3.1.2008 | 20:57
Andatrúin afhjúpuð
Andatrúin afhjúpuð.
Eftir Rosu Bevill.
Vitnisburður frá því, er hún var miðill.
Þýtt af Árna Jóhannssyni
Ritið útbýtt ókeypis.
Útgefandi: Sigurður Jónsson, Bjarnastöðum, Grímsstaðaholti.
Prentsmiðja Jóns Helgasonar.
Vantar því miður útgáfuár á þessari stórmerkilegu heimild.
Mér finnst sem Guð ætlist til þess af mér, að ég riti um reynslu mína viðvíkjandi andatrúnni. Ég hef verið miðill - talinn bezti miðillinn í Indianapolis, Ind. á þeim tíma - undir handleiðslu anda, sem tjáðu sig vera anda framliðinna vina; og ég trúði því þá, að svo væri. Ég kannaðist við rödd þeirra, sem málróm vina minna; og þeir gátu haldið uppi samtali við mig nákvæmlega eins og verið hefðu vinir mínir. Þeir töluðu um hið sama, sem vinir mínir höfðu talað um í lifanda lífi. - En ég komst að raun um það seinna, að það voru afvegaleiðandi andar djöfulsins.
Djöfulinn veit ofurvel um útlit manna og um hvað þeir tala hér í lífi. Þess vegna veit hann líka vel hvað hann á að segja, til þess að fá okkur til að trúa því að þar séu vinir okkar á ferð; enda getur hann einnig tekið á sig þeirra gervi.
Þegar andarnir fóru að segja mér hvernig ég ætti að breyta, þá var það mjög á annan veg en Biblían kennir. En sá, sem trúir, að þeir séu englar af himnum, hann trúir að sjálfsögðu orðum þeirra. En eins og djöfullinn tældi Evu í öndverðu með rangfærslum á orðum Guðs, eins rangfærir hann Ritninguna enn í dag, með tælandi lygum andatrúarinnar. "En falsspámenn komu einnig upp á meðal lýðsins, eins og falskennendur munu líka verða meðal yðar, er smeygja munu inn háskalegum villukenningum og jafnvel afneita Herra sínum, sem keypti þá, og leiða yfir sig sjálfa bráða glötun." (2. Pét. 2: 1-3.) "Þér elskaðir, trúið ekki sérhverjum anda, heldur reynið andana, hvort þeir séu frá Guði; því að margir falsspámenn eru farnir út í heiminn. Af þessu getið þér þekkt anda Guðs: sérhver andi, sem viðurkennir að Jesú Kristur hafi komið í holdi, er frá Guði; og sérhver andi, sem ekki játar Jesúm, er ekki frá Guði; og hann er andkristsins andi, sem þér hafið heyrt um að komi, og nú þegar er hann í heiminum." (1. Jóh. 4: 1-3). Mín reynsla er, að hér sé að ræða um það, sem ritningin kallar "kenningar illra anda." Og margir aðhyllast nú þær háskalegu kenningar. Ritningin segir oss, að falsspámenn muni koma og afvegaleiða marga; og ég get vottað, að þetta er satt, því að ég var afvegaleidd af einum þeirra, er ég var miðill.
Blekkingar síðustu tíma:
Þeir undarlegu hlutir, er nú gerast, virðast benda til þess, að komnir séu hinir síðustu tímar. Ritningin segir, að þá verði djöfla-andar á ferð, sem gjöri tákn og stórmerki. "Því að þeir eru djöflaandar, sem gera tákn og ganga út til konunga allrar heimsbyggðarinnar, til að safna þeim saman til stríðsins á hinum mikla degi Guðs hins alvalda." (Opinb: 16: 14). "Og sýrið var handtekið og ásamt því falsspámaðurinn, sem táknið gjörði í augsýn þess, en með þeim leiddi hann afvega þá, sem tekið höfðu við merki dýrsins, og þá, sem tilbeðið höfðu líkneski þess; báðum þeim var kastað lifandi í eldsdýkið, sem logar af brennisteini." (Opinb: 19: 20).
Þegar ég var miðill, gat ég gert hina furðulegustu hluti, einmitt með fulltingi þessara anda. Ég gat opinberað leyndadóma. Þurfti ég þá að halda í hönd spyrjanda og láta hann horfa framan í mig. Tók þá andlit mitt á sig andlitsgervi þess vinar, sem andinn þóttist vera, og málrómur minn varð sem hans; og þó hafði ég aldrei séð þá persónu, sem andinn tjáði sig vera. Hann stjórnaði tungu minni, og ég talaði um hið sama, sem spyrjandinn g hinn "framliðni vinur" höfðu talað um, meðan þeir voru saman. Og auðvita var mér trúað. En það var andinn, sem lagði mér orð í munn; sjálf vissi ég ekkert, hvað ég hafði sagt, fyrr en mér var sagt það á eftir. Einn andinn kvaðst vera andi Krists og sagði, þegar hann fór að tala við mig, að ég myndi verða tileygð ("krosseygð"), og táknaði það krossinn, sem Kristur var negldur á. Innan skamms fóru augu mín að dragast saman, þannig að ég varð tileygð litla stund. Tók þá andinn að tala við mig svo guðrækilega, að ég trúði því, að það væri Jesús. En ég komst að raun um það, að það var ekki Hann. Rithönd skrifaði ég, eða andinn með minni hendi, svo fagra, sem þaulæfður skrifari, og með vélarhraða; en ekkert vissi ég, hvað ég skrifaði, fyrr en eftir á.
Djöfullinn afhjúpaður:
Ég var búin að leggja stund á andahyggju um nokkurt skeið, er svo bar við einn dag, að mér fannst sem himininn opnaðist yfir mér og Jesús sjálfur birtist mér og með Honum fjöldi ljósklæddra engla, og Hann sagði við mig:
"Það eru ekki andar vina þinna, sem við þig tala, heldur andar djöfulsins, sem þú ert haldin af."
Þessu fylgdi kraftur svo mikill, að andarnir, sem í mér voru, urðu mér sýnilegir. En þegar þeir voru þannig afhjúpaðir, tóku þeir að hrópa til mín og segja: "Nú ert þú glötuð. Þú varst kristin, en gekkst oss á vald, sem erum andar djöfulsins." Þannig játuðu þeir sjálfir, hvers kyns þeir voru. Þeir vissu, að nú mundu þeir aldrei framar fá mig til aðtrúa því, að þeir væru andar vina minna, þó að þeir gætu hermt málróm þeirra. Og þeir reyndu það aldrei framar.
Þótt ég hefði aldrei þekkt Jesúm áður, þá mundi ég þó hafa komist að raun um það nú, að Hann er Frelsari, því að einnig það var mér opinberað. Allur þorri andatrúarmanna trúir ekki á Frelsarann. En þó að ég hefði ekki annan vitnisburð um Hann en þessa vitrun, þá nægðir hún ein til að sannfæra mig um, að Jesús er Sonur Guðs og Frelsari. Því ég veit, að Hann einn getur rekið út anda eins og þessa. Ég ákallaði Hann, og Hann frelsaði mig, enda þótt ég, meðan ég var á valdi villuandanna, tryði mörgu illu, sem þeir sögðu mér um Hann.
Ástæðan til þess, að andatrúarmenn trúa ekki á Frelsarann, er yfirleitt sú, að þessir illu andar tjá sig vera anda framliðinna vina og segja, að þeir hafi komist að raun um, að það sé ekki satt, sem Biblían kennir. Og margir taka nú þessa villukenningu fram yfir Guðs orð.
Lof og þakkir Guðs Föður og Hans blessaða syni, sem elskaði mig svo heitt, að hann hreif mig úr þessari hræðilegu snöru djöfulsins, þó að ég væri óverðug elsku Hans. Ég hafði verið trúuð kona um 9 ára skeið, og framkoma andanna var í fyrstu svo guðrækileg, að ég hugði þá reka erindi Guðs; annars hefði ég aldrei gengið þeim á vald.
Ég vildi að ég gæti kunngjört þetta hverjum mannsbarni í heimi, þar eð svo margir láta nú glepjast, sem vera mundu sannir lærisveinar Krists, ef ekki væru þessir dulbúnu andar, sem Jesús einn megnar að frelsa oss frá. Lof og þökk sé Honum. Hann getur það! Menn varast ekki, að hér sé um synd að ræða, fyrr en þeir eru komnir undir áhrifavald andanna; og margir sjá það aldrei, fyrr en þeir með ótta og skelfingu komast að raun um það í dauðanum, að þeir hafa valið Satan, í stað hins dýrmæta Frelsara, sem dó til að frelsa þá frá hinum miklu kvölum og vildi gjöra þá að samerfingjum sínum að konungdómi Himnaríkis, í eilífu sælulífi, ef þeir aðeins héldu fast við Guðs Orð. Ég fann það, að ég þurfti að hverfa til Biblíunnar aftur, áður en ég yrði frelsuð og biðja Guð að frelsa mig í Jesú Krists nafni, - frelsa mig, eingöngu vegna þess lausnargjalds, sem Jesús hafði greitt fyrir mig, sem var hans eigið dýrmæta blóð. Vegsamað sé Hans Heilaga Nafn!
Andinn játar skýlaust hver hann er:
Eftir að mér varð það ljóst, að ég var á valdi djöfulsins, sagði ég við andann: "Satan, ég vil ekki þjóna þér." Og ég settist niður til að skrifa í blöðin viðvörun gegn því, að menn færu á fundi þeirra, er væru undir áhrifum andanna, vegna hættunnar, að saurgast af þeim. En þegar ég ætlaði að fara að skrifa, tók andinn að hrista á mér höndina (þar var áður en Jesús rak þá út). Og Drottinn innblés, að ég skyldi láta andann sjálfráðan og sjá, hvað hann skrifaði nú, eftir að ég vissi hver hann var. Höndin tók að hreyfast með þeim hraða, sem ég hef áður lýst; ég vissi ekkert hvað ég skrifaði, en á blaðinu stóð þetta: "Ó, ég veit að ég er á vegi hinna mörgu vel kristnu manna," og neðan undir var ritað nafnið "Djöfull." - ég sat og horfði á blaðið með mikilli undrun. Hve satt það er, að til er djöfull! Og hann svo kænn og máttugur, að draga oss á tálar.
Ég hygg, að hann noti, við flesta, þá blekkingar-aðferð, a' koma þeim til að hafna hjálpræðinu í Kristi. Og það er auðsætt, að fjöldi manna hafnar því eða vanrækir það.
Kæri lesandi! Sért þú en ófrelsaður, þá vaknaðu nú og leitaðu Krists. Gjörið iðrun og látið skírast, svo að þér verðið hólpnir. - Það er einmitt hinn sami gamli og kæni erki-óvinur, sem kemur yður til að hafna hjálpræðinu. Vafalaust hefir Heilagur Andi oft minnt þig á, að þú ættir að leita hjálpræðisins. En jafnskjótt hefir gamli óvinurinn komið og sagt: "Ekki í dag; nógur er tíminn." Ef til vill veit hann, að dauða þíns er ekki langt að bíða. En vaknaðu í tíma og láttu hann ekki gabba þig lengur. Hann mun reyna að gera þig vonlausan; en minnstu þess, að Jesús Kristur frelsar þá, sem ákalla hann í bæn og trú.
Viðvörun:
Eftir að Drottinn Jesús frelsaði mig, veitti Hann mér þann skilning, að mér bæri að vitna skriflega um þessa reynslu mína og viðkynningu við andatrúna, öðrum til viðvörunar. Fannst mér það vera Guðs vilji, að ég sendi eitt eintak þessa vitnisburðar til sem flestra presta, með þeirri beiðni, að þeir læsu hann upp á prédikunarstólnum, svo að mín sorglega en sanna reynsla mætti verða sem flestum til viðvörunar.
Með orðum gæti ég ekki lýst þeim hræðilegu ógnum, sem ég reyndi af þessum djöflum, eftir að Drottinn opinberaði þá, og þar til Hann rak þá út, sem ég fann jafn greinilega, eins og ég finn andardráttinn líða frá brjósti mér.
Þannig hef ég reynslu fyrir, að andatrúin er blómum stráður helvegur:
Lesið, sjáið og sannfærist un, að reynsla mín, sú sem hér er vitnað um, er nákvæmlega samhljóða Heilagri Ritningu. Með ákveðnum orðum varar ritningin við, að hafa mök við þá menn eða konur eða stúlkur, er hafa særingaranda eða spásagnaranda; "Leitið eigi til særingaranda né spásagnaranda; farið eigi til frétta við þá, svo að þér saurgist ekki af þeim; ég er Drottinn Guð yðar." (3. Mós. 19:31). "Og sá sem leitar til særingaranda og spásagnaranda, til þess að taka fram hjá þeim - gegn honum vil ég snúa augliti mínu og uppræta hann úr þjóð sinni." (3. Mós. 20:6). "Ef spámaður eða draumamaður rís upp meðal yðar og boðar þér tákn eða undur, og táknið eða undrið rætist, það er hann hafði boðað þér og sagt um leið: Vér skulum snúa oss til annarra guða, - þeirra er þú hefur eigi þekkt - og við skulum dýrka þá! Þá skalt þú ekki hlýða á orð þess spámanns eða draumamanns, því að drottinn, Guð yðar, reynir yður, til þess að vita, hvort þér elskið Drottinn, Guð yðar, af öllu hjarta yðar og af allri sálu yðar. Drottni, Guði yðar, skuluð þér fylgja og Hann skuluð þér óttast, og skipanir Hans skuluð þér varðveita og raustu Hans skuluð þér hlýða, og Hann skuluð þér dýrka og við Hann skuluð þér halda yður fast. En spámann þann eða draumamann skal deyða, því að hann hefir prédikað uppreisn gegn Drottni, Guði yðar, sem leiddi yður út af Egyptalandi og leysti þig úr þrælahúsinu, til þess að leiða þig burt af þeim vegi sem Drottinn, Guð þinn, bauð þér að ganga. Þannig skalt þú útrýma hinu illa burt frá þér." (5. Mós. 13: 1-5). "Eigi skal nokkur finnast hjá þér, sá er láti son sinn eða sóttur ganga í gegn um eldinn, eða sá er fari með galdra eða spár eða fjölkyngi eða töframaður eða gjörningamaður eða spásagnamaður, eða sá er leiti frétta af framliðnum. Því að hver sá, er slíkt gjörir, er Drottni andstyggilegur, og fyrir slíkar svívirðingar rekur Drottinn, Guð þinn, þá burt undan þér. (5. Mós. 18: 10-12). Þannig lét Sál líf sitt sakir ótrúmennsku sinnar við Drottin, sakir þess að hann eigi varðveitti boð Drottins, og einnig sakir þess, að hann hafði gengið til frétta við vofu." (1. Kron. 10: 13). "Gætið yðar fyrir falsspámönnum, er koma til yðar í sauðaklæðum, en eru hið innra glefsandi vargar, af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá." (Matt. 7: 15). "Og ef einhver þá segir við yður: Sjá, hér er Kristur, eða sjá þar; þá trúið því ekki. Því að upp munu rísa falskristar og falsspámenn, og þeir munu gjöra tákn og undur, til að leiða afvega, ef verða mætti, hina útvöldu." (Mark. 13: 21-22). "Og svo bar við, er vér vorum á leið til bænahaldsstaðarins, að oss mætti þerna nokkur, sem hafði spásagnaranda og ávann húsbændum sínum mikið fé með því að spá; hún elti Pál og oss og hrópaði og sagði: Menn þessir eru þjónar Guðs hins hæðsta, og boða þeir oss veg til hjálpræðis. Og þetta gjörði hún í marga daga. En Páli féll það illa, og hann sneri sér við og sagði við andann: ég býð þér í nafni Jesú Krists að fara út af henni, og hann fór út á samri stundu." (Post. 16: 16-18). "En andinn segir berlega, að á síðari tímum muni sumir ganga af trúnni, er gefa sig að villu-öndum og lærdómum illra anda, fyrir yfirdrepskap lygimælenda, sem brennimerktir eru á sinni eigin samvizku." (1. Tím. 4: 1-2)
Brennt barn forðast eldinn.
Til þess eru vond dæmi, að varast þau.
"Margur vegurinn virðist greiðfær, en endar þó á helslóðum." (Orðskv. 16: 25).
"Trú þú á Drottinn Jesúm Krist, og þú munt verða hólpinn og heimili þitt."
(Post.16: 31).
Jesús sagði: "Ég er vegurinn og sannleikurinn og lífið; enginn kemur til föðurins nema fyrir mig." (Jóh. 14:6)
Flokkur: Trúmál og siðferði | Breytt 8.1.2008 kl. 18:43 | Facebook
Athugasemdir
Var einu sinni að reyna hafa upp á þessu efni, en tókst ekki . Þetta er mjög svo alvarlegt þegar fólk álpast til að trúa að látnir ástvinir séu ennþá á sveimi .
Því trúi fólk því, hættir það að trúa hvað ritningin segir um hina framliðnu .
Því gefur auga leið, að satann notar andana til að gera ritninguna lítt trúverðuga . Fyrir utann öll hin brögðin sem hann beitir, eins og til dæmis þessi frasi hérna : Þetta er gömul bók sem hefur verið þýdd svo oft, að ekkert mark er á henni takandi lengur . Eða : Bók skrifuð að mönnum til að stjórna mönnum . (Hvaða hag höfðu þessir ótengdu menn af því, að skrifa bókina fyrir menn er þeim kom ekkert við í rauninni ? )
conwoy (IP-tala skráð) 3.1.2008 kl. 22:07
Frábær færsla.Takk fyrir að láta mig vita af henni.Velkomin í hópinn
Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 3.1.2008 kl. 22:13
Þetta er þörf færsla og góð, Guð blessi þig í Jes´ðu nafni Amen.
Aðalbjörn Leifsson, 3.1.2008 kl. 22:24
Hæ. Takk fyrir innlitið. Conway, hér á þessu heimili er alveg hellingur af gömlum smáritum og er ég byrjuð að pikka inn smárit sem heitir Spíritisminn. Amma var ein af brautryðjendum Hvítasunnukirkjunnar hér á Vopnafirði og hér í stofunni voru fyrstu samkomurnar fyrir 1950. Við erum með heimasíðu og þar getið þið lesið sögu okkar: Slóðin: http://www.123.is/hvitasunnukirkja/
Birna Dís takk fyrir innlitið er búin að heimsækja þig.
Guð blessi ykkur kæru trúsystkini.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 3.1.2008 kl. 22:28
Kæri Alli. Takk fyrir innlitið. Guð blessi ykkur trúsystkinin mín í Keflavík. Endilega kíkið á bak við myndina, Þar er smá kynning. Þessi flotta mynd er í raun að láni Guðs blessun
Rósa Aðalsteinsdóttir, 3.1.2008 kl. 22:30
Hæ aftur. Á morgunn ætlum við að reyna að læra að setja inn bloggvini, tengla og myndaalbúm. Þetta verður örugglega fjör
Ég hef áhyggjur af vinum okkar í Nairobi í Kenýa. Þar er rekið ABC hjálparstarf. Við verðum að taka í bænastrenginn og biðja Guð að varðveita vini okkar og við þurfum að biðja Guð um frið. Alltof margir eru búnir að deyja í þessum heimskulegu átökum. Meira seinna.
Rósa Aðalsteinsdóttir (IP-tala skráð) 3.1.2008 kl. 22:47
Þú ert þá væntanlega líka að tala um trúna á heilagan 'anda' ?
Ég sé engan mun á að trúa á hinn heilaga anda, djöfullega anda (sem einhvernveginn virðast fylgja með í trúnni á hinn heilaga) eða aðra anda
Brjánn Guðjónsson, 3.1.2008 kl. 23:03
Hæhæ, vertu velkomin Rósa, ég á eftir að lesa þetta allt saman í rólegheitum, það er eitthvað að kerfinu ég get ekki bætt þér í vinhóp, reyni aftur á morgun. Knús
Linda, 3.1.2008 kl. 23:08
Sæll Brjánn. Fyrir mér er heilagur andi og andi hins illa eins og svart og hvítt. Ég sé mikinn mun þarna. Hið góða og hið illa. Guð almáttugur, Jesús og heilagur andi er heilög þrenning. Ég fór að hugsa um frásögn í Biblíunni í Matteus 17:14 - 16 og 18 vers. Þegar þeir komu til fólksins, gekk til hans maður, féll á kné fyrir honum og sagði: "Herra, miskunna þú syni mínum. hann er tunglsjúkur og illa haldinn. oft fellur hann á eld og oft í vatn. Og Jesús hastaði á hann og illi andinn fór út úr honum. Og sveinninn varð heill frá þeirri stundu. 'i Biblíunni eru margar frásagnir um illa anda. Friðrik Ó. Schram gaf út bókina "Tengsl tveggja heima" árið1991. Hann er prestur í Kristskirkju og kannski er bókin ennþá fáanleg. árið 1997 var ég í Skotlandi á Biblíuviku. þar var kona sem áður hafði verið á kaf í andatrú. Hún gaf út bók og er hægt að grennslast eftir frásögn hennar hjá Veginum. Fíladelfía forlag gaf út frábærar bækur sem heita Baráttan við heimsdrottna myrkursins og Út úr myrkrinu. Brjánn ég vona að þú getir fundið þessar heimildir.
Linda mín takk fyrir innlitið. Guð blessi ykkur bæði.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 3.1.2008 kl. 23:38
Amen, en kerfið er komið í lag!
Guðsteinn Haukur Barkarson, 3.1.2008 kl. 23:43
Frábært framtak
Árni þór, 3.1.2008 kl. 23:56
Flott hjá þér frænka - þú ert hetja!!! Guð blessi þig og umvefji!!
Ása (IP-tala skráð) 4.1.2008 kl. 08:51
Sæl öll Guðsteinn, Árni og Ása Gréta. Takk fyrir innlitið. Hér á þessu heimili eru til miklar heimildir um Guðs málefni og fl. Þori ekki að hleypa inn fólki sem væri með tiltektaræði og ekki ekki heldur fólki með söfnunaráráttu. Í fórum ömmu og afa, langömmu og langafa Ásu Grétu er margt fróðlegt. Ég fann þar t.d. jólakort sem langamma mín fékk frá bróður sínum og fjölskyldu sem voru búsett í Kanada stutt frá Vancouver. Langar í framtíðinni að koma einhverju af þessum fróðleik á blað fyrir okkur sem höfum áhuga á Guðsmálefnum. Eigið öll góðan dag í Jesú nafni.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 4.1.2008 kl. 11:58
Til hamingju með síðuna Rósa mín,ég mun athugast við þið betur þegar tími gefst kveðja Úlli.
Úlfar Þór Birgisson Aspar, 4.1.2008 kl. 12:30
Sæl Rósa mun fygljast spenntur með skrifum þínum.
kveðja Davíð sem bjó á Akureyri
Davíð (IP-tala skráð) 4.1.2008 kl. 17:53
Sæl Rósa mín og gleðilegt ár ,velkomin á þessar tvísýnu slóðir sem Bloggheimur er.Þakka þér innlitið,gott að þetta er allt að komast í gagnið hjá þér,kveðja.
Ari Guðmar Hallgrímsson, 4.1.2008 kl. 18:10
Ég ætlaði varla að þekkja þig,kann nú betur við með gamla laginu...
Ari Guðmar Hallgrímsson, 4.1.2008 kl. 18:12
Sæll Ari. Hugmyndin af þessari fyndnu mynd getur þú séð ef þú ferð inná þessa slóð: http://gylfablogg.blog.is/blog/gylfablogg/ Ég setti smá athugasemd inn á þetta blogg og hef fengið ýmsar hugmyndir. Þar stóð að ég væri góður sveitapenni Ýmisleg fyndið hefur verið skrifað þar. En sumir á mbl.blogginu eru með stillingu og þá þarf maður að fara í innskráningu og ég dreif ekki í því fyrr en núna og þess vegna hef ég ekki kvittað hjá þér fyrr.
Sæll Davíð. Ertu frá Kambi í Eyjafirði? Ég man allavega ekki eftir neinum öðrum sem var og er í klíku hjá mér með þessu nafni og er frá Akureyri. Eigið öll gott kvöld í Guðs friði.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 4.1.2008 kl. 18:45
Sæl Rósa. Fyrir mér eru þessar heimildir jafn áreiðanlegar og þær sem fjalla um annarskonar anda.
Brjánn Guðjónsson, 4.1.2008 kl. 22:09
Sæl Rósa og gleðilegt ár. Megi nú frægð og fé elta þig uppi á nýju ári. Myndin þarna minir nú einna helst á að þú sért í söfnuði Hilmars Arnar Hilmarssonar vinar míns.
Jón Steinar Ragnarsson, 5.1.2008 kl. 11:39
Sælir strákar og takk fyrir innlitið. Myndin er mögnuð og bara grín. Ég er búin að setja inn fáeinar myndir í myndaalbúm en þetta gengur rólega vegna kunnáttuleysis. Þar getið þið séð hvernig ég leit út en þegar ég ætlaði að setja inn mynd sem var tekin í haust þá klikkaði eitthvað, vantar kunnáttu en þetta kemur með kalda vatninu. Gleðilegt ár strákar mínir og vegni ykkur sem best.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 5.1.2008 kl. 13:03
Sendu mér bara línu Rósa mín, ef þú þarft einhverjar leiðbeiningar með bloggið. Annars finnst mér þú klára þig nokkuð vel.
Jón Steinar Ragnarsson, 5.1.2008 kl. 13:53
Conwoy er uppáhalds tröllið mitt. Frábær speki sem frá honum kemur.
Jón Steinar Ragnarsson, 5.1.2008 kl. 13:55
Sæll Jón Steinar. Ég hef oft í lífinu hugsað um hvernig stendur á því að ég á svo marga vini? Ég bara hef ekki skilið það en ég er svo þakklát fyrir alla góða vini og líka fyrir þig og blásurinn í kringum okkur tvö fær mig oft til að brosa. Verum í bandi.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 5.1.2008 kl. 14:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.