hefir lífið; sá, sem ekki hefir Guðs Son, hefir ekki lífið." 1. Jóh. 5. 11.-12.

Látum því ekki trufla oss eða tæla frá grundvelli Guðs opinberaða Orðs með nokkrum annarlegum fræðikenningum, hversu fagrar og aðlaðandi, sem þær sýnast vera. "Því Satan sjálfur tekur á sig ljósengilsmynd." 2. Kor. 11: 14. En segjum af hjarta og látum verða að framkvæmd í lífi voru orðin, sem standa í þessu sálmversi:

 

Villustig sú aldrei á

Undrastjarnan leiðir há,

Orðið Guðs hún er hið skæra.

Oss er Drottinn virtist færa

Svo hún væri oss leiðarljós.

 

Árni Árnason þýddi.

Kafli úr ræðu eftir Ólaf Ólafsson.

Texti: Op. 7: 9. -10.

Í meira en þúsund ár hefir sá siður haldist í kirkju Krists, að helga einn sunnudag ársins minningu horfinna kynslóða þeirra, sem í Drottni eru dánir.

En það hefir ekki verið gert í þeirri trú, að þeir muni þurfa þess með, sem yfir um eru komnir, - eins og heiðnir forfeðradýrkendur og margir spíritistar halda, - né heldur vegna þess, að við þörfnumst fyrirbæna þeirra eða hjálpar á nokkurn hátt.

Það er vel fyrir þeim séð, sem Guð "tjaldar yfir" á himnum, "því að lambið mun gæta þeirra og leiða þá til lifandi vatnslinda." Þeim er vel borgið. Þeir þurfa ekki með fyrirbæna okkar, sem illa kunnum að biðja fyrir sjálfum okkur.

Þeir eru vel geymdir hjá Guði. Hvers vegna skyldum við fara að grennslast eftir líðan þeirra hjá myrkrapukursmönnum spíritismans. Er Guði ekki trúandi fyrir þeim?

Og hvers vegna skyldum við vera að ríghalda í þá ástvini, sem Guð hefir tekið frá okkur og heim til sín! Um stundarsakir eigum við að vera án samfélags þeirra. En hér getum við notið samfélagsins við Guð og þeir þar, og átt örugga von um endurfundi í Honum.

Ritningin bannar andasæringar og andatrú með hinum alvarlegustu orðum. Guðs Orð varar okkur við því, en hvetur okkur til að minnast hinna framliðnu á þann hátt, að "afdrif óguðlegra" verði okkur til viðvörunar, en ævilok guðsbarna til uppörvunar: "Virðið fyrir yður hvernig ævi þeirra lauk, og líkið síðan eftir trú þeirra."

Það var trú þeirra, sem veitti þeim sigur, svo að í sýninni sá Jóhannes þá með pálma í höndum - tákn sigurs og fagnaðar. Og enn er það trúin á Guð og Lambið, er tók burt synd heimsins, sem er siguraflið hið eina, er sigrar heiminn - hinn óguðlega. "En hver er sá, sem sigrar heiminn nema sá sem trúir, að Jesús sé Guðs Sonur."

Líkið eftir trú þeirra.

Og munt þú þá eiga samfélag við alla, sem guði til heyra, _ og við hinn mikla hvítkladda skara á himni, í tilbeiðslu og lofgjörð Drottni til dýrðar.

Amen, lofgjörðin og dýrðin og vizkan og þakkargjörðin og heiðurinn og mátturinn og krafturinn sé Guði vorum um aldir alda, amen!"


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Óhugnalegt fyrirbæri þetta spírismarugl

Þekkti eitt sinn konu er fékk lækningu í gegnum "ljósið" og varð heil á likama, en sturlaðist seinna á geði . Kannski fékk satann eitthvað í staðinn fyrir "ljóslækningaheiluninna"   ?  Gleðilegt árið Rósa mín 

conwoy (IP-tala skráð) 5.1.2008 kl. 18:02

2 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll Conwoy. Gleðilegt ár og takk fyrir samveruna hér á blogginu. Ég var að setja inn færslu rétt áðan og var að rifja upp atburði sem gerðust á Alþýðuskólanum á Eiðum. Guð blessi þig.

Rósa Aðalsteinsdóttir, 5.1.2008 kl. 21:41

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Heil og sæl, kæra Rósa. Það er þakkarvert, að þú endurbirtir þetta. En hver var þýðandinn, Árni Árnason? Takið eftir, lesendur, að í fyrri grein þinni, Andatrúin afhjúpuð, var þýðandi þess pistils Árni Jóhannsson. Það mun vera sá KFUM-maður, sem átti mörg snörp innlegg á ráðstefnu Stúdentafélagsins, sem birtist um 1920 í bók og hét þá, að mig minnir, Grundvöllurinn er Kristur (þar áttu lengri ræður m.a. séra Friðrik Friðriksson, Páll Kolka læknir og próf. Haraldur Níelsson). Árni sá var, sem gefur að skilja, lítt hrifinn af spíritismanum og andbiblíulegri starfsemi í þeim dúr.

En hér er væntanlega engin ásláttarvilla hjá þér, að Árni Árnason sé þýðandi þessa erindis eftir Fibiger (sem var þekktur prestur í Danmörku). Mér dettur þá helzt í hug, að þetta sé Árni Árnason læknir, sá hinn sami sem skrifaði magnað gott rit, Þjóðleiðin til hamingju og heilla, allstóra bók sem kynnir kristna heims- og lífssýn – rit sem væri frábært, ef kynna mætti (í litlum skömmtum í einu) á netinu.

Það væri gaman, ef þú gætir staðfest, að þetta sé þýðandinn, Rósa; eins gæti ég athugað málið betur. En Árni læknir var stílsnjall maður og mjög kenningartrúr í sínum kristindómi. – Með kærri kveðju og hrósi fyrir iðni þína á blogginu,

Jón Valur Jensson, 6.1.2008 kl. 01:12

4 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll Jón Valur. Þú ert langflottastur eins og ég skrifaði inná bloggið hjá Gylfa. Fólk þarf mjög mikið að tala um þig sín á milli á blogginu. Þú ert mjög vinsæll hjá þeim.  Ég er með þrjú rit hérna fyrir framan mig. Sigurður Jónsson frá Bjarnastöðum gefur þau öll út. Andatrúin afhjúpuð og þar er þýðandi Árni Jóhannsson. Spíritisminn og þar er þýðandi Árni Árnason. Tilvera Djöfulsins, sennilega er þýðandi Sigurður Sveinbjörnsson. Nafnið hans er efst á ritinu og engar útskýringar. Tilvera Djöfulsins, þar er ég með útgáfu frá 1952 og svo 6 útgáfa sem var prentað 1970. Það hefur verið töggur í Sigurði Jónssyni að koma þessum ritum á framfæri. Við erum mjög lánsöm að hafa þig á blogginu. Þú lætur engan slá þig út af laginu.  Drottinn blessi þig og varðveiti. Shalom

Rósa Aðalsteinsdóttir, 6.1.2008 kl. 03:22

5 Smámynd: Linda

Takk fyrir þessi skrif Rósa mín.  ekki veitir af , mér þó merkilegt og skondið með ekkjuna, maður hennar hafði aldrei komið nálægt þessum hlutum tíhí.  Svona er blekkingin, er ný aldar hreyfingin lika spiritismi eða eitthvað annað?

Linda, 6.1.2008 kl. 12:05

6 Smámynd: Árni þór

já Jón Valur ég er sammála Rósu þú ert iðin að svara öllu svona vel...

Rósaþað er þörf á þessu innleggi, ég var einhvern tíman búin að lesa eitthvað af þessum ritum fyrir löngu síðan.
Ég barðist lengi vel framan af að tala í gegn andatrúnni þar sem ég hef svo mikla reynslu af því, kem út úr þess háttar rugli, mamma var alin upp á Einarstöðum, ég veit ekki hvort það tengist því að ég er mjög opin fyrir andaheiminum en ég hef lært fyrir löngu síðan að taka vald í Jesú nafni gegn þessu og get ég sagt nokkrar slíkar sögur öðrum til viðvörunnar, geri það hugsanlega síðar. 

Linda það má segja að andatrúin sé inn í nýaldarhreyfingunni ásamt mörgu öðru, í einföldu máli þá hrærir nýlaldarhreifingin öllu saman í einn pott svo úr verður einn grautur og enginn finnur neitt af viti.
Það er í lagi að vera leitandi en um leið og maður er búin að finna veginn, sannleikan og lífið þá kemur gagnrýni og andstaða.

Árni þór, 6.1.2008 kl. 20:47

7 Smámynd: Árni þór

Já conwoy það eru dæmi um að fólk hafi læknast  í gegnum læknamiðla eða heilun síðan tekið við Jesú sem frelsara sínum og andinn eða áhrif andans verið rekin út í framhaldinu og þá hefur fólkið veikst aftur og síðan hefur Jesús gefið sanna lækningu.

Árni þór, 6.1.2008 kl. 20:53

8 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæl Linda og Árni Þór. Fólk var mjög blint hér á lækningarnar frá Einarsstöðum. Mögnuð setning hjá þér Árni: "en ég hef lært fyrir löngu síðan að taka vald í Jesú nafni gegn þessu."Við hjálpumst að að skrifa um blekkingarvef Satans til að vara vini okkar við svo þau vari sig á þessu andakukli og verði ekki fjötruð. guðs blessun.

Rósa Aðalsteinsdóttir, 6.1.2008 kl. 20:53

9 Smámynd: Árni þór

Eg segi amen við þessu, ég á trúlega eftir að fara um landið í sumar og þá kem ég til vopnafjarðar

Árni þór, 7.1.2008 kl. 21:05

10 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll Árni minn. Vertu velkominn. Aldrei að vita nema við getum hýst þig og þína Shalom

Rósa Aðalsteinsdóttir, 7.1.2008 kl. 21:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband