Jólafötin

cezanne 2

Við erum fjórar systur sem eigum heima í litlu sjávarþorpi úti á landi. Í heimabæ okkar er alltaf nóg atvinna fyrir alla sem geta unnið á annað borð.

Faðir okkar gengur með mjög erfiðan sjúkdóm. Eitt haustið versnaði honum skyndilega, svo flytja varð hann á sjúkrahús, og munaði litlu um líf hans. Því var pabbi frá vinnu fram til jóla. Allt frá því við fæddumst hafði það verið föst regla hjá pabba og mömmu að gefa okkur nýjan og fallegan kjól fyrir jólin. Eitt kvöldið kölluðu þau pabbi og mamma okkur inn í stofu. Hvað bjó nú undir þessu? Það var óvanalegt að kalla okkur svona formlega inn í stofu. Þetta vakti hjá okkur nokkra undrun og óróa blandinni forvitni.

People Painting 026

Við settumst öll, við systurnar hlið við hlið í stóra sófann, en pabbi og mamma í sitt hvorn stólinn. Fyrst var þögn, svo litu þau hvort á annað, síðan á okkur, aftur hvort á annað – ósköp var þetta allt vandræðalegt. Loks rauf pabbi þögnina og sagði hlýlega við okkur systurnar: „Við mamma þurfum að segja ykkur frá dálitlu.“ Síðan rakti pabbi fyrir okkur alla raunasöguna í sambandi við veikindin og vinnuna sem hann hafði misst. Því voru litlir peningar til á heimilinu. Aftur kom þögn dálitla stund. Þau litu hvort á annað. Nú varð það að koma, þetta sem var svo erfitt að segja. „Þess – þess vegna getum við ekki gefið ykkur kjóla fyrir jólin, eins og alltaf hefur verið vani.“ – Löng þögn.

Auðvita tókum við þessu vel, því margir úti í heimi eiga lítið sem ekkert að borða, hvað þá fín föt, og sumir deyja úr hungri.

Faðir okkar var alinn upp í fjölskyldu sem var lifandi trúuð. Okkur var því kennt strax á unga aldri að fara með bænirnar og biðja Jesú, og við vitum að Jesús heyrir bæn sem beðin er af einlægu hjarta.

durer praying hands

Okkur systrunum datt strax í hug að nú skyldum við biðja til hans, því auðvita langaði okkur í ný föt fyrir þessi jól. Við krupum síðan við rúmin okkar og báðum Jesú um að gefa okkur kjóla fyrir jólin.

Tíminn leið, jólin nálguðust. Það var mikið að gera í skólanum og fljótt gleymdist þetta með kjólana. En það var einn sem engu gleymdi.

kinkade   home for the holidays

Í  litlu sjávarþorpinu, sem kúrir utan í brattri fjallshlíð, var nú allt þakið jólasnjó og jólaljósin tendruð í öllum regnbogans litum. Fólkið var allt í góðu skapi og börnin farin að hlakka ákaflega til. Það var aðgangadagsmorgunn og mikil jólastemming í loftinu. Við systurnar vorum að hjálpa mömmu við jólaundirbúninginn og leggja síðustu hönd á verkið.

Allt í einu hringir síminn.

Þetta er á pósthúsinu, segir röddin í símanum. Þið eigið pakka hér, gjörið svo vel að sækja sendinguna strax, það er rétt verið að loka.

Við systurnar þutum af stað, það var smáspölur til pósthússins. Þegar okkur hafði verið afhentur pakkinn, þá hrópaði sú elsta, „nei, sjáið þið, pakkinn er frá útlöndum!“ Við hjálpuðumst að við að bera böggulinn heim.

giftpkgs

Nú var beðið með eftirvæntingu til kvöldsins. Hvað skyldi vera í pakkanum?

Jólahátíðin gekk í garð. Klukkan var orðin sex, við vorum allar komnar í gömlu kjólana okkar og bara ánægðar með það. Nú var borðaður yndislega góður matur og öll fjölskyldan hjálpaðist að við að þvo upp leirtauið á eftir.

xmastrees

Þarna stóð jólatréð svo fallegt og baðað ljósum. Kringum það voru jólapakkarnir, allir svo fallegir og skrautlegir og svo þessi stóri frá Ameríku. Við fengum leyfi hjá pabba og mömmu til að opna hann fyrst. Og hvað haldið þið? Upp úr pakkanum komu fjórir fallegir kjólar sem pössuðu okkur svo vel að þeir voru eins og sniðnir á okkur. Við áttum ekki eitt einasta orð, en urðum frá okkur numdar af hrifningu. Hvernig gat þetta hafa gerst?

img 03291

Í Ameríku býr frænka okkar, íslensk kona. Hún og pabbi ólust upp saman, og hún lærði einnig sem barn að trúa á Jesú og biðja til hans.

Frænka hafði hugsað sér að klæða sig upp fyrir jólin. Einn dag skömmu fyrir jól fór hún í innkaupaferð í stórmarkað til að versla ýmislegt, þar á meðal jólafötin. Í þessari verslun mátaði hún fallegan kjól. Hann passar vel þessi, hugsaði hún með sér, og liturinn, ekki spillir hann. – Þennan ætla ég að kaupa. Mitt í þessu var eins og eitthvað truflaði huga hennar, það var eins og hvíslað að henni – átt þú ekki nóg af fallegum kjólum? Litlu frænkurnar norður á Íslandi komu skyndilega upp í hugann.  Kannski eiga þær enga kjóla fyrir jólin, pabbi þeirra hefur verið veikur. Það væri nær að kaupa eitthvað handa þeim. Þessi hugsun varð svo sterk að hún yfirbugaði allt annað, og þar með var ákveðið að kaupa kjóla á frænkurnar litlu. En hvaða númer? – Ég hef ekki séð þær lengi og það er ekki meira en svo að ég muni hvað þær eru gamlar! Góði Guð, hjálpaðu mér að velja réttar stærðir, hugsaði hún.

Með Guðs hjálp keypti konan kjólana, pakkaði þeim strax og hún kom heim, og sendi til Íslands daginn eftir. Tíminn var orðinn naumur, aðeins örfáir dagar til jóla, en Guð sá um að pakkinn komst til skila í tæka tíð.

candle 20106 lg

Já, Guð kemur okkur svo oft á óvart. Við vorum allar búnar að gleyma því sem við höfðum beðið Jesú um að gefa okkur fyrir nokkrum vikum. Stundum biðjum við Guð og þegar bænasvarið kemur þá verðum við oft hissa. En svona er þetta einfalt. Guð elskar okkur og heyrir sérhverja bæn sem beðin er af einlægu hjarta. Við systurnar fengum okkar bæn uppfyllta á stórkostlegan hátt, en að Guð skyldi fara alla leið til Ameríku til að ná okkur í kjóla, því áttum við svo sannarlega ekki von á.

Þessi dásamlega leið er opin okkur öllum, og góður Guð vill að við förum hana.

Guð blessi öll börn bæði íslensk og erlend og gefi þeim gleðileg jól í Jesú nafni.

P.s. Við sem skráðum þessa sögu komum í heimili stúlknanna og heyrðum fjölskylduna segja frá henni svona. Hún er dagsönn og engu viðaukið sem ekki gerðist.

Þóra Björk og Lúðvík Einarsson.

Sagan birtist í Barnablaðinu 49 árgangur, 5.-6. tbl. 1986 sem Hvítasunnumenn gáfu út um árabil.

Færslur frá því fyrir ári síðan:

Aðventan: Hér

Ég veit að mamma grætur á jólunum: Hér

Spádómur um Jesú Krist sem Guð gaf Jesaja spámanni á síðari hluta 8. aldar f. Kr,: Hér

Guð blessi ykkur öll.

Kær kveðja/Rósa

  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Yndisleg, hjartnæm og falleg saga, elsku Rósa mín.  
Ég vona að jólahátíðin þín verði eins og þú óskar þér og Guð veri með þér, blessi þig og geymi.

Þín vinkona, Nína Margrét

Nína Margrét Perry (IP-tala skráð) 18.12.2009 kl. 09:03

2 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Falleg saga elsku Rósa guð veri með þér.

Kristín Katla Árnadóttir, 18.12.2009 kl. 19:05

3 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir


Christian Glitter by www.christianglitter.com

Sælar stelpur mínar.

Takk fyrir innlitið, góðar óskir og sérstaklega blessunaróskir.

Jesús svarar bæn.

Guð blessi ykkur og varðveiti.

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 18.12.2009 kl. 20:57

4 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Heil og sæl Rósa, þetta er falleg saga og ekki skemmir það að hún er sönn. Takk fyrir og gleðileg Jól ég bið að heilsa Alla vini mínum.

kær kveðja

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 18.12.2009 kl. 23:44

5 Smámynd: Ragnar Birkir Bjarkarson

rosalega er þetta falleg saga, Guð gefi öllum börnum gleðileg jól með uppfyllta drauma og Drottinn blessi þig vinkona og heimili þitt

Ragnar Birkir Bjarkarson, 19.12.2009 kl. 07:05

6 Smámynd: Sigríður  Ágústa Þórólfsdóttir

Takk fyrir söguna Rósa mín,hún hreyfir við mér,vegna þess að ég á minningar um nákvæmlega svona bænheyrslu á jólum,mig langar að deila mér þér atviki sem gerðist fyrir mörgum árum,maðurinn minn var búin að vera veikur og ekki útlit fyrir að við gætum gefið börnunum okkar jólagjafir,en þau voru þrjú á þessum tíma,við vorum svo heppin að við gátum látið skrifa hjá okkur hjá kaupmanninum,svo við áttum mat.Svo var það á þorláksmessu,að ég fór  til tengdaforeldra minna,sem bjuggu á neðri hæðinni,tengdapabbi var nýbúinn að ná í vinningslista fyrir happadrætti háskólans,sem við höfðum verið áskrifendur að út árið og viti menn,við höfðum unnið heilar fimmtánþúsund krónur,það var eiginlega ekki hægt að lýsa gleðinni sem við upplifðum,við gátum farið með börnin okkar niður í bæ,keypt handa þeim jólagjafir og upplifað hamingjuna,sem fylgir því að gleðja einhvern.vonleysið horfið og hlý jólagleði flæddi inn í hjörtu okkar,ég mátti til að deila þessari sögu með þér elsku Rósa mín og segja þér jafnframt að ég er enn og aftur að upplifa blessun Guðs í gjöfum hans til mín,frá ólíklegustu einstaklingum,í þeim erfiðleikum sem við höfum gengið í gegn um undanfarið,svo ég segi bara Guð er góður,gleðileg jól vinkona og hafðu það sem allrabest um hátíðarnar.

Sigríður Ágústa Þórólfsdóttir, 20.12.2009 kl. 03:07

7 Smámynd: Jens Sigurjónsson

Falleg færsla hjá þér Rósa mín.

Guð blessi þig.

Kv/ Jenni

Jens Sigurjónsson, 20.12.2009 kl. 07:23

8 Smámynd: Flower

Einlæg bæn beðin í auðmýkt nær til Guðs, þó að hann svari kannski ekki alltaf.

Flower, 20.12.2009 kl. 12:37

9 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæl og blessuð

Simmi minn, ég vona að þú hafir lesið söguna sem ég skrifaði á undan þessari. Sú saga er eftir Iðunni Steinsdóttir. Fjör fyrir jólin á heimilinu sem sagan fjallar um. Ég þekki Þóru Björk og Lúðvík og ég treysti þeim.

Ragnar minn, já við verðum að treysta Drottni fyrir börnum þessa lands. Ég vona að þau eigi gleðileg Jól þrátt fyrir erfiðleikana sem við erum að glíma við núna.

Sigga mín, dásamleg lesning. Takk innilega fyrir að deila þessu með okkur.

Jenni minn, já þessi saga er falleg. Tók hana uppúr Barnablaðinu.

Flower mín, Guð heyrir bænir og svarar þeim en stundum öðruvísi en við héldum.

Jeremía 33:3. "Kalla þú á mig og mun ég svara þér og kunngjöra þér mikla hluti og óskiljanlega, er þú hefir eigi þekkt."

Megi almáttugur Guð vera með ykkur.

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 21.12.2009 kl. 00:02

11 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Mikið var þetta falleg frásögn Rósa mín.  Og svona gerist miklu oftar en fólk gerir sér grein fyrir.  Takk innilega fyrir að gleðja okkur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 21.12.2009 kl. 11:53

12 Smámynd: Ragnheiður

Alveg var ég viss um að égh efði skrifað hérna við hjá þér en það er greinilegt að svo er ekki. Hjartans þakkir fyrir þessa fallegu sögu Rósa mín

Ragnheiður , 21.12.2009 kl. 20:20

13 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Já elsku ljúfa fallega vina mín,ég vil óska þér innnilega gleðilegra jólahátíðar og þakka fyrir allt það liðna á þessu ljúfa ári,megi nýja árið veita ykkur mikla ást,hamingju og gleði......knús knús í fagurt jólahús frá mér og mínum.....GLEÐILEG JÓL :)

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 22.12.2009 kl. 16:23

14 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sælar stelpur mínar.

Ásthildur mín, falleg saga og alveg tilvalið að koma með eitthvað fallegt fyrir jólin. ekki veitir nú af miðað við allt og allt.

Ragnheiður mín, þú kvittaðir við síðustu grein og það var nýlega.

Linda mín, ég vona að nýja árið verði líka frábært hjá ykkur og færi ykkur mikla hamingju.

Þakka ykkur fyrir innlitið og takk fyrir trausta vináttu.

Guð gefi ykkur Gleðileg Jól og farsælt komandi ár.

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 22.12.2009 kl. 21:41

16 Smámynd: Sigríður Ásdís Karlsdóttir

Gedileg jol elsku Rosa min..  Kv fra Noreg..

Sigríður Ásdís Karlsdóttir, 23.12.2009 kl. 23:56

17 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæl og blessuð. 

Guð gefi þér gleðileg jól Sirrý mín.

Kær kveðja/Rósa



 

Rósa Aðalsteinsdóttir, 24.12.2009 kl. 01:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband